Mál 9 2016
Ár 2016, fimmtudaginn 3. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 9/2016:
K
gegn
D
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. apríl 2016 erindi sóknaraðila, K, þar sem ágreiningur hennar við umbjóðanda sinn, varnaraðila D um fjárhæð hæfilegs endurgjalds fyrir störf hennar í þágu hans er lagður fyrir nefndina.
Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 29. apríl 2016. Greinargerð varnaraðila barst þann 13. maí 2016. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina með bréfi dagsettu 17. maí 2016, auk þess sem óskað var skýringa á tilteknum atriðum varðandi kröfugerð. Athugasemdir sóknaraðila bárust þann 6. júní 2016. Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum þann 10. júní 2016. Með bréfi mótt. 28. júní 2016 gerði varnaraðili ákveðnar kröfur og athugasemdir varðandi málsmeðferðina og var þeim svarað með bréfi nefndarinnar 12. júlí 2016. Lokaathugasemdir varnaraðila vegna málsins bárust svo að fengnum fresti þann 12. ágúst 2016 og voru kynntar sóknaraðila.
Málsatvik og málsástæður.
I
Það er upphaf máls þessa að þegar varnaraðili kom að heimili sínu snemma í marsmánuði 2014 hitti hann fyrir lögreglu og síðan yfirlækni á heilsugæslu. Varð úr að hann var tekinn gegn vilja sínum og færður á geðdeild. Að loknum viðtölum á geðdeild varð úr að ekki þótti ástæða til læknismeðferðar eða nauðungarinnlagnar og fór varnaraðili því af spítalanum.
Undi varnaraðili illa við þessa uppákomu. Í júníbyrjun leitaði hann eftir lögfræðiráðgjöf hjá lögmannavakt LMFÍ og hitti þá fyrir sóknaraðila og ræddi mál sitt við hana. Varð úr að hún tók að sér að sækja bætur fyrir hann. Var skrifað undir umboð þann 10. júní 2014 og náði það bæði til gagnaöflunar og höfðunar dómsmáls. Um leið var undirritaður verksamningur þar sem m.a. kemur skýrlega fram að verkið felist í gagnaöflun. Það sé unnið í tímavinnu og að tímagjald nemi 19.500 kr. auk vsk.
Ágreiningslaust er með aðilum að í framhaldi af þessu hófst gagnaöflun og liggur fyrir að sóknaraðili aflaði flestra eða allra þeirra gagna sem unnt var að fá frá heilbrigðisyfirvöldum og lögreglu.
Ríkislögmanni var ritað kröfubréf í framhaldi af gagnaöflun í mars 2015 og mun hann hafa synjað kröfu um greiðslu bóta með bréfi dagsettu 30. apríl 2015. Var þá endanlega afráðið að stefna bótamáli f.h. varnaraðila og krefja ríkið um bætur vegna frelsissviptingarinnar og afleiðinga hennar.
Mikið ber á milli í frásögnum aðila af vinnslu málsins svo sem nánar greinir síðar. Sóknaraðili kveður varnaraðila sífellt hafa viljað ganga lengra í að fá svör við nýjum spurningum um málið, en hún hafi talið réttast að stefna málinu inn og leiða þau vitni sem borið gætu um atvik. Varnaraðili telur hins vegar að lítið sem ekkert samráð hafi verið haft við hann um gerð kröfubréfsins og stefnu í málinu.
Stefna var birt í málinu í júní 2015 og var þar gert ráð fyrir þingfestingu málsins þann 30. júní. Þann 29. júní tilkynnti varnaraðili að hann hefði miklar athugasemdir við stefnuna. Þrátt fyrir samtöl aðila morguninn eftir náðist engin niðurstaða og varð því ekki af þingfestingu með framlagningu stefnunnar í dómi. Þess í stað fékk varnaraðili afhenta stefnuna og öll gögn sem ætluð voru til framlagningar og mun ætlunin hafa verið að hann nýtti réttarhlé um sumarið til að gera athugasemdir við hana, en málið yrði svo þingfest um haustið. Þegar aðilar hittust á ný á fundi 19. ágúst 2015 og í tölvupóstsamskiptum aðila 20. og 21. ágúst kom í ljós að ágreiningur þeirra um stefnuna var óbrúanlegur þar sem sóknaraðili vildi ekki gera allar þær breytingar á stefnunni sem varnaraðili taldi nauðsynlegar. Varð úr að ákveðið var að hætta samstarfi. Á þessu tímamarki kom jafnframt fram ágreiningur um áskilda þóknun sóknaraðila. Skoraði sóknaraðili á varnaraðila „að greiða reikning vegna vinnunnar eða það sem þú telur þér skylt, svo ekki þurfi að koma til aukinn kostnaður vegna innheimtuaðgerða."
Fyrir liggur reikningur sóknaraðila, dags. 7. júlí 2015. Þar er gjaldfært fyrir 75,75 klst. vinnu á tímabilinu nóvember 2014 til 29. júní 2015, á umsömdu tímagjaldi, alls kr. 1.477.125 auk „tilkynningargjalds" að fjárhæð kr. 150. Með virðisaukaskatti er fjárhæð reikningsins kr. 1.831.821. Er sú fjárhæð jafnframt kröfufjárhæð sóknaraðila.
Fyrir liggur að varnaraðili hafði áður greitt fyrir vinnu lögmannsins frá 10. júní 2014 til 4. nóvember 2014, alls kr. 720.000.
Varð úr að varnaraðili ritaði sjálfur nýja stefnu í málinu og stefndi því inn um haustið. Dómsmálið mun hafa tafist vegna veikinda dómara sem fór með málið, en samkvæmt endurriti úr þingbók er aðalmeðferð þess fyrirhuguð í nóvember 2016. Þar sem engar frekari greiðslur bárust sóknaraðila fól hann innheimtufyrirtækinu Inkasso innheimtu útistandandi reiknings, en án árangurs.
II
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða henni kr. 1.831.821, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. júlí 2015 til greiðsludags.
Sóknaraðili kveður að upphaflega hafi verkefni sitt aðeins náð til þess að afla gagna, en varnaraðili hafi verið orðinn vonlaus um að fá nokkru sinni upplýsingar um mál sitt án atbeina lögmanns. Eftir því sem gögn bárust hafi jafnharðan borist viðbótarbeiðnir frá varnaraðila um frekari gagnaöflun. Að lokum hafi verið tekin ákvörðun um að sækja bætur úr hendi ríkissjóðs fyrir ólögmæta og tilefnislausa handtöku.
Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa rætt um gjaldtöku við varnaraðila, en hún hafi haft miklar áhyggjur af kostnaðinum fyrir hans hönd, enda ólíklegt að bætur fyrir stutta frelsissviptingu gætu numið háum fjárhæðum. Varnaraðili hafi hins vegar litið svo á að um mikilvægt „prinsippmál" væri að ræða og að nauðsynlegt væri að ná að yfirheyra vitni fyrir dómi um atvikin, þrátt fyrir þau svör sem tókst að draga út úr yfirvöldum um málið, en varnaraðili hafi verið mjög ósáttur við þau. Hafi sóknaraðili ítrekað opinskátt lýst áhyggjum sínum af kostnaði við varnaraðila, en hann gert lítið úr því og kveðist kunnugur slíkri gjaldtöku samkvæmt tímagjaldi af verkfræðivinnu sinni. Hafi þau raunar verið farin að gantast með þennan kostnað vegna sífelldra ábendinga sóknaraðila um hann. Þá fullyrðir sóknaraðili að varnaraðili hafi neitað að afhenda henni nauðsynleg gögn til að sækja um gjafsókn og meinað henni að gera það að svo stöddu.
Sóknaraðili kveður vinnu við málið hafa dregist á langinn þar sem varnaraðili gerði ítrekað kröfur um fundi um málið til að ræða sín sjónarmið og lagatúlkanir. Hafi orðið breytingar á hátterni varnaraðila þegar kom fram í febrúar/mars 2015 þegar afskipti hans urðu stöðugt meiri og ágengari og símtölum og tölvuskeytum fjölgaði. Hafi hann ítrekað mætt á starfsstöð lögmannsins til að „ræða málið". Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi farið fram á að fá að stilla upp drögum, sem hægt væri að taka afstöðu til hafi þetta haldið áfram. Þegar ríkislögmaður hafi hafnað kröfum þeirra í apríl 2015 hafi varnaraðili verið orðinn afar óþreyjufullur að koma út stefnu en sótti jafnframt fast að halda frekari fundi um málið. Efni þessara funda hafi orðið til þess að sóknaraðili leiðbeindi honum um gjaldfrjálsa lögmannsaðstoð lagadeilda háskólanna og vefsvæði þar sem unnt væri að ræða lagaleg hugðarefni án endurgjalds. Sóknaraðili telur að hún hafi vanmetið hversu erfitt yrði að halda málarekstrinum áfram undir stöðugum afskiptum varnaraðila, sem vildi ganga sífellt lengra í málavaxtalýsingum og umræðum. Hafi samskipti aðila verið mikil og regluleg þarna um vorið, en varnaraðili hafi lagt á það áherslu að birta stefnu fyrir réttarhlé. Dagana 24. - 29. júlí hafi verið unnið að nákvæmri málavaxtalýsingu samkvæmt fyrirsögn varnaraðila. Hafi svo farið að ekki varð unnt að senda stefnuna í lokayfirlestur hjá varnaraðila áður en hún þurfti að fara í birtingu. Varnaraðili hafi svo kynnt sóknaraðila að hann hefði enn fjölmargar athugasemdir við stefnuna og samþykkti hana ekki.
Sóknaraðili kveðst margsinnis hafa íhugað að segja sig frá málinu, en eftir að stefnan var komin í burðarliðinn hafi henni þótt það óásættanlegur kostur að hætta við málið, enda hafi sig þá ekki grunað hvert stefndi. Þá hafi hún talið að varnaraðili hefði mjög góðan og sterkan málstað og að það myndi breyta öllu fyrir hann að fá dóm sér í vil og eins konar uppreist æru. Til að nýta þann kostnað og vinnu sem þegar hafði verið lögð í málið hafi hún talið réttast að harka af sér og klára málið.
Varðandi framgang málsins kveður sóknaraðili það rangt að það hafi nokkru sinni verið bundið fastmælum að koma stefnu út fyrir árslok 2014. Hún hafi á því ári unnið hörðum höndum að gagnaöflun og textagerð sem hafi nýst í bréfið til ríkilögmanns. Verkið hafi hins vegar tafist mjög vegna afskipta varnaraðila.
III
Varnaraðili kveðst fyrst hafa hitt sóknaraðila þegar hann leitaði sér ráða hjá lögmannavakt LMFÍ. Hafi sóknaraðili þá sagt að ef hann ætlaði að komast til botns í málinu yrði hann að fá lögmann sér til aðstoðar og boðið fram þjónustu sína.
Varnaraðili telur að gagnaöflun í málinu hafi í raun lokið í byrjun nóvember 2014 og þá hafi staðið til að koma stefnu út fyrir áramót. Við vinnslu málsins hafi svo komið upp það sjónarmið á lögmannsstofu sóknaraðila að nauðsynlegt væri að senda út kröfubréf áður en málinu væri stefnt. Það hafi verið gert, en honum hafi ekki verið kynnt nein drög að bréfinu heldur aðeins fengið að sjá það fullbúið. Hafi hann fallist á að það væri sent þótt hann væri ekki alls kostar sáttur við það.
Eftir að ríkislögmaður hafði hafnað þeim kröfum sem settar voru fram í bréfinu hafi aðilar máls þessa átt fund. Strax í upphafi þess fundar hafi sóknaraðili sagt að ef lögmannsstofan ætti að vinna stefnu í málinu yrði allur málatilbúnaður að vera ákveðinn af starfsmönnum hennar. Hafi varnaraðili þá þegar svarað því til að það kæmi ekki til greina og hann yrði þá að skipta um lögmann. Sóknaraðili hafi þá sagst vilja skoða þetta. Eftir þetta hafi þau ekkert hist og ekkert samráð hafi verið haft við hann áður en stefnan var birt ríkislögmanni. Hafi birtingin verið án umboðs eða samþykkis frá varnaraðila. Telur varnaraðili þessi vinnubrögð sóknaraðila mjög ámælisverð.
Eftir að búið var að birta stefnuna án samráðs við varnaraðila og hann var búinn að skoða hana um sumarið, kveður varnaraðili það hafa verið afstöðu sóknaraðila á fundi þeirra 19. ágúst 2015 að engu mætti breyta í stefnunni eða bæta við. Hann hafi því setið uppi með ónothæfa stefnu og verið nauðugur sá kostur að skrifa sjálfur stefnu og reka málið þótt lögum samkvæmt hafi hann átt rétt á gjafsókn. Hafi hann ekkert byggt á stefnu sóknaraðila við ritun á þessari síðari stefnu. Telur varnaraðili að framganga sóknaraðila og samstarfsmanna hennar verði ekki skýrð með öðru en því að þau hafi fengið samúð með stefnda og því staðið því í vegi að sjónarmið varnaraðila kæmu fram í stefnunni.
Varnaraðili telur sig eiga rétt á skaðabótum frá sóknaraðila og lögmannsstofu hennar. Hann hafi þegar greitt stofunni 720.000 kr. Hafi það verið ætlun hans að ljúka rekstri héraðsdómsmálsins áður en hann stefndi lögmannsstofunni til greiðslu skaðabóta.
Niðurstaða
I
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Samkvæmt 2. mgr. 10 gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Nefndin fjallar um gjaldtöku lögmanna samkvæmt lögmannalögum. Hefur það ekki þýðingu fyrir aðild sóknaraðila að máli þessu að hún hafi stofnað félag um rekstur lögmannsþjónustu ásamt öðrum.
Ekki er ágreiningur í máli þessu um tímagjald, enda óumdeilt að það var kynnt varnaraðila og umsamið á fyrsta fundi hans á lögmannsstofu sóknaraðila. Einstökum færslum á tímaskrá sóknaraðila hefur heldur ekki verið andmælt, en varnaraðili hefur þó haldið því fram að hann hafi ekki hitt sóknaraðila frá því að ríkislögmaður hafnaði kröfunni í aprílbyrjun 2015 og þar til stefnan var birt í júnílok.
Mótbárur sínar gegn reikningi sóknaraðila reisir varnaraðili öðru fremur á því að vinnubrögð sóknaraðila hafi verið óforsvaranleg. Er þá bæði á því byggt að óeðlilega lítið samráð hafi verið haft við varnaraðila og ekkert tillit tekið til athugasemda hans og einnig því að stefnan sé ekki nothæf, en á milli þessara tveggja ágalla á vinnu sóknaraðila telur varnaraðili að sé orsakasamhengi.
Það er álit nefndarinnar að engin efni séu til að hafna gjaldtöku sóknaraðila á þeim forsendum að þeirri stefnu sem hún samdi sé verulega áfátt, en stefnan hefur verið lögð fram. Stefnan er mjög ítarleg, alls 16 síður og skjalaskrá telur 42 tölusett gögn til framlagningar. Þær efnislegu ábendingar varnaraðila varðandi efni hennar sem fram koma í málinu eru að mati nefndarinnar ekki til þess fallnar að draga úr gildi hennar.
Fyrir liggja tölvupóstsamskipti aðila því til stuðnings að varnaraðili las og samþykkti kröfubréf til ríkislögmanns í mars 2015. Nefndin telur ekki að gögn málsins styðji það sjónarmið varnaraðila að stefnugerðin hafi verið unnin án nægilegs samráðs við hann.
II.
Þannig telur nefndin að ganga verði út frá því grundvallarsjónarmiði við úrlausn málsins að eftir að ákveðið var að sækja bætur í ríkissjóð, fyrst með kröfubréfi, en síðan með stefnu, hafi sóknaraðili réttilega unnið að því að móta þessi skjöl. Það hafi verið gert í tímavinnu samkvæmt samningi og hafi sóknaraðili mátt treysta því að þar sem henni hafði verið falið verkið sem sérfræðingi hafi hún getað unnið að því af fagmennsku og treyst því að fá greitt fyrir þá vinnu. Ekki sé rétt að leggja ábyrgð á sóknaraðila á þeirri ákvörðun varnaraðila að leggja þá stefnu sem hún ritaði ekki til grundvallar málatilbúnaði sínum. Ekki er ágreiningur um tímagjald og það virðist ekki úr hófi. Þá fæst ekki séð að tímafjöldinn sé umfram það sem vænta mátti miðað við þá ítarlegu stefnu sem var unnin og að teknu tilliti til þess sem fyrir liggur um ábendingar varnaraðila um hvernig skyldi staðið að verkinu.
Skylda lögmanns til að upplýsa umbjóðanda sinn um verkkostnað, sbr. ofangreind ákvæði lögmannalaga og siðareglna lögmanna, er virk á meðan verkinu vindur fram. Er eðlilegt að þegar sanngjörn þóknun er metin, sé tekið nokkurt tillit til þess að ekkert liggur fyrir um að varnaraðili hafi reglulega fengið senda reikninga eða aðrar nákvæmar upplýsingar um áfallandi kostnað. Sætir áskilin þóknun sóknaraðila lækkun sem nemur 7 tíma vinnu vegna þessa. Verður ekki fallist á kröfu varnaraðila um að fjárhæðin beri dráttarvexti fyrr en að úrskurði þessum gengnum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Áskilið endurgjald sóknaraðila, K, vegna starfa hennar í þágu varnaraðila, D, á tímabilinu 4. nóvember 2014 og út árið 2015 sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð reiknings nr. 1609, dags. 7. júlí 2015 í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998, vera kr. 1.662.525, að vsk. meðtöldum.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Grímur Sigurðsson, hrl., formaður
Hjördís E Harðardóttir, hrl.
Sératkvæði Helga Birgissonar hrl.
Ég er sammála kafla I í niðurstöðu meirihluta nefndarmanna. Ég er einnig sammála því grundvallarsjónarmiði að sóknaraðili hafi mátt vinna nokkuð sjálfstætt að því verkefni sem varnaraðili fól henni sem sérfræðingi og mátt treysta því að fá greitt fyrir þá vinnu. Þrátt fyrir það sem að ofan greinir tel ég að tímafjöldi sem færður var á verkefnið og gjaldfærður frá nóvember 2014 til júníloka 2015, samtals 75,75 vinnustundir, hafi farið fram úr því sem hæfilegt geti talist, sbr. fyrrnefnda 24. gr. lögmannalaga, en ágreiningur aðila lýtur að gjaldtöku fyrir vinnu á þessu tímabili. Varnaraðili hafði þegar greitt kr. 720.000 fyrir vinnu sem einkum fól í sér umfangsmikla gagnaöflun sem unnin var áður, en ágreiningslaust virðist að þeirri gagnaöflun var að ljúka í nóvemberbyrjun 2014. Jafnvel þó framlögð gögn sóknaraðila styðji að töluverðu leyti við þá málsástæðu hennar að varnaraðili hafi tafið málið og gert vinnslu þess tímafrekari en efni stóðu til, var það einnig á hennar ábyrgð að halda tímafjölda innan skynsamlegra marka. Var það m.a. mikilvægt í ljósi þess að sóknaðili virðist ekki hafa sent varnaraðila upplýsingar um áfallinn kostnað á umræddu tímabili. Skaðabótamálið virðist ekki hafa snúist um verulega fjárhagslega hagsmuni eða mjög flókin atriði, heldur fyrst og fremst það álitamál hvort lagaskilyrði hafi skort til að svipta varnaraðila frelsi svo sem gert var. Virðist ágætlega í lagt að ætla sóknaraðila 40 vinnustundir til að koma út kröfubréfi og stefnu í málinu, jafnvel þótt tekið sé nokkurt tillit til þess að athugasemdir og afskipti varnaraðili hlutu að gera vinnslu málsins nokkuð tafsamari en ef sóknaraðili hefði getað stillt málinu upp sjálf. Tel ég rétt að miða úrskurðarorð við þessa niðurstöðu.
Helgi Birgisson, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson