Mál 11 2016

Ár 2015, föstudaginn 2. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið málið nr. 11/2016:

V ehf.

gegn

G

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 20. maí 2016 erindi sóknaraðila,V ehf., þar kvartað er yfir reikningagerð, varnaraðila, G hdl. Kemur í kvörtuninni fram að ágreiningur sé með aðilum vegna lokareiknings varnaraðila, sem gefinn hafi verið út 10. júní 2014 og endurkrafist greiðslu á 20. apríl 2016. Eftirstöðvar reikningsins nemi kr. 1.075.000, en upphafleg fjárhæð hans hafi verið 1.975.000.

 

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila með bréfi, dags. 3. júní 2016. Þann 23. júní 2015 barst greinargerð varnaraðila. Sóknaraðila var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 28. júní og bárust þær 25. júlí 2016. Varnaraðila var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir vegna þeirra með bréfi þann 2. ágúst 2015. Þær bárust nefndinni 1. september og voru kynntar sóknaraðila með bréfi 6. september.

 

Málsatvik og málsástæður

I

Fyrir liggur að sóknaraðili er eigandi að landi á Vesturlandi. Á landinu eru nokkrar sumarhúsalóðir. Þegar sóknaraðili eignaðist landið var ritað í kaupsamninginn að kaupandi gerði sér grein fyrir kvöðum landeiganda vegna sumarhúsabyggðar og yfirtæki þær, en fyrir lægi að vegir og vatnsveita tilheyrandi skipulagðri sumarhúsabyggð skv. samþykktu deiliskipulagi hefðu ekki verið kláruð, væru ekki í lagi og uppfylltu ekki kröfur. Myndi kaupandi sjá um á sinn kostnað að koma þessu í lag í samráði við eigendur sumarhúsalóða á landinu." Umrædd kvöð var sprottin af upphaflegri sölu sumarbústaðalandanna, en um kvöðina, gildi og umfang hennar virðast hafa verið deilur. Aðilaskipti að landinu og einstökum sumarbústaðalóðum, ásamt fleiri löggerningum virðast fremur hafa flækt réttarstöðuna varðandi skyldur landeigandans en einfaldað.

 

Eigendur umræddra sumarbústaðalanda stefndu sóknaraðila í október 2013 og kröfðust þess að honum yrði með dómi gert skylt að leggja til vatnslögn að lóðarmörkum hverrar lóðar í sumarhúsabyggðinni og leggja vegi í samræmi við gildandi deiliskipulag. Stefndu leituðu upphaflega til B hdl. Hann fékk varnaraðila til að taka málið að sér, en varnaraðili mun á þeim tíma hafa verið fulltrúi á stofunni.

 

Í máli þessu nýtur við nokkurra tölvupóstsamskipta um það sem aðilum fór á milli varðandi kostnað og reikningagerð. Með tölvupósti 26. nóvember bauð sóknaraðili að varnaraðili gæti greitt áfallandi kostnað eftir því sem aðstæður hans leyfðu hverju sinni, eða jafnvel greitt allan málskostnað í einu lagi þegar málinu væri lokið.

 

Málið tapaðist í héraði og er dómur héraðsdóms upp kveðinn í júlí 2014. Þá var sóknaraðili dæmdur til að greiða gagnaðilum sínum 1.500.000 kr. í málskostnað.

 

Málinu var áfrýjað og sáu aðrir lögmenn en varnaraðili um málatilbúnað, en um deilu vegna málskostnaðar sóknaraðila í Hæstaréttarmálinu er fjallað í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 16/2015. Dómur Hæstaréttar í málinu var kveðinn upp 12. mars 2015. Varð niðurstaðan sú að málinu var vísað frá héraðsdómi vegna þess sem rétturinn taldi óljósan málatilbúnað af hálfu gagnaðilanna. Var sóknaraðila þessa máls þá jafnframt dæmdur 1.200.000 kr. málskostnaður á báðum dómstigum úr þeirra hendi.

 

Jafnframt störfum að héraðsdómsmálinu kom varnaraðili að nokkrum öðrum smærri verkefnum fyrir varnaraðila, en deilt er um umfang þeirra. Sum þessara verkefna tengdust ofangreindum deilum, s.s. kæra til lögreglu vegna meints húsbrots nágranna og athugun á heimildarlausri þinglýsingu á fasteign sóknaraðila. Þá sýna gögn málsins að sóknaraðili kom að skráningu á vsk. númeri fyrir sóknaraðila.

 

Ekki virðist vera ágreiningur um fjárhæð þeirra reikninga sem sóknaraðili hefur gefið út eða hvaða greiðslur varnaraðili hefur innt af hendi vegna þeirra. Er ómótmælt þeirri staðhæfingu sóknaraðila að hann hafi alls greitt varnaraðila 3.280.117 kr., en að ágreiningur þeirra snúi að 1.075.000 kr. eftirstöðvum lokareiknings hans. Nema útgefnir reikningar sóknaraðila því samkvæmt þessu 4.355.117 kr., að meðtöldum umdeildum lokareikningi hans. Í síðari athugasemdum sóknaraðila kemur þó fram að hann hafi greitt kr. 3.400.117, en sú fjárhæð er ekki studd gögnum.

 

Nánar tiltekið gaf sóknaraðili út einn reikning (nr. 23) þann 31. des 2013. Þar er innheimt fyrir 31,5 tíma vinnu vegna lögfræðiþjónustu í þágu varnaraðila, alls 787.500 kr. auk vsk. Næsti reikningur sóknaraðila (nr. 24) er dagsettur 4. febrúar 2014 og er tímafjöldi og fjárhæð hans sú sama. Ekki liggur fyrir með hvaða reikningi eða reikningum var svo innheimt (alls 804.359 kr. samkvæmt ofangreindu) fyrr en lokareikningur sóknaraðila vegna héraðsdómsmálsins (nr. 32) var gefinn þann 10. júní 2014, þ.e. sama dag og aðalmeðferð var haldin í málinu. Heildarfjárhæð hans er 1.975.758 kr. Með þeim reikningi er innheimt fyrir óverulegan útlagðan kostnað og akstur, en jafnframt er innheimt fyrir 75,75 tíma vinnu, alls 1.508.064 kr. auk vsk.  Þessi lokareikningur styðst við tímaskýrslu yfir unna tíma frá 29. apríl til 10. júní 2016.

 

II

Sóknaraðili krefst þess að lokareikningur varnaraðila sæti endurskoðun og telur sóknaraðili eðlilegt að hann greiði 300.000 til viðbótar af reikningnum, en í þeirri niðurstöðu myndi felast að fjárhæð lokareikningsins yrði færð úr 1.975.758 kr. í 1.200.758 kr. Sóknaraðili telur nauðsynlegt að líta á gjaldtöku varnaraðila í heild sinni, en lokareikningur varnaraðila líti út eins og hann hafi aldrei áður fengið neitt greitt fyrir málið.

 

Sóknaraðili telur áskilið endurgjald varnaraðila of hátt í heild sinni. Of margir tíma séu skráðir á óþörf símtöl og stundum skráðir of margir tímar. Tímaskráning beri einnig með sér að of mikill tími sé skráður á samskipti við skjólstæðing og vitni, yfirferð yfir kaupsamning o.þ.h. hluti, en hafa beri í huga að varnaraðili hafi verið búinn að vinna lengi í málinu þegar þessir tímar voru skrifaðir og hefði varla átt að þurfa að verja svona miklum tíma í að setja sig inn í skjöl eða að ræða við vitni.

 

Þá hafi komið fram athugasemdir frá dómara málsins og þeim hæstaréttarlögmanni sem tók við málinu í þá veru að framsetning varnaraðila á málinu væri ruglingslegur og að hann hafi gengið of langt í skriflegum málatilbúnaði í greinargerð sinni.

 

Sóknaraðili fullyrðir að gagnaðilar sínir í dómsmálinu hafi greitt 1,9 milljónir vegna þess. Hæstiréttur hafi hins vegar dæmt honum 1.200.000 í skaðabætur vegna málskostnaðar á báðum dómstigum.

 

Sóknaraðili kveðst aldrei hafa verið kynnt tímagjald varnaraðila, enda hafi hann ætlað sér að ráða B til starfa. Það hafi fyrst verið þegar fyrsti formlegi reikningur var sendur sem tímagjaldið hafi orðið honum ljóst og hafi honum blöskrað hvað það var hátt. Sóknaraðili telur varnaraðila gera of mikið úr þeim þætti vinnunnar sem lúti að samskiptum við sóknaraðila.

 

III

Í málatilbúnaði sínum freistar varnaraðili þess að bregða nokkru ljósi á umfang þess máls sem hann rak fyrir sóknaraðila auk annarra starfa. Kemur m.a. fram að framlögð skjöl hafi verið 111 talsins, en það hafi aðeins verið brot þeirra skjala sem málinu tengdust. Þá hafi varnaraðili sinnt stjórnsýslumálum varnaraðila hjá umræddu sveitarfélagi, skipulags- og byggingayfirvöldum, úrskurðarnefnd auðlindamála og hafi skjallegt umfang þeirra einnig verið mikið. Varnaraðili hafi einnig aðstoðað sóknaraðila við að kæra gagnaðila til lögreglu. Varnaraðili kveðst hafa sent á annan tug bréfa f.h. sóknaraðila vegna deilumála þeirra. Varnaraðili kveðst hafa sent a.m.k. á þriðja hundrað tölvupósta þar sem nöfn sóknaraðila og eigenda félagsins komi fyrir. Þá hefur varnaraðili lagt fram í dæmaskyni nokkur skjöl, sem sýna m.a. skrifleg samskipti hans við sóknaraðila í tölvupóstum.

 

Um gjaldtökuna hafi ekki verið samið sérstaklega í upphafi heldur vísað almennt í gjaldskrá lögmannstofunnar L, ehf. þar sem hann starfaði á þeim tíma sem  fulltrúi. Hafi sóknaraðili þekkt til gjaldskrárinnar af fyrri viðskiptum við stofuna. Telur varnaraðili að samkomulag hafi orðið um tímakaup og fyrirkomulag reikninga og styður það gögnum um samskipti aðila.

 

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa átt frumkvæðið að öllum þessum málum. Þá hafi fyrirsvarsmenn sóknaraðila fylgst náið með málunum og verið í miklu sambandi vegna þeirra. Þau hafi t.d. lagt áherslu á að það yrði upplýst hvernig kvöðum hefði verið þinglýst á eign þeirra án þeirrar vitundar. Hafi þetta tekist. Hafnar sóknaraðili því að varnaraðilar geti eftir á knúið fram þá viðmiðun á gjaldtöku að hún miðist við þau verk sem þeir telji nú að hafi „átt að vera" nauðsynleg fyrir  héraðsdómsmálið.

 

Varnaraðili kveðst telja að það hafi verið skýr verkaskipting á milli sín og B hdl., en B hafi gætt hagsmuna annars eiganda varnaraðila. Hefur varnaraðili lagt fram afrit tölvupósts frá 27. nóvember 2013 þar sem hann telur þessa verkaskiptingu koma fram.

 

Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar hafi aldrei gert neinn ágreining um gjaldtöku, fyrr en eftir að öllum málum þeirra hafi verið lokið með hagfelldri niðurstöðu í Hæstarétti og komið var að því að greiða lokareikning eftir nærri árs greiðslufrest. Telur sóknaraðili það langt út fyrir sanngirnis- og skynsemismörk ef nú eigi að endurmeta öll störf og alla þóknun hans frá upphafi viðskiptanna. Þá bendir varnaraðili á að eftir að lokareikningur var gefinn út hafi sóknaraðili haldið áfram að óska eftir þjónustu hans, bæði vegna dómsmálsins og tengt öðrum málum. Það sé í andstöðu við málsástæður sóknaraðila að hann hafi óskað eftir svo löngum greiðslufresti reikningsins án þess að gera athugasemdir og haldið áfram að óska þjónustu varnaraðila á þeim tíma. Ekki hafi verið gefinn út reikningur vegna þessara síðari starfa og í ljósi óánægju sóknaraðila kveðst varnaraðili ekki hafa í hyggju að gera það.

 

Niðurstaða

I

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

 

Kröfur sóknaraðila eru alfarið fjárhagslegs eðlis og er litið svo á að málið sé eingöngu rekið á grundvelli 26. gr. Sammæli er með aðilum um að leggja þann skilning í málið að ársfrestur sóknaraðila til að bera málið undir nefndina hafi ekki verið liðinn þegar erindi þeirra barst og fellst nefndin á það.

 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Í 15. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

 

II

Nefndin telur ekki að sóknaraðili geti stutt málatilbúnað sinn nú við að hann hafi verið ósáttur við hvernig viðskiptasamband hans við varnaraðila komst á eða hvernig staðið var að gjaldtöku, kynningu á henni eða innheimtu. Skýrlega liggur fyrir í málinu að aðilar málsins áttu í vinsamlegum samskiptum vegna gjaldtökunnar og að sóknaraðili greiddi athugasemdalaust reikninga varnaraðila. Nefndin telur tímagjald stefnanda ekki óhóflegt, enda þótt það hafi verið nokkuð í hærra lagi á þessum tíma miðað við héraðsdómslögmann með stuttan starfsferil.

 

Sóknaraðili gerði fyrst athugasemd vegna gjaldtökunnar, alllöngu eftir að lokareikningur vegna héraðsdómsmálsins hafði verið gefinn út, við aðalmeðferð þess. Enda þótt fallast megi á það með varnaraðila að ekki séu efni til að endurskoða alla gjaldtöku hans vegna allra starfa í þágu sóknaraðila frá upphafi, verður ekki litið með öllu fram hjá þeim reikningum sem hann hafði áður gefið út og vörðuðu m.a. héraðsdómsmálið. Hlaut sóknaraðili að líta svo á að þessi fyrri gjaldtaka væri að verulegu leyti til komin vegna starfa að málinu, enda er þeirri staðhæfingu sóknaraðila ómótmælt að hann hafi ekki fengið tímaskrár með fyrri reikningum sem bæru með sér fyrir hvaða verkefni væri innheimt. Þegar metið er hvert er sanngjarnt endurgjald fyrir þau störf sem varnaraðili innti af hendi frá 29. apríl til 10. júní 2014, verður því að líta til þess að héraðsdómsmálið var á þessum tíma langt komið og töluverð fjárhæð hafði þá þegar verið innt af hendi vegna þess. Verður varnaraðili í þessu sambandi að bera nokkurn halla af því að í málinu liggja ekki fyrir tímaskýrslur hans vegna dómsmálsins frá fyrra tímamarki.

 

Héraðsdómsmálið sem varnaraðili rak í þágu sóknaraðila var allflókið dómsmál. Ýmsir löggerningar höfðu verið gerðir varðandi þá skyldu sem málið snerist um. Að málssókninni stóð stór hópur lóðaeigenda, sem hafði fengið umræddar lóðir keyptar með fjölda löggerninga, sem ekki voru samhljóða. Krafan studdist við ummæli í greinargerð með breytingu á skipulagi, en fékk einnig stuðning af löggerningi sem færði fasteign sóknaraðila í hans hendur.  Um ástand vega og vatnslagna virðast ekki hafa legið fyrir aðgengilegar upplýsingar. Reyndi á ýmis réttarfarsatriði í málinu, auk þess sem fjallað var um gildi og þýðingu margs konar löggerninga, sem gerðir höfðu verið.

 

Þrátt fyrir að ekki sé allt upplýst um umfang og aðdraganda þeirra starfa sem sóknaraðili innti af hendi fyrir varnaraðila og flest tengdust sömu deilum og héraðsdómsmálið, telur nefndin að leggja verði til grundvallar að tímaskráningar fyrir verkefni á borð við „samskipti við LRH vegna brots í opinberu starfi vegna þinglýsingarvottorðs" og „Samskipti við lögreglu v húsbrots stefnenda á K..." hafi verið vegna starfa í þágu sóknaraðila og að sóknaraðili sé skuldbundinn til að greiða fyrir þau.

 

Þegar litið er til allra ofangreindra sjónarmiða telur nefndin að sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að hinn umdeildi reikningur varnaraðila sé allt of hár. Fyrirliggjandi tímaskýrsla sóknaraðila fyrir tímabilið 29. apríl - 10. júní 2014 lýsir því ágætlega við hvað er starfað hverju sinni. Á hinn bóginn telur nefndin ekki að tímaskýrslan eða annar málatilbúnaður varnaraðila megni að skýra fyllilega af hverju þurfti að verja ríflega 60 vinnustundum til vinnslu héraðsdómsmálsins, til viðbótar því sem áður var unnið, eftir miðjan maí og fram að aðalmeðferð málsins 10. júní. Verður þá ekki fram hjá því litið að fyrir þetta tímamark hafði mikil vinna verið lögð í málið og mátti gera ráð fyrir að varnaraðili væri kominn vel inn í efni þess. Miklu af þessum tíma virðist hafa verið varið í samskipti við vitni og fleiri aðila auk undirbúnings aðalmeðferðar.

 

Eins og mál þetta hefur verið lagt fyrir nefndina telur hún því rétt að áskilið endurgjald varnaraðila samkvæmt lokareikningi hans sæti nokkurri lækkun og verði fjárhæð hans ákveðin kr. 1.350.000. Þessi niðurstaða felur í sér að sóknaraðili skal greiða varnaraðila kr. 450.000 og er virðisaukaskattur þá meðtalinn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hæfilegt endurgjald varnaraðila, G, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, V ehf., samkvæmt reikningi nr. 32 er kr. 1.350.000 að virðisaukaskatti meðtöldum. Varnaraðili skal greiða sóknaraðila kr. 450.000.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Kristinn Bjarnason hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson