Mál 25 2016

Ár 2017, föstudagur 24. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 25/2016:

Þ, J og BB ehf.

gegn

F hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. október 2017 erindi kærenda, Þ, J og BB ehf. vegna F hrl., þar sem kvartað var yfir innheimtuháttum kærða. Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 20. október 2016. Kærði skilaði greinargerð vegna málsins þann 7. nóvember 2016.

Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða með bréfi dags. 14. nóvember. Bárust athugasemdir frá kærendum 5. desember 2016 og voru kynntar kærða  með bréfi 8. desember. Athugasemdir kærða vegna bréfsins bárust 14. desember og voru kynntar kærendum 29. desember um leið og kynnt var að ráðgert væri að umfjöllun nefndarinnar um málið hæfist snemma árs 2017.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Kærði vann á árinu 2014 að ýmsum málum fyrir umbjóðanda sinn, Þ, sem er kærandi í þessu máli. Kom hann m.a. að því að freista þess að kaupa hlut í hesthúsi fyrir hana í húsi sem hún átti fyrir eignarhlut í, en það gekk ekki eftir. Síðar keypti kærði sjálfur hlut í umræddu hesthúsi. Dóttir kærandans Þ er J, sem einnig er kærandi í þessu máli og á einnig hlut í umræddu hesthúsi. Félagið BB, sem er þriðji kærandinn í málinu er í eigu hinna tveggja kærendanna í máli þessu og á enn einn eignarhlutinn.

 

Það kastaðist í kekki í samskiptum kærða við þennan umbjóðanda sinn nálægt áramótum 2015 og 2016. Virðist það upphaflega hafa verið vegna samstarfsörðugleika í umræddu hesthúsi, en m.a. taldi kærði að umbjóðandinn hefði leigt út hans hlut í húsinu á meðan hann var erlendis og rekið tamningastöð í öllu húsinu. Spruttu af þessu hatrammar deilur og batt kærði enda á öll lögmannsstörf sín fyrir kæranda Þ. Deilur þessar hafa m.a. tekið á sig þá mynd að þess hefur verið freistað að selja eignarhlut kærða á grundvelli laga um fjöleignarhús og sameigendurnir hafa kært hver annan til lögreglu. Þá hefur kærandinn Þ bæði borið ágreining við kærða vegna þóknunar fyrir umrædd lögmannsstörf fyrir nefndina og kvartað við hana yfir framgöngu lögmannsins. Þá hafa núverandi lögmenn hennar kvartað til úrskurðarnefndarinnar yfir brotum kærða gegn siðareglum lögmanna auk þess sem hann hefur kvartað til nefndarinnar yfir meintum brotum þeirra. Er öllum þessum málum lokið með fyrri úrskurðum nefndarinnar þar sem m.a. er komist svo að orði að samskipti sameigenda í umræddu hesthúsi hafa farið algjörlega úr böndum.

 

Sakarefni þessa máls hverfist um að kærði er einn skráður fyrir mælum tveggja dótturfyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur í umræddu hesthúsi. Óumdeilt virðist að kærði hafi  alfarið séð um að greiða umrædda reikninga. Þá virðist einnig óumdeilt að kostnaður þessi á með réttu að skiptast niður á eigendur hússins í réttu hlutfalli við eignarhluti þeirra.

 

Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti þar sem kærði freistar þess að fá endurgreidda hlutdeild í orkureikningum. Í tölvuskeyti frá 16. júní 2016, sem starfsmaður kærða virðist hafa sent þeim lögmönnum sem aðstoðað hafa kærendum í deilum þeirra við kærða, segir m.a. að í meðfylgjandi viðhengi sé yfirlit frá Orkuveitunni vegna greiðslu á rafmagni og heitu vatni. Þá segir einnig „Meðfylgjandi er skjal þar sem eignarhlutur hvers og einn kemur fram og hve mikið hver og einn á að greiða skv. eignarhluta".

 

Þann 7. júlí 2016 sendi kærði öllum kærendum innheimtuviðvörun  þar sem taldir eru upp númeraðir reikningar, tiltekin hlutdeild viðkomandi eiganda ásamt fjárhæð sem viðkomandi er ætlað að greiða í reikningnum. Þá er tiltekin summa þessara fjárhæða, reiknaðir dráttarvextir og bætt við 900 kr. auk vsk. vegna innheimtuviðvörunar og 1.000 kr. vegna útlagðs kostnaðar lögmanns. Þá er skorað á móttakendur að greiða kröfuna innan 10 daga og komast þannig hjá innheimtukostnaði. Kærði undirritaði þessar viðvaranir sjálfur og þær eru ritaðar á bréfsefni lögmannsstofu kærða sem við hann er kennd.

 

Þann 26. ágúst 2016 sendi lögmannsstofa kærða innheimtubréf til kærendanna J og BB ehf., sem byggðu á sömu reikningum. Þá hafði innheimtuþóknun að fjárhæð 19.762 bæst við kröfuna í tilviki kærandans J, en 26.154 í tilviki BB ehf. Þá höfðu innborganir verið dregnar frá kröfunni og námu þær 10.341 í tilviki kærandans J, en 25.853 í tilviki kærandans BB ehf. Gert er ráð fyrir undirritun kærða á innheimtubréfin, en starfsmaður lögmannsstofu kærða hefur undirritað þau fyrir hans hönd.

 

Kærendur öfluðu sér reikningsyfirlita frá Orkuveitu Reykjavíkur. Eru þau framlögð í málinu og virðast dagsett 28. september og 3. október 2016. Á yfirlitunum kemur fram að fjórir reikningar hafa verið bakfærðir þann 6. júní 2016, en þeir eru samt á meðal þeirra reikninga sem mynduðu stofn að þeirri kröfu sem kærði freistaði þess að innheimta hjá kærendum.

 

Kærðu virðast hafa komið athugasemdum sínum vegna hinna niðurfelldu reikninga til kærða og fyrir liggja ný innheimtubréf hans til kærðu, dags. 23. september, þar sem fjárhæðir hafa verið leiðréttar til lækkunar.

 

II.

Kærendur krefjast þess að kærði verði áminntur og beittur viðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá krefjast kærendur málskostnaðar fyrir nefndinni úr hendi kærða. Þeir leggja áherslu á að um hafi verið að ræða innheimtu kærða í krafti þeirrar lögbundnu heimildar sem hann hafi til innheimtustarfsemi.

Kærendur byggja á því að kærði hafi verið grandvís um að umræddir reikningar hefðu verið bakfærðir þegar hann sendi út innheimtuviðvaranir og innheimtubréf vegna þeirra.

Kærendur telja að kærði hafi freistað þess að blekkja þau með því að senda frá sér Excel yfirlit og láta sem þau stöfuðu frá Orkuveitunni.

Kærendur telja að kærði hafi ekki gætt ákvæða reglugerðar um hámark innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009. Sé áskilinn innheimtukostnaður hans úr öllu hófi.

Þá telja kærendur rétt að mótmæla því að kærði vísi í umræddum Excel yfirlitum á persónulegan reikning sinn. Fari það gegn lagaákvæðum um innheimtu.

Kærendur telja að þeir hafi orðið fyrir kostnaði vegna framgöngu kærða, en hún hafi valdið því að óhjákvæmilegt var að þeir óskuðu lögmannsaðstoðar til að verjast ólögmætum kröfum.

Loks kveðast kærendur í upphaflegu erindi sínu vilja gera alvarlegar athugasemdir við efni tölvubréfs kærða, dags. 6. október 2016.

 

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni, en setur þó fram ákveðnar efnislegar varnir. Verður litið svo á að hann krefjist þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

 

Frávísunarkrafa kærða byggir á því að hann hafi ekki sinnt neinum lögmannsstörfum fyrir kærendur. Skilyrði 27. gr. lögmannalaga eigi því ekki við. Kærði hafi einfaldlega lagt út fyrir sameiginlegum kostnaði og óskað eftir kærendur endurgreiddu honum sinn hluta. Hann hafi verið skráður fyrir mælum samkvæmt uppástungu þess sem seldi honum eignarhlutann. Er á því byggt af hálfu kærða að hann hafi ekki komið fram sem lögmaður heldur einfaldlega sem sameigandi sem óskaði eftir greiðslu á hlutdeild í útlögðum kostnaði.

 

Kærendur hafi ekki greitt sinn hluta þrátt fyrir óskir hans, en engar athugasemdir gert við reikninga eða útreikninga kærða. Þeim hafi því verið send innheimtuviðvörun en síðar innheimtubréf. Eftir að kærðu hafi útvegað ný reikningsyfirlit Orkuveitunnar þar sem fram kom að einstakir reikningar hefðu verið felldir niður, hafi málinu ekki verið fylgt eftir með þingfestingu dómsmála, heldur þess verið freistað að finna út úr því hver raunverulega staða væri. Kærði kveðst hafa verið í góðri trú um að raunveruleg skuld væri á bak við alla reikninga Orkuveitunnar, enda hafi hann verið búinn að greiða þá alla.

 

Niðurstaða

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. innheimtulaganr. 95/2008 fer fer úrskurðarnefnd lögmanna með eftirlit gagnvart lögmönnum samkvæmt þeim lögum og lögum um lögmenn. 

Nefndin lítur svo á að athugasemdir kærenda við tölvubréf kærða til lögmanna þeirra, dags. 6. október feli ekki í sér sjálfstætt umkvörtunarefni, enda hefur þegar verið fjallað ítarlega fyrir nefndinni um umræddar skeytasendingar og ekki að sjá að umrætt skeyti bæti neinu við það sem þar var fjallað um. Þá skýra kærendur erindi sitt svo í athugsemdum sínum frá 5. desember 2016 að það varði eingöngu ólögmæta frum- og milliinnheimtu kærða, en ekki skuli rugla öðrum deilumálum á milli aðila inn í það.

Upphaflegar tilraunir kærða til að fá kærendur til að greiða sína hlutdeild í sameiginlegum reikningum voru augljóslega án nokkurra tengsla við innheimtustarfsemi, eins og hún er skilgreind í innheimtulögum og voru réttmætar og raunar umfram skyldu. Engar skýringar eru fram komnar á því af hverju kærendur endurgreiddu ekki kærða einfaldlega þann kostnað sem hann hafði lagt út fyrir þau sameiginlega.

Eftir að sú staða var komin upp að kærendur endurgreiddu kærða ekki þessa hlutdeild sína var honum fyllilega heimilt að leita innheimtu kröfunnar. Þurfti hann hvorki innheimtuleyfi, né heldur að byggja innheimtuna á ákvæði 2. mgr. 3. gr. innheimtulaga þar sem fram kemur að lögmenn megi stunda innheimtu án innheimtuleyfis, enda er þar eingöngu átt við innheimtu fyrir aðra.

Það virðist hins vegar óumdeilt að kærði hafi sett innheimtuna í þann farveg að fela sinni eigin lögmannsstofu að innheimta kröfuna. Virðist nefndinni að framsetningin á innheimtuviðvörun og innheimtubréfi sé með þeim hætti að það verði að líta svo á að um sé að ræða hefðbundna innheimtu lögmannsstofu, sem lúti sömu skilyrðum og önnur innheimta sem lögmenn og lögmannsstofur annast. Eigi innheimtan því undir nefndina samkvæmt ákvæði 2. mgr. 15. gr. innheimtulaga og geti samkvæmt því komið til álita að nefndin beiti þeim heimildum sem henni eru faldar í 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga vegna kvörtunarinnar, en kærði beri sem lögmaður ábyrgð á störfum stofunnar.

Ekki er annað fram komið en að fjárhæð kröfunnar hafi byggst á þeim orkureikningum sem kærði var búinn að borga fyrir alla húseigendurna sameiginlega. Átti hann réttmæta kröfu á hendur sameigendum sínum um endurgreiðslu á hluta reikninganna.  Þá liggur ekkert fyrir um af hverju Orkuveitan felldi niður fjóra þessara reikninga og bakfærði á viðskiptamannreikning húseigendanna. Fæst ekki séð að nokkurt brot hafi verið framið með því að krefja kærendur um hlutdeild í þessum útlagða kostnaði. Þá virðist kærði hafa stöðvað frekari aðgerðir við löginnheimtu þegar honum varð bakfærslan ljós. Verður að hafna því að innheimta kröfunnar hafi í sjálfri sér falið í sér neitt brot af nokkru tagi.

Stendur þá aðeins eftir athugasemd kærenda við þá fjárhæð innheimtukostnaðar sem kærði áskildi sér í innheimtubréfum sínum frá 26. ágúst. Nefndin telur að með útsendingu þeirra bréfa hafi löginnheimta kærða á kröfunum hafist, sbr. niðurlag 24. gr. a lögmannalaga. Áttu ákvæði reglugerðar nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. með síðari breytingum því ekki við á því tímamarki.

Þegar einstakar kröfur eru teknar til löginnheimtu fylgir því ávallt nokkur fastur kostnaður, jafnvel þótt um lágar kröfur sé að ræða. Er það án vafa ástæða þess að í lögum um innheimtu er gerð skýr krafa um að skuldari fái ávallt senda innheimtuviðvörun þar sem honum er gefinn kostur á að greiða kröfuna án innheimtukostnaðar. Það er óumdeilt að kærendur fengu í hendur lögmælta innheimtuviðvörun eins og fyrr er rakið, þar sem þau voru vöruð við því að innheimtukostnaður myndi bætast við kröfuna ef ekki yrði brugðist við. Enda þótt innheimtukostnaðurinn sé vissulega hár að tiltölu við skuldina, verður því að telja að þar sé einfaldlega um að ræða afleiðingu af greiðsludrætti kærenda sem kærði geti ekki borið ábyrgð á.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að hafna því að beita kærða viðurlögum vegna framgöngu sinnar.

Rétt þykir að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, F hrl. hefur ekki brotið gegn lögum, siðareglum lögmanna eða góðum innheimtuháttum gagnvart kærendum,  Þ, J og BB ehf. með innheimtu sinni á hlutdeild þeirra í reikningum.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarrhrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Kristinn Bjarnasonhrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson