Mál 13 2016
Ár 2016, föstudaginn 2. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 13/2016:
Á
gegn
L
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi Á til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 25. maí 2016, var kvartað yfir reikningagerð og innheimtuháttum L hrl., en hún fór með skilnaðarmál kæranda fyrir hennar hönd.
Kærða sendi nefndinni greinargerð um málið þann 8. júní 2016 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærðu bárust 18.júlí 2016 og var kærðu gefinn kostur á að koma að lokaathugasemdum vegna þeirra. Lokaathugasemdir kærðu bárust 10. ágúst 2016 og voru kynntar kæranda með bréfi 22. ágúst 2016.
Málsatvik og málsástæður
I
Ekki virðist vera ágreiningur um málsatvik í meginatriðum.
Kærandi leitaði til kærðu vegna skilnaðarmáls árið 2012. Í málinu var deilt um fjölmörg atriði og reyndist vinnsla málsins alltímafrek. Ágreiningur reis um uppgjör vegna kærðu og felldi úrskurðarnefnd lögmanna úrskurð í júlí 2015 þar sem synjað var kröfu kæranda um niðurfellingu tveggja reikninga kærðu. Sá úrskurður var þó ekki endir deilna þeirra því samkvæmt gögnum máls þessa var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness 10. febrúar 2016 þar sem kærandi var dæmd til að greiða lögmannsstofu kærðu kr. 1.569.999 auk dráttarvaxta. Dómurinn hefur ekki verið lagður fram í máli þessu, en ágreiningslaust er að í dómnum var kærandi dæmd til greiðslu fjárhæðarinnar með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga af kr. 2.300.958 frá 31. des 2013 til 25. mars 2014, af kr. 1.300.958 frá þeim degi til 30. september 2014 og af kr. 1.569.999 frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaður fyrir héraðsdómi að fjárhæð 180.000 kr.
Í fram lögðu innheimtubréfi sem fulltrúi kærðu ritaði 10. febrúar 2016 var kröfunni svo lýst:
Höfuðstóll kr. 1.569.999
Dráttarvextir af kr. 2.300.958 frá 31. des 2013 til 25. mars 2014 kr. 70.627
Dráttarvextir af kr. 1.300.958 frá þeim degi til 30. september 2014 kr. 86.911
Dráttarvextir af kr. 1.569.999 frá þeim degi til greiðsludags kr. 759.160
Málskostnaður fyrir héraðsdómi kr. 180.000
Samtals kr. 2.666.697
Kærandi sendi kærðu tölvuskeyti þann 1.maí 2016 þar sem hún spurði út í dráttarvaxtaútreikninga. Þau samskipti sem fylgdu í kjölfarið eru ásamt útreikningum þessum grundvöllur undir þetta kvörtunarmál og er því nauðsynlegt að rekja efni þeirra hér.
Upphaflegur tölvupóstur kæranda er svohljóðandi:
Sælar
Ég lét fara yfir bréfið frá ykkur varðandi dráttarvextina og vill fá betri útskýringar hvernig þið reiknið þetta út!
Það sem ég skil ekki eru dráttarvextirnir sem eru uppá 759.160 hvernig fáið þið þessa upphæð út?
Ég fékk aðila til að fara yfir þetta sem fær aðra útreikninga.
Vinsamlega gefið mér útskýringar fyrir vikulok svo ég geti klárað þessa skuld enda vil ég ekki vera í skuld við ykkur og vil klára þetta mál.
Daginn eftir svaraði kærða þessari fyrirspurn með svari þar sem hún tekur upp ákveðinn texta innan gæsalappa. Skeytið er sent kl. 17:16 og síðari samskipti sem rakin eru, fóru fram þann sama dag, fram á kvöld.
„Ég fór yfir innheimtubréfið og það kemur heim og saman við dómsorðið í málinu. Mótmælin hennar snúa enda líklega að því að frá hvaða tíma ætti að reikna hvaða vexti. Hún þyrfti að áfrýja dóminum ef hún ætlaði að breyta þessu sýnist mér"
Vísa í fyrri samskipti og geri ráð fyrir að uppgjör þitt þitt á skuld liggi fyrir hið fyrsta.
Kærandi sætti sig ekki við þetta svar og sendi svohljóðandi orðsendingu
Er ekki að skilja þetta svar! Get ég fengið nákvæman útreikning hvernig þetta er reiknað og sett upp! Þið hljótið að vera með hann
Svar kærðu, sem sent var samdægurs, er svohljóðandi.
Nákvæmur útreikningur kemur fram í innheimtubréfinu.
Kærandi áréttaði enn erindi sitt með öðru skeyti.
Nei, vil sundurliðun á þessum rúmum 700.000 kr. dráttarvöxtum
Kærða svaraði enn um hæl og sagði þá
Þetta er inni í innheimtukerfi lögmanna.
Við höfum ekki reiknað neina dráttarvexti ofan á tildæmdan málskostnað, en áskiljum okkur þann rétt ef þetta á að dragast mikið lengur.
Kærandi hélt áfram að spyrja og þrýsta á um útreikninga. Næsta skeyti hennar hljóðar svo
Og hverjar voru forsendurnar þegar þið slóguð inn upplýsingunum? Ertu viss um að þær séu réttar? Er erfitt fyrir ykkur að svara því og sýna útreikninga? Eins og kannski öllu öðru!
Kærða svaraði enn sama dag:
Láttu einhvern reikna út fyrir þig dómsorðið. Það gæti eytt þessari tortryggni þinni.
Kærandi virðist á þessu tímamarki hafa gefist upp á því að fá kærðu til að leggja fram forsendur og útreikninga fyrir dráttarvaxtaútreikningi sínum því næsta skeyti hennar hljóðar svo.
Búin að gera það, það er þess vegna sem ég er að óska eftir hvernig þið fenguð út þessar rúmar 700.000, hitt passar við útreikninga! Verð bara að snúa mér að lögmannafélaginu biðja þá um niðurstöðu líka.
Læt leggja þessa upphæð inn á reikn á meðan!
Morguninn eftir, þ.e. þann 3. maí 2016, hafði kærða yfirfarið útreikningana að nýju og sendi kæranda þá svofellt tölvuskeyti.
Sæl
Við enn eina yfirferðina yfir dráttarvaxtaútreikninginn hefur komið í ljós skekkja í fyrri útreikningum okkar. Mér þykir þetta afar miður og bið þig að afsaka framkomu mína í tölvupóstum seinni hluta dags í gær. Það var svo sannarlega ekki ætlun mín að hafa rangt við gagnvart þér.
Þetta eiga að vera kr. 273.441, -f. tímabilið 30.9.2014 til 10.2.2016.
Annað í útreikningnum stendur. Heildarupphæðin til innheimtu er þá kr. 2.180.978,- en ekki kr. 2.666.679, -. Þetta er munur upp á kr. 485.719,-, sjá meðfylgjandi excel-skjal.
Kærandi kvaðst þegar ekki sætta sig við þetta svar kærðu. Hún hafi þurft að taka sér frí frá vinnu til að klára málið og leita sér upplýsinga vegna útreikninga kærðu, enda hafi kærða haft uppi hótanir í sinn garð. Kærða endurtók þá afsökunarbeiðni sína og áréttaði að frekari kröfur á hendur kæranda yrðu felldar niður í ljósi mistaka sinna. Samkvæmt upplýsingum í lokaathugasemdum kærðu, sem kæranda hafa verið kynntar, var þar um að ræða 180.978 kr.
II
Kærandi gerði í erindi sínu til úrskurðarnefndarinnar ekki sérstakar kröfur. Er litið svo á að þess sé krafist, að kærða verði beitt viðurlögum samkvæmt 27. gr. laga um lögmenn, svo sem fram kemur í fyrsta bréfi nefndarinnar vegna málsins. Í athugasemdum sínum við greinargerð kærðu setur kærandi fram kröfu um að „allur kostnaður sem ég hef nú þegar greitt til lögmannsins verði bakfærður, ásamt vinnutapi og þeim tíma sem ég hef þurft að eyða í þetta mál."
Í kvörtun kemur fram að kærandi hafi viljað fá afhent gögn skilnaðarmálsins áður en hún greiddi lokareikning kærðu, enda hafi hún talið að sig vantaði upplýsingar um gang skiptanna til að geta tekið afstöðu til reikningsins. Lýsir hún þeirri afstöðu sinni að hún hafi verið beitt rangindum af kærðu við uppgjör þeirra með reikningaútgáfu sinni. Ofan á þá reikningagerð hafi svo bæst að smurt hafi verið ofan á dráttarvaxtakröfuna um hálfri milljón króna. Það sé ekki ásættanlegt að kærða freisti þess að innheimta ranglega hjá henni með hótunum hálfa milljón króna og sendi svo bara einn tölvupóst og segi afsakið þegar búið er að beita hótunum ef reikningurinn verði ekki greiddur strax. Veltir kærandi því upp í kæru sinni hvað hefði orðið ef hún hefði greitt reikninginn athugasemdalaust og hvað margir aðrir hafi lent í þessu. Kveðst kærandi upplifa þetta þannig að reynt hafi verið að stela af sér, enda um verulega fjármuni að ræða fyrir sig.
Kærandi áréttar að kærða hafi alls ekki leiðrétt mistökin og beðið hana afsökunar þegar á þau var bent. Hafi hún þvert á móti þvertekið fyrir að um mistök væri að ræða og haft uppi hótanir ef ekki yrði greitt.
III
Kærða hefur ekki lýst sérstökum kröfum fyrir nefndinni. Málatilbúnaður hennar fyrir nefndinni verður skilinn svo að hún krefjist þess að kröfum kæranda verði hafnað.
Kærða kveður fulltrúa sinn, sem ritaði umrætt bréf, hafa farið yfir útreikningana í tilefni af fyrirspurn kæranda 1. maí 2016. Við fyrstu yfirferð hans hafi ekkert komið í ljós sem gaf til kynna að útreikningarnir væru rangir. Við nánari skoðun hafi komið í ljós innsláttarvilla sem hann hafði gert við útreikningana. Hafi kærða umsvifalaust fengið senda afsökunarbeiðni með tölvupósti og öll innheimta gagnvart kæranda um leið verið felld niður.
Kærða telur ljóst að kærandi hafi ekki verið skjólstæðingur lögmanns við þau atvik sem hér er fjallað um. Innheimtubréfið hafi verið ritað í kjölfar héraðsdóms þar sem m.a. hafi komið fram við munnlegan flutning að kærandi rengdi ekki reikning kærðu eða vinnustundir sem þar kæmu fram. Þegar innheimtubréfið var kærandi ekki verið skjólstæðingur heldur gagnaðili lögmannsstofunnar í nýdæmdu máli. Þá fer kærða yfir að hún hafi ekki brotið gegn þeim skyldum sem fjallað sé um í V. kafla siðareglna lögmanna um skyldur lögmanns við gagnaðila.
Kærða áréttar að kröfunni sé í innheimtubréfinu stillt upp í samræmi við dómsorð héraðsdóms. Það hafi verið mannleg mistök fulltrúa sem ollu því að dráttarvextir fyrir tiltekið tímabil voru ofreiknaðir. Kærandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna þessa. Hún hafi sjálf gefið frest til vikuloka til að skýra fjárhæðina og þegar á þriðjudagsmorgni hafi mistökin verið upplýst og allar kröfur á hendur henni felldar niður.
Niðurstaða
Að ofan er lýst þeirri kröfu sem fram komu í athugasemdum kæranda við greinargerð kærðu um að „allur kostnaður sem ég hef nú þegar greitt til lögmannsins verði bakfærður, ásamt vinnutapi og þeim tíma sem ég hef þurft að eyða í þetta mál." Nefndin telur útilokað að kærandi geti með þessum hætti breytt grundvelli málsins og sett fram þessa óljósu fjárkröfu, en jafnframt verður að gera þá athugasemd að með þessu virðist þess krafist að nefndin felli úr gildi dóm héraðsdóms um uppgjör aðila, en til þess hefur nefndin ekki vald. Þá virðist óumdeilt að kærða hafi þegar gefið eftir 180.978 kr. af kröfu sinni í kjölfar mistaka sinna.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. "Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum."
Í 38. gr. siðareglna lögmanna kemur fram að lögmaður ber persónulega ábyrgð á lögmannsstörfum sínum og fulltrúa sinna. Þá segir í 40. gr. reglnanna að lögmaður skuli hafa góða skipan á skrifstofu sinni, vaka yfir störfum starfsliðs síns og líta eftir því, að lögmannsfulltrúar fylgi góðum lögmannsháttum.
Óumdeilt er að starfsmaður kærðu gerði mistök við útreikning dráttarvaxtakröfunnar. Þrátt fyrir þetta telur nefndin ekki að kærða hafi brotið gegn ofangreindu ákvæði 38. gr. siðareglnanna, enda útilokað að fyrirbyggja að mistök á borð við þessi komi upp, jafnvel þótt lögmaður fylgist vel með störfum fulltrúa.
Hins vegar telur nefndin að viðbrögð kærðu þegar kærandi sendi henni ítrekað athugasemdir við tiltekin atriði í útreikningnum, samræmist ekki góðum lögmannsháttum. Sú fjárhæð dráttarvaxta sem gerð var athugasemd við, nam rétt tæpum helmingi höfuðstólsins sem reiknað var af. Hefði kærðu mátt verða ljóst við frumskoðun málsins að svo hárri fjárhæð gætu dráttarvextirnir ekki náð á innan við tveimur árum. Hvort sem litið er á kæranda sem skjólstæðing hennar eða ólöglærðan gagnaðila, var framganga kærðu til þess fallin að valda kæranda fjártjóni að ósekju. Verður að gera aðfinnslu við þau viðbrögð sem kærða sýndi athugasemdum kæranda.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Sú háttsemi kærðu, L hrl., að hafna ítrekað réttmætum aðfinnslum og athugasemdum kæranda, Á, við dráttarvaxtaútreikning kærðu í innheimtubréfi hennar, er aðfinnsluverð.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr hrl., formaður
Kristinn Bjarnason hrl.
Einar Gautur Steingrímsson hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson