Mál 31 2016
Ár 2017, 28. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 31/2016:
G og A ehf.,
gegn
R hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S KU R Ð U R:
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 16. desember 2016 erindi kærenda, G og A ehf, en í því er kvartað yfir því að kærði, R héraðsdómslögmaður hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar gegn ákvæði 27. gr. laganna.
Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 30. desember 2016 og barst hún þann 8. febrúar 2017. Var kærendum send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 24. febrúar 2017 sem móttekin var af þeirra hálfu þann sama dag. Var kærendum fyrst veittur frestur í því skyni til 17. mars 2017 en sá frestur var síðar framlengdur til 2. maí sl. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Þann 19. febrúar 2016 gerðu kærandi G og kærði með sér samning um lögfræðiráðgjöf (e. Attorney Contract). Samkvæmt samningnum var kærða falið af kærandanum að veita lögfræðiráðgjöf vegna málefna kæranda A ehf., X ehf. sem og vegna fjárhagslegra og lagalegra hagsmuna kæranda G á Íslandi vegna samningaviðræðna við gagnaðila auk hagsmunagæslu gagnvart opinberum aðilum og fyrir dómstólum. Var tiltekið að kærandi G væri eini eigandi kæranda A og eigandi 50% hlutafjár í X ehf. Var sérstaklega tiltekið að kærða væri falið að veita aðstoð við að leysa nánar tiltekinn þriðja aðila frá öllum þeim stöðum sem kærandi G hefði tilnefnt hann til vegna ofangreindra félaga sem og að afturkalla öll umboð sem viðkomandi aðila hafði verið veitt. Þá var tiltekið í samningnum að hann tæki jafnframt til frekari þjónustu sem kærandinn kynni að óska eftir. Var því sérstaklega lýst að kærandinn og kærði hefðu takmarkaða mögulega á að eiga í milliliðalausum samskiptum vegna tungumálaörðugleika og að af þeim sökum væri kærða heimilt að starfa í samræmi við það sem honum væri sagt að væri vilji kæranda af þýðendum og/eða aðstoðarmönnum.
Samkvæmt ofangreindum samningi var umsamið tímagjald að fjárhæð 21.600 krónur auk virðisaukaskatts. Var tiltekið að kærða bæri að senda yfirlit yfir þóknun og kostnað til kærandans samkvæmt kröfu. Þá skyldi reikningur vegna vinnunnar vera sendur á nánar tilgreint tölvupóstfang. Var samið um að fyrir upphaf starfans skyldi kærandinn greiða tryggingu inn á fjárvörslureikning kærða að fjárhæð 535.000 krónur og að kærði gæti óskað eftir viðbótartryggingu þegar nauðsyn krefði, þ.e. þegar tímafjöldi vegna starfa kærða í þágu kærenda væri að nálgast 20 klukkustundir. Auk þessa bar kærandanum að greiða útlagðan kostnað kærða vegna starfans.
Í samningnum var því lýst að kærandinn gæti hvenær sem er leyst kærða undan starfsskyldum samkvæmt samningnum. Var tiltekið að við lok samningssambandsins yrðu allar ógreiddar þóknanir vegna starfa kærða í þágu kærandans gjaldkræfar og að íslensk lög giltu um samningssambandið.
Á grundvelli samnings þessa annaðist kærði lögmannsstörf fyrir kærendur frá febrúarmánuði 2016 til ársbyrjunar 2017. Verður af framlögðum gögnum fyrir úrskurðarnefnd ráðið að störf kærða í þágu kærenda hafi lotið að mörgum málum sem hafi útheimt mikil og regluleg samskipti kærða við ýmsa aðila, þ. á m. kærendur sjálfa og aðstoðarmenn þeirra, gagnaðila og viðsemjendur kærenda og opinbera aðila.
Fyrir úrskurðarnefndinni hafa bæði kærendur og kærði lagt fram tímaskýrslur kærða vegna starfa hans í þágu kærenda á tímabilinu frá 23. febrúar 2016 til og með 28. nóvember 2016. Samkvæmt skýrslunum var heildarfjöldi skráðra vinnustunda kærða í þágu kærenda á tímabilinu 523,75 klukkustundir, þ.e. 127,5 klst. á tímabilinu frá 23. febrúar til og með 3. apríl 2016, 42 klst. á tímabilinu frá 4. apríl til og með 26. apríl 2016, 78,5 klst. á tímabilinu frá 27. apríl til og með 14. júlí 2016 og 275,75 klst. vegna tímabilsins frá 15. júlí til og með 28. nóvember 2016.
Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærði einnig lagt fram tímaskýrslu vegna starfa hans í þágu kærenda á tímabilinu frá 29. nóvember 2016 til og með 8. desember 2016 þar sem skráður heildartímafjöldi er 11,75 klst. Þá hefur kærði jafnframt lagt fram tölvubréf til nánar tilgreinds aðstoðarmanns kærenda frá 3. janúar 2017 þar sem fram kemur yfirlit yfir vinnuskýrslu kærða í þágu kærenda á tímabilinu frá 13. desember 2016 til og með 29. desember 2016 með tímafjölda upp á 22 klst. Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslum er skráður tímafjöldi vegna starfa kærða í þágu kærenda á öllu tímabilinu 557,5 klst.
Í greinargerð kærða fyrir úrskurðarnefndinni er vísað til þess að á því tímabili sem hann hafi starfað í þágu kærenda hafi hann alls unnið fyrir kærendur í 557 klst. Samkvæmt umsömdu tímagjaldi nemi heildarkostnaður kærenda vegna starfa hans að fjárhæð 14.918.688 krónur með virðisaukaskatti. Hafi kærendur alls greitt inn á þá kröfu 8.078.724 krónur, þ.e. 1.642.840 krónur vegna reiknings nr. 218, 1.822.340 krónur vegna reiknings nr. 223, 2.102.544 krónur vegna reiknings nr. 224 og 2.511.000 krónur vegna reiknings nr. 225. Séu eftirstöðvar kröfu kærða á hendur kærendum vegna ógreiddrar þóknunar að fjárhæð 6.839.964 með virðisaukaskatti.
Varðandi störf kærða í þágu kærenda er í greinargerð kærða, sem ekki hefur sætt athugasemdum af hálfu kærenda, vísað til þess að upphafsverk aðilans hafi snúið að rannsókn á stöðu þeirra mála sem hann hafði tekið að sér fyrir kærendur, þ.e. hvort eignarheimildir kærandans G væru fullnægjandi, hvaða aðgerðir þyrfti að fara í vegna brottreksturs nánar tilgreinds aðila, breytinga á stjórn kærandans A, m.a. með umsókn um undanþágu frá búsetuskilyrðum einkahlutafélaga til atvinnuvegaráðuneytisins og samskiptum við fyrirtækjaskráningu RSK. Hafi verkið undið fljótt upp á sig vegna mótspyrnu viðkomandi gagnaðila sem hafi kallað á aðkomu kærða að flutningi dómsmáls í héraði og til að eiga í töluverðum samskiptum við fyrirtækjaskrá RSK sem og í samskiptum og samningaviðræðum við sameigendur í X ehf. Einnig hafi komið í ljós að í óefni hafi stefnt í rekstri kærandans A og að töluverða aðkomu kærða hafi þurft að þeim málum þar sem félagið hafi stefnt í gjaldþrot vegna ógreiddra krafna.
Í greinargerð kærða er vísað til þess að önnur hrina mála vegna málefna kærenda hafi hafist í byrjun júlímánaðar 2016. Hafi þurft að yfirfara mikið af skjölum í hverju og einu máli áður enunnt hafi verið að svara þeim og að mikil samskipti hafi fylgt þeim þó að ákvörðun hafi verið tekin um að láta aðra lögmenn reka þau. Samhliða þessu hafi kærði þurft að bregðast við ýmsum viðbótarverkefnum sem eru nánar tilgreind í greinargerð aðilans.
Kærði vísar jafnframt til þess í greinargerð sinni að töluverður tími hafi farið í samskipti við aðstoðarmenn kærenda, hvort heldur sem var á fundum, í tölvubréfum, í símtölum eða í gegnum samskiptaforritið Whatsapp. Hafi kærða orðið ljóst í þessu ferli að aðstoðarmenn kærenda hafi haft litla ef nokkra yfirsýn yfir þau mál sem í gangi hefðu verið á hverjum tíma. Af þeim sökum hafi kærði séð sig tilneyddan til að gera yfirlit yfir þau mál til að eiga möguleika á því að eiga vitræn samtöl um þau við aðstoðarmenn kærenda.
Í gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er að finna nokkurn fjölda tölvubréfa sem gengu á milli kærða og aðstoðarmanna kærenda á því tímabili sem samningssamband aðila tók til, þ. á m. vegna vinnuskýrslna kærða og útgefinna reikninga á grundvelli þeirra. Má um það efni vísa til tölvubréfa kærða til tilgreindra aðstoðarmanna frá 4. mars 2016, 26. apríl 2016, 23. og 29. júlí 2016, 21. ágúst 2016 og 3. janúar 2017.
Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að kærendur eða aðstoðarmenn þeirra hafi gert athugasemdir við vinnuskýrslur eða reikninga kærða að því frátöldu að í tölvubréfum aðstoðarmanna til kærða frá 9. og 17. júlí 2016 er því lýst að of miklum fjármunum hafi verið eytt í málin þar sem enginn árangur hafi hlotist af þeim.
Í greinargerð kærða er vísað til þess að vegna mikils álags og nokkurs eftirreksturs við að fá greiðslu inn á fjárvörslureiknings lögmannsstofu kærða fyrir tímabilið frá 26. apríl til 14. júlí 2016 hafi kærði fallist á að vinna fyrir kærendur en að uppgjör greiðslu vegna þess tímabils ásamt tímabilinu þar á eftir færi fram þegar kærandi G kæmi til landsins en að það hafi dregist fram í nóvembermánuð það ár. Tímayfirlit vegna tímabilsins frá 15. júlí 2016 til 28. nóvember 2016 hafi því ekki verið birt honum fyrr en í byrjun desember það ár. Þó langur tími hafi liðið frá birtingu fyrra yfirlits hefði kærendum mátt vera ljóst um öll þau verkefni sem kærði hefði sinnt fyrir þá á grundvelli yfirlits yfir stöðu mála í tölvubréfi kærða frá 21. ágúst 2016 og samskipta aðila á tímabilinu.
Þann 13. desember 2016 sendi aðstoðarmaður kæranda G tölvubréf til kærða með staðfestingu á tilboði aðilans. Var tilgreint að kærandinn myndi greiða 2.500.000 krónur inn á útgefinn reikning kærða en að það sem eftir stæði af reikningum yrði lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Kæmi til áframhaldandi starfa kærða fyrir kærandann með þeim skilyrðum að kærði myndi senda vikulegar vinnuskýrslur, að ekkert yrði gert án samþykkis kærandans og að tölvubréf og símtöl yrðu stutt. Kærði féllst á þessa tillögu kærandans með nánar tilgreindum fyrirvörum sem lýst var í tölvubréfi þennan sama dag til aðstoðarmannsins.
Mun kærði hafa sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kærendur samkvæmt samkomulagi aðila fram til ársbyrjunar 2017. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kærendur eftir þann tíma.
II.
Í erindi kærenda koma ekki fram ákveðnar kröfur, en sá skilningur verður lagður í erindið að þess sé krafist að kærði verði beittur viðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og að áskilin þóknun kærða sæti lækkun, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna.
Kvörtun kærenda er í fyrsta lagi reist á því að ítrekað hafi verið óskað eftir því við kærða að hann sendi vikulegar tíma- og vinnuskýrslur vegna starfa hans. Slíkar vikulegar skýrslur hafi ekki borist frá kærða auk þess sem kærendur hafi gert athugasemdir við fjölda vinnustunda kærða vegna starfans. Er á það bent að samkvæmt vinnuskýrslum kærða hafi hann innheimt klukkustund eða meira fyrir eitt tölvubréf.
Í öðru lagi vísa kærendur til þess að þeir hafi ítrekað á sjö mánaða tímabil óskað eftir að hafinn yrði málarekstur á hendur K en að kærði hafi ekki sinnt þeirri beiðni. Hafi það leitt til tjóns og glataðra tækifæri fyrir kærendur.
Í þriðja lagi hafna kærendur því að þeir hafi átt tveggja til þriggja klukkustunda símafundi með kærða eins og látið sé að liggja í vinnuskýrslum kærða.
Í fjórða lagi vísa kærendur til þess að þeir hafi átt tvo fundi með sameigendum í X ehf. á skrifstofu kærða en ekki fimm eins og kærði hafi lagt til grundvallar í vinnuskýrslum.
Í kvörtun kærenda er í fimmta lagi vísað til þess að kærði hafi gert samning vegna kaupa kærenda á hlutafé í X ehf. sem hafi verið haldinn mörgum annmörkum. Hafi kærði leiðrétt samninginn í kjölfar símafundar. Óska kærendur eftir afstöðu til þess hvort þeim beri að greiða gjald vegna þeirra vinnustunda kærða sem fóru í að leiðrétta annmarkana.
Í sjötta lagi kveðast kærendur hafa óskað eftir því við kærða að hann annaðist staðfesta afritatöku af frumritum skjala en að kærði hafi sagt að slíkt væri ekki mögulegt á Íslandi. Af þeim sökum hafi kærendur lent í vandræðum með að hefja málarekstur á hendur K í Í.
Kærendur vísa til þess í sjöunda lagi að kærði hafi hótað því að krefjast gjaldþrotaskipta á kæranda A í hvert skipti sem kærendur hafi mótmælt tímaskýrslum kærða.
Í áttunda lagi kveðast kærendur hafa spurt kærða ítrekað spurninga um íslensk lög sem hann hafi ekki getað svarað. Hafi kærði þurft að rannsaka málin til að geta svarað kærendum með tilheyrandi kostnaði.
Í níunda lagi vísa kærendur til þess að í samtölum sínum við kærða hafi hann ítrekað endurtekið sömu málefnin sem kærendur hafi gert athugasemdir við þar sem slíkra endurtekninga hafi ekki verið þörf. Hafi þær endurtekningar leitt til aukins kostnaðar fyrir kærendur.
Vísa kærendur loks almennt til þess að slíkir lögmannshættir séu til þess fallnir að koma óorði á ásýnd Íslands hjá erlendum fjárfestum.
III.
Í máli þessu krefst kærði þess í fyrsta lagi að öllum kröfum kærenda verði vísað frá eða hafnað. Í öðru lagi krefst kærði þess að kærendur verði úrskurðaðir insolidum til að greiða kærða útistandandi kröfu að fjárhæð 5.516.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, alls 6.839.964 krónur með virðisaukaskatti. Þá krefst kærði þess í þriðja lagi að kærendum verði gert að greiða málskostnað sem samsvari 20 klukkustunda vinnu á tímagjaldinu 25.000 krónur auk virðisaukaskatts vegna vinnu kærða í máli þessu.
Kærði byggir á að hann hafi starfað af fullum heilindum og gætt fagmennsku við störf sín í þágu kærenda. Hafnar kærði ávirðingum um að tímaskráningu hafi verið ábótavant og mótmælir því sem ósönnuðu að nokkuð hafi verið gert á hlut kærenda í málinu. Bendir kærði á að árangur hans í öllum þeim málarekstri sem hann hafi sinnt fyrir kærendur hafi verið yfir væntingum. Þá telur kærði vandséð að mögulegt hafi verið að eyða minni tíma í þau mál sem hann kom að fyrir hönd kærenda og telur sig því eiga rétt til þóknunar í samræmi við samning aðila fyrir allar þær vinnustundir sem gerð sé grein fyrir í tímaskýrslum að frádreginni þeirri þóknun sem þegar hafi verið greidd.
Kærði kveðst ekki kannast við að það hafi verið viðvarandi krafa um að vinnuskýrslum væri skilað vikulega til kærenda þó hann kannist við að krafa hafi komið fram um skýrslugjöf á ákveðnum tíma, sérstaklega stuttu eftir útgáfu reikninga. Kærði hafi ekki fengið slíkar kröfur og hafi ekki fallist á þær fyrr en undir lok samningssambandsins. Þá hafði kærði ávallt sent tímayfirlit áður en til útgáfu reiknings hafi komið og gert kröfu um að greidd yrði trygging inn á fjárvörslu.
Kærði kveðst kannast við að almenn athugasemd hafi verið gerð vegna tímayfirlits í 1-2 skipti. Ábendingu kærða um að rétt væri að kærendur gerðu nánari grein fyrir því hvað þeir væru ósáttir við hefði í engu verið svarað og fjárhæðir greiddar allt fram í byrjun desember 2016. Hafi kærði því gert ráð fyrir að við nánari athugun hefðu athugasemdirnar verið dregnar tilbaka.
Varðandi umfang starfans vísar kærði m.a. til fyrirliggjandi yfirlits yfir fjölda tölvubréfa tengdum málum kærenda. Telur kærði að yfirlitið eigi að veita tilfinningu fyrir öllum þeim samskiptum sem þörf hafi verið á vegna allra málanna.
Kærði byggir á að ávirðingar um meint vanhöld kærða á að hefja málarekstur gegn K séu ekki studdar neinum rökum auk þess sem þær séu fjarri sannleikanum. Telur kærði blasa við að kostnaðurinn hefði aukist umfram þá rannsóknarvinnu sem kærði hefði lagt af mörkum ef lengra hefði verið haldið. Hafi aðilar verið sammála um að ódýrast og best væri að halda að sér höndum í þessu efni, m.a. á grundvelli fyrirliggjandi málareksturs og annarra aðkallandi mála. Þá hafi kæranda G verið gerð grein fyrir því að kærði hefði ekki tíma fyrr en eftir sumarfrí til að hefja vinnu við málssókn af því tagi sem um ræddi. Undirbúningur hafi þó verið hafinn að málarekstrinum sem og lögreglukæru á hendur K sem lögð hafi verið fram í nóvember eða desembermánuði 2016 ásamt því að tilhæfulausri kæru K á hendur kærandanum og kærða persónulega hafi verið svarað.
Varðandi meinta tímalengd símtala vísar kærði til þess að óljóst sé við hvað sé átt með þeirri athugasemd kærenda að ekki hafi átt sér stað 2-3 stunda símtöl. Hafi tímaskráning kærða að jafnaði náð bæði til fundartíma og undirbúningstíma hvort sem um hafi verið að ræða hefðbundinn fund á starfsstöð eða símafund.
Um málatilbúnað kærenda um meinta ofskráningu funda með sameigendum í X ehf. í vinnuskýrslu kveðst kærði ekki átta sig á því til hvaða tímaskráningar eða atvika sé vísað í þessu tilfelli. Þó óljóst sé við hvað sé átt í málatilbúnaði kærenda hafi átt sér stað langir fundir og standi kærði við tímayfirlit sín hvað þetta varði.
Kærði hafnar því alfarið að krafist hafi verið greiðslu fyrir tíma sem eytt hafi verið í að leiðrétta mistök við gerð kaupsamnings við B ehf. Sé kærða engan veginn ljóst hver hin meintu mistök eigi að hafa verið. Vísar kærði til þess að hann hafi gert drög að ítarlegum kaupsamningi sem aðstoðarmaður kæranda G hafi samþykkt að lokum eftir umtalsverð samskipti. Þá hafi verið unnið úr athugasemdum gagnaðila vegna samningsdraga í samráði við aðstoðarmann kærandans.
Kærði kveður að kærandi G hafi farið fram á að hann kannaði hjá dómstóli, ekki sýslumanni, hvort til álita kæmi að leggja fram frumrit samninga áður en til málshöfðunar kæmi og fá afrit þeirra stimpluð til að hægt væri að leggja þau fram í dómi svo að ekki þyrfti að leggja frumritin fram aftur fyrir dómi. Kveðst kærði hafa kannað þann möguleika hjá Héraðsdómi Reykjavíkur en án árangurs. Hafi kærði gert það sem fyrir hann hafi verið lagt af hálfu kærenda að þessu leyti. Þá sé það ósannað að kærendur hafi reynt að hefja málarekstur fyrir Í dómstólum á hendur K og að þörf hafi verið á þeim skjölum sem séu í vörslu kærða vegna hins meinta málareksturs.
Kærði kveðst ekki kannast við að hafa á nokkrum tímapunkti hótað að keyra kæranda A í gjaldþrot. Einu hótanir kærða hafi lotið að því að leggja niður störf fyrir kærendur þegar umkrafðar fjárhæðir höfðu ekki verið greiddar á fjárvörslureikning. Þá hafi kærði bent kærendum og aðstoðarmönnum þeirra á að þeir gætu leitað til annarra lögmanna en að krafa yrði gerð um uppgjör skulda kærenda við hann við lok samningssambandsins.
Kærði vísar til þess að hann hafi eðli málsins samkvæmt þurft að yfirfara lagaákvæði, dómsúrlausnir og málsskjöl vegna þeirra fjölmörgu álitaefni sem uppi hafi verið í öllum þeim fjölda mála sem í gangi hafi verið í störfum fyrir kærendur. Hafnar kærði því alfarið að hann hafi á einhverjum tímapunkti skráð tíma vegna meintrar rannsóknar sem ekki hafi átt sér stað.
Kærði telur óljóst hvað átt sé við með athugasemd kærenda um endurteknar útskýringar í símtölum. Það sé hins vegar staðreynd málsins að aðstoðarmenn kærenda hafi ekki skilið hvað gengið hafi á í ýmsum málum og því hafi reynst nauðsynlegt á stundum að útskýra flóknari mál oftar en einu sinni. Telur kærði að sú vinna sem farið hafi í samskipti við aðstoðarmenn kærenda hafi verið nauðsynleg í því skyni að geta átt í faglegum samskiptum við kæranda G þannig að kærandinn gæti skilið málin til hlítar og tekið ákvarðanir um málareksturinn.
Um þetta efni vísar kærði að endingu til þess að hann hafi margoft unnið fyrir erlenda og innlenda fjárfesta án þess að nokkur athugasemd hafi verið gerð við störf hans eða ágreiningur gerður um reikninga.
Kærði hafnar því að hann hafi gerst brotlegur gegn ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn eða að öðru leyti gagnvart kærendum í störfum sínum fyrir þá. Samkvæmt því krefst kærði þess að kröfum kærenda verði vísað frá eða að þeim verði hafnað.
Auk ofangreindrar kröfu kveður kærði að ekki verði hjá því komist að gera kröfu til þess að úrskurðarnefndin úrskurði um heildarkröfu hans á hendur kærendum enda sé honum nauðsynlegt að fá aðfararhæfan úrskurð vegna kröfunnar. Samkvæmt því krefst kærði þess að kærendur verði úrskurðaðir insolidum til að greiða kærða útistandi kröfu að fjárhæð 5.516.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, alls kr. 6.839.964 krónur með virðisaukaskatti.
Niðurstaða
I.
Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna getur nefndin vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst.
Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að kvörtun kærenda sé óskýr og samhengislaus auk þess sem ekki verði séð að samhengi sé á milli framlagðra gagna kærenda í málinu og kröfugerðar og málsatvikalýsingar aðilanna eins og hún sé fram sett fyrir nefndinni.
Þótt fallast megi á það með kærða að málatilbúnaður kærenda sé nokkuð á reiki og óskýr um ýmis atriði verður ekki framhjá því litið að umkvartanir kærenda í málinu lúta að ákveðnum þáttum og háttsemi í störfum kærða í þágu kærenda sem sérstaklega er lýst í erindi kærenda. Að mati nefndarinnar hefur málatilbúnaður kærenda ekki leitt til þess að kærði hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu. Er það mat nefndarinnar að málið teljist nægilega reifað og upplýst. Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærða í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.
II.
Í máli þessu þarf annars vegar að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og hins vegar að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.
Verður fyrst fjallað um það hér á eftir hvort vinnubrögð kærða teljist andstæð lögum eða siðareglum lögmanna.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. siðareglnanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.
Eins og áður er lýst byggja kærendur á því að kærði hafi ekki sinnt ítrekuðum óskum þeirra um að vikulega yrðu sendar tíma- og vinnuskýrslur vegna starfa kærða. Kærði kveðst hins vegar ekki kannast við að það hafi verið viðvarandi krafa að slíkum skýrslum yrði skilað vikulega. Slík krafa hafi ekki komið fram frá kærendum fyrr en undir lok samningssambands aðila.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sendi kærði með reglulegu millibili tíma- og vinnuskýrslur til kærenda og aðstoðarmanna þeirra á meðan samningssamband aðila stóð. Verður ekki annað ráðið en að þær sendingar hafi verið í samræmi við samning kæranda G og kærða um lögfræðiráðgjöf frá 19. febrúar 2016 þar sem tiltekið var að kærða bæri að senda yfirlit yfir þóknun og kostnað til kærandans að kröfu hins síðarnefnda. Þannig verður hvorki ráðið af samningi aðila né af öðrum gögnum sem liggja fyrir nefndinni að kærendur hafi í upphafi samningssambands aðila, eða ítrekað í kjölfar þess, óskað eftir vikulegum skýrslum frá kærða. Gegn andmælum kærða verður því að leggja til grundvallar að sú krafa hafi fyrst komið fram af hálfu kærenda þegar leið undir lok samningssambands aðila, sbr. tölvubréf aðstoðarmanns kærenda til kærða frá 13. desember 2016. Samkvæmt því verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kærenda vegna þessa. Þar sem erindi kærenda var lagt fyrir úrskurðarnefndina þann 16. desember 2016 kemur framkvæmd aðila um þetta efni eftir þann tíma ekki til skoðunar í máli þessu.
Varðandi málatilbúnað kærenda um að þeir hafi orðið fyrir tjóni og glötuðum tækifærum vegna þess að kærði hafi ekki sinnt ítrekuðum óskum þeirra um að hafinn yrði málarekstur á hendur nánar tilgreindum þriðja aðila er þess að gæta að engra skýrra gagna nýtur við um þetta efni fyrir úrskurðarnefndinni. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem og gegn mótmælum og málatilbúnaði kærða um þetta efni, sem ekki hefur sætt andmælum af hálfu kærenda, verður því talið ósannað að kærði hafi gert á hlut kærenda að þessu leyti.
Slíkt hið sama verður lagt til grundvallar vegna málatilbúnaðar kærenda um staðfesta afritatöku af frumritum skjala og meintar hótanir kærða um að krefjast gjaldþrotaskipta á kæranda A. Þar sem málatilbúnaður kærenda um þetta efni fær ekki stoð í gögnum málsins sem og með vísan til mótmæla kærða, sem ekki hafa sætt andmælum af hálfu kærenda, er ósannað að kærði hafi gert á hlut kærenda vegna hinnar meintu háttsemi sem málatilbúnaður kærenda lýtur að.
Að öðru leyti getur umkvörtunarefni í málatilbúnaði kærenda á hendur kærða ekki leitt til þess að kærði verði talinn hafa gerst brotlegur gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kærendur. Samkvæmt því er kröfu kærenda um að kærði verði beittur agaviðurlögum á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hafnað.
III.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Eins og áður er lýst hefur nefndin lagt þann skilning í erindi kærenda að þess sé krafist að áskilin þóknun kærða sæti lækkun.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.
Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.
Ekki er ágreiningur um tímagjald í máli þessu en samkvæmt samningi kærða og kæranda G um lögfræðiþjónustu, dags. 19. febrúar 2016, var umsamið tímagjald að fjárhæð 21.600 krónur auk virðisaukaskatts.
Fyrir úrskurðarnefndinni hafa bæði kærendur og kærði lagt fram tímaskýrslur kærða vegna starfa hans í þágu kærenda á tímabilinu frá 23. febrúar 2016 til og með 28. nóvember 2016. Samkvæmt skýrslunum var heildarfjöldi skráðra vinnustunda kærða í þágu kærenda á tímabilinu 523,75 klukkustundir eins og nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan.
Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærði einnig lagt fram tímaskýrslu vegna starfa hans í þágu kærenda á tímabilinu frá 29. nóvember til og með 8. desember 2016 þar sem skráður heildartímafjöldi er 11,75 klst. Þá hefur kærði jafnframt lagt fram tölvubréf til nánar tilgreinds aðstoðarmanns kærenda frá 3. janúar 2017 þar sem fram kemur yfirlit yfir vinnuskýrslu kærða í þágu kærenda á tímabilinu frá 13. desember til og með 29. desember 2016 með tímafjölda upp á 22 klst. Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslum er skráður tímafjöldi vegna starfa kærða í þágu kærenda á öllu tímabilinu 557,5 klst. Í málatilbúnaði kærða, sem ekki hefur sætt andmælum af hálfu kærenda, hafa kærendur alls greitt 8.078.724 krónur vegna lögmannsstarfa kærða á tímabilinu, þ.e. 1.642.840 krónur vegna reiknings nr. 218, 1.822.340 krónur vegna reiknings nr. 223, 2.102.544 krónur vegna reiknings nr. 224 og 2.511.000 krónur vegna reiknings nr. 225.
Í máli þessu koma hvorki til skoðunar þau störf sem kærði innti af hendi í þágu kærenda eftir að mál þetta var lagt fyrir nefndina þann 16. desember 2016 né tíma- og vinnuskýrslur kærða á grundvelli þeirra starfa.
Í málatilbúnaði kærenda er vísað til þess að þeir hafi gert athugasemdir við fjölda vinnustunda kærða. Er í því samhengi m.a. vísað til þess að samkvæmt vinnuskýrslum hafi kærði innheimt klukkustund eða meira fyrir eitt tölvubréf, að því sé mótmælt að kærendur hafi átt tveggja til þriggja klukkustunda símafundi með kærða eins og haldið sé fram í tímaskýrslum og að kærendur hafi átt tvo fundi með sameigendum í X ehf. á skrifstofu kærða en ekki fimm eins og kærði hafi lagt til grundvallar í skýrslum sínum.
Kærði hefur mótmælt þessum málatilbúnaði kærenda á þeim grundvelli að óljóst sé við hvaða tímaskráningar eða atvik sé átt í málatilbúnaði kærenda um þetta efni og að kærði standi að öllu leyti við sín tímayfirlit hvað þetta varði.
Á grundvelli samnings aðila um lögfræðiþjónustu, dags. 19. febrúar 2016, annaðist kærði lögmannsstörf fyrir kærendur í tæplega eitt ár. Verður af samningi aðila og framlögðum gögnum fyrir úrskurðarnefnd ráðið að störf kærða í þágu kærenda hafi lotið að mörgum málum sem hafi útheimt mikil og regluleg samskipti kærða við ýmsa aðila, þ. á m. kærendur sjálfa og aðstoðarmenn þeirra, gagnaðila og viðsemjendur kærenda og opinbera aðila. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærendur eða aðstoðarmenn þeirra hafi gert athugasemdir við vinnuskýrslur eða reikninga kærða að því frátöldu að í tölvubréfum tilgreindra aðstoðarmanna til kærða frá 9. og 17. júlí 2016 var því lýst að of miklum fjármunum hafi verið eytt í málin þar sem enginn árangur hafi hlotist af þeim. Samræmist það málatilbúnaði kærða þar sem fram kemur að kærendur hafi gert almenna athugasemd vegna tímayfirlits í 1-2 skipti án þess að þeim hafi verið fylgt eftir af hálfu kærenda.
Kærendur hafa kosið að skýra ekki nánar til hvaða atvika og/eða tímaskráningar sé vísað í kvörtunum þeirra á hendur kærða. Hefði fullt tilefni verið til slíks í ljósi málatilbúnaðar kærða fyrir nefndinni. Verða kærendur að bera hallann af því.
Hvað meinta annmarka á samningagerð kærða vegna kaupa kærenda á hlutafé í 101 Austurstræti ehf. varðar er þess að gæta að kærendur hafa hvorki lýst því í hverju hinir meintu annmarkar eiga að hafa fólgist né hafa þeir lagt samninginn eða samningsdrög fram í máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu verður gegn mótmælum kærða um þetta efni, sem ekki hafa sætt andmælum af hálfu kærenda, að hafna tilgreindum málatilbúnaði kærenda sem ósönnuðum.
Kærendur byggja jafnframt á því að þeir hafi ítrekað spurt kærða spurninga um íslensk lög sem hann hafi ekki getað svarað heldur hafi hann þurft að rannsaka málin með tilheyrandi kostnaði fyrir kærendur.
Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.
Fyrir nefndinni hefur ekkert komið fram um það að kærði hafi ekki verið fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku þeim verkefnum sem hann tók að sér í þágu og fyrir hönd kærenda. Telur nefndin það samrýmast góðum lögmannsháttum að yfirfarin séu viðeigandi lagaákvæði, dómafordæmi og skjöl vegna þeirra verkefna sem lögmaður tekur að sér í þágu skjólstæðings.
Í samningi aðila um lögfræðiþjónustu, dags. 19. febrúar 2016, var því sérstaklega lýst að kærandi G og kærði hefðu takmarkaða mögulega á að eiga í milliliðalausum samskiptum vegna tungumálaörðugleika og að af þeim sökum væri kærða heimilt að starfa í samræmi við það sem honum væri sagt að væri vilji kæranda af þýðendum og/eða aðstoðarmönnum. Hefur kærði í greinargerð sinni til nefndarinnar lýst því að á stundum hafi þurft að útskýra flóknari mál oftar en einu sinni þar sem aðstoðarmenn kærenda hefðu ekki skilið hvað hafi gengið á í ýmsum málum. Hafi sú vinna sem farið hafi í samskipti við aðstoðarmenn kærenda verið nauðsynleg í því skyni að geta átt í faglegum samskiptum við kæranda G þannig að kærandinn gæti skilið málin til hlítar og tekið ákvarðanir um málareksturinn.
Kærendur hafa í engu mótmælt málatilbúnaði kærða um þetta efni. Með hliðsjón af því sem og með vísan til þess að gögn málsins bera ekki með sér að kærendur og/eða aðstoðarmenn þeirra hafi gert athugasemdir við meintar endurtekningar kærða og kostnað sem af þeim mun hafa hlotist verður málatilbúnaður kærða um þetta efni lagður til grundvallar fyrir nefndinni.
Að vandlega virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram, þ. á m. ítarlegum tímaskýrslum kærða sem virðast greinargóðar um það sem gert var hverju sinni, telur nefndin að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna starfa sinna í þágu kærenda á tímabilinu frá 23. febrúar 2016 til og með 15. desember 2016 sé hæfileg. Samkvæmt því er kröfu kærenda um að áskilin þóknun kærða sæti lækkun vegna tilgreinds tímabils hafnað.
IV.
Áður er rakið efni 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga þar sem fram kemur að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Samkvæmt 1. tl. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna er hlutverk nefndarinnar að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum.
Auk kröfu kærða um að kröfum kærenda verði vísað frá eða hafnað hefur aðilinn krafist þess í greinargerð sinni að kærendur verði úrskurðaðir insolidum til að greiða kærða útistandandi kröfu að fjárhæð 5.516.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, alls 6.839.964 krónur með virðisaukaskatti. Kveður kærði í málatilbúnaði sínum að ekki verði hjá því komist að gera kröfu til þess að nefndin úrskurði um heildarkröfu hans á hendur kærendum vegna tímabilsins frá 23. febrúar 2016 til og með 29. desember 2016 enda sé honum nauðsynlegt að fá aðfararhæfan úrskurð vegna kröfunnar.
Ágreiningi í máli þessu var skotið til nefndarinnar með erindi kærenda sem móttekið var þann 16. desember 2016. Í stað þess að beina þeirri fjárkröfu sem sem að ofan greinir til nefndarinnar með sjálfstæðu erindi eins og heimilt hefði á grundvelli 26. gr. lögmannalaga og 3. gr. málsmeðferðarreglnanna kaus kærði að hafa hana uppi í greinargerð með andsvörum og umsögn aðilans vegna erindis kærenda til nefndarinnar. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild. Með vísan til þess sem og með hliðsjón af því að fjárkrafa kærða tekur m.a. til starfa kærða eftir að erindi kærenda barst nefndinni verður ekki hjá því komist að vísa henni frá nefndinni.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, R hdl., hefur ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kærendur, G og A ehf.
Áskilin þóknun kærða, R hdl., vegna starfa hans í þágu kærenda, G og A ehf., á tímabilinu frá 23. febrúar 2016 til og með 15. desember 2016, felur í sér hæfilegt endurgjald.
Kröfu kærða um að að kærendur verði úrskurðaðir insolidum til að greiða kærða útistandandi kröfu að fjárhæð 5.516.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, alls 6.839.964 krónur með virðisaukaskatti, er vísað frá.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason hrl., formaður.
Einar Gautur Steingrímsson hrl.
Valborg Snævarr hrl.