Mál 15 2016

Ár 2016, fimmtudaginn 26. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2016:

B

gegn

K hrl. og G hdl.

og kveðinn upp svofelldur

                                                           Ú R S KU R Ð U R:

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 22. júní 2016 erindi B (hér eftir kærandi). Þar er kvartað yfir annars vegar áskilinni þóknun og hins vegar óvönduðum vinnubrögðum lögmannanna K hrl. og G hdl. (hér eftir kærðu), ásamt því að þeir hafi tekið við áfrýjunarstefnu án þess að hafa umboð til þess.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindis kæranda með bréfi dags. 28. júní 2016 og barst greinargerð þeirra úrskurðarnefnd að fengnum fresti þann 2. september 2016. Var kæranda síðan send sú greinargerð til athugasemda með bréfi dags. 6. september 2016 og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana til 23. september. Bréf þetta var endursent nefndinni frá því heimilisfangi sem kærandi gaf upp í kærandi með þeim skilaboðum að hann væri fluttur á brott. Í ljós kom að lögheimili kæranda hafði þá verið skráð erlendis og tókst að sinni ekki að kynna honum greinargerðina. Eftir að kærandi spurðist fyrir um gang málsins með tölvupósti varð að samkomulagi á milli aðila að hann fengi skamman frest til að kynna sér efni greinargerðarinnar og gera athugasemdir við hana. Var honum send greinargerðin 18. janúar 2017 og bárust athugasemdir hans þann 20. janúar 2017. Þær voru sendar kærðu samdægurs, en lokaathugasemdir þeirra vegna málsins bárust 25. janúar 2017.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Kærandi tapaði héraðsdómsmáli um forsjá vorið 2015. Héraðsdómur reisti dóm sinn á þeim skilningi á kröfugerð aðila að hvorugur þeirra hefði gert kröfu um sameiginlega forsjá og dæmdi gagnaðila því forsjána óskipta. Kærandi undi þessu ekki. Hann leitaði til kærða G til að ræða við hann um hugsanlega áfrýjun málsins, en þeir munu hafa verið kunningjar. Úr varð að þeir hittu kærða K á fundi. Þar mun hafa komið fram að tvær leiðir væru færar. Annað hvort að stefna málinu inn á nýjan leik með skýrari kröfugerð, ellegar að áfrýja dómi héraðsdóms og byggja á því að í kröfugerð í héraði fælist varakrafa um sameiginlega forsjá. Eftir stuttan umhugsunarfrest tjáði kærandi kærða G að hann vildi láta reyna á seinni kostinn. Hittust aðilar máls þess þá á ný. Þar var rædd tillaga kærða G um að hann myndi vinna málið að hluta með kærða K. Þá var á þeim fundi samið um þóknun, en aðila greinir mjög á um hvað þeim fór á milli og hvað var ákveðið varðandi þóknunina svo sem síðar er rakið.

Kærðu unnu áfrýjunarstefnu í málinu og var hún gefin út af Hæstarétti í júníbyrjun 2015. Þá unnu kærðu greinargerð í Hæstaréttarmálinu og er hún dagsett í júlílok. Í júlí kom einnig fram krafa um málskostnaðartryggingu og urðu samskipti um þá kröfu á milli kærða G og kæranda.

Að því er varðar greiðslur sem inntar voru af hendi vegna málsins þá er því ómótmælt að kærandi hafi greitt kærða G 200.000 kr. með reiðufé 15. apríl, 300.000 7. maí og 150.000 13. maí 2015. Þá greiddi kærandi beint til þess sem sá um gerð ágrips, eftirstöðvar af reikningi með millifærslu að fjárhæð 132.000. Hefur kærandi þannig alls greitt  782.000 vegna málsins. Af gögnum málsins er ljóst að af þessari fjárhæð hafa 282.000. kr. runnið til greiðslu útlagðs kostnaðar við endurrit og ágrip, en kærðu hafa móttekið 500.000 kr. Af málatilbúnaði aðila má ráða að allar þessar fjárhæðir séu óumdeildar.

Um haustið kviknuðu efasemdir hjá kæranda um að mál hans væri í góðum farvegi. Ljóst er af fram lögðum tölvupóstsamskiptum aðila að hann hefur rætt þetta við kærða G, en ekki nákvæmlega hvenær eða hvað þeim fór á milli. Þann 18. ágúst óskaði lögmaður stefndu fyrir Hæstarétti eftir því við kærða K að hann myndi móttaka gagnáfrýjunarstefnu. Hann svaraði því samdægurs að hann yrði við á skrifstofu sinni um kl. 14:30 og myndi taka við stefnunni. Er gagnáfrýjunarstefna í málinu árituð af kærða K um að samrit hennar sé afhent „mér undirrituðum lögmanni, sem stefndi hefur falið að fara með mál þetta fyrir Hæstarétti." Kærandi hefur lagt fram afrit af SMS samskiptum við kærða G frá þessum sama degi þar sem G spyr kl. 17:03 hvort þeir hafi umboð til að taka á móti gagnstefnu í málinu en kærði sendi kl. 18:39 svohljóðandi svar „Nei, bíðum með það. Er að finna nýjan lögfræðing". Í gagnáfrýjunarstefnu er vísað til tölvuskeytis sem kærandi í þessu máli hafði sent gagnaðila sínum í Hæstaréttarmálinu, þess efnis að hann væri að flytja til Stokkhólms, en myndi þó halda áfram að sækjast eftir sameiginlegri forsjá í dómsmálinu.

Þann 3. september 2015 ritaði kærði G tölvupóst til kæranda þar sem segir m.a. „Nú fer að koma að því að málið þitt fer fyrir dóm. Við þurfum að fá skýr svör frá þér hvernig þú vilt haga framhaldinu, svo gott væri að þú sendir mér línur um það með tölvupósti. Ég hef K í cc., hafðu hann endilega í svarinu líka þar sem hann er lögmaðurinn sem fer með málið. K er ábyrgur fyrir málinu og því er þessi óvissa til baga, auk þess sem hún er óþarfi" Þessu svaraði kærandi með því að skrifa til baka „Já sorrý hvað þetta er búið að dragast, er að bíða eftir svari frá öðrum lögmanni." Jafnframt spurðist kærandi þá fyrir um hvað hann skuldaði mikið og nefndi þá jafnframt að hann væri búinn að greiða 782 þúsund og að „þar að auki er þessi 100 þús króna kostnaður". Varð þetta upphafið að deilu um þóknun, sem upphaflega var rekin í tölvupóstsamskiptum og er nú hluti af máli þessu.

Strax þann 4. september sendi kærði G tölvupóst til kæranda þar sem hann segir  „Við sömdum um 750 þús. án vsk. auk kostnaðar við ágripsgerð. Hluti af ágripi eru endurrit úr héraðsdómi, sem voru þessar 282 þúsund. Það rann ekki til K eða mín, heldur fór til þeirrar sem ritaði textann upp, eins og þér er kunnugt um. Þannig að það er enn ógreitt til K 250 þús án vsk., og síðan rúm 100 þús vegna ágripsgerðarinnar."

Kærði K sendi kæranda tvö tölvuskeyti vegna uppgjörs og skyldra mála þann 4. og 10. september. Í því fyrra kemur fram staðfesting á því að ógreidd lögmannsþóknun nemi 250.000 fyrir utan vsk. Þá segir „þegar lögmannsþóknun og kostnaður hefur verið greiddur getur þú sótt gögnin á skrifstofu mína."

Í síðara skeytinu segir kærði K „Eins og fram hefur komið í samtölum þínum við G hdl. munt þú hafa ákveðið að fá þér annan hæstaréttarlögmann í mál þitt fyrir Hæstarétti gegn E. Vinsamlega staðfestu við mig að svo sé. Það þarf að ganga frá málskostnaðartryggingu vegna málsins fyrir Hæstarétti inn tiltekins tímaramma sem var 2 vikur frá ákvörðun HR og það þarf að skila greinargerð vegna gagnáfrýjunar. Mikilvægt að lögmaður sem tekur  við málinu sé upplýstur um það sem fyrst."

Þessu skeyti svaraði kærandi þann 14. september til beggja kærðu. Þar mótmælir hann því að samningur hans við kærðu standi til þess að hann greiði nokkuð umfram 750.000 kr. Þá kvartar hann yfir því að greinargerðin sé í senn „hvorki fugl né fiskur og skelfilega illa unnin." Kveðst hann telja að kærðu hafi þegar eyðilagt málið fyrir sér og þannig valdið sér miklum skaða. Þá mótmælir hann því að hann eigi að borga alla hina umsömdu upphæð þrátt fyrir að málið hafi ekki verið flutt. Lýkur þessu skeyti svo „Hér með afturkalla ég umboð mitt hjá ykkur. Ég ætla að fella málið niður og geri það sjálfur. Þið eruð búnir að valda mér miklum skaða með að klúðra þessu máli. Þið reynið að féfletta mig, stela af mér peningum með því að rukka allt of mikið fyrir ykkar vinnu. Því krefst ég þess að fá allan kostnaðinn við þetta mál endurgreiddan, samtals 782.000 kr. Ef ég fæ þetta ekki endurgreitt þá tilkynni ég þetta mál til Lögmannafélagsins".

Kærði G svaraði þessu samdægurs með tölvuskeyti þar sem hann áréttaði þann skilning sinn að samið hefði verið um 750 þúsund án vsk, en að kostnaður hefði ekki verið inni í þeirri fjárhæð, enda hafi ekki legið fyrir við samningsgerðina hve kostnaður við endurrit yrði hár. Þá hvetur hann kæranda í skeyti þessu til að beina erindi sem beinist að þeim K báðum til lögmannafélagsins.

Reikningur að fjárhæð kr. 500.000 kr. var gefinn út 4. janúar 2016.

                       

II.

Kærandi krefst þess aðallega að kærendur greiði honum til baka allan kostnað sem hann hafi greitt vegna málsins, samtals 782.000 kr. og auk þess 500.000 fyrir að hafa tapað málinu fyrir sér. Til vara krefst kærandi þess að kærendur endurgreiði honum 300.000 kr.

Auk þessa krefst kærandi þess að kærðu verði beittir viðeigandi viðurlögum fyrir að fara ekki eftir lögum og reglum lögmanna og fyrir að reyna að féfletta kæranda.

Í erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að umkvörtunarefnin lúta annars vegar að ákveðnum aðfinnslum hans við framgöngu kærðu og vinnubrögð þeirra og hins vegar að gjaldtöku þeirra, sem kærandi telur allt of háa, auk þess sem kærðu hafi ranglega knúið á um fyrirframgreiðslur fyrir vinnu sína.

Að því er varðar framgöngu kærðu við störf sín fyrir kæranda eru athugasemdir hans af fernum toga.

Í fyrsta lagi hafi kærðu tekið málið að sér án þess að ganga úr skugga um hvort búið var að gera upp við fyrri lögmann, þ.e. hæstaréttarlögmann sem flutti málið fyrir héraðsdómi. Hafi sá lögmaður afhent kæranda gögn málsins til að hann gæti athugað möguleika á áfrýjun þess. Kveðst kærði ekki hafa áttað sig á því á þeim tíma að með því að taka við málinu án þess að ganga fyrst úr skugga um að uppgert væri við fyrri lögmann, væru kærðu að brjóta gegn siðareglum lögmanna.

Í öðru lagi hafi vinnubrögð kærðu við gerð áfrýjunarstefnu og greinargerð verið svo léleg að málið hafi orðið nær óvinnanlegt. Kærandi bendir á að greinargerð í málinu sé mjög stutt, aðeins um tvær og hálf blaðsíður af texta og með níu innsláttar- og uppsetningarvillum. Dómkrafan sé illa ígrunduð og ekki sé krafist sameiginlegrar forsjár, en það hafi verið tilgangur kæranda með áfrýjun að fá fram þá niðurstöðu. Röksemdir séu rýrar og allar úr fyrsta samtali kæranda við kærða G. Í greinargerðinni sé ranglega staðhæft að hann hafi hætt að hafa samband við skóla barnsins, en þetta virðist sprottið af skjali þar sem barnsmóðirin fór fram á þetta og hafi hann lagt skjalið fram til að sýna fram á hversu annarleg sjónarmið kæmu fram í samskiptum við hana.

Í þriðja lagi hafi þeir sett fram tilboð um að vinna málið „svart" þ.e. án þess að tekjur væru gefnar upp til skatts. Vísar kærandi í því samhengi til þess að kærðu hafi viðurkennt að hafa samið um ákveðnar fjárhæðir „án vsk." Þeir hafi jafnframt viðurkennt að hafa móttekið reiðufé vegna vinnunnar, en ekki getað framvísað neinum reikningi vegna þess.

Í fjórða lagi hafi kærðu tekið við gagnáfrýjunarstefnu án þess að hafa til þess umboð.

III.

Kærðu krefjast aðallega frávísunar málsins frá úrskurðarnefndinni. Þeir telja málatilbúnað kæranda reistan á óljósum grunni og ekki í samræmi við gögn málsins. Sé erfitt að verjast ásökunum sem séu órökstuddar en settar fram af mikilli tilfinningasemi. 

Til vara krefjast þeir þess að nefndin komist að þeirri niðurstöðu „að endurgjald það, sem unnið var í þágu kvartanda, sé eðlilegt í samræmi við umfang málsins og að háttsemi kærðu hafi ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna".

Þá krefjast þeir málskostnaðar vegna meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærðu telja að gögn málsins beri með sér að lögmaður sá sem flutti mál kæranda í héraði hafi verið að fullu upplýstur um vinnu þeirra að áfrýjun málsins.

Kærðu kveðast hafa gert kæranda grein fyrir því á fundi þar sem rætt var um þóknun að 30-50 vinnustundir gætu farið í málið. Úr hafi orðið að horfa til þessa tímafjölda að nokkru, en festa samninginn skýlaust við 750.000 kr. fyrir utan vsk., þ.e. 930.000 að meðtöldum vsk. Kærði hafi óskað eftir því að viðskiptin yrðu „svört", þ.e. að ekki yrði greiddur af þeim virðisaukaskattur, þar sem hann væri að leigja út fasteign fyrir leigutekjur sem hann gæfi ekki upp og vildi nýta til að greiða þóknunina. Hafi kærðu svarað því að hann gæti vissulega greitt með peningum, en að ekki væri unnt að fallast á „svartar" greiðslur, t.d. með vísan til þess að hann hefði þá enga sönnun til að byggja á vegna kröfu sinnar um málskostnað fyrir Hæstarétti. Reikningagerð hafi tafist vegna tengsla kærða G við kæranda.

Þá hafi kæranda verið gerð grein fyrir því að kostnaður við ágripsgerð væri ekki innifalinn í þessari föstu þóknun, enda væri sá kostnaður óviss og færi eftir umfangi vinnunnar.

Kærðu telja að þeir hafi einfaldlega tekið við forsjármálinu í þeirri stöðu sem það var og tekið þá ákvörðun í fullu samráði við kæranda að haga kröfugerð fyrir Hæstarétti þannig að það væri á því byggt að kröfugerð fyrir héraðsdómi hafi falið í sér varakröfu um sameiginlega forsjá, en það hafi verið sú niðurstaða sem kærandi óskaði. Ekki hafi verið um það að ræða að setja fram neinar nýjar kröfur fyrir Hæstarétti. Kærandi hafi ekki uppfyllt kröfu um framlagningu málskostnaðartryggingar fyrir Hæstarétti. Hann hafi svo sjálfur kippt fótunum undan málatilbúnaði sínum með því að ákveða að flytja úr landi, en þetta hafi kærðu fyrst orðið ljóst við móttöku greinargerðar gagnaðila. Þegar hann hafi ákveðið að skipta um lögmann hafi kærðu lagt sig fram um að leiðbeina honum um tímafresti til að forða réttarspjöllum. Kærði hafi hins vegar ákveðið sjálfur að fella mál sitt niður og vanefna samning sinn við kærðu um þóknun þeirra.

Niðurstaða.

I.

Eins og að framan er rakið, er ágreiningur um áskilda þóknun kærðu og andstæð sjónarmið uppi um það hvað sé sanngjarnt endurgjald auk þess sem ágreiningur er um hvað fólst í munnlegum samningi aðila um málflutningsþóknun. Þá hefur kærandi sett fram kröfu um að kærðu verði beittir viðurlögum vegna tilgreindra brota gegn lögum og siðareglum lögmanna. Enda þótt kærðu þyki málatilbúnaður kæranda ekki hnitmiðaður telur nefndin að hann sé nægilega skýr til að kærendum hafi verið mögulegt að koma að andsvörum sínum og að unnt sé að taka afstöðu til krafna hans. Er frávísunarkröfu kærðu í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnislegrar úrlausnar.

II.

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærðu hafi gerst brotlegir við lög eða siðareglur lögmanna, sbr. 27. gr. laga um lögmenn og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærðu, sbr. 24. gr. og 1. mgr. 26. gr. laganna.

Verður fyrst fjallað um það hvort vinnubrögð kærðu teljist andstæð lögum  eða siðareglum lögmanna.

Sá sem telur lögmann í störfum sínum hafa á hlut sinn gert með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur borið málið undir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. gr. 27. gr. LML. Í afgreiðslu á erindum sem nefndinni berast getur hún fundið að vinnubrögðum eða háttsemi viðkomandi lögmanns eða ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða veitt honum áminningu, sbr. 2. mgr. 27. gr. LML. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumannað réttindi hans verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 28. gr. siðareglnanna kemur fram að ef lögmanni er falið verkefni, sem annar lögmaður hefur áður sinnt, skal hann ekki hefja vinnu við það fyrr en hann hefur fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmannsins sé lokið eða verði lokið án tafar.  Ekkert er fram komið um að kærðu hafi gengið gegn þessu ákvæði. Á kærðu hvíldi hins vegar ekki skylda samkvæmt siðareglum eða lögum til að gæta að uppgjöri kæranda við fyrri lögmann, auk þess sem kærandi gæti vart átt aðild að kvörtunarmáli um að brotið hefði verið gegn slíkri skyldu.

Í 18. gr. laga um lögmenn er sú skylda lögð á lögmenn að rækja í hvívetna af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Í samræmi við þetta er kveðið á um í 8. gr. siðareglna lögmanna að lögmaður skal leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og að lögmaður skal ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði. Nefndin telur ekki að vinnubrögð kærðu við gerð áfrýjunarstefnu og greinargerðar feli í sér brot gegn þessu ákvæði eða góðum lögmannsháttum. Það virðist einfaldlega hafa verið rétt metið hjá kærðu að eini möguleikinn til að knýja fram með áfrýjun þá niðurstöðu um sameiginlega forsjá sem kærandi sóttist eftir, væri að leggja á það áherslu að orðalag kröfugerðar í héraði hefði í raun falið þessa varakröfu í sér. Þótt vissulega megi benda á einstaka hnökra í þessum skjölum þá fæst ekki séð að þeirhafi varðað réttarspjöllum eða að málstað kæranda fyrir Hæstarétti hafi vegna þessa verið stefnt í tvísýnu, þannig að vinnubrögðin brjóti gegn siðareglum.

Svo sem rakið er að ofan saka aðilar máls þessa hvor annan um að hafa stungið upp á að viðskiptin yrðu ekki gefin upp til skatts og að virðisaukaskattur yrði hvorki innheimtur né greiddur. Ekkert var skrifað niður um þann samning sem aðilar gerðu um þóknun og ekkert í samskiptum þeirra sýnir afdráttarlaust að kærðu hafi stungið upp á eða fallist á að hafa þetta fyrirkomulag á viðskiptunum. Gegn mótmælum kærðu er ekki unnt að leggja til grundvallar að þeir hafi samið um að ekki yrði greiddur skattur af lögmannsþóknun. Þótt í tölvupóstsendingum sé fjallað um fjárhæðir „án virðisaukaskatts" felur sú orðanotkun ekki í sér ráðagerð um að enginn skattur skuli greiddur. Má raunar allt eins draga þá ályktun að þetta orðalag sýni að áskilnaður sé gerður um greiðslu virðisaukaskatts, enda væri þarflaust að ræða um fjárhæðir með eða án vsk. ef sammæli væri um að enginn virðisaukaskattur skuli greiddur.

                                                                                                             

Þegar litið er til þeirra samskipta sem rakin eru í málsatvikalýsingu hér að ofan telur nefndin að ekki sé annað komið fram en að kærði K hafi verið í góðri trú um að hann hefði gilt umboð til að fara með mál kæranda þann 18. ágúst 2015, þegar honum barst beiðni um að undirrita gagnáfrýjunarstefnu um birtingu. Í því samhengi verður að líta til þess að um tveimur vikum seinna, þegar þrýst var á kæranda að eyða óvissu um framhald málsins játaði hann að þetta stæði upp á sig, en hann væri að bíða eftir svari frá öðrum lögmanni. Þá er afturköllun kæranda á umboði kærðu, sem hefur verið lögð fram í málinu, dagsett tæpum mánuði eftir að kærði K tók við gagnáfrýjunarstefnunni. Samskipti þeirra kærða G og kæranda í dagslok 18. ágúst fá ekki hnekkt þessu.

Með vísan til alls þessa verður ekki fallist á að kærðu hafi brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kæranda.

III.

Ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 24. gr. sbr. 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga.

Svo sem fyrr er greint var ekki gerður neinn skriflegur samningur um þjónustu kærðu og telur nefndin að kærðu verði að bera hallann af því að þeir geta hvorki sýnt fram á að kærandi hafi skuldbundið sig til að greiða 750.000 kr. í lögmannsþóknun auk vsk., þ.e. alls 930.000 kr., né heldur að kæranda hafi verið kynnt að ofan á lögmannskostnað myndi leggjast veruleg fjárhæð vegna ágripsgerðar. Þá telur nefndin að hvað sem samningagerð þessari um fasta þóknun líður, þá hafi við hana ekki verið tekin afstaða til þess hvernig með skyldi fara ef störfum kærðu lyki áður en málið hefði verið flutt. Að öllu samanlögðu virðist nefndinni því óhjákvæmilegt að meta það frá grunni hver sé hæfileg þóknun kærðu fyrir störf sín, en að umrætt samkomulag verði aðeins haft til hliðsjónar við það mat. Eins og málið er lagt fyrir nefndina og í ljósi þess hve óljóst er hvernig samningssambandi aðila var háttað, telur nefndin að það falli utan hennar verksviðs að skipta úrskurðaðri þóknun á milli kærðu. Ekki kemur til álita að reikna kæranda rétt til fullrar endurgreiðslu á grundvelli einhvers konar bótaréttar hans á hendur kærðu.

Í málinu nýtur við efnisskrár yfir málsgögn í hæstaréttarmálinu, auk þess sem áfrýjunarstefna, greinargerð og gagnáfrýjunarstefna gefa nokkuð glögga mynd af ágreiningnum sem uppi var í málinu og umfangi þess.Í ljósi 1. mgr. 18. gr. laga um lögmenn,sem og grunnreglna um góða lögmannshætti ber lögmönnum að kynna sér málsgögn til þess að geta staðið undir þeirri brýnu starfsskyldu að neyta allra lögmætra úrræða í þágu hagsmuna skjólstæðings. Á hinn bóginn er ljóst að þau tvö skjöl sem kærðu útbjuggu vegna málsins voru mjög knöpp og var það að mestu vegna þess að áfrýjunin sneri fyrst og fremst að því að fá endurmetið hvort í kröfugerð í héraði fælist varakrafa um sameiginlega forsjá, en í þeim kemur ekki fram ítarlegur rökstuðningur við afstöðu kæranda til efnislegs ágreinings varðandi forsjárhæfni. Samskipti kærðu við umbjóðanda og gagnaðila voru ekki umfangsmikil, þótt komið hafi til tölvupóstsamskipta, einkum um málskostnaðartryggingu.

Þegar á allt er litið þykir nefndinni eðlilegt að miða hæfilegt endurgjald kærðu að álitum við tæplega 20 tíma vinnu og að heildarendurgjald verði þá rúmlega 400.000 kr. Þá virðist nefndinni rétt að útlagður kostnaður við endurrit greiðist að fullu af kæranda, eins og hér er farið að við að nálgast niðurstöðu. Verður því talið rétt að lögmannsþóknun verði kr. 500.000 að virðisaukaskatti meðtöldum og er hún þá að fullu greidd miðað við þær fjárhæðir sem ágreiningslaust virðist að inntar hafa verið af hendi.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærðu, K hrl. og G hdl. hafa í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, B , með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna..

Hæfileg þóknun kærðu, fyrir störf í þágu kæranda, er kr. 500.000 að virðisaukaskatti meðtöldum.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson