Mál 17 2015

Ár 2015, föstudaginn 11. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 17/2015:

M

gegn

S

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 14. október 2015 erindi kæranda, M, þar sem kvartað var yfir framlagningu kærða, S hdl. á tölvupósti í dómi, en kærandi telur tölvupóstinn hafa að geyma sáttatillögu sína í málinu, sem ekki hafi verið ætluð til framlagningar.

Með bréfi, dags. 16. október 2015, var óskað eftir greinargerð kærða um málið. Barst greinargerðin þann 22. október. Var kæranda kynnt greinargerðin með bréfi 5. nóvember og gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum, ef einhverjar væru, fyrir 23. nóvember s.á. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og málsástæður

I

Þann 26. ágúst 2015 sendi kærði tölvupóst til lögmanns kæranda, G hrl. og greindi honum frá því að til sín hefði leitað M vegna héraðsdómsmáls sem höfðað hefði verið gegn honum. Það athugast að stefna sem fylgdi þessum pósti hefur ekki verið lögð fram í máli þessu, en af gögnum þess verður ráðið að kærandi og eiginmaður hennar hafi verið stefnendur í málinu, eða a.m.k. á meðal stefnenda.

G svaraði skeytinu fyrir hönd umbjóðenda sinna, þ.á.m. kæranda í máli þessu. Kemur fram í skeytinu að þeir kærði hafi ekki náð saman í síma fyrr um daginn. Skrifar G svo „En í stuttu máli kemur ekki til greina að semja í málinu, nema umb. þinn greiði inn á kröfuna. Gjaldfallin krafa nú nemur kr. 8.000.000.- án vaxta. Umbj. mínir eru ekki tilbúnir til að fresta aðgerðum og semja í málinu nema umbj. þinn greiði kr. 4.000.000.- inn á kröfuna. Ef það verður gert eru umbj. mínir tilbúnir til að vinna að farsælli lausn í málinu, sbr. það sem við ræddum um í síma í gær. Að öðrum kosti hefur mér verið falið að halda áfram með málið í hefðbundnu ferli."

Þessi tölvupóstsamskipti lögmannanna héldu áfram næstu daga og átti tónninn í þeim eftir að harðna mjög. Fléttuðust inn í þau gagnkvæmar áskoranir um að gæta að siðareglum lögmanna og bollaleggingar um að kröfur málsins tengdust sýndarviðskiptum og blekkingum auk þess sem fram komu aðvaranir um lögreglukærur á hendur umbjóðendum o.fl. Þessi síðari samskipti lögmannanna hafa hins vegar ekki þýðingu fyrir sakarefni þessa máls. Tölvupóstsamskipti þessi voru í heild sinni lögð fram af kærða við fyrirtöku málsins í héraðsdómi þann 29. september 2015.

II

Kærandi krefst þess að kæranda verði veitt áminning fyrir brot á siðareglum Lögmannafélags Íslands. Vísar kærandi til 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna og áréttar að umrætt skjal hafi að geyma sáttatillögu sína í málinu, en kærði hafi ekki fengið samþykki sitt fyrir framlagningu umræddrar sáttatillögu.    

III.

Í greinargerð sinni hafnar kærði fullyrðingum kæranda og er litið svo á að hann krefjist þess að kröfu kæranda verði hafnað.

Kærði telur ekki að um sáttatilboð hafi verið að ræða. Megi augljóslega sjá að um sé að ræða kröfu um innborgun á dómkröfu stefnanda gegn því að ganga til einhverra óskilgreindra viðræðna um úrlausn málsins og að stefnandi sé þá tilbúinn til að „vinna að farsælli lausn í málinu". Augljóst megi því vera að ekki sé um sáttatilboð að ræða, sem sé til þess fallið að að endanleg niðurstaða gæti þá fengist í málið á grundvelli þess. Sé umrædd krafa ekki til þess fallin að dómari málsins geti lesið eitthvað úr því annað en að stefnandi áskilji sér  rétt til fullrar greiðslu og um enga eftirgjöf af kröfunni sé að ræða. Veiti skjalið dómara málsins ekki neina innsýn í hug stefnanda um hugsanleg málalok.

Niðurstaða

I

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna er lögmanni óheimilt að leggja fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans.

Það er kjarni þess máls sem hér er til úrlausnar hvort þau skilaboð lögmanns sóknaraðila sem að ofan eru rakin hafi falið í sér sáttatillögu í skilningi þessa ákvæðis. Ákvæðinu er ætlað að vernda þá hagsmuni sem í því felast að lögmenn geti skipst á tillögum að lausnum mála, án þess að hætta á að við síðari úrlausn máls fyrir dómi, verði litið til þeirra sem leiðbeinandi um úrlausn máls eða jafnvel sem ádrátt um eftirgjöf krafna.

Þegar skilaboð kærða til lögmanns kæranda eru virt í þessu ljósi verður ekki fallist á að í þeim felist sáttatilboð í skilningi ákvæðisins, enda útilokað að lesa út úr þeim að kærandi sé tilbúinn til að gefa eftir af dómkröfum sínum. Fela skilaboðin í raun ekki annað í sér en svar kærða við tilraunum lögmanns kæranda til viðræðna við hann, þess efnis að hann sé ekki tilbúinn til nokkurra viðræðna við gagnaðilann nema að greiddri hálfri stefnufjárhæðinni. Verður samkvæmt þessu að hafna kröfu kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, S hdl., braut ekki gegn siðareglum lögmanna með því að leggja fram í dómi tölvuskeyti frá lögmanni kæranda, M.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson