Mál 14 2016

Ár 2016, föstudaginn 14. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 14/2016:

A

gegn

S

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 31. maí 2016 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir því að kærði, S hdl., hafi ekki sinnt skyldum sínum sem réttargæslumaður kæranda í máli sem varðaði ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að fallast á beiðni albanskra dómsmálayfirvalda um framsal kæranda.

 

Kærði hefur ekki tjáð sig um erindið, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli úrskurðarnefndar til hans um að hann gerði grein fyrir afstöðu sinni til þess. Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 3. júní 2016. Þann 27. júlí 2016 ítrekaði nefndin tilmæli til varnaraðila um að hann gerði nefndinni grein fyrir málinu af sinni hálfu. Í því bréfi var kærði minntur á skyldur sínar gagnvart umbjóðendum sínum og gagnvart úrskurðarnefndinni. Bent var á að bærust umbeðnar upplýsingar ekki í síðasta lagi 8. ágúst 2016 mætti hann búast við að nefndin beitti þeim viðurlögum, sem kveðið væri á um í 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Engin svör eða viðbrögð hafa borist frá kærða vegna málsins.

 

Málsatvik og málsástæður

Samkvæmt erindi kæranda og fram lögðum gögnum eru málavextir í stuttu máli þeir að kærði sinnti starfi réttargæslumanns samkvæmt lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum í framsalsmáli kæranda. Hann mætti með kæranda á lögreglustöð kl. 11:30 þann 27. apríl 2016, þar sem honum var kynnt ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að fallast á framsalsbeiðni albanskra yfirvalda í máli kæranda. Í skýrslu lögreglu um þessa fyrirtöku kemur fram að kæranda var kynnt að hann gæti innan sólarhrings krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort lagaskilyrði til framsalsins væru fyrir hendi, en beina skyldi þeirri kröfu til ríkissaksóknara. Þá kemur einnig fram að kærandi kvaðst þarna ætla að nýta sér þennan rétt og bera málið undir héraðsdóm. Loks kemur fram í lok skýrslunnar að kærði áréttaði sérstaklega þá fyrirætlan að óska eftir úrskurði dómstóla um ákvörðun ráðuneytisins. Kærandi kveður þá hafa rætt þetta atriði sérstaklega með aðstoð túlks. Skýrslutökunni lauk kl. 12:22

Þennan sama dag mætti kærði með kæranda í héraðsdóm vegna kröfu um farbann.  Hins vegar sendi hann hvorki ríkissaksóknara né innanríkisráðuneyti kröfu um úrskurð um hvort skilyrði framsals væru fyrir hendi fyrr en með tölvuskeyti kl. 20:54 þann 28. apríl.

 

Ríkissaksóknari hafnaði því bréflega að bera kröfuna undir dóm þar sem krafa um úrskurð hefði ekki verið sett fram innan sólarhrings tímafrestsins. Hins vegar benti embættið í bréfi þessu kærða á að 2.ml. 2.mgr. 14.gr. laganna þar sem fram kemur að „Ef sérstakar ástæður mæla með getur dómsmálaráðuneytið leyft að ákvörðun um framsal sé borin undir dómstól þótt framangreindur frestur sé liðinn.". Er í bréfinu óskað eftir að slíkt erindi verði þá sent sem fyrst og helst ekki síðar en 13. maí. Þá liggur fyrir staðfesting ráðuneytisins á því að kærði hafi ekki sent neina beiðni um leyfi til að afla úrskurðar á þessum grunni.

Kærandi kveðst hafa reynt að ná í kærða í byrjun maímánaðar til að leita frétta af máli sínu bæði í síma og með því að heimsækja starfstöð hans. Í framhaldinu leitaði hans til annars lögmanns sem komst að því í hvaða ógöngur málið var komið.

Kærandi kveðst hafa treyst því að málið væri í réttum farvegi hjá kærða og það hafi verið sér mikið áfall að komast að því að vörnum yrði tæpast komið við vegna vanrækslu hans.

 

Niðurstaða

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu.Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur þeim.

Í 8. gr. siðareglnanna kemur fram að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna.  Þá kemur fram í 12. gr. að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða.

Samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni skylt að boði úrskurðarnefndar lögmanna að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á siðareglunum. Ber lögmanni í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum nefndarinnar.

Að framan er lýst tilraunum ríkissaksóknara til að vekja athygli kærða á þeim möguleikum sem hann hafði til að freista þess að knýja fram endurskoðun dómstóla á framsalsákvörðuninni og hvernig kærði virðist hafa hunsað þær tilraunir. Einnig er  að framan lýst hvernig kærða hefur verið veittur rúmur frestur af hálfu úrskurðarnefndar til að gera grein fyrir máli sínu, en hann hefur ítrekað hunsað tilmæli nefndarinnar þar að lútandi.

Að mati úrskurðarnefndar felur framferði kærða, sem hér hefur verið lýst, þ.e. sú vanræksla hans að senda ekki kröfu um dómsúrskurð innan lögmælts frests, brot á starfsskyldum hans samkvæmt siðareglum lögmanna, sbr. m.a. ofangreind ákvæði 8. og 12. gr. reglnanna. Var sú vanræksla eða þau mistök sem fólust í þessu, til þess fallin að valda kæranda mjög stórfelldum réttarspjöllum, en ljóst er að framsalsmálið varðaði hann gríðarlega miklu, enda þótt ekkert sé upplýst um hversu líklegt mátti telja að dómstólar féllust á kröfur hans. Mun alvarlegra er þó algjört sinnuleysi kærða þegar ríkissaksóknari benti honum á að erindi hans hefði borist of seint, en að mögulegt kynni að vera að bæta úr því.Einnig felur framferði hans í sér brot á skyldum hans gagnvart nefndinni, sbr. 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, enda þótt nefndin telji að málið sé nægilega upplýst þrátt fyrir þessa vanrækslu kærða. Hefur kærði þannig sýnt af sér hegðun sem telja verður lögmannastéttinni ósamboðna og sætir hann áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laganna. 

Er vanræksla kærða á skyldum sínum svo stórfelld að nefndin mun taka til skoðunar í rökstuddu áliti hvort lagt verður til við sýslumann að lögmannsréttindi hans verði tímabundið felld niður.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 

Kærði, S hdl., sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

                                                                                Kristinn Bjarnason hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson