Mál 24 2016

Ár 2017, þriðjudaginn 28. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið mál nr. 24/2016:

A hdl.

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

                                                                  Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 13. október 2016 kvörtun kæranda, A héraðsdómslögmanns. Þar er kvartað yfir tiltekinni hegðun og háttsemi kærða, B hæstaréttarlögmanns, gagnvært kæranda og skjólstæðingi hans. Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindis kæranda með bréfi dags. 20. október 2016, þar sem fram kom að nefndin teldi að kvörtunin byggðist á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og bárust andsvör hans þann 8. nóvember 2016. Var kæranda sent bréf hans til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 24. nóvember 2016 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda sem sendar voru kærða 1. desember 2016. Svar kærða barst 20. desember 2016 og var sent kæranda til upplýsingar með bréfi dags. 29. desember 2016. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Hinn 26. ágúst 2016 mætti kærandi ásamt umbjóðanda sínum, C, á stjórnarfund í einkahlutafélagi, þar sem umbjóðandi kæranda er stjórnarmaður, honum til halds og trausts vegna ágreinings hans við tiltekna aðra hluthafa um hlutafé, atkvæðavægi, fyrirhugaða ráðstöfun eigna o.fl. Með þeim var héraðsdómslögmaðurinn D. Fundurinn fór fram á skráðri starfsstöð félagsins í Reykjavík. Stjórnarformaður félagsins hringdi inn á fundinn en þar voru ráðgjafar hans staddir, kærði og annar nafngreindur maður.

Um atvik málsins liggur ekki annað fyrir en frásögn kæranda, sem staðfest er af D og C, en andmælt af kærða, svo sem síðar er rakið. Virðist þó mega leggja til grundvallar að óumdeilt sé að fundurinn var haldinn svo sem að ofan er rakið og að stjórnarformaðurinn sleit símasambandi á meðan umbjóðandi kæranda var enn að lesa upp sérálit sem færa átti í gerðarbók félagsins. Einnig að þá hafi kærði gert kröfu um að umbjóðandi kæranda viki úr fundarherberginu, jafnvel þótt sá síðarnefndi teldi að stjórnarfundi væri ekki lokið. Atvik að öðru leyti virðast umdeild og verður fjallað um frásagnir hvors aðila um sig af þeim hér að neðan.

 

II.

Kærandi krefst þess að kærði verði áminntur fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998.

 

Kæranda segist svo frá að eftir nokkurt orðaskak og umræður hafi kærandi ákveðið að ganga út úr fundarherberginu ásamt lögmanni þeim, sem var með honum í för, og fram á gang. Umbjóðandi kæranda hafi  hins vegar orðið eftir í herberginu. Kærandi mun þá hafa snúið við til að gæta að umbjóðanda sínum en þá hafi verið búið að loka dyrunum að fundarherberginu. Þegar kærandi hugðist opna dyrnar hafi hann orðið þess var að þeim væri haldið lokuðum hinu megin. Hafi hann ýtt frekar við hurðinni og komist í dyragættina. Segist hann þá hafa orðið vitni að því að kærði hótaði umbjóðanda hans því að færi hann ekki að vilja kærða skyldu gerðar opinberar upplýsingar sem kæmu honum illa. Lýsir kærandi því að kærði hafi reynt að loka hann úti með því að leggjast á hurðina og skella henni á hann og segja honum að „koma sér út". Þegar það hafi ekki borið árangur hafi kærði lagt hendur á kæranda og reynt að ýta honum út úr fundarherberginu með afli. Það hafi ekki tekist og kærði stigið til baka þegar kærandi lýsti yfir að kærði hefði lagt hendur á annan lögmann. Hafi þá hafist einhliða flaumur fúkyrða og dónaskapar frá kærða.

 

Á meðan þessu hafi D, sem fylgdi kæranda á fundinn, staðið rétt fyrir aftan hann og orðið vitni að uppákomunni í heild sinni.

Með kærunni fylgja skriflegar yfirlýsingar umbjóðanda kæranda og D, sem var viðstaddur og áður er getið, til staðfestingar á frásögn kæranda. Þá hafa báðir þessir menn hafnað skriflega svörum kærða við þessum yfirlýsingum og umbjóðandinn lýst því hversu kærði hótaði honum með því að kærði vissi um hann hluti.

 

Kærandi byggir á því að kærði hafi gerst brotlegur við I. og IV. kafla siðareglna lögmanna, sbr. m.a. 1. og 2. gr. siðareglnanna sem og 25. gr. sömu reglna með því að meina kæranda aðgang að fundarherbergi þar sem umbjóðandi hans var inni.

 

Með sama hætti hafi kærði með því að leggja hendur á kæranda og reynt að ýta honum úr fundarherberginu gerst brotlegur við 1., 2. og 25. gr. siðareglna lögmanna. Auk þess feli framangreind háttsemi kærða í sér brot gegn 26. gr. siðareglna lögmanna. Engar málsástæður geti réttlætt að einn lögmaður leggi hendur á annan lögmann þegar þeir gegna skyldum sínum og störfum.

 

Þá byggir kærandi á því að með framangreindri háttsemi hafi kærði reynt að koma í veg fyrir að kærandi hefði aðgang að umbjóðenda sínum sem feli í sér sjálfstætt brot á 26. gr. siðareglna lögmanna.

 

Einnig sé byggt á því að með því að hafa í hótunum við umbjóðanda kæranda hafi kærði gerst brotlegur við 26., 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna. Í því samhengi beri að hafa í huga að kærði hafi áður, í öðrum málum, gætt hagsmuna umbjóðanda kæranda og því felist í orðum kærða skýr hótun um brot á 22. gr. laga um lögmen, nr. 77/1998. Kærandi telur að brot kærða sé sérlega alvarlegt og ásetningurinn skýr þar sem hann á sama tíma hélt áfram að meina kæranda sem lögmanni aðgang að fundarherberginu.

 

Kærandi telur ekki vera sérstaka ástæðu til að kvarta yfir orðbragði kærða en að ljóst sé af málsástæðum að orðræða hans hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum, sbr. m.a. 27. gr. siðareglna lögmanna.

 

Loks komi til sjálfstæðrar skoðunar hvort viðvera kærða á stjórnarfundinum og sú afstaða hans að neita að víkja af fundinum, þrátt fyrir skýra kröfu umbjóðanda kæranda þar að lútandi, hafi verið andstæð 11. gr. siðareglna lögmanna og 2. mgr. 22. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998. Í þeim efnum vísist til þess að á stjórnarfundinum voru til umræðu mál er vörðuðu hagsmuni einkahlutafélagsins í öðru félagi, þar sem kærði var skráður stjórnarmaður á þeim tíma sem hér um ræðir. Viðvera kærða á fundinum hafi verið í hæsta máta óeðlileg.

 

III.

Kærði kveðst ekki hafa ástæðu til að elta ólar við „hugaróra" kæranda. Upplifun manna af sama atburði sé ólík og sannist hið fornkveðna af kæru kæranda að enginn sé dómari í eigin sök. Ekki bæti það heldur málatilbúnað kæranda að hann láti bæði starfsmann sinn og skjólstæðing „búa til frásögn sem fellur að hugmynd hans um hinn árásargjarna lögmann, sem beitir líkamlegum aflsmunum og fúkyrðum við hagsmunagæslu sína". Kærði vísar til framangreindra yfirlýsinga sem „utanréttarvottorða" innan tilvitnanamerkja og segir þau engu breyta. Hann bíði þess bara að kærandi útvegi áverkavottorð fyrir líkamlegt og andlegt tjón „eftir allt þetta ofbeldi".

 

Niðurstaða

Í 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn kemur fram að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr., geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum ef sakir eru miklar.

 

Í 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar kemur fram að hún taki afstöðu til sönnunargildis framkominna yfirlýsinga og gagna, sem þýðingu hafa fyrir úrslit máls. Í 2. mgr. ákvæðisins segir síðan að ef í máli eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, getur nefndin vísað máli frá.

 

Það er að mati nefndarinnar hafið yfir vafa að sú framganga sem lýst er í kæru og í þeim bréfum sem umbjóðandi kæranda og samstarfsmaður hans hafa undirritað, fæli í sér brýnt og alvarlegt brot gegn góðum lögmannsháttum og mörgum ákvæðum siðareglna lögmanna.

 

Eins og málsmeðferð er háttað fyrir nefndinni er á hinn bóginn útilokað að koma fram þeirri sönnun á málsatvikum sem í kæru greinir, sem er nauðsynleg til að unnt væri að leggja þau til grundvallar gegn andmælum kærða. Telur nefndin óhjákvæmilegt að vísa málinu frá vegna þeirra örðugleika sem eru á því að leysa úr sönnunaratriðum.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Snævarr hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson