Mál 7 2016

Ár 2016, föstudaginn 23. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 7/2016:

X

gegn

Y hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 29. mars 2015 erindi X þar kvartað er yfir því sem kallað er „meint lögmannsstörf og lögmannsþóknun kærða" auk háttsemi hans í tengslum við vinnu í þágu kæranda.

 

Með bréfi, dags. 13. apríl 2016, var óskað eftir greinargerð kærða um málið og barst hún þann 24. maí s.á. Þann 27. maí barst nefndinni auk þessi bréf kærða þar sem hann gerir athugasemdir við undirbúning málsins af hálfu lögmanns kæranda. Greinargerðin og bréfið voru kynnt kæranda með bréfi nefndarinnar, dags. 3. júní 2016 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum við greinargerðina. Athugasemdir kæranda bárust 18. júlí 2016 og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. 22. júlí s.á.  Lokaathugasemdir kærða bárust svo nefndinni þann 8. ágúst og voru þær einnig kynntar málshefjanda. Rétt er að taka fram að aðilar máls þessa fengu eftir atvikum fresti til að skila gögnum til nefndarinnar.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Í upphafi skal tekið fram að fjölmargt er umdeilt um atvik máls þessa, jafnvel um grundvallaratriði þess. Eftir því sem næst verður komist af fram lögðum gögnum og lýsingum aðila snerist vinna kærða í þágu kæranda um tvö mál og hófust störf kærða fyrir kæranda á árinu 2014.  Á því tímamarki virðist skilnaðarmáli og opinberum skiptum á búi kæranda og fyrrum eiginmanns hennar hafa verið lokið. Allt að einu voru þó óuppgerðar ýmsar kröfur sem þau töldu sig eiga, bæði hvort á hendur öðru og þó einkum fyrir hönd félags sem þau áttu og virðast hafa rekið sameiginlega fyrir skilnaðinn. Eftir því sem fram kemur í frásögn kærða var fyrrum eiginmaður kæranda skráður framkvæmdastjóri félagsins en hún sjálf stjórnarformaður. Félagið var í vanskilum og vildi eiginmaðurinn fyrrverandi ekki ganga til samninga við viðkomandi banka nema kærandi gerði þá jafnframt upp tilteknar kröfur sem hann taldi félög í sinni eigu eiga á  hendur félögum í eigu kæranda. Er því út af fyrir sig ómótmælt að þessi samskipti hafi verið í flóknum og erfiðum hnút þegar kærandi kom að málinu.

 

Meginatriði í þessum störfum kærða laut samkvæmt frásögn hans að því að freista þess að ná ásættanlegum samningum við lögmann gagnaðila (eiginmannsins), en í þeim samningum var staða kæranda m.a. undirbyggð með því að ná bókhaldi úr höndum endurskoðenda félagsins í krafti stöðu kæranda sem stjórnarformanns og fela endurskoðendum að fara m.a. yfir lánveitingar félagsins til gagnaðila. Þá var teflt fram kröfu vegna líkamstjóns sem kærandi taldi sig hafa orðið fyrir í húsnæði félagsins vegna óforsvaranlegs frágangs á ábyrgð gagnaðila.

 

Svo fór að umræddur viðskiptabanki féllst á að endursemja við kæranda fyrir hönd félagsins. Var gagnaðila, eiginmanninum fyrrverandi, þá sagt upp sem framkvæmdastjóra og annar maður fenginn í hans stað. Kærði vann að þessari uppsögn og sendi fyrirtækjaskrá tilkynningu um hana.

 

Kærði fór erlendis, að því er virðist í nóvember 2015, og dvaldist ytra í nokkrar vikur. Kveður kærandi að á þeim tíma hafi komið í ljós að kærða hafi láðst að láta aðalfundargerð fylgja tilkynningu um framkvæmdastjóraskiptin og hafi hún sjálf þurft að skila nauðsynlegum gögnum.

 

Hitt málið sem kærði kom að fyrir hönd kæranda snerist um viðskipti með hluti í hesthúsi að Z við Þ-veg í Reykjavík. Kærandi mun hafa átt 23,53% eignarhlut í fasteigninni þegar annar 29,41% eignarhlutur í fasteigninni var seldur nauðungarsölu x. desember 201x. Fól hún kærða að bjóða í hlutinn á nauðungarsölu. Við söluna varð P banki hins vegar hæstbjóðandi, en bankinn framseldi svo boð sitt til félagsins Æ fasteigna ehf. þann 8. desember 2014. Kærandi keypti svo þennan hlut af félaginu Æ fasteignum án atbeina kærða. Kærandi heldur því fram að kærði hafi boðið í þennan selda eignarhlut þrátt fyrir að hann hafi vitað að hún hefði gert kauptilboð í hann. Fyrir liggur að kærði keypti síðar (í september 2015) annan 31,372% eignarhlut í þessu sama hesthúsi.

 

Eftir að kærði kom aftur til landsins nálægt áramótum 201x kastaðist í kekki á milli aðila. Virðist það upphaflega hafa verið vegna samstarfsörðugleika í umræddu hesthúsi.

 

Óumdeilt virðist að kærði fól samstarfsmanni sínum á lögmannsstofu sinni að ræða við kæranda um uppgjör vegna vinnunnar, en ekki er hins vegar sammæli um hvað var rætt í því símtali.

 

Þann 25. janúar 2016 sendi kærði bréf til kæranda í þremur tölusettum meginliðum. Síðasti hluti bréfsins snýr að uppgjöri vegna lögmannsþjónustu kærða í þágu kæranda. Vísar fyrirsögnin til þess að um sé að ræða öll lögmannsstörf frá uppboðinu í desember 2014. Segir svo í bréfi þessu. „Undirritaður hefur aðeins látið senda þér yfirlit yfir tölvupóstvinnu og símsamtöl vegna þín. Ekki enn sent skráningu yfir allan þann tíma sem þú hefur komið vegna málsins þíns á skrifstofu undirritaðs. Vil núna fá svör við því hversu mikinn tíma þú segir undirritaðan hafa unnið fyrir þig og met framhald samskipta við þig á grundvelli þessara svara."

 

Ekki er að sjá af gögnum málsins að þessu hafi verið svarað efnislega, en í áframhaldandi tölvupóstsamskiptum aðila er einkum fjallað um ágreining þeirra um notkun á hesthúsinu. Svo fór að kærða leitaði sér lögmannsaðstoðar og stofnaði nýr lögmaður hennar, Q hdl. til máls þessa fyrir hennar hönd. Mótmælti hann fjárkröfum kæranda, m.a. um lögmannsþóknun með bréfi 16. mars 2016.

 

II.

Kærandi krefst þess að lögmannsþóknun kærða verði felld niður en til vara að hún verði lækkuð verulega og metin að álitum nefndarinnar.

Þá krefst kærandi þess að kærði verði áminntur og beittur viðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. lag nr. 77/1998 um lögmenn.

Loks krefst kærandi þess að kærða verði gert að greiða henni málskostnað fyrir nefndinni.

 

Kærandi bendir á að kærði hafi hvorki aflað sér umboðs né verksamnings um umrædd störf. Í ljósi þeirra krafna sem eðlilegt sé að gera til vandaðra vinnubragða lögmanna, virðist eðlilegast að kærði beri hallann af öllum sönnunarskorti um umboð sitt til umræddra starfa. Þar sem kærði geti ekki sýnt fram á neitt umboð til starfa fyrir kæranda sé nærtækast að líta svo á að ekki sé til að dreifa neinu því sem skuldbundið hafi kæranda til að greiða fyrir störf kærða. Enn fráleitara sé þó að kærandi hafi nokkurn tíma óskað eftir starfskröftum aðstoðarmanns kærða, D. Þá vísar kærandi á bug fullyrðingum kærða um að hún hafi lofað verk hans og komið á skrifstofu hans og hringt oft á dag sem haldlausum og ósönnuðum.

 

Kærandi gerir athugasemd við að kærði hafi farið á svig við helstu reglur sem gildi um gjaldtöku lögmanna. Hann hafi ekki kynnt kærðu væntanlega gjaldtöku, tímagjald, áætlaðan verkkostnað eða annan málskostnað eftir föngum. hann hafi ekki látið henni í té greinargott uppgjör. Eftir að kærandi óskaði eftir uppgjöri hafi hún einungis fengið í hendur yfirlit yfir tölvuskeyti og útreikninga kærða út frá þeim.

 

Kærandi kveðst hafa fengið símtal frá lögmannsstofu kæranda þar sem hún hafi verið krafin um kr. 1.775.000 krónur vegna starfa hans. Hafi þetta komið sér mjög á óvart, enda sé þessi gjaldtaka mjög úr hófi og engan veginn í samræmi við störf kærða eða umfang þeirra. Þessi fjárhæð hafi byggst á skjali sem lagt hefur verið fram og hefur að geyma yfirlit kærða yfir tölvupóstsamskipti vegna mála kæranda í september, október og nóvember 2015. Á yfirlitinu er miðað við að hver tölvupóstsending taki 0,25 stundir. Þá er sérstaklega færð á yfirlitið vinna vegna bréfaskipta, fundahalda og vinnu við að sækja bókhaldsgögn, alls 10 tímar. Á yfirlitinu kemur einnig fram að gjaldfært sé fyrir 91 símtal í september, 30 í október og 30 í nóvember, alls 37,75 stundir. Á yfirlitið er ritaður textinn „Auk þess eru ótaldir fundir sem þú hefur komið á lögmannsstofuna til skrafs og ráðagerðar." Í þessu ljósi hafnar kærandi alfarið þeim málatilbúnaði kærða að ekki hafi verið tímabært að afla úrskurðar kærunefndarinnar um áskilda þóknun kærða.

 

Kærandi telur gjaldtökuna miklu meiri en hæfilegt geti talist miðað við umfang verksins. Þá telur hún fráleitt að kærði áskilji sér t.d. 568.750 krónur vegna símtala í septembermánuði 2015 án þess að gera nokkra grein fyrir því um hvað sé að ræða. Kærandi gerir sömuleiðis athugasemdir við skráningu þriggja tíma vinnu vegna aðstoðar við að sækja bókhaldsgögn. Samantekið telur kærandi að umrætt yfirlit sé ófullnægjandi sem grundvöllur undir áskilda þóknun kærða og ekki nægjanlega sundurliðað. Um sé að ræða óeðlilegan og ósanngjarnan vinnustundafjölda sem engra haldbærra skýringa njóti við um.

 

Að því er varðar þá samantekt á vinnu sem sé að finna í greinargerð kærða til úrskurðarnefndarinnar telur kærandi að verulegs ósamræmis gæti í framlögðum skjölum málsins og þá tímaskráningu sem þar sé að finna. Rekur kæri dæmi um 15 færslur eða dagsetningar þar sem hann telur að kærði hafi farið offari í tímaskráningu miðað við fram lögð gögn um það sem unnið var. Telur kærandi að í öllum þessum tilvikum sé um að ræða tímaskráningar langt umfram það sem tilefni er til, oft með hliðsjón af því að aðeins sé um að ræða örstutt samskipti í bréfum eða tölvupóstum. Þá gerir kærandi athugasemdir við að í einstökum tilvikum hafi kærði bætt við tímaskráningu í greinargerð sinni miðað við það yfirlit sem hann hafði áður sent kæranda.

 

Að því marki sem það liggi fyrir að kærandi hafi yfir höfuð falið kærða einstök verkefni verði að líta til þess að þau hafi úrvinnsla þeirra engan veginn staðist þær kröfur sem gera megi til sérfræðivinnu á borð við lögmannsstörf. Bendir kærandi sérstaklega á brotthvarf kærða af landi um tveggja mánaða skeið án þess að gæta að því að hagsmunir kæranda væru þá tryggir. Sé þetta á skjön við þá skyldu lögmanna að sinna verkefnum sínum af alúð og með hagsmuni umbjóðenda að leiðarljósi. Synjun Fyrirtækjaskrár á að skrá framkvæmdastjóraskipti hafi beinlínis stafað af vanrækslu kærða.

 

Kærandi styður varakröfu sína um lækkun á áskilinni þóknun meðal annars við lög um þjónustukaup og telur að miða verði gjaldtökuna við það sem sanngjarnt megi teljast með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, sbr. 28. gr. laganna. Telur kærandi að í þessu ljósi mætti miða þóknun kærða við 2,5 tíma vinnu.

Vegna þeirrar kröfu sinnar að kærði sæti viðurlögum á grundvelli 27. gr. lögmannalaga gerir kærandi í fyrsta lagi athugasemdir við að kærði hafi í bréfi til kæranda 25. janúar 2016 reifað ítarlega margt úr trúnaðarsamtölum aðila, sem sumt sé viðkvæmt. Þá hafi hann rætt efni þess opinskátt við ýmsa þá sem þar séu tilgreindir.

Í öðru lagi telur kærandi að kærði hafi brotið gegn 3. gr. siðareglna lögmanna þegar hann bauð sjálfur í fasteignarhlutann sem seldur hafði verið á uppboði, jafnvel þótt honum væri þá ljóst að kærandi hefði einnig boðið í hann. Hafi kærði þannig sjálfur freistað þess að ganga inn í þau kaup sem kærandi hafði trúað honum fyrir að annast fyrir sína hönd. Þegar kæranda tókst ekki að ganga inn í þessi kaup hafi hann keypt annan eignarhluta í húsinu.

 

Í þriðja lagi telur kærandi að kærði hafi falið ólöglærðum manni, sem nefndur er D í gögnum málsins, að innheimta kröfur á hendur henni. Telur kærandi að kærði hafi falið þessum manni að vinna ýmis störf í þágu kæranda og auk þess falið honum að innheimta kröfur á hendur sér. Til stuðnings þessari ásökun leggur kærandi fram afrit af sms samskiptum á milli kæranda og viðkomandi einstaklings. Í umræddum samskiptum sendir kærandi skilaboð þann 20. janúar 2016 í þá veru að henni þyki miður að umræddur maður, D, skuli hafa tekið undir það að kærði væri búinn að vinna fyrir kæranda fyrir fjárhæðinni 1.780.000 kr. Óskar kærandi eftir því að þessi maður verði ekki í samskiptum við sig eða sína fjölskyldu. Þessi maður svarar samdægurs með svofelldum texta: „Vid je höfum unnið mikið fyrir þig og þú ekki greitt neitt. Þú ert ókurteis og ég er mjög sáttur við að þú látir mig í friði. Vona að þú skammist þín".  Þegar kærandi heldur svo sms sendingum áfram daginn eftir, svarar hann á ný „Vertu nú ekki að blanda mér í þetta"

 

III.

Kærði bendir á í greinargerð sinni að aðilar máls þessa deili annars vegar um ýmis atriði sem varði hesthús í þeirra eigu, en hins vegar um lögmannsstörf sem hann vann í þágu kæranda. Mikilvægt sé að halda þessu tvennu aðgreindu.

Kærði leggur áherslu á að til máls þessa sé stofnað að ófyrirsynju, enda hafi hann ekki verið búinn að skrifa neinn reikning vegna starfa sinna í þágu kæranda, né beina að henni neinni kröfu. Hann hafi aðeins verið búinn að senda henni yfirlit yfir hluta vinnunnar. Hafi lögmenn kæranda engan reka gert að því að kynna sér vinnu kærða í þágu kæranda og ekkert samband haft við hann til að kynna sér málið. Fyrir nefndinni gerir kærði þá kröfu að hún úrskurði að hæfileg þóknun vegna starfa hans í þágu kæranda nemi kr. 1.687.500 auk vsk. Sú krafa styðst við tímafjöldann 67,5 og tímagjaldið 25.000, sem kærði telur hæfilegt og að kæranda hafi verið kunnug því gjaldi. Þá krefst kærði kr. 7.500 í bifreiðakostnað. Til vara krefst kærði lægri þóknunar að mati nefndarinnar.

 

Kærði krefst þess jafnframt að öllum kröfum um að hann verði beittur viðurlögum verði hafnað. Í greinargerð sinni gerði hann jafnframt kröfu um að lögmenn kæranda yrðu áminntir og beittir viðurlögum á grundvelli 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Þessi síðasttalda krafa telst ekki hluti af máli þessu.

Loks krefst kærði málskostnaðar fyrir nefndinni óskipt úr hendi kæranda og lögmanna hennar.

 

Varðandi málsatvik byggir kærði á því að samist hafi um 25.000 króna tímagjald í upphafi starfa hans fyrir kæranda. Kærði kveður D þann sem áður er nefndur vera leigutaka í húsnæði þar sem hann rekur lögmannsstofu sína. Þá sé hann gamall kunningi kæranda og henni hafi fundist stuðningur að því að hann væri til aðstoðar í málum hennar. Hafi hann aðstoðað, m.a. við að sækja bókhald til endurskoðenda. Tekur kærði fram að þessi aðstoð D hafi verið án nokkurs kostnaðar fyrir kæranda, en stuðningur þessi hafi verið innifalinn í tímagjaldi.

 

Kærði kveður umrædd störf hafa verið umfangsmikil og hafi hann hlotið lof kæranda fyrir, allt þar til hann sleit samstarfi við hana vegna deilna um óskyld atriði. Kærði kveður kæranda hafa leitað mikið til sín og leitað ráða vegna skilnaðar síns, fjárhagsörðugleika, hvernig hún gæti brugðist við kröfum fyrrum eiginmanns síns og hvernig hún gæti samið við viðskiptabanka félagsins sem þau áttu saman. Tekur kærði fram að sér  hafi tekist að stöðva innheimtutilraunir eiginmannsins fyrrverandi, m.a. með gagnkröfum og athugasemdum um hvernig hefði verið staðið að lánum hans til fasteignafélagsins og til heildsölu kæranda.

 

Kveður kærði að það hafi verið gagnstætt sínum ráðum, að gagnaðila hafi verið sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra fasteignafélagsins enda hafi gagnaðili enn átt stóran hlut í félaginu. Þá hafi gagnaðila verið illa við þann mann sem kærandi fékk til að taka starfann að sér og þessi aðferð líkleg til að spilla möguleikum á samningum. Hafi deilan harðnað mjög við þetta og lögmaður gagnaðila m.a. freistað þess að koma í veg fyrir að þessi nýi framkvæmdastjóri sæti fundi. Þá hafi gagnaðili mótmælt skráningu framkvæmdastjórans hjá fyrirtækjaskrá og eitt síðasta verk kærða áður en hann hélt utan í nóvember 2015 hafi verið að aðstoða kæranda við að rita bréf vegna þessa. Hafnar kærði því eindregið að það sé á sína ábyrgð þótt gagnaðili hafi brugðist við þessari brottvikningu og þannig hafi reynt á gildi hennar.

 

Kærði kveðst hafa rekið kæranda  úr viðskiptum við sig eftir að hafa gefið henni frest til að finna sér nýjan lögmann. Hafi þetta verið vegna framkomu kæranda í sinn garð vegna annarra mála. Hafi starfsmaður á lögmannsstofu hans haft samband við kæranda, sent henni það yfirlit sem að ofan er lýst og freistað þess að ná við hana samkomulagi um uppgjör. Hafi kærandi engar athugasemdir gert, sagst ætla að greiða fyrir vinnuna og ekki kæra sig um neinn afslátt. Hafi kærði engar athugasemdir fengið, hvorki við vinnu sína né samantekt fyrr en núverandi lögmenn kæranda komu að málum hennar. Þá tekur kærandi fram að hann hafi ekki skrifað neina tíma vegna vinnu í þágu kæranda eftir að hann kom aftur til landsins, enda hafi viðhorf hans til hennar hugsanlega komið niður á þeim störfum og rétt að hún njóti vafans.

 

Í greinargerð sinni tekur kærði saman yfirlit yfir vinnu sína í þágu kæranda í 8 tölusettum liðum og gerir stuttlega grein fyrir hverjum þeirra og leggur fram nokkur gögn um hvern lið. Þá kveðst kærði takmarka gjaldtöku vegna hvers liðar til samræmis við það yfirlit sem hann hafði áður sent og fyrr er getið, þótt vinna í einstökum liðum sé nokkuð hærri. Samantekið byggir krafa hans á svofelldri sundurliðun:

 

  • 1. Störf vegna framhaldssölu á fasteignauppboði 3,5 klst
  • 2. Tölvupóstsamskipti 14 klst.
  • 3. Bréfaskriftir 11 klst.
  • 4. Bókhaldsgögn félagsins sótt til endurskoðenda 5 klst.
  • 5. Samskipti við lögmann vegna líkamstjónsmáls 1 klst.
  • 6. Milliganga við endurskoðanda v skoðunar á bókhaldi 1 klst.
  • 7. 121 símtal * 15 mínútur 30 klst.
  • 8. Fundir á skrifstofu kærða 2 klst.

 

Alls                                                                                                   67,5 klst.

Kærði hafnar röksemdum kæranda sem lúta að skorti á skriflegu umboði. Skýrlega komi fram í gögnum málsins að kærandi bað kærða um að vinna í sína þágu.

 

Kærði hafnar því að hann hafi brotið trúnað gagnvart kæranda. Hann hafi rifjað upp ýmis gífuryrði hennar í bréfi sem hann sendi henni sjálfri, en í því hafi ekki falist neitt trúnaðarbrot. Að þetta bréf sé nú lagt fram í málinu af nýjum lögmanni kæranda og þannig borið á torg kunni hins vegar að fela í sér trúnaðarbrot.

 

Kærði telur að ásakanir vegna kaupa sinna á hlut í umræddri fasteign byggi á fáfræði lögmanna kæranda um málið. Hið rétta sé að kærandi eigi forkaupsrétt að öllum eignarhlutum sem boðnir eru til sölu í fasteigninni og ekki sé unnt að kaupa eða selja neinn hlut án hennar samþykkis. Þegar kærandi hafi keypt einn hlut í húsinu hafi annar eigandi viljað selja því hann vildi ekki verða sameigandi hennar. Kaupsamningurinn hafi verið boðinn kæranda, sem hafi afþakkað.

Kærði telur kæranda hafa sýnt þeim manni sem aðstoðaði hann oft við vinnu í hennar þágu dónaskap í þeim sms skeytum sem kærandi hafi sjálf lagt fram. D þessi hafi aldrei reynt að innheimta kröfur hjá kæranda og aldrei staðið að neinum innheimtutilraunum fyrir kærða.

 

Niðurstaða.

Í máli þessu hafa báðir aðilar lagt fram gögn og reifað málsatvik sem varða aðrar deilur aðila en þær sem varða lögmannsstörf kærða. Þá hefur kærði í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni gert alvarlegar og ítarlegar aðfinnslur við störf þeirra lögmanna sem hafa tekið að sér málareksturinn f.h. kæranda. Þegar mál þetta er tekið til úrskurðar hafa bæði kærði og lögmenn kæranda skilað sérstökum kvörtunum til úrskurðarnefndarinnar vegna framgöngu hvors annars við rekstur málsins og verður fjallað um þær í sérstökum úrskurðum. Þessar aðfinnslur falla hins vegar með öllu utan við sakarefni þessa máls.

 

Rétt þykir að fjalla fyrst um þær kvartanir sem kærandi hefur fært fram vegna starfa kærða, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald kærða. Áréttað skal að sönnunarbyrði vegna þess sem óljóst þykir verður ekki lögð með sama hætti á aðila í þessum tveimur þáttum málsins.

 

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 4. gr.siðareglna lögmanna kemur fram að lögmaður má ekki ljá þeim nafn sitt eða lögmannsaðstoð, er stunda vilja lögmannsstörf, en hafa ekki til þess rétt að lögum. Má lögmaður á engan hátt stuðla að því, að þeir er ekki hafa lögmannsréttindi, fái unnið verk, sem skulu lögum eða venju samkvæmt aðeins unnin af lögmanni.

 

Að því er varðar meint brot kærða á trúnaðarskyldum, telur nefndin að þær ásakanir fái ekki stoð af bréfi kærða til kæranda frá 25. janúar 2016. Kærandi getur ekki brotið gegn trúnaðarskyldu sinni við kæranda með því að færa í letur það sem þeim hefur munnlega farið á milli í trúnaði og senda henni. Kæranda hefur ekki tekist að tefla fram öðrum dæmum um brot á trúnaðarskyldu.

Varðandi þá ásökun kæranda að kærði hafi falið ólöglærðum manni sem nefndur er D í fram lögðum samskiptum hans við kæranda lögmannsstörf, þá áréttar nefndin að ekkert í þessum samskiptum veitir neina vísbendingu um að umræddur maður hafi freistað þess að innheimta nokkuð hjá kæranda eða öðrum. Efni samskiptanna eru rakin að ofan. Er sú ásökun að kærandi hafi falið umræddum manni innheimtur eða lögmannsstörf ekki studd neinum öðrum gögnum.

 

Frásagnir aðila af atvikum þegar kærandi bauð sjálfur í fasteignarhluta sem áður hafði verið seldur á uppboði og hann þá boðið í fyrir hönd kæranda eru ekki fyllilega ljósar. Líta verður svo á að kærði hafni því að hafa gert tilboð í sama eignarhlut og honum hafði verið falið að kaupa og ekkert hefur verið lagt fram um slík tilboð. Gegn andmælum kærða telur nefndin sig ekki geta byggt á einhliða frásögnum kæranda um framgöngu kærða, en ásakanir kæranda að þessu leyti eru ekki studdar öðrum gögnum en þeim sem varða síðari kaup hans á öðrum eignarhluta í húsinu.

 

Að öllu ofangreindu athuguðu er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu nein efni til að líta svo á að kærði hafi brotið gegn lögum eða siðareglum í störfum sínum f.h. kæranda.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

 

Nefndin telur að kæranda hafi verið rétt að skjóta ágreiningi um endurgjald til nefndarinnar á grundvelli þessa síðasttalda ákvæðis þótt fyrir hafi legið að kærði væri tilbúinn til samninga um hana og að kröfur hans hafi ekki legið endanlega fyrir og reikningur væri ekki út gefinn.

 

Í erindi kæranda til nefndarinnar kemur skýrlega fram að kærandi hafi leitað til kærða og óskað eftir lögmannsaðstoð. Þá kemur einnig fram í erindinu að kærði hafi unnið nánar tiltekin störf og er það í samræmi við fram lögð gögn málsins. Í þessu ljósi er haldlaus sú viðbára kæranda að kærða beri engin greiðsla fyrir störf sín þar sem hann geti hvorki lagt fram umboð né verksamning.

 

Það er á hinn bóginn ekki auðvelt að leggja mat á umfang starfa kærða í þágu kæranda. Þegar unnið er að samningum og kröfugerð fyrir einn umbjóðanda vegna margra skyldra mála, er alvanalegt að mestur tími fari í samskipti af ýmsu tagi, bæði við umbjóðanda og gagnaðila. Ef ekki er haldið vandlega utan um tímaskráningar og skráð niður hvað er gert hverju sinni er lögmaðurinn jafnan í mjög erfiðri stöðu til að innheimta að fullu fyrir slík störf gegn andmælum umbjóðandans. Þetta á alveg sérstaklega við þegar innheimt er eftir á fyrir langt tímabil og um er að ræða símtöl sem ekki er unnt að sýna fram á hvenær fóru fram eða um hvað snerust og fundi með umbjóðanda sem ekki eru til nein gögn um. Af hálfu kærða hefur ekki komið fram af hverju reikningar fyrir vinnuna voru ekki gefnir út reglulega, eða a.m.k. send regluleg yfirlit yfir umfang hennar. Hlýtur kærði að bera hallann af því sem óvíst er að öllu verulegu leyti, enda útilokað að úrskurða um skyldu kæranda til að greiða fyrir önnur störf en þau sem sýnt er fram á að hafi verið unnin.

 

Nefndinni þykir einsýnt að meta verði hæfilegt endurgjald kærða að álitum í þessu ljósi. Í því efni verði í grófum dráttum að byggja á frásögn kæranda af því, um hvað vinnan snerist og í hverju hún fólst, en sú frásögn fær í meginatriðum stoð af  fram lögðum gögnum. Skal áréttað að niðurstaðan verður þó fyrst og fremst reist á þessum fram lögðu gögnum um störfin. Nefndin telur hins vegar ófært að byggja niðurstöðu sína á útreikningum kærða um tímafjölda og tímagjald. Ekkert liggur fyrir um að kæranda hafi nokkru sinni verið kynnt áskilið tímagjald kærða og sá tímafjöldi sem hann teflir fram felur aðeins í sér ágiskanir út frá óstaðfestum fjölda símtala o.fl. Er því þarflaust að rekja þessar skráningar í einstökum liðum eða athugasemdir kæranda við þær, þótt nokkra hliðsjón megi hafa af hvoru tveggja, a.m.k. í einstökum atriðum. Telur nefndin að gögnin sýni fram á vinnu sem meta megi til a.m.k. 800.000  kr. miðað við það sem fyrir liggur um umfang þeirra og verður úrskurður á því reistur.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, Y hrl., hefur ekki gert á hlut kæranda, X, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Hæfilegt endurgjald kærða, vegna starfa hans að málum kæranda er kr. 800.000, auk virðisaukaskatts.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA