Mál 3 2016
Ár 2016, fimmtudaginn 30. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 3/2016:
A
gegn
B hrl. og C hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S KU R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 4. mars 2016 erindi A (hér eftir kærandi). Þar er kvartað yfir annars vegar tilreiknuðum og skráðum vinnustundum og hins vegar ýmsum öðrum tilgreindum vinnubrögðum lögmannanna B hrl. og C hdl. (hér eftir kærðu).
Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindis kæranda með bréfi dags. 21. mars 2016 og barst greinargerð þeirra úrskurðarnefnd þann 12. apríl 2016. Var kæranda síðan send sú greinargerð til athugasemda með bréfi dags. 14. apríl 2016 og bárust athugasemdir hans þar að lútandi með bréfi dags. 3. maí 2016. Þær athugasemdir voru senda kærðu til umsagnar með bréfi dags. 11. maí 2016 og bárust athugasemdir þeirra með bréfi dags. 10. júní eftir að viðbótarfrestur hafði verið veittur kærðu af hálfu úrskurðarnefndar, svo sem áður greinir.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Kærandi leitaði til kærða B í febrúar 2014 til að fá lögmannsaðstoð við örorkumat eftir mistök við krossbandsaðgerð á vinstri fótlegg árið 2008. Kærandi veitti kærða umboð í þessu skyni dags. 18. febrúar 2014. Fyrir liggur að í því málflutningsumboði var sérstaklega tilgreint að um þóknun vegna starfa sem umboðið náði yfir færi samkvæmt gjaldskrá L ehf. um hagsmunatengda þóknun en þó aldrei lægri þóknun en miðað við almennt tímagjald útseldrar vinnu hverju sinni. Þá liggur fyrir að kæranda hafði verið kynnt með tölvuskeyti frá kærða B að tímagjald væri kr. 25.530 kr. án vsk. en í tímayfirliti sem barst kæranda er það tilgreint kr. 28.500. án vsk. Kærði B hafði kærða C sér til aðstoðar við ýmsa þætti málsins.
Vinna kærðu á grundvelli fyrrgreinds umboðs kæranda var fólgin í eftirfarandi verkþáttum: Yfirlestri og greiningu lögfræðilegra sem og læknisfræðilegra málsgagna viðvíkjandi tjóni og tryggingarétti kæranda. Þá var einnig talsvert um fundi svo og samskipti í gegnum síma við við tryggingafélög og lögfræðing og matsmenn á þeirra vegum svo og móttöku og yfirferð fjölda tölvuskeyta frá kæranda og samskiptum við hann með tölvuskeytum og í síma. Einnig unnu kærðu matsbeiðni fyrir kærða þann 14. mars 2014. Ljóst er í því sambandi að erfiðlega gekk að fá matsmenn að málinu en 21. maí barst tilkynning frá tryggingafélaginu TM um að matsbeiðnin hefði verið undirrituð þar og daginn eftir var hún send til undirritunar hjá VÍS. Af framlögðum málsgögnum og upplýsingum verður glögglega ráðið að um var að ræða allviðamikið starf og að heildarfjöldi skjala vegna málsins er yfir 600 blaðsíður.
Þann 1. júlí 2014 fylgdu kærðu kæranda á matsfund. Eftir þann fund varð það álit matsmanna að kærandi hefði orðið fyrir það miklu andlegu tjóni vegna meiðsla sinna að málinu yrði ekki lokið án geðmats. Geðmatsfundi er síðan lokið 8. desember 2014 en í febrúar 2015 kom í ljós að kærandi hafði farið í „enn eina aðgerðina" þvert á ráðleggingar matsmanna. Í framhaldi af því kemur fram sú afstaða matsmanna að útilokað teljist að ljúka matinu fyrr en 18 mánuðum eftir fyrrgreinda aðgerð en kærandi vildi þó eindregið ljúka matinu sem fyrst og þrýstu kærðu á það fyrir hans hönd. Í kjölfar þess urðu umtalsverð samskipti við matsmenn og var hnykkt á áherslu kæranda um matslok með tölvupósti kærðu til matsmanna dags. 23. júní 2015 o.fl. orðsendingum. Kærandi virðist af málsgögnum að dæma hafa lagst gegn því og ekki breytt afstöðu sinni í þeim efnum fyrr en eftir nokkrar vikur.
Sumarfrí töfðu fundahöld um sinn en matsfundur var haldinn 1. september 2015. Á þeim fundi var læknisfræðilegum ástæðum boðað til nýs matsfundar sem haldinn var 18. september 2015 og mættu kærðu ásamt kærða einnig á þann fund eins og þá fyrri. Þann 17. desember 2015 barst kærðu síðan 22 blaðsíðna matsgerð og með bréfi 22. janúar barst uppgjörsbréf tryggingarfélaganna þar sem viðurkenndar heildarbætur kæranda eru tilgreindar kr. 13.775.061. Af framanröktu er ljóst að mál kæranda var til meðferðar hjá kærðu í rétt um tvö ár frá því að hann veitti þeim fyrrgreint umboð sitt. Heildarfjöldi vinnustunda af hálfu kærðu er sem áður segir tilgreindur 127,5 samkvæmt tímaskráningum og heildarupphæð þóknunar þeirra kr. 3.802.772. kr. m. vsk. Heildartímafjöldi kærðu skiptist þannig að kærði C er skrifaður fyrir 82,5 stundum en kærði B 45 stundum.
II.
Af framanröktu sem og öðrum gögnum málsins verður ráðið að ágreiningur kvartanda hverfist í aðaldráttum um tvennt.
Í kvörtun sinni til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kvörtunin beinist í fyrsta lagi að óeðlilega hárri lögmannsþóknun vegna aðstoðar kærðu við örorkumat. orðsendingu kærða B í tölvuskeyti sem varðaði innborgun kærða á málið Í öðru lagi lýtur kæruefnið að töfum á örorkumati sem kærandi telur að rekja megi til ámælisverðra vinnubragða kærðu.
Auk þessa er í erindi kæranda vísað til þess að krafa um útlagðan kostnað hafi verið látin fyrir farast af hálfu kærðu í kröfubréfi þeirra og samskiptum við tryggingafélög. Þá er þar einnig að finna umkvörtun yfir orðsendingu kærða B í tölvuskeyti sem varðaði innborgun kærða á málið, eftir að ágreiningur þeirra um uppgjör kom fyrst upp.
Varðandi fjárhæð þóknunar þá er í fyrsta lagi til þess vísað að samkvæmt tölvupósti frá kærða B 14. febrúar 2014 sé tilgreint að tímagjald hans sé kr. 25.530. kr. án vsk. en í tímayfirliti sé það orðið kr. 28.500. kr. án vsk. Af framsetningu kæru verður ráðið að kærandi telji að leggja beri til grundvallar það tímagjald sem honum var kynnt með tilgreindu tölvuskeyti og miðaðist við þá gjaldskrá lögmannstofunnar sem í gildi var þegar umrætt umboð var veitt kærðu.
Þá er af hálfu kæranda á því byggt að kærði B hafi ekki upplýst kæranda um framvindu mála í sambandi við vinnustundafjölda og heldur ekki svarað fyrirspurnum kæranda þar að lútandi. Aukinheldur hafi það komið fram í máli kærða að hann hefði ekki í hyggju að krefjast endurgjalds þar sem að tryggingafélagið myndi greiða kostnaðinn. Kærandi er og ósáttur við heildarfjárhæð þóknunar beggja kærðu sem tilgreind sé kr. 3.802.772.- m. vsk. þótt að því til frádráttar komi af hálfu kærðu kr. 665.269. kr. m. vsk. sem vísað er til að tryggingafélagið hafi fallist á að greiða vegna lögmannskostnaðar.
Framangreindu til stuðnings vísar kærandi til tilgreindra verkþátta kærðu sem hann telur óeðlilega og óhæfilega miklum tíma hafa verið varið í. Þannig hafi kærðu varið 26 klukkustundum í yfirferð gagna en sá tímafjöld sé hvorki í samræmi við stærð né hagsmuni málsins. Þá er á því byggt að vinna kærðu við matsbeiðni sé skráð og reiknuð 26,5 klukkustundir en um sé að ræða stutt og stöðluð bréf sem ekki séu tímafrek. Er það krafa kæranda að hann greiði hans fyrir 3 klukkustundir fyrir vinnu í sambandi við matsbeiðnir en ekki fyrrgreindar 26,5 klukkustundir. Þá hafi alls 9 klukkustundum verið varið í matsfundi sem báðir kærðu hafi setið en á því hafi engin þörf verið að mati kæranda; nægilegt hafi verið að annar kærðu sæti þá fundi. Beri því að lækka tímafjölda vegna matsfunda um helming eða í 4,5 klukkustundir. Þá hafi kærðu varið 8 klukkustundum í að fara yfir matsgerð upp á 23 blaðsíður en ekki geti tekið meira en 1 klukkustund að lesa yfir matsgerðina og gera sér grein fyrir niðurstöðum hennar sem máli skipta fyrir bótakröfu. Kærðu hafi síðan skráð 10 klukkustundir vegna ritunar bótakröfu upp á rúmlega eina blaðsíðu þar sem bótakrafa sé tveimur milljónum króna lægri en tillaga VÍS um fullnaðaruppgjör. Megi því fullyrða að þessum 10 klukkustundum sem B og C vörðu til útreiknings bóta hafi verið 10 klukkustundum ofaukið miðað við tilgreindan mismun bótafjárhæðakrafna og krefst kærandi þess að tímafjöldinn verði lækkaður niður í 3 klukkustundir sem virðist ríflegt miðað við efni bótakröfunnar.
Kærandi kveðst ítrekað hafa óskað eftir upplýsingum um kostnað vegna málsins. Þannig hafi kærði B upplýst kæranda í símtali þann 1. september 2015 að hann hafi varið yfir 100 tímum í málið á því tímamarki en kærandi hafi þó aðeins greitt honum kr. 300.000. auk vsk. Þann 2. september 2015 hafi kærandi sent kærða B fyrirspurn um hvort að skilja mætti það svo að kostnaður væri kominn í 3-5 milljónir vegna málsins, miðað 100 klukkustunda vinnu eða meira. B hafi svarað með svofelldum hætti í fyrirliggjandi tölvuskeyti frá 2. september 2015: „Við erum búnir að vinna 80-100 klukkustundir með öllu en það er ekki eins og það standi til að rukka þig. Tryggingafélagið á að borga málskostnað að álitum að lokum en getur verið erfitt að vinna mikið af vinnu og fá borgað eftir nokkur ár eins og gefur að skilja. Þess vegna var ég að biðja þig um eitthvað lítilræði inn á þetta."
Kærandi vísar til þess að ofangreindar upplýsingar frá kærða B hafi gert hann mjög ósáttan við kostnaðarþáttinn þar sem hann hafi ekkert fengið að vita um framvindu mála í því sambandi. Hafi hann talið að á þessu tímamarki hefðu kærðu ekki varið nema um 10 klukkustundum í málið, „enda ekki þurft að skrifa nein löng bréf". Af hálfu kæranda eru einnig gerðar athugasemdir við tímafjölda þann sem færðir voru til reiknings vegna geðmats eða 32 klukkustundir. Ekki sé neitt samræmi milli vinnuframlags og tímafjölda í því samhengi. Tímayfirlit sýni að margfalt meiri tíma hafi verið varið í málið en eðlilegt sé. Tímayfirlitið gefi til kynna að áhrifin af samvinnu B og C hafi skilað sér í tvöfalt meiri tíma en ella og gefi einnig sterklega til kynna að kærðu hafi að öðru leyti verið verkefnalitlir. Kærandi setur fram þá kröfu að kostnaður verði færður úr 127,5 klukkustundum og niður í 30,5 klukkustundir og samkvæmt útreikningum hans sé þá um að ræða kr. 909.864.- kr. í stað 3.802.770. kr.-. Endanleg krafa kæranda er þannig eftir framangreindu sú að honum beri að greiða kærðu kr. 909.864. kr.
III.
Kærðu krefjast aðallega frávísunar málsins frá úrskurðarnefndinni. Er frávísunarkrafan studd við þrjár málsástæður.
Í fyrsta lagi byggir kærði C á aðildarskorti sínum, þar sem að til kröfuréttarsambands hafi aldrei verið stofnað milli hans og kæranda.
Önnur frávísunarkrafa kærðu er sú að vegna þess að kærandi hafi í hyggju að fá bættan lögmannskostnað úr hendi greiðsluskylds tryggingarfélags beri úrskurðarnefnd lögmanna einnig að vísa málinu frá. Er í því samhengi vísað til þess að kæruefnið sé þá til meðferðar og umfjöllunar á tveimur stigum innan stjórnsýslunnar sem hljóti að valda frávísun.
Í þriðja lagi er til stuðnings frávísun málsins af hálfu kærðu á því byggt að með greinargerð kæranda frá 30. apríl 2016 sé bætt við nýjum málsástæðum og lagarökum sem að auki sé vandasamt að bregðast við.
Verði ekki fallist á kröfu kærðu um frávísun málsins er þess krafist að komist verði að þeirri niðurstöðu í úrskurðarnefnd „að endurgjald það, sem unnið var í þágu kvartanda, sé eðlilegt og í samræmi við umfang málsins" og að háttsemi kærðu hafi ekki á nokkurn hátt brotið gegn lögum eða siðareglum LMFÍ, codex ethicus. Þá krefjast kærðu málskostnaðar úr hendi kæranda.
Kærðu vísa til þess umfang málsins hafi verið mjög mikið að vöxtum. Á meðan málið hafi verið í vinnslu hafi kærði verið upplýstur um framgang þess. Strax í upphafi þegar kærandi undirritaði málflutningsumboðið hafi honum verið gert ljóst að sá kostnaður sem til félli vegna málsins yrði innheimtur samkvæmt gjaldskrá um hagsmunatengda þóknun en þó aldrei lægri þóknun en samkvæmt tímagjaldi útseldrar vinnu hverju sinni. Í byrjun máls hafi kærandi greitt kr. 300.000. auk vsk. að jafngildi þá um 15 klukkustunda vinnu og þegar heildarfjöldi vinnustunda var kominn í 85,5 hafi kærandi verið upplýstur um það og beðinn um að greiða kr. 500.000. - inn á lögmannsþóknunina auk vsk. Hafi kvartandi aldrei gert athugasemdir við fjölda vinnustunda á meðan á störfum kærðu stóð og ekki fyrr en greiðslur höfðu verið inntar af hendi og bætur mótteknar fyrir hans hönd.
Af hálfu kærðu er á það bent viðvíkjandi tímaskýrslum að kæranda hafi margsinnis verið gerð grein fyrir vinnuframlagi þeirra símleiðis og einnig í upphafi þegar fyrrgreint umboð dags. 18. febrúar 2014 var undirritað enda hafi texti umboðs verið skýr um að tímagjald yrði innheimt ef hagsmunatenging bóta væri lægri en skráðir tímar. Það liggi fyrir að umfang málsins hafi verið mikið og sömuleiðis magn gagna sem lagt var fram af hálfu kvartanda. Erfiðlega hafi gengið að fá matsmenn að málinu þar sem samskipti við aðra lögmenn er unnu áður við mál kæranda höfðu gengið stirðlega. Kærandi hafi auk þessa lagt fram frekari gögn í málið eftir að matsbeiðni hafði verið undirbúin og búið sig til að gangast undir fleiri skurðaðgerðir sem tafið hafi málið enn frekar.
Vegna andlegrar heilsu kæranda var talin þörf á því samkvæmt matsfundi að fá geðlækni að matinu sem síðan hafi valdið enn frekari drætti á afgreiðslu málsins. Með umtalsverðu átaki hafi kærðu tekist að fá að matsmenn til að samþykkja að 12 mánuðir frá aðgerð væru fullnægjandi og var matsgerð svo lokið af hálfu matsmanna. Þetta tímamark hafi þó ekki verið sjálfgefið en matsmenn hefðu ítrekað alvarlega íhugað að segja sig frá málinu, m.a. vegna síendurtekinna skurðaðgerða kæranda eftir sjúklingatryggingaatburð sem þeir töldu valda alvarlegum örðugleikum við matsniðurstöðu. Þá hafi kærandi kvartaði yfir störfum matsmanna til Úrskurðarnefndar um vátryggingamál, en þeir töldu það geta valdið vanhæfi sínu til að ljúka matsgerð. Hafi kærðu í framhaldinu fengið kæranda til þess að draga þá kvörtun til baka til þess að eyðileggja ekki alla þá vinnu sem þegar hafði farið í að knýja fram matsgerð, en matsmenn íhuguðu að segja sig frá málinu. Í þessu samhengi vísa kærðu m.a. til þess að erfitt sé fyrir lögmenn sem fara fram með matsbeiðni að hafa mikla stjórn á sérfróðum matsmönnum sem beiti læknisfræðilegum rökum.
Viðvíkjandi þeirri ávirðingu kæranda að fyrir hafi farist að leggja fram kvittanir fyrir tjóni hans vegna kostnaðar og vinnutaps, þar með að kærðu hafi gleymt að senda tiltekin gögn þar að lútandi til tryggingafélags, þá hafna kærðu því alfarið að málum sé þannig farið. Þvert á móti hafi þeim verið fullkunnugt um þennan þátt tjónsins og send tryggingafélaginu þar að lútandi gögn. Vísa kærðu vísað til fram lagðra bréfa sem send voru tryggingarfélögum annars vegar 22. desember 2015 og hins vegar 27. janúar 2016.
Kærðu taka fram að unnið hafi verið af fullum heilindum í málinu í þágu kæranda og kostnaður lágmarkaður með aðkomu kærða C er starfi réttindum sínum samkvæmt sem héraðsdómslögmaður og því á lægra tímagjaldi en kærði B hrl. Yfirgripsmikil gögn hafi verið skoðuð gaumgæfilega og þar með talið dómafordæmi og réttarheimildir. Allt séu það venjubundin vinnubrögð lögmanna eins og fram hafi komið í úrskurðum úrskurðarnefndar lögmanna samkvæmt málum nr. 9/2015 og 10/2015. Tímaskráningar kærðu beri og með sér að ekki hafi verið innheimt gjald sérstaklega fyrir símtöl eða tölvupósta, sem þó hafi verið í þúsundavís, og séu að öðru leyti í samræmi við eðli og umfang máls. Ljóst sé einnig að ýmsar athafnir kæranda hafi gert málið erfiðara en ella svo sem greina megi af gagnaframlagningum af hans hálfu, aðgerðum gegn matsmönnum með kvörtun til úrskurðarnefndar vátryggingamála, ágreinings um þörf á geðlæknismati og ótímabærrar skurðaðgerðar kæranda eftir fyrsta matsfund. Þá byggja kærðu á því að þeir hafi ekki fært alla vinnu í þágu kæranda til reiknings, einkum varðandi tölvuskeytasamskipti.
Kærðu leggja áherslu á að kærandi hafi aðeins tvívegis óskað eftir tímayfirliti en ekki ítrekað og án þess að vera gerð grein fyrir þeirri stöðu. Hið rétta sé að kæranda hafi bæði símleiðis og í tölvupósti verið gerð sannanleg grein fyrir stöðu máls og beri málsgögn það með sér. Hafi þar að fyrirspurn kvartanda verið svarað s strax að loknu tilteknu sumarleyfi. Kærandi hafi því verið vel upplýstur um hvert vinnuframlag lögmanna hans var og vísa kærðu m.a. til tölvuskeytis frá 2. september 2015 sem og fyrirliggjandi tímaskýrslu sem send var kæranda í janúar síðastliðnum.
Niðurstaða.
I.
Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærðu.
Varðandi þann aðildarskort sem haldið er á lofti af hálfu kærða C er þess að geta að af gögnum málsins verður glögglega ráðið að hann starfaði sem lögmaður að máli kæranda. Af lögum um lögmenn nr. 77/1998 svo og siðareglum lögmanna, verður ekki ráðið að eiginlegt kröfuréttarsamband milli kæranda og hlutaðeigandi lögmanns sé óhjákvæmilegt skilyrði þess að mál teljist tækt til úrskurðar fyrir úrskurðarnefnd. Að því marki sem mál þetta snýr að eiginlegum aðfinnslum kæranda, sbr. 27. gr. lögmannalaga, er þetta kröfuréttarsamband raunar alls ekki skilyrði. Að því marki sem mál varða ágreining um þóknun hefur nefndin jafnan litið svo á að rétt sé að þeir lögmenn sem komið hafa að vinnu við mál eigi aðild og fái að koma fram sínum sjónarmiðum, þótt gera megi þá kröfu að athafnir eða vinnuframlag hlutaðeigandi lögmanns hafi varðað hagsmuni sóknaraðila með beinum hætti, eins og til háttar í máli þessu. Það ráðist hins vegar af samningum og rekstrarfyrirkomulagi að hvaða marki einstakir lögmenn og félög þeirra eigi fjárkröfur á hendur viðskiptamönnum og þurfi eftir atvikum að sæta lækkun þeirra. Þykir rétt og raunar óhjákvæmilegt að miða umfjöllun úrskurðarins við báða kærðu.
Önnur málsástæða kærðu er sú að kærandi hafi í hyggju að fá bættan lögmannskostnað úr hendi greiðsluskylds tryggingarfélags og hafi þegar stofnað til stjórnsýslumáls um ágreining sinn við tryggingafélög vegna þessa. Sé kæruefnið því til meðferðar á tveimur stigum innan stjórnsýslunnar, sem hljóti að valda frávísun. Vegna þessarar málsástæðu skal áréttað að valdsvið úrskurðarnefndar lögmanna hverfist að þessu leyti um þóknun lögmanna sjálfra og hvað teljist hæfilegt endurgjald þeirra. Ágreiningur kæranda við tryggingafélög um bótaskyldu og umfang tjóns er annað sakarefni.
Í þriðja lagi er til stuðnings frávísun málsins af hálfu kærðu á því byggt að með greinargerð kæranda frá 30. apríl 2016 sé bætt við nýjum málsástæðum og lagarökum sem að auki sé vandasamt að bregðast við. Í svari kæranda við greinargerð kærða er í raun ekki um að ræða alveg nýjar kröfur eða málsástæður, heldur fremur frekari röksemdir til fyllingar kröfu hans. Þá varðar það ekki frávísun málsins í heild sinni þótt kærandi bæti við upphaflegan málatilbúnað sinn með síðari erindum, þótt úrlausn máls kunni á hinn bóginn að verða takmörkuð við að leysa úr þeim ágreiningi eða þeim umkvörtunum sem upphaflega voru lagðar fyrir nefndina. Í þessu sambandi ber einnig að draga fram að kærðu var ótvírætt veitt færi á að taka afstöðu til viðbótarathugasemda kæranda og að auki fallist á umbeðinn viðbótarfrest fyrir þá af sérstökum ástæðum. Hvað varðar skýrleika málatilbúnaðar kæranda er þó fallist á með kærðu að hann hefði mátt vera afmarkaðri og gleggri í vissum þáttum.
Að öllu framanröktu virtu eru frávísunarkröfum kærðu í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnislegrar úrlausnar.
II.
Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærðu hafi gerst brotlegir við lög eða siðareglur lögmanna, sbr. 27. gr. laga um lögmenn og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærðu, sbr. 24. gr. og 1. mgr. 26. gr. laganna.
Verður fyrst fjallað um það hér á eftir hvort annars vegar vinnubrögð kærðu teljist andstæð lögum eða siðareglum lögmanna.
Sá sem telur lögmann í störfum sínum hafa á hlut sinn gert með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur borið málið undir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. gr. 27. gr. LML. Í afgreiðslu á erindum sem nefndinni berast getur hún fundið að vinnubrögðum eða háttsemi viðkomandi lögmanns eða ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða veitt honum áminningu, sbr. 2. mgr. 27. gr. LML. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi hans verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í 12. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða. Kærandi telur að kærðu hafi tafið afgreiðslu málsins með ámælisverðum hætti.
Eins og áður greinir veitti kærandi kærða B tilgreint umboð sem náði til þess að ganga frá uppgjöri bóta sem hlaust af tjóni og aðgerð kæranda fyrir nokkrum árum. Fram er komið að það hefur um margt reynst þungt í vöfum og umfangsmikið af ýmsum sannanlegum ástæðum sem reifaðar hafa verið hér að framan. Ljóst má vera að umtalsverður þáttur í störfum kærðu fólst í að yfirfara og greina gögn og skjöl sem málið vörðuðu og að móttaka og bregðast við miklum fjölda tölvuskeyta frá kæranda. Slík vinna er á meðal starfsskyldna lögmanna, enda vandséð hvernig annars ætti að vera unnt fyrir þá að standa undir þeirri skyldu að tryggja með öllum lögmætum úrræðum hagsmuni skjólstæðings.
Af gögnum málsins verður ráðið að mál kæranda dróst miðað við það sem upphaflega var ráðgert, svo sem byggt er á í greinargerð kæranda. Skipti þar umtalsverðu máli sú afstaða matsmanna að ekki væri unnt að ljúka máli kæranda fyrr en að undangengnu geðmati. Aðgerð sem kærandi ákvað sjálfur að undirgangast aðgerð eftir matsfund og kvartanir hans undan matsmönnum virðast einnig hafa tafið málið í heild og seinkað því talsvert. Fyrir utan það að ekki verður séð að kærðu hafi haft eða getað haft vald á þeim atriðum, má einnig ljóst vera að í máli þessu var geðmat til þess fallið að tryggja bóta- og tryggingarétt kæranda enn frekar. Hefðu kærðu leitast við að flýta uppgjöri bóta hefði það í því ljósi allt eins getað talist ámælisvert af þeirra hálfu. Frá því að umboð var fyrst veitt formlega með undirritun kæranda og þar til uppgjör bóta og greiðsla hafði verið innt af hendi af hálfu tryggingafélaga, liðu rétt tæplega tvö ár. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið, fæst ekki annað séð en að málið hafi verið rekið áfram með hæfilegum hraða. Að öllu gættu þykir því ekki unnt að líta svo á að kærðu hafi brotið gegn 12. gr. siðareglna lögmanna um að lögmanni beri að reka mál áfram með hæfilegum hraða.
Hvað varðar ávirðingar kæranda um að kærðu hafi látið undir höfuð leggjast að tilgreina bótakröfu vegna útlagðs kostnaðar þá er skýrlega tilgreint í kröfubréfi kærðu frá 22. desember 2015 að gerð sé krafa um útlagðan kostnað. Við fullnaðaruppgjöri tryggingarfélaganna var einnig tekið við með fyrirvara um m.a. útlagðan kostnað samkvæmt því sem fram er komið. Þá sendu kærðu tryggingarfélögum útreikninga þar að lútandi ásamt kvittunum með bréfi dags. 27. janúar 2016. Teljast kærðu því ekki hafa gert á hlut kæranda með því að hafa látið undir höfuð leggjast að gera kröfu um útlagðan kostnað með tilliti til tilheyrandi kvittana.
III.
Ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 24. gr. sbr. 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga. Í fyrrgreindu málflutningsumboði kærðu dags. 18. febrúar 2014, undirrituðu af kæranda, er eftirfarandi m.a. tilgreint: „Um þóknun fer skv. gjaldskrá L ehf. um hagsmunatengda þóknun, en þó aldrei lægri þóknun en skv. almennu tímagjaldi útseldrar vinnu hverju sinni." Virðist ekki ágreiningur um þennan upphaflega grundvöll til viðmiðunar þegar endurgjaldið er metið, en hins vegar er bæði ágreiningur um hvaða tímagjald skuli samkvæmt þessu lagt til grundvallar, hve marga tíma sé rétt að miða gjaldtökuna við og hvort annar hvor aðilinn hafi með síðari yfirlýsingum skuldbundið sig til að miða við annað en það sem hann telur réttan tímafjölda og rétt tímagjald samkvæmt þessum samningi .
Rétt er að víkja hér sérstaklega að því atriði að í fyrrgreindu upplýsingaskeyti kærða B var miðað við 25.530. kr. tímagjald án vsk. Almennt tímagjald hækkaði með breytingu á gjaldskrá lögmannstofu kærða B í júní 2014 í 28.500.- kr. án vsk. Í þessu sambandi til þess að líta að gjaldskrárhækkun felur í sér einhliða ákvörðun með tilliti til skjólstæðings viðkomandi lögmanns. Til skýringar má hér líta til réttarreglna um ákvaðir á sviði samningaréttar en þeir löggerningar einkennast af því að þeim er fyrst og fremst ætlað binda móttakanda þeirra eða gagnaðila. Þegar ákvöð felur sem slík í sér einhliða fyrirmæli telst hún ekki bindandi fyrr en hún er komin til vitundar móttakandans.
Þótt fyrirvari hafi að vísu falist í upphaflega kynntu tímagjaldi kærða B í tilgreindu umboði, sbr. orðalagið „...aldrei lægri þóknun en samkvæmt almennu tímagjaldi útseldrar vinnu hverju sinni", þá stóð það kærða næst að tilkynna kærða um hækkunina, sbr. einkum framangreint um ákvaðir sem og 1. ml. 1. mgr. 24. gr. LML og 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna. Er útilokað að fallast á að ofangreind tilvísun í umboðinu hafi falið í sér samþykki kæranda á að kærðu gætu einhliða tilkynnt honum eftir á um gjaldskrárhækkanir og hann þar með orðið skuldbundinn af þeim.
Eins og fyrr var greint er á meðal umkvörtunaratriða kæranda að þann 11. ágúst 2015 hafi kærði B sent kæranda skeyti þar sem þess er beiðst að kærandi greiði kr. 500.000.- inn á málið. Kærandi hafði þá óskað eftir tímayfirlit og kærði B upplýst um það í símtali 1. september að búið væri að verja yfir 100 tímum í málið þótt aðeins hafi verið greiddar kr. 300.000.- vegna þess. Kærandi sendi þá kærða tölvuskeyti daginn eftir með fyrirspurn um hvort framangreindar yfirlýsingu mætti skilja sem svo að lögmannskostnaður teldist kominn í 3-5 milljónir. Tölvuskeyti þessi liggja eru á meðal málsgagna. Framangreindri fyrirspurn kæranda svarar kærði með svofelldum hætti 2. september 2015: „Við erum búnir að vinna 80-100 klukkustundir með öllu en það er ekki eins og það standi til að rukka þig. Tryggingafélagið á að borga málskostnað að álitum að lokum en getur verið erfitt að vinna mikið af vinnu og fá borgað eftir nokkur ár eins og gefur að skilja. Þess vegna var ég að biðja þig um eitthvað lítilræði inn á þetta."
Orðsending eða yfirlýsing lögmanns til skjólstæðings eins og sú sem tilgreind er hér að ofan virðist almennt séð geta orkað villandi og verið til þess fallin að vekja réttmætar væntingar skjólstæðings um að hann komi ekki til með að þurfa að greiða sjálfur tilreiknaða þóknun. Hafa verður í huga að lögum samkvæmt á tjónþoli að verða skaðlaus af tjóni sínu og ber tryggingarfélaginu, skv. íslenskum rétti, að greiða allan lögfræðikostnað tjónþola. Af orðalagi og samhengi þessa tiltekna tölvuskeytis með tilliti til fyrri samskipta kæranda og kærða verður þó ekki dregin sú ályktun að kærðu hafi með því fallið frá kröfum vegna þóknunar fyrir unnin störf, sbr. skýra tilvísun það varðandi í fyrrgreindu starfsumboði undirrituðu af kæranda. Afstaða kæranda í greinargerð og öðrum málsgögnum, sbr. m.a. tölvuskeyti kæranda frá 25. janúar 2016, vísar einnig skýrlega til þess að hann hafi skilið orðsendingu þessa með framangreindum hætti.
Kærði afturkallaði umboð sitt til kærðu 24. janúar 2016 en féll frá þeirri afturköllun og veitti kærðu umboð að nýju daginn eftir með þar að lútandi tölvuskeyti. Þá hafði kærandi kynnt sér tímaskýrslur kærðu með sundurliðuðum skráningum en auk þess hafði hann verið upplýstur um það með tilgreindum tölvupósti í september 2015. Allt að einu verður sá skilningur ekki lagður í samskipti aðila á þessum tímapunkti að með þeim hafi kærandi skuldbundið sig til að fallast á alla gjaldtöku kærðu.
Að öllu ofangreindu athuguðu er það niðurstaða nefndarinnar að við mat á hæfilegri þóknun kærðu verði að miða við upphaflegan samning þeirra og byggja gjaldtökuna á upphaflegu tímagjaldi og þeim tímafjölda sem nefndin telur hæfilegan miðað við umfang vinnunnar.
Gagnaskrá sem kærandi hefur lagt fram vegna málsins telur 41 skriflegt gagn, en engin samskipti hans við kærðu eru þar á meðal. Heildarfjöldi skjala í málinu taldi yfir 600 blaðsíður og kærandi hefur ekki mótmælt þeirri fullyrðingu kærðu að tölvupóstar vegna málsins hafi orðið 2.000 talsins. Af gögnum málsins er einnig ljóst að talsverð vinna hefur farið í það hjá kærðu að þrýsta á að matsfundir yrðu haldnir, undirbúning þeirra funda svo og úrvinnslu efnis og upplýsinga af þeim fundum.
Í máli þessu er því meðal annars á það að líta að mikið magn gagna var var lagt fram og þá ekki síst af hálfu kæranda sjálfs. Í ljósi 1. mgr. 18. gr. LML sem og grunnreglna um góða lögmannshætti ber lögmönnum að kynna sér slík gögn til þess að geta staðið undir þeirri brýnu starfsskyldu að neyta allra lögmætra úrræða í þágu hagsmuna skjólstæðings. Þá verður ekki fram hjá því litið að samkvæmt málsgögnum reyndist tafsamt og tímafrekt að fá matsmenn að málinu af ástæðum sem verða fyrst og fremst raktar til kæranda sjálfs. Eftir fyrsta matsfund gekkst kærandi af sjálfsdáðum undir aðgerð sem sömuleiðis seinkaði uppgjöri og hægði þar með á framvindu málsins. Í málið blönduðust tvö tryggingafélög og ákveðið var að óska geðmats á kæranda. Þá var ágreiningur um stöðugleikapunkt kæranda og áhrif seinni aðgerða á örorkumat hans sem kærandi gekkst undir í trássi við afstöðu matsmanna.
Allt að einu verður ekki fram hjá því litið að tímaskráningar kærðu eru á köflum nokkuð úr hófi miðað við það sem hægt er að reikna með, en skýringar eru jafnan knappar. Mörg dæmi eru um að báðir kærðu skrifi umtalsverðan vinnutíma á sama verkið, án þess að séð verði að þörf sé á allri þeirri vfinnu. 12 stunda vinna kærðu á einum degi vegna matsbeiðni, 13 tíma vinna á tveimur dögum vegna geðmats, samtals 9 stundir vegna matsfunda og 10 tíma vinna við bótakröfu á einum degi eru ekki einu dæmin um þetta.
Að vandlega virtum gögnum málsins telur nefndin að hæfileg þóknun til handa kærðu skuli miðast við 80 stunda vinnu og taka mið af því tímagjaldi sem kærandi skuldbatt sig til að greiða kærða B, þ.e. 25.530, auk vsk. Verður fjárhæð þóknunar samkvæmt þessu ákveðin kr. 2.000.000 auk vsk. Eins og samningssambandi aðila var háttað telur nefndin að það falli utan hennar verksviðs að skipta úrskurðaðri þóknun á milli kærðu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærðu, B hrl. og C hdl. hafa ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kæranda A.
Hæfileg þóknun kærðu, fyrir störf í þágu kæranda, er kr. 2.000.000 auk vsk.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA