Mál 6 2016

 

Mál 6 2016

Ár 2016, föstudaginn 9. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 6/2016:

H

gegn

I hrl, J hrl. og K hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. mars 2016 erindi kæranda, H, þar sem kvartað var yfir fjárhagsuppgjöri, áskilinni þóknun og störfum kærðu, I hrl, J hrl. og K hdl. Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 13. apríl 2016. Kærði I skilaði greinargerð vegna málsins þann 6. maí 2016, en kærðu K og J þann 11. maí.

 

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðir kærðu þann 13. maí 2016 og gefinn frestur til þess til 30. maí. Staðfesti hann móttöku tölvuskeytis þar um samdægurs. Engar athugasemdir bárust frá kæranda við þessar greinargerðir.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Af erindi kæranda og greinargerðum kærðu má ráða að kærendur hafi komið að fjórum aðskildum málum fyrir kærða.  Verður gerð grein fyrir hverju þeirra fyrir sig hér á eftir.

 

S lögmannsstofa vann að gerð bótakröfu í líkamsárásarmáli fyrir kæranda, en málið snerist um líkamsárás þann x. desember 201x. Kærði I er einn lögmanna stofunnar. Ekki virðist ágreiningur um að bókaðar voru 22,9 vinnustundir vegna málsins og gerður reikningur nr. 6660 að fjárhæð kr. 188.250 að meðtöldum vsk. Þessi reikningur mun ekki hafa verið greiddur, fyrr en fjárhæð hann innheimtist af fjármunum vegna annars máls, svo sem nánar verður fjallað um síðar.

 

Stofan vann jafnframt að bótakröfu vegna annars líkamsárásarmáls fyrir kæranda, og varðaði það líkamsárás í maí 201x. Vegna þess máls hafa verið skráðar 16,6 vinnustundir. Móttók lögmannsstofan greiðslu frá bótasjóði vegna þess máls að fjárhæð kr. 197.359 og má ráða af greinargerð kærða I að uppgjöri hafi verið stillt upp með þeim hætti að reiknað hafi verið tímagjald að fjárhæð kr. 11.889 án vsk. vegna málsins og vinna vegna þess þar með talin upp gerð. Þá móttók lögmannsstofan kr. 345.491 fyrir hönd kæranda úr bótasjóði, en af þeirri greiðslu var 188.250 krónum varið til uppgreiðslu fyrrnefnds eldri reiknings nr. 6660.

 

Á tímabilinu nóvember 2010 til apríl 2012 vann lögmannsstofan S að meiðyrðamáli fyrir kæranda. Var 66 vinnustundum varið til reksturs málsins. Áskilið tímagjald lögmanna stofunnar vegna málsins er á bilinu 18.000 - 21.500 án vsk. Var gefinn út reikningur að fjárhæð kr. 1.490.940. Tryggingafélag kæranda greiddi um 80% af þeim reikningi, en eftirstöðvarnar voru ekki innheimtar hjá kæranda. Af gögnum málsins má ráða að lögmannsstofan T hafi tekið við rekstri málsins fyrir Hæstarétti . Lyktir þess hafi orðið þær að gagnaðili var dæmdur til að greiða kæranda málskostnað auk fjárbóta. Kærðu J og K starfa á lögmannsstofunni T, en hvorugur þeirra flutti málið fyrir Hæstarétti.

 

Síðasta málið sem lögmannsstofan S vann fyrir kæranda varðaði meint blygðunarsemisbrot sem flutt var á tveimur dómstigum. Á tímabilinu ágúst 2011 til mars 2013 voru skráðar alls 69,3 vinnustundir vegna málsins og gefnir út tveir reikningar, annar vegna flutnings málsins í héraði að fjárhæð 350.598 og hinn vegna meðferðar í Hæstarétti að fjárhæð kr. 300.000. Reiknað tímagjald stofunnar vegna þessara reikninga nemur því á milli 9 og 10 þúsund krónum, en samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð kærða I er ekki venja á lögmannsstofunni að innheimta málflutningslaun umfram dæmdan málskostnað vegna starfa að sakamálum.

 

Kærandi hefur í málinu lagt fram nokkra tölvupósta sem gengið hafa á milli aðila. Í þeim kemur fram að í septemberlok beindi kærandi fyrst fyrirspurnum til kærða I vegna uppgjörsmála. Tölvupóstarnir bera með sér að kærandi hefur þá skömmu áður orðið þess áskynja að tryggingafélag hans hafi greitt út lögmannskostnað og að áhöld séu um hvort dæmdur málskostnaður vegna meiðyrðamálsins hafi verið innheimtur og hvort það hafi þá staðið upp á lögmannsstofu kærða I eða eða þá stofu sem flutti málið fyrir Hæstarétti.  Hefur kærði I í þessum samskiptum m.a. boðist til að ræða við þá lögmannsstofu um málið og gæta þess að allt verði gert upp við kæranda. Það athugast að þessi samskipti hafa ekki verið lögð fram í heild sinni og vantar upp á að svör kæranda sjálfs hafi verið lögð fram. Svör kærða I bera þó með sér að þessi samskipti hafi gengið illa og að borið hafi á djúpstæðri tortryggni af hálfu kæranda.  Þá kemur fram að ítrekuðum fyrirspurnum kærða I um reikningsnúmer kæranda hefur ekki verið svarað.

 

II.

Í erindi kæranda koma ekki fram ákveðnar kröfur, en sá skilningur verður lagður í erindið að þess sé krafist að kærðu verði beittir viðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og að áskilin þóknun kærðu sæti lækkun.

 

Kærandi rekur í erindi sínu til nefndarinnar að tæplega 190.000 krónur hafi verið teknar af fjárgreiðslu hans úr bótasjóði upp í eldri reikning vegna annars og eldra en alls óskylds máls. Má ráða af erindinu að kærandi telur að það hafi staðið upp á kærðu að sækja greiðslu þessa reiknings úr réttaraðstoðartryggingu sinni og að kærðu verði að bera ábyrgð á því, hafi þeir ekki hirt um það.

 

Kærandi fullyrðir að upplýsingar um reikningsnúmer sitt hafi alltaf legið fyrir hjá lögmannsstofu kærðu. Verða orð hans  um þetta skilin svo að hann telji það hreinan fyrirslátt af hálfu kærðu að bera þetta fyrir sig sem afsökun fyrir því að hafa ekki greitt sér út móttekið vörslufé.

 

Kærandi kveðst í framhaldi af þessu hafa farið að athuga með uppgjör vegna eldra máls þar sem sér hafi verið dæmdar 800.000 í málskostnað og 200.000 í bætur. Hafi gagnaðili þá upplýst sig um að hann hafi greitt þetta árið 2013. Fullyrðir kærandi að kærðu hafi í viðbót við þetta móttekið 4 milljónir frá tryggingafélagi sínu. Telur kærandi að allir þrír kærðu hafi haft um það samantekin ráð að standa sér ekki skil á þessum bótum.

 

Kærandi vísar til þess að fjárhagsstaða sín sé þröng og að þessir fjármunir hafi skipt sig miklu máli. Telur hann að um þjófnað eða skilasvik sé að ræða af hálfu kærðu.

 

III.

Kærðu krefjast þess að málinu verði vísað frá, en ella að öllum kröfum kærenda verði hafnað.

Kærði I telur kvörtun kæranda svo óskýra að ekki sé unnt að ráða af henni hvaða háttsemi sé kvartað yfir. Varðandi málskostnað vegna meiðyrðamálsins bendir hann á að það falli utan valdsviðs úrskurðarnefndar að endurskoða málskostnaðarákvarðanir Hæstaréttar eða ákvarðanir tryggingafélagsins um uppgjör kostnaðar.

 

Hann greinir frá því í greinargerð sinni að það hafi verið í samræmi við samkomulag aðila að beðið var með innheimtu reiknings nr. 6660 þar til kæranda barst greiðsla frá bótasjóði. Greiðslan frá bótasjóði hafi numið 345.491 en ekki 400.000 eins og kærandi haldi fram.

 

Það sé grundvallarmisskilningur hjá kæranda að telja að unnt sé að sækja kostnað vegna sakamála í málskostnaðartryggingu. Þá sé það úr lausu lofti gripið að lögmenn hafi sótt 4 milljónir til Sjóvár í viðbót við dæmdan málskostnað og bætur.

 

Kærði I telur að það hafi verið vegna misskilnings á milli S lögmanna og T lögmanna að dæmdar bætur skiluðu sér ekki til kæranda. Hann hafi a.m.k. þrisvar sinnum óskað eftir upplýsingum um bankareikning kæranda til að greiða fjárhæðina inn á með vöxtum. Kærandi hafi ekki orðið við þeirri beiðni.

 

Kærðu J og K skiluðu nefndinni sameiginlegri greinargerð. Í henni kemur fram að þeir telji ársfrest kæranda til að leggja fram kvörtun liðinn og að kvörtunin sé alveg óskiljanleg að því er varði aðild þeirra. Kærði K hafi komið að meiðyrðamáli kæranda á upphafsstigum þess sem starfsmaður S lögmanna.  Eins hafi kærði J komið að málinu á upphafsstigum þess eftir að T lögmenn tóku að sér flutning þess í Hæstarétti. Það hafi á hinn bóginn verið allt annar lögmaður sem flutti málið fyrir Hæstarétti og sá um það. Þá kveðast kærðu illa átta sig á því í hverju kvörtunin felst og hvaða kröfur hann gerir á hendur þeim.

 

Varðandi flutning meiðyrðamálsins fyrir Hæstarétti liggi bæði fyrir dómur Hæstaréttar og uppgjör við tryggingafélag kæranda, en hann hafi sjálfur ekkert greitt vegna þessa. Benda kærðu á að kærði I hafi á hinn bóginn margboðist til að greiða til kæranda það sem hann eigi inni hjá S lögmönnum, en aldrei fengið svar við því hvar ætti að leggja féð inn.

 

Niðurstaða.

Í máli þessu háttar svo til að erindi kæranda er um margt nokkuð óljóst. Í greinargerðum kærðu, sem ekki hafa sætt andmælum kæranda, er gerð grein fyrir störfum kærðu í þágu kæranda, reikningagerð vegna þeirra o.fl. Verður lagt til grundvallar að það sé ágreiningslaust sem fram kemur í þessum greinargerðum að því marki sem þær eru ekki í ósamræmi við upphaflegt erindi kæranda.

 

Í erindi kæranda kemur fram að það hafi orðið honum tilefni til að fara yfir gjaldtöku kærðu þegar hann móttók greiðslu úr bótasjóði en eldri reikningur hafi verið dregin frá bótunum. Fyrst þá hafi honum orðið ljóst að gagnaðili og tryggingafélag hans hefðu greitt bætur og kostnað vegna meiðyrðamálsins án þess að honum hefði borist greiðsla. Í þessu ljósi verður fallist á að fjalla megi um erindi kærða þótt meira en ár sé liðið frá því unnið var að einstökum málum.

 

Rétt þykir að fjalla fyrst um þær kvartanir sem kærandi hefur fært fram vegna starfa kærðu, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald. Áréttað skal að sönnunarbyrði vegna þess sem óljóst þykir verður ekki lögð með sama hætti á aðila í þessum tveimur þáttum málsins.

 

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Samkvæmt 13. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður halda fjármunum skjólstæðings aðgreindum frá eigin fé í samræmi við ákvæði reglna um fjárvörslureikninga lögmanna. Skal lögmaður ávallt vera fær um að standa skil á þeim fjármunum, er hann varðveitir fyrir skjólstæðing sinn.

 

Samkvæmt 14. gr. ber lögmanni að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, er lögmaður hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns án ástæðulauss dráttar. Ávallt er þó lögmanni rétt að halda eftir nægu fé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar þeirra mála, sem lögmaður hefur til meðferðar fyrir skjólstæðing sinn á hverjum tíma, enda geri lögmaður skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði.

 

Enginn ágreiningur virðist vera um tímafjölda, tímagjald eða fjárhæð reiknings S lögmanna nr. 6660, en kærandi telur að óheimilt hafi verið að greiða reikninginn af innheimtum bótum, enda hafi það verið á ábyrgð lögmanna að innheimta reikninginn úr málskostnaðartryggingu sinni. Því er á hinn bóginn ómótmælt að sú trygging hafi ekki náð til starfa að bótakröfum í sakamálum. Enda þótt ekkert liggi fyrir um að sérstakt samkomulag hafi verið gert um að reikningurinn skyldi greiðast af mótteknu bótafé, telur nefndin að stofunni hafi ekki verið skylt að horfa fram hjá þessari viðskiptaskuld kæranda við uppgjör til hans, sbr. ofangreint ákvæði 14. gr. siðareglna lögmanna.

 

Enginn málsaðila hefur gert heildstæða tölulega grein fyrir uppgjöri bóta og málskostnaðar vegna þess meiðyrðamáls sem fyrr er getið. Lesa má út úr málatilbúnaði aðila að vanhöld hafi orðið á því að kæranda væri gerð skil á einhverri ótilgreindri upphæð. Kærði I hefur teflt fram þeirri skýringu að þessu hafi valdið misskilningur á milli lögmannstofanna S og T.  Fram lögð gögn um samskipti hans við kæranda sýna að um leið og honum barst erindi frá kærða hafi hann gengið í að athuga málið og boðið kæranda að leggja inn á hann það sem óuppgert væri. Kærandi hefur fyrir sitt leyti ekki gert reka að því að upplýsa málið að undanskildum fullyrðingum um að kærðu hafi tekið til sín 4 milljónir úr tryggingafé í viðbót við bætur hans, en þær fullyrðingar fá ekki stoð í gögnum málsins. Ekki fæst séð að kærðu K og J hafi átt nokkurn þátt í uppgjöri við kæranda að þessu leyti.

 

Að öllu þessu athuguðu telur úrskurðarnefndin að ekki sé sýnt að kærðu hafi brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Verða ekki gerðar aðfinnslur við störf kærðu eða beitt viðurlögum á grundvelli 27. gr. lögmannalaga vegna máls þessa.

 

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Í málinu hafa ekki verið gerðar  rökstuddar athugasemdir við grundvöll gjaldtöku vegna starfa kærðu í þágu kæranda hvorki varðandi tímafjölda né tímagjald. Úrskurðarnefndin telur að engin efni séu til að kveða á um lækkun áskilinnar þóknunar vegna annarra mála en umrædds meiðyrðamáls.

 

Þegar kemur að uppgjöri vegna starfa að meiðyrðamáli kæranda er ágreiningslaust að S lögmannsstofa hefur á vörslureikningi ótilgreinda fjárhæð í eigu kærða og að stofan hefur fengið greidd 80% af reikningi að fjárhæð kr. 1.490.000 hjá tryggingafélagi kæranda. Ekkert liggur fyrir um gjaldtöku vegna flutnings málsins í Hæstarétti og engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings fullyrðingum um að kærðu hafi móttekið 4 milljónir króna í viðbót við dæmdan málskostnað úr hendi gagnaðila eða hvernig fjármunir úr hendi gagnaðila hafa skipst á milli lögmannsstofanna S og T. Telur nefndin að þessi þáttur málsins sé svo illa upplýstur að óhjákvæmilegt sé að vísa honum frá nefndinni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærðu, I hrl, J hrl. og K hdl. hafa í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, H, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ágreiningi um uppgjör vegna flutnings meiðyrðamáls kærða á tveimur dómstigum er vísað frá nefndinni.

Áskilið endurgjald vegna annarra starfa kærðu í þágu kæranda, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.