Mál 18 2015

Ár 2016, 9. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2015:

M

gegn

N, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R :

Með bréfi til úrskurðarnefndar lögmanna, dagsett 5. nóvember 2015 lagði M, hér eftir nefndur kærandi, fram kvörtun á hendur N, hrl., kærðu, vegna meintra stórfelldra mistaka við kröfugerð í skilnaðarmáli hans og fyrrum eiginkonu hans. Greinargerð kærðu, ásamt fylgiskjölum, barst úrskurðarnefnd með bréfi dagsettu 1. desember 2015, og með bréfi dagsettu 15. desember 2015 skilaði kærandi athugasemdum sínum við greinargerð kærðu. Með bréfi dagsettu 18. maí 2016, lagði kærandi fram viðbótar greinargerð í málinu, ásamt gögnum og bárust úrskurðarnefnd viðbrögð kærðu við þeim með bréfi dags. 10. júní 2016.

 

Málavextir, kröfur og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að kærandi og þáverandi eiginkona hans leituðu til kærðu á árinu 2012 í tengslum við skilnaðarmál þeirra en slitnað hafði upp úr sam­vistum þeirra í ársbyrjun 2012. Tilgangurinn var að fá aðstoð kærðu við að ganga frá samningum um skilnaðarkjör. Um mitt ár 2012 ákvað fyrrverandi eiginkona kæranda hins vegar að fá sér annan lögmann og fól hún V hrl. að gæta hagsmuna sinna í málinu. Kærða gætti hins vegar áfram hagsmuna kæranda í málinu.

 

Verulegur ágreiningur var uppi á milli málsaðila og snéri hann bæði að eiginlegum fjárskiptum og skyldu kæranda til greiðslu meðlags með börnum þeirra og lífeyris til fyrrverandi maka. Á fyrri hluta árs 2013 úrskurðaði sýslumaðurinn í Reykjavík að kærandi skyldi greiða einfalt meðlag með börnunum en kröfu konunnar um lífeyri var hins vegar hafnað. Áður hafði sýslumaður hafnað kröfu konunnar um skilnað að borði og sæng á þeim forsendum að ekki væri unnt að að veita leyfi til skilnaðar á borði og sæng nema annað hvort lægi fyrir samkomulag um fjárskipti á grundvelli 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eða úrskurður um opinber skipti sbr. 44. gr. sömu laga.

 

Í framhaldi af ákvörðun sýslumanns stefndi konan kæranda fyrir dóm þar sem hún krafðist skilnaðar á borði og sæng. Kærandi mótmæli ekki kröfu konunnar fyrir dómi, enda hafði hann þegar samþykkt kröfu hennar um skilnað undir rekstri málsins hjá sýslumanni. Af þeim sökum skilaði kærða ekki greinargerð í málinu fyrir hönd kær­anda, en mótmælti hins vegar kröfu konunnar um málskostnað við fyrirtöku í málinu x. x 2014. Málið var dómtekið og fallist á kröfu konunnar um skilnað. Jafnframt var kæranda samkvæmt dómsniðurstöðu gert að greiða konunni málskostnað að fjárhæð kr. 150.600 að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

Kærandi var ósáttur við niðurstöðu héraðsdóms og taldi að dómurinn hefði tekið mið af kröfugerð konunnar sem lýst hafi málsatvikum einhliða. Kærandi var einnig ósáttur við niðurstöðu dómsins varðandi málskostnað. Kærða taldi dóminn byggðan á röng­um forsendum þar sem skilyrði hjúskaparlaga væru ekki uppfyllt. Var málinu áfrýjað til Hæstaréttar.

 

Fyrir Hæstarétti krafist kærða þess f.h. kæranda aðallega að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju en til vara að ákvörðun héraðsdóms um að kærandi greiddi fyrrverandi eiginkonu sinni málskostnað yrði breytt þannig að konunni yrði gert að greiða kæranda máls­kostnað í héraði að fjárhæð 150.600 krónur. Þá krafðist kærða málskostnaðar fyrir Hæstarétti fyrir hönd kæranda. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti féll kærða frá aðalkröfu í málinu.

 

Í dómi Hæstaréttar Íslands, sem kveðinn var upp x. x 2014, var málinu vísað frá dómi og kæranda gert að greiða konunni kr. 300.000 í málskostnað. Byggði rétturinn niðurstöðu sína á því að þó svo kærða hafi mótmælt málskostnaðarkröfu konunnar undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi hafi kærða ekki gert kröfu um málskostnað úr hendi konunnar. Af þeim sökum gæti krafa þar um ekki komið til úrlausnar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.

 

II.

Kærandi fer fram á að úrskurðarnefnd lögmanna meti hvort meint óvönduð vinnu­brögð kærðu brjóti gegn siðareglum lögmanna.

 

Af kvörtun kæranda má ráða að hann sé ósáttur við að kærða hafi ekki stefnt í málinu inn fyrir hans hönd í ljósi þess að lögmanninum hafi átt að vera ljóst að hann vildi losna úr umræddum hjúskap. Hafi kærðu mátt vera ljóst að hvílt hafi þungt á kæranda að vera haldið í hjúskap og það hafi verið kæranda mikið persónulegt áfall að fá í hendur dóm þar sem því hafi verið slegið föstu að hann hafi ranglega haldið konunni í hjúskap gegn vilja hennar. Þá telur kærandi að kærða hafi gert mistök í málinu með því að fallast á málskostnaðarkröfu stefnanda í héraði og aftur með því að áfrýja máls­kostnaðarkröfunni til Hæstaréttar. Hafi mistökin haft í för með sér verulegar fjárhags­legar afleiðingar fyrir kæranda.

 

Þá fer kærandi fram á að úrskurðarnefnd leggi mat á það hvort Facebook-vinskapur kærðu og lögmanns gagnaðila í umræddu máli geti talist eðlilegur út frá siðareglum lögmanna.

 

III.

Í greinargerð kærðu er vísað til þess að kæranda hafi verið kynnt skilnaðarkrafa fyrrum eiginkonu hans við fyrirtöku hjá sýslumanninum í Reykjavík 18. febrúar 2013. Hafi kærandi samþykkt kröfuna líkt og bókað væri í hjónaskilnaðarbók. Hins vegar hafi legið fyrir ágreiningur um aðra þætti eins og meðlag, lífeyri og fjárskipti. Kær­andi hafi ekki haft uppi mótmæli við kröfu fyrrum eiginkonu hans þegar hún stefndi kæranda fyrir dóm til skilnaðar á borði og sæng. Af þeim sökum hafi greinargerð ekki verið skilað í málinu. Kærða hafi mætt af hálfu kæranda í fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. janúar 2014 þar sem afstaða kæranda til málsins var kynnt. Hins vegar hafi kröfu gagnaðila um málskostnað verið mótmælt á sama tíma. Málið hafi verið dómtekið og leyfi veitt til skilnaðar á borði og sæng. Fyrir liggi að kærandi hafi ein­dregið viljað skilja við konuna. Þegar af þeirri ástæðu hafi ekki komið til greina að mótmæla kröfu hennar um skilnað eða krefjast sýknu fyrir dómi. Þá hafi legið fyrir að ekki hafi verið unnt að veita leyfi til skilnaðar nema annað hvort lægi fyrir samkomu­lag samkvæmt 1. mgr. 96. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eða úrskurður um opinber skipti sbr. 44. gr. sömu laga. Hvorugt þessara skilyrða hafi verið fyrir hendi þegar dómurinn var kveðinn upp. Í greinargerð vísar kærða til þess að opinber skipti hefjist ekki við framlagningu beiðni um opinber skipti, auk þess sem óvíst sé hvort skilyrði fyrir opinberum skiptum hafi verið fyrir hendi í umrædd sinn, þegar litið er til þess að skuldir aðila voru umfram eignir.

 

Varðandi óánægju kæranda með niðurstöðu dómsins, þar sem byggt var einhliða á málsatvikum eins og þeim var lýst af gagnaðila, þá tekur kærða undir þau sjónarmið sem liggja að baki óánægju kæranda, enda hafi kærða verið þeirrar skoðuanr að dóm-urinn hafi verið byggður á röngum forsendum. Því hafi málinu verið áfrýjað til Hæsta­réttar. Hins vegar hafi samkomulag legið fyrir um fjárrskiptin þegar málið var tekið fyrir í Hæstarétti og konan verið búin að afturkalla beiðni um opinber skipti. Af þeim sökum hafi kærandi ekki haft aðra lögvarða hagsmuni en þá sem vörðuðu mótmæli hans við málskostnaðarkröfu konunnar.

 

Varðandi þann hluta kvörtunarinnar sem lítur að meintum óvönduðum vinnubrögðum kærðu sem leitt hafi til þess að kærandi var dæmdur til greiðslu málskostnaðar, þá hafnar kærða þeim ávirðingum og bendir á að vandséð sé hvernig skrifleg greinargerð geti hafa breytt niðurstöðu dóms þegar dómkrafa kæranda laut að því að samþykkja stefnukröfuna. Þá sé það misskilningur hjá kæranda að kærða hafi ekki mótmælt málskostnaðarkröfunni, enda liggi fyrir bókun í þingbók þess efnis. Telur kærða að hún hafi gætt hagsmuna kæranda í hvívetna.

 

Hvað varðar vináttu kærðu og lögmanns gagnaðila í því máli sem um um ræðir, vísar kærða til þess að hún sé í samskiptum við fjölda lögmanna í gegnum Facebook og hafnar því alfarið að slík samskipti rýri trúverðuleika hennar í störfum hennar sem lögmaður. Hafnar kærða því alfarið að tengsl hennar við lögmann gagnaðila hafi með einhverjum hætti komið niður á hagsmunagæslu fyrir kæranda í umrætt sinn.

Niðurstaða.

I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. lagt fram kvörtun á hendur lög­manninum fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna, ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni sam­visku.

 

II.

Aðfinnslur kæranda lúta einkum að því að kærða hafi ekki gætt hagsmuna hans í því máli sem um ræðir með fullnægjandi hætti. Þannig hafa kærða ekki stefnt málinu inn fyrir hans hönd í upphafi auk þess sem kærða hafi gert mistök í málinu með því að fallast á málskostnaðarkröfu stefnanda í héraði og aftur með því að áfrýja málskostn­aðarkröfunni til Hæstaréttar. Loks gerir kærandi athugasemd við meintan vinsskap kærðu og lögmanns gagnaðila í málinu.

 

A.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda kynnt skilnaðarkrafa fyrrum eiginkonu hans við fyrirtöku hjá sýslumanninum í Reykjavík 18. febrúar 2013. Samþykkti kærandi þá kröfu líkt og bókað er í hjónaskilnaðarbók embættisins. Vegna ágreinings um greiðslu meðlags, lífeyris og fjárskipti hafi hins vegar ekki verið hægt að gefa út leyfi til skiln­aðar á borði og sæng að mati kærðu. Í ljósi þess að ekki var ágreiningur milli aðila um skilnaðinn og reyndar eindreginn vilji kæranda til þess verður að líta svo á að ekki hafi hvílt sjálfstæð skylda á kærðu til að stefna málinu fyrir dómstóla, a.m.k. ekki fyrr en reynt hafði verið til hlítar að leysa úr ágreiningi um fjárskipti, meðlagsgreiðslur og greiðslu makalífeyris. Á grundvelli sameiginlegs vilja málsaðila um skilnað var ekki krafist sýknu eða höfð uppi mótmæli af hálfu kæranda við skilnaðarkröfu fyrrum eiginkonu hans fyrir héraðsdómi. Enda þótt ætla megi lögmönnum visst svigrúm við mat á því hvort skila beri greinargerð í máli sem þessu, sérstaklega þegar hafðir eru í huga fjárhagslegir hagsmunir skjólstæðinga, telur úrskurðarnefnd lögmanna að miðað við framvindu málsins og hvernig það var rekið fyrir Hæstarétti, hefði hagsmunir kæranda verið betur borgið með skilum á greinargerð í héraði þar sem gerð hefði ver­ið grein fyrir og rökstutt hvers vegna fallist væri á kröfu um skilnað, en málskostnaðar jafnframt krafist. Einnig er það mat úrskurðarnefndar að kærðu hefði mátt vera ljóst að áfrýjun málsins til Hæstaréttar gat ekki gengið upp eins og málið lá fyrir í héraði.

Með vísan til framangreinds og eins og málum var háttað, verður að líta svo á að kærða hafi vanrækt skyldur sínar sem lögmaður hvað þetta kæruatriði varðar.

 

Varðandi það umkvörtunarefni kæranda að kærða hafi ekki mótmælt málskostnaðar­kröfu fyrrum eiginkonu hans fyrir dómi þá liggur fyrir að við fyrirtöku í málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 8. janúar 2014 lét kærða bóka mótmæli við kröfu stefnanda um málskostnað. Verður því ekki talið að kærða hafi gert mistök hvað þennan þátt varðar.

 

B.

Fyrir liggur í málinu að kærða áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar fyrir hönd kæranda þar sem þess var krafist aðallega að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju en til vara að ákvörðun héraðsdóms um að kærandi greiddi stefndu málskostnað yrði breytt þannig að stefndu yrði gert að greiða áfrýjanda, þ.e. kæranda, málskostnað í héraði, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Þá liggur það fyrir að við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti féll kærða frá aðalkröfu í málinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar varðandi varakröfuna kemur fram að kærða hafi í þinghaldi í héraði x. janúar 2014, samþykkt kröfu fyrrverandi eiginkonu kæranda um skilnað að borði og sæng, sbr. 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991, en mótmælt kröfu hennar um málskostnað. Hins vegar hafi kærða ekki gert kröfu um málskostnað úr hendi gagnaðila í héraði. Af þeim sökum geti krafa þar um ekki komið til úrlausnar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Var málinu þegar af þeirri ástæðu vísað frá Hæstarétti.

 

Við áfrýjun málsins til Hæstaréttar lá fyrir að málsaðilar höfðu náð sátt um skilnaðar­kjör. Með því brustu í raun forsendur fyrir aðalkröfu í málinu fyrir Hæstarétti líkt og fram kemur í greinargerð kærðu. Úrskurðarnefnd lögmanna telur hins vegar að kærðu hefði mátt vera ljóst að með því að gera ekki kröfu um málskostnað í héraði fyrir hönd skjólstæðings síns hafi forsendur fyrir áfrýjun málsins í heild brostið um leið og fallið var frá aðalkröfu í málinu fyrir Hæstarétti. Í ljósi þessa verði að líta svo á að kröfugerð kærðu í héraði hafi verið ábótavant. Verði því að telja þessi vanhöld á hagsmunagæslu kærðu í málinu aðfinnsluverð.

 

C.

Í kvörtun sinni til úrskurðarnefndar gerir kærandi athugasemd við vinskap kærðu og lögmanns gagnaðila á samfélagsmiðlinum Facebook, sem hann telur óeðlilegan. Sam­kvæmt 9. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni skylt að gera skjólstæðingi sínum kunn­ugt hvaðeina, er kann að gera hann háðan gagnaðila eða gera tortryggilega afstöðu hans til gagnaðila, svo sem frændsemi, samstarf, fjárhagslega hagsmuni eða önnur slík tengsl. Enda þótt tengsl í gegnum Facebook geti verið og séu gjarnan samskiptavettvangur aðila sem tengjast fjölskyldu- og/eða vinaböndum, þá hefur þessi miðill mun víðtæk­ari skírskotun, ma.a. sem nokkurs konar tengslanet fag- eða starfshópa, fólks sem deilir sama áhugamáli o.s.frv. Ekki verður annað ráðið af svörum kærðu í málinu en að tengsl hennar við lögmann gagnaðila falli undir síðari katagoríuna. Lítur úrskurðar­nefnd því svo á að ekkert í tengslum kærðu og lögmanns gagnaðila á Facebook sé til þess fallið að gera afstöðu kærðu tortryggilega gagnvart lögmanni gangaðila. Verði kærða því ekki talin hafa gerst brotleg við ákvæði 9. gr. siðareglna lögmanna.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærðu, N, hrl. að hafa ekki frumkvæði að því að stefna málinu fyrir hönd kæranda er ekki aðfinnsluverð. Sú ráðstöfun kærðu að skila ekki greinargerð í málinu í héraði fyrir hönd kæranda og krefjast málskostnaðar, sem síðar leiddi til frávísunar málsins frá Hæstarétti, verður að teljast aðfinnsluverð í ljósi framgangs málsins. Tengsl kærðu og lögmanns gagnaðila á samfélagsmiðlinum Facebook eru ekki aðfinnsluverð.

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA