Mál 10 2016
Ár 2016, föstudaginn 23. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 10/2016:
G og F
gegn
H
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 11. maí 2016 erindi kærenda, G og F vegna H hdl., þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun og störfum kærða, að deilumáli vegna framkvæmda í fjöleignarhúsi f.h. kærenda.
Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 20 maí 20156. Kærði skilaði greinargerð vegna málsins þann 26. maí 2016.
Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða þann 3. júní 2016. Athugasemdir bárust ekki frá kærendum og með tölvuskeyti 14. september tilkynntu þær að þær myndu ekki svara frekar.
Málsatvik og málsástæður
I.
Það athugast að engin gögn hafa verið lögð fram varðandi það mál sem kærði vann að í þágu kærenda. Samkvæmt frásögnum aðila er það upphaf þessa máls að kærendur eiga hvor sinn eignarhlutinn í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Samtals teljast eignarhlutar þeirra vera 50% af fasteigninni. Kærendur töldu nauðsynlegt að ráðast í viðhaldsframkvæmdir á eigninni, m.a. endurnýjun skólplagna. Þær lögðu málið fyrir kærunefnd húsamála sem komst að þeirri niðurstöðu að sameigendum þeirra væri skylt að taka þátt í framkvæmdum og greiða 50% hlut í viðgerðakostnaði. Á húsfundi í framhaldi af því kom þó í ljós að ekki fengist samþyki annarra eigenda fyrir viðgerðum þrátt fyrir álit nefndarinnar.
Kærði hafði áður unnið að gallamáli fyrir kæranda G og varð úr að kærendur ákváðu að leita til hans og fá hann til að taka málið að sér. Mun hafa orðið úr að kærði tæki málið að sér og fékk hann álit kærunefndarinnar sent. Engin verkbeiðni, verksamningur eða umboð virðist hafa verið útbúið vegna málsins.
Kærendur fengu boð um að mæta á fund með öðrum húseigendum og lögmanni húseigendafélagsins á tilteknum degi, en óljóst er hver átti frumkvæði að þeim fundi. Þegar haft var samband við kærða kvaðst hann vera upptekinn umræddan dag, en bauð kærendum að senda annan lögmann, Æ hdl., á fundinn í sinn stað. Það afþökkuðu kærendur og ákváðu að reyna fremur sjálfar að bjarga sér á fundinum.
Af frásögn kærenda má ráða að á þessum fundi hafi komið upp sú staða að gagnaðilar þeirra höfðu áður staðið í skólpviðgerðum og breytingum á skólplögnum á eigin kostnað í sínum eignarhlutum án þess að blanda húsfélaginu í það. Þá virðist það hafa verið afstaða lögmanns húseigendafélagsins að rétt væri að taka þessar eldri viðgerðir og metinn kostnað við þær með í reikninginn þegar deilt væri niður kostnaði vegna þeirra viðgerða sem kærendur töldu nauðsynlegar.
Næsta skref kærenda fólst í því að boða sjálfar til formlegs húsfundar með 10 daga fyrirvara til að fá þar fram formlega afstöðu til þeirra framkvæmda sem þær fyrirhuguðu. Nokkur ágreiningur er með aðilum um aðdraganda þessa fundar og hvað fór fram á honum. Kærendur kveðast hafa boðað kærða til fundarins og hann staðfest að hann myndi mæta. Þær hafi svo heyrt í honum hálftíma fyrir fundinn, en þá hafi hann sagt að hann komist ekki til fundarins, en gæti sent Æ hdl. í sinn stað. Þetta hafi kærendur ekki viljað. Úr hafi orðið að kærði hafi mætt á fundinn, en það hafi þó legið fyrir að hann gæti aðeins stoppað þar í mjög skamma stund þar sem hann þyrfti að mæta í héraðsdóm.
Kærðu telja að á fundinum hafi ekki annað komið fram en að þurft hafi að leiðbeina kærða um að hann væri lögmaður þeirra beggja. Þá hafi verið ákveðið að gagnaðilar þeirra myndu ráða sér lögmann, sér til aðstoðar sem myndi hafa samband við kærða innan viku. Kærendur telja að kærði hafi verið illa undirbúinn á þessum fundi.
Kærði segir hins vegar að hann hafi mætt vel undirbúinn til þessa fundar, sem hafi staðið í rétt um klukkustund. Hann hafi verið búinn að kynna sér ítarlega álit kærunefndarinnar. Kærði kveðst telja að það hafi verið mjög heppileg ákvörðun að gagnaðila kærenda myndu ráða sér lögmann, því deilan í húsfélaginu hafi tekið á sig persónulega og ómálefnalega mynd.
Í framhaldi af þessum fundi réðu gagnaðilarnir sér lögmann, I hdl. Eftir því sem fram kemur í greinargerð kærða mun hann hafa hringt í kærða og upplýst hann um að hann hygðist boða til húsfundar. Þeim tókst þó ekki í því símtali að finna fundartíma sem hentaði báðum, en kærði kveðst hafa verið staddur í bifreið fjarri starfsstöð sinni. Varð úr að I boðaði til húsfundar á tíma þegar kærði gat ekki mætt. Til að ekki þyrfti að boða fundinn að nýju bauð kærði kærendum að senda Æ hdl. á fundinn í sinn stað.
Því höfnuðu kærendur og er óumdeilt að á þessum tímapunkti höfðu þær samband við kærða og kynntu honum að þær væru ósáttar við þá þjónustu sem hann hefði veitt og að þær óskuðu ekki frekari afskipta hans af málinu.
Kærendur kveðast síðan hafa mætt á fundinn hjá I og hafi hann þá sagt þeim að hann hafi hringt í kærða og boðið honum að velja fundardag og tíma, en kærði hafi svarað því til að I skyldi bara boða fundinn og hann myndi mæta.
Í framhaldi af þessu skráði kærandi kröfu í heimabanka, en kærendur mótmæltu honum. Ágreiningur er um hvort fjárhæð kröfunnar í heimabanka var breytt í framhaldi af þeim mótmælum, en sá ágreiningur hefur ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Reikningur kærða er nr. 97. Hann er stílaður á kærandann G og á hann er ritað „lögfræðiþjónusta/ráðgjöf v. fasteignagalla ...vegur 8. Lokauppgjör. Lok máls." Á reikningnum er innheimt þóknun lögmanns, alls 3,5 stundir á tímagjaldinu 22.800 með 10% afslætti. Er fjárhæð reikningsins alls kr. 89.057 að vsk. meðtöldum.
Kærðu mótmæltu reikningnum og spunnust af því nokkrar deilur í tölvupósti, en innihald þeirra varpar ekki frekara ljósi á málið.
II
Kærendur settu ekki fram ákveðnar kröfur í erindi sínu til nefndarinnar. Af málatilbúnaði þeirra verður hins vegar ráðið að þær krefjist þess að áskilin þóknun kærða falli niður eða sæti lækkun. Þá verður að leggja þann skilning í umkvartanir þeirra yfir framkomu og vinnubrögðum kærða að þess sé krafist að kærði verði beittur viðurlögum vegna þeirra.
Kærendur kveðast hafa fundið mjög fyrir því að hafa ekki lögmann sér til halds og trausts á fundi með lögfræðingi húseigendafélagsins, enda hafi gagnaðilar verið búnir að ræða við lögfræðinginn fyrirfram og tillögur hans um að blanda ósamþykktum og ólöglegum viðgerðum og breytingum inn í málið hefðu krafist viðspyrnu.
Kærendur kveðast hafa frétt að þeir I og kærði hafi unnið saman á lögmannsstofu en samstarfi þeirra þar hafi lokið með illindum. Þær telja að þetta hafi bitnað á máli þeirra og að kærði hafi aldrei ætlað að mæta á fund með lögmanni gagnaðila.
Kærendur telja að kærði hafi í raun og veru aldrei tekið að sér það mál sem hann var beðinn um. Þær efast um að hann hafi nokkru sinni lesið álit kærunefndarinnar, því hann hafi aldrei vitnað til þess. Hann hafi aðeins einu sinni mætt á fund vegna málsins og þá verið óundirbúinn og ekkert haft fram að færa. Hann hafi aldrei veitt kærendum neina ráðgjöf vegna málsins.
III
Kærði krefst þess að kröfum kærenda um að kærði láti reikning sinn niður falla verði hafnað. Jafnframt krefst hann þess að staðfest verði að hann hafi í engu gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna, eða með öðrum hætti gert á hlut kærenda.
Þá krefst hann þess að kærendum verði gert að greiða honum málskostnað fyrir nefndinni.
Kærði telur að hann hafi aldrei starfað f.h. kærandans F. Henni hafi ekki verið gerður neinn reikningur og sé útilokað að telja hana aðila að máli þessu. Kærði byggir á því að það tíðkist og hafi verið viðurkennt í dómaframkvæmd, að séu lögmenn vant við látnir og geti ekki sjálfir sinnt einstökum fundum eða örðum erindagjörðum þá teljist fullkomlega eðlilegt að þeir fái fulltrúa eða aðra lögmenn til að mæta á eigin ábyrgð og áhættu. Sé ekkert við það að athuga að kærði hafi gripið til þessa ráðs þegar fundir voru boðaðir á tímum þegar hann gat ekki mætt. Hann hafi hins vegar mætt á einn fund vegna málsins og þá verið vel undirbúinn.
Kærði lýsir samskiptum sínum við lögmann gagnaðila svo að lögmaðurinn hafi stungið upp á tíma þar sem kærði gat ekki mætt. Hann hafi þá ákveðið að bjóða kærendum að fá annan lögmann með sér á fundinn til að ekki þyrfti að boða til hans að nýju.
Kærði kveður 3,5 stunda vinnu hafa farið í málið. Sú vinna hafi falist í að lesa yfir álit kærunefndarinnar, mætingu á húsfund og símtal við lögmann gagnaðila vegna húsfundar. Þá kveður kærði að utan reiknings séu símtöl við kærandann G sjálfa, en þau hafi verið ófá. Telur kærði að reikningsfjárhæðin sé afar sanngjörn þegar litið sé til þess að samskiptum við kærandann hafi verið haldið utan reiknings og séu þá ótaldir tölvupóstar eftir útgáfu reikningsins.
Kærði áskilur sér sérstaklega rétt til leggja fram undir rekstri málsins yfirlit frá símafyrirtæki um teningar við símanúmer kæranda G og tímalengd símtala. Þá áskilur hann sér rétt til að innheimta að fullu á síðari stigum þær unnu klukkustundir sem ákveðið var að halda utan reiknings við útgáfu hans.
Kærandi telur með öllu ólíðandi að honum sé gert án endurgjalds að svara fyrir algjörlega tilhæfulausa kvörtun sem reist sé á ósannindum og dylgjum.
Niðurstaða
Fyrir liggur að kærendur töldu sig eiga sameiginlega hagsmuni sem þær væru sameiginlega að fela kærða, enda þótt kærandinn G væri í fyrirsvari fyrir þær gagnvart kærða vegna fyrri samskipta þeirra. Þykir ekki ástæða til að gera athugasemdir við aðild kærandans F að málinu og skiptir í því samhengi engu þótt kærði hafi ákveðið að stíla reikning sinn eingöngu á kærandann G.
Eins og rakið er í lýsingu á kröfugerð kærenda þykir verða að leggja þann skilning í umkvartanir þeirra yfir framkomu og vinnubrögðum kærða að þess sé krafist að kærði verði beittur viðurlögum vegna þeirra. Þarf því í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærðu hafi gerst brotleg við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.
I
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í þessum þætti málsins verður sönnunarbyrðin um yfirsjónir kærða fyrst og fremst lögð á kærendur, enda verður kærði ekki beittur viðurlögum fyrir aðra háttsemi en þá sem sýnt er fram á að hann hafi gerst sekur um. Að þessu athuguðu virðist ekki geta komið til greina að beita kærða agaviðurlögum. Enda þótt skýringar hans á samskiptum við lögmann gagnaðila séu ekki ítarlegar, verður að leggja til grundvallar það grundvallaratriði í þeim, að hann hafi talið réttara að bjóða kærðu að fá annan lögmann í sinn stað en að láta fundina frestast. Ekkert liggur fyrir í málinu nema gagnstæðar frásagnir aðila um hvort kærði var vel eða illa undirbúinn á þeim eina fundi sem hann mætti á fyrir hönd umbjóðenda sinna.
II
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín.
Ágreiningslaust virðist að enginn skriflegur samningur var gerður um störf kærða f.h. kærenda. Á hinn bóginn virðist heldur ekki vera ágreiningur um að leggja megi til grundvallar að um hafi verið að ræða starf unnið í tímavinnu. Þá virðist tímagjaldið út af fyrir sig ekki umdeilt, enda um að ræða sama tímagjald og afslátt og skömmu áður hafði verið lagt til grundvallar vegna vinnu kærða fyrir kærandann G.
Að framan er lýst þeirri afstöðu nefndarinnar að ekki liggi fyrir að kærði hafi vanrækt málið með ámælisverðum hætti, þótt hann hafi ekki getað mætt á tvo fundi af þeim þremur sem hann var boðaður til. Einhliða frásagnir kærenda á þá leið að þeim hafi þótt hann illa undirbúinn á þeim fundi geta heldur ekki skipt máli. Geta kærendur samkvæmt þessu ekki vænst þess að þær þurfi ekki að greiða kærða neitt fyrir vinnu sína. Á hitt ber að líta að engar tímaskrár hafa verið lagðar fram til stuðnings umræddum reikningi. Það virðist í raun óumdeilt að eina vinna kærða hafi falist í því að lesa yfir álit kærunefndar húsamála og að mæta að því loknu á einn fund sem stóð í hálfa til heila klukkustund. Í þessu ljósi virðist óeðlilegt að kærði innheimti nema mjög óverulega fyrir samskipti, en þau virðast einkum hafa snúist um fundi sem hann komst ekki á. Verður hæfileg þóknun kærða miðuð við tveggja klukkustunda starf.
Vegna áskilnaðar kærða um frekari gagnaöflun og reikningagerð skal tekið fram að á reikningi hans vegna málsins kemur skýrlega fram að um er að ræða lokauppgjör og lok máls. Verður að líta svo á að í meðferð máls þessa og niðurstöðu þess felist endanleg niðurstaða um þóknun kærða vegna umræddra starfa sinna, með fyrirvara um frekari meðferð ágreiningsins fyrir dómstólum
Rétt þykir að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hæfilegt endurgjald kærða, H hdl., vegna starfa hans í þágu G og F að ágreiningi þeirra við sameigendur sína í fjöleignarhúsi er kr. 50.890 að vsk. meðtöldum. Reikningur kærða nr. 97, dags. 28. apríl 2016, sætir lækkun sem þessu nemur.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson hrl.
Kristinn Bjarnason hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson