Mál 15 2017

Ár 2018, 25. janúar 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lög­mannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2017:

A,

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. mars 2017 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærði, B hæstaréttarlögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæð­um siðareglna lögmanna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 29. mars 2017 og barst hún þann 27. apríl 2017. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 17. maí 2017. Hinn 12. júní 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kær­anda og voru þær sendar til lögmanns kærða þann 13. sama mánaðar. Svar kærða barst 28. júní 2017 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 29. sama mánaðar með þeirri athuga­semd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar 13. desember 2017 og 25. janúar 2018 en tafir sem orðið hafa á afgreiðslu málsins má rekja til vanhæfis tveggja reglulegra nefndarmanna, auk eins varamanns, en skipa þurfti nefndarmann ad hoc í málið.

Málsatvik og málsástæður

I.

Forsaga málsins er sú að umbjóðandi kærða, G ehf. sem þá bar heitið G hf., höfðaði mál á hendur C hf. til innheimtu á meintri skuld á grundvelli afleiðusamninga með stefnu sem þingfest mun hafa verið í Héraðsdómi Y þann x. júní 2012. Mun meðal annars hafa verið ágreiningur á milli aðila þess máls um það hvort samningarnir hefðu komist á milli aðila á árinu 2008 auk þess sem deilt var um skuldbindingargildi þeirra að öðru leyti. Er því lýst í málatilbúnaði kærða að þing hafi ekki verið sótt af hálfu umbjóðanda aðilans í þinghaldi í málinu þann x. janúar 2016 og að farist hafi fyrir að boða forföll. Hafi málið því verið fellt niður af þeim sökum með úrskurði þann x. janúar 2016.

Tilgreindur umbjóðandi kærða mun hafa höfðað mál að nýju á hendur sama aðila vegna sakarefnisins og var það þingfest í Héraðsdómi Y þann x. apríl 2016 sem héraðs­dómsmálið nr. E-xxxx/2016. Fer kærði með það mál fyrir hönd G ehf. Er því lýst í málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni að kærandi hafi gegnt starfi aðstoðarmanns forstjóra hjá C hf. á þeim tíma sem sakarefni dómsmálsins varðar. Lúta kvörtunarefni kæranda í máli þessu að störfum kærða í þágu umbjóðanda aðilans í tengslum við rekstur dómsmálsins, þ.e. einkum samskipta kærða við kæranda í tengslum við meðferð málsins fyrir héraðsdómi.

Í málatilbúnaði umbjóðanda kærða í ofangreindu héraðsdómsmáli er á því byggt að stofnað hafi verið til hluta þeirra samninga sem fjallað sé um í dómsmálinu dagana 6. og 7. október 2008 að beiðni C hf. um framlengingu eldri samninga. Framlenging þessara samninga hafi farið fram með þeim hætti að eldri samningum hafi verið lokað á gjalddaga og í þeirra stað stofnað til nýrra samninga bæði að formi og efni til. Er á því byggt í málinu að kærandi, sem fyrrverandi starfsmaður C hf., hafi verið tengiliður félagsins við umbjóðanda kærða eftir að nánar tilgreindur fjármálastjóri kæranda hafði látið af störfum.

Greinargerð C hf. í héraðsdómsmálinu var lögð fram á dómþingi þann x. september 2016. Var þess þar aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að félagið yrði sýknað af öllum kröfum umbjóðanda kærða. Er krafa C hf. um sýknu meðal annars byggð á því að félagið hafi ekki óskað eftir framlengingu umþrættra samninga og að þeir hafi því ekki komist á. Þá er jafnframt vísað til þess að nánar tilgreindir starfsmenn félagsins, þ.á.m. kær­andi í máli þessu, hafi ekki haft umboð til að stofna til slíkra samninga.

Undir rekstri héraðsdómsmálsins, nánar tiltekið þann x. október 2016, sendi kærði eftirfar­andi tölvubréf til kæranda með yfirskriftinni „Héraðsdómsmálið G gegn C“:

            „Sæll A,

Ég er lögmaður G í máli sem höfðað hefur verið á hendur C vegna innheimtu gjaldfallinna skiptasamninga milli félaganna (samningar sem gerðir voru árið 2008). Samkvæmt gögnum okkar varst þú í samskiptum við G eftir að þú hófst störf og gerðir fyrir hönd C skiptasamninga við G. Í greinargerð C er því haldið fram að þú hafir ekki haft umboð til þess að gera samningana og þannig gert þá í óþökk félagsins. Slíkt getur haft veruleg áhrif fyrir þig þar sem lög kveða á um að séu samningar gerðir fyrir hönd annars án umboðs getur sá sem þá gerði orðið persónu­lega ábyrgur fyrir þeim.

Með vísan til þessa vildi ég fá að hitta þig og fara yfir málið. Hefurðu tök á því að hitta mig í þessari viku?

Með kveðju,

B.

Kærandi mun ekki hafa svarað tölvubréfi þessu frá kærða.

Með bréfi kærða fyrir hönd G ehf. til kæranda, dags. 9. nóvember 2016, var ofangreindri málshöfðun og kröfum aðila lýst. Var tiltekið að sýknukrafa C hf. byggði í grundvallaratriðum á því að þeir starfsmenn sem hefðu komið fram af hálfu aðilans í umrædd­um viðskiptum, og hefðu stofnað til þeirra samninga sem málið lyti að, hefðu ekki haft umboð til þess. Þá var tiltekið að í málatilbúnaði G ehf. væri á því byggt að kærandi hefði stofnað til hluta samninganna fyrir hönd C hf. Þá var eftirfarandi tekið fram í bréf­inu:

C byggir á því í málinu að félagið hafi ekki stofnað til þessara samninga eða samþykkt þá. Þá heldur C því jafnframt fram að í öllu falli hafir þú aldrei haft umboð til þess að eiga umrædd viðskipti við umbjóðanda okkar fyrir hönd félagsins.

Líkt og gefur að skilja kom þetta umbjóðanda okkar verulega á óvart, enda hafðir þú komið fram fyrir hönd C gagnvart bankanum í ýmsum viðskiptum og verið aðal­tengiliður félagsins hvað gerð afleiðusamninga varðaði, allt frá því að D lét af störfum hjá C og þú tókst við starfi hans. Var umbjóðandi okkar því í góðri trú um að þú hefðir umboð til að gera umrædda samninga enda var það ekki fyrr en með greinargerð C nú í september sl. sem umboðsskorti þínum er haldið fram.

Í ljósi framangreindra fullyrðinga C um umboðsskort er hér með skorað á þig að veita upplýsingar og leggja fram gögn sem sýna fram á að þú hafir haft umboð til að stofna til framangreindra samninga fyrir hönd C, að samningarnir hafi verið sam­þykktir af félaginu eða að þeir séu af öðrum ástæðum skuldbindandi fyrir félagið. Ef slíkar upplýsingar hafa ekki borist innan viku frá dagsetningu þessa bréfs áskilur um­bjóðandi okkar sér rétt til að höfða mál á hendur þér með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 og krefjast skaðabóta vegna þess tjóns sem ætlaður umboðsskortur kann að hafa í för með sér.

Kærandi svaraði ofangreindu erindi með bréfi til kærða, dags. 25. nóvember 2016. Var meðal annars vísað til þess í bréfinu að kærandi gæti ekki setið undir hótun kærða sem ekki væri að­eins illkvitnisleg og bíræfin heldur byggði einnig á röngum staðhæfingum sem settar væru fram gegn betri vitund. Var kærða með bréfinu gefinn kostur á að draga til baka staðhæfingar í áður lýstu bréfi og tölvubréfi sem kærði hafði sent til kæranda.

Er vísað til þess í málatilbúnaði kærða að umbjóðandi aðilans hafi ákveðið að svara ekki til­greindu bréfi kæranda enda hefði afstaða hans til málefnisins legið fyrir með skýrum hætti.

Samkvæmt gögnum málsins er héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/2016 enn til meðferðar fyrir Hér­aðsdómi Y.

II.

Kærandi krefst þess að gerðar verði viðeigandi athugasemdir við kærða vegna þeirra lög­mannshátta sem kvartað er yfir. Þess er jafnframt krafist að kærði verði látinn sæta áminn­ingu, aðfinnslum og/eða öðrum viðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 43. gr. siðareglna lögmanna. Þá krefst kærandi málskostnaður úr hendi kærða að mati úrskurðarnefndar.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að hann sé fyrrverandi starfsmaður C hf. Hafi G ehf. höfðað dómsmál á hendur C hf. þar sem krafist sé greiðslu vegna af­leiðusamninga sem byggt sé á að hafi komist á milli aðila á árinu 2008. Reki kærði það mál fyrir hönd G ehf. Er vísað til þess að kærandi hafi gegnt starfi aðstoðarmanns forstjóra hjá C hf. á þeim tíma þegar umræddir samningar eiga að hafa verið gerðir.

Kærandi upplýsir að sér hafi borist tölvubréf frá kærða þann 24. október 2016, en efni þess er nánar lýst í málsatvikalýsingu hér að framan. Hafi tölvubréfið komið kæranda í opna skjöldu enda hafi hann aldrei gert neina skiptasamninga við viðkomandi umbjóðanda kærða, hvorki fyrir hönd C hf. né annarra. Hafi það því vakið ótta hjá kæranda að sjá því haldið fram að umbjóðandi kærða hefði undir höndum gögn sem sýndu að kærandi hefði gert slíka samninga, enda hlytu slík gögn að vera fölsuð. Þá hafi þær upplýsingar kærða ekki síður vakið undrun að C hf. héldi því eingöngu fram að kærandi hefði gert slíka samninga í óþökk félagsins þar sem kærandi hefði ekki haft umboð til þess að gera þá. Hafi þetta ekki síst vakið óhug í ljósi niðurlags tölvubréfsins þar sem ýjað hafi verið að því að vegna þessarar afstöðu C hf. gæti kærandi verið persónulega ábyrgur fyrir samningunum. Kveðst kærandi hafa kosið að svara ekki tilgreindu tölvubréfi kærða.

Vísar kærandi til þess að í tölvubréfi kærða hafi verið fullyrt, eða í öllu falli gefið mjög sterk­lega í skyn, að umbjóðandi hans hefði undir höndum gögn sem sýndu að kærandi hefði gert, fyrir hönd C hf., skiptasamninga við viðkomandi umbjóðanda kærða. Þau gögn hafi hvorki fylgt með tölvubréfi kærða né hafi kærði sent slík gögn til kæranda síðar. Til séu gögn um samskipti kæranda við umbjóðanda kærða vegna starfa kæranda á þeim tíma sem um­ræddir skiptasamningar áttu að hafa verið gerðir. Útilokað sé að virða þau gögn með þeim hætti að þau jafngildi því að kærandi hafi gert, staðfest, framlengt eða samþykkt skiptasamn­ingum.

Byggir kærandi á að kærði hafi gerst sekur um ósannindi með því að hafa fullyrt fyrirvara­laust, eða í öllu falli gefið sterklega í skyn, að umbjóðandi hans hefði slík gögn undir höndum sem að ofan greinir. Hafi þannig ranglega verið fullyrt í tölvubréfi kærða, eða gefið sterklega í skyn, að til væru gögn sem beinlínis og fyrirvaralaust sýndu að kærandi hefði gert skipta­samninga. Hafi þeim fyrirvaralausu staðhæfingum kærða verið ætlað að skapa ranga eða vill­andi hugmynd hjá kæranda um atvik dómsmálsins og réttarstöðuna í því.

Þá hafi verið gefið í skyn í tilgreindu tölvubréfi að C hf. hefði aðeins borið því við að samningarnir hefðu verið gerðir í óþökk félagsins og umboðsleysi. Hafi sú lýsing á vörnum félagsins í dómsmálinu verið mjög villandi og sett fram til að skapa ranga hugmynd hjá kær­anda um þann réttarágreining sem fyrir hendi væri á milli málsaðila þess.

Er vísað til þess að í bréfi kærða til kæranda, dags. 9. nóvember 2016, hafi verið haldið áfram á sömu braut, en efni þess er nánar lýst í málsatvikalýsingu að framan. Fullyrt hafi verið, eða gefið sterklega í skyn, að sýknukrafa C hf. í dómsmálinu byggði í grundvallaratriðum á því að kærandi hefði ekki haft umboð til að gera þá samninga sem gerðir hefðu verið. Þannig hafi verið látið að því liggja að ekki léki vafi á því að samningar hefðu verið gerðir heldur að varnir í málinu byggðu á þeirri einu forsendu að kærandi hefði ekki mátt gera samningana.

Kærandi kveður að honum sé nú kunnugt um að varnir C hf. hafi alltaf lotið aðallega að því að hvorki félagið, né neinn starfsmaður þess, hafi gert hina umþrættu samninga. Þvert á móti hafi umbjóðandi kærða einhliða framlengt umræddum samningum. Hafi framsetning kærða í tilgreindu bréfi frá 9. nóvember 2016 því bersýnilega verið villandi og til þess fallin að skapa ranga trú hjá kæranda um í hverju varnir félagsins væru byggðar og þar með áhyggj­ur af persónulegri réttarstöðu kæranda.

Þá vísar kærandi til þess að því sé ranglega haldið fram í bréfinu að kærandi hafi tekið við starfi sem fjármálastjóri hjá C hf. Hafi verið skorað á kæranda í niðurlagi bréfsins, á grundvelli rangra og villandi staðhæfinga um málsatvik og réttarágreining umbjóðanda kærða og C hf., að veita upplýsingar og leggja fram gögn sem sýndu að kærandi hefði haft um­boð til að stofna til samninga, að samningarnir hefðu verið samþykktar af C hf. eða að þeir hafi af öðrum ástæðum verið skuldbindandi fyrir félagið. Að öðrum kosti áskildi um­bjóðandi kærða sér rétt til að höfða skaðabótamál á hendur kæranda á þeim grundvelli að kær­andi hefði með umboðsleysi sínu bakað umbjóðanda kærða tjón. Byggir kærandi á að með þessu hafi enn verið reynt að blekkja með því að gefið hafi verið í skyn að fyrir lægi beinn umboðsskortur, þ.e. í gögnum eða á grundvelli viðurkenningar C hf., þegar staðreyndin hafi verið sú að því hafi farið víðs fjarri.

Byggir kærandi á að framangreint framferði kærða, þ.e. tölvubréf kærða frá 24. október 2016 og bréf hans frá 9. nóvember 2016, hafi brotið gegn góðum lögmannsháttum og siðareglum lögmanna. Hafi kærða verið ljós vitnastaða kæranda í framangreindu dómsmáli enda hafi hann verið aðstoðarmaður forstjóra C hf. á þeim tíma sem atvik málsins gerðust.

Kærandi byggir á að framferði kærða hafi ekki samrýmst þeirri skyldu sem kveðið sé á um í 1. gr. siðareglna lögmanna. Hafi kærði beinlínis sagt ósatt í samskiptum við kæranda, sbr. áður lýst tölvubréf og bréf kærða til kæranda. Verði ekki á það fallist hafi kærði í öllu falli með villandi framsetningu og hálfsannleika freistað þess að skapa ranga hugmynd hjá kær­anda um gögn og réttarstöðu kæranda gagnvart G og C hf., sem fyrrverandi vinnu­veitanda aðilans. Fái slíkt ekki samrýmst góðum lögmannsháttum og skyldu kærða samkvæmt 1. gr. siðareglnanna.

Þá byggir kærandi á að ákvæði 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna hafi átt við um samskipti kærða við kæranda og að kærði hafi brotið gegn því ákvæði. Með samskiptunum hafi kærði ekki aðeins verið að kanna hvað kærandi gæti borið fyrir um varðandi atvik málsins eða að gera kæranda kleift að búa sig undir vitnaleiðslu. Þvert á móti hafi tölvubréf og bréf kærða verið tillitslaus og falið í sér tilraun til að hafa áhrif á væntanlegan framburð kæranda.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða er vísað til þess að í málatilbúnaði kærða sé ekki að finna neina tilvísun til gagna sem sýndu eða bentu til að kærandi hefði stofnað til umræddra samninga, enda hafi það ekki verið raunin. Kærði hafi hins vegar sett fram fyrirvaralausa fullyrðingu í tölvubréfi til kæranda um að hann hefði slík gögn undir höndum. Samkvæmt því hafi kærði viðurkennt að hafa sett fram ósanna fullyrð­ingu í tölvubréfinu sem feli í sér verulega ámælisverða háttsemi sem brjóti gegn lögum og siðareglum lögmanna. Er á það bent að kærandi hafi ekki getað stofnað til skiptasamninga með því að óska eftir aðgangi að heimabanka, spyrjast fyrir með almennum hætti um fram­lengingar eða skoða samninga eftir að þeir hafi átt að vera gerðir.

Þá er tiltekið að í málatilbúnaði kærða hafi ekki verið vísað til þess sem greinir í bréfi aðilans, dags. 9. nóvember 2016, um að sýknukrafa C hf. í dómsmálinu byggi „í grundvallar­atriðum á því að þeir starfsmenn sem komu fram af hálfu C í umræddum viðskiptum, og stofnuðu til þeirra samninga sem um ræðir, hafi ekki haft til þess umboð.“ Þá hafi tölvubréf kærða frá 24. október 2016 haft sjálfstætt gildi og falið í sér vísvitandi rangfærslu sem kærði hafi kosið að fjalla ekki um í málatilbúnaði sínum.

Að endingu er málskostnaðarkröfu kærða mótmælt í viðbótarathugasemdum kæranda.

III.

Kærði krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Auk þess er gerð krafa um að kær­andi verði úrskurðaður til að greiða kærða málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998. Samkvæmt því hafnar kærði ásökunum kæranda og byggir á að háttsemi hans hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga og siðareglur lög­manna.

Kærði hafnar því alfarið að hann hafi gert sig sekan um ósannindi eða að hann hafi beitt vill­andi framsetningu eða hálfsannleika til að freista þess að skapa ranga hugmynd hjá kæranda um réttarstöðu hans eða fyrirliggjandi gögn. Er vísað til þess að í fyrirliggjandi samskiptum aðila hafi kærði fjallað um tilgreint dómsmál G ehf. gegn C hf. Hafi kærði þar aðeins greint frá afstöðu umbjóðanda síns til gagna, þ.m.t. endurrita símtala og notkunar heimabanka, sem byggt væri á í málinu. Þótt kærandi kynni að vera ósammála þeirri túlkun á gögnunum breytti það ekki þeirri staðreynd að byggt væri á að kærandi hafi getað skuldbund­ið C hf. og komið að gerð þeirra samninga sem fjallað væri um í dómsmálinu. Það kæmi svo í hlut dómstóla að leysa úr því álitaefni. Ljóst sé hins vegar að umfjöllun kærða í sam­skiptum hans við kæranda hafi ekki falið í sér ósannindi eða hálfsannleika auk þess sem hún hafi ekki verið sett fram með villandi hætti. Þá var vísað til þess í viðbótarathugasemdum kærða að það væri ekki hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna að meta hvort staðhæfingar, sem tekist væri á um fyrir dómstólum, ættu við rök að styðjast. Slík ákvörðun félli undir valdsvið dómstóla.

Kærði mótmælir einnig fullyrðingum kæranda um að umfjöllun hans um varnir C hf. hafi verið villandi og til þess fallnar að skapa ranga trú um á hverju varnirnar væru byggðar. Hafi komið fram með skýrum hætti í samskiptum aðila að varnir C hf. byggðu á því að félagið hefði ekki stofnað til umræddra samninga, sbr. einkum bréf dags. 9. nóvember 2016 sem nán­ar er lýst í málsatvikalýsingu að framan.

Auk þess vísar kærði til þess að fyrir liggi að varnir C hf. byggi meðal annars á því að kærandi hafi ekki haft umboð til að gera samninga fyrir hönd félagsins, sbr. m.a. bls. 13 í greinargerð C hf. til héraðsdóms í málinu. Hafi umfjöllun kærða um þetta atriði í tölvu­bréfi frá 24. október 2016 og bréfi frá 9. nóvember 2016 því ekki verið ósönn eða villandi heldur þvert á móti sannleikanum samkvæm. Hafi þetta verið grundvallarmálsástæða í mála­tilbúnaði C hf. að mati umbjóðanda kærða. Sé það matsatriði hvers og eins hvað sé grundvallaratriði í málatilbúnaði og hvað ekki.

Í samræmi við framangreint byggir kærði á að hann hafi greint frá vörnum C hf. með full­nægjandi hætti í tilgreindum samskiptum við kæranda.

Kærði mótmælir því jafnframt að áskorun eða áskilnaður í niðurlagi bréfsins frá 9. nóvember 2016 hafi falið í sér tilraun til að blekkja með því að gefið hafi verið í skyn að fyrir lægi beinn umboðsskortur, líkt og haldið sé fram í kvörtun kæranda. Er vísað til þess að skorað hafi verið á kæranda að veita upplýsingar eða leggja fram gögn sem sýndu fram á að hann hefði haft umboð til að stofna til umræddra samninga, að samningarnir hefðu verið samþykktir af félag­inu eða að þeir hefðu verið af öðrum ástæðum skuldbindandi fyrir félagið. Byggir kærði á að upplýsingabeiðni þessi hafi bæði verið eðlileg og nauðsynleg vegna þeirra atvika sem áður sé lýst. Hafi því verið eðlilegt að óska eftir þessum upplýsingum, bæði til að skýra málið og til að gefa kæranda kost á að skýra sína hlið á málinu.

Vísar kærði til þess að í bréfinu hafi einnig verið tekið fram að ef engar upplýsingar um þessi atriði bærust áskildi umbjóðandi kærða sér rétt til að höfða mál á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 vegna ætlaðs umboðsskorts. Augljóst sé að um hafi verið að ræða tilkynningu, sem sett hafi verið fram með hefðbundnu orðalagi, um að umbjóðandi kærða kynni að hafa uppi kröfu gegn kæranda ef niðurstaða dómsmálsins yrði sú að hann hefði stofnað til samn­inga án fullnægjandi umboðs. Hafi verið vísað til ætlaðs umboðsskorts, en ekki fullyrt að hann hafi verið staðar.

Hafi kærða bæði verið rétt og skylt að tilkynna kæranda, fyrir hönd síns umbjóðanda, að slík krafa kynni að verða höfð uppi gegn honum. Nægi í því skyni að vísa til þeirra reglna sem gilda um tómlæti, þar sem strangar kröfur séu gerðar til þess að kröfuhafi tilkynni skuldara um kröfu sem skuldari hafi ekki vitneskju um.

Með vísan til alls framangreinds mótmælir kærði því að hann hafi sagt kæranda ósatt eða að hann hafi með villandi framsetningu eða hálfsannleika freistað þess að skapa ranga hugmynd hjá kæranda um gögn eða réttarstöðu hans gagnvart G ehf. eða C hf. Því er jafnframt mótmælt að tölvubréf og bréf kærða hafi verið tillitslaus eða falið í sér tilraun til að hafa áhrif á væntanlegan framburð kæranda. Þá byggir kærði á því að hann hafi ekki í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Beri því að hafna öllum kröfum kæranda í málinu.

Í viðbótarathugasemdum kærða er aukinheldur vísað til 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem meðal annars kemur fram að lögmaður eigi kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjón­armiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Byggir kærði á að hann hafi komið á framfæri skoðunum umbjóðanda síns á gögnum í samskiptum sínum við kæranda. Það leiði af tilgreindu ákvæði siðareglna lögmanna að kærði eigi kröfu til að vera ekki sam­kenndur þeim sjónarmiðum.

Varðandi kröfu um málskostnað vísar kærði til 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998. Telur kærði einsýnt að kvörtun kæranda uppfylli á engan hátt skilyrði laga og siðareglna.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lög­mannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.


 

II.

Í málinu liggur fyrir að kærði sendi kæranda tvö bréf eftir þingfestingu dómsmáls umbjóðanda hans gegn C hf., annars vegar tölvubréf dags. 24. október 2016 og hins vegar bréf dags. 9. nóvember 2016.

A.

Í tölvubréfi kærða 24. október 2016 er fullyrt að samkvæmt gögnum sem kærði og eftir at­vikum umbjóðandi hans hafi undir höndum, þá hafi kærandi verið í samskiptum við umbjóð­anda hans eftir að hann hóf störf hjá C hf. og gert skiptasamninga við umbjóðandann fyrir hönd fyrirtækisins. Jafnframt er staðhæft í tölvubréfinu að því sé haldið fram af hálfu C hf. í greinargerð sem lögð hafi verið fram í dómsmáli vegna réttarágreinings fyrirtækisins og umbjóðanda kærða að kærandi hafi ekki haft umboð til að gera umrædda samninga og hafi hann því gert þá í óþökk fyrirtækisins. Loks segir í niðurlagi tölvubréfsins um afleiðingar þessa að þær geti haft veruleg áhrif fyrir kæranda þar sem lög kveði á um að séu samningar gerðir fyrir hönd annars aðila án umboðs geti sá sem þá gerir orðið persónulega ábyrgur fyrir þeim.

Engin gögn fylgdu ofangreindu tölvubréfi kærða til kæranda og ekki verður séð af þeim gögn­um sem kærði lagði fyrir úrskurðarnefnd að kærandi hafi staðfest, framlengt eða gert þá samn­inga sem um er deilt. Er slíkt hvorki að finna í formi undirritaða samninga af hálfu kæranda, né heldur gefa endurrit samtala kæranda við starfsmenn umbjóðanda kærða tilefni til að ætla að slíkir samningar hafi verið gerðir eða framlengdir, a.m.k. ekki fyrir tilstilli kæranda. Telur úrskurðarnefndin kærða því hafa með fullyrðingum sínum um annað talað gegn betri vitund.

Þá er sú fullyrðing kærða að C hf. hafi í greinargerð sinni fyrir dómi haldið því fram að kærandi hafi skort umboð til að gera umrædda samninga og hann hafi því gert þá í óþökk fyrirtækisins, röng eða inntak greinargerðarinnar í besta falli slitin úr samhengi. Af orðalagi greinargerðar C hf. fyrir dómi sést að af hálfu fyrirtækisins er því haldið fram að engin gögn lægju fyrir í málinu sem sýndu fram á að umræddir samningar hafi verið gerðir við um­bjóðendur kærða, hvorki fyrir tilstilli C hf. né starfsmanna fyrirtækisins. Er þar einnig sérstaklega áréttað að kærandi hafi aldrei haft umboð frá C hf. til þess að eiga umrædd viðskipti, hvorki skriflegt né á öðrum grundvelli. Ekki verður hins vegar séð að í umræddu skjali hafi verið gefið í skyn af hálfu C hf. að kærandi hafi gert umrædda samninga. Verð­ur því að fallast á það með kæranda að framsetning tölvubréfs kærða hafi verið villandi og til þess fallin að skapa ranga trú hjá kæranda um það í hverju varnir C hf. væru byggðar og þar með áhyggjur af persónulegri réttarstöðu hans.

Þær skýringar kærða að hann hafi aðeins verið að greina frá skoðunum umbjóðanda síns á gögnum í samskiptum sínum við kæranda og að hann eigi á grundvelli 2. mgr. 8. gr. siða­reglna lögmanna kröfu á því að vera ekki samkenndur hagsmunum skjólstæðings síns, fá ekki staðist, enda enginn fyrirvari gerður af hálfu kærða um að verið sé að halda fram skoðun um­bjóðandans. Þvert á móti verður inntak tölvubréfsins vart skilið á annan veg en að kærði byggi fullyrðingar sínar á því að hann eða eftir atvikum hann og skjólstæðingur hans hafi undir höndum gögn máli sínu til stuðnings sbr. orðalagið „samkvæmt gögnum okkar“. Verður því að fallast á það með kæranda að orðalag kærða í tölvubréfi hans frá 24. október 2016 hafi ekki verið í samræmi við staðreyndir málsins og þannig verið til þess fallið að blekkja kæranda. Er ekki hægt að útiloka að ofangreind lýsing kærða á málavöxtum og staðhæfing hans þess efnis að kærði og/eða umbjóðandi hans hefðu undir höndum gögn sem sönnuðu aðild kæranda í málinu, hafi verið til þess fallin að vekja ótta og jafnvel óhug hjá kæranda, sérstaklega þegar hafðir eru í huga þeir miklu fjárhagslegu hagsmunir sem um er deilt í málinu og möguleg per­sónuleg ábyrgð kæranda. Telur úrskurðarnefnd að hegðun kærða gangi gegn inntaki 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið er á um að lögmaður skuli svo til allra mála leggja sem hann veit sannast eftir lögum og samvisku sinni.

Þá telur nefndin að kærði hafi með hegðun sinni ekki gætt viðeigandi tillitssemi gagnvart kær­anda og gengið mun lengra en heimildir 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna leyfa, enda hafi kærða mátt vera ljós staða kæranda sem lykilvitnis í málinu vegna starfa sinna hjá C hf. á þeim tíma sem hinir umþrættu samningar áttu að hafa stofnast. Ennfremur verði að horfa til þess að vegna sérstakra tengsla kæranda við C hf., ekki eingöngu á grundvelli fyrrum vinnusambands þeirra á milli, heldur einnig vegna þeirra miklu fjárhagslegu hagsmuna sem eru undir í málinu og kærði fullyrðir að kærandi hafi tekist á hendur í nafni C hf., að stofnast hafi skylda af hálfu kærða til að tilkynna lögmanni C hf. að hann hyggðist hafa samband við kæranda sem lykilvitni í málinu, áður en það var gert eða jafn skjótt og kostur var, sbr. ofangreint ákvæði siðareglna.

B.

Hvað varðar síðara bréf kærða til kæranda, sem dagsett er 9. nóvember 2016, þá kveður þar við allt annan tón. Er þar m.a. vísað til fyrirvara C hf. í greinargerð fyrirtækisins þar sem fram kemur að C hf. hafi aldrei stofnað til þeirra samninga sem um er deilt eða samþykkt þá. Þá er í bréfinu hvergi vísað til þess að kærði eða umbjóðandi hans hafi undir höndum gögn sem sýni fram á að kærandi hafi gert skiptasamninga við umbjóðanda kærða fyrir hönd C. Aðeins er látið við það sitja að skora á kæranda að veita upplýsingar og leggja fram gögn sem sýni fram á umboð hans til að gera samninga fyrir hönd C, að samningarnir hafi verið samþykktir af félaginu eða þeir séu af öðrum ástæðum skuldbindandi fyrir félagið. Jafnframt er í bréfinu áskilnaður um rétt umbjóðanda hans til að höfða mál á hendur kæranda á grund­velli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 og krefjast skaðabóta vegna tjóns sem ætlaður umboðs­skortur kunni að hafa í för með sér. Að mati úrskurðarnefndar verður ekki séð að kærði hafi með því sem þar kemur fram haldið áfram á sömu braut og í fyrra bréfi líkt og haldið er fram af hálfu kæranda, og þannig farið á svig við ákvæði siðareglna lögmanna. Hins vegar telur nefndin, líkt og í tengslum við fyrra bréf kærða til kæranda, að líta verði til þess að vegna sér­stakra tengsla kæranda við C hf. hafi stofnast skylda af hálfu kærða til að tilkynna lög­manni C hf. um að hann hyggðist hafa samband við kæranda áður en það var gert eða jafn skjótt og kostur var, sbr. ákvæði 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Með athafnaleysi sínu hafi kærði vanrækt þessa skyldu.

Að virtu öllu því sem að framan er rakið er það mat úrskurðarnefndar að kærði hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 2. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Telur nefndin í ljósi atvika málsins um ámælisverða framkomu að ræða af hálfu kærða. Með vísan til 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998 er kærða veitt áminning fyrir brot sín.

III.

Hvað varðar kröfu beggja málsaðila um málskostnað úr hendi gagnaðila á grundvelli heimild­ar 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, þykir rétt í ljósi alvarleika brota kærða að hann greiði kæranda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 100.000.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B, hrl., sætir áminningu fyrir brot á 2. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Kærði greiði kæranda málskostnað að fjárhæð kr. 100.000.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Þórunn Guðmundsdóttir hrl.

Valborg Snævarr hrl.

Hjördís E. Harðardóttir hrl.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Ingimar Ingason