Mál 13 2015

Ár 2015, föstudaginn 11. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 13/2015:

K og G

gegn

Þ hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. júlí 2015 erindi sóknaraðila, K og G vegna Þ hdl., þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun og störfum varnaraðila, að innheimtumáli vegna ofgreiðslna af láni f.h. sóknaraðila.

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 31. júlí 2015.Varnaraðili skilaði greinargerð vegna málsins þann 27. ágúst 2015.

Sóknaraðilum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila þann 31. ágúst 2015. Frekari gögn bárust frá sóknaraðilum þann 18. september 2015 og voru framsend varnaraðila 23. september. Þá bárust athugasemdir við greinargerð varnaraðila frá sóknaraðilum þann 21. september og voru þær sendar varnaraðila með bréfi þann 29. september. Að fengnum fresti skilaði varnaraðili lokaathugasemdum sínum vegna málsins þann 3. nóvember 2015. Voru þær kynntar sóknaraðilum með bréfi nefndarinnar þann 13. nóvember 2015 ásamt þeirri athugasemd af hálfu nefndarinnar að hún liti svo á að gagnaöflun vegna málsins væri lokið. Allt að einu bárust frekari athugasemdir frá sóknaraðilum með bréfi mótteknu 20. nóvember 2015 þar sem gerðar voru frekari kröfur og frekari gögn lögð fram.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Það er upphaf þessa máls að varnaraðili tók að sér að stefna Lýsingu hf. vegna tveggja lánasamninga sem sóknaraðilar höfðu gert við fyrirtækið. Var þetta í nóvember 2013. Enginn skriflegur samningur var gerður um þetta verkefni eða gjaldtöku vegna þess og ekkert umboð varnaraðila hefur verið lagt fram. Virðist ágreiningslaust að einkum var samið um gjaldtökuna í síma, en hins vegar er grundvallarágreiningur um hvað samdist um varðandi hana.  Á þessum tíma var umræddu félagi stefnt í miklum fjölda mála vegna ágreinings um hvernig ætti að endurreikna gengistengda lánasamninga félagsins.

Varnaraðili virðist hafa lokið stefnugerð vegna málanna gegn Lýsingu í maíbyrjun 2014, auk þess sem hann vann einhver störf fyrir sóknaraðila sem féllu utan við þau. 2. maí 2014 gaf hann út reikning nr. 105 á sóknaraðila fyrir 25 klst. vinnu með tímagjald kr. 22.900, þ.e. að fjárhæð kr. 572.500 auk vsk. að fjárhæð kr. 145.987. Í tölvupósti þar sem varnaraðili virðist hafa sent þennan reikning kemur fram að af reikningsfjárhæðinni séu kr. 100.000 þegar greiddar. Þá virðist tímaskrá fyrir þessum 25 tímum hafa fylgt póstinum og liggur hún frammi í málinu. Kemur fram, bæði í tölvupóstinum og tímaskránni að um sé að ræða reikning fyrir vinnu til og með 11. apríl.

Sóknaraðilar gerðu strax athugasemd við þessa reikningsgerð. Í tölvupósti þeirra til varnaraðila 5. maí kemur fram að þau skilji ekki af hverju „umsamið verð 200.000 kr. er komið í rúmlega 700 þúsund krónur?" Í skýringum varnaraðila, sem hann sendi samdægurs, kemur fram að hann hafi sent þá tíma sem hann hafi unnið í málunum. Þá kemur fram „jú, það er rétt hjá þér K að við töluðum um ca. kr. 200.000+ kostnað og ég myndi hafa samband ef það yrði hærra (sem ég ekki gerði/gleymdi)" Þá fer varnaraðili yfir það hvers vegna tímafjöldinn hafi vaxið frá því sem hann hafði gert ráð fyrir og kemur þar m.a. fram að um sé að ræða gjaldtöku vegna beggja málanna. Þá segir varnaraðili um gjaldtökuna: „Ég er til í að koma á móts við ykkur t.d. ef málið fer í munnlegan málflutning fyrir héraðsdómi. Síðan þurfið þið að skoða þetta með virðisaukaskattinn, hvort þið getið nýtt hann sem innskatt. Eigum við ekki að hringja okkur saman seinni partinn í dag eða í kvöld og ná lendingu í þessu."

Ekkert liggur fyrir um hvort aðilar hafi rætt saman, en daginn eftir, þ.e. 6. maí 2014, sendi varnaraðili tölvupóst til sóknaraðila, þar sem segir „Tillaga mín er sú að þið greiðið samtals kr. 500.000+vsk kr. 127.500 = 627.500 og ég geri nýjan reikning. Inni í því eru tvær stefnur og allur útlagður kostnaður vegna þeirra. Jafnframt er önnur vinna mín inni í því þ.e. vegna SP, Landsbankans, skoðun endurútreikninga og vegna annarra viðsemjenda ykkar. Ef Lýsingarmálin fara fyrir dóm sem ég á ekki vona þá tökum við stöðuna á því en ég reikna með að þið fáið þennan kostnað ykkar til baka. Ég hefði viljað klára þetta í dag, áður en ég sendi stefnurnar frá mér"

Eftir þetta hafa aðilar eitthvað rætt saman í síma því þann 13. maí gaf varnaraðili út nýjan reikning nr. 106 og fylgdi honum skjal „Tímaskráning skv. símtali 13. maí 2014" Í því skjali er sundurliðun í 3 liðum þar sem gerð er grein fyrir gjaldtöku og virðisaukaskatti fyrir hvern lið.

Í fyrsta lagi „Lögfræðivinna, þ.m.t. kostnaður v/Lýsingarsamnings nr. 8... kr. 200.000, vsk kr. 51.000"

Í öðru lagi „Lögfræðivinna, þ.m.t. kostnaður v/Lýsingarsamnings nr. 8... kr. 200.000, vsk kr. 51.000"

Í þriðja lagi er gerð grein fyrir ákveðnum aukaverkefnum, samtals 3,75 tímar á 22.900 kr. tímagjaldi, samtals kr. 85.875, vsk. kr. 21.898.

Í samræmi við þetta var reikningur nr. 106 að fjárhæð kr. 485.875, eða kr. 609.773 að virðisaukaskatti meðtöldum, en fram kom í yfirlitinu með tímaskránni að af þeirri fjárhæð væru 100.000 þegar greiddar.

Viðbrögð sóknaraðila við þessum sendingum voru þau að sama dag sendu þau varnaraðila tölvupóst þar sem fram kom að þeim þætti þessi reikningsgerð meira í í takt við það sem talað hefði verið um. Þó væru þau ekki sátt við að virðisaukaskattur bættist ofan á 200.000 kr. Hefði varnaraðili ekki tiltekið að 200.000 væri án vsk, eins og honum hefði verið skylt að gera ef hann vildi áskilja sér það. Þá var óskað frekari sundurliðana á umræddum aukaverkum, en loks tiltóku sóknaraðilar að þau myndu greiða meira þegar staðfesting bærist á að Lýsing hefði móttekið stefnuna. Hafi stefnubirting fyrst átt að fara fram í nóvember.

Þessar athugasemdir sóknaraðila virðast hafa leitt til þess að varnaraðili gaf enn út nýjan reikning þann 23. maí 2015, nr. 107, samtals að fjárhæð 509.373 að virðisaukaskatti meðtöldum. Fólst lækkunin frá fyrri útreikningi í því að gjaldtakan vegna hvors Lýsingarmáls hafði verið lækkuð úr 200.000 í 160.000 auk vsk. Sendi varnaraðili þennan reikning með tölvupósti þann 27. maí ásamt leiðbeiningu um að hann skyldi greiddur að frádregnum 100.000. Sóknaraðilar svöruðu með því að fara yfir útreikningana. Munar þar 1.600 krónum á því að sóknaraðilar miða við að 200.000 kr sé heildarupphæð vegna hvors máls með vsk en samkvæmt reikningnum nemur hún kr. 200.800. Kveðast sóknaraðilar því greiða „í dag" kr. 407.773. Spurningu þeirra sem fylgdi þessum pósti um hvort þetta passi ekki, svaraði varnaraðili samdægurs svo „Eins og stafur á bók".

Dómsmál sóknaraðila gegn Lýsingu voru þingfest, en eftir að greinargerðum hafði verið skilað í þeim var meðferð þeirra frestað, eins og mörgum sambærilegum málum, á meðan beðið var frekari dómafordæma Hæstaréttar. Með tveimur dómum réttarins 5. mars 2013 var slegið föstum ákveðnum atriðum varðandi rétta framkvæmd á endurútreikningi gengistryggðra lánsamninga Lýsingar. Í apríl og maí sama ár var úrskurðað um 300.000 krónu málskostnað í tveimur málum gegn Lýsingu þar sem málflutningi hafði verið frestað. Voru niðurstöður úr þessum málum í framhaldinu lagðar til grundvallar við gerð réttarsátta í fjölda mála gegn Lýsingu.

Varnaraðili var í samskiptum við lögmenn Lýsingar í framhaldi af þessum atvikum um mögulegar sættir í málum sóknaraðila og fleiri umbjóðenda sinna. Varð úr að hann gerði réttarsáttir í báðum málunum þar sem Lýsing endurgreiddi í fyrsta lagi ákveðnar fjárhæðir vegna endurútreiknings, en auk þess kr. 438.075 í málskostnað í hvoru máli. Virðast sáttirnar hafa verið gerðar 27. maí 2015. Er óumdeilt að varnaraðili bar efni sáttanna ekki undir sóknaraðila.

Varnaraðili beindi erindi til tryggingafélags sóknaraðila, VÍS, þann 27. apríl 2015, með útfylltu eyðublaði félagsins merkt Tjónstilkynning - málskostnaðartrygging, þar sem farið er fram á greiðslu úr tryggingu sóknaraðilans K vegna ágreiningsmálanna við Lýsingu.

Varnaraðili greiddi sóknaraðilum út það sem þau fengu í sinn hlut samkvæmt endurútreikningnum með greiðslu þann 23. júní 2015. Samskipti aðila á þessu tímamarki bera með sér að þá þegar var kominn upp djúpstæður ágreiningur um gjaldtöku varnaraðila. Þann 20. júlí greiddi varnaraðili sóknaraðilum jafnframt út samkvæmt beiðni þeirra þann málskostnað sem hann hafði samið um og fengið greiddan hjá Lýsingu. Þann sama dag gaf hann jafnframt út reikning vegna málsins nr. 159 að fjárhæð kr. 1.169.875 auk virðisaukaskatts að fjárhæð kr. 280.770, samtals kr. 1.450.645. Byggir sá reikningur á tímaskráningu varnaraðila.

 

II.

Sóknaraðilar krefjast þess í erindi sínu til nefndarinnar að varnaraðili standi við samning aðila um fast verð fyrir endurútreikning og stefnur, þ.e. 2*200.000 kr. og að auk þess verði greitt fyrir þá tímavinnu sem hann innti af hendi með tilliti til tímaskýrslu hans. Til vara krefjast þau þess „að allt uppgjör sem varðar stefnurnar hvort sem það er lagfæring á þeim eða eitthvað annað ásamt þeim tíma sem Þ skrifar á mig vegna samskipta hans við tryggingafélag mitt án umboðs verði endurgreitt mér".

Í athugasemdum sínum við greinargerð lögmannsins setja sóknaraðilar fram frekari kröfur, en ekki verður frekar um þær fjallað hér.

Sóknaraðilar kveða varnaraðila hafa tekið að sér að stefna Lýsingu í tveimur málum fyrir fast verð, kr. 200.000 fyrir hvort mál, haustið 2013. Hafi frekari vinna hins vegar átt að vinnast á tímagjaldi. Telja sóknaraðilar að þessi fasta gjaldtaka hafi verið mjög álíka og aðrar lögfræðistofur buðu þeim upp á sem þurftu að slíta fyrningu krafna sinna á hendur Lýsingu með málssókn. Varnaraðili hafi aldrei rætt um að hann myndi krefja tryggingafélag sóknaraðila um einhverjar eftirstöðvar af sinni gjaldtöku, enda hafi verið um það rætt að hann myndi krefja Lýsingu um allan kostnað sem sóknaraðilar hefðu af innheimtunni, svo sem eðlilegt mátti teljast. Auk þess hafi ekkert legið fyrir um hvort sóknaraðilar hefðu yfirleitt nokkra málskostnaðartryggingu þegar varnaraðili tók málin að sér. Árétta sóknaraðilar í málatilbúnaði sínum að deila þeirra við varnaraðila snúist fyrst og fremst um hvort þessi upphaflegi samningur um gjaldtöku fyrir stefnugerð standi.

Varnaraðili hafi farið fram á innágreiðslu að fjárhæð 100.000 þann 5. febrúar þegar stefnurnar hafi að hans sögn verið að klárast. Þegar stefnurnar hafi loks verið tilbúnar í maíbyrjun 2014 hafi hann sent reikning 105, sem þau hafi þegar gert athugasemdir við. Varnaraðili hafi þá sent þeim lækkaðan reikning nr. 106, sem þau hafi einnig gert athugasemdir við þar sem þar hafi virðisaukaskattur verið lagður ofan á umsamda fjárhæð. Stefnurnar hafi loks verið birtar 23. maí 2014 og réttur reikningur nr. 107 sendur í framhaldi af því og greiddur. Árétta sóknaraðilar að ef þau hefðu hætt við málið á þessum tímapunkti hefði ekki komið til neinna frekari greiðslna.

Sóknaraðilar gera athugasemdir við að varnaraðili hafi samið við Lýsingu án þess að hafa til þess umboð og án þess að bera þá samninga undir þau áður en þeir voru endanlega samþykktir. Telja þau að mögulegt hefði verið að krefja Lýsingu um hærri málskostnað en gert var. Hafi varnaraðili ekki haft fyrir því að spyrja þau um útlagðan kostnað sem þau höfðu haft af málinu og unnt hefði verið að krefja Lýsingu um. Vísa sóknaraðilar einkum til útlagðs kostnaðar við endurútreikning í þessu sambandi. Auk þess telja sóknaraðilar að með samningum sínum við Lýsingu um málskostnað án samráðs við sóknaraðila hafi varnaraðili bundið sig við þá þóknun sem hann samdi um. Geti hann ekki fundið að því við sóknaraðila að þeir samningar feli í sér afslátt af hans gjaldskrá.

Sóknaraðilar gera einnig athugasemdir við að varnaraðili hafi gert kröfu fyrir þeirra hönd um útgreiðslu tryggingar án þess að hafa til þess neitt umboð. Þegar sóknaraðilar hafi loks fengið tímaskrá varnaraðila hafi komið í ljós að sumt var tvítalið og sumt þegar greitt með greiðslu samkvæmt upphaflegu tilboði. Krafinn um skýringar á þessu hafi varnaraðili svarað því einu að sóknaraðilar kæmu út á sléttu og skulduðu ekkert þegar tryggingafélagið væri búið að gera upp við hann.

Varnaraðili hafi eftir nokkurt þóf greitt út bæði útgreiðslu Lýsingar vegna endurreiknings og uppgerða lögmannsþóknun, en þá um leið sent nýjan reikning upp á 1.450.645 og tímaskýrslur sem innihaldi tvítalda tíma. Jafnframt hafi hann þá deilt í greiðslur þeirra samkvæmt upphaflegu tilboði sínu með tímagjaldi og reiknað sér þá greiðslu sem greiddan tímafjölda. Kemur fram í athugasemdum sóknaraðila við greinargerð varnaraðila að þau telja að meðferð varnaraðila á þessu fé hafi verið andstæð 13. og 14. gr. siðareglna lögmanna.

Sóknaraðilar telja ótrúverðugt að varnaraðili hafi fallist á að lækka reikninga sína þegar þau gerðu athugasemdir við þá, nema vegna þess að hann hafi vitað hið sanna um hvað samið hafði verið um varðandi gjaldtökuna. Segja þau lækkunina hafa verið í framhaldi af tölvupóstsendingum og símtölum þar sem rætt hafi verið um að orð skyldu standa.

Þau benda einnig á, máli sínu til stuðnings að varnaraðili hafi krafið tryggingafélagið um greiðslu úr tryggingu varnaraðilans K, en tryggingar þeirra séu í raun á nafni varnaraðilans G. Sýni þetta vel hvernig erindisrekstur varnaraðila gagnvart tryggingafélaginu hafi verið án nokkurs samráðs við þau.

Sóknaraðilar telja reikning varnaraðila nr. 159 í algjöru ósamræmi við það sem samið hafði verið um á milli aðila og síðari samskipti þeirra. Hafi varnaraðili m.a. fullyrt í júlí 2015 að sóknaraðilar skulduðu honum ekkert, hann myndi fá eftirstöðvarnar í gegn um tryggingafélagið. Sé þó ljóst að það sem ógreitt sé að þessum reikningi sé mun hærra en varnaraðili hefði getað fengið greitt hjá tryggingafélaginu.

Sóknaraðilar kveðast hafa greitt kr. 88.875 auk virðisaukaskatts fyrir aukaverk, sem féllu utan við málin gegn Lýsingu. Þetta verk hafi verið unnið á tímagjaldinu 22.900, sem sé eina tímagjaldið sem þeim hafi verið kynnt. Hafna þau því að varnaraðili geti reiknað sé annað og hærra endurgjald.

 

III.

Varnaraðili krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann þess að sóknaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað fyrir nefndinni.

Varnaraðili telur kvartanir sóknaraðila óljósar og illskiljanlegar. Tveimur málum þeirra gegn Lýsingu sé farsællega lokið með réttarsáttum þar sem meira hafi fengist greitt en boðið hafi verið af hálfu félagins og úrskurðað í sambærilegum málum. Þá liggi ekkert annað fyrir en að sóknaraðilar eða tryggingafélag þeirra eigi að greiða fyrir vinnu lögmannsins sem vann að umræddum málum fyrir þau samkvæmt tímaskráningu.

Varnaraðili lýsir aðdraganda starfa sinna fyrir sóknaraðila svo að sóknaraðilinn K hafi farið þess á leit við sig í nóvember 2013 að Lýsingu yrði stefnt vegna uppgjörs tveggja kaupleigusamninga. Hafi þetta verið með fyrstu málum sem stefnt var vegna tregðu Lýsingar til að endurreikna kaupleigusamninga samkvæmt dómum um fullnaðarkvittanir og jafnframt fyrstu mál varnaraðila af þessu tagi. Hafi hann tjáð sóknaraðila K að hann þyrfti að greiða kr. 200.000 inn á hvort mál fyrir sig auk virðisaukaskatts til að varnaraðili tæki þau að sér, en sú greiðsla stæði jafnframt undir greiðslu alls útlagðs kostnaðar. Tímagjald hafi hins vegar numið kr. 24.500 auk virðisaukaskatts á þessum tíma. Reiknað hafi verið með því að greiðsla vegna alls lögfræðikostnaðar fengist síðan greidd út úr réttaraðstoðartryggingu sem sóknaraðilar höfðu hjá VÍS og frá Lýsingu. Síðar hafi sóknaraðilinn G fengið þetta upphafsgjald lækkað niður í kr. 200.000 á hvort mál að vsk. meðtöldum. Þetta fyrirkomulag á uppgjörum hafi í raun verið ástæða þess að sóknaraðilar höfðu samband við hann, því á þessum tíma hafi komið í ljós að tryggingafélögin ábyrgðust réttaraðstoð vegna sambærilegra mála.

Varnaraðili kveður töluverða vinnu hafa farið í stefnurnar, enda hafi fá ef nokkur svipuð mál verið komin fyrir dómstóla á þessum tíma. Hafi vinna sín í raun verið meiri en tímaskýrslur beri með sér. Er áréttað af hálfu varnaraðila að sóknaraðilar hafi ekki falið honum að fara með einfalt innheimtumál, heldur endurkröfumál þar sem reyndi á flókin lögfræðileg sjónarmið og málsástæður.

Með þessum samningi hafi sóknaraðilar því eingöngu átt að greiða kr. 200.000 fyrir hvort mál, þótt málskostnaður yrði fyrirsjáanlega miklu hærri, enda ljóst að Lýsing myndi taka til varna í málunum eins og öðrum. Hafi sóknaraðilum verið fullljóst að aðeins væri um innborgun að ræða enda, væri ekki um einföld innheimtumál að ræða heldur mjög flókin mál sem vörðuðu mikla hagsmuni, eins og sæist m.a. á því að Lýsing hafi skilað 14 bls. greinargerðum í málunum.Varnaraðili telur því að hann hafi við uppgjör sitt farið einmitt þá leið sem sóknaraðilar krefjast, þ.e. að standa við sína hlið á samningi aðila, þ.e. með því að taka við 200.000 króna innágreiðslu fyrir hvort mál en gera síðan upp á grundvelli þeirrar tímavinnu sem innt var af hendi. Hann hafnar því algjörlega að 200.000 króna greiðslan hafi átt að fela í sér uppgjör fram að ákveðnum tímapunkti, en tímavinna síðan að taka við.

Varnaraðili kveðst hafa unnið að aukaverkum fyrir sóknaraðila á tímagjaldi með afslætti, kr. 22.500. Það hafi hins vegar aldrei staðið til að lögfræðikostnaður vegna Lýsingarmálanna, sem greiðast átti af Lýsingu og tryggingafélaginu væri með þessum afsláttarkjörum.

Varnaraðili telur að aðrar lögfræðistofur hafi á þessum tíma boðið viðskiptavinum Lýsingar í sömu stöðu upp á sambærilega samninga, þ.e. fasta innágreiðslu og kjör sem miðuðust við að Lýsing og tryggingafélög viðkomandi myndu greiða málskostnað að öðru leyti.

Þegar Hæstiréttur hafi kveðið upp dóma í tveimur málum gegn Lýsingu í marsbyrjun 2015 hafi ákveðnir þættir varðandi endurútreikning lána félagsins skýrst. Þann 17. apríl hafi sá dómari sem hafi haft flest þeirra mála gegn Lýsingu sem höfðu beðið í fresti eftir slíkri úrlausn Hæstaréttar úrskurðað um 300.000 króna málskostnað í tveimur þeirra, þótt tímaskýrslur bentu til nokkurs munar á fjölda vinnustunda við þau. Hafi þessar niðurstöður verið lagðar til grundvallar, en þú hafi honum tekist að fá 438.075 krónur greiddar í málskostnað í hvoru máli sóknaraðila. Að þeirri niðurstöðu fenginni hafi ekkert frekar verið að sækja til Lýsingar. Hafi honum láðst að bera endanlegt samkomulag um uppgjör undir sóknaraðila og biðst varnaraðili velvirðingar á því.

Varnaraðili telur sig hafa haft fullt umboð til að ljúka viðkomandi málum í krafti lögmannsumboðs síns og fagþekkingar, auk þess sem sá mikli fjöldi samkynja mála sem beið uppgjörs hafi sett málin í ákveðna sérstöðu að þessu leyti. Varnaraðili telur að þau dæmi sem sóknaraðilar setja fram um hærri málskostnað en hann samdi um séu ekki sambærileg, enda sér þar um að ræða mál sem lokið var áður en ofangreindar línur voru lagðar með niðurstöðum dómstóla.

Varnaraðili kveðst hafa séð um samskipti við tryggingafélög fyrir skjólstæðinga sína, enda hafi hann haft yfirsýn yfir málin og alla málavexti. Hafi ekkert verið um það rætt að hann mætti ekki ræða við tryggingafélag sóknaraðila.

Varnaraðili kveðst hafa greitt allan innheimtan málskostnað til sóknaraðila gegn loforði um að þau myndu samdægurs greiða reikning hans. Það hafi ekki verið staðið við.

 

Niðurstaða.

Það athugast að kvörtun sóknaraðila fylgdi töluvert magn af tölvupóstsendingum, bæði á milli aðila máls þessa og jafnframt framsend samskipti þeirra við aðra. Inn á milli er að finna ýmis gögn sem að mestu virðast fylgigögn úr viðkomandi tölvupóstum, en erfitt er á köflum að henda reiður á samhengi þessara gagna. Eftir það hafa báðir aðilar málsins lagt fram umtalsvert magn gagna, þ.á.m. tölvupósta og skjöl sem að meira eða minna leyti hafa verið lögð fram áður. Verður þetta til þess að örðugra verður en ella að fá fulla yfirsýn yfir málið.

Í athugasemdum sóknaraðila við greinargerð varnaraðila koma fram frekari kröfur um tilhögun uppgjörs en gerðar voru í upphaflegu erindi þeirra. Í athugasemdum þeirra, sem mótteknar voru 20. nóvember eru svo gerðar enn frekari kröfur. Eru þær of seint fram komnar og verður ekki um þær fjallað. Í málatilbúnaði þeirra er einnig að finna ýmsar ávirðingar og athugasemdir og við störf varnaraðila. Þegar litið er til kröfugerðar þeirra verður hins vegar að líta svo á að mál þetta snúist eingöngu um ágreining um fjárhagslegt uppgjör, sbr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, en feli ekki í sér umkvörtun um að varnaraðili hafi hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laganna. Verður því leyst úr fjárhagslegum ágreiningi aðila, en ekki fjallað sérstaklega um umræddar ávirðingar nema að því marki sem þær kunna að hafa þýðingu við úrlausn hans.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín.

Ágreiningslaust er að enginn skriflegur samningur var gerður um málarekstur varnaraðila f.h. sóknaraðila á hendur Lýsingu. Virðist alfarið hafa verið samið um það í gegnum síma og er grundvallarágreiningur um hvað samið var um varðandi gjaldtöku. Ekki virðist þó neinn ágreiningur um uppgjör vegna ákveðinna aukaverka sem féllu utan við umrædd dómsmál við Lýsingu sem varnaraðili vann í tímavinnu og  gerð voru upp með greiðslu reiknings nr. 107.

Við úrlausn á því hvað á að leggja til grundvallar um samningssamband aðila er nærtækast að líta til samskipta þeirra í maímánuði 2015, í framhaldi af því að varnaraðili gaf út stefnur í málunum og hóf að innheimta kostnað hjá sóknaraðilum. Við það tímamark lá ekkert fyrir um hvernig þessi málarekstur gegn Lýsingu myndi fara. Líklegt var að niðurstöður annarra dómsmála myndu leiða til þess að málin yrðu annað hvort felld niður eða dómssáttir gerðar í þeim, en þó hugsanlegt að flytja þyrfti málin. Um efnisleg úrslit var sömuleiðis óvissa.

Í þessum samskiptum ræða sóknaraðilar afdráttarlaust um „umsamið verð 200.000 kr." og gaf það varnaraðila fullt tilefni til að fara yfir samninga sína við sóknaraðila ef hann áskildi sér rétt til frekari gjaldtöku úr hendi sóknaraðila. Svör varnaraðila á þá leið að „jú, það er rétt hjá þér K að við töluðum um ca. kr. 200.000+ kostnað og ég myndi hafa samband ef það yrði hærra (sem ég ekki gerði/gleymdi)" benda vissulega til þess að varnaraðili hafi talið sig hafa áskilið sér rétt til að innheimta meira en 200.000 kr. fyrir hvort mál ef tímafjöldinn færi fram úr áætlunum hans, enda myndi hann þá upplýsasóknaraðila um það. Viðbrögðin bera hins vegar ekki með sér að varnaraðili telji ljóst í þessu samningssambandi að 200.000 króna greiðslan sé eingöngu innágreiðsla og að hann eigi rétt til að sækja endurgjald vegna allra tíma sem hann ynni til sóknaraðila. Tilboð hans þann 6. maí um 500.000 króna greiðslu til uppgjörs allrar vinnu fram að þessu tímamarki er án nokkurs áskilnaðar um frekari greiðslur síðar úr hendi vátryggingafélags sóknaraðila. Þvert á móti ber tilboðið sjálft ber með sér að boðið sé upp á fullnaðaruppgjör með þessari greiðslu. Efnislegt innihald símtala aðila í framhaldi af þessu liggur ekki fyrir, en ekkert í þeim samskiptum sem á eftir fóru í tölvupósti eða með útgáfu nýrra reikninga nr. 106 og 107 var til þess fallið að gefa sóknaraðilum til kynna að varnaraðili væri að innheimta innágreiðslur, en að þau væru ábyrg fyrir mun hærri málskostnaði við endanlegt uppgjör. Fæst ekki séð, í ljósi þessara samskipta, að varnaraðili geti, án samráðs við sóknaraðila, samið við Lýsingu um greiðslu ákveðins málskostnaðar, en krafið þau eða tryggingafélag þeirra um það sem þá vantar á að hann fái allar vinnustundir sínar greiddar. Miklu nærtækara er að leggja þann skilning í samningssamband aðila að gjaldtakan hjá sóknaraðilum hafi takmarkast við þessa föstu fjárhæð fyrir að þingfesta málin. Verður varnaraðili að bera hallann af því að hafa ekki samið með skriflegum og skýrum hætti um annað.

Ekkert í samskiptum aðila styður heldur að varnaraðili hafi samið við sóknaraðila um að hann gæti sótt bætur í réttaraðstoðartryggingu þeirra, umfram það sem hann innheimti hjá þeim sjálfum.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður talið ágreiningslaust að varnaraðila beri 107.773 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum fyrir lögmannsstörf í þágu sóknaraðila sem féllu utan við fyrrgreind Lýsingarmál. Þá verður talið að greiðsluskylda sóknaraðilafram að þingfestingu þeirra  mála takmarkist við þá föstu greiðslu að fjárhæð kr. 200.000 sem samið var um að þau inntu af hendi við stefnubirtingar, vegna hvors máls. Loks verður talið ágreiningslaust að kærða beri greiðsla úr hendi kærenda samkvæmt tímaskrá sinni fyrir 12 tíma vinnu sem hann innti af hendi í Lýsingarmálunum eftir að þau voru þingfest og gengið var frá fyrrgreindu uppgjöri fyrir það. Þar sem kærði hafði sjálfur innheimt tímagjald að fjárhæð 22.900 hjá kærendum og hefur ekki í höndum neinn samning til að styðja við kröfu sína um hærra tímagjald, verður talið að hann sé við það bundinn.  Samkvæmt þessi hefur kærði innheimt hjá Lýsingu fullan málskostnað vegna málareksturs síns á hendur félaginu og verður talinn við hann bundinn, en kærendur eiga ekki rétt á því að halda neinu eftir af þeim málskostnaði sem kærði innheimti vegna málanna.Verður því talið að sanngjarnt og umsamið endurgjald fyrir öll störf varnaraðila í þágu sóknaraðila sé annarsvegar umrædd greiðsla frá Lýsingu og hins vegar ágreiningslaus greiðsla vegna aukaverka, eða alls kr. 983.923 að virðisaukaskatti meðtöldum.

Rétt þykir að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hæfilegt endurgjald varnaraðila, Þ hdl., vegna allra starfa hans  í þágu sóknaraðila, K og G, í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998, er kr. 983.923 að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson