Mál 6 2015
Ár 2015, föstudaginn. 9. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 6/2015:
I
gegn
S hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi kæranda, I hdl., til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 5. febrúar 2015, var kvartað yfir framgöngu S hrl., kærða, en hann tók að sér hagsmunagæslu fyrir hönd tjónþola í slysabótamáli, en kærandi hafði áður komið fram fyrir hönd viðkomandi. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2015, var óskað eftir greinargerð kærða um málið. Var það erindi ítrekað með ábyrgðarbréfi 20. mars 2015. Kærði sendi nefndinni gögn bótamálsins með bréfi sem barst nefndinni 1. apríl 2015 ásamt upplýsingum um að kærða hafi verið falið málið af umbjóðandanum o.fl.
Voru þessi gögn kynnt kærða með bréfi nefndarinnar 9. apríl 2015. Þann 25. ágúst 2015 barst greinargerð vegna málsins frá kærða. Var hún jafnframt send til kæranda.
Málsatvik og málsástæður
I
Málsatvik eru þau að kærandi fór með slysabótamál fyrir mann sem hafði slasast í umferðarslysi í júlí 2013. Tók hann við málinu 4. september 2013. Kveðst hann m.a. hafa sent beiðni til bæklunarlæknis um lokavottorð að lokinni gagnaöflun. Þá hafi umbjóðandinn fengið tölvupóst um gang mála í lok nóvember 2013.
Snemma árs 2014 leitaði umbjóðandinn til kærða. Eftir því sem fram kemur í atvikalýsingu kærða tjáði umbjóðandinn honum þá að sér hefði gengið erfiðlega að ná í kæranda og að kærandi væri þá enn ekki farinn að senda sig til lækna til að athuga áverkana og vilji helst engu svara um framhald málsins. Segir kærði umbjóðandann hafa tjáð sér að kærandi hafi ekki gefið ákveðin svör við spurningum um af hverju hann væri ekki sendur til lækna til mats. Þá kveður kærði að umbjóðandinn hafi sagt sér að hann væri búinn að tilkynna kæranda um að hann væri ósáttur við vinnubrögðin og hygðist fá sér annan lögmann.
Kærði sendi því vátryggingafélagi sem í hlut átti bréf, dags. 15. febrúar 2014, þar sem hann óskaði eftir að fá send öll gögn málsins um leið og hann sendi félaginu umboð sitt. Kemur fram í bréfi þessu að afrit þess séu send umbjóðandanum og kæranda, en af málsatvikalýsingu kæranda má ráða að honum hafi ekki borist þetta afrit.
Kærandi hafði aflað gagna frá slysadeild og frá heilsugæslu og reyndi að boða umbjóðandann í lokaskoðun hjá bæklunarlækni. Þann 14. júlí 2014 sendi umbjóðandinn honum orðsendingu þess efnis að hann hefði fært mál sitt yfir á lögmannsstofu kærða í mars sama ár. Svaraði kærandi þessu á þá leið að hann gæti ekki annað en gert honum reikning vegna þeirrar vinnu sem þegar hefði verið unnin í málinu. Hefur kærði lagt þennan reikning kæranda fram. Er hann dagsettur 1. september 2014 og eru þar gjaldfærðar 17,25 vinnustundir. Er fjárhæð reikningsins kr. 409.161 að virðisaukaskatti meðtöldum.
Sama dag, þann 14. júlí 2014 sendi kærandi tölvupóst til kærða, sem lagður hefur verið fram. Þar greinir kærandi kærða frá þessum samskiptum um leið og hann kveðst hafa tilkynnt umbjóðandanum að hann fengi gögn málsins send í ábyrgðarpósti ásamt reikningi. Þá kveðst kærandi ekki hafa fengið neina tilkynningu vegna þessa fyrr, hvorki frá lögmannsstofu kærða né umbjóðandanum. Vísar kærandi til 28. og 31. gr. siðareglna lögmanna og óskar þess að fá fram afstöðu kærða. Þetta erindi ítrekaði kærandi í ábyrgðarbréfi til kærða 29. ágúst 2014. Loks hefur verið lagt fram bréf kæranda til kærða, dags. 20. nóvember 2014 þar sem fram kemur að málið varði „innheimtu á meðfylgjandi reikningi" og er vísað til fyrri tölvupósta og ábyrgðarbréfa. Þá segir „Vinsamlegast hlutist til um að reikningur þessi sé greiddur eigi síðar en 31. desember 2014 svo ljúka megi málinu án frekari eftirmála."
Fyrir liggur í málinu uppgjör, dagsett 23. desember 2014, áritað um samþykki með ákveðnum fyrirvara um mat á tilgreindum meintum afleiðingum slyssins. Er þar miðað við að greiddar séu 3.398.906 í bætur vegna slyssins að lögmannskostnaði meðtöldum.
II.
Kærandi krefst þess að kærði verði áminntur og að honum verði gert að greiða kæranda málskostnað fyrir nefndinni.
Kærandi vísar til 25. gr. siðareglna lögmanna um skyldu lögmanna til að hafa góða samvinnu og sýna hver öðrum fulla virðingu, til 28. gr. um skyldu lögmanns til að fullvissa sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmanns sé lokið eða verði lokið án tafar ef honum er falið verkefni sem annar lögmaður hefur áður sinnt og til 31. gr. um skyldu til að aðvara annan lögmann sem hann hyggst kæra fyrir yfirvöldum eða dómstólum.
Kveðst kærandi telja að kærði hafi sýnt sér lítilsvirðingu með því að svara ekki erindum sínum vegna málsins og varði það við 25. gr. siðareglnanna. Þá hafi kærði þverbrotið 28. gr. reglnanna. Hafi kærandi ekki komist að því fyrr en eftir fjóra mánuði að kærði væri kominn með bótamálið og þá ekki fyrir tilstilli kærða sjálfs. Telur kærandi sig hafa sýnt kærða fyllstu kurteisi og freistað þess að fá fram sjónarmið hans vegna málsins.
Kærandi áréttar að alls óvíst sé að hann fái reikning sinn nokkurn tímann greiddan, enda hafi það verið kærði sem fékk greiðslu vátryggingafélagsins greidda til sín og þar með trygga greiðslu fyrir sínum verkkostnaði.
III.
Kærði leggur áherslu á að vinna sín að umræddu bótamáli hafi verið unnin samkvæmt umboði frá viðkomandi tjónþola. Umbjóðandinn hafi verið ósáttur við seinagang málsins hjá kæranda og fundist á kæranda að málið væri hálf vonlaust. Umbjóðandinn hafi sagt sér að hann hefði tilkynnt kæranda að hann væri ekki ánægður með hans vinnu og hygðist leita til annars lögmanns. Málið hafi síðan verið klárað hjá kærða, sem hafi aflað allra þeirra gagna sem stuðst var við í sérfræðimatsgerð.
Það hafi verið 14. febrúar 2015 sem umbjóðandinn leitaði til hans. Hann hafi þegar daginn eftir ritað viðkomandi tryggingafélagi bréf og óskað eftir öllum gögnum málsins og hafi kæranda verið sent afrit þess bréfs. Hann hafi unnið málið á þeirri forsendu að kæranda væri fullkunnugt um lögmannsskiptin, bæði vegna orða umbjóðandans og vegna afritsins af bréfinu sem kærði sjálfur sendi honum. Þá hafi tilkynningin til tryggingafélagsins tryggt í sjálfri sér að kærandi væri ekki að vinna í málinu, því vinna lögmanna að bótamálum fari þannig fram að þeir séu í samskiptum við tryggingafélög og sendi þeim gögn ef þeir eru á annað borð að vinna eitthvað í málunum. Bendir kærði á að hann hafi lagt í umfangsmikla gagnaöflun eftir að hann tók við málinu og verið í miklum samskiptum við tryggingafélagið. Skorar kærði á úrskurðarnefndina að afla upplýsinga um það frá kæranda hvað hann hafi unnið í málinu eftir að kærði tók við því. Umbjóðandinn hafi ekki orðið var við að kærandi væri neitt að vinna í málinu eftir að kærði tók við því. Telur kærði alveg ósannað að kærandi hafi neitt verið farinn að vinna í málinu eða að boða umbjóðandann til lækna fyrr en í júlí 2014 og með öllu ósannað að kærandi hafi lagt mikla vinnu í verkið.
Kærði kveðst telja að kærandi hefði átt að senda umbjóðandann strax til bæklunarlæknis til skoðunar, en slík skoðun í upphafi sé grundvallaratriði í málum af þessu tagi. Hefði tjónþolinn þurft að fara fyrr til bæklunarlæknis en raunin varð.
Varðandi þau þrjú bréf sem kærandi segist hafa sent honum segir kærði „ég kannast ekki við að hafa fengið þau þann tíma sem bréfin eru dagsett, nema bréfið sem sent var í ábyrgð þann 29. ágúst 2014, sem ég hlýt að hafa fengið hafi það verið sent í ábyrgð og það því borist mér í skilningi laga."
Bendir kærði á að það sé algengt að tjónþolar í bótamálum skipti um lögmann. Verði þeir þá að standa klárir á sínu varðandi þau skipti.
Loks gerir kærði athugasemdir við hæfi einstakra nefndarmanna og starfsmanns nefndarinnar til að taka þátt í afgreiðslu málsins.
Niðurstaða.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumannað réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í 28. gr. reglnanna segir að ef lögmanni er falið verkefni, sem annar lögmaður hefur áður sinnt, skuli hann ekki hefja vinnu við það fyrr en hann hefur fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmannsins sé lokið eða verði lokið án tafar. Þó er lögmanni heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að firra aðila réttarspjöllum.
Samkvæmt 25. gr. siðareglnanna skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þeir skulu sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.
Ekki er að fullu upplýst hvaða bréfasendingar fóru í raun á milli aðila máls þessa og hvaða bréf bárust. Nýtur kærði vafans í þessu efni. Verður að byggja á því að hann hafi sent kæranda afrit tilkynningar um að hann væri tekinn við bótamálinu, auk þess sem leggja verður til grundvallar þá frásögn hans að umbjóðandinn hafi tjáð sér að hann væri búinn að tilkynna kæranda um lögmannsskiptin.
Kærði hefur á hinn bóginn ekki borið á móti því að hann hafi fengið ábyrgðarbréf kærða, dagsett 29. ágúst 2014 og þá liggur fyrir að honum barst reikningur kæranda, sem hann sendi 20. nóvember 2014. Er því ómótmælt af kærða að hann sinnti þessum sendingum í engu.
Að mati nefndarinnar er ekki annað komið fram en að málið hafi verið í eðlilegum farvegi hjá kæranda, þar sem gagna úr sjúkraskrá og frá slysamóttöku var aflað og miðað við að skoðanir á afleiðingum slyssins færu fram þegar líða tæki að því að ár yrði frá slysinu. Þá er ekki annað fram komið en að kærði hafi unnið vel að máli umbjóðandans eftir að hann tók við því. Því er ekki haldið fram af hálfu kæranda að hann hafi lagt mikla vinnu í málið eftir að kærði tók við því og telur nefndin ekki að þetta atriði skipti máli fyrir niðurstöðu málsins.
Að ofan er rakið efni 28. gr. siðareglna lögmanna. Ákvæðið gerir þá afdráttarlausu kröfu til lögmanns samkvæmt efni sínu að ef honum er falið verkefni, sem annar lögmaður hefur áður sinnt, skuli hann fullvissa sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmannsins sé lokið eða verði lokið án tafar og að þetta skuli hann gera áður en hann hefur vinnu að málinu. Það er því ekki fullnægjandi að tilkynna fyrri lögmanni um lögmannsskiptin með almennum bréfpósti, um leið og gagnaðila er tilkynnt um þau og ekki er fullnægjandi að treysta á orð eða athafnir viðskiptamannsins í þessum efnum. Er þessi efnisregla mikilvæg til að tryggja að ekki séu tveir lögmenn á sama tíma að koma fram fyrir hönd sama umbjóðanda. Var háttsemi kærða í beinni andstöðu við ákvæðið, en ekkert sem benti til að nein yfirvofandi réttarspjöll hindruðu hann í að fylgja því.
Sú aðstaða sem kærði skapaði með því að hefja vinnu að málinu án þess að ræða við kæranda eða tilkynna honum tryggilega fyrirfram um lögmannsskiptin, var til þess fallin að valda árekstrum og auk þess vandamálum við uppgjör kostnaðar. Var í þessu ljósi sérlega mikilvægt að kærði svaraði erindum kæranda vegna málsins. Sú háttsemi kærða að svara kæranda í engu, var algjörlega andstæð þeim kröfum um samvinnu, virðingu og tillitssemi sem gerðar eru í ákvæði 25. gr. siðareglna lögmanna, sem fyrr er rakið.
Þegar brot kærða gegn þessum tveimur ákvæðum eru virt í samhengi telur nefndin óhjákvæmilegt að hann sæti áminningu vegna þeirra.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, S hrl., sætir áminningu.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson hrl.
Valborg Þ. Snævarr hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson