Mál 22 2016

Ár 2017, föstudaginn 24. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2016:

A og B

gegn

C hdl.

og kveðinn upp svofelldur

                                                         

 

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 9. september 2016 kvörtun kærenda, A og B. Þar er kvartað yfir því að kærða, C héraðsdómslögmaður, hafi veitt þeim ráðgjöf sem hafi verið andstæð hagsmunum þeirra og hagsmunum barna þeirra.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindis kærenda með bréfi dags. 14. september 2016 og barst greinargerð hennar úrskurðarnefnd þann 3. október 2016. Var kærendum send sú greinargerð til athugasemda með bréfi dags. 18. október 2016. Engar athugasemdir bárust og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Hinn 2. september 2015 veittu kærendur kærðu fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna þeirra og þriggja ungra barna þeirra „vegna afskipta barnaverndarnefndar Reykjavíkur af uppeldi þeirra og aðbúnaði" sem stöfuðu af fíknivanda kærenda.

Í framhaldinu var með þátttöku kærðu gerð meðferðaráætlun þar sem kærendur samþykktu óboðað eftirlit af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Samkvæmt málsgögnum bókaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur í nóvember 2015: „Í ljósi framkomins vilja foreldra til samvinnu um gerð áætlunar um meðferð máls telur nefndin allt að einu að gæta verði meðalhófs að svo stöddu og fellst á að gerð verði meðferðaráætlun með foreldrum til þriggja mánaða þar sem fram komi að óboðað eftirlit verði á heimilinu, fylgst verði með líðan og stöðu barna í skóla og leikskóla og foreldrar fái stuðning til að vinna með samskiptavanda sinn."

Hinn 12. apríl 2016 kom upp alvarlegt atvik tengt fíknivanda kærenda. Þótti þá sýnt að framangreind áætlun skilaði ekki tilætluðum árangri og gripu barnaverndaryfirvöld til þeirrar neyðarrástöfunar gegn vilja kærenda að vista börn þeirra utan heimilis í sex mánuði.

Með bókun barnaverndarnefndar Reykjavíkur 26. apríl 2016 var ákveðið að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, sbr. b lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var borgarlögmanni jafnframt falið að höfða mál fyrir héraðsdómi og gera kröfu um að vistun barnanna stæði til 26. október s.á., sbr. 1. mgr. 28. gr. s.l.

Kærða bar úrskurð nefndarinnar undir héraðsdóm til úrlausnar um réttmæti ákvörðunarinnar.

Í maí 2016 skiptu kærendur um lögmann og afturkölluðu umboð kærðu. Var héraðsdómsmálið þá fellt niður og kærendur gerðu samkomulag við barnaverndarnefnd um þriggja mánaða vistun barnanna utan heimilis.

Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 7. júní 2016 var lögð fram greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur þar sem segir m.a. að „foreldrar hafa nú lýst yfir vilja til að semja um styttri vistun eða til þriggja mánaða." Kærendur hafi lýst sig viljuga til fulls samstarfs við nefndina um öll atriði sem lögð verði til. Kærendur mættu til fundarins með nýjum lögmanni sínum og skýrðu m.a. frá því að fyrri lögmaður hefði ráðlagt þeim að samþykkja ekki tillögur nefndarinnar heldur láta á þær reyna fyrir dómi. Nýr lögmaður hefði veitt þeim betri ráðleggingar og þau séu  nú samstarfsfús, en til hans hafi þau leitað vegna þess að þau væru ekki sammála fyrri lögmanni um að fara með málið fyrir dóm. Haft er eftir starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur í skýrslu um fundinn að „mjög sérstakt" hefði verið að upplifa þau „afspyrnu slæmu ráð" sem kærendur fengu hjá fyrri lögmanni sínum. Niðurstaða fundarins var að samþykkja styttri vistun barnanna utan heimilis til 25. júlí 2016 enda hefðu kærendur sýnt breytni til batnaðar. Fagnaði barnaverndarnefnd „viðhorfsbreytingu foreldra".

 

 

II.

Kærendur krefjast þess að kærða verði áminnt fyrir að brjóta gegn a.m.k. 3. gr., 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna og e.t.v. 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Úrskurðarnefnd lítur svo á að kæran sé reist á 27. gr. síðarnefndra laga.

Kærendur halda því fram að kærða hafi ekki veitt þeim ráðgjöf um möguleika á því að semja við barnaverndaryfirvöld um styttri vistun barna þeirra utan heimilis en sex mánuði. Kærða hafi beinlínis ráðlagt þeim að vera ekki í samstarfi við starfsmenn barnaverndarnefndar Reykjavíkur og ítrekað þá ráðgjöf í kjölfar þess að félagsráðgjafi, sem sá um mál kærenda, hafi opnað á möguleikann á samstarfi og styttri vistun. Hafi kærða haldið sig fast við að kærendur ættu ekki að semja og að öruggt væri að umræddri vistun utan heimilis yrði hnekkt af hálfu dómstóla.

 

 

III.

Kærða hafnar því alfarið að hafa brotið gegn lögum og reglum í starfi sínu við hagsmunagæslu fyrir kærendur eins og haldið sé fram.

Kærða hafi ráðlagt kærendum að setja hagsmuni barna sinna á oddinn og þess vegna hvatt þau til samstarfs við barnavernd og undirritun meðferðaráætlana og til að leita sér hjálpar við vanda sínum. Kærða eigi ekki sök á því að kærendur hafi verið ósamvinnuþýðir og haft i hótunum við starfsmann barnaverndar.

Kærða segir að kærendur hafi ekki getað fallist á að börn þeirra væru vistuð á vistheimili því að þar hafi þeim ekki liðið vel. Á fundi með barnaverndarnefnd Reykjavíkur 26. apríl 2016, þar sem lagt var til að börnin yrðu vistuð utan heimilis í sex mánuði, hafi kærða lagt fram greinargerð „í ljósi vilja foreldra" þar sem heitið var samvinnu, heimilað óboðað eftirlit nótt sem nýtan dag og samþykkt óundirbúin fíkniefnapróf hvenær sem óskað væri. Hefðu kærendur endurtekið tjáð kærðu að þau gætu ekki fallist á að börnin yrðu vistuð á vistheimili þar sem þeim liði mjög illa, einkum elsta barninu. Kærendur hefðu sjálfir lýst afstöðu sinni á fundinum og ekki verið mötuð af lögmanni sínum um hvað þeim bæri að segja. Kærða hefði ráðlagt þeim að taka upp samvinnu við starfsmenn barnaverndar með það að markmiði að fá börnin sem fyrst heim aftur. Áhersla hefði jafnframt verið lögð á óskir kærenda um að börnin yrðu vistuð hjá ættingjum fremur en á vistheimili.

Kærða segir að barnaverndarnefnd hafi á þessum tíma ekki boðið upp á styttri vistunartíma en sex mánuði og það sé rangt sem fram kemur hjá starfsmanni barnaverndar í málsgögnum að málið hafi alfarið verið í höndum kærðu. Viðkomandi starfsmaður hafi ekki upplýst kærðu um möguleika á styttri vistun.

Kærða kveður kærendur alls ekki hafa getað sætt sig við úrskurð nefndarinnar um sex mánaða vistun barnanna utan heimilis og viljað að hann yrði tafarlaust kærður til dómstóla, svo sem gert var. Kærða segir að sér sé ljóst að við slíkar aðstæður megi stuðla að sátt.

Kærða segir andlát systur sinnar á spítala í maí 2016 hafa valdið því að hún og kærendur náðu ekki saman í síma, en hún hafi ávallt reynt að hringja til baka í þau en í þessi skipti án árangurs. Það næsta sem að gerst hafi er að kærða hafi fengið tölvubréf frá nýjum lögmanni kærenda þess efnis að þau hefðu skipt um lögmann og afturkallað umboð kærðu. Kærða hafi hringt í lögmanninn sem hafi tjáð henni að kærendur hefðu borið við erfiðum samskiptum við kærðu og að erfitt væri að ná í hana.

Kærða segir að fram að því hafi kærendur hringt í hana á ýmsum tímum sólarhrings og þeim ávallt verið sinnt og gefin ráð um samvinnu „sem takmarkaðist aðeins af því að foreldrar gátu ekki fallist á að börnin væru í vistun á vistheimilinu".

 

 

Niðurstaða

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Kærendur krefjast þess að kærða verði áminnt fyrir að brjóta gegn a.m.k. 3. gr., 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna og e.t.v. 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Úrskurðarnefnd lítur svo á að kæran sé reist á 27. gr. síðarnefndra laga.

Samkvæmt 3. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar. Skal hann ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi.

Í 8. gr. siðareglnanna kemur fram að lögmaður skal leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna.  Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana eða annarra utanaðkomandi atriða.

Samkvæmt 10. gr. siðareglnanna skal lögmaður ætíð gefa skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans.

Kærða verður ekki beitt viðurlögum vegna annarra ávirðinga en þeirra sem sýnt er fram á að eigi við rök að styðjast. Í máli þessu nýtur ekki við skriflegra gagna sem sýna fram á hvað aðilum málsins fór á milli eða hvers efnis ráðgjöf kærðu var. Er verulegt misræmi í lýsingum aðila og óhjákvæmilegt að kærða njóti vafans í þessu efni og verður úrskurðarorði hagað í samræmi við það.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, C hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, A og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Snævarr hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson