Mál 8 2015
Ár 2014, fimmtudaginn 2. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 8/2015:
L vegna S ehf.
gegn
Á hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. febrúar 2015 erindi kæranda, L, þar sem kvartað var yfir störfum kærða, Á hrl.
Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 26. febrúar 2015. Greinargerð kærða barst þann 9. mars 2015. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða með bréfi dags. 16. mars 2015. Athugasemdir kæranda bárust þann 25. mars 2015. Kærða var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum þann 30. mars 2015. Athugasemdir bárust þann 13. apríl 2015.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Félag kæranda er verktakafyrirtæki og eigandi lóðarinnar X 10. Kærði hefur gætt hagsmuna T ehf. sem hefur byggt tvö fjöleignarhús á lóðunum nr. 6 og 8 við X. 6, 8 og 10 deila saman óskiptri leigulóð. Á árinu 2011 var boðað til fundar um kostnað við sameiginlegar jarðvegsframkvæmdir á lóðunum. Á fundinum og í framhaldi af honum varð ágreiningur um þennan kostnað, en T reisti kröfu sína á hendur S ehf. á lögum um húsfélög og því að það hefði fengið kröfur húsfélaganna nr. 6 og 8 framseldar. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. nóvember 2014 var kærandinn S ehf. dæmdur til að greiða T ehf. kr. 1.557.066 auk kostnaðar.
Í framhaldi af dómi þessum gerði S ehf. kröfur um að húsfélögin að X 6 og 8 greiddu félaginu vegna sameiginlegrar innkeyrslu inn á lóðirnar þrjár.
Formenn húsfélaganna tveggja leituðu til kærða vegna þessara krafna kæranda. Ritaði kærði kæranda bréf þann 4. febrúar 2015 þar sem upplýst er um það. Jafnframt segir í bréfi þessu að eftir því sem næst verði komist sé krafan vegna kostnaðar við jarðvegsskipti, en engin gögn hafi verð lögð fram um hann. Þá er í bréfinu tekið fram að eigendur íbúða að X 6 og 8 hafi keypt íbúðirnar af T ehf. Samkvæmt kaupsamningum um þær hafi komið í hlut seljanda að ganga frá lóðunum og standa straum af kostnaði við þær. Hugsanlegum kröfum S ehf. skuli því beint að T ehf. Ljóst sé að S hafi ekki staðið að neinum framkvæmdum á lóðunum eftir að íbúðirnar voru seldar árin 2009 og 2010. Mælist kærði til þess í bréfinu að hætt verði að beina kröfum að húsfélögunum en sendi þær til hans, sem muni svara fyrir húsfélögin og T ehf.
II.
Kærandi krefst þess að kæra sín fái rétta meðhöndlun og að kærði sæti ávítum samkvæmt reglum Lögmannafélags Íslands. Litið er svo á að í þessu felist krafa um að kærði verði beittur viðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá krefst kærandi þess að kærði verði látinn segja af sér lögmennskustörfum fyrir húsfélögin að X 6 og 8.
Kærandi lítur svo á að kærði herji á alla lóðareigendur að X 6-10 fyrir hönd skjólstæðings síns, T ehf. Það fái ekki samrýmst þeim störfum hans að hann taki að sér hagsmunagæslu fyrir húsfélögin að X 6 og 8.
Kærandi tekur fram að hann hafi áfrýjað fyrrgreindum dómi héraðsdóms. Vinni hann málið gegn T á þeim vettvangi sleppi húsfélögin við að ganga í ábyrgð fyrir lóðaframkvæmdir á lóðinni nr. 10. Ef kærði vinni hins vegar málið f.h. T fyrir Hæstarétti falli ábyrgð á lóðareigendur eða húsfélögin nr. 6 og 8. Þannig fari kærði fram með kröfur sem geti haft í för með sér veruleg útgjöld fyrir húsfélögin og taki um leið að sér hagsmunagæslu fyrir þau vegna tengdra mála. Telur kærandi að kærði hafi ekki upplýst húsfélögin um þessa aðstöðu.
Í athugasemdum sínum við greinargerð kærða setur kærandi fram frekari ávirðingar í garð kærða og lögmannsstofu hans. Þessar ávirðingar eru ekki hluti af upphaflegri kvörtun hans og verða ekki teknar til skoðunar af nefndinni.
III.
Kærði kveðst í greinargerð sinni, eiga erfitt með að átta sig á því hvernig hann eigi að hafa brotið gegn kæranda. Er litið svo á að hann krefjist þess að kröfum kæranda verði hafnað.
Eftir að dómur héraðsdóms gekk hafi kærandi tekið að beina kröfum að húsfélögunum að X 6 og 8 og einstökum íbúum þeirra vegna framkvæmda á lóð. Fyrirsvarsmenn húsfélaganna hafi haft samband við fyrirsvarsmann T ehf. sem hafi bent þeim á að ræða við kærða. Hafi þeim að sjálfsögðu verið ljóst að kærði væri lögmaður T ehf. Í framhaldi af fundi með formönnum húsfélaganna hafi kærði sent kæranda bréf þar sem dregið er í efa að kærandi geti átt kröfur á húsfélögin. Þá hafi kærði upplýst að hugsanlegum kröfum skyldi beint að T ehf.
Bendir kærði á að kæran í máli þessu virðist helst sett fram til að gæta hagsmuna húsfélaganna að X 6 og 8. Ekki fáist séð að þau hafi falið kæranda neitt umboð til að gæta hagsmuna sinna. Þá fáist ekki séð að bréfið frá 4. febrúar 2015 gefi kærandanum neitt tilefni til kvörtunar.Niðurstaða.
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í II. kafla siðareglna lögmanna er fjallað um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum. Er þar í 11. gr. m.a. kveðið á um að lögmaður megi ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Er í ákvæðinu tekið fram að lögmaður skuli jafnframt varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku.
II.
Skylda lögmanns til að taka ekki að sér ósamþýðanlega hagsmuni, snýr fyrst og fremst að skjólstæðingum hans. Ekki fæst með nokkru móti séð að kærði hafi með framgöngu sinni brotið gegn kæranda. Þá er ekkert fram komið um að T eða umrædd húsfélög telji hagsmuni sína fyrir borð borna með því að kærði geri grein fyrir þeirri sameiginlegu afstöðu þeirra að T beri ábyrgð á uppgjöri vegna lóðaframkvæmda gagnvart húsfélögunum og gagnvart eigendum X 10. Getur kærandi hvorki tekið að sér að koma fram fyrir umrædd húsfélög gagnvart nefndinni né gert kröfur í máli þessu á grundvelli eigin hagsmuna.
Verður í þessu ljósi að hafna því, að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, Á hrl, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, S ehf., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Valborg Þ. Snævarr, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________