Mál 11 2017

Ár 2017, 6. október 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2017:

A hrl.,

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. febrúar 2017 erindi kæranda, A hrl., með starfsstöð að D, Reykjavík, en í því er kvartað yfir því að kærði, B hrl., með starfsstöð að C, Reykjavík, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. K hrl. gætir hagsmuna kærða í málinu fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 14. febrúar 2017 og barst hún þann 7. mars 2017. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 8. mars 2017. Hinn 17. mars 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til lögmanns kærða þann 22. sama mánaðar. Svar kærða barst 5. apríl 2017 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 6. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Með úrskurði Héraðsdóms Y uppkveðnum x. september 2016 var bú E ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Mun kærandi hafa verið skipaður skiptastjóri búsins þann sama dag.

Með bréfum kæranda til nánar tilgreindra einkahlutafélaga, dags. 22. og 23. desember 2016, voru settar fram fjár- og riftunarkröfur á hendur félögunum fyrir hönd ofangreinds þrotabús. Á grundvelli þeirra atvika og röksemda sem lýst var í bréfunum var því mati kæranda, sem skiptastjóra, lýst að ekki hefði aðeins verið um heimildarlausu sjálftöku félaganna að ræða vegna staðlausra krafna og riftanlega löggerninga heldur fælu þær ráðstafanir sem bréfin tóku til í sér refsiverðan verknað með vísan til XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var gerð krafa um það í bréfunum að umrædd félög endurgreiddu umkrafðar fjárhæðir inn á fjárvörslureikning kæranda. Þá var tiltekið að ef greiðslur yrðu ekki inntar af hendi fyrir árslok 2016 yrði strax á nýju ári höfðuð riftunar- eða endurkröfumál á hendur félögunum auk þess sem kærur yrðu sendar til embættis héraðssaksóknara á hendur fyrirsvarsmönnum félaganna fyrir fjárdrátt og/eða skilasvik.

Viðkomandi félög höfnuðu öllum kröfum kæranda fyrir hönd þb. E ehf. með nánar tilgreindum röksemdum og skýringum í bréfum, dags. 28. og 30. desember 2016. Voru í bréfum þessum gerðar verulegar athugasemdir við að kærandi, sem skiptastjóri, skyldi hóta því að bera uppá fyrirsvarsmenn félaganna sakargiftir sem ekki væri nokkur fótur fyrir. Í svarbréfi kæranda til annars félagsins, dags. 28. desember 2016, var því lýst að ekki yrði um neitt samið og að það eina sem um væri að ræða væri að félagið samþykkti riftun og greiddi framkomna kröfu þrotabúsins fyrir árslok. Að öðrum kosti yrði lögð fram kæra á hendur fyrirsvarsmönnum félagsins til héraðssaksóknara þann 2. janúar 2017 auk þess sem riftunarstefna yrði gefin út í þeirri sömu viku.

Þann 30. desember 2016 sendi H hrl. tölvubréf til kæranda vegna krafna þb. E ehf. á hendur ofangreindum félögum. Var því þar lýst að félögin hefðu leitað til lögmannsins og falið honum að gæta hagsmuna þeirra í tengslum við riftunarmál á hendur þeim. Óskaði lögmaðurinn eftir viðbótarfresti til 6. janúar 2017 til þess að taka endanlega afstöðu til framkominna krafna. Kærandi svaraði tölvubréfi þessu þennan sama dag og samþykkti umbeðinn frest.

Með tölvubréfi H hrl. til kæranda þann 6. janúar 2017 var upplýst um að kærði myndi fara með málin fyrir hönd félaganna og að svarbréf væru í vinnslu sem send yrðu í vikunni á eftir.

Kærandi svaraði tölvubréfi þessu þennan sama dag þar sem hann óskaði eftir staðfestingu á því að skilningur hans væri réttur um að kröfur þrotabúsins yrðu ekki greiddar. Þá upplýsti hann um að boðaðar kærur til embættis héraðssaksóknara yrðu útbúnar þá um helgina auk þess sem dráttarvextir og kostnaður myndu bætast við kröfur þrotabúsins.

Lögmenn félaganna, þ. á m. kærði, og kærandi áttu í frekari tölvubréfasamskiptum þann 6. janúar 2017. Kom fram hjá lögmönnum félaganna að skilningur kæranda væri réttur en að efnislegra svara vegna krafna þrotabúsins væri að vænta þar sem skýringar yrðu veittar á umþrættum ráðstöfunum. Í svörum kæranda kom fram að hann hefði skoðað málin mjög vel og hefði öll gögn málsins undir höndum. Myndi bréf frá kærða engu breyta. Lýsti kærandi því mati sínu að um riftanlega gerninga væri að ræða auk þess sem refsinæmið væri borðliggjandi. Kvaðst kærandi hafa vonast til þess að lögmaður félaganna myndi koma vitinu fyrir sinn umbjóðanda og af þeim sökum hefði frestur verið veittur. Aðspurður staðfesti kærandi að það eina sem kæmi í veg fyrir kæru til embættis héraðssaksóknara að morgni mánudagsins á eftir væri greiðsla krafnanna að fullu.

Þann 9. janúar 2017 lagði kærandi fram boðaðar kærur til embættis héraðssaksóknara. Þann sama dag sendi kærði bréf til kæranda þar sem ítrekuð voru sjónarmið og röksemdir viðkomandi félaga og því lýst að öllum kröfum þb. E ehf. væri hafnað.

Þann 11. janúar 2017 sendi kærði fyrir hönd nánar tilgreindra umbjóðenda sinna kvörtun yfir starfsháttum kæranda, sem skiptastjóra þb. E ehf., til Héraðsdóms Y. Var því lýst í kvörtuninni að framganga kæranda væri með þeim hætti að ekki yrði hjá því komist að vekja athygli dómsins á henni, með vísan til 76. gr. laga nr. 21/1991, þá sérstaklega 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins. Var þess óskað í kvörtuninni að héraðsdómari gripi til aðgerða samkvæmt 1. og 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991.

Þann 18. janúar 2017 barst úrskurðarnefnd lögmanna erindi kærða fyrir hönd nánar tilgreindra umbjóðenda sinna en í því var kvartað yfir því að kærandi hefði brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Er tilgreint mál rekið samhliða máli þessu fyrir nefndinni sem málið nr. 5/2017 en nefndin hafnaði kröfu um sameiningu málanna á þeim grundvelli að um sitthvort ágreiningsefnið væri að ræða.

Um svipað leyti mun kærði hafa sent yfirlýsingu til fjölmiðla vegna fréttar um kæru sem kærandi hafði sent til héraðssaksóknara „með ósönnum áskökunum“, eins og greinir í yfirskrift yfirlýsingarinnar, á hendur nánar tilgreindum umbjóðendum kærða. Var meðal annars tiltekið í yfirlýsingunni að kærandi, sem skiptastjóri, hefði ekki haft áhuga á að hlusta á efnisleg rök og skýringar í málinu. Hafi því vakið furðu að kærandi hefði kosið þess í stað að kæra til héraðssaksóknara og lekið svo kæru sinni samhliða til fjölmiðla.

Í kjölfar þessa átti kærandi í tölvubréfasamskiptum við framkvæmdastjóra á lögmannsstofu kærða auk þess sem kærði mun hafa beðist afsökunar gagnvart kæranda á efni yfirlýsingarinnar í tölvubréfi þann 23. janúar 2017.

Á skiptafundi þb. E ehf. sem haldinn var þann 20. janúar 2017 var bókað í gerðabók skiptastjóra að kröfuhafar samþykktu fyrir sitt leyti að þrotabúið rifti ráðstöfunum á hendur þeim félögum sem kærði annaðist hagsmunagæslu fyrir og gerðu ekki athugasemdir, að einum kröfuhafa undanskildum, við þá ákvörðun kæranda sem skiptastjóra að leggja fram kæru til embættis héraðssaksóknara vegna málanna. Þá var bókuð afstaða kröfuhafa, að einum undanskildum, varðandi kvörtun á starfsháttum skiptastjóra til Héraðsdóms Y þar sem því var lýst að ekkert tilefni væri til þess af hálfu kröfuhafa í búinu að gera athugasemdir við störf kæranda sem skiptastjóra.

Með bréfi kæranda til Héraðsdóms Y, dags. 10. febrúar 2017, voru veitt andsvör vegna fyrrgreindrar kvörtunar yfir starfsháttum hans sem skiptastjóra. Var kröfu um að Héraðsdómur Y gripi til aðgerða samkvæmt 1. og 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 sérstaklega mótmælt.

Ofangreint kvörtunarmál, sem rekið var á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991, var fyrst tekið fyrir í Héraðsdómi Y þann x. mars 2017 og fékk það málsnúmerið x/2017. Málið var tekið fyrir á nýjan leik þann x. sama mánaðar þar sem lögmenn tjáðu sig um málið og komu á framfæri athugasemdum sínum við dóminn. Var eftirfarandi bókað í þingbók málsins í kjölfar þess:

Dómari færir til bókar að þótt telja megi vinnubrögð skiptastjóra hafa verið aðfinnsluverð hvað varðar aðdraganda að framsendingu erindis til héraðssaksóknara telur dómari þó engin efni til að víkja honum úr starfi á grundvelli 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 eða beita öðrum úrræðum í málinu þar sem líta verði svo á að hann hafi þegar bætt úr og uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991. Dómari tekur fram að líta verði svo á að skylda skiptastjóra í tilvikum sem ákvæðið tekur til sé skýlaus að undangengu því mati sem ákvæðið felur í sér. Þá tekur dómurinn fram að í því máli sem hér er til umfjöllunar hafi skiptastjóri þegar veitt aðilum tækifæri til að koma að athugasemdum. Með vísan til framangreinds telur dómari málinu þannig lokið. Ekki eru athugasemdir við það af hálfu lögmanna.

Máli þessu er þar með lokið.“

II.

Kvörtun kæranda lýtur að ýmsum atriðum og þáttum í störfum kærða í tengslum við málefni skjólstæðinga aðilans gagnvart þb. E ehf. og kæranda sem skiptastjóra búsins. Gerir kærandi kröfu um að kærði verði beittur viðurlögum í samræmi við 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í fyrsta lagi beinist kvörtun kæranda að því að kærði hafi að ástæðulausu og ófyrirsynju beint þarflausri og óréttmætri kvörtun að Héraðsdómi Y fyrir hönd skjólstæðinga sinna, vegna skiptastjórastarfa kæranda í þb. E ehf., í þeim tilgangi einum að trufla störf kæranda við að gæta réttmætra hagsmuna þrotabúsins og kröfuhafa.

Hafi kærandi lagt mikla vinnu við að upplýsa þau mál þrotabúsins sem hafi síðan orðið tilefni til riftunar og kærubréfa til héraðssaksóknara. Í stað þess að gangast við þeirri háttsemi sem kærandi hafi lýst í samskiptum við kærða og skjólstæðinga hans hafi þeir tekið þá ákvörðun að þráast við. Þegar fyrir hefði legið að kærandi, sem skiptastjóri, væri ekki reiðubúinn að gefa neitt eftir af hagsmunum þrotabúsins hafi sú ákvörðun verið tekin að hjóla í kæranda sjálfan persónulega til að knýja hann til eftirgjafar.

Kveður kærandi það mjög alvarlegt að lögmaður, sem áttar sig á vonlausum og vondum málsstað skjólstæðinga sinna, skuli fara þá leið að veitast að þeim lögmanni persónulega sem gegni starfi skiptastjóri í því skyni að reyna að veikja hann í því starfi sínu að tryggja réttmætar heimtur við skipti þrotabús.

Er það mat kæranda að með því bréfi og tilheyrandi fylgigögnum sem kærði sendi Héraðsdómi Y hafi hann gegn betri vitund og af hörðnuðum ásetningi gefið dómstólnum rangar upplýsingar um staðreyndir og lagaatriði. Byggir kærandi á að með háttsemi þessari hafi kærði brotið gegn 20. og 27. gr. siðareglna lögmanna.

Í öðru lagi beinist kvörtun kæranda að því að kærði hafi að ástæðulausu og ófyrirsynju beint þarflausri og óréttmætri kvörtun að úrskurðarnefnd lögmanna fyrir hönd skjólstæðinga sinna, vegna skiptastjórastarfa kæranda í þb. E ehf., í því skyni einu að trufla störf kæranda við að gæta réttmætra hagsmuna þrotabúsins og kröfuhafa. Vísar kærandi um þetta efni til sömu sjónarmiða og áður er lýst.

Í þriðja lagi byggir kærandi á að kærði hafi brotið gegn siðareglum lögmanna með því að hafa í bréfi til Héraðsdóms Y sakað kæranda um refsiverða háttsemi með broti í opinberu starfi sem skiptastjóri og opinber sýslunarmaður, sbr. XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Geti kærandi ekki setið undir því að í formlegu erindi til Héraðsdóms Y sé hann sakaður um refsiverða háttsemi. Þá hafi kærði vitað betur þegar hann hafi sett þetta fram. Telur kærandi að með þessari ómálefnalegu gagnrýni hafi kærði brotið gegn 27. gr. siðareglna lögmanna.

Auk þess byggir kærandi á að kærði hafi með kvörtun til Héraðsdóms Y brotið gegn 31. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið sé á um að í innbyrðis deilum beri lögmanni, sem hyggst kæra annan lögmann fyrir yfirvöldum eða dómstólum, að gera honum og stjórn Lögmannafélags Íslands aðvart áður og gefa þeim kost á að tjá sig um málefnið. Samkvæmt þessu ákvæði hafi kærða borið að gera félaginu aðvart áður en hann bar fram sakir á hendur kæranda um brot í starfi við Héraðsdóm Y.

Í fjórða lagi byggir kærandi á að kærði hafi haft uppi óviðeigandi ummæli.

Er um það efni annars vegar vísað til eftirfarandi ummæla í yfirlýsingu kærða til fjölmiðla:

Það vekur því furðu að lögmaðurinn kjósi þess í stað að kæra til héraðssaksóknara og leki svo kæru sinni samtímis til fjölmiðla.

Tekur kærandi fram að hann hafi ekki haft nokkur samskipti við fjölmiðla vegna þeirra kærubréfa til héraðssaksóknara sem yfirlýsing kærða tók til. Kærandi hafi hins vegar sent kröfuhöfum afrit af kærum og fylgigögnum, sem og nokkrum fyrrum stjórnendum, þ.e. aðilum sem allir hafi haft lögvarða kröfu til að fá slíkar upplýsingar. Ekki sé aðeins um óþolandi dylgjur að ræða af hálfu kærða og staðlausa stafi, heldur sé einnig verið að bera kæranda á brýn brot í starfi án þess að nokkur tilraun hefði verið gerð til að kanna hjá kæranda hvernig fréttir af kærum til héraðssaksóknara hefðu ratað í fjölmiðla. Um þetta efni vísar kærandi jafnframt til þeirrar þagnar- og trúnaðarskyldu sem hvílir á skiptastjóra sem opinberum sýslunarmanni.

Byggir kærandi á að kærði hafi með þessum ummælum brotið gegn ákvæðum 1. gr., 2. gr., 25. gr. og 26. gr. siðareglna lögmanna.

Um þetta efni vísar kærandi hins vegar til kvörtunar sem kærði sendi til Héraðsdóms Y fyrir hönd sinna skjólstæðinga, sbr. nánar tiltekið eftirfarandi ummæli:

...dró það sem í eðli sínu er aðeins einkaréttarlegur ágreiningur inn á svið ákæruvaldsins með hótunum, í því skyni að knýja fram greiðslur á meintum kröfum þrotabúsins.“

Vísar kærandi til þess að ofangreind framsetning sé ósmekkleg auk þess að vera röng. Hafi það verið mat kæranda, sem skiptastjóra, og allra kröfuhafa, að einum undanskildum, að ekki væri aðeins um riftanlega gerninga að ræða heldur einnig refsiverða háttsemi. Kærði, gegn betri vitund, snúi málunum á haus enda hafi ekki verið að þvinga einn eða neinn, heldur þvert á móti verið að sýna skjólstæðingum hans svigrúm, þ.e. með því að gefa þeim kost á að endurgreiða þrotabúinu þá fjármuni sem skiptastjóri teldi að þeir hefðu tileinkað sér með refsiverðum hætti.

            „Voru tilhæfulausar kærur til héraðssaksóknara notaðar sem fjárkúgunartæki.

Vísar kærandi til þess að fjárkúgun sé refsverið samkvæmt 251. gr. almennra hegningarlaga. Ekki sé hægt að skilja ummæli kærða um „fjárkúgunartæki“ öðruvísi en sem áburð um refsiverða háttsemi gagnvart kæranda. Sé óþolandi að slíkar ásakanir séu settar fram með þessum hætti í opinberu erindi til Héraðsdóms Y.

„...bauðst skiptastjóri til að brjóta gegn starfsskyldum sínum samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum gegn greiðslu.

Vísar kærandi til þess að framsetning þessi sé ósmekkleg auk þess að vera röng.

Í samræmi við allt framangreint gerir kærandi kröfu um að kærði verði beittur viðurlögum í samræmi við 43. gr. siðareglna lögmanna.

III.

Kærði hafnar öllum ásökunum kæranda í erindi hans til nefndarinnar og staðhæfingum um meint brot á þar tilgreindum ákvæðum í siðareglum lögmanna. Krefst kærði þess að nefndin synji kröfu kæranda um að kærði verði beittur viðurlögum í samræmi við 43. gr. siðareglna lögmanna.

Vísar kærði til þess að við mat á því hvort lögmaður hafi brotið gegn siðareglum lögmanna, þegar hann er að vinna fyrir skjólstæðinga sína, beri ávallt að hafa í huga að lögmanni ber samkvæmt 8. gr. siðareglnanna að leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og getur við þá hagsmunagæslu ekki sýnt kollegum sínum tillitssemi, sem ekki sé samrýmanleg hagsmunum skjólstæðings.

Sé því ekkert við það að athuga að kærði hafi sent héraðsdómi og úrskurðarnefnd lögmanna kvartanir skjólstæðinga sinna og komið fyrir þeirra hönd á framfæri í kvörtunarbréfunum ásökunum þeirra á hendur kæranda um ótilhlýðilegt atferli og hvað þeir hefðu talið að kærandi hefði brotið gegn þeim.

Vísar kærði til þess að þær umkvartanir og staðhæfingar sem fram komi í kvörtunarbréfunum um ótilhlýðilegt atferli kæranda séu umkvartanir og staðhæfingar skjólstæðinga kærða en ekki persónulegar umkvartanir eða persónulegar skoðanir lögmanns þeirra, þ.e. kærða.

Vísar kærði til þess að lögmanni beri að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hafi kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Sé þegar af þeim ástæðum ekki grundvöllur til að telja að kærði hafi með kvörtunarbréfunum fyrir hönd skjólstæðinga sinna til héraðsdóms og úrskurðarnefndar brotið gegn siðareglunum.

Þá sé ekkert í kvörtunarbréfunum sem bendi til þess að kærði hafi þar samkennt sig skjólstæðingum sínum eða sjónarmiðum þeirra og viðhorfum til framkomu kæranda gagnvart þeim eða hafi þar veist persónulega að kæranda með nokkrum hætti. Auk þess séu umkvörtunarefnin í kvörtunarbréfum skjólstæðinga kærða ekki sett fram með ómálefnalegum eða ótilhlýðilegum hætti, eða gengið lengra en kvörtunarefnin hafi gefið tilefni til.

Varðandi fyrsta umkvörtunarefni kæranda byggir kærði á að ekkert sé hæft í þeim sakargiftum kæranda á hendur kærða. Séu engin sönnunargögn þeim til stuðnings heldur aðeins fullyrðingar. Sé ekkert sem styðji það að kærði hafi gert kvörtun fyrir hönd skjólstæðinga sinna til Héraðsdóms Y í þeim eina tilgangi að trufla störf kæranda sem skiptastjóra.

Byggir kærði á að kæruefnin í tilgreindri kvörtun hafi verið sett fram á málefnalegum grundvelli og að ekki hafi verið gengið lengra en kvörtunarefnin hafi gefið tilefni til. Sé því ekki um brot á siðareglum lögmanna að ræða af hálfu kærða. Það að senda kvörtun fyrir hönd skjólstæðinga sinna til héraðsdóms að gefnu tilefni geti heldur ekki falið í sér brot á siðareglum lögmanna, nema eitthvað annað og meira komi til, sem ekki sé sýnt fram á í þessu tilviki.

Þá vísar kærði til bókunar héraðsdómara frá x. mars 2017 í máli Héraðsdóms Y nr. x/2017. Vísar kærði til þess að í bókuninni komi fram að dómarinn telji að vinnubrögð kæranda sem skiptastjóra hafi verið aðfinnsluverð hvað varðaði aðdraganda að framsendingu erindis kæranda til héraðssaksóknara. Þá hafi héraðsdómari engar athugasemdir gert varðandi kvörtun kærða. Samkvæmt því hafi kvörtun kærða fyrir hönd skjólastæðinga sinna til Héraðsdóms Y yfir starfsháttum kæranda átt rétt á sér að mati héraðsdómara og því fjarri því að vera að ófyrirsynju eða gerð í þeim tilgangi að trufla störf skiptastjóra líkt og kærandi haldi fram. Verði ekki annað ráðið af umræddri bókun en að athugasemdir og ummæli kærða fyrir hönd skjólstæðinga sinna um vinnubrögð kæranda í kvörtunarbréfi til héraðsdóms hafi átt við rök að styðjast að mati héraðsdómara.

Varðandi annað umkvörtunarefni kæranda byggir kærði á að ekkert sé hæft í þeim sakargiftum kæranda á hendur kærða. Séu engin sönnunargögn þeim til stuðnings heldur aðeins fullyrðingar. Byggir kærði á að kæruefnin í kvörtunarbréfi kærða fyrir hönd skjólstæðinga sinna til úrskurðarnefndarinnar hafi verið sett fram á málefnalegum grundvelli og að ekki hafi verið gengið lengra en kvörtunarefnin hafi gefið tilefni til. Sé því ekki um brot á siðareglum lögmanna að ræða af hálfu kærða. Það að senda kvörtun fyrir hönd skjólstæðinga sinna til úrskurðarnefndar lögmanna að gefnu tilefni geti heldur ekki falið í sér brot á siðareglum lögmanna, nema eitthvað annað og meira komi til, sem ekki sé sýnt fram á í þessu tilviki.

Um þriðja umkvörtunarefnið vísar kærði til þess að hann hafi ekki sakað kæranda um refsiverða háttsemi í bréfi til Héraðsdóms Y. Komi fram í tilgreindu bréfi að það séu skjólstæðingar kærða sem telji að kærandi hafi með framkomu sinni gagnvart þeim sýnt af sér refsiverða háttsemi. Hafi kærði þannig aðeins komið á framfæri við héraðsdóm skoðunum og sjónarmiðum skjólstæðinga sinna í því efni. Þá séu kæruefnin og sjónarmið skjólstæðinga kærða sett fram með málefnalegum hætti í kvörtunarbréfinu. Geti ekki falið í sér brot á siðareglum lögmanna, þó lögmaður komi á framfæri við dómstóla eða stjórnvöld kæru með viðhorfi skjólstæðinga sinna til háttsemi annars lögmanns gagnvart þeim, þ. á m. því áliti þeirra að lögmaðurinn hafi sýnt af sér refsiverða háttsemi.

Að því er varðar meint brot á 31. gr. siðareglna lögmanna vísar kærði annars vegar til þess að málsaðilar hafi ekki átt í neinni innbyrðis deilu sín á milli þegar kvörtunarbréf var sent til héraðsdóms heldur hafi þeir aðeins gætt andstæðra hagsmuna skjólstæðinga sinna. Þegar af þeirri ástæðu geti 31. gr. siðareglnanna ekki átt við, þó kærði hafi ekki gert kæranda og stjórn Lögmannafélags Íslands aðvart áður en kvartað var til Héraðsdóms Y. Hins vegar vísar kærði til þess að ekki hafi verið um að ræða kæru til dómstóls í skilningi 31. gr. siðareglnanna heldur kvörtun og aðfinnslur til héraðsdómara á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991 vegna starfshátta skiptastjóra. Eigi 31. gr. siðareglnanna því ekki við einnig af þeim ástæðum.

Um hin meintu óviðeigandi ummæli í yfirlýsingu kærða til fjölmiðla vísar kærði til þess að hann hafi beðist afsökunar á þeim ummælum í tölvubréfi til kæranda þann 23. janúar 2017 og dregið þau til baka. Hafi kærandi í tölvubréfi til framkvæmdastjóra á lögmannsstofu kærða þann 21. janúar 2017 upplýst að afsökunarbeiðni á þessum ummælum og að þau yrðu dregin til baka myndi duga til að hann léti kyrrt liggja. Af þeim ástæðum byggir kærði á að ekki sé efni til að úrskurðarnefnd taki þessi ummæli til meðferðar eða athugi hvort í þeim felist brot á siðareglum lögmanna. Þá verði ekki séð hvernig 26. gr. siðareglnanna geti átt hér við.

Varðandi meint óviðeigandi ummæli kærða í kvörtunarbréfi til Héraðsdóms Y vísar aðilinn til þess að kærði hafi þar aðeins lýst og komið á framfæri, að gefnu tilefni, viðhorfum skjólstæðinga sinna á framkomu kæranda gagnvart þeim, en ekki persónulegum skoðunum sínum á háttsemi hans. Þegar af þeirri ástæðu geti kærði ekki hafa brotið gegn siðareglum lögmanna með kvörtunarbréfi og ummælum þar. Auk þess verði ekki annað séð af málsatvikum en að hin umþrættu ummæli séu efnislega rétt. Sé því ekki um brot á siðareglum lögmanna að ræða.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Samkvæmt 20. gr. siðareglna lögmanna, sem er að finna í III. kafla þeirra þar sem kveðið er á um samskipti lögmanna og dómstóla, má lögmaður aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

Samkvæmt 27. gr. siðareglnanna má lögmaður einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.

Kvörtun kæranda beinist í fyrsta lagi að því að kærði hafi að ástæðulausu og ófyrirsynju beint þarflausri og óréttmætri kvörtun að Héraðsdómi Y fyrir hönd skjólstæðinga sinna, vegna skiptastjórastarfa kæranda í þb. E ehf., í þeim tilgangi einum að trufla störf kæranda við að gæta réttmætra hagsmuna þrotabúsins og kröfuhafa. Þá hafi kærði með kvörtunarbréfinu og fylgigögnum gefið dómstólnum rangar upplýsingar um staðreyndir og lagaatriði. Hafi kærði með þessari háttsemi brotið gegn 20. og 27. gr. siðareglna lögmanna, sem áður er lýst.

Um þetta efni er til þess að líta að kærði beindi hinni umþrættu kvörtun á hendur kæranda til Héraðsdóms Y fyrir hönd sinna skjólstæðinga á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991 þar sem kveðið er á um heimild til að bera skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra undir héraðsdómara. Samkvæmt því átti kærði ekki beina aðild að tilgreindu kvörtunarmáli fyrir héraðsdómi heldur gætti hann þar einungis hagsmuna skjólstæðinga sinna sem kvartenda í málinu á grundvelli hinnar lögbundnu heimildar sem áður greinir. Þá liggur fyrir að í bókun héraðsdómara í málinu frá x. mars 2017, sbr. mál Héraðsdóms Y nr. x/2017, var tiltekið að þótt telja mætti að vinnubrögð kæranda, sem skiptastjóra, hefðu verið aðfinnsluverð hvað varðaði aðdraganda að framsendingu erindis til héraðssaksóknara væru þó engin efni til að víkja honum úr starfi á grundvelli 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 eða beita öðrum úrræðum í málinu. Af bókun þessari verður ekki annað ráðið en að héraðsdómari hafi lagt til grundvallar í málinu að vinnubrögð kæranda, sem skiptastjóra, hefðu verið aðfinnsluverð í því efni sem lýst var í bókuninni. Var málinu lokið með tilgreindri bókun og voru gerðar athugasemdir við þau málalok af hálfu málsaðila.

Fellur það utan við valdsvið nefndarinnar að taka til endurmats eða til efnislegrar skoðunar að öðru leyti niðurstöðu dómstóla og lyktir kvörtunarmála sem rekin eru á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991. Að sama skapi fellur það utan við valdsvið nefndarinnar að leggja efnislegt mat á hvort kærði hafi með kvörtunarbréfi í þágu skjólstæðinga sinna og fylgigögnum sem send voru Héraðsdómi Y gefið dómstólnum rangar upplýsingar um staðreyndir og lagaatriði gegn betri vitund og af ásetningi eins og byggt er á í málatilbúnaði kæranda.

Með vísan til alls framangreinds er að áliti nefndarinnar ekki efni til að telja að kærði hafi brotið gegn 20. og/eða 27. gr. siðareglna lögmanna vegna hinnar umþrættu kvörtunar sem kærði sendi fyrir hönd skjólstæðinga sinna til Héraðsdóms Y á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991.

Þá verður að mati nefndarinnar ekki séð að tilefni sé til að láta kærða sæta agaviðurlögum fyrir það eitt að hafa beint kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna fyrir hönd sinna skjólstæðinga vegna meintra brota kæranda á nánar tilgreindum ákvæðum í siðareglum lögmanna.

III.

Í kvörtun kæranda er á því byggt að kærði hafi brotið gegn 27. gr. siðareglna lögmanna, sem áður er lýst, með því að hafa í bréfi til Héraðsdóms Y sakað kæranda um refsiverða háttsemi með broti í opinberu starfi sem skiptastjóri og opinber sýslunarmaður, sbr. XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafi í þeim málatilbúnaði falist ómálefnaleg gagnrýni kærða á störf kæranda.

Í málatilbúnaði kærða um þetta efni hefur aðilinn vísað til þess að hann hafi ekki sakað kæranda um refsiverða háttsemi í hinu umþrætta bréfi til Héraðsdóms Y. Hafi kærði þannig aðeins komið á framfæri við héraðsdóm skoðunum og sjónarmiðum skjólstæðinga sinna í því efni. Geti ekki falið í sér brot á siðareglum lögmanna, þó lögmaður komi á framfæri við dómstóla eða stjórnvöld kæru með viðhorfi skjólstæðinga sinna til háttsemi annars lögmanns gagnvart þeim, þ. á m. því áliti þeirra að lögmaðurinn hafi sýnt af sér refsiverða háttsemi.

Í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að í samræmi við meginreglu 1. gr., þ.e. að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti og að hann skuli leggja svo til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku, skuli lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglnanna.

Með hliðsjón af framangreindum málatilbúnaði kærða og 8. gr. siðareglna lögmanna, þar sem meðal annars er kveðið á um að lögmaður hafi kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn, er ekki unnt að leggja til grundvallar að þau kvörtunarefni og röksemdir að baki þeim sem lýst var í hinu umþrætta bréfi sem kærði sendi til Héraðsdóms Y fyrir hönd sinna skjólstæðinga hafi falið í sér gagnrýni kærða sjálfs á störf kæranda í skilningi 27. gr. siðareglnanna. Þegar af þeirri ástæðu er því hafnað að kærði hafi með háttsemi sinni brotið gegn tilgreindu ákvæði siðareglnanna.

Á grundvelli sömu sjónarmiða er því hafnað að kærði hafi brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna með einstökum ummælum í því kvörtunarbréfi til Héraðsdóms Y sem hér um ræðir.

Varðandi kvörtunarefni kæranda um að kærði hafi í kvörtunarbréfi til Héraðsdóms Y brotið gegn 31. gr. siðareglna lögmanna, þar sem kveðið er á um að í innbyrðis deilum beri lögmanni, sem hyggst kæra annan lögmann fyrir yfirvöldum eða dómstólum, að gera honum og stjórn Lögmannafélags Íslands aðvart áður og gefa þeim kost á að tjá sig um málefnið, er þess að gæta að um var að ræða kvörtun sem sett var fram á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991 en ekki kæru eins lögmanns á hendur öðrum til yfirvalda eða dómstóla í skilningi 31. gr. siðareglnanna. Er málatilbúnaði kæranda um þetta efni þegar af þeirri ástæðu hafnað.

IV.

Í kvörtun kæranda er að endingu á því byggt að kærði hafi með eftirfarandi ummælum í yfirlýsingu til fjölmiðla brotið gegn 1. gr., 2. gr., 25. gr. og 27. gr. siðareglna lögmanna:

Það vekur því furðu að lögmaðurinn kjósi þess í stað að kæra til héraðssaksóknara og leki svo kæru sinni samtímis til fjölmiðla.

Ágreiningslaust er að kærði sjálfur beindi yfirlýsingu til fjölmiðla í x mánuði 2017 þar sem tilgreind ummæli voru viðhöfð. Þá hefur því ekki verið haldið fram af hálfu kærða í málinu að hann hafi viðhaft þau fyrir og í þágu sinna skjólstæðinga. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að ummælin hafi stafað frá kærða sjálfum og lýst hans eigin skoðunum og mati á þeirri meintu háttsemi kæranda sem yfirlýsingin tók til.

Áður er lýst ákvæði 1. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt 2. gr. siðareglnanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannsstéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 25. gr. siðareglnanna skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þeir skulu sýna hver öðru þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

Í öllum störfum sínum eru lögmenn bundnir ýmsum grundvallarskyldum, en ein sú veigamesta og mikilvægasta er trúnaðarskyldan, þar með talin hin lögbundna þagnarskylda sem kveðið er á um í 22. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 17. gr. siðareglna lögmanna. Framangreind ummæli í yfirlýsingu kærða, sem beint var til fjölmiðla og birt var í opinberum fréttamiðlum í kjölfar þess, verða ekki skilin á annan hátt en að kærði hafi þar með beinum hætti fullyrt að kærandi hefði lekið kæru, sem send hafði verið til héraðssaksóknara, til fjölmiðla og með því brotið freklega gegn trúnaðar- og þagnarskyldu sinni sem lögmaður og opinber sýslunarmaður í starfi sínu sem skiptastjóri.

Með þessum ummælum kærða, sem aðilinn setti fram fyrirvaralaust og án þess að hafa haft nokkuð fyrir sér um réttmæti þeirra, braut kærði gróflega gegn 1. gr., 2. gr., 25. gr. og 27. gr. siðareglna lögmanna. Var með ummælunum í engu gætt að heiðri lögmannastéttarinnar auk þess sem þau voru sérstaklega til þess fallin að valda kæranda álitsspjöllum.

Samkvæmt framlögðum gögnum fyrir nefndinni mun kærði hafa beðist afsökunar á ummælum sínum í tölvubréfi til kæranda skömmu eftir að yfirlýsing kærða var birt í fjölmiðlum. Með hliðsjón af því verður látið við það sitja að veita kærða aðfinnslur vegna háttsemi hans gagnvart kæranda að þessu leyti.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, B hrl., að tilgreina í yfirlýsingu sem beint var til fjölmiðla að kærandi, A hrl., hefði lekið kæru, sem send hafði verið til héraðssaksóknara, til fjölmiðla, er aðfinnsluverð.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson