Mál 19 2015

Ár 2016, föstudaginn 4.nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 19/2015:

S hdl.

gegn

H, A og U ehf.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 13. nóvember 2015 erindi sóknaraðila, S hdl. þar sem þess er krafist að úrskurðarnefndin skeri úr um rétt hans til að fá greiddar eftirstöðvar af áskilinni þóknun fyrir vinnu í þágu H og A, að fjárhæð 2.318.846, úr hendi varnaraðila.

 

Að fengnum skýringum sóknaraðila á aðild málsins varnarmegin var óskað eftir greinargerð sóknaraðila. Illa gekk að koma bréfasendingum til skila með staðfestum hætti ásamt gögnum málsins, en þau voru þá þegar óvenjulega mikil að vöxtum. Stefnuvottur kom bréfi nefndarinnar til skila þann 3. desember 2015. Lögmaður varnaraðila skilaði í framhaldi af því greinargerð í málinu, en hún mislagðist á skrifstofu félagsins og var kynnt sóknaraðila með bréfi 6. apríl 2016. Sóknaraðili óskaði eftir lengdum fresti til að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila og var hann veittur. Athugasemdir bárust 23. maí en voru vegna mistaka ekki sendar varnaraðilum fyrr en 20. júní. Lokaathugasemdir varnaraðila bárust 25. ágúst 2016 og sóknaraðili sendi athugasemdir vegna þeirra 8. september. Þær voru kynntar varnaraðila með bréfi dagsettu 8. september.

 

Málsatvik og málsástæður

I

Eftir því sem gögn málsins bera með sér hefur varnaraðilinn H stundað atvinnurekstur. Um skeið var þessi atvinnurekstur í tveimur félögum, K ehf. og J ehf. Það hallaði undan fæti í rekstri félaganna, en H var í ábyrgðum vegna þeirra.  Sendi hún sóknaraðila tölvuskeyti þann 17. janúar 2014 og óskaði liðsinnis hans vegna gjaldþrots fyrirtækis sem hún væri í ábyrgðum fyrir. Kvaðst hún málið vera nokkuð flókið í þessum pósti og sæi hún ekki annað til ráða en að ráða sér lögfræðing sem væri tilbúinn til að setja sig inn í málið og fylgja henni til enda.

Deila aðila í máli þessu snýr ekki síst að umfangni þeirra starfa sem sóknaraðili tók að sér fyrir varnaraðila í framhaldi af þessu, en þau áttu eftir að verða nokkur. Verður hér gerð stuttlega grein fyrir þessum málum og sjónarmiðum aðila um umfang þeirra.

Þrotabú K ehf. og Þrotabú J ehf.

 

Um var að ræða tvö einkahlutafélög í eigu varnaraðila H og var hún í ábyrgðum vegna þeirra. Kveður sóknaraðili nýjar upplýsingar stöðugt hafa bæst inn vegna búanna. Hafi lager í eigu annars félagsins verið tvíveðsettur og hafi skiptastjóri haft í hyggju að kæra H vegna þessa. Þá hafi hún hvorki afhent lager né bókhald annars félagsins og skiptastjóri áformað að kveðja hana fyrir dóm vegna þess. Einnig hafi hún fært hagsmuni þrotabúanna yfir í nýtt félag sitt, U ehf., án þess að skriflegir samningar hafi verið gerðir um það. Í þrotabúi Kr hafi færri álitaefni verið uppi sem kölluðu á vinnu sóknaraðila, en þó bendir hann á að hann hafi aðstoðað við að kaupa lagerinn af skiptastjóra. Í báðum þessum þrotabúum telur sóknaraðili sig hafa aðstoðað við að svara ýmsum athugasemdum skiptastjóra við millifærslur út af reikningum félaganna. Varnaraðilar telja að um hafi verið að ræða minniháttar ráðgjöf og aðstoð vegna málefni þrotabúanna. Hafi hún að mestu verið afmörkuð við mætingu í skýrslutöku hjá skiptastjóra og minni háttar tölvupóstsamskipti við kröfuhafa og skiptastjóra. Í fram lögðum gögnum varnaraðila í málinu kemur fram að varnaraðilinn H hefur sætt rannsókn sérstaks saksóknara í ágúst 2015 vegna ráðstafana á vörulager, en ekki liggur fyrir hvort sú rannsókn hafi verið leidd til lykta.

 

Dómsmál vegna stefnu Arion banka vegna ábyrgða H fyrir K ehf.

Kröfum var beint að varnaraðilanum H í kjölfar gjaldþrots þessara félaga hennar. Bárust henni sex stefnur vegna ábyrgða sem hún hafði verið í fyrir félögin. Kom sóknaraðili að því að semja við a.m.k. einn þessara kröfuhafa um skuldauppgjör auk þess sem hann tók til varna í einu þessara mála þar til fram kom krafa um gjaldþrotaskipti á búi H sjálfrar. Af hálfu varnaraðila er á hinn bóginn á því byggt að sóknaraðili hafi lagt litla vinnu í þessa samninga. Fram lögð gögn sýni að samskipti hans við MP banka hafi einkum falist í því að framsenda bankanum athugasemdir varnaraðilans H.

 

Þrotabú H, m.a. varnir fyrir dómi vegna gjaldþrotakröfu

Sóknaraðili tók til varna gegn kröfu um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðilans H. Þá freistaði hann þess, eftir að búið var tekið til skipta, að semja við skiptastjóra um greiðslur til kröfuhafa sem myndu duga til að skiptin yrðu afturkölluð. Varnaraðilar gera fyrir sitt leyti þá athugasemd við þetta verkefni að sóknaraðila hafi láðst að sækja um gjafsókn í þessu gjaldþrotamáli eða að vekja athygli H á þeim möguleika. Þá hljóti að orka tvímælis að halda uppi vörnum í málinu í ljósi þess hvernig staða hennar var orðin á þessum tíma. Það hafi staðið upp á sóknaraðila að veita henni hlutlæga ráðgjöf um stöðuna eins og hún var orðin.

 

Kaup sonar H og A á sumarbústað

Varnaraðili H hafði fest kaup á sumarbústað í Grímsnesi, en síðan framselt hann til sonar síns. Fyrri eigandi hafði hins vegar enn ekki fengið greitt að fullu fyrir bústaðinn og ekki gefið út afsal, en innheimtur fasteignagjalda beindust fyrir vikið að honum. Höfðaði seljandi þessi innheimtumál á hendur syninum. Einnig rifti skiptastjóri í búi H eignayfirfærslunni til sonar hennar. Sóknaraðili stóð í samningaviðræðum vegna þessa, bæði við seljandann og skiptastjórann. Í málatilbúnaði varnaraðila kemur fram að þrotabú H hafi þrátt fyrir þetta höfðað riftunarmál á hendur syninum fyrir héraðsdómi Suðurlands. Þá hafna varnaraðilar því að þau beri greiðsluskyldu vegna þessara starfa sóknaraðila í þágu sonarins. Hann eigi ekki aðild að þessu máli. Þá átelja varnaraðilar að sóknaraðili lýsi í erindi sínu málsatvikum svo að framsalið hafi verið í því skyni að koma sumarbústaðnum undan kröfuhöfum. Um þetta sé deilt í riftunarmálinu og þessi framsetning sóknaraðila á málinu samræmist ekki góðum lögmannsháttum.

 

Kærumál vegna E ehf.

Fyrirtæki þetta annaðist viðgerð á heitum potti í umræddum sumarbústað, en varnaraðili H taldi að viðgerðin hefði ekki verið fullnægjandi. Fór svo að sóknaraðili kærði málið til úrskurðarnefndar lausafjár- og þjónustukaupa í nafni sonarins auk þess að svara greinargerð gagnaðila til nefndarinnar. Í fram lögðum skjölum varnaraðila kemur hins vegar fram að þrátt fyrir þennan málarekstur fyrir nefndinni hafi E ehf. höfðað dómsmál á hendur varnaraðila U ehf. til innheimtu skuldar vegna viðgerðarinnar, en það virðist hafa gerst eftir að sóknaraðili hætti störfum fyrir varnaraðila. Málinu var lokið með hlutagreiðslu og sátt. Varnaraðilar telja þennan málarekstur sóknaraðila f.h. sonarins ekki skapa sér greiðsluskyldu. Þá hafi málareksturinn verið þýðingarlaus og við legið að hann ylli réttarspjöllum. Loks hafi sóknaraðili aldrei gefið út neinn reikning vegna hans.

 

Uppboðsmál vegna fasteignar að Ási

Arion banki krafðist nauðungarsölu á fasteign varnaraðilanna A og H. Sóknaraðili freistaði þess að semja við bankann um lausn málsins, en það gekk illa. Af fram lögðum gögnum má sjá að sóknaraðili reyndi ítrekað að fá þann starfsmanna bankans sem vann að innheimtumálinu til að ræða við sig um hvernig bankinn liti á hugsanlega samninga um málið. Fyrstu viðbrögð í júní 2007 voru neikvæð og vísaði þessi starfsmaður þá m.a. til grunsemda um sviksamlega háttsemi varnaraðilans H. Sóknaraðili hefur síðan lagt fram allmörg stutt tölvuskeyti sem sýna að hann ýtti á eftir því að fá svör frá þessum starfsmanni, langt fram eftir hausti 2007, en sum þessi skeyti bera raunar með sér að varða önnur mál en mál varnaraðila.  Fundur var haldinn í bankanum með þessum starfsmanni 22. október 2014. Eftir það lét umræddur starfsmaður bankans skyndilega af störfum. Kveður sóknaraðili málið hafa verið í lausu lofti innan bankans eftir það um langt skeið og símtöl sín í bankann til að ýta því áfram hafi engan árangur borið.

 

Varnaraðilar telja gögn málsins bera með sér að ekkert hafi verið aðhafst af hálfu sóknaraðila í þessu máli þeirra frá október 2014 þegar uppboðsmeðferð var frestað á grundvelli laga 130/2013 og allt fram í maí 2015. Þau samskipti sem urðu þá benda til þess að bankinn hafi ekki haft neinn áhuga á því að semja frekar við gerðarþola í þessu nauðungarsölumáli. Var hugmyndum sóknaraðila um samninga neitað. Að þeirri niðurstöðu fenginni stakk sóknaraðili upp á því við lögmann bankans 26. júní 2015 að gerðarþolinn A myndi greiða bankanum 2 milljónir og svo 500.000 á mánuði í 6 mánuði gegn auknum samþykkisfresti og að unnið yrði að því að hann leysti eignina til sín. Gekk bankinn að því að lengja samþykkisfrestinn gegn þessum skilmálum en undirstrikaði að það fæli ekki í sér loforð um að gengið yrði að hugmyndum sóknaraðila um samninga á samþykkisfrestinum.

 

Varnaraðilar telja gögn málsins sýna að vinna sóknaraðila að samningum við Arion banka vegna þessa máls hafi verið hverfandi lítil og að raunar hafi hann vanrækt málið verulega. Draga þeir fram að athugasemdum H í mars 2014 um fjárhæð reiknings hafi verði svarað með því að mikil vinna hefði  verið lögð í samningaviðræður við Arion banka. Skoðun á gögnum málsins leiði þó í ljós að engin samskipti hafi verið við bankann á þessum tíma. Þá komi fram í tölvuskeyti bankans frá 30. júní 2015 að nægur tími hafi verið til að semja. Hafi sóknaraðili lagt tvær tillögur fyrir bankann 20. apríl og 4. júní 2015 en þeim báðum verið hafnað. Þann 24. júní hafi sóknaraðili óskað eftir lengri samþykkisfresti fyrir þeirra hönd, en því hafi líka verið hafnað. Í framhaldi af því hafi sóknaraðili talað um að greiða 2 milljónir inn á lánið fyrir uppboð og greiða 500.000 kr. á mánuði inn á lánin í samþykkisfrestinum. Það hafi verið samþykkt. Varnaraðilar telja gögn málsins sýna að sóknaraðili hafi ekki einu sinni komið verðmati á fasteigninni sem þau öfluðu áfram til bankans.

Í framhaldi af því að sóknaraðila tókst ekki að knýja Arion banka til neinna samninga um lausn málsins eða frestun uppboðsins slitnaði upp úr samstarfi aðila, en A tilkynnti sóknaraðila þann 29. júní að hann myndi ekki nýta sér þjónustu sóknaraðila í sínum málum.

 

Auk þeirra meginverkefna sem að ofan eru rakin vann sóknaraðili að ýmsum smærri verkefnum s.s. yfirtöku varnaraðilans U ehf. á leigusamningi í Smáralind, skuldaleiðréttingu fasteignaveðlána og yfirferð skattframtala. Þá  kveðst sóknaraðili hafa veitt varnaraðila H margs konar ráðleggingar um ýmis lögfræðileg efni, en hún hafi iðulega sent sér ýmis konar erindi. Bendir hann í dæmaskyni á tölvuskeyti þar sem óskað var álits hans á leigumálefnum konu sem vann með varnaraðilanum, um málefni tengd fatnaði saumuðum á EES svæðinu og um innflutning á dýrafóðri.

 

Sóknaraðili gaf út reikninga á varnaraðilann U ehf. í nafni tveggja félaga sem hann hafði um rekstur lögmannsþjónustu sinnar. Reikningar frá félaginu LS eru dagsettir frá 23. janúar 2014 til 31. júlí 2014. Reikningar frá félaginu A ehf. eru dagsettir frá 1. september 2014 til 1. júní 2015. Reikningarnir eru samtals að fjárhæð kr. 3.236.746. Varnaraðilinn U ehf. greiddi samkvæmt framlögðum millifærslukvittunum kr. 2.824.271 inn á þessar kröfur frá janúar 2014 og allt fram til 20. júní 2015.

 

Fram hafa verið lagðir tölvupóstar þar sem sóknaraðili og varnaraðilinn H ræða um áfallinn kostnað vegna vinnu sóknaraðila. Þegar þann 9. mars 2014 óskar hún skýringa og sundurliðunar vegna áfallins kostnaðar en þá var búið að setja greiðsluseðla í heimabanka U ehf. að fjárhæð 700.000. Þann 22. apríl sendi hún sóknaraðila aftur fyrirspurn um það í hverju kostnaður lægi, en hann væri kominn yfir milljón sem henni þyki „rosalega mikið". Spyr hún út í tímafjölda vegna þessa. Sóknaraðili svaraði henni samdægurs á þeim nótum að málið væri margþætt og nefnir nokkra þætti þess. 14,25 tímar hafi farið í málið í síðasta mánuði (mars), þetta sé „minna núna". Loks áréttar hann mikilvægi þess að leiða mál varnaraðila til lykta og kynnir henni að hann sé búinn að fá samþykki hjá framkvæmdastjóra lögfræðistofunnar til að fella niður 25% af síðasta reikningi. Þann 19. febrúar 2015 skrifaði varnaraðilinn H enn tölvupóst til sóknaraðila og óskaði eftir betri skilgreiningu á því hvað hún sé búin að borga. Segir svo í þessu skeyti „Þetta er orðin mjög há upphæð og ekkert í hendi . M.ö.o. ég þarf að vita hvað er á bak við þennan reikning. Þetta er komið yfir 2,5 milljónir í heildina"

 

Þennan sama dag svaraði sóknaraðili orðsendingu þessari með svofelldum hætti  „Sæl H, varðandi kostnaðinn þá skal á það bent að ég hef lokað 2 þrotamálum, rekið dómsmál og átt í samskiptum og unnið í skuldamálum fyrir þig og veitt þér ráðgjöf í öðrum málum í yfir ár, nú er ég að vinna í þrotamáli sem tengist þér persónulega ásamt því að vinna í eignaflækju sem tengist bústaðnum, bakvið síðasta reikning er ca 9 tíma vinna í einn mánuð, ég stoppa alla vinnu í málinu meðan reikningurinn er ógreiddur. Ég veit að kostnaðurinn er eflaust hár en vinnan hefur líka verið mikil og árangursrík að mínu mati enda hagsmunir miklir, þú hefur jafnframt nýtt vsk af þessari vinnu þannig kostnaður er lægri en ella, ég sendi þér yfirlit eftir helgi en á meðan er ég ekkert að aðhafast frekar í málinu, þú lætur mig líka vita ef þú telur þig ekki ráða við þetta ég myndi þá fella niður útistandandi reikning og þú tækir málið yfir, heyrumst eftir helgi." Varnaraðilinn H svaraði þessu með þeirri athugasemd að K málinu væri ekki lokið og að sóknaraðili vissi hvað væri í gangi þar.

 

Þá fylgdi sóknaraðili þessu eftir með öðrum tölvupósti þann 23. febrúar þar sem segir „Sjá meðfylgjandi tímaskýrslu [...] Eins og þú sérð þá er ég ekki að rukka nærri alla mína tíma en samkvæmt þessari skýrslu er ég búinn að vinna fyrir kr. 3,6 milljónir þannig að ég hef gefið mikinn afslátt af minni vinnu. Ég er enn tilbúinn að koma til móts við þig og gefa þér afslátt af síðasta reikningi og færa hann niður í 130.000 kr. með vsk. og færa tímagjaldið niður í 12.500 kr. pr. tímann plús vsk. frá og með næstu mánaðamótum en rétt tímagjald hjá okkur er 17.800 kr. pr. tímann plús vsk.  Meira get ég ekki gert og því þarf ég að biðja þig um að ganga  frá greiðslunni fyrir helgi eða í síðasta lagi nk. föstudag."

 

Þegar leið fram á sumarið 2015 virðist vinna sóknaraðila einkum hafa farið að snúast um viðræður við Arion banka vegna nauðungarsölu á fasteign varnaraðilanna H og A. Óumdeilt er að sá starfsmaður bankans sem hafði haldið utan um þessa samninga lét óvænt af störfum í bankanum. Þá liggur fyrir að vanskil voru orðin veruleg og að samningar voru erfiðir, enda hafði bú varnaraðilans H verið tekið til skipta þegar þarna var komið sögu. Þegar kom fram í júnílok 2015 virðast varnaraðilar hafa orðið efins um að málið væri á réttri leið í höndum sóknaraðila. Föstudaginn 26. júní sendu þau honum fyrirspurn um á hvaða grundvelli hann ætli að sækja um frestun uppboðs. Sóknaraðili svaraði því með tölvuskeyti samdægurs þar sem hann fer yfir gang og stöðu uppboðsmálsins. Mánudaginn 29. júní sendi sóknaraðili varnaraðilum tölvupóst þar sem hann fer yfir framvindu málsins og þýðingu framhaldssölu á húsinu. Þá sendir hann varnaraðilum annan tölvupóst sama dag þar sem segir.

„Sæl aftur, sá póst frá Arion-banka hér fyrir neðan, ég mun vinna þetta út frá þessari nálgun, þar er að segja að vinna þetta svona, við gerum samt ekkert fyrr en ég hef fundað aftur með bankanum eftir uppboðið, ég vil því biðja ykkur um að fylgja ráðleggingum mínum í þessu:

Sæll S

.....A greiði 2 milljónir og að hann greiði 500 þúsund á mánuði á samþykkisfrestinum...

Það skal tekið fram að ofangreint er ekki loforð um að bankinn gangi að því samkomulagi sem þú leggur upp með á samþykkisfrestinum, en við erum tilbúin til viðræðna.

Það þarf þá að greiða 2 millj. kr. inn á neðangreindan reikning og kr. 500.000 þann 1. ágúst og 1. september.

Reikningsnúmer: XXX-26-XX

kt.xxxxxx-xxxx

J Héraðsdómslögmaður

Endurskipulagning eigna og málflutningur

Lögfræðisvið"

 

Þessu svaraði varnaraðilinn A á þá leið að sóknaraðili þyrfti ekki að mæta á uppboðið og að hann myndi ekki nýta sér þjónustu sóknaraðila í sínum málum.

Í kjölfar þessa leituðu varnaraðilar leitað til annars lögmanns og fólu honum að gera kröfu um endurgreiðslu þóknunar vegna ofgreiddra reikninga. Var endurgreiðslukrafan send sóknaraðila 19. október 2015 og þess krafist að 2/3 hlutar greiddrar þóknunar yrðu endurgreiddir. Sóknaraðili brást við með því að senda varnaraðilum bréf dags. 12. nóvember 2015 þar sem hann hafnar kröfunni og grundvelli hennar og krefst greiðslu á kr. 2.318.846. Sem fyrr greinir barst úrskurðarnefnd erindi það sem er grundvöllur máls þessa daginn eftir, þann 13. nóvember 2015.

 

II.

Sóknaraðili krefst þess að að úrskurðarnefndin skeri úr um rétt hans til að fá greiddar eftirstöðvar af áskilinni þóknun fyrir vinnu í þágu H og A, að fjárhæð 2.318.846, úr hendi varnaraðila. Krefst sóknaraðili þess að nefndin kveði upp aðfararhæfan úrskurð um kröfuna. Af málatilbúnaði sóknaraðila er ljóst að virðisaukaskattur er innifalinn í þessari kröfufjárhæð.

 

Í erindi sínu rekur sóknaraðili í grófum dráttum fyrrgreind verkefni sín í þágu varnaraðila og framgang þeirra. Þá fer hann yfir samskipti aðila varðandi endurgjald hans. Áréttar hann að honum hafi aldrei verið sagt upp þeim störfum sem hann sinnti fyrir varnaraðilann H og fullnaðaruppgjör aldrei farið fram. Hann kveðst hafa talið það fullreynt þegar hann fékk endurgreiðslukröfu varnaraðila að hann myndi fá eftirstöðvar vinnu sinnar greiddar. Hafi hann því talið réttast að leita eftir úrskurði nefndarinnar um eftirstöðvarnar. Hann kannast ekki við fullyrðingar varnaraðila um að til hafi staðið að semja um málið enda hafi samtal við síðari lögmann varnaraðila ekki borið með sér neinn samningsgrundvöll. Telur hann það ekki brjóta gegn viðmiðunum um góða lögmannshætti þótt hann leiti lögbundinna úrræða til að innheimta þóknun sína.

 

Sóknaraðili telur að störf sín vegna þrotabúanna hafi verið umfangsmest, eins og tímaskýrslur hans beri með sér. Honum hafi tekist að forða því á meðan hann sinnti málunum að varnaraðilinn Halla yrði kærð til lögreglu af skiptastjórum og geti ekki borið ábyrgð á því þótt mál hafi síðar þróast á verri veg.

 

Samkvæmt þeim tímaskýrslum sem sóknaraðili leggur fram með erindi sínu innti hann af hendi alls 243,7 tíma í öllum málum tengdum varnaraðilanum H, fyrirtækjum hennar og fjölskyldu. Þar af hafi 192,6 tímar verið unnir fram að marsmánuði 2015 og má ráða af málatilbúnaði sóknaraðila og fram lögðum reikningum að hann áskilji sér 17.800 kr. tímagjald á þessu tímabili. Frá og með mars 2015 hafi hann hins vegar lækkað tímagjald sitt í kr. 12.500 og unnið 51,1 vinnustund í þágu varnaraðila. Að frádregnum kr. 2.724.271 sem sóknaraðili telur í erindinu að hafi verið greiddar, standi eftir hin umkrafða fjárhæð. Telur sóknaraðili sig hafa haldið jafnt og þétt utan um tímaskráningu sína, enda hafi ekki verið sýnt fram á annað. Í svörum hans við greinargerð varnaraðila fer hann yfir einstakar skráningar sem gerðar eru athugsemdir við, en ekki þykir nauðsynlegt að rekja þessar skráningar í heild sinni. Þá bendir sóknaraðili á einstök samskipti sem hann hafi sinnt fyrir varnaraðila án þess að tími hafi verið skráður á þau og áréttar að krafa sín sé hófleg að þessu virtu.

 

Sóknaraðili telur það hafa verið rétt að leggja öll tölvupóstsamskipti vegna málanna fram þannig að tryggt væri að allt væri uppi á borðinu. Þessa hafa varnaraðilar enda notið í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni.

Sóknaraðili telur að hafna verði öllum fjárkröfum varnaraðila enda séu þær úr lausu lofti gripnar.

 

Sóknaraðili telur kröfur varnaraðila um að hann verði beittur viðurlögum sé óskýr. Hvorki sé ljóst hvaða viðurlaga sé krafist né hvers vegna. Þá sé útilokað að fallast á kröfur varnaraðila um að hverju þeirra um sig verði úrskurðaður málskostnaður enda í raun ekki um þrjá óskylda aðila að ræða. Hann telur framsendingu sína á tölvupósti frá Arion banka vera alveg skýra, hann sé að senda þeim tilvitnun í það sem bankinn samþykkti. Úrfellingamerki (...) og merking neðst í skeytinu sýni glögglega að ekki sé verið að framsenda póst bankans í heilu lagi

 

III.

Varnaraðilar krefjast þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðilinn U ehf. þess að sóknaraðila verði gert að endurgreiða sér kr. 1.882.847 kr., en til vara aðra lægri fjárhæð að mati nefndarinnar. Krafist er aðfararhæfs úrskurðar um þessa kröfu. Þá krefjast varnaraðilar þess að sóknaraðili verði beittur viðurlögum á grundvelli 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, VII. kafla siðareglna Lögmannafélags Íslands og 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna. Loks krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

 

Að ofan eru rakin stuttlega sjónarmið varnaraðila um einstaka verkþætti í vinnu sóknaraðila. Tekið skal fram að varnaraðilar hafa jafnframt gert ítarlegar athugasemdir vegna tímaskráninga sóknaraðila í hverju máli, en ekki þykir nauðsynlegt að rekja þær allar hér.

 

Varnaraðilar gera athugasemdir við tilhögun sóknaraðila á gagnaframlagningu þegar kemur að tölvupóstsamskiptum. Sóknaraðili hefur lagt þessi samskipti fram þannig að hver póstur er prentaður út í heild sinni, jafnvel þótt honum fylgi eldri tölvupóstsamskipti. Þetta telja varnaraðilar til þess fallið að flækja og torvelda vinnslu málsins auk þess sem þetta verklag sé augljóslega viðhaft í því skyni að gefa ranglega til kynna að umrædd samskipti hafi verið miklu meiri að vöxtum en raun beri vitni.

Varnaraðilar gera einnig athugasemd við hvernig til máls þessa sé stofnað af hálfu sóknaraðila. Upphaf málsins sé í raun bréf þeirra til sóknaraðila, dags. 19. október 2015. Við því bréfi hafi sóknaraðili brugðist með ósk um frest til að bregðast við erindinu og um að fá að semja um málið þannig að það færi ekki til úrskurðarnefndarinnar. Hann hafi hins vegar nýtt þann frest til að stofna til máls þessa. Telja varnaraðilar þessi vinnubrögð ekki samrýmast góðum lögmannsháttum, sbr,. I. og IV. kafla siðareglna Lögmannafélags Íslands.

 

Varnaraðilar telja útilokað að sóknaraðili geti nú lagt fram tímaskrá vegna vinnu allt frá upphafi starfa sinna og til enda og krafist viðbótargreiðslu, án þess að reikningar hafi nokkru sinni verið gefnir út fyrir hinni umkröfðu fjárhæð. Hafi sóknaraðili ekki einu sinni krafið þau um eftirstöðvar útgefinna reikninga, sem nemi um 400.000 krónum.

Varnaraðilar telja óhjákvæmilegt að vísa fjárkröfu sóknaraðila frá þar sem ekki sé ljóst að hverjum þeirra hún beinist. Ekki sé krafist óskiptrar greiðslu eða um sjálfstæða fjárhæð frá hverju þeirra fyrir sig.

 

Varnaraðilar benda á að enginn samningur hafi verið gerður um þjónustu sóknaraðila. Telja þau að við ákvörðun þóknunar verði að líta til 1. og 2. mgr. 24. gr. laga um lögmenn

Telja varnaraðilar að ekki sé unnt að byggja á fram lögðum tímaskráningum sóknaraðila við úrlausn málsins. Þær séu ekki í nokkru samræmi við gögn málsins eða  störf sóknaraðila. Ekki sé fært á einstök mál. Þá séu ýmsar færslur tvískráðar. Sóknaraðili hafi gengið hart fram við innheimtu reikninga sinna og ítrekað hótað að hætta öllum störfum ella.

 

Þau telja einsýnt að tímaskráning og gjaldtaka sóknaraðila hafi ekki verið í samræmi við unnin störf hans. Sú staðreynd að tímaskráning sé ekki úr verkbókhaldi yfir einstök mál heldur skráð í excel, grafi enn frekar undan trúverðugleika hennar auk þess sem sumar færslur virðist margskráðar. Nefna varnaraðilar að orðasambandið „fara yfir" eða „yfirfara" komi fyrir í 40 færslum þar sem nær undantekningarlaust séu færðar 1,25 vinnustund eða meira.

Varnaraðilar telja að sóknaraðili hafi ekki rekið mál þeirra áfram með hæfilegum hraða og vísa í því samhengi sérstaklega til viðræðna við Arion banka vegna veðskulda á fasteign þeirra.

 

Varnaraðilar telja að sóknaraðili hafi í fyrsta lagi ekki upplýst þau um að Arion banki krefðist þess að fá a.m.k. fimm milljónir greiddar áður lausnir á málinu yrðu skoðaðar. Miklu alvarlegra sé þó að hann hafi án umboðs þeirra sett fram tillögu við bankann um greiðslur gegn framlengdum samþykkisfresti. Þegar bankinn hafi samþykkt þetta, hafi hann kynnt þessar tillögur sínar sem tillögur bankans. Telja varnaraðilar að þessi framganga kunni að vera refsiverð.

Varnaraðilar telja jafnframt að sóknaraðili hafi ekki gefið þeim hlutlægt álit á málum og hreinlega villt um fyrir þeim með því að klippa út hluta af tölvupóstsamskiptum sínum við Arion banka. Varðandi málskostnaðarkröfu sína benda varnaraðilar á að mál þetta hafi verið sérlega tímafrekt, m.a. vegna umfangsmikillar gagnaframlagningar sóknaraðila.

 

Niðurstaða.

I

Einar Gautur Steingrímsson hrl.víkur sæti við meðferð málsins. Ástæða þess er að í gögnum málsins eru m.a. upplýsingar sem varða deilur við skiptastjóra sem starfar á skrifstofu hans.

 

II.

Óhjákvæmilegt er að fjalla sérstaklega um aðild að máli þessu og að einstökum kröfum í því.

Að því er varðar aðild að kröfu sóknaraðila varnarmegin bendir nefndin á að ekki liggur fyrir annar samningur um störf sóknaraðila í málinu en umboð sem varnaraðili H veitti honum til að „annast hagsmunagæslu fyrir mína hönd vegna fjármála minna". Að því er varðar varnaraðilann A þá hefur hann aldrei skuldbundið sig til að greiða fyrir störf sóknaraðila og þótt ljóst sé að sóknaraðili hafi unnið að lausn nauðungarsölumáls á eign hans með vitund hans og vilja, þá verður að skoða það í því samhengi að sóknaraðili var að vinna í skuldamálum sameiganda hans að eigninni. Telst A samkvæmt þessu ekki bera greiðsluábyrgð á kröfum sóknaraðila. Bú varnaraðilans H hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 116. gr. laga um gjaldþrotaskipti, sérstaklega 1. og 3. mgr. er útilokað fyrir sóknaraðila að afla sér aðfararhæfs úrskurðar um kröfu á hendur henni og fullnusta hann, en möguleikar hans á að fullnægja kröfu sinni að þessu leyti eru takmarkaðir við þá leið sem lýst er í 117. gr. laganna.Verður því einnig að hafna því að unnt sé að koma fram fjárkröfum á varnaraðilann H í þessu máli. Skylda varnaraðilans  U ehf. styðst við það eitt að fyrirsvarsmaður félagsins, varnaraðilinn H, óskaði eftir því að sóknaraðili gæfi reikninga sína út á félagið og hefur félagið í raun greitt sóknaraðila fyrir vinnu hans að þeim málum sem hér er fjallað um. Í ljósi þessarar óskar sem óumdeilt er að sett var fram í krafti stöðu H sem fyrirsvarsmannsfélagsins og þessarar framkvæmdar þykir óhjákvæmilegt að líta svo á að félagið sé skuldbundið til greiðslu lögmannsþóknunar sóknaraðila hvað sem skattalegum úrlausnarefnum líður og verðurfjallað um kröfuna gegn félaginu. Nefndin bendir hins vegar á að sóknaraðili hefur sjálfur byggt á því í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að varnaraðilinn H hafi „gjaldfellt virðisaukaskatt af vinnu undirritaðs í félaginu sér til hagsbóta". Þá hefur sóknaraðili bent á það í tilefni af endurgreiðslukröfu varnaraðila að „Þá þarf líka að taka tilliti til þess að kærða H og A hafa látið félagið U ehf. greiða fyrir sig kostnað af lögfræðiþjónustu sem var að einhverju leyti í þeirra þágu og hefur að verið til hagsbóta fyrir þau." Það athugast að sóknaraðili hefur án athugasemda beint reikningum sínum fyrir störf í þágu varnaraðila H og fjölskyldu hennar að varnaraðilanum U ehf., þó hann teldi sjálfur, samkvæmt framangreindu að það væri gert í því skyni að komast hjá skattgreiðslum. Er þetta verulega ámælisvert.

 

Að því er varðar endurgreiðslukröfu varnaraðila þá er ljóst að það er eingöngu varnaraðilinn U ehf. sem greitt hefur til sóknaraðila enda er það aðeins þessi eini varnaraðili sem stendur að endurgreiðslukröfunni. Á hinn bóginn þykir nægilega í ljós leitt að sóknaraðili starfaði að málum sem tengdust varnaraðilunum H og A til að játa þeim báðum aðild að því að koma að kvörtun vegna starfa sóknaraðila á grundvelli 127. gr. lögmannalaga.

 

III

Í máli þessu þykir rétt að fjalla fyrst um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa sóknaraðila, en taka síðan afstöðu til þess hvort sóknaraðili hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum.

 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

 

Að ofan er rakið að varnaraðilinn U ehf. var skuldbundin af fyrirsvarsmanni sínum til að greiða fyrir þau lögmannsstörf sem hún lagði fyrir sóknaraðila að vinna. Í ljósi fram lagðra samskipta þeirra verður að líta svo á að þetta eigi við um öll þau störf sem um er fjallað í þessu máli og skipti í því samhengi ekki máli að t.d. umræddur sumarbústaður hafði verið framseldur þriðja manni eða að varnaraðilinn H hafi að einhverju leyti fengið lögfræðiráðgjöf sem um mál sem vörðuðu aðra en hana sjálfa.

 

Það athugast að reikningum sóknaraðila virðast yfirleitt ekki hafa fylgt neinar tímaskráningar. Reikningar sem gefnir voru út á tímabilinu 31. janúar 2014 til 30. júní 2014 bera þó með sér hve marga tíma er innheimt fyrir á hverjum reikningi. Má af reikningunum ráða að í júnílok 2014 hafi sóknaraðili verið búinn að innheimta fyrir um 67 stunda vinnu. Enda þótt í málinu liggi fyrir umtalsverð samskipti aðila um kostnað og reikninga og raunar fyrirspurnir frá varnaraðilanum H um skýringar á því fyrir hvaða vinnu væri verið að greiða þá virðist það fyrst vera þann 23. febrúar 2015 sem sóknaraðili sendir tímaskýrslu sína sem fylgiskjal með tölvupósti. Verður hér gengið út frá að í því fylgiskjali sé um að ræða sömu tímafjölda og í þeirri tímaskrá sem hann hefur lagt fyrir nefndina. Þá kemur fram í þessu tölvuskeyti að hún er ekki í samræmi við út gefna reikninga, heldur inniheldur vinnu fyrir 3,6 milljónir, án þess að reikningar fram að þeim tíma hafi gefið til kynna að um neinn afslátt væri að ræða. Þá ber tímaskýrslan með sér að á tímabilinu fram til 31. júní 2014 hafi sóknaraðili verið búinn að vinna í 109,4 stundir í málum varnaraðila og ber þannig mikið á milli þess sem fram kemur í útgefnum reikningum um tímafjölda og þess sem greinir í umræddum tímaskráningum. Er útilokað að ganga út frá því að mismunurinn hafi falið í sér einhvers konar afslátt eða örlætisgerning af hálfu sóknaraðila, sem hann hafi ekki gert neina grein fyrir við útgáfu reikninga sinna og sé þó ekki bundinn við. Mátti sóknaraðili treysta því eins og varnaraðili stóð að reikningaútgáfu sinni að ekki yrði um frekari gjaldtöku að ræða eftir á. Verður í ljósi ofangreinds að hafna því að mestu að leggja tímaskráningar sóknaraðila til grundvallar við úrlausn málsins og telur nefndin óhjákvæmilegt að sanngjarnt endurgjald sóknaraðila í skilningi 24. gr. lögmannalaga verði metið heildstætt með hliðsjón af gögnum málsins. Tímaskráningar sóknaraðila ásamt athugasemdum hans undir rekstri málsins veita hins vegar ákveðið yfirlit yfir það sem hönd á festir um verkefni hans í þágu varnaraðila.

 

Mat á umfangi umræddra starfa er mjög vandasamt eins og málið hefur verið lagt fyrir. Fyrir liggur að varnaraðilinn H var í afar erfiðri stöðu þegar hún leitaði til sóknaraðila. Þá verður ekki fram hjá því litið að þessi umbjóðandi lögmannsins var í töluvert umsvifamiklum atvinnurekstri og hlaut að meta að verulegu leyti sjálf hvaða störfum hún óskaði eftir að sóknaraðili sinnti. Jafnvel þótt vonlítið virðist, a.m.k. eftir á, að unnt hafi verið að leysa úr greiðsluvanda hennar snerust störf sóknaraðila einnig að því að koma í veg fyrir að hún yrði beitt viðurlögum og að undið yrði ofan af ákveðnum ráðstöfunum hennar í félögum sem hún tengdist. Út af fyrir sig telur nefndin engin efni til að rengja það að sóknaraðila var falið að vinna að úrlausn allnokkurra mála, sem voru laustengd og höfðu það sameiginlegt að tengjast með einum eða öðrum hætti fjárhagserfiðleikum varnaraðilans H og félaga hennar.

 

Ekki kom til til þess að sóknaraðili flytti mörg eða flókin dómsmál um þessi sakarefni. Gögn málsins sýna hins vegar að hann átti í umtalsverðum samskiptum við skiptastjóra og ýmsa gagnaðila vegna málanna auk þess að reka ágreiningsmál að einhverju leyti um smærri ágreiningsefni. Þá eru gögn málsins afdráttarlaus um að varnaraðilinn H og sóknaraðili voru í töluvert miklum samskiptum um langt skeið, sem hlutu að taka sinn tíma. Þegar lögmanni er falið að starfa í tímavinnu að fleiri málum með þessum hætti, jafnvel án þess að um það sé að ræða að raunhæft sé að vinda ofan af málum með samningum, getur tímafjöldi og kostnaður vissulega safnast töluvert upp, án þess að unnt sé að sakast við lögmanninn vegna þess.

 

Allt að einu er ekki um annað að ræða en að horfa annars vegar til þeirra verkefna sem sóknaraðili skilaði af sér, á borð við greinargerð í gjaldþrotamáli og málsgögn í máli til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa og hins vegar til þeirra yfirlita sem hann hefur skilað um samskipti sín og þ.h. verkefni, einkum í formi færslna í tímaskrá. Hins vegar verður sem fyrr segir horft fram hjá skráðum fjölda tíma. Þykir mega hafa til hliðsjónar áskilið tímagjald sóknaraðila, kr. 18.700 sem ekki var deilt um, en afsláttur frá því komi þá ekki til álita. Þá bar sóknaraðili á því nokkra ábyrgð að halda tímafjölda innan skynsamlegra marka, en í málinu er áberandi í hve miklum mæli vinna í málum fer öðru fremur í að óska eftir fundum eða önnur slík samskipti við gagnaðila, án þess að lagðar séu fram ígrundaðar tillögur að lausnum eða að þess fáist yfir höfuð stað að nokkur samningsgrundvöllur hafi verið fyrir hendi. Við mat á þessum grunni hlýtur lögmaður að bera af því nokkurn halla að vegna misræmis í tímaskráningu og reikningum hans þarf að meta þóknun að álitum.

 

Að öllum þessum sjónarmiðum virtum og með hliðsjón af öllum gögnum málsins þykir hæfilegt endurgjald sóknaraðila fyrir öll störf hans í þágu varnaraðila vera hæfilega ákveðið kr. 1.800.000 auk virðisaukaskatts.. Felst í þessari niðurstöðu að fallist verður á endurgreiðslukröfu varnaraðilans U ehf. að því marki að sóknaraðila verður gert að greiða félaginu kr. 592.271-, en virðisaukaskattur er innifalinn í þessum fjárhæðum eins og í umfjöllun um greidda þóknun hér að ofan.

 

IV.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Til að gæta samræmis verður lögmaðurinn nefndur sóknaraðili einnig í þessum þætti málsins.

Varðandi aðfinnslur varnaraðila við það hvernig sóknaraðili hélt á samningum við Arion banka er út af fyrir sig ljóst að sóknaraðili þrýsti haustið 2014 mjög á um að fá fram afstöðu bankans til þess hvað unnt væri að gera í fasteignaskuldum varnaraðila annað en að selja ofan af þeim íbúðarhús sitt. Því virðist vera ómótmælt að eftir að sá starfsmaður bankans lét skyndilega af störfum sem hafði séð um málið varð enn þyngra undir fæti en áður að fá svör við þessum fyrirspurnum. Nefndin telur þrátt fyrir þetta sérstakt að sóknaraðili hafi látið málið liggja allan veturinn og fram á vorið án þess að senda bankanum neinar tillögur um lausn málsins, þrátt fyrir að nauðungarsölumeðferð væri hafin á fasteigninni og þrátt fyrir að umbjóðandi hans ýtti þá á að fá botn í málið. Í ljósi þess hve óljóst er um hvað sóknaraðili gat í raun boðið fram telur nefndin þó ekki unnt að gera aðfinnslur við þetta.

 

Í atvikalýsingu er rakið hvernig sóknaraðili setti fram það efnislega tilboð til Arion banka,  26. júní 2015, að gerðarþolinn A myndi greiða bankanum 2 milljónir og svo 500.000 á mánuði í 6 mánuði gegn auknum samþykkisfresti og að unnið yrði að því að hann leysti eignina til sín. Fæst ekki betur séð en að sóknaraðili hafi sett þetta tilboð fram án samráðs við varnaraðila. Sú framsetning hans á niðurstöðu málsins gagnvart varnaraðilum sem lýst er að ofan var hins vegar augljóslega til þess fallin að leiða varnaraðila í þá villu að bankinn hefði sett fram umrædda skilmála. Skiptir í því samhengi engu þótt greinarmerkjasetning sýni að fellt hafi verið út úr þessum tölvupóstsamskiptum.Telur nefndin að þessi framganga sóknaraðila feli í sér brýnt brot á trúnaðarskyldu hans gagnvart skjólstæðingi sýnum. Verður ekki hjá því komið að beita hann áminningu vegna þessa.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hæfileg þóknun sóknaraðila, S hdl., fyrir störf hans í þágu varnaraðila, H, A og U ehf. er kr. 1.800.000 auk virðisaukaskatts. Sóknaraðili greiði varnaraðilanum U ehf. kr. 592.271.

S hdl. sætir áminningu fyrir þá háttsemi að setja fram tilboð f.h. umbjóðenda sinna án þess að þeim væri kunnugt um það og kynna þeim samning sem þannig komst á þannig að þau hlutu að telja að skilmálarnir væru settir fram af gagnaðila.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Snævarr, hrl., formaður

Hjördís E. Harðardóttir, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson