Mál 9 2015

 

 

Ár 2015,fimmtudaginn 2. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 9/2015:

Á

gegn

L hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. apríl 2015 erindi kæranda, Á þar sem kvartað var yfir störfum kærðu, L hrl., að skilnaðarmáli kæranda, og áskilinni þóknun hennar.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 27. apríl 2015. Greinargerð kærðu barst að veittum fresti þann 19. maí 2015. Kæranda var gefinn kostur á tjá sig um greinargerðina þann 27. maí 2015 og bárust athugasemdir kæranda 8. júní 2015. Kærðu var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum með bréfi þann 15. júní 2015. Bárust þær 23. júní 2015.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Kærandi leitaði til kærðu vegna skilnaðarmáls og virðist það hafa verið í ágústmánuði 2012. Ágreiningslaust er að í málinu var deilt um fjölmörg atriði, en aðilar málsins áttu m.a. hlut í  fyrirtæki þar sem kærandi var starfsmaður, hús, bifreiðar, sumarbústaður auk fjögurra barna sem flest voru undir lögaldri. Launauppgjörsmál var rekið fyrir dómi og ágreiningsmál um framfærslu o.fl. lögð í úrskurð sýslumanns. Bú hjónanna var tekið til opinberra skipta, en framganga kærðu við þau er meginatriði í kvörtun kæranda.

Af gögnum málsins má ráða að skiptin hafi ekki gengið vel að öllu leyti og að deilt hafi verið um fjölmarga hluti. Undir árslok 2013 var þó farið að hilla undir skiptalok. Liggur t.a.m. fyrir í málinu bréf frá kæranda til kærðu frá 18. nóvember 2013 þar sem hún gerir ítarlegar athugasemdir við sáttatillögu sem skiptastjóri hafði þá sett fram. Kveðst hún þar tilbúin til að semja um að fá í sinn hlut 25 milljónir króna strax en semja um frekari greiðslur í framhaldinu.

 

Þann 3. febrúar sendi kærða tölvupóst til kæranda þar sem fram kom: Ég staðfesti það að ég er að ganga frá samkomulagi um búskipti þín þar sem ég geri ráð fyrir að þú fáir greiddar samtals 30.000.000, nú strax 20.000.000, í sumar 5.000.000 og í desember n.k. 5.000.000.

 

Á skiptafundi þann 7. mars 2014 náðist samkomulag skv. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 20/1991 sem skiptastjóri staðfesti með skriflegri yfirlýsingu. Fólst í samkomulaginu að fasteign hjónanna var seld og andvirði hennar varið til greiðslu sameiginlegra skulda og skiptakostnaðar. Þau leystu hvort til sín sinn bílinn á matsverði. Vegna mikils munar á verði hlutabréfa í tveimur félögum sem þau leystu til sín greiddi maðurinn kæranda kr. 20.000.000 þann 7. mars 2013, kr. 5.000.000 þann 7. september 2013 og kr. 5.000.000 þann 7. mars 2015. Í samkomulaginu var auk þessa kveðið á um skyldu kæranda til að yfirdekkja umræddan stól auk annars sambærilegs stóls. Reyndist það dýrt. Þá var kveðið á um skyldu konunnar til að afhenda kristalsvasa úr dánarbúi foreldra mannsins

Kærandi var óánægð með þessi málalok og sendi kærðu athugasemdir sínar þann 20. mars 2014. Voru þær bæði við einstök efnisatriði samkomulagsins svo sem um kostnað viðyfirdekkingu stólanna og um einstök atriði sem hún taldi að enn hefði ekki verið fjallað um eða þau upplýst með fullnægjandi hætti, s.s. ráðstöfun á kaupverði fasteignar, vaxtareikninga og launauppgjör hennar hjá fyrirtækinu.

Kærða gaf út tvo reikninga vegna málsins. Reikningur nr. 3420 var gefinn út 31.12.2013. Var þar innheimt fyrir rúmlega 100 tíma vinnu auk óverulegs útlagðs kostnaðar, samtals kr. 1.833.575 auk vsk. Er ágreiningslaust að kærandi greiddi 1.000.000 inn á þennan reikning. Síðari reikningurinn, nr. 4023, var gefinn út 30. september 2014. Þar er innheimt fyrir rúmlega 12 tíma vinnu, alls kr. 214.375 auk vsk.

 

II.

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að lögfræðikostnaður sé felldur niður, enda skuldi hún kærðu, en hafi greitt 1.000.000 inn á reikning hennar. Verður krafan skilin svo að þess sé krafist að eftirstöðvar tveggja reikninga kærðu verði felldir niður.

Kærandi krefst þess í öðru lagi að það fjárhagslega tjón sem hún hafi orðið fyrir verði greitt úr ábyrgðarsjóði lögmanna, enda sé augljóst að kærða hafi ekki sinnt skyldum sínum eins og kærandi hafi treyst henni fyrir.

Kærandi telur sig hafa orðið fyrir fjárhagstjóni vegna vanrækslu kærðu. Kærða hafi samþykkt tillögur skiptastjóra og sagt kæranda að ekki væri um skiptalok að ræða. Annað hafi svo komið á daginn. Kærandi kveðst hafa sent kærðu athugasemdir sínar daginn fyrir skiptafund en svo virðist sem kærða hafi ekki lesið þær áður en hún samþykkti tillögur skiptastjóra.Kærandi gagnrýnir að hún hafi aldrei fengið neitt yfirlit í hendur yfir hvernig búinu var skipt, hvorki frá lögmanni sínum né skiptastjóra. Hefur hún í máli þessu lagt fram yfirlit yfir eignir búsins sem hún telur sýna fram á að hún hafi fengið minna í sinn hlut en reikna mátti með.

Kærandi kveðst aldrei hafa samþykkt þau málalok að maðurinn greiddi henni kr. 30.000.000 og að kærandi myndi afhenda ákveðna hluti úr innbúi.

 

Í athugasemdum sínum við greinargerð kærðu kvartar kærandi yfir því að kærða hafi höfðað mál til heimtu reikningsins eftir að til máls þessa var stofnað, þrátt fyrir að ágreiningur um réttmæti hans sé til umfjöllunar í máli þessu. Þá gerir hún einnig athugasemdir við einstök atriði í fjárskiptasamkomulaginu s.s. verðmat á bifreiðum og niðurfærslu á verðmæti umrædds fyrirtækis vegna ógreidds fjármagnstekjuskatts.

 

Kærandi gerir athugasemdir við að samið hafi verið um að  hún afhenti stóla og vasa til að greiðslur til hennar bærust. Þessir hlutir hafi átt að afhendast í því ástandi sem þeir voru en síðan hafi henni verið gert að greiða mikinn kostnað við lagfæringar á þeim. Þá telur hún kærða hafa fórnað minni hagsmunum hennar fyrir meiri með því að eyða allt að 10 tímum í að rífast um vasa sem kærandi hafi getað útvegað á netinu fyrir 25.000 krónur.

 

Kærandi telur reikninga kærðu of háa. Kærandi hafi margsinnis óskað eftir að fá upplýsingar um hvaða kostnaður væri að falla á málið en jafnan fengið þau svör að hún skyldi ekki hafa áhyggjur af því, því kostnaður yrði gerður upp í lokin.

 

III.

Kærða mótmælir öllum kröfum kæranda og verður litið svo á að hún krefjist þess að þeim verði hafnað. Hún kveður skilnaðarmálið hafa verið tímafrekt vegna þess að deilt hafi verið um alla hluti og aðilar ekki getað rætt saman. Kærandi hafi verið í slæmu jafnvægi og verið miður sín vegna skilnaðarmálsins. Þegar að því kom að ljúka fjárskiptum hafi þyrmt yfir kæranda. Búið hafi verið að ná samkomulagi um að ljúka skiptum með 30 milljón króna greiðslu til kæranda og myndi hún skila ákveðnum munum, kristalsvasa og leðurstól til mannsins. Þegar kom að afhendingu stólanna hafi kærandi hins vegar skorið í stólinn og vísað til þess að hann ætti að afhendast í því ástandi sem hann væri. Hafi skiptastjóri tekið þá afstöðu að hún yrði að bera tjónið af því að yfirdekkja bæði þennan stól og annan samstæðan, en kærða hafi ekki látið reyna á þá ákvörðun skiptastjóra fyrir héraðsdómi.

Kærða vísar til tímaskýrslu sinnar um umfang starfsins. Vinnan hafi staðið í tæp tvö ár. Ekki hafi verið gefinn út reikningur vegna slakrar lausafjárstöðu kæranda fyrr en í árslok 2013 og látið við það sitja að aðeins væri greitt inn á hann á því tímamarki.

 

Niðurstaða.

I.

Samskiptum aðila í máli þessu virðist hafa lokið í aprílmánuði 2014 og í framhaldi af því með útgáfu kærðu á reikningi sínum í september 2015. Verður að telja að kæra þessi sé nógu tímanlega fram komin, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærða hafi gerst brotleg við lög eða siðareglur lögmanna og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærðu.

 

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.Í samræmi við þetta verður sá skilningur lagður í kröfugerð kæranda að þess sé krafist að kærða verði beitt viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Áréttað skal að ekki er starfræktur neinn bótasjóður lögmanna, en lögmenn skulu hafa gilda starfsábyrgðartryggingu og geta þeir sem telja lögmenn hafa bakað sér tjón í störfum sínum sótt þangað eftir skaðabótum.

Í 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn segir að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Í 1. gr.  siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 8. gr. segir að í samræmi við þessa meginreglu skuli lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna.

Sá samningur sem gerður var við skiptin byggir á tillögu skiptastjóra, sem hefur lagt helmingaskipti eignanna til grundvallar. Virðast verðmöt á einstökum eignum hafa legið fyrir, í samræmi við það sem tíðkast í þeim efnum. Mismunur á yfirliti kæranda og því yfirliti sem skiptastjóri hefur lagt til grundvallar virðist einkum felast í því að á yfirliti kæranda er ekki gert ráð fyrir skuld að fjárhæð 6.300.000 sem merkt er fyrirtækinu í yfirliti skiptastjóra. Þá hefur kærandi í yfirliti sínu gert ráð fyrir að allur séreignarsparnaður maka komi til skipta, án þess að það sé rökstutt, en í yfirliti skiptastjóra er aðeins gert ráð fyrir skiptingu á lægri fjárhæð. Verður ekki talið að kæranda hafi tekist að sýna fram á að það samkomulag sem gert var um skipti á búi hennar og eiginmanns hennar hafi verið ósanngjarnt vegna handvammar kærðu eða að hallað hafi á hana við skiptin.

Þá fæst ekki séð að kærða hafi getað hnekkt þeirri afstöðu skiptastjóra að kærandi þyrfti að bera ábyrgð á að skila heilum þeim munum sem um hafði verið samið. Má einnig fallast á það með kæranda að óráðlegt virðist að eyða miklum tíma í að deila um einstaka innanstokksmuni af því verðgildi sem hér um ræðir, en rétt er að árétta að ekkert í gögnum málsins styður fullyrðingar hennar um að kærða hafi varið löngum tíma í að semja um stól og vasa.

Sem fyrr greinir liggur fyrir í málinu afdráttarlaus tölvupóstur kærðu til kæranda, þar sem hún staðfestir að hún sé að ganga frá skiptalokum með 30 milljón króna greiðslu til kæranda auk skila á umræddum munum. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna að hún hafi hafnað þessu áður en samkomulagið var gert. Eru fram lögð skjöl þar sem hún lýsir óánægju sinni með niðurstöðu skiptanna öll dagsett eftir það tímamark er bókað var um samkomulagið 7. mars 2014.

 

Að öðru leyti fæst ekki séð að unnt sé að gera athugasemdir við störf kærðu. Ekkert styður þær ásakanir kæranda að máli hennar hafi verið illa sinnt.

 

Að öllu þessu athuguðu verður að hafna því að gera aðfinnslur við störf kærðu fyrir kæranda, eða beita hana viðurlögum á grundvelli 27. gr. laga um lögmenn.

 

III.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Verður hér fjallað um þá kröfu kæranda að eftirstöðvar reikninga hennar verði felldir niður.

 

Enginn ágreiningur virðist um að gjaldtaka kærðu byggðist á tímagjaldi og skráðum tímum. Þá hefur ekki verið gerð athugasemd við tímagjald kærðu, sem raunar virðist ekki úr hófi. Hvorugum aðila málsins hefur tekist að færa sönnur á frásögn sína af því hvort kæranda fékk umbeðnar upplýsingar um áfallandi kostnað eða ekki, en það ræður þó engum úrslitum um hvað telst sanngjarnt endurgjald.

 

Tímaskráningar kærðu virðast í samræmi við umfang málsins, en bera með sér að hjónaskilnaðarmálið innibar fjölda deilumála sem leyst var úr í fleiri aðskildum málum. Efnislegar athugasemdir kæranda við skráningarnar sem felast í að of miklum tíma hafi verið varið í deilur um verðlitla lausafjármuni fá ekki stoð í fram lagðri tímaskýrslu. Verður að synja kröfu kæranda um niðurfellingu reikninga kærðu.

 

Vegna athugasemda kæranda við málssókn kærðu telur nefndin rétt að árétta ákvæði 2. mgr. 26. gr. lögmannalaga þar sem fram kemur að hafi dómsmál ekki verið höfðað um ágreiningsefni skv. 1. mgr. áður en það er lagt fyrir úrskurðarnefndina, verður það ekki borið undir dómstóla á meðan málið er þar rekið.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, L hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, Á, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Synjað er kröfu kæranda um niðurfellingu á tveimur reikningum kærðu eða eftirstöðvum þeirra.

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson