Mál 18 2016

 

 

Ár 2017, þriðjudaginn 28. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2016:

A og B

gegn

C hdl.

og kveðinn upp svofelldur

                                                     

             Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. ágúst 2016 erindi kærendur, A og B, þar sem er annars vegar kvartað yfir áskilinni þóknun og tímaskýrslu kærða, C hdl., og hins vegar tilgreindum vinnubrögðum hans og háttsemi.

 

Kærða var með bréfi dags. 22. ágúst 2016 gefinn kostur á að skila greinargerð vegna erindisins og veittur frestur til þess til 7. september næst á eftir. Viðbótargögn bárust frá sóknaraðilum 17., 22. og 25. ágúst og voru þau send kærða með bréfi 6. september og frestur hans til skila á greinargerð framlengdur til 26. september 2016 jafnframt því sem sóknaraðilum var leiðbeint um málsmeðferð. Greinargerð kærða barst úrskurðarnefnd 26. september og var sóknaraðilum send sú greinargerð til athugasemda með bréfi dags. 19. október 2016. Bárust athugasemdir þeirra með bréfi dags. 26. október 2016. Þær athugasemdir voru sendar kærða til umsagnar með bréfi dags. 8. nóvember 2016 og bárust lokaathugasemdir hans úrskurðarnefnd 28. nóvember 2016. Voru þær sendar sóknaraðilum til upplýsingar með bréfi 1. desember 2016 með þeirri athugasemd að nefndin teldi að gagnaöflun væri lokið. Hinn 15. desember 2016 bárust frekari athugasemdir kærenda við athugasemdir kærða og voru þær sendar kærða með bréfi dags. 29. desember 2016 til kynningar.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Mál þetta á skv. málsgögnum upphaf sitt að rekja aftur til þess að kærði, meðeigandi að lögfræðistofu Þ, tók í maí 2014 að sér lögmannsaðstoð fyrir kærendur, einkum A, vegna ágreiningsmála um fasteign í D í Reykjavík. Kærendur höfðu haft annan lögmann sér til fulltingis í málinu áður. Óumdeilt er í málinu að kærði veitti sóknaraðilum afslátt af almennu tímagjaldi sínu sem var kr. 24.500 og skyldu þeir greiða 22.500.

 

Kærendur áttu eina íbúð af fjórum í húsinu og deildu við eigendur tveggja annarra íbúða þar, hjónin E og F sem höfðu X sem lögmann, vegna leka- og mygluvandamála. Kærendur töldu svo rammt kveða að þessum vanda að þeim væri ekki vært í íbúð sinni og kröfðust viðgerðar bæði á íbúðinni og sameign hússins.

 

Fyrir lá matsgerð frá Y, dómkvöddum matsmanni, um ástand fasteignarinnar sem kærendur vildu ekki una og töldu svo illa unna að þeim bæri að fá verkið endurgreitt. Aflaði kærði yfirmats en taldi hvorki tímabært né rétt að sækja mál á hendur Y. Yfirmatsgerðin var tilbúin í lok júní árið 2015 og lögð fyrir húsfélagsfund 20. ágúst. Sóttu kærendur fundinn ásamt kærða. Samkvæmt fundargerð töldu gagnaðilar kærenda í því máli, sem fóru með meirihluta atkvæða á húsfundinum, að ekki hefði tekist að sýna fram á að 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús ætti við. Höfnuðu þau tillögu kærenda o.fl. um framkvæmdaáætlun og samþykktu sína eigin. Lét kærði bóka að leitað yrði allra leiða til að hnekkja þeirri ákvörðun.

 

Innborgarnir kærenda vegna lögmannskostnaðar kærða námu kr. 100.000 í sex skipti árið 2014 og sjö skipti árið 2015 eða samtals kr. 1.300.000.

 

Með því að áðurnefndir gagnaðilar kærenda hindruðu að sérfræðingar á vegum kærenda fengju með fullnægjandi hætti komist að í fasteigninni til að útbúa útboðsgögn vegna viðgerða sem að var stefnt ákváðu kærendur með kærða að höfða innsetningarmál á hendur þeim. Hafði kærði í október 2015 óskað upplýsinga hjá G um gögn sem þyrfti að útvega tryggingafélaginu til að það gæti tekið ákvörðun um réttaraðstoð við kærendur sem þrýstu mjög á að farið yrði í bótamál við matsmanninn. Í tölvupósti til kærða 21. desember 2015 kom fram að tryggingafélaginu þætti best að fá „stefnu/greinargerð eða dóm málsins" eða gögn sem sýndu um hvað málið snerist, hverjir væru aðilar þess og hvenær ágreiningur hefði komið upp. Tilkynnti kærði kærendum 22. desember að hann teldi óvíst að tryggingafélagið borgaði neitt að svo stöddu, málinu þyrfti fyrst að stefna fyrir dómstóla.

 

Samkvæmt verkbókhaldi kærða skulduðu kærendur honum í árslok 2015 kr. 2.333.975 með virðisaukaskatti.

 

Hófst formlegur undirbúningur innsetningarmálsins 20. janúar 2016, skv. verkdagbók kærða. Var málið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. apríl sama ár. Hinn 12. apríl samþykktu kærendur kauptilboð gagnaðila þeirra í því máli í íbúð þeirra sem þrætan stóð um. Innsetningarmálið var af þessum sökum fellt niður að beiðni kærða 18. apríl 2016. Þrátt fyrir að samningar hefðu náðst um sölu á íbúðinni töldu kærendur sig enn eiga gilda skaðabótakröfu á hendur þessum gagnaðilum vegna tjóns sem þau hefðu orðið fyrir af þeirra völdum. Fór svo að lokum að eftir að búið var að ganga frá kaupsamningi og uppgjöri fólu þau kærða að stefna þeim í bótamáli.

 

Samkvæmt tölvupósti frá kæranda A til kærða 11. maí 2016 buðust kærendur til að greiða honum kr. 450.000 með virðisaukaskatti fyrir að sjá um frágang á sölu íbúðarinnar. Kærði sagðist samþykkja kr. „450.000 + vsk" með tölvupósti sama dag. Var um að ræða í fyrsta lagi allan skjalafrágang vegna sölunnar, en umdeilt er hvort samningar við gagnaðila voru jafnframt innifaldir í þessu verði.

 

Um svipað leyti hafði kærði höfðað mál að beiðni kærenda á hendur Y matsmanni sem tekið var fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 1. apríl 2016, skv. verkdagbók, þrátt fyrir að hann hefði ráðið gegn því vegna takmarkaðra hagsmuna kærenda og óvissu um úrslit þess.

 

Innborgun kærenda vegna þess máls á reikning kærða nam kr. 100.000 í mars 2016.

 

Fylgiskjöl málsins með tölvupóstum bera með sér að samskipti kærenda og kærða hafi verið vinsamleg framan af en ágreiningur um þá stefnu sem málið tók og þóknun kærða setti mark sitt á þau þegar á leið, ekki síst eftir úrskurð héraðsdóms í málinu gegn matsmanninum í maí 2016, þar sem kröfum kærenda var hafnað.

 

Í tölvupósti 27. maí 2016 til kærða sakaði sóknaraðili A hann um slugs með því að hafa ekki höfðað mál á hendur matsmanninum tveimur árum fyrr og að málflutningurinn hefði verið „langt í frá góður", „innihaldslaus" og byggst á öðrum forsendum en leggja átti upp með. Í svarpósti 28. maí hvatti kærði kærendur til að fá sér nýjan lögmann og kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Hann hafi varað við að þungt yrði að sækja málið og sóknaraðili skyldi ekki voga sér að kenna honum um hvernig fór. Sagðist hann tilbúinn að láta samskiptum við kærendur lokið að uppgjöri loknu „því ég kann ekki lengur við þessa framkomu þína".

 

Eigi að síður fól sóknaraðili A kærða með tölvupósti 1. júní 2016 að ljúka við framangreinda stefnu í skaðabótamálinu svo að mætti „henda því inn fyrir sumarfrí Héraðsdóms": „Nú er bara að horfa fram á veg og klára skaðabótamálið." Kærði kveður vinnu sína við stefnuna hafa verið setta „á bið" eftir ágreininginn við umbjóðendur hans fram yfir 12. júní 2016 vegna dvalar kæranda A erlendis og frá 13.-19. júní vegna utanfarar hans sjálfs og frítöku. Hafi ekki verið byrjað á stefnunni að ráði fyrr en 24. júní 2016 og vegna umfangs hennar hafi ekki tekist að skila henni inn fyrir réttarhlé 30. júní. Hinn 5. júlí sendi kærði kærendum drög sín að stefnu og óskaði eftir athugasemdum.

 

Vegna ágreinings um reikning kærða dags. 22. apríl 2016, þar sem fram kom að tímagjaldið var kr. 25.900 en ekki kr. 22.500 eins og samist hafði um, bað kærði kærendur með tölvupósti 5. júlí að hafa ekki áhyggjur af því, tímagjaldið yrði leiðrétt þegar réttaraðstoðartrygging hefði verið greidd. Yrði mismunurinn á reikningi hans og væntanlegri réttaraðstoðartryggingu felldur niður: „Ég hafði reikninginn þetta háan til að öll réttaraðstoðartryggingin fengist örugglega." Í athugasemdum sínum við erindi kærenda til úrskurðarnefndarinnar dags. 23. september 2016 segir kærði að tímagjaldið hafi fyrir mistök starfsmanns á lögmannsstofu hans verið skráð kr. 25.900 auk virðisaukaskatts.

 

Sóknaraðili A tilkynnti kærða með tölvupósti 8. júlí að hún hefði látið G greiða sér tryggingarupphæðina milliliðalaust: „... ég lét leggja upphæðina frá G inn á minn reikning og þú getur þá sent mér sanngjarnan reikning og ég greiði hann." Í tölvupósti frá kærða til kærenda 15. júlí 2016 kemur fram að fjárhæð þessarar greiðslu hafi numið kr. 1.500.000.

 

Kveðst kærði hafa lokið við gerð stefnunnar 11. júlí 2016. Þess er þó ekki getið í tölvupósti hans til kæranda A þann dag kl. 15:15 þar sem útskýrt er vegna hvers hann hefði ekki lokið við stefnuna 12.-15. maí eins og hann hefði áður sagst ætla að gera. Í þeim pósti segir hann að ekki hafi gefist svigrúm til þess vegna annarra úrlausnarefna fyrir kærendur, ferðalaga kærða utan lands og innan, umfangs málsins sem væri mjög mikið, auk karps þeirra kærenda og kærða um málið varðandi matsmanninn. Einnig fylgdu útskýringar kærða á áskilinni þóknun hans vegna kvartana og fyrirspurna kærenda. „Ég er orðinn frekar þreyttur á samskiptum við þig, þú kannt þig ekki og þú skalt vanda betur framkomu þína," segir í tölvupóstinum sem kærði lýkur með því að segjast lækka tímagjald á reikningi úr kr. 25.900 í kr. 22.500 og veita kærendum 10% afslátt gegn því að reikningurinn verði greiddur strax.

 

Í málsgögnum eru afrit kreditreiknings nr. 881 dags. 30. júní 2016 vegna reiknings nr. 662 frá 22. apríl sama ár, þar sem tímagjald nam kr. 25.900 auk virðisaukaskatts, og nýr reikningur nr. 882 dagsettur sama dag, þ.e. 30. júní, með tímagjaldinu 22.500 auk virðisaukaskatts og með 10% afslætti.

 

Um kl. 16:00 hinn 11. júlí sendi sóknaraðili kærða tölvupóst þar sem þess var óskað að hann tæki „pásu" í málinu. Kærði sendi tölvupóst til baka rúmri klukkustund síðar þar sem hann sagðist hafa lokið við stefnuna þennan sama dag.

 

Hefur kærði ekki starfað frekar fyrir kærendur eftir þetta og kærendur leitað til annars lögmanns. Samskipti aðila upp úr þessu einkenndust af tilraunum til að ná niðurstöðu um þóknun fyrir unnin störf kærða þar sem kærendur töldu reikningana almennt of háa. Lýsti sóknaraðili A því yfir í tölvupósti til kærða 15. júlí 2016 að hún myndi gera endanlega upp við hann hinn 18. ágúst 2016 en með fyrirvara um niðurstöðu úrskurðarnefndar lögmanna. Kærði gaf til kynna að hann myndi hefja innheimtuaðgerðir gagnvart þeim.

 

Hinn 15. ágúst, fimm dögum eftir að kærendur sendu úrskurðarnefnd erindi sitt, bauð kærði í tölvupósti til kærendur sættir með því að lækka reikning sinn um liðlega kr. 540.000 og fara fram á alls kr. 2.000.000 auk virðisaukaskatts: „Þar með hefur þú gert upp við mig að fullu. Látum öll leiðindi að baki. Ef þú vilt væri ég til í að halda málinu áfram þar sem stefnan er tilbúin en ef þú vilt halda þig við nýja lögmanninn þá er það mér að meinalausu. Vonast ég til að með þessu náum við sáttum." Enn fremur baðst kærði afsökunar: „Eins og ég nefndi við þig í síðasta tölvupósti þykir mér þessi staða á milli okkar mjög leiðinleg og vildi óska að mál þetta hefði ekki farið svona. Ég á sök á þessu líka og hef svarað gagnrýni þinni of harkalega og var satt að segja orðið frekar pirraður á samskiptum við þig sem varð til þess að ég sagði þér að finna annan lögmann, sagt í reiði. Þannig að ég tek á mig stóran hluta leiðindanna og bið þig afsökunar á þeim."

 

Sáttaboðið var ítrekað 17. ágúst og 22. ágúst og látið gilda til kl. 18.00 þann dag. Var sömuleiðis gefinn út reikningur í samræmi við boðið en fresturinn leið án þess að kærendur samþykktu það.

 

Kærendur héldu því fram í tölvupósti til kærða 18. ágúst að hann hefði sagt þau vera skuldlaus við sig um áramótin á undan og í öðrum tölvupósti sama dag afþökkuðu þau skaðabótastefnuna gegn greiðslu þar sem kærði hefði ekki staðið við að ljúka henni 12.-15. maí 2016. Í tölvupósti, sem kærendur segjast hafa fengið frá kærða 22. ágúst, segir m.a. „hér kemur stefnan" og að sendur verði nýr reikningur án afsláttar þar sem kærendur hafi „slegið á útrétta sáttarhönd".

 

Í málsgögnum kemur fram að reikningurinn með afslættinum hafi verið bakfærður 26. september 2016 enda yrði málið afgreitt hjá úrskurðarnefnd lögmanna. Kærendur gerðu ekki upp við kærða, hvorki með né án fyrirvara, og kveður kærði skuld þeirra við sig nema kr. 3.151.926 með virðisaukaskatti.

 

Óhjákvæmilegt er að vitna í nokkra tölvupósta til að varpa ljósi á samskipti aðila.

 

Kærði til kæranda A:

28. maí 2016: „Ég er alveg tilbúinn að okkar samskiptum ljúki núna og þú gerir upp við mig þá vinnu sem ég er búinn að vinna fyrir þig þ.m.t. í þessu nýja máli því ég kann ekki lengur við þessa framkomu þína, þú getur þá bara fengið þér annan lögmann. [...] þú varst mjög erfið í minn garð og þú virðist ekki gera þér grein fyrir hvenær framkoma þín fer yfir strikið."

 

28. maí 2016: „[...] þú ert í algjöru rugli með þetta mál gagnvart Y."

 

30. maí 2016: „Þú fórst offari í athugasemdum þínum á mér þannig að sitt sýnist hverjum um að ausa drullu."

 

11. júlí 2016: „Mér finnst þú orðin sanngjörn [svo] og frábið ég mér frekari leiðindi af þinni hálfu. [...] þú ert orðin svo tilfinningalega bundin þessum málum að þú sérð ekki alltaf skóginn fyrir trjám. [...] Ég er orðinn frekar þreyttur á samskiptum við þig, þú kannt þig ekki og skalt vanda betur framkomu þína."

 

14. júlí 2016: „Þú ert rosalega pirruð verð ég að segja í samskiptum og er það ekki gott."

 

15. júlí 2016: „[... tryggingin] sem þú lést leggja inn á þig sem aldrei hefur verið gert í þau tugi skipta sem ég hef verið með dómsmál að skjólstæðingur minn frekjast með þetta, þegar hann skuldar manni milljónir. Þetta er gjörsamlega óþolandi framkoma. [...] Hótun mín um að segja mig frá málinu er komin til vegna leiðindasamskipta við þig og neitun þína að greiða reikning þegar þú ert búinn að fá peninginn fyrir frá tryggingarfélaginu kr. 1.500.000 og ætlir bara að sjá til með að greiða hann, sem er gjörsamlega óþolandi framkoma."

 

19. ágúst 2016: „Ég hef enga 10 tíma tekið aukalega fyrir þessa sölu, hvað djöfulsins kjaftæði er þetta í þér?"

 

1. september 2016: „Ef einhver er aumkunarverður þá ert það þú sem neitar að borga fyrir vinnu mína sem þú baðst um."

 

Sóknaraðili A til kærða:

 

28. maí 2016: „[...] að vera með lögmann sem getur ekki tekið athugasemdum og drullar yfir skjólstæðing sinn fyrir það eitt að segja sína skoðun á málinu."

 

14. júlí 2016: „[...] þú talar niður til okkar og mér finnst það ljótt af þér. [...] Þú bilaðist yfir því að ég hafi sagt þér hvað mér fannst um málflutning þinn - má ekki gagnrýna þig fyrir vinnubrögð ef við erum ekki sátt?" Síðar í sama pósti um þau ummæli kærða að hann sé þreyttur á samskiptum við kærenda A: „Spegill!"

 

14. júlí 2016: „Þú skalt ekki voga þér að bera upp á mig lygar né að ég sé óheiðarleg! [...] Í stað þess að biðjast afsökunar drullar þú yfir mig í pósti. [...] Hvaða helvítis rugl er í þér?Þú rakkar mig niður með skítakommentum í síðustu póstum, líttu þér nær drengur, margur heldur mig sig! [...] Mikið þykir mér lítið til þín koma kæri C, eins og ég virti þig og fannst þú góður maður."

 

24. ágúst 2016: „Ekki halda að ég sé hrædd við þig og þínar hótanir þú aumkunarverði maður."

 

II.

Skilja verður erindi kærenda þannig að þess sé í fyrsta lagi krafist að þóknun kærða með hliðsjón af unnum vinnustundum verði endurskoðuð og metið hvort tímagjald kr. 22.500 sé með eða án virðisaukaskatts. Í öðru lagi er krafist úrskurðar um ætlaðan seinagang kærða við málshöfðun vegna matsgerðar sem hafi valdið sóknaraðilum tjóni. Í þriðja lagi er kvartað yfir meintri vanrækslu við að sækja um réttaraðstoð tryggingafélags og gjafsókn og í fjórða lagi undan ókurteisi og hroka í garð kæranda A.

 

Úrskurðarnefnd lítur svo á að erindi kærenda byggist á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 27. gr. sömu laga.

 

Í megindráttum gera kærendur athugasemdir við framgöngu kærða að þrennu leyti:

 

 • 1. Seinagangur vegna réttaraðstoðar
 • 2. Seinagangur vegna skaðabótamáls
 • 3. Háttsemi lögmanns, þ.e. framkomu hans í garð kæranda A.

 

Þá lúta athugasemdir kærenda varðandi áskilda þóknun kærða að eftirfarandi fimm meginatriðum:

 

 • 4. Virðisaukaskattur hafi verið innifalinn í tímagjald kr. 22.500
 • 5. Sóknaraðili hafi sjálfur lýst kærða skuldlaus við sig í byrjun árs 2016
 • 6. Vinnustundir vegna sölu íbúðar séu ofætlaðar og umfram það sem samið var um.
 • 7. Vinnustundir vegna máls gegn dómkvöddum matsmanni séu ofreiknaðar.
 • 8. Þóknun vegna vinnu við yfirmatsbeiðni og innsetningarbeiðni sé óeðlilega há

 

1. Kærendur saka kærða um að hafa tafið fyrir málshöfðun gegn dómkvöddum matsmanni þannig að þau fóru á mis við málskostnaðartryggingu á árinu 2015. Þrátt fyrir eftirgangsmuni hafi kærði ekki höfðað mál til greiðslu bóta úr hendi matsmanninum fyrr en á vormánuðum 2016. Það ár hafi réttur til réttaraðstoðartryggingar verið nýttur vegna innsetningarbeiðninnar. Kærendur telja að kærði hefði átt að haga málum þannig að kærendur fengju notið málskostnaðartryggingar á árinu 2015 eða gjafsóknar.

 

2. Kærendur segja að miðað við tímaskýrslu hafi kærði varið 9,75 klst. til undirbúnings stefnu vegna skaðabótamáls á hendur gagnaðilum kærenda sem keyptu af þeim íbúðina. Í lok apríl 2016 hafi kærði sagst vera langt kominn með stefnuna og að hún yrði tilbúin 12.-15. maí það ár. Verkinu hafi seinkað endalaust og sífellt verið gefin fyrirheit um nýjar tímasetningar uns til hafi staðið að bíða til 1. september. Þegar upp hafi komið ágreiningur við kærða í tengslum við greiðslu réttaraðstoðar G og kærendur báðu hann um að gera hlé á frekari störfum fyrir þá hafi liðið klukkustund þar til tölvuskeyti barst frá honum um að stefnan væri tilbúin. Á tímaskýrslu sé skrifað að kærði eigi eftir að færa inn u.þ.b. 30 vinnustundir vegna stefnunnar. Kærendur hafni því að greiða fyrir þær stundir og vilji fá þær felldar niður þar sem kærði hafi seinkað málinu um fjóra mánuði. Hafi hann sent þeim stefnuna í ágúst án samþykkis og án greiðslu.

 

3. Kærendur kvarta undan hrokafullri framkomu og ókurteisi kærða. Er sérstaklega vísað til tölvupósta frá honum 11. og 14. júlí 2016, sbr. ofangreint.

 

4. Kærendur kvarta undan því að kærði hafi krafist tímagjalds að fjárhæð kr. 22.500 án virðisaukaskatts en þeir hafi haldið að virðisaukaskatturinn hafi átt að vera innifalinn í gjaldinu. Hafi styrkt þau í þeirri trú að kærði gerði þeim reikning þar sem „heildarupphæð var 14x22.900 [svo] fullgreitt". Hér virðast kærendur vísa til uppgjörs sem nefnt er í tölvupósti kærða til kærenda 17. maí 2016 þar sem veittur er helmingsafsláttur af vinnustundum lögmanns sem voru sagðir 28: „Eigum við ekki að segja 14 (sem er 50% afsláttur) x kr. 22.500 [...]."

 

5. Kærendur halda því fram að kærði hafi lýst því yfir á fundi með kæranda A og föður hennar í byrjun janúar 2016 að hann færi ekki að rukka hana frekar og að hún væri skuldlaus við hann. Fullyrðingin styðst ekki við gögn í málinu.

 

6. Kærendur halda því fram að kærði ofætli greiðslu fyrir vinnustundir vegna sölu íbúðarinnar að D en hann hafi tekið að sér verk sem fasteignasali hafnaði að taka að sér, þ.e. frágang kaupsamnings, söluyfirlits og kauptilboðs. Kærði hafi fengið greiddar samkvæmt samningi kr. 588.000 með virðisaukaskatti, sem hafi verið fullnaðaruppgjör fyrir verkið, en hafi sent G reikning fyrir 10 stundum að auki að fjárhæð kr. 202.500 að teknu tilliti til 10% afsláttar (þ.e. 10 x 22.500 - 10% afsláttur). Umræddur reikningur er ekki meðal málsgagna en ekki er deilt um að kærði krafðist greiðslu fyrir umræddar 10 vinnustundir í reikningi til G. Þá segjast kærendur hafa fengið rukkun samkvæmt tímaskýrslu aukalega um kr. 50.625 eða 2,25 klst.

 

7. Kærendur kvarta undan ofætlun vinnustunda kærða vegna máls gegn dómkvöddum matsmanni. Er vísað í verkbókhald kærða því til stuðnings. Hafi kærði krafist greiðslu fyrir 28 vinnustundir en unnið 26,5.

 

8. Kærendur fara fram á mat úrskurðarnefndar lögmanna á því hvort eðlilegt teljist að lögmannskostnaður við innsetningarbeiðni nemi kr. 1.600.000 og við yfirmatsbeiðni kr. 2.900.000. Innsetningarbeiðnin sé ekki nema 6 blaðsíður og 2,3 þeirra samhljóða matsbeiðni sem fyrri lögmaður kærenda vann og yfirmatsbeiðni kærða. Engin gögn eru fyrirliggjandi í málin sem sýna þetta. Jafnframt segja kærendur að innsetningarbeiðnin hafi ekki einu sinni ratað fyrir dóm. Það athugist að í fylgiskjölum með erindi kærenda til úrskurðarnefndar er afrit skjals úr dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2016 í máli nr. A-136/2016 um að mál þetta hafi verið fellt niður.

 

Yfirmatsbeiðnin er sögð hafa verið 16 blaðsíður en þar af hafi vinna kærenda verið u.þ.b. 9 blaðsíður og u.þ.b. 3 blaðsíður samhljóða matsbeiðni sem fyrri lögmaður kærenda vann. Samanburðargögn eru ekki fyrirliggjandi í málinu. Kveða kærendur kærða hafa sagt að kostnaður yrði um kr. 600.000 en lækka mætti kostnaðinn með vinnuframlagi frá sóknaraðilum. Hafi kærendur tekið kærða vara við að eyða of miklum tíma í að lesa tölvupósta frá gagnaðilum þeirra í málinu og lögmanni þeirra sem sendu fjölda óþarfa orðsendinga. Hann hafi ekki varast það. Kærendur segja kærða hafa tjáð sér að hann væri ekki kunnugur mygluvandamálum í húsum og veikindum þeim tengdum. Hafi kærendur útvegað honum fræðsluefni sem kærði hafi sagst ætla að kynna sér þeim að kostnaðarlausu. Hann hafi aftur á móti innheimt tímagjald vegna þessa fyrir þrjár vinnustundir. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem styðja slíkt samkomulag. Þá hafi kærði krafist greiðslu fyrir 9 vinnustundir fyrir húsfund sem tók klukkutíma og hann hafi mætt of seint á.

 

III.

Kærði gerir þá kröfu að kvörtunum kærenda verði hafnað, að staðfest verði að tímagjald hans hafi verið kr. 22.500 auk virðisaukaskatts og jafnframt að staðfest verði að kærendur greiði kærða samkvæmt tímaskráningu hans frá 13. maí 2014 til 11. júlí 2016 271 vinnustund en til frádráttar komi:

 

 • 53,75 vinnustundir vegna reiknings nr. 882, dags. 15. júlí 2016 (innsetningarbeiðni o.fl.)
 • 26,5 vinnustundir vegna máls gegn dómkvöddum matsmanni (uppgert)
 • 1,5 vinnustundir vegna dómkvadds matsmanns
 • Innborganir kærenda samtals að fjárhæð kr. 1.300.000
 • Kr. 450.000 vegna frágangs á kaupsamningi.

 

Skilja verður kröfu kærða þannig að krafist sé staðfestingar á því að skuld kærenda við hann nemi kr. 3.110.075 með virðisaukaskatti.

Auk þess krefst kærði að sóknaraðilum verði gert að greiða málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði telur að kærendur hafi viðurkennt skuld sína við sig, sbr. tölvupóst hans til kæranda A15. júlí  2016, með yfirlýsingu í tölvupósti til kærða síðar sama dag, þar sem segir:

Flott, þá greiði ég þér reikninginn í dag með fyrirvara um úrskurðanefnd lögmanna.

Ég geri endanlega upp við þig þann 18. ágúst, ég get ekki lagt inn á þig fyrirfram þar sem peningar mínir eru bundnir til 18. ágúst.

 Sendu mér tímaskýrsluna í dag.

A"

 

Að öðru leyti þykir mega gera grein fyrir athugasemdum kærða samkvæmt sömu töluliðum og í kafla II.

 

1. Kærði vísar á bug ásökunum kærenda um að hann hafi með töfum orðið valdur að því að kærendur fengju ekki notið réttaraðstoðar í formi málskostnaðartryggingar og gjafsóknar. Kveður kærði kærendur hafa þrýst á að fara í mál við dómkvaddan matsmann eftir að yfirmat var fengið í júní 2015, þó sérstaklega í nóvember-desember sama ár. Hagsmunir þeirra hafi aftur á móti verið „sáralitlir". Kostnaður við hina umþrættu matsgerð hafi numið kr. 933.000 og réttur hlutur íbúðar kærenda verið 28,2% í honum, en kærendur hafi lagt út fyrir kostnaðinum og aðeins fengið endurgreitt vegna kjallaraíbúðar. Eðlilegast hefði verið að rukka aðra eigendur fyrir mismuninum.

 

Kærði hafi látið undan þrýstingi um kröfugerð á hendur matsmanninum vorið 2016, þótt hann hafi talið ólíklegt að hún skilaði árangri. Fram að því hafi kærði verið önnum kafinn í öðrum og brýnni málum fyrir kærendur auk þess sem fjárhagur þeirra og skuldastaða gagnvart kærða hafi ekki boðið upp á frekari málarekstur fyrir dómstólum á þeim tíma, jafnvel þótt annar lögmaður hefði tekið við málinu. Hafi því ekki verið tilefni til að fara í mál við matsmanninn á árinu 2015 og alls óvíst þar á ofan hvort réttaraðstoð hefði fengist. Það kom a.m.k. ekki til greina 2016.

 

Ekki hafi heldur verið hlaupið að því fá gjafsókn fyrir kærendur sem áttu samtals um 25 milljóna kr. eignarhlut í íbúð sinni.

 

Kærði furðar sig loks á því að mál, sem var lokið með fullnaðaruppgjöri og afsláttarkjörum á vormánuðum 2016, sé nú borið undir úrskurðarnefnd lögmanna.

 

2. Kærði hafnar því með öllu að hafa tafið vinnu við gerð stefnu til greiðslu skaðabóta á hendur gagnaðilum kærenda og kaupendum íbúðar þeirra. Hann mótmælir jafnframt kröfu kærenda um niðurfellingu vinnustunda vegna vinnu við stefnuna. Þær hafi allar verið unnar eins og aðrar vinnustundir í málum fyrir kærendur.

 

Fyrstu samskipti kærða og kærenda um málið hafi samkvæmt tímaskráningu verið 22. mars 2016. Á þeim tíma hafi mál gegn dómkvöddum matsmanni og sérstaklega innsetningarmál haft forgang. Hinn 26. apríl þar á eftir hafi kærði sent kærendum tölvupóst með upplýsingum um að hann væri byrjaður að vinna að stefnunni og að hún yrði tilbúin 12.-15. maí. Hafi þó strax orðið ljóst að það myndi ekki nást né væri ráðlegt að stefna kaupendum íbúðarinnar fyrr en kaupin væru með öllu frágengin. Kaupsamningsfundur hafi verið haldinn 12. maí. Kærði hafi verið erlendis 13.-15. maí og aftur 20.-31. maí. Síðan hafi kastast í kekki milli aðila vegna niðurstöðu héraðsdóms í máli um ætluð afglöp matsmanns og hugðist kærði hætta störfum fyrir kærendur í lok maí. Stefnan hafi verið sett á bið fram yfir 12. júní eða þangað til sóknaraðili A kæmi heim frá útlöndum. Kærði hafi verið erlendis 13.-15. júní og í fríi 16.-19. júní. Hafi því ekki verið byrjað á stefnunni að einhverju ráði fyrr en 24. júní 2016. Vegna mikils þrýstings af hálfu kærenda hafi kærði frá og með 27. júní lagt allt kapp á að koma stefnunni fyrir dóm 30. júní. Það hafi ekki tekist vegna umfangs stefnunnar sem er 19 blaðsíður að lengd. Drög að stefnunni hafi verið send sóknaraðilum 5. júlí eftir margítrekaðar fyrirspurnir þeirra. Kærði hafi ekki dregið af sér að ljúka við stefnuna vegna þess hve óánægðir kærendur voru orðnir. Hafi hann unnið að henni í 2,75 stundir 8. júlí og lokið við hana með 2,5 vinnustundum fyrir kl. 16.00 11. júlí 2016. Kærendur hafi ekki beðið hann um að gera hlé á vinnu sinni fyrr en eftir að hann lauk við stefnuna.

 

Kærði kveðst hafa sent kærendum stefnuna 22. ágúst 2016 í tilefni af sáttaboði sínu. Í stefnunni sé krafist bóta að fjárhæð kr. 25.479.591.

 

3. Kærði hafnar því að hafa hegðað sér ósæmilega gagnvart kæranda A. Hún hafi átt erfitt og e.t.v. verið viðkvæmari en gengur og gerist, en gengið fram með leiðindum og dónaskap sjálf gagnvart kærða þannig að hann hafi fengið nóg af aðdróttunum hennar. Ummæli kærða í tölvupóstum eins og „mér finnst þú ósanngjörn og frábið ég mér frekari leiðindi af þinni hálfu", þú skalt líta í eigin barm vegna þessa Ymáls, þú ert svo tilfinningabundin þessum málum að þú sérð ekki skóginn fyrir trjám" og „þú ert svo rosalega pirruð verð ég að segja í samskiptum og er það ekki gott", geti ekki talist ámælisverð ef þau séu skoðuð í samhengi sínu. Tölvupóstur 14. júlí 2016 hafi verið skrifaður sóknaraðilum vegna skuldar þeirra við kærða eftir að sóknaraðili A lét leggja réttaraðstoð tryggingafélags síns inn á eigin reikning en ekki reikning lögmannsins, sem sé venjan. Af því hafi hótun kærða um innheimtuaðgerðir stafað og það sé rangt að kærði hafi sakað kærendur um lygar.

 

4. Kærði kveður tímagjald sitt í maí 2014 hafa verið kr. 24.500 auk virðisaukaskatts. Hann hafi boðið sóknaraðilum lægra tímagjald eða kr. 22.500 auk virðisaukaskatts. Hann hefði fráleitt boðið u.þ.b. 18.200 kr. tímagjald fyrir utan virðisaukaskatt eins og liggi í kröfu kærenda. Framangreindu til staðfestingar sé leiðrétting á tímagjaldi með reikningi nr. 822 13. júlí 2016 (svo; í málinu hefur verið lagður fram reikningur í málinu nr. 882 dags. 30. júní) en kærendur hafi ekki gert athugasemd við virðisaukaskattinn á reikningnum þrátt fyrir mikil tölvupóstsamskipti allt til 15. ágúst 2016 eða þangað til þau höfðu fengið sér nýjan lögmann.

 

5. Kærði kveður rangt og jaðra við lygar að hann hafi á fundi með kæranda A og föður hennar 8. janúar 2016 sagt að kærendur hefðu verið skuldlausir við hann um áramótin. Samkvæmt tímaskýrslu sem hann hafi afhent sóknaraðilum 22. desember 2015 hafi hann, miðað við 4. nóvember 2015, verið búinn að vinna í þeirra þágu 124,5 vinnustundir. Skuldastaðan hafi þannig verið kr. 2.173.550 með virðisaukaskatti að frádregnum innborgunum að fjárhæð kr. 1.300.000. Enn fremur hafi hann sent sóknaraðilum tímaskýrslu 5. júlí 2016 með öllum unnum stundum sínum til loka árs 2015 án þess að hún hafi sætt athugasemdum. Ekkert styðji kröfu kærenda að þessu leyti, hvorki uppgjör, útgefnir reikningar, breytingar í verkbókhaldi, tölvupóstar né nokkuð annað. Telja verði að sóknaraðili A hafi misskilið umræður um skuldina þegar kærði sagðist ekki mundu innheimta hana „að svo stöddu", en þá hafi legið fyrir að farið yrði í innsetningarmál sem hægt væri að fá greitt fyrir úr réttaraðstoðartryggingu.

 

6. Kærði kveður rangt að hann hafi innheimt gjald fyrir 10 vinnustundir umfram það sem hann átti rétt á. Þær 10 klukkustundir sem tilteknar voru á reikningi til G hafi varðað vinnu við að semja um íbúðarkaup kærenda og gagnaðila þeirra í innsetningarmálinu. Þær geti því ekki fallið undir samkomulag kærenda og kærða um fasta greiðslu fyrir frágang kaupsamnings. Þegar samið sé um frágang kaupsamnings eigi undir hann skjalagerð, fundir, þinglýsing o.fl. en frágangur hans fari ávallt fram eftir að kaupandi og seljandi hafi komið sér saman um verð, s.s. með kauptilboði. Kærða hafi með mikilli fyrirhöfn tekist að fá málsaðila til að undirrita kauptilboð 12. apríl 2016, en öll sú vinna hafi átt sér aðdraganda frá 1. apríl. Í tímaskýrslu séu skráðar 4 vinnustundir 8. apríl („Samsk. við A, unnið í söluyfirliti/kauptilboði"), 1 vinnustund 11. apríl („Samningur gerður v/innsetningar um kaup íbúðar"), 4 vinnustundir 12. apríl („Unnið við samningagerð v/innsetningarbeiðni") og 1 vinnustund 13. apríl („Fundir með A, B, og samsk. við F v. kauptilboðs"), alls 10 stundir, sem eru að mati kærða allt annars eðlis en frágangur kaupsamnings, sbr. tölvupóst hans til kærenda 15. júlí 2016. Þessi lögmannsþjónusta hafi verið nauðsynleg til að fella mætti niður innsetningarmálið og gera þurfti tryggingafélagi grein fyrir tímunum til að sýna fram á lok málsins, þar sem það var fellt niður fyrir dómi án réttarsáttar eða dóms því að gagnaðilar mættu ekki fyrir dóm. Sóknaraðilum hafi því ekki verið gert að greiða tvöfalt fyrir lögmannsþjónustu kærða.

 

Af svörum kærða til úrskurðarnefndarinnar virðist mega ráða að hann telji kvörtun kærenda um að hann reikni sér aukalega 2,5 vinnustundir byggða á misskilningi. Þær séu hluti af þeirri vinnu sem hann innti af hendi við frágang kaupsamnings, þ.e. 12,25 skráðar stundir, sem skipti ekki máli þar sem samið var um fasta greiðslu fyrir það verk.

 

7. Kærði segir að reikningsskekkja sín hafi orðið til að kærendur voru krafðir um greiðslu 28 vinnustunda í stað 26,5 vegna vinnu við mál gegn dómkvöddum matsmanni. Komi þær til frádráttar eftirstöðvum, sbr. frádráttarliði í upphafi þessa kafla. Hafi reikningsskekkjan orðið eftir samkomulag kærða og kærenda um 50% afslátt á þessum verkþætti og greiðslu kr. 215.000 auk kr. 100.000, sem þegar höfðu verið greiddar kærða, eða samtals kr. 315.000. Rétt niðurstaða miðað við kr. 22.500 tímagjald hefði verið kr. 298.125. Það athugast að í málatilbúnaði kærða um þennan þátt málsins segir jafnframt að í málinu liggi fyrir kvittun um lúkningu þessa máls en eftir sé að senda reikning vegna þess sem verði með tímagjaldinu kr. 22.500 auk virðisaukaskatts. Þetta virðist þó á skjön við málatilbúnað kærða að öðru leyti.

 

8. Kærði andmælir því að áskilin lögmannsþóknun sín vegna yfirmatsbeiðni og innsetningarbeiðni hafi verið óeðlileg. Auk þess vísar kærði á bug að hann hafi krafist 2,9 milljóna króna fyrir vinnu við yfirmatsbeiðnina og 1,6 milljóna króna fyrir vinnu við innsetningarbeiðnina eins og kærendur haldi fram í erindi sínu til úrskurðarnefndarinnar.

 

Yfirmatsbeiðnin hafi útheimt mikla vinnu með hliðsjón af gagnamagni og það sé „þvættingur" að sóknaraðili A hafi samið stóran hluta hennar. Það sé einnig rangt að kærði hafi sagt að kostnaður við hana yrði kr. 600.000 og að kærendur hafi beðið hann um að takmarka lestur á tölvupóstum frá gagnaðilum þeirra. Sóknaraðili A hafi greitt „nánast óbeðin" kr. 1.300.000 inn á reikning kærða frá ágúst 2014 til nóvember 2015 og af því sjáist að framangreindar aðfinnslur standist ekki. Kærða hafi jafnframt verið nauðsynlegt að tileinka sér fróðleik um mygluvandamál og hafi ekki rukkað fyrir það nema að litlu leyti enda hafi ekki verið um það samið að hann ætti að gera það ókeypis. Vinna við yfirmatsbeiðni skiptist þannig að lestur gagna og skoðun þeirra tók samtals 9 klukkustundir og vinnan við beiðnina sjálfa 18 klukkustundir. Kvartanir kærenda byggist á röngum skilningi á tímaskráningu lögmannsins. Þá sé skráning 9 vinnustunda vegna húsfundar 20. ágúst 2015 einnig rétt, þar sem dagur kærða hafi verið helgaður sóknaraðilum. Húsfundurinn hafi krafist mikils undirbúnings af sinni hálfu vegna eindrægni gagnaðila og sé úr lausu lofti gripið að kærði hafi verið upptekinn í öðru eða mætt of seint á fundinn. Hann hafi setið fundinn frá upphafi til enda, frá kl. 16.05-16.54, en rætt við skjólstæðinga sína um málið í rúmlega klukkustund eftir það. Athugasemdir kærenda hefðu þar að auki getað komið fram miklu fyrr.

 

Kærði mótmælir því enn fremur að innsetningarbeiðnin sé að stórum hluta verk annarra þótt byggt hafi verið á ýmsu sem áður var fram komið. Hafi hann þurft að laga efnið að forminu og láta fylgja mikinn fjölda gagna.

 

Deila aðila um fjárhæðir í þessu sambandi helgist einkum af ágreiningi þeirra um réttmæti 10 vinnustunda, sbr. lið 3, og virðisaukaskatt á tímagjald, sbr. lið 1. Gefinn var út reikningur nr. 882 30. júní 2016 að fjárhæð kr. 1.349.663 með virðisaukaskatti fyrir lögfræðiþjónustu vegna innsetningarmáls. Sú fjárhæð sem kærendur miða við í erindi sínu til úrskurðarnefndarinnar, kr. 984.375, sé fundin með því að fækka vinnustundum um tíu og telja virðisaukaskatt innifalinn í 22.500 kr. tímagjaldi. Fjárhæðin sem kærði miði við í athugasemdum sínum við erindi kærenda, kr. 967.701 án virðisaukaskatts, virðist fela í sér innsláttarvillu til lækkunar sem nemur kr. 200 og að tvíreiknaður hafi verið 10% afsláttur til kærenda (53,75 klst. x 22.500 kr. tímagjald = 1.209.375 kr. x 10% afsláttur (120.937 kr.) = 1.088.438 - 120.937 = 967.501 kr.). Að öðru leyti vísar kærði til umfjöllunar um lið 1 og 3 hér að framan.

 

Niðurstaða

I.

Það athugast að í máli þessu hefur verið lagt fram mikið magn gagna og mjög langar greinargerðir og athugasemdir þar sem sömu röksemdir hafa verið tví- og þríteknar. Hins vegar skortir nokkuð á að gerð hafi verið grein fyrir málsatvikum og vísað til málsskjala með skipulegum hætti. Þá virðist nokkuð skorta á að lagðir hafi verið fram reikningar og önnur grundvallargögn um málið. Hefur þetta orðið til þess að vinnsla málsins hefur reynst torveldari en efni stóðu til. Þá hafa kærendur bætt við frekari umkvörtunum eftir að til málsins var stofnað og hafa aðilar þannig m.a. deilt um innheimtuaðgerðir kærða. Umfjöllun hér verður hins vegar takmörkuð við þau ágreiningsefni sem kærendur lögðu grunn að með upphaflegri kvörtun sinni.

 

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

 

II.

Ein athugasemd kærenda er í þá veru að kærði hafi dregið störf sín úr hófi og þannig orðið til þess að þau gátu ekki gengið í réttaraðstoðartryggingu árið 2015 vegna starfa hans að máli gegn umræddum matsmanni. Nefndin telur hins vegar að hér verði að líta til þess að kærði var að vinna að fleiri flötum málsins en kærendur voru ekki í færum til að greiða honum út fyrir ótakmarkaða vinnu. Var nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum. Það var að mati nefndarinnar eðlilegt að byrja á yfirmatinu, enda nýttist það í þá innsetningarbeiðni sem allur málstaður kærenda valt í raun á. Þá hefði niðurstaða yfirmats hugsanlega getað nýst í bótamáli gegn matsmanni ef samanburður á yfir- og undirmati hefði dregið fram verulega ágalla á störfum matsmannsins. Það virðist því einfaldlega hafa verið skynsamleg ákvörðun að bíða með málarekstur gegn matsmanninum, enda fæst ekki betur séð en að kærði hafi réttilega metið þann þátt málsins einna langsóttastan.

 

Með hliðsjón af þessum sömu atvikum telur nefndin ekki að hægagangur við að útbúa stefnu í skaðabótamáli gegn sameigendum hafi verið slíkur að það geti varðað viðurlögum, enda þótt upphaflegar áætlanir hafi ekki staðist, enda fæst ekki séð að það hafi varðað kærendur neinum réttarspjöllum.

 

Í málsatvikalýsingu eru rakin samskipti aðila í tölvupóstum eftir að samvinna þeirra tók að stirðna. Nefndin telur að þau ummæli kærða að athugasemdir kæranda A væri „djöfulsins kjaftæði" séu kærða til vansa og fjarri því sem umbjóðendur mega vænta af lögmönnum sínum. Fær það ekki haggað þessu þótt viðmælandi hans í þessum skeytasendingum sendi honum fyrir sitt leyti athugasemdir sem voru mjög í sama dúr og að kærði baðst afsökunar á þessu í síðari samskiptum.

 

III.

Aðilar sömdu upphaflega um tímagjald en ekki liggur fyrir neinn skriflegur samningur um starfann. Vegna þess að ekki voru gefnir út og greiddir reikningar jafnóðum og unnið var, heldur greidd föst upphæð inn á viðskiptaskuld kærenda er fátt handfast í samskiptum aðila um það að hve miklu leyti sammæli var á milli þeirra um einstök atriði í gjaldtökunni. Nefndinni virðist þó óhætt að hafna þeirri málsástæðu kærenda að áskilið tímagjald hafi átt að innifela virðisaukaskatt, enda virðist sá skilningur vera til kominn allnokkru eftir að þær deilur risu sem hér er fjallað um. Kærði hefur fallist á athugasemdir kærenda um að 1,5 vinnustund hafi verið ofreiknuð í samantekt á vinnustundum vegna dómsmáls gegn matsmanni og miðast kröfugerð hans við það.

 

Ekki er fært að byggja niðurstöðu málsins á einhliða fullyrðingum kærenda um að kærði hafi sagt að þau væru skuldlaus um áramótin 2015/2016, enda hefur þeirri fullyrðingu verið mótmælt og hún fær enga stoð í gögnum málsins.

 

Skýringar kærða á því að hann hafi innheimt fyrir vinnu við að ná samkomulagi um sölu fasteignarinnar til gagnaðila úr réttaraðstoðartryggingu kærenda virðast eðlilegar og þær virðast í samræmi við það samkomulag að hann myndi innheimta fast gjald fyrir skjalafrágang vegna sölu íbúðarinnar.

 

 Við ákvörðun um heildarmat á þóknuninni telur nefndin ekki fært að horfa til þeirrar fjárhæðar sem kærendur hafa móttekið frá tryggingafélagi sínu vegna innsetningarmálsins. Hafa aðilar máls þessa lagt fram gögn þar sem fram kemur að þeirrar fjárhæðar hafi verið aflað með því að stilla upp reikningum til tryggingafélagsins, þar sem m.a. var gert ráð fyrir öðru og hærra tímagjaldi en samið hafði verið um aðila á milli. Það athugast hins vegar að þessi reikningagerð er ekki sjálfstætt sakarefni í málinu.

 

Nefndin telur að það skorti talsvert á að málatilbúnaður kærða skýri eða sýni fram á hvernig allur sá tímafjöldi sem hann áskilur sér vegna innsetningarbeiðni og yfirmatsbeiðni hafi verið nauðsynlegur til að ljúka vinnu að því marki sem gert var.

 

Að ofan er rakið að nefndinni þykir málatilbúnaður aðila fyrir nefndina óljós að í ýmsu, þótt telja verði málið nægilega upplýst til að leggja á það úrskurð. Þá telur nefndin að þær upplýsingar sem kærði sendi kærendum hafi ekki fullnægt þeirri kröfu 3. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna að uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skulu vera greinargóð. Verður kærði að bera af því hallann í þessum þætti málsins að verulegu leyti að ekki er að fullu skýrt hvert var umfang starfa hans og hver var nauðsyn allrar þeirrar vinnu sem hann hefur áskilið sér að fá greidda.

 

Telur nefndin við svo búið ekki annað fært en að meta sanngjarnt endurgjald kærða, sérstaklega vegna innsetningarmáls og yfirmats að álitum að teknu tilliti til þeirra atriða sem hér hafa verið rakin. Er það niðurstaða nefndarinnar að áskilið endurgjald kærða sæti lækkun og að heildarkrafa hans til ógreiddrar þóknunar skuli tekin til greina að því marki sem nemur 2.100.000 kr. að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri þessa máls.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, C, að lýsa athugasemdum kærenda sem „djöfulsins kjaftæði" er aðfinnsluverð.

Áskilin þóknun kærða sætir lækkun og er fallist á að skuld kærenda, A og B, við kærða nemi kr. 2.100.000 að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Snævarr hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson