Mál 28 2016
Ár 2017, föstudaginn 26. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 28/2016:
X
gegn
Y hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S KU R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 4. nóvember 2016 erindi kæranda, X, um meint brot kærða, Y hæstaréttarlögmanns, á 11. gr. siðareglna lögmanna. Kæran varðaði einnig Z hæstaréttarlögmann, einn sameigenda kærða að lögmannsstofunni Þ, en kærandi féll frá þeim hluta málsins með bréfi til nefndarinnar 30. nóvember 2016. Kærða var með bréfi dags. 8. nóvember 2016 gefinn kostur á að skila greinargerð vegna erindisins og barst hún nefndinni með tölvupósti 25. sama mánaðar. Greinargerð kærða var send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 1. desember 2016. Bárust athugasemdir kæranda með bréfi dags. 9. janúar 2017. Þær athugasemdir voru sendar kærða til umsagnar með bréfi dags. 11. janúar 2017 og bárust lokaathugasemdir hans úrskurðarnefnd með bréfi dags. 12. sama mánaðar. Bréf þetta var sent kæranda til upplýsingar með bréfi dags. 23. febrúar 2017 með þeirri athugasemd að nefndin teldi gagnaöflun vera lokið.
Málsatvik og málsástæður
I.
Mál þetta á upphaf sitt að rekja til þess að kærði tók að sér að reka mál fyrir A ohf., í Hæstarétti Íslands en annar gagnaðila félagsins í málinu, B, sem jafnframt er stór eigandi í A, var skjólstæðingur áðurnefnds sameiganda kærða á lögmannsstofu þeirra. Félagið hafði krafist þess að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar um opinbert fasteignamat á fasteign þess yrði ógiltur en tapað málinu í héraði. Flutti málið lögmaður á annarri lögmannsstofu eftir að hafa tekið við því af öðrum á sömu stofu sem var kallaður tímabundið til annarra starfa. Sá lögmaður áfrýjaði svo héraðsdóminum fyrir hönd félagsins, enda var hann þá snúinn aftur til venjubundinna lögmannsstarfa sinna, og skilaði greinargerð til Hæstaréttar. Þegar rétt rúm vika var eftir af u.þ.b. þriggja vikna gagnaöflunarfresti Hæstaréttar var lögmaður þessi kallaður varanlega til annarra starfa og sagði sig frá málinu. Forstjóri félagsins hafði nú samband við kærða og sagðist ekki hafa viljað þiggja boð um að annar lögmaður á lögmannsstofunni, sem hafði annast mál þetta til þessa, tæki við því öðru sinni af þeim lögmanni sem hefði verið falið það. Vildi hann sjálfur velja lögmann fyrir félagið úr því sem komið var og bað kærða að taka það að sér. Kærði hefði áður aðstoðað félagið í umfangsmiklum erindisrekstri og þekkti vel til starfseminnar.
Kærði kveðst hafa talið það skyldu sína að vísa ekki málinu frá sér án þess að láta á reyna hvort viðkomandi aðilar dómsmálsins, félagið og gagnaðilar þess, væru sammála um þessa tilhögun. Voru þeir upplýstir um að lögmenn á sömu lögmannsstofu gættu hagsmuna þeirra hvors fyrir sig og lagðist hvorugur gegn því og á hvorugur aðild að máli þessu fyrir úrskurðarnefnd.
Í kjölfarið á dómsuppkvaðningu Hæstaréttar Íslands í málinu á árinu 20XX var vakin athygli kæranda, á því að í málinu hafi lögmenn á sömu lögmannsstofu gætt hagsmuna skjólstæðinga sem áttu andstæða hagsmuni, en félagið sinnir m.a. lögboðnu eftirlits og agavaldi og gætir hagsmuna lögmannastéttarinnar samkvæmt samþykktum sínum. Af því tilefni sendi kærandi kærða og sameiganda hans, sem áður er getið, bréf þar sem óskað var eftir skýringum á afstöðu þeirra til þess hvernig umrædd hagsmunagæsla gæti samrýmst 11. gr. siðareglna lögmanna. Kærði svaraði með bréfi þar sem hann rökstuddi afstöðu sína með vísan til siðareglnanna m.a. og sagði að aðilar málsins hefðu talið mikilvægt að sem minnstur skaði yrði af lögmannsskiptunum og að umbjóðandi hans yrði að ráða málum sínum með þeim hætti sem hann teldi réttast.
Í máli þessu liggja fyrir upplýsingar um að það hafi verið rætt á stjórnarfundi X hinn 31. mars 20XX að „tveir lögmenn af sömu lögmannsstofu gættu hagsmuna skjólstæðinga bæði sóknar- og varnarmegin" í Hæstaréttarmálinu og ákveðið að senda þeim ofangreint fyrirspurnarbréf. Það bréf og svör lögmannanna voru til umræðu á stjórnarfundi hinn 14. apríl s.á., þar sem málinu var frestað til næsta fundar. Á stjórnarfundi hinn 7. júní s.á. var áfram rætt um meinta hagsmunaárekstra tveggja lögmanna við rekstur Hæstaréttarmálsins og svör þeirra til X. Samþykkti stjórnin á þeim fundi að leggja málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Upphaflega beindist kvörtun kæranda að báðum lögmönnum en að fengnum andmælum frá lögmanni sameiganda kærða í umræddri lögmannsstofu féll kærandi frá þeim hluta málsins sem beindist að þeim sameiganda „í ljósi þessara andmæla og nýrra gagna sem þeim fylgdu". Í samræmi við það felldi úrskurðarnefnd niður málið að því er varðaði þann hluta þess.
II.
Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna leggi mat á hvort kærði hafi í störfum sínum brotið gegn ákvæði 11. gr. siðareglna lögmanna og ef svo er, ákvarði honum hæfileg viðurlög því til samræmis. Úrskurðarnefndin lítur svo á að um sé að ræða kvörtun reista á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Kærandi kveðst skv. 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna hafa eftirlit með því að reglunum sé fylgt. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna skuli lögmaður varast að taka að sér nýjan skjólstæðing ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins sem fyrir eru fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku. Samkvæmt ákvæðinu gildi það sama um lögmenn sem hafa samstarf um rekstur lögmannstofu eða reka lögmannsstofu í félagi, en lögmannsstofa þeirra sem hér eigi í hluti sé rekin sem samlagsfélag. Framangreint ákvæði, sem sé ætlað að sporna við hagsmunaárekstrum í störfum lögmanna, beri að skoða með hliðsjón af þeirri fortakslausu reglu sem fram kemur í 1. mgr. sömu greinar þar sem lagt er blátt bann við því að lögmaður fari með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku.
Í ljósi afdráttarlauss orðalags 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna varðandi bann við að lögmaður taki að sér nýjan skjólstæðing ef hagsmunir hans fá ekki samrýmst hagsmunum skjólstæðings annars lögmanns á sömu lögmannsstofu og enn fremur með hliðsjón af hinni fortakslausu reglu 1. mgr. 11. gr. siðareglnanna, kveðst kærandi telja sig bera skyldu til, með vísan til 1. mgr. 43. gr. siðareglnanna, að skjóta málinu til úrskurðarnefndar lögmanna.
III.
Kærði krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd en að öðrum kosti að öllum ávirðingum á hendur sér verði hafnað.
Kærði hafi í samræmi við 9. gr. siðareglna lögmanna greint tilvonandi skjólstæðingi frá þeim atvikum sem mögulega gerðu hann „háðan gagnaðila" eða tortryggilega aðstöðu hans, s.s. samstarf. Aðilar hæstaréttarmálsins séu allir í umfangsmiklum og fjölbreyttum rekstri og ekki hafi verið ástæða til að ætla að þeir væru á nokkurn hátt í villu um samstarf kærða og lögmanns gagnaðila í því máli.
Ekki sé um að ræða aðstöðu eins og fjallað sé um í 1. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna né heldur í fyrri málslið 2. mgr. sömu greinar, m.a. þar sem ekki sé um nýjan skjólstæðing að ræða en kærði hafi áður annast lögmannsstörf fyrir skjólstæðinginn. Ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. sé ekki hægt að skýra öðru vísi en svo að lögmenn sem hafa samstarf um rekstur lögmannsstofu eða reka lögmannsstofu í félagi eigi að „varast" að taka að sér hagsmuni fyrir aðila sem standa í deilum. Samkvæmt almennum orðskilningi merki sögnin að „varast" það að forðast eða gæta sín á einhverju. Hún gangi skemmra en boð eða bann. Fordæmi séu fyrir því að lögmenn hafi flutt dómsmál í Hæstarétti fyrir sinn hvorn aðilann og telur kærði sig vita að það hafi verið látið óátalið af kæranda.
Kærði segir mikilvægast að öðru leyti að skjólstæðingur hans hafi í fyrsta lagi talið það varða miklu um hagsmuni hans að tiltekinn lögmaður gæti tekið málið að sér í framhaldi af óvæntri atburðarás, í öðru lagi að tryggt væri að þeir sem áttu hagsmuna að gæta áttuðu sig á stöðunni í samræmi við 9. gr. siðareglna lögmanna og samþykktu fyrirkomulagið, í þriðja lagi að umræddir gagnaðilar væru tengdir og hagsmunir þeirra samofnir í málinu, í fjórða lagi að ljóst var að C hafði með efnislegar varnir fyrir hinn umdeilda úrskurð að gera en skjólstæðingur sameiganda kærða að lögmannsstofunni verið í algjöru aukahlutverki, enda hafi kröfum á hendur honum verið vísað frá með dómi Hæstaréttar, og í fimmta lagi að málið hafi verið komið á það stig að ekki var unnt að sjá að mögulegt samneyti lögmanna gæti breytt því hvernig málið var lagt upp við Hæstarétt.
Lögmenn séu og eigi að líta á sig sem sjálfstæða í störfum sínum. Skyldur þeirra og ábyrgð sé gagnvart skjólstæðingum þeirra fyrst og fremst. Hvorki kærði né sameigandi hans að lögmannsstofunni hafi haft persónulega eða fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu í Hæstaréttarmálinu. Bendir kærði á að hvorki skjólstæðingur hans né umbjóðandi sameiganda hans hafa gert athugasemdir við framferði lögmannanna og þurfi því miklir almannahagsmunir að vera í húfi til að það réttlæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.
Kærði kveðst hafa verið í einstakri stöðu vegna fyrri starfa fyrir skjólstæðing sinn til að bregðast hratt við og vinna að hagsmunum hans sem hafði gríðarlega hagsmuni að verja. Það hafi enda skilað árangri fyrir Hæstarétti.
Hvað form málsins og málsmeðferð kæranda varðar segir kærði valdheimildir úrskurðarnefndarinnar séu tæmandi taldar í V. kafla laga um lögmenn nr. 77/1998. Hvergi sé fjallað um sjálfstæðan málsóknarrétt stjórnar kæranda. Samkvæmt 27. gr. laganna geti sá vísað máli til nefndarinnar sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu „gert á sinn hlut" með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða reglum. Af þessu tilefni hafi kærði beint fyrirspurn til kæranda um það hvort málið sé frumkvæðismál hans eða tilkomið vegna ábendingar eins og ráða megi af kvörtuninni til úrskurðarnefndarinnar. Í svari framkvæmdastjóra kæranda komi fram að ekki hafi borist erindi vegna þessa máls. Það svar verði ekki álitið annað en staðfesting á að því að enginn sem lögvarinna hagsmuna hefur að gæta hafi fundið að störfum kærða við kæranda. Því beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.
Að lokum átelur kærði þann drátt sem orðið hefur á málinu. Umræddur Hæstaréttardómur hafi fallið hinn x. x 201X. Kærandi hafi sent honum bréf hinn 1. apríl þar á eftir sem barst honum 6. apríl og hann svaraði samdægurs. Hafi svo ekki verið fyrr en 8. nóvember 201X sem kærandi sendi erindi sitt til úrskurðarnefndarinnar. Skýringar á þessum töfum séu ekki frambærilegar en málið hafi fyrst dregist hjá stjórn kæranda fram í júní og síðan legið á borði framkvæmdastjóra kæranda í fimm mánuði án þess að óskað hafi verið eftir upplýsingum eða frekari sjónarmiðum frá málsaðilum. Óskar kærði eftir því að úrskurðarnefnd taki drátt þennan til sérstakrar skoðunar enda sé verulega þungbært að sitja undir ásökunum af þessum toga meðan kærandi hafi slík lausatök á málinu sem raun beri vitni. Þá telur kærandi að eigandi þeirrar lögmannsstofu, sem fyrst fór með málið fyrir skjólstæðing kærða, hafi ekki átt að taka þátt í meðferð stjórnar kæranda á málinu, en hann hafi setið fund sem stjórnarmaður þegar ákvörðun var tekin um að vísa málinu til úrskurðarnefndar.
Niðurstaða
Í 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn segir:
„Nú telur einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. og getur hann þá lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
Í máli skv. 1. mgr. getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr."
Í 43. gr. siðareglnanna segir:
„Stjórn X hefur eftirlit með því, að reglum þessum sé fylgt. Hún hefir um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða er til.
Stjórn X skal leitast við að leysa úr deilum lögmanna innbyrðis.
Úrskurðarnefnd lögmanna sker úr ágreiningi um skilning á reglum þessum.
Lögmanni er skylt, að boði X eða, eftir atvikum, úrskurðarnefndar lögmanna, að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á reglum þessum. Ber lögmanni í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum X eða úrskurðarnefndarinnar."
Í 3. mgr. 3. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar, þar sem fjallað er um hlutverk hennar, er eitt af hlutverkunum tilgreint svo að fjalla um erindi sem stjórn X sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.
11. gr. siðareglna lögmanna hljóðar svo:
„Lögmaður má ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Ákvæðið hindrar þó ekki að lögmaður leiti sátta með deiluaðilum, með samþykki beggja.
Lögmaður skal jafnframt varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku. Sama gildir um lögmenn sem hafa samstarf um rekstur lögmannsstofa eða reka lögmannsstofu í félagi."
Málið er komið fram innan þess ársfrests sem ofangreint ákvæði lögmannalaga setur þeim sem bera vill mál undir úrskurðarnefnd og verður því ekki vísað frá af þeim sökum. Þá telur úrskurðarnefnd ekkert fram komið um að stjórn kæranda hafi ekki tekið ákvörðun sína um málarekstur þennan með gildum hætti eða að þátttaka einstakra stjórnarmanna leiði til þess að sú ákvörðun verði talin ómarktæk.
Frávísunarkrafa kærða byggist annars einkum á því að stjórn kæranda hafi að eigin frumkvæði kært málið til úrskurðarnefndarinnar en hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Er vegna þessa nauðsynlegt að fara nokkuð yfir hvort og þá í hvaða mæli kærandi geti staðið að kvörtunum til nefndarinnar.
Kærandi hefur samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 m.a. það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem varða stétt lögmanna. Eru samþykktir kæranda í samræmi við þetta og er tilgangur félagsins skilgreindur svo í 2. gr. þeirra að hann sé m.a. að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi.
Að ofan er rakinn áskilnaður 27. gr. lögmannalaga um að kærandi í máli byggi á því að kærði hafi gert á sinn hlut. Allsherjarnefnd Alþingis mótaði þetta lagaákvæði og orðalag þess með eftirfarandi röksemd: „Þá leggur nefndin til breytingu á 27. gr. varðandi það hver hefur aðild til að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefndina. Í frumvarpinu er aðeins gert ráð fyrir að umbjóðandi lögmanns hafi kvörtunarrétt, en eðlilegt þykir að víkka heimildina út, þannig að um greiða kæruleið verði að ræða. Því er lagt til að ef einhver telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum geti hann lagt kvörtun fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er þetta í samræmi við gildandi rétt."
Af ofangreindum ummælum allsherjarnefndar virðist ljóst að skilningur löggjafans var sá að rétt væri að víkka aðildina að kærum út fyrir þann hóp sem telur umbjóðendur lögmanna, svo hún næði einnig til annarra þeirra sem misgert kynni að vera við með brotum.
Samkvæmt þessu og með hliðsjón af fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 43. gr. verður að játa stjórn X formlegan rétt til þess að bera fram kvörtun þegar hún telur að lögmaður hafi brotið gegn lögum eða siðareglum og að brotið hafi beinst gegn hagsmunum lögmanna almennt eða X. Þykir því mega hafna frávísunarkröfu kærða. Hins vegar felst ekki í þessu að kærandi geti knúið fram umfjöllun vegna kvartana sinna sem beinast að því að lögmaður hafi í störfum sínum brotið gegn ákveðnum aðila, sem fer þá með forræði á því sakarefni, þ.á.m. á ákvörðun um hvort þeir beini kæru til úrskuðarnefndar eða ekki. Beinist skoðun nefndarinnar á meintum brotum jafnan að því hvort kærði hafi gerst brotlegur við kæranda. Jafnvel þótt það kunni að þykja óheppilegt að lögmenn geti brotið siðareglur án nokkurra afleiðinga ef þeir sem hagsmuni eiga hverju sinni stofna ekki til kærumáls, fær það ekki haggað þessari niðurstöðu.
Telur úrskurðarnefndin að í fyrrgreindum reglum felist áskilnaður um að úrslit máls varði kæranda með þeim hætti að hann verði talinn hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Fyrrnefnt ákvæði í siðareglum lögmanna um að stjórn félagsins hafi eftirlit með því, að reglunum sé fylgt fær ekki hnekkt því. Í því felst bæði að lögvarðir hagsmunir þurfa að vera fyrir hendi og að kærandi sé réttur eigandi þeirra. Til þess er einnig að líta að umræddir hagsmunir séu ekki of almennir. Þeir þurfa að einhverju marki að vera beinir og einstaklingslegir umfram það sem aðrir hafa að gæta. Að öðrum kosti ætti hver sök sem vill, (actio popularis).
Matið á því hvers konar brot fela í sér brot gegn hagsmunum lögmanna almennt er ekki einfalt, en þar undir virðist þó mega fella þá hagsmuni að lögmannastéttin gegni því hlutverki og njóti þeirrar stöðu sem henni er ætluð í lögum og að ekki sé grafið undan henni með háttsemi sem fer í bága við góða lögmannshætti og ýmsar siðareglur, einkum í I., III. og VI. kafla, en einnig ákvæði í öðrum köflum þar sem verndarhagsmunir eru almennir, t.d. 18. gr. og 2. mgr. 33. gr.
Fyrir liggur að umbjóðandi kærða og gagnaðili hans voru fyllilega upplýstir um þá stöðu sem var uppi þegar leitað var til kærða og tóku meðvitaða ákvörðun um að besti kosturinn væri að koma fyrirsvari sínu við rekstur hæstaréttarmálsins fyrir með þeim hætti sem gert var. Þeir hafa ekki ljáð máls á því að beina kvörtun til nefndarinnar. Virðist ekkert fram komið um að með nokkrum hætti hafi verið brotið gegn hagsmunum kæranda eða lögmanna yfirleitt, með því hvernig kærða tæki að sér málið, enda sérstaklega ráð fyrir því gert í 2. mgr. 11. gr. að andstæðir aðilar geti haft mál á sömu lögmannsstofu, þótt gæta verði varúðar við slíkt fyrirkomulag.
Verður úrskurðarorði hagað í samræmi við þetta og kröfum sóknaraðila hafnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, Y hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, X, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA