Mál 2 2016
Ár 2016, fimmtudaginn 30. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 2/2016:
M
gegn
N hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 3. febrúar 2016 erindi M (hér eftir kærandi) þar sem kvartað er yfir annars vegar vinnubrögðum og hins vegar óhóflegri þóknun N hdl. (hér eftir kærða).
Kærðu var veitt færi á að skila greinargerð vegna kæruefnis samkvæmt bréfi úrskurðarnefndar dags. 11. maí 2016 og bárust athugasemdir kærðu með bréfi og barst greinargerð kærðu með bréfi dags. 26. maí 2016 en af hálfu úrskurðarnefndar hafði kærðu þá verið veittur umbeðinn og nánar greindur viðbótarfrestur vegna þessa. Kæranda var síðan veitt færi á að skila athugasemdum varðandi greinargerð kærðu og bárust þær með bréfi dags. 26. maí. Voru kærðu þá sendar síðastgreindar athugasemdir kæranda með bréfi dags. 3. júní 2016 og frestur veittur til að lýsa og skila lokaathugasemdum vegna þess og bárust athugasemdir með kærðu bréfi dags. 21. júní 2015.
Málsatvik og málsástæður
I.
Kærandi leitaði til kærðu til þess að fá lögmannsaðstoð vegna fyrirhugaðrar riftunar skilnaðarsamnings sem gerður hafði verið í janúar 2017. Fyrir liggur umboð undirritað af kæranda dags. 21.06.2014. Var heimild sú sem kærandi veittu kærðu tvíþætt. Annars vegar var um að ræða umboð dags. 21. 06.2014 vegna riftunarinnar og hins vegar umboð dags. 29.09.2014 sem náði til þess að innheimta fyrir kæranda ógreidd laun samkvæmt ráðningarsamningi við tiltekið fyrirtæki í eigu fyrrum eiginmanns kæranda. Ekki er ágreiningur um að munnlegt samkomulag hafi náðst milli málsaðila um að tímagjald kærðu yrði kr. 10.000.-
Þann 01.07.2014 ritaði kærða gagnaðilanum bréf með fyrirsögninni „EFNI: Breyting á skilnaðarsamningi". Í bréfinu eru settar fram óskir um tilteknar breytingar á skilnaðarsamningi kæranda og fyrrum eiginmanns hennar fyrir hönd kæranda. Ekki virðist hafa náðst sátt um þessar kröfur og stefndi kærða því, f.h. kæranda fyrrum eiginmanni hennar og krafðist þess að skilnaðarkjarasamningur þeirra yrði felldur úr gildi. Athugasemdir við samninginn í stefnu voru í fyrsta lagi þær að samningurinn fæli í sér frávik frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga, í öðru lagi að í stað þess að maðurinn tæki yfir fasteignalán sem hvíldi á fasteign stefndu og aflétti því af eigninni fyrir 1. janúar 2015, eins og gert væri ráð fyrir í samningnum, væri réttara að kærandi tæki við láninu en fengi þess í stað sumarbústað hjónanna í sinn hlut. Þá var á því byggt að skipta ætti lífeyrisréttindum mannsins, auk þess sem rétt væri að víkja frá helmingaskiptareglunni kæranda til hagsbóta þar sem hún hefði skapað mikil sameiginleg verðmæti með vinnu við fyrirtæki sem kæmi manninum til hagsbóta við skilnaðinn, án þess að njóta lífeyrisréttinda og raunar hlotið heilsutjón af þessum störfum. Málið var þingfest þann x. desember 201x var í Héraðsdómi Reykjaness. Í framhaldi af því var því úthlutað til dómara og tekið fyrir í þrígang þar sem lögð voru fram frekari gögn og skipst á skoðunum, að því er virðist einkum um verðmæti þess félags eða rekstrar sem hjónin höfðu átt. Í fyrirtöku x. febrúar 201x lagði kærða svo fram matsbeiðni. Eftir að lögmaður gagnaðila hafði mótmælt matsbeiðninni í þinghaldi í mars tók kærða sér frest til að endurskoða matsbeiðnina. Var ný matsbeiðni lögð fram í marsmánuði 2015 og var í því þinghaldi fallist á matsbeiðnina og matsmaður dómkvaddur. Jafnframt var bókað að matsmaður skyldi ljúka matinu svo fljótt sem verða mætti og ekki seinna en 15. maí 2015. Var í matsbeiðni áréttað af dómara að það sé í höndum matsbeiðanda og lögmanns hans að tilkynna matsmanni um dómkvaðninguna og láta honum í té endurrita af bókun um hana ásamt öðrum gögnum. Óumdeilt er að matsmaður fékk aldrei dómkvaðninguna í hendur.
Í málinu liggur fyrir nokkuð af sms og tölvupóstsamskiptum aðila. Þar kemur m.a. fram að í maílok 2015 hafði kærandi samband við kærðu og spurðist frétta af málinu. Þessi erindi voru ítrekuð auk þess sem kærandi upplýsti að gagnaðili kynni að selja fyrirtækið sem málið snerist m.a. um. Þá upplýsti kærandi kærðu um að hún hefði fengið boðun frá sýslumanni. Með sms skeyti 12. júní upplýsti kærða að hún hefði verið í fríi og væri að flytja skrifstofu sína en að hún yrði í sambandi. Undir lok júnímánaðar sendi kærða annað sms skeyti og upplýsti hana um erfiðar persónulegar aðstæður sínar, en maður hennar lægi banaleguna. Þá áréttaði hún að málið væri í matsferli, dómstólar væru í fríi yfir sumarið og boðun til sýslumanns breytti engu fyrir málið. Um sama leyti, það er í júní 2015, afturkallaði kærandi umboð kærðu með ábyrgðarbréfi, en það var endursent þar sem þess var ekki vitjað. Hún upplýsti kærðu einnig um afturköllunina í sms skilaboðum og kvaðst hafa fellt málið niður þar sem það væri hvort sem er tapað og of seint að ætla að ráðast í mat. Í framhaldi af þessu urðu nokkur samskipti á milli aðila um uppgjör og afhendingu gagna. Neitaði kærða þar að afhenda kæranda gögn málsins nema útistandandi reikningur yrði gerður upp.
Eina gagnið sem aðilar hafa lagt fyrir nefndina um áskilda þóknun kærðu er afrit reiknings hennar nr. 086, dags. 14. júlí 2015, ásamt tímaskýrslu. Þar er reikningsfært fyrir 56,5 tíma vinnu á kr. 10.000, auk virðisaukaskatts að fjárhæð kr. 135.600. Þá er innheimtur útlagður kostnaður að fjárhæð kr. 33.460 vegna stefnubirtingar og þingfestingargjalds. Er heildarfjárhæð reikningsins að öllu samtöldu því kr. 734.060, en fram kemur á afritinu að af þeirri fjárhæð séu þegar greiddar kr. 100.000, en eftirstöðvarnar nemi 634.060. Þá liggur fyrir að kærandi greiddi þann 21. júlí 2015 þrjá fjórðu af þessari síðastgreindu fjárhæð, eða kr. 475.545 Eru því ógreiddar kr. 158.515 af áskildu endurgjaldi kærðu.
II.
Af hálfu kæranda er óskað eftir því að úr því verði skorið hvert sé hæfilegt endurgjald vegna vinnu kærðu og hvort kærða hafi brotið siðareglur lögmanna. Verður sá skilningur lagður í erindið að annars vegar sé óskað úrskurðar um þóknunina á grundvelli 26. gr. lögmannalaga án þess að kærandi leggi fram ákveðnar kröfur í því sambandi og að hins vegar sé um að ræða kvörtun reista á 27. gr. laganna þar sem krafist sé beitingu viðurlaga á grundvelli 2. mgr. ákvæðisins.
Kærandi telur að kærða hafi unnið bæði seinlega og illa og kæranda verið ókleift að ná sambandi við hana. Telur kærandi að kærða hafi algerlega brugðist upplýsingaskyldu varðandi málsreksturinn allan svo og kostnað þann sem vænta hefði mátt vegna vinnu kærðu. Fullyrt er að vinnubrögð kærðu hafi skaðað mál hennar mjög. Kærða hafi ítrekað valdið töfum á málinu með því að óska fresta og með því að leggja fram gallaða matsbeiðni. Þá vísar kærandi til þess að ákveðið hafi verið að sækja um gjafsóknarleyfi af hálfu kærðu og kæranda en í ljós hafi komið að það hafi kærða þó aldrei gert. Einnig hafi kærða ekki veitt kæranda upplýsingar um þær upphæðir sem reikningur vegna vinnuframlags hafi farið í.
Framangreindu til stuðnings vísar kærandi í frestsbeiðnir kærðu úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness dags. x. janúar 201x og x. febrúar 201x. Við dómkvaðningu Þann x. mars 201x hafi verið áréttað að það væri í höndum matsbeiðanda og lögmanns hans að tilkynna matsmanni um dómkvaðningu og láta honum í té endurrit af bókun um hana ásamt þeim gögnum máls sem til þurfi við mat. Í kjölfar þessa þinghalds hafi kærandi ítrekað reynt að ná í kærðu til þess að fá upplýsingar um hver matsmaður væri og hvenær hún mætti vænta hans en engin svör fengið um lengri tíma fengið þrátt fyrir sendingar bæði sms- skeyta og tölvupósta svo og símhringingar. Kærandi dregur einnig fram að loks þegar samband hafi náðst við kærðu hafi hún annað hvort haldið því fram að málið væri í matsferli eða að gagnaðilar væru að valda töfum. Á hinn bóginn hafi á daginn komið að það hafi verið kærða sem ítrekað hafi beðið um fresti máls en án vitneskju kæranda sem aðila máls. Þá hafi kærða heldur ekki látið henni í té gögn málsins eftir afturköllun umboðs sem henni var þó skylt að gera. Stefnugerð kærðu sé einnig hroðvirknisleg, afar almenns eðlis og undarlegt að það hafi tekið 8 klukkustundir að semja hana. Í stefnuna vanti réttar vísanir til lagagreina og ætla megi að margt í textanum sé úr fyrirfram tilbúnu stefnuformi. Kröfugerð sé einnig vanreifuð. Þá hafi kærða að mati kæranda algerlega brugðist skyldu sinni eftir að hafa hvatt kæranda til þess að bregðast við boðun sýslumanns vegna fyrirhugaðs lögskilnaðar en kærða ekki mætt til þess fundar sem hún þó hefði átt að vera viðstödd sem lögmaður kæranda. Í kjölfarið hafi kærandi afturkallað veitt umboð, svo sem fyrr var greint hér frá. Kærandi hafi þá farið fram á að fá gögn málsins til baka en kærða synjað því og ekki viljað afhenda þau kæranda fyrr en eftir að hafa fengið uppsetta þóknun greidda.
Útgefinn reikningur kærðu á hendur kæranda hafi verið kr. 734.000. - en kærða hafi gefið út mjög óljósa tímaskýrslu þar sem vinnustundir séu tilgreindar 56,5 sem virðist vera langt umfram afköst kærðu og úr öllu hófi, að mati kæranda. Kærða hafi aldrei í ferlinu haft samband við kæranda til þess að segja henni að reikningurinn væri kominn í nefndar upphæðir. Engu að síður hafi kærandi ákveðið að greiða kærðu 75% fjárhæðarinnar í þeirri góðu trú að kærða léti henni í té málsgögnin og hún gæti þar með haldið áfram með málið hjá öðrum lögmanni. Það hafi kærða þó ekki gert enn. Eftir ráðleggingar annarra lögmanna og vegna seinagangsins sem og vegna mikilla útgjalda hafi kærandi ákveðið að gefast upp og láta upprunalega skilnaðarmálið niður falla.
Kærandi telur ljóst að sinnuleysi og tómlæti kærðu viðvíkjandi málinu hafi skaðað það svo mjög að kærandi hafi fundið sig knúna til þess að ljúka málinu með miklu tapi án þess þó að nokkurn tíma reyndi á réttarstöðu hennar fyrir dómi. Kærða hafi ekki gætt hagsmuna kæranda og ekki sinnt skyldum sínum sem valdið hafi því að óeðlilegur dráttur hafi orðið á málinu.
Kærandi vill sem fyrr greinir fá úr því skorið af hálfu úrskurðarnefndar hvort kærða hafi brotið siðareglur lögmanna og hvert hæfilegt endurgjald vegna vinnu hennar ætti að vera.
III.
Kærða vísar til þess að kærandi hafi leitað til hennar vegna rangra eignaskipta í sambandi við hjónaskilnað og svo síðar einnig vegna vangreiddra launa sem hún taldi sig eiga inni hjá fyrirtæki sem í hlut mannsins hafi komið. Hafi kærandi leitað til kærðu í kjölfar meðmæla frá vinkonu sem kærða hafi unnið fyrir áður gegn þóknun að upphæð kr. 10.000. á klukkustund og óskað eftir því í fyrsta viðtali að fá sömu kjör og hafi hún samþykkt það. Samskipti hafi aðallega verið með tölvubréfum og símleiðis en einnig hafi hún fundað með kæranda vegna málsins á skrifstofu sinni.
Kærða kveðst hafa ritað stefnuna í samráði við kæranda og hafi hún fengið að sjá hana og breyta henni eða bæta og vísar kærða til fylgiskjala í því sambandi. Kærða vísar og til þess að hún hafi svarað tölvubréfum og símtölum kæranda eftir bestu getu. Stefnugerðin hafi tekið lengri tíma en venjulega því að samskipti við stefnanda hafi verið mikil vegna tölvubréfa hennar auk símtala. Kærða andmælir tilgreindri málsástæðu kæranda um að stefnugerð hafi verið almenns eðlis og jafnframt því að um vanreifun sé að ræða. Prentvilla hafi orðið í lagatilvísun sem leiðrétt hafi verið í þinghaldi og hafi það engum réttarspjöllum valdið. Hafi kærandi lýst yfir ánægju sinni með stefnuna og því komi á óvart gagnrýni hennar nú. Varðandi drátt á rekstri máls er af hálfu kærðu m.a. til þess vísað að beðið hafi verið eftir upplýsingum viðvíkjandi fyrirtækisrekstur þeirra hjóna og því hafi verið óskað frestunar til framlagningar frekari gagna en kærandi hafi viljað fá fram staðfestingu þess að hún hafi verið frumkvöðull á þeim vettvangi. Auk þess hafi kærandi sent yfirlit bankareikninga og fleiri gögn sem fara hafi orðið yfir. Ljóst var að ekki næðust sættir um breytingu á fjárskiptasamningi og ekki voru sömu hugmyndir um verðmæti eigna og því ljóst að óska þurfti eftir dómkvöddum matsmanni en það hafi kærandi ítrekað rætt og haldið því fram að ekki væri vandamál að greiða fyrir slíkt mat. Matsbeiðni hafi síðan verið lögð fram, þar sem ráð var fyrir gert að allar eignir þeirra hjóna sem komu til skipta væru metnar. Kærandi hafi svo óskað þess að báðir aðilar greiddu fyrir matið en því hafi lögmaður stefnda hafnað og kærandi látinn vita af þeirri afstöðu.
Kærða vísar til þess að lögmaður stefnda hafi mótmælt framkominni matsbeiðni og hafi reynt að hindra framgang hennar og hafi hún þá óskað eftir fresti til þess að leggja fram breytta matsbeiðni, þar sem tekin yrði út eign í Ólafsfirði sem hafði verið seld ásamt innbúi en kærandi hafi ítrekað haldið því fram að sú eign hefði verið seld á undirverði. Þá hafi bifreiðar verið teknar út úr matsbeiðni og ákveðið að kanna verðmæti þeirra hjá bílasölum. Ekki sé unnt að halda því fram að þetta hafi valdið töfum á málinu sem hafi valdið kæranda réttarspjöllum og hafi málið verið rekið mjög hratt og fyrirtökur verið þéttar. Endanleg matsbeiðni hafi síðan verið lögð fram í tilgreindu þinghaldi (sbr. fylgiskjal 7) og matsmaður skipaður í kjölfarið. Ljóst hafi orðið að ekki reyndist unnt að treysta því að kærandi gæti greitt matsmanni og því hafi gjafsóknarbeiðni komið til skoðunar. Kærða kveðst aldrei hafa haldið því fram að hún hafi sent innanríkisráðuneytinu gjafsóknarbeiðni þótt vinna við hana hafi eigi að síður farið af stað. Kærða hafi raunar lokið við gerð gjafsóknarbeiðni og verið að ganga frá henni þegar kærandi hafi afturkallað umboð sitt. Kærða hafi þá látið kæranda vita að gjafsóknarbeiðni væri nánast tilbúin til framlagningar en kærandi afþakkað það eigi að síður. Fráleitt hafi því verið af hálfu kæranda að kalla eftir staðfestingu þessa atriðis frá ráðuneytinu.
Varðandi synjun um afhendingu á gögnum kveðst kærða sérstaklega hafa leitað til Lögmannafélagsins og spurst þar fyrir um hvort rétt væri að félagið ráðlegði fólki að greiða inn á geymslureikning ef ágreiningur um þóknun væri fyrir hendi eins og kærandi hafði haldið fram. Hafi þau svör komið fram hjá Lögmannafélaginu að slíkt hefði aldrei verið ráðlagt. Kærandi hafi og áfram neitað að greiða þrátt fyrir fund þeirra kærðu þar sem gögnin voru boðin til afhendingar gegn áskilinni greiðslu. Kærða vísar til þess að mikil veikindi hafi orðið innan fjölskyldu hennar.
Kærða hafnar því einnig að henni hafi borið að mæta ásamt kæranda hjá sýslumanni í sambandi við lögskilnað hennar enda sé sá gerningur aðgreindur frá umræddum eignaskiptasamningi eða hafi ekki áhrif þar á. Málið varðandi þann samning hafi og verið höfðað innan tilskilins frests að lögum.
Kærða hafnar því að hún hafi brotið gegn siðareglum eða áskilið sér óhæfilega þóknun.
Niðurstaða.
Rétt þykir að fjalla fyrst um þær umkvartanir sem kærandi hefur fært fram vegna starfa kærðu, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald kærða. Áréttað skal að sönnunarbyrði vegna þess sem óljóst þykir verður ekki lögð með sama hætti á aðila í þessum tveimur þáttum málsins.
Í athugasemdum sínum vegna málsins hafa aðilar teflt fram frásögnum og sjónarmiðum sem ekki hafa beina þýðingu fyrir það sakarefni sem mótað var með upphaflegri kvörtun og varða m.a. samskipti þeirra um gjafsóknarbeiðni og um uppgjör eftir að til ágreinings um endurgjald kom. Verður ekki fjallað um þessi atriði í úrskurði þessum.
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.
Samkvæmt 16. gr. siðareglnanna er lögmanni rétt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum, er hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert lögmanni full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi. Haldsréttur lögmanns gildir þó ekki, ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt. Sama gildir ef umboð hans er afturkallað af réttmætri ástæðu, svo sem vegna óeðlilegs dráttar á rekstri máls eða af sambærilegum ástæðum.
Ekki er annað að sjá en að haldið hafi verið eðlilega á máli kæranda eftir að hún fól kærðu meðferð þess með því að þess var fyrst freistað með bréfi að ná samkomulagi við gagnaðila um breytingar á skilnaðarsamningi þeirra hjóna, en síðan var stefnt inn máli til riftunar hans. Endurrit úr þingbók bera að mati nefndarinnar ekki annað með sér en að það hafi verið eðlilegt að matsbeiðni kæmi fram þegar ljóst varð að gagnaðili bar brigður á framsetningu kærða og kæranda á því hvernig eignir samkvæmt samningnum skiptust. Það athugast að hvorugur aðila hefur lagt fram þann samning sem krafist var ógildingar á. Er enginn grundvöllur til að byggja á því að neitt stórvægilegt hafi farið úrskeiðis í málatilbúnaði kærðu við það tímamark er hún lagði inn þessa síðari matsbeiðni. Þá telur nefndin að gagnstæðar frásagnir aðila af því hvernig samskiptum þeirra var háttað þegar kærandi fékk boðun til sýslumanns feli heldur ekki í sér grundvöll til að gera athugasemdir, enda verður kærða ekki beitt aðfinnslum vegna annars en þess sem talið er sannað og út af fyrir sig er það rétt að fyrirtaka skilnaðarmálsins skipti litlu eða engu máli fyrir framgang þess dómsmáls sem kærðu hafði verið falið að sinna.
Á hinn bóginn telur nefndin að engar fullnægjandi skýringar hafi komið fram á því að kærða kom dómkvaðningu og gögnum ekki til matsmannsins. Að vísu hefur kærða byggt á því að á þessu tímamarki hafi verið orðið mjög tvísýnt um greiðslugetu kæranda og því hafi hún ekki viljað hefja vinnu við matið án þess að greiðsla væri trygg. Þess er þó að gæta að ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærða hafi aðhafst neitt til að athuga hvort málið strandaði í raun á vangetu kæranda til að greiða fyrir matið. Þvert á móti bera gögn málsins með sér að kærða hafi ekkert samband haft við kæranda eftir dómkvaðninguna og raunar vikið sér undan því að svara fyrirspurnum kæranda um mál sitt. Var þessi vanræksla í brýnni andstöðu við fyrrgreint ákvæði 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna og til þess fallin að valda kæranda réttarspjöllum, þótt ekki hafi verið sýnt fram á að útilokað hefði verið að koma matinu við eftir að samband náðist við kærðu í júnílok. Óásættanlegt er að lögmenn hirði ekki um að vitja ábyrgðarbréfa.
Þegar tillit er tekið til alveg óvenjulegra aðstæðna kærðu á því tímamarki sem hér er til umfjöllunar þykir hins vegar rétt að láta við það sitja að gera aðfinnslu við framgöngu hennar, fremur en að beita öðrum og strangari viðurlögum.
Að framan eru rakin ákvæði 16. gr. siðareglna lögmanna. Þar sem nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að umboð kærðu hafi verið afturkallað af réttmætri ástæðu, þ.e. vegna óeðlilegs dráttar á rekstri máls hennar, leiðir af því að kærðu var ekki rétt að halda gögnunum uns kærandi hefði gert henni full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samkvæmt útgefnum reikningi. Um þetta var þó uppi raunhæfur ágreiningur á milli aðila og verður kærða ekki beitt viðurlögum fyrir að hafa staðið á því að gera skyldi upp þóknun áður en afhending gagna færi fram. Í þessu sambandi þykir einnig rétt að líta til þess að ekki urðu nein réttarspjöll vegna þessa auk þeirra sérstöku aðstæðna sem fyrr greinir.
II.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín.
Hvorki er ágreiningur um að gjaldtaka kærðu grundvallast á tímavinnu né um fjárhæð tímagjalds. Hins vegar telur kærandi að tímaskriftir kærðu séu um of, m.a. með tilliti til umfangs og gæða þeirra skjala sem kærða vann.
Enda þótt tímaskráningar séu í einstökum atriðum í hærra lagi og m.a. innheimt samkvæmt lögmannstaxta fyrir verk á borð við ljósritun, eru heildarvinnustundir varla fleiri en reikna mætti með miðað við umfang og efni héraðsdómsmálsins. Á hinn bóginn er tímagjald mjög lágt og áskilin þóknun kærðu í sjálfu sér ekki úr hófi.
Nefndin hefur ekki undir höndum öll gögn héraðsdómsmálsins. Af þeim gögnum sem kærða ritaði og hafa verið lögð fram, einkum stefnu og matsbeiðnum, verður ekki ráðið að þeim sé verulega áfátt. Á hinn bóginn getur kærða ekki vikið sér undan nokkurri ábyrgð á því að málatilbúnaður kæranda fór út um þúfur. Jafnvel þótt ekki hafi verið færðar sönnur á að kæranda hafi verið ókleift að halda áfram með málið með aðstoð annars lögmanns er ljóst að í því hefði falist töluverður viðbótarkostnaður. Væri ósanngjarnt að kærandi bæri ein fjárhagslega ábyrgð á því hvernig fór.
Með hliðsjón af öllu ofangreindu þykir rétt að áskilin þóknun kærðu sæti lækkun um fjárhæð sem nemi um 150.000 krónum, en í því felst að fallist er á það með kæranda að þóknunin sé nú fullgreidd, án þess að nein endurgreiðslukrafa sé viðurkennd.
ÚRSKURÐARORÐ
Sú háttsemi kærðu, N hdl. að hafa ekki samráð við kæranda, M um rekstur héraðsdómsmáls hennar eftir dómkvaðningu matsmanns í máli hennar og að láta hjá líða að koma dómkvaðningunni til matsmannsins er aðfinnsluverð.
Hæfileg þóknun kærðu fyrir vinnu hennar í þágu kæranda er kr. 575.545 að meðtöldum virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði hennar.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA