Mál 21 2015

Ár 2016, fimmtudaginn 30. júní var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands. 

Fyrir var tekið málið nr. 21/2015:

L f.h. S ehf.

gegn

A hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

                                                                       ÚRSKURÐUR:

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. nóvember 2015 erindi L (hér eftirsóknaraðili), vegna A hrl. (hér eftir varnaraðili), þar sem kvartað er yfir áskilinni þóknun varnaraðila. Beinist kvörtunin að því að varnaraðili, sem tók að sér flutning máls sóknaraðila fyrir Hæstarétti en kom ekki að rekstri þess fyrir héraði, hafi tekið sér allan málskostnað samkvæmt dómi Hæstaréttar þrátt fyrir að orðalag réttarins um tildæmdan málskostnað hafi skýrlega tekið til kostnaðar varnaraðilavegna reksturs málsins fyrir báðum dómsstigum.

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila með bréfi úrskurðarnefndar dags. 4. desember 2015 og frestur veittur til 21. sama mánaðar. Greinargerð varnaraðila barst 18. desember en mislagðist. Komu þau mistök ekki í ljós fyrr en varnaraðila hafði verið sent ítrekunarbréf dags. 17. mars 2016. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila með bréfi dags. 30. mars 2016 og bárust athugasemdir hans með bréfi dags. 14. apríl 2016. Varnaraðila var veitt færi á taka afstöðu til síðastgreindra athugasemda sóknaraðila með bréfi dags. 27. apríl 2016 og veittur frestur í því sambandi til 13. maí 2016. Lokaathugasemdir varnaraðila bárust síðan 12. maí 2015.

 

Nefndin ákvað að óska upplýsinga um þá reikninga sem gefnir höfðu verið út og um er deilt í málinu o.fl. frá varnaraðila með bréfi dags. 20. maí 2016. Umbeðin gögn og skýringar bárust 25. maí 2016.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Upphaf þessa máls má rekja til þess að S ehf. , byggingarfyrirtækisóknaraðila, var stefnt af T fyrir Héraðsdóm Norðurlands Eystra, til greiðslu útlagðs kostnaðar við frágang á sameiginlegri lóð tiltekinna fasteigna á Akureyri. Aðalatriði málsins í því samhengi er hér skiptir máli voru þau að lögmaður T, fyrir hönd eigenda þeirra fjöleignarhúsa sem tilheyra ofangreindum lóðum, hafði boðað S til fundar um kostnað vegna framkvæmdanna. Á þann fund var þó ekki mætt af hálfu S sem eiganda.Var fallist á dómkröfur T í héraði í nóvember 2014 og S dæmt til greiðslu málskostnaðar að upphæð kr. 500.000.

 

Málinu var þá áfrýjað til Hæstaréttar, en það var ekki varnaraðili sem annaðist áfrýjun og heldur annar hæstaréttarlögmaður. Af framlögðum gögnum verður ráðið að sóknaraðili hafi leitað til varnaraðila vegna flutnings framangreinds dómsmáls fyrir Hæstarétti í júní 2015 og var þá búið að gefa út áfrýjunarstefnu.

Óumdeilt er að samskipti aðila hafi fyrst og fremst farið fram með tölvuskeytum, þá einnig samskipti í sambandi við fjárhæð endurgjalds varnaraðila. Þannig skrifaði sóknaraðili í tölvuskeyti til varnaraðila 21. ágúst 2016 eftir að varnaraðili hafði nefnt að hún yrði helst að fá einhverja tryggingu fyrir greiðslu. „Já með greiðsluna hvað mun þetta kosta flutningurinn?, hvað ég þarf að ábyrgjast og vona að ef ég tapa málinu að þú verðir sanngjörn við mig en ef það vinst rukkir þá það sem þú getur."

 

Í tölvuskeyti varnaraðila til sóknaraðila dags. 30. september 2015 segir orðrétt:

Ég er búin að eyða miklum tíma í þetta. Þú talaðir um að það væru ekki miklir peningar til og ég er tilbúin til að taka aðeins til mín dæmdan málskostnað skyldi málið vinnast, sem það vonandi gerir, en ég verð að fá smáræði inn á reikninginn minn þar sem ég get ekki gert þetta alveg pro bono skildi þetta ekki fara vel. Ef þú leggur 200.000. kr. inn á reikninginn minn, nr. [...] skal ég láta það gott heita (vinnist málið ekki). Tímagjaldið mitt er 22.900. kr. + vsk, svo með þeim hætti værir þú að greiða fyrir rétt 7 klst."

Í svarpósti sóknaraðila við ofangreindu skeyti varnaraðila er eftirfarandi tekið orðrétt fram „En A mín takk fyrir þetta seinasta bréf og ég lagði 100 þús inn á þig og læt meira fyrir helgi morgun eða hinn".    

 

Dómur Hæstaréttar féll í október 2015. Það sem úrslitum réði í niðurstöðu Hæstaréttarvar að rétturinn taldi ljóst að allir hlutaðeigandi eigendur tilgreindra lóða hefðu ekki verið boðaðir til þess fundar sem tók ákvörðun um framkvæmdirnar og kostnaðarskiptingu, svo sem áskilið er í 4. mgr. 39. gr. laga um fjöleignarhús. Var niðurstöðu héraðsdóms því snúið í Hæstarétti og S sýknaður af kröfum T. Var T jafnframt dæmdur til þess að greiða S málskostnað,„samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti". Í héraði hafði S verið dæmdur til greiðslu málskostnaðar að upphæð kr. 500.000.

Ágreiningur aðila virðist ekki hafa risið um tildæmdan málskostnað fyrr en eftir aðvarnaraðili hafði innheimt tildæmdan málskostnað hjá gagnaðila og sóknaraðili fór að óska eftir þeim hluta málskostnaðar sem tilheyrði málflutningi hans í héraðsdómi, í kjölfar þess að  lögmaður hans á lægra dómsstigi gerði reka að því að öðlast hlutdeild í tildæmdri upphæð.

 

Endurgreiddi varnaraðilisóknaraðila kr. 150.000.- sem virðist vera sú upphæð sem sóknaraðili greiddi varnaraðila áður en málflutningur í Hæstarétti fór fram. Vegna ágreinings sem upp um þóknun varnaraðila kveðst hún hins vegar hafa talið heppilegra að gefa út reikning þegar niðurstaða lægi fyrir.

 

II.

Sóknaraðili vísar til þess að þegar hann hafi náð sambandi við varnaraðila vegna flutnings tilgreinds máls fyrir Hæstarétti hafi varnaraðili tekið fram að hann gæti engu breytt þar sem málið væri allt komið til réttarins. Hafi sóknaraðili síðan ekki getað skilið orð og yfirlýsingar þær sem frá varnaraðila komu og grein er gerð fyrir hér að framan varðandi þóknun, öðruvísi en svo að hann ætti aðeins við um málskostnað þann sem tilheyrði vinnu fyrir Hæstarétti, enda búið að ganga frá málinu og það þannig tilbúið fyrir málflutning þegar varnaraðili féllst á að taka hann að sér. Kveðst sóknaraðili hafa notið við það aðstoðar annarra tilgreindra lögmanna svo og starfsfólks Hæstaréttar.

 

Eftir uppkvaðningu Hæstaréttardómsins og svo tilkynningar um að það hafi unnist vísar sóknaraðili til þess að hann hafi þá að vonum verið ánægður en rekið í rogastans þegar hann hafi áttað sig á því að varnaraðili hafi þegið og tekið til sín allan tildæmdan málskostnað, það er vegna beggja dómsstiga samkvæmt dómsorði Hæstaréttar. Bendir sóknaraðili á fyrrgreint orðalag varnaraðila sjálfs í þessu samhengi eins og sá síðarnefndi mótaði það í nefndu tölvuskeyti, sbr. tilgreint orðasamhengi „aðeins dæmdan málskostnað". Sóknaraðili telur nánar greint að varnaraðili hafi fyrir það fyrsta ekki upplýst hann um að hann ætlaði sér að þiggja allan dæmdan málskostnað ynnist málið í Hæstarétti. Vísar sóknaraðili einnig til neytendaverndarsjónarmiða í því samhengi og í 36. gr. b. samningalaga nr. 7/1936 um skýrleika samningsákvæða sem túlka skuli neytanda í hag komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. laganna.

 

Sóknaraðili krefst þess í greinargerð sinni úrskurðarnefnd úrskurði um að hæfilega þóknun til varnaraðila sé kr. 200.000. m. vsk. Einnig krefst sóknaraðili þess að varnaraðili endurgreiði honum kr. 600.000.- í samræmi við það.

 

Í greinargerð sóknaraðila er þess jafnframt krafist að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað vegna reksturs málsins fyrir úrskurðarnefnd. Með síðariathugasemdum sóknaraðila, fylgdi þó krafa um að hvorki honum né varnaraðila verði gert að greiða málskostnað þar sem um neytendamálefni sé að ræða.

 

Til vara byggir sóknaraðili á því að við ákvörðun  um skiptingu kostnaðar megi horfa til héraðsdóms og ákvörðunar þar um málskostnað sem var kr. 500.000.- en samkvæmt því beri varnaraðila kr. 300.000. - fyrir vinnuframlagið.

 

III.

Varnaraðili gerir þær kröfur að ekki verði fallist á kröfur sóknaraðila og jafnframt úrskurðað að hann skuli greiða varnaraðila málskostnað vegna reksturs málsins fyrir úrskurðarnefnd. Felst í þessum kröfum að varnaraðili áskilur sér rétt til að taka sér kr. 800.000 kr. í þóknun vegna málsins að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Varnaraðili segir sóknaraðila hafa óskað eftir því að hann tæki að sér flutning umrædds máls fyrir Hæstarétti í júní 2015. Hafi varnaraðili tekið það að sér og fengið gögn málsins send sem og ágrip. Hafi varnaraðili lagt mikla vinnu í málið; meðal annars farið í gegnum dómasöfn og álit kærunefndar húsamála og reynt að finna líklegum málsástæðum stað innan greinargerðar kæranda. Varnaraðili áréttar að það sé rétt að sóknaraðili hafi sjálfur verið búinn að skila greinargerð til Hæstaréttar, en tekur fram að ekki hafi verið unnt að notast við hana þar sem þar hafi ekki verið teflt fram sigurstranglegum málsástæðum.

 

Varnaraðili segir í greinargerð sinni frá 18. desember 2015 að sóknaraðili hafi lýst því yfir frá upphafi tilgreindra samskipta að hann væri afar félítill og á þeim grunni hafi varnaraðili boðið honum að greiða aðeins kr. 200.000.- myndi málið tapast en ef málið ynnist fengi varnaraðili allan dæmdan málskostnað. Hafi sóknaraðili verið afar sáttur við þetta boð. Í samskiptum aðila hafi ítrekað komið fram að varnaraðili hefði eytt mikilli vinnu í málið.Eftir að lögmaður sóknaraðila í héraði hafi gert kröfu á hendur varnaraðila um hlutdeild í dæmdum málskostnaði hafi sóknaraðili fyrst farið að halda því fram að kærða hafi ekki átt að fá dæmdan málskostnað.

 

Varnaðaraðili vísar til þess að samkomulag hafi komist á með honum og sóknaraðila þess efnis að ef málið tapaðist myndi sá síðarnefndi einungis greiða kr. 200.000.- en ynnist málið skyldi varnaraðili aðeins taka til sín dæmdan málskostnað. Varnaraðili heldur því fram að með þessu hafi að sjálfsögðu verið átt við allan dæmdan málskostnað en málskostnaður sé jafnan dæmdur í einu lagi ef héraðsdómi sé snúið við í Hæstarétti. Tekur varnaraðili m.a. fram að það teljist alkunna að þegar samið sé með tilgreindum hætti, þ.e. árangurstengt, þá njóti viðkomandi lögmaður góðs af því að mál vinnist en aftur á móti ekki tapist mál. Þegar af þeirri ástæðu skipti tímaskýrsla vegna vinnuframlagsins ekki máli en engu að síður beri að benda á að sá tími sem varnaraðili eyddi í málið sé mun meiri en andvirði hinna tildæmdu 800.000. kr. sem samsvari um 28 klukkustundum, miðað við viðtekið tímagjald varnaraðila.

 

Varnaraðili byggir á því að hvort sem litið sé til samkomulags eða fjölda vinnustunda hans í þágu sóknaraðila verði aldrei hægt að álíta kr. 200.000. að meðtöldum vsk. hæfilega þar að lútandi þóknun og hæfileg þóknun séu hinar tildæmdu 800.000. kr. Þá mótmælir varnaraðili eindregið útreikningi og forsendum sóknaraðila fyrir því að þóknun fyrri lögmanns skuli vera kr. 500.000.- en varnaraðila kr. 300.000.-  Telur varnaraðili að fróðlegt yrði að sjá reikning fyrrum lögmanns sóknaraðila vegna vinnu hans í héraði í þessu sambandi. Þá mótmælir varnaraðili því sérstaklega að málskostnaðarákvörðun Hæstaréttar geti talist réttur mælikvarði á raunverulega vinnu lögmanns enda alkunna að dómarar dæmi aðilum í málskostnað lægri fjárhæðir en tilgreindar eru og reiknaðar samkvæmt tímaskýrslum.

 

Niðurstaða

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

 

Af fyrirliggjandi málsgögnum virðist ótvírætt að skilyrt samkomulag var gert milli sóknaraðila og varnaraðila um þóknun þess síðarnefnda. Það skilyrði eða sá fyrirvari laut að þeirri aðstöðu ef svo færi að niðurstaða dóms Hæstaréttar yrði sóknaraðila í hag og þá um leið upphæð tildæmdrar þóknunar í því sambandi. Eins og tilgreint er í framlögðu tölvuskeyti varnaraðila sem fyrst og fremst markar grundvöll þessa samkomulags er vísað til þóknunar að upphæð kr. 200.000. - tapist málið en „aðeins dæmds málskostnaðar" vinnist það. Það veltur á skýringu á þessum samningi hvaða endurgjaldi sóknaraðili á tilkall til.

 

Í því samhengi þykir rétt að líta til fyrrgreinds ákvæðis 24. gr. laga um lögmenn og þess að samningur aðila fól í sér hærra endurgjald ef málið ynnist, en varnaraðili veitti sóknaraðila á hinn bóginn tryggingu fyrir því að sleppa með lágmarkskostnað af sínum málflutningi ef það tapaðist. Sú túlkun sóknaraðila á samningnum að hann geti tekið meginþorrann af dæmdum málskostnaði til að gera upp við lögmann sinn í héraði, en ætlað varnaraðila að halda þá aðeins eftir þeirri lágmarksfjárhæð sem átti að vera tryggur, er algjörlega á skjön við þetta eðli samningsins. Þegar tekið er tillit til þess að rúmlega 150.000 kr. af tildæmdum málskostnaði úr hendi gagnaðila rennur til uppgjörs virðisaukaskatts, telur nefndin að eftirstöðvarnar, tæplega 650.000 kr. feli í sér endurgjald sem í sjálfu sérmættitelja sanngjarnt með tilliti til umfangs starfans og þeirrar áhættu sem varnaraðili tók í samningi sínum við sóknaraðila.

 

Á hinn bóginn telur nefndin að varnaraðili hljóti að bera nokkurn halla af því óljósa orðalagi sem hún sjálf notaði í tilboði því sem lagt verður til grundvallar við uppgjör aðila. Það athugast þó að jafnvel þótt fallist yrði á skilning sóknaraðila og byggt fullum fetum á því að varnaraðila bæri aðeins tildæmd málflutningslaun fyrir Hæstarétti, myndi það út af fyrir sig ekki svara því hvaða fjárhæð það er. Ekki er unnt að fallast á að skipta megi dæmdum málskostnaði á milli dómstiga með þeirri aðferð sem sóknaraðili leggur til, enda liggur ekkert fyrir um afstöðu Hæstaréttar að þessu leyti.

 

Er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili geti ekki áskilið sér, á grundvelli þessa óljósa samnings, þann hluta málskostnaðar sem telja má að sóknaraðila hafi verið dæmdur til að mæta útlögðum kostnaði sínum, en reikna má með að kostnaður við dómsmálagjöld, ágripsgerð o.fl. nemi um 150 þúsund krónum. Það verði hins vegar að túlka samninginn þannig að henni beri þau málflutningslaun sem felast í niðurstöðu Hæstaréttar. Samkvæmt þessu telst hæfileg þóknun varnaraðila talin réttilega metin að fjárhæð kr. 650.000 og er þá virðisaukaskattur meðtalinn. Í þessu felst að fallast ber á endurgreiðslukröfu sóknaraðila að fjárhæð kr. 150.000.

 

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hæfilegt endurgjald varnaraðila, A, hrl. vegna starfa hennar að flutningi hæstaréttarmáls  nr. 111/2015 í þágu sóknaraðila, S ehf., er kr. 650.000 að virðisaukaskatti meðtöldum. Varnaraðili endurgreiði sóknaraðila kr. 150.000 af áskilinni þóknun.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Kristinn Bjarnason hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson