Mál 8 2016

Ár 2016, föstudaginn 23. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 8/2016:

R

gegn

S hdl. og T hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. apríl 2016 erindi kæranda, R, þar sem kvartað er yfir störfum kærðu, T hrl. og S hdl. og áskilinni þóknun þeirra.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 27. apríl 2016. Greinargerð kærðu barst, að fengnum fresti, þann 25. maí 2016. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu þann 3. júní 2016. Athugasemdir kæranda bárust þann 20. júní 2016 og var kærðu gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum með bréfi dags. þann sama dag. Lokaathugasemdir kærðu eru dagsettar 12. júlí 2016, en munu hafa mislagst hjá lögmanni þeirra og bárust nefndinni ekki fyrr en í ágústmánuði. Þær voru kynntar gagnaðila með bréfi, dags. 24. ágúst 2016.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að þann 15. mars 2015 var samþykkt kauptilboð þar sem kærandi og eiginkona hans skuldbundu sig til að selja fasteign við A-stræti í Reykjavík. Fasteignasalan B annaðist söluna.

 

Áður en kom að undirritun kaupsamnings leitaði kærandi til C lögmannsstofu. Óumdeilt er að kærðu komu fram f.h. lögmannsstofunnar í þessum viðskiptum við kærða. Kærða T er í hópi eigenda stofunnar en kærði S starfar þar. Mun kærandi m.a. hafa óskað eftir því að S útbyggi umboð fyrir eiginkonu sína til að undirrita kaupsamninginn. Þá liggur fyrir tölvupóstur frá kæranda til kærða S frá 2. júní 2015 þar sem segir „Sæll S. Við J hjá B ræddum saman áðan í síma og hefur hann fallist á kröfur okkar varðandi að þeir taki á sig kostnað sem við urðum fyrir vegna þess að við vorum ekki látin vita um frestun á kaupsamningi. Þá styður hann kröfu okkar um dráttarvexti af 9.3 milljónum frá 24. maí til greiðsludags. Hann sendir okkur og þér öll skjöl kaupsamningsins til yfirferðar og boðar til kaupsamnings á morgun. Mér þætt verulega vænt um ef þú gætir mætt þar með K henni til halds og trausts."

 

Að kvöldi þessa sama dags, kl. 23:40 sendi fasteignasalinn kaupsamning, veðleyfi og fleiri skjöl varðandi samninginn í tölvupósti á kæranda, kærða S o.fl. Á meðal skjalanna voru ný veðskuldabréf vegna kaupanna. Af hálfu kærðu er á því byggt að eingöngu forsíður þessara veðskuldabréfa hafi fylgt tölvupóstinum, en ekki undirskriftasíður, en fyrir liggur að það skorti á að kaupendur hefðu undirritað þau réttilega um veðheimild. Morguninn eftir framsendi kærandi þennan póst á kærða S og fleiri með athugasemdum sínum. Þar segir m.a.

 

„Mér sýnist þetta vera í lagi. Vantar að vísu útreikning á dráttarvöxtum á 9.3 mill frá 21. maí en J er búinn að kynna kaupanda þá kröfu okkar.

Bið ykkur að lesa þetta yfir og láta mig vita ef einhverra breytinga er þörf."

 

Þá velti kærandi því upp hvort þörf væri á að bæta athugasemd um viðhaldsþörf hússins inn í samninginn og bað hann kærða S sérstaklega að meta þörfina á því.

 

Fyrir liggur tölvupóstur frá kærða S til K og R, dags. 3. júní 2015 þar sem fram kemur að hann hafi „rennt yfir þessi skjöl og hef ekki neinar athugasemdir". Þá lætur hann uppi álit sitt á þörf fyrir tilgreiningu um aldur og viðhaldsþörf hússins og dráttarvaxtakröfu. Tölvupósti þessum lýkur með orðunum „Að öðru leyti sé ég ekkert því til fyrirstöðu að kaupsamningur verði kláraður. Mér skilst að fasteignasalinn myndi boða til slíks fundar með sólarhringsfyrirvara, þannig að þið látið mig bara vita ef þið viljið að ég mæti á slíkan fund."

 

Kaupsamningur um fasteignina var undirritaður 4. júní 2015 og var kaupverðið 81.000.000. Var kærði S viðstaddur undirritunina. Í kaupsamningnum er tekið fram að aðilum sé kunnugt um að lögfræðingar sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu séu í verkfalli og engum skjölum því þinglýst. Muni úrvinnsla greiðslna því tefjast. Samkvæmt kaupsamningnum skyldu 56.700.000 af kaupverðinu greiðast með tveimur nýjum veðskuldabréfum, en gert var ráð fyrir því við kaupin að þeim yrði varið til uppgreiðslu eldri veðlána. Vegna þessa voru útbúin og undirrituð við kaupsamningsgerðina skilyrt veðleyfi, þar sem kaupendum var heimilað að veðsetja hana með þessum nýju lánum. Í þessum veðleyfum var ekki gert ráð fyrir samþykki Z-banka, sem var einn eldri veðhafa. Fasteignasalan óskaði eftir því við bankann þann 5. júní að hann gæfi út skilyrta veðheimild. Fyrir liggur að Z-banki óskaði frekari upplýsinga vegna þessa en ekki liggur fyrir að fasteignasalan hafi svarað. Það er á hinn bóginn óumdeilt að þann 29. júní var skuldabréfum kaupenda vísað frá þinglýsingu með bréfi sýslumanns. Kom þar fram að ástæða frávísunarinnar væri sú að kaupendur hefðu ekki samþykkt veðsetningu eignarinnar sem þinglýstir eigendur og makar þinglýstra eigenda.

 

Kærandi kveðst hafa fengið þær upplýsingar á fasteignasölunni að þetta yrði lagfært og myndi ekki valda neinum teljandi töfum þar sem lagfærð skjölin yrðu tekin fram fyrir röðina hjá sýslumanni. Þann 20. júlí höfðu greiðslur hins vegar enn ekki borist vegna kaupanna. Þá fyrst hafi hann frétt af því að skilyrta veðleyfið væri ekki fullklárað. Hafi þetta komið honum í opna skjöldu, m.a. vegna þess að kærði Ingvi Snær hafði farið yfir öll skjöl við undirritun kaupsamningsins.

 

Þann 4. ágúst 2015 hafði veðleyfum og veðskuldabréfum verið þinglýst og greiðslur voru inntar af hendi á grundvelli nýju lánsskjalanna. Það virðist þó enn hafa dregist að eldri veðum væri aflýst. Þannig liggur fyrir í málinu tölvupóstur kæranda til kaupendanna frá 15. ágúst 2015 þar sem hann fer yfir að fasteignasalan beri ábyrgð á því að enn sé ekki búið að klára aflýsinguna.

 

Af gögnum málsins má ráða að mistök hafi orðið til þess að þegar Þ-bankinn greiddi upp eldri veðlán með nýjum lánum, hafi lán frá P-banka ekki verið greitt upp og því ekki aflýst. Kaupendur brugðust við þegar þeim varð ljóst að kærandi hafði fengið útgreiddan hluta þess fjár sem ætlaður var til afléttingar lána. Liggur fyrir tölvupóstur frá kaupendunum frá 3. september sama ár þar sem þau fela lögmanninum L hagsmunagæslu þar sem seljendur hafi enn ekki uppfyllt þá samningsskyldu sína að aflétta veðum. L er einn af eigendum lögmannsstofunnar C. Urðu nokkur samskipti á milli aðila þar sem kærandi gerði m.a. athugasemdir við hagsmunatengingar á milli kaupenda og eigenda C lögmannsstofu og framgöngu lögmanna stofunnar.

Þann 8. september 2015 undirrituðu kærandi og eiginkona hans umboði til kærða S til að undirrita afsal og önnur skjöl vegna sölu á fasteigninni að A-stræti.

 

Kærandi taldi sig hafa orðið fyrir nokkru tjóni vegna mistaka fasteignasölunnar og fól lögmannsstofunni C að réttarstaðan yrði könnuð og þess freistað að heimta bætur. Ritaði kærða T fasteignasölunni bréf þann 26. október 2015 og krafðist bóta f.h. kæranda. Þann 21. desember sendi kærða T kæranda hins vegar tölvupóst og sagði sig frá málinu. Í því bréfi kemur fram að í samræmi við 11. gr. siðareglna lögmanna og vilja beggja aðila hafi þau L hrl. náð að setja niður ágreining milli kaupenda og seljenda. Að því er varðaði ágreining við fasteignasöluna kvaðst kærða T hafa lagt til að honum yrði skotið til eftirlitsnefndar fasteignasala. Segir síðan í bréfi þessu „Í framhaldi af umræddum bréfaskrifum og með vísan til samskipta sem átt hafa sér stað um framhald málsins telur undirrituð ljóst að ekki er lengur grundvöllur fyrir því að C sinni hagsmunagæslu fyrir ykkur vegna málsins. Tilkynnist því hér með að undirrituð segir sig frá verkinu með vísan til 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna."

 

Þann 11. janúar 2016 setti kærandi svo fram skaðabótakröfu á hendur lögmannsstofunni C. Í bréfi dagsettu þann dag kemur fram að kærandi og eiginkona hans hafi orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna mistaka lögmannsstofunnar og að eðlilegast sé að C endurgreiði kostnað við þá ráðgjöf sem leiddi til tjónsins, þ.e. fjóra reikninga að fjárhæð samtals kr. 149.766 auk þess sem útistandandi kostnaður samkvæmt fimmta reikningnum að fjárhæð kr. 109.802 vegna gerðar kröfubréfs verði felldur niður, enda hafi stofan sagt sig frá því máli einhliða auk þess sem umræddur kostnaður hafi verið til kominn vegna upphaflegra mistaka starfsmanna stofunnar. Auk endurgreiðslukröfunnar krafðist kærandi skaðabóta vegna dráttarvaxta sem á hann höfðu fallið, miskabóta og kostnaðar við að halda kröfunni fram. Kröfunni var hafnað af C lögmannsstofu með bréfi 29. janúar 2016.

 

II.

Kærandi gerir í fyrsta lagi þá kröfu að kærða C lögmannsstofa endurgreiði kostnað vegna þeirrar ráðgjafar sem hann telur hafa verið mikinn orsakavald í tjóni sínu. Nánar tilgreint krefst kærandi endurgreiðslu reikninga nr. 85698, 86833, 87142, samtals að fjárhæð kr. 149.766. Jafnframt er þess krafist að útistandandi reikningur nr. 87877 að fjárhæð kr. 109.802 vegna gerðar kröfubréfs verði felldur niður.

 

Þá krefst kærandi þess að kærðu sæti áminningu vegna vanrækslu við lögfræðiráðgjöf og brota á 2. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna. Loks er krafist málskostnaðar vegna reksturs málsins fyrir úrskurðarnefndinni.

 

Kærandi telur sig hafa orðið fyrir umtalsverðu tjóni við það að kaupsamningsgreiðsla að fjárhæð kr. 56.700.000 hafi dregist um ríflega mánuð. Hafi mistök fasteignasölunnar og vanræksla kærða S orðið til þess að kærandi hafi ekki getað staðið við eigin skuldbindingar. Kærandi telur að kærði S hafi gerst sekur um alvarlega vanrækslu við ráðgjöf varðandi sölu fasteignarinnar. Kærði vísar til almennu skaðabótareglunnar og bendir á að kærðu beri sérfræðiábyrgð með ströngu sakarmati.

 

Kærandi telur að aldrei hefði komið til umrædds tjóns ef kærði S hefði veitt fullnægjandi ráðgjöf, þ.e. bent á að undirritanir vantaði á veðskjöl auk þess sem hið skilyrta veðleyfi, dags. 4. júní 2014 væri bersýnilega ófullnægjandi, en skjölin hafi legið fyrir á kaupsamningsfundinum. Kærandi kveðst hafa leitað eftir aðstoðar lögmanns til að baktryggja sig, þ.e. að fá vissu um að öll skjöl væru rétt og allt myndi ganga eðlilega fyrir sig.

 

Kærandi leggur á það áherslu að hlutverk kærða S hafi falið í sér hagsmunagæslu við kaupin. Með því að kalla kærðu að málinu hafi hann talið sig getað treyst því að gætt yrði að öllu því sem máli skipti við framkvæmd kaupanna. Sé þetta í samræmi við fyrri viðskipti aðila þar sem lögmenn C lögmannsstofu hafi annast hagsmunagæslu fyrir hans hönd. Það sé rangt að hlutverk S hafi verið takmarkað við yfirferð yfir þau skjöl sem hann fékk send. Hafnar kærandi því einnig alfarið að orðalag hans í tölvupósti þar sem hann biður S að mæta á kaupsamningsfund til að vera konu sinni „til halds og trausts" feli í sér að umboð hans og hlutverk hafi verið takmarkað að því leyti.

 

Kærandi telur að ábyrgð fasteignasalans á mistökum við skjalagerð hafi ekki áhrif á sök kærðu, enda hafi það verið hlutverk þeirra að fara yfir skjölin. Í þessu samhengi bendir kærði á að jafnvel þótt skort hafi á að fasteignasalinn sendi kærða S öll skjöl í heild sinni til yfirlestrar daginn fyrir kaupsamningsfund, þá hafi þau öll legið fyrir á fundinum. Hefði kærði S þá bent á bersýnileg mistök í skjölunum hefði þeim verið þinglýst 29. júní en ekki 26 dögum seinna. Þannig hefði tjóni kæranda verið afstýrt. Það hafi hann ekki gert, en á hinn bóginn innheimt sérstaklega fyrir yfirferð skjala og mætingu við undirskrift kaupsamnings með reikningi nr. 85689.

 

Kærandi telur þessi vinnubrögð vera í andstöðu við 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

 

Kærandi vísar einnig til 11. gr. siðareglna lögmanna í því samhengi að kaupendur fasteignarinnar hafi verið viðskiptavinir C lögmannsstofa á sama tíma og kærandi vegna sömu viðskipta.  Hefði kærðu verið rétt að skýra kvartanda frá þessu þegar í upphafi.

Þá telur kærandi að samskipti aðila sýni hvernig það hafi haft áhrif að annar kaupandi fasteignarinnar var forstjóri í fasteignafélagi sem hefur mikil viðskipti við C lögmannsstofu. Hafi þetta verið þvert á það sem fram hafi komið í upphafi, þegar kæranda hafi verið talin trú um að þetta skipti ekki máli þar sem hann væri ekki persónulega í viðskiptum við stofuna.

 

III.

Kærðu hafna alfarið öllum ásökunum og kröfum kæranda.

Kærðu benda á að bindandi kaupsamningur hafi komist á um eignina þegar í mars 2015. Með þeim tölvupósti sem kærandi sendi þann 2. júní 2015 hafi kærða S verið falin afmörkuð verkefni í tengslum við kaupin og þessi verkefni hafi kærði innt af hendi. Hafi hann annars vegar farið efnislega yfir þau skjöl sem honum voru send frá fasteignasölunni, svarað spurningum kæranda um hvort bæta þyrfti við efni þeirra og hins vegar verið eiginkonu kæranda til halds og trausts á kaupsamningsfundi í samræmi við ósk kæranda. Telja kærendur engan veginn unnt að leggja ábyrgð á kærða S á því að undirritun hafi skort á veðskuldabréf eða að skort hafi skilyrt veðleyfi frá Z-banka. Þá andmæla kærendur því að viðskiptasaga aðila skipti máli að þessu leyti. Hún hafi engin verið, nema hvað kærði S hafi sinnt innheimtuverkefni fyrir félag sem kærandi var í forsvari fyrir, auk, þess sem kærða T hafi sinnt afmarkaðri hagsmunagæslu fyrir hann.

 

Kærðu leggja áherslu á að J hdl. og löggiltur fasteignasali hafi borið ábyrgð á allri skjalagerð vegna kaupanna, í samræmi við þágildandi lög nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.

 

Nánar tiltekið um þetta benda kærðu á að fasteignasalinn hafi óskað eftir skilyrtu veðleyfi frá Z-banka daginn eftir kaupsamningsfundinn og fáist ekki séð að ábendingar frá S hefðu getið flýtt fyrir útgáfu þess, en hann hafi ekki haft neitt forræði á útgáfu og öflun skjala vegna kaupsamningsins. Að því er varðar skort á undirritunum kaupenda undir veðskuldabréf árétta kærðu að hann hafi aðeins fengið forsíður skuldabréfanna í hendur fyrir fundinn. Hvað sem því leið hafi þessi mistök fasteignasalans út af fyrir sig ekki valdið kæranda neinu tjóni þar sem búið hafi verið að leiðrétta þau með undirritun kaupendanna áður en veðleyfið frá Z-banka lá fyrir. Auk þessa benda kærðu á að á þessum tíma hafi enn gætt áhrifa frá verkfalli hjá sýslumannsembættinu og því allt óvíst um hvenær umræddum skjölum hefði verið þinglýst ef þessar undirritanir hefðu fylgt frá upphafi.

 

Kærðu hafna því að kaupendur fasteignarinnar hafi verið viðskiptavinir C lögmannsstofu vegna þessara sömu viðskipta á sama tíma og kvartandi. Hið rétta sé að kaupendurnir leituðu til L hrl., eins lögmanna stofunnar, í septembermánuði 2015, tæpum þremur mánuðum eftir að kaupsamningurinn var undirritaður, en þá hafi verið kominn upp ágreiningur um uppgjör á kaupsamningsgreiðslum og afléttingu áhvílandi lána. Strax þann sama dag hafi kærandi verið upplýstur um þetta og hafi allir aðilar orðið sammála um að leitað yrði sátta og hafi málið þannig verið til lykta leitt. Kærða T hafi sagt sig frá málum kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna eins og fram komi í bréfi hennar frá 28. desember 2015.

 

Kærðu telja að öll vinna C lögmannsstofu við athugun á réttarstöðu gagnvart umræddri fasteignasölu nýtist kæranda ef hann hyggst halda rétti sínum að þessu leyti fram, þ.á.m. vinna við kröfubréf. Þetta sé sú vinna sem innheimt er fyrir með reikningi nr. 87877. Alrangt sé að þessi vinna sé afleiðing af mistökum lögmannsstofunnar.

 

Kærðu hafna einnig endurgreiðslukröfum vegna annarra reikninga sem hér um ræðir, enda telja þau þá vinnu sem innt var af hendi hvorki hafa leitt til tjóns né verið ábótavant. Reikningarnir séu hæfilegir miðað við umfang þeirra starfa sem um ræðir. Þá sé reikningur nr. 87142 að fjárhæð kr. 54.901 vegna vinnu sem engin athugasemd hafi verið gerð við, heldur sé reikningurinn vegna vinnu við að ná samkomulagi um uppgjör og útgáfu afsals vegna sölu fasteignarinnar.

 

Kærðu mótmæla því að beitt verði viðurlögum á grundvelli lögmannalaga og siðareglna lögmanna. Ekkert brot hafi verið framið gegn ákvæði 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna og ekki sé um vanrækslu að ræða. Þá fjalli kvörtunin hvorki um stórfelld brot né ítrekuð þannig að varði áminningu. Loks mótmæla kærðu málskostnaðarkröfu kæranda.

 

Niðurstaða.

Kærði S hdl. vann þau störf sem aðfinnslur kæranda beinast einkum að sem starfsmaður á lögmannsstofunni C, en kærða T hrl. er ein af eigendum stofunnar og kom fram fyrir hennar hönd í samskiptum hennar við kæranda vegna viðskiptanna. Ekki hafa komið fram neinar athugasemdir við að sóknaraðili standi einn að máli þessu þótt eiginkona hans hafi átt aðild að þeim viðskiptum sem um ræðir.

 

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærðu hafi gerst brotleg við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

 

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Samkvæmt 11. gr. siðareglnanna má lögmaður ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Ákvæðið hindrar þó ekki að lögmaður leiti sátta með deiluaðilum, með samþykki beggja.

Í málinu liggur hvorki fyrir skriflegt umboð eða formlegur samningur um verkefnið. Það mótaðist því fyrst og fremst í tölvupóstum sem sendir voru á milli aðila og að framan er lýst. Nefndin telur að á kærða S hafi hvílt sú skylda að gæta að því að öll skjöl vegna kaupanna væru í lagi, eða a.m.k. þau skjöl sem fyrir lágu. Þegar lögmaður tekur að sér að fylgja umbjóðanda sínum á fund vegna fasteignakaupa, gerir hann það jafnan vegna sérfræðiþekkingar sinnar. Í þessu tilviki virðist hafið yfir vafa að þrátt fyrir að löggiltur fasteignasali annaðist skjalagerð vegna kaupanna var hlutverk kærða að gæta að því að allt væri í lagi. Sérstakrar aðgæslu var þörf vegna verkfalls starfsmanna hjá embætti sýslumanns, sem fyrir lá að gæti valdið umtalsverðum töfum á þinglýsingu skjala.

 

Það var ekki á valdi kærða S að tryggja að hann fengi skjölin í heild sinni ásamt undirritunum send fyrir fundinn. Nefndin telur einnig að þegar í ljós kom á fundinum að eftir væri að afla veðleyfis frá Z-banka, hefði ekki verið rétt af kærða að setja kaupsamningsfundinn í uppnám eða óska eftir frestun hans þar til veðleyfið lægi fyrir. Það var ófyrirsjáanlegt að öflun veðleyfisins myndi vefjast fyrir fasteignasölunni með þeim hætti sem síðar varð.

Nefndin telur hins vegar að það hafi verið aðfinnsluverð mistök af hálfu kærða S að átta sig ekki á því á kaupsamningsfundinum að skuldabréfin voru ekki réttilega undirrituð af kaupendum um veðheimild. Enda þótt kærði hafi það sér til afsökunar að erfitt er að fyrirbyggja með öllu að mistök hafi verið gerð við skjalagerð vegna fasteignakaupa þegar aðeins gefst færi á að lesa hluta skjalanna á kaupsamningsfundi, verður hér að beita ströngu sakarmati, enda um að ræða sérfræðivinnu sem unnin er gegn tímagjaldi sem tekur mið af því að reiknað er með vönduðum vinnubrögðum. Lögmenn geta ekki leyft sér að líta á skyldur sínar við þessar aðstæður þannig að þeir fylgist aðeins með, án þess að fara sjálfstætt yfir helstu skjöl. Í þessu samhengi skiptir ekki máli hvort raunveruleg réttarspjöll hlutust af yfirsjóninni.

 

Nefndin telur að það hafi verið óheppilegt að lögmannsstofan tæki að sér að gæta hagsmuna kaupendanna í þessum viðskiptum, þar sem gagnaðilinn var í forsvari fyrir annan viðskiptavin stofunnar. Þessi staða átti eftir að valda tortryggni, sem 11. gr. siðareglnanna er m.a. ætlað að fyrirbyggja. Þegar litið er til þess að aðkoma stofunnar átti upphaflega fyrst og fremst að felast í yfirlestri o.þ.h. verkefnum, verður þó ekki talið að þetta hafi falið í sér brot gegn ákvæðinu. Þegar ágreiningur kom upp á milli aðila varð aðkoma stofunnar sú að leita sátta með samþykki beggja aðila og raunar virðist það hafa tekist. Það verður því að hafna því að kærðu hafi gerst brotleg við 11. greinina. Enda þótt stofan hafi síðan ákveðið að segja sig frá frekari vinnu fyrir kærendur fær það ekki haggað þessari niðurstöðu, enda virðist kærandi þá hafa haft sýnilegar efasemdir um heilindi kærðu í störfum fyrir sig.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

 

Það er mikilvægt að árétta að nefndin kveður ekki upp úrskurði um skaðabótaskyldu lögmanna vegna tjóns sem þeir kunna að valda í störfum sínum né um fjárhæð bóta. Til að unnt sé að taka afstöðu til bótaskyldu þarf að taka afstöðu til umfangs tjóns, orsakasambands á milli tjóns og háttsemi og fleiri atriða sem nefndin hefur engar heimildir til að fjalla um. Auk þess að fjalla um það sem sjálfstætt úrlausnarefni hvort lögmenn hafi gerst brotlegir við lög eða siðareglur lögmanna er hlutverk nefndarinnar bundið við að fjalla um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess. Við mat á því hvað er hæfilegt endurgjald hefur nefndin í fyrri úrskurðum sínum litið til þess ef hún telur sýnt að vinna lögmanns nýtist ekki af ástæðum sem hann ber sjálfur ábyrgð á að nokkru eða öllu leyti. Þetta jafngildir því hins vegar ekki að taka afstöðu til þess hvort umbjóðandi kann að eiga gagnkröfu á hendur lögmanni vegna bótaréttar.

Eins og hér stendur á er hvorki  ágreiningur um tímagjald né tímaskriftir. Ágreiningur um endurgjaldið snýst einkum um hvort gæði vinnunnar voru forsvaranleg og hvort hæfilegt sé að innheimta áskilið endurgjald að teknu tilliti til þeirra atvika sem að framan er lýst.

 

Áður er lýst þeirri afstöðu nefndarinnar að þeirri vinnu sem fólst í undirbúningi, en þó einkum mætingu á kaupsamningsfund hafi verið ábótavant. Nefndin telur einnig að það sé ekki rétt að leggja eingöngu á kæranda það óhagræði sem hlaust af því að lögmannsstofa kærðu tók að sér að gera bótakröfu á umrædda fasteignasölu, en sagði sig síðan alfarið frá því að fylgja málinu eftir, þegar kröfubréf hafði verið sent. Ágreiningslaust er að það er eingöngu reikningur nr. nr. 87877 að fjárhæð kr. 109.802, að vsk. meðtöldum, sem er ógreiddur. Þegar atvik eru metin heildstætt þykir nefndinni hæfilegt að sá reikningur sæti lækkun sem nemur 60.000.

 

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Það var aðfinnsluvert af kærða, S hdl. að gæta ekki að því að undirskriftir vantaði á skuldabréf á kaupsamningsfundi sem hann sótti f.h. kæranda, R ásamt eiginkonu hans. Kærða, T hrl. hefur ekki brotið gegn siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kæranda.

Áskilið endurgjald kærðu vegna starfa þeirra í þágu kæranda sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð reiknings nr. 87877 vera kr. 49.802, að vsk. meðtöldum.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA