Mál 16 2017
Ár 2017, 9. nóvember 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 16/2017:
A,
gegn
B hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S KU R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. mars 2017 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærði, B hæstaréttarlögmaður, með starfsstöð að C, Reykjavík, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. D hrl. gætir hagsmuna kærða í málinu fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 23. mars 2017 og barst hún þann 12. apríl 2017. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 19. apríl 2017. Hinn 3. maí 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til lögmanns kærða þann 9. sama mánaðar. Svar kærða barst 19. maí 2017 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 23. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Samkvæmt gögnum málsins var dánarbú E, sem lést þann x. janúar 2006, tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Y, x. mars 2015. Munu kærandi þessa máls og E hafa verið í hjúskap. Hafði kærandi fengið leyfi sýslumannsins í Reykjavík þann 19. maí 2006 til setu í óskiptu búi. Þann 15. júlí 2014 gekk kærandi í hjónaband að nýju og féll þá niður leyfi aðilans til setu í óskiptu búi.
Kærði gætir hagsmuna nánar tilgreindra lögerfingja við ofangreind dánarbússkipti.
Þann 28. október 2016 var haldinn skiptafundur í tilgreindu dánarbúi á skrifstofu skiptastjóra. Samkvæmt fyrirliggjandi fundargerð var á fundinum farið yfir eignir búsins og verðmæti þeirra. Gerðu fundarmenn ekki athugasemdir við verðmat á eignum dánarbúsins að einum undanskildum vegna afstöðu til verðmætis nánar tilgreindrar lóðar. Tilkynnti skiptastjóri á fundinum að erfingjar fengju frest til 18. nóvember 2016 til að koma með sameiginlega tillögu að skiptalokum en að öðrum kosti myndi skiptastjóri gera frumvarp að úthlutunargerð þar sem byggt yrði á þeirri tillögu skiptastjóra um skiptalok sem lögð hefði verið til grundvallar á skiptafundinum. Var tiltekið að skiptastjóri myndi ljúka við ritun fundargerðar eftir fundinn og senda fundarmönnum til yfirlestrar. Þá skyldu athugasemdir við efni hennar lagðar fram á næsta skiptafundi.
Þann 1. nóvember 2016 sendi skiptastjóri tölvubréf til fundarmanna með fundargerð skiptafundarins frá 28. október 2016. Svaraði kærði tölvubréfi skiptastjóra þann sama dag og upplýsti um að engar athugasemdir væru gerðar.
Með bréfi kærða til skiptastjóra, dags. 12. desember 2016, var frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúinu mótmælt. Lutu mótmælin meðal annars að því að verðmöt skiptastjóra á nánar tilgreindum sumarhúsum væru allt of há. Um það efni sagði meðal annars í efni bréfsins:
„...Í því sambandi er bent á, að við mat skiptastjóra á verðmæti húsanna hafði hann einkum til hliðsjónar gamlar ljósmyndir, lagðar fram af erfingjanum Þóri, sem teknar virðast hafa verið úr nokkurri fjarlægð. Skiptastjóri hlutaðist hins vegar ekki til um, að frekari rannsókn eða skoðun yrði gerð á mannvirkjunum. Fullyrða má, að verðmæti húsanna tveggja er mun lægra en verðmat skiptastjóri gerir ráð fyrir, enda eru húsin gömul að aldri, viðhaldi á þeim hefur verið stórlega ábótavant auk þess sem þau eru byggð af vanefnum. Þá verður við mat á verðmæti húsanna að horfa til þess, að þau eru án lóðarréttinda, en standa nú á landi sem er í óskiptri eign erfingja dánarbúsins. Er því ljóst, að einungis er unnt að koma mannvirkjunum í verð með því að selja þau til flutnings. Þá verður jafnframt að hafa í huga, að umbj. mínir töldu að við mat á verðmæti sumarhúsanna yrði miðað við að þeim fylgdi allt það sem slíkum húsum almennt fylgir, svo sem pallar, vinnuskúrar, heitur pottur, og raf-, vatns- og frárennslislagnir, svo eitthvað sé nefnt. Nú hefur komið í ljós, að gerð hefur verið krafa um það af hálfu annarra erfingja, að þetta sé undanskilið og hefur skiptastjóri tekið undir þau sjónarmið líkt og ráða má af frumvarpi hans.“
Kvörtunarefni kæranda í máli þessu lúta aðallega að ofangreindu bréfi kærða í þágu umbjóðenda aðilans frá 12. desember 2016. Með tölvubréfi F til skiptastjóra þann 13. desember 2016 voru gerðar verulegar athugasemdir við efni bréfs kærða, sem áður er lýst. Mun tilgreindur F einnig vera erfingi við dánarbússkiptin. Samkvæmt fundargerð skiptafundarins frá 28. október 2016 mætti hann á fundinn og annaðist jafnframt mætingu fyrir hönd kæranda og annan tilgreindan erfingja í þeirra umboði.
II.
Í kvörtun kæranda er því lýst að hún lúti að vinnubrögðum kærða í tengslum við skipti dánarbús þar sem kærði hafi farið vísvitandi rangt með um mál og málsatvik, þ. á m. um verklag skiptastjóra og kröfugerð við skiptin, auk þess sem hann hafi neitað að ræða mál til lykta sem gert hafi verið ráð fyrir að lausn yrði fundin á. Gerir kærandi kröfu um að kvörtunin verði tekin til afgreiðslu af hálfu úrskurðarnefndar lögmanna á grundvelli laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna og að kærði verði ávíttur fyrir þá háttsemi sína „að spinna upp andmælaforsendur sem hann veit að eru rangar og neita að ræða mál til lykta þó hann hafi umboð til þess og tefja þannig og draga á langinn einföld skiptamál.“
Í kvörtun kæranda er vísað til þess að málið tengist búskiptum á dánarbúi E. Hafi kærði, á grundvelli umboðs frá hluta erfingja, samþykkt mat allra eigna búsins á skiptafundum. Hafi tvö sumarhús í eigu búsins verið metin eftir aðferð sem kærði hafi sjálfur lagt til auk þess sem það hafi verið tillaga kærða að skiptastjóri dánarbúsins myndi meta sumarhúsin enda löggiltur fasteignasali. Kærði hafi ekki gert athugasemdir við frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúinu þegar eftir því hefði verið kallað á skiptafundum.
Í kjölfar þess hafi kærði mótmælt frumvarpinu fyrir hönd sinna umbjóðenda. Lúta kvörtunarefni kæranda annars vegar að því að kærði hafi samþykkt mat eignanna á skiptafundum en síðar andmælt þeim og hins vegar því að kærði hafi ítrekað farið rangt með forsendur í tilgreindum mótmælum.
Um þetta efni bendir kærandi á að kærði hafi engar athugasemdir gert við mat sumarhúsanna á skiptafundum enda hafi hann sjálfur lagt til matsaðferðina. Þá sé það hreinn uppspuni sem lýst hafi verið í mótmælabréfi kærða, sbr. nánar eftirfarandi: „.. við mat skiptastjóra .. hafði einkum til hliðsjónar gamlar ljósmyndir, lagðar fram af erfingjanum Þóri, sem teknar virðast hafa verið úr nokkurri fjarlægð.“ Kveður kærandi að með þessu hafi kærði farið meðvitað með rangt mál. Þannig hafi skiptastjóri ekki kannast við að tilgreindar upplýsingar á hans vinnubrögðum hefðu verið frá honum komnar, enda rangar. Tilgreindur F hafi engar myndir lagt fram auk þess sem kærði hafi ekki séð myndirnar. Samkvæmt því hafi verið um hreinan uppspuna kærða að ræða. Þá hafi kærði gert a.m.k. tvær tilraunir á skiptafundi til að „spinna upp“ atburðarás til að styðja við fyrirliggjandi mótmæli sem hann hefði verið meðvitaður um að væru líka uppspuni.
Þá vísar kærandi til þess að í bréfi kærða þar sem mótmælum var lýst hafi verið tiltekið að umbjóðendum hans hafi verið ókunnugt um að ákveðnir hlutar sumarbústaðanna yrðu undanskildir við mat á verðmæti þeirra. Bendir kærandi á að ítrekað hafi komið fram á skiptafundum af hálfu aðilans og annarra erfingja, að umbjóðendum kærða undanskildum, að meta ætti hina upptöldu liði sem eignir dánarbúsins og hluta húsanna. Því hafi ávallt verið andmælt af hálfu skiptastjóra og það án þess að kærði hafi skipt sér af eða blandað sér í umræðuna. Þá hafi slíkt hið sama jafnframt komið fram í fundargerðum. Hafi kærða því verið ljóst allan tímann að tilgreindir hlutir ættu ekki að vera hluti af matsverði eignanna í þessu tilviki en að hann hafi kosið að snúa sannleikanum á hvolf í mótmælabréfi.
Þá byggir kærandi á að það sé hreinn uppspuni kærða að krafa hafi komið fram af hálfu annarra erfingja um að hinir tilteknu hlutir sumarbústaðanna yrðu undanskildir við mat á verðmæti þeirra. Engin slík krafa hafi þannig komið fram. Hafi kærða, sem setið hafi alla skiptafundi, verið fullkunnugt um að þarna væri farið með rangt mál.
Vísar kærandi jafnframt til þess að kærði hafi neitað allri þátttöku í umræðum til að leysa málið á skiptafundinum með þeim orðum að hann „þyrfti ekki að ræða við þetta fólk“.
Byggir kærandi á að afar óeðlilegt hljóti að teljast að lögmaður fari ítrekað með rangt mál og búi til „staðreyndir“ sem hafi ekki við neitt að styðjast nema vilja lögmannsins til að fara með rangt mál. Hafi málið af þeim sökum orðið kostnaðarsamara og erfiðara til úrlausnar. Hafi háttsemi kærða að þessu leyti farið í bága við lög auk þess að hafa í för með sér kostnað og ömun fyrir kæranda.
Vísar kærandi til þess að lögmönnum beri að rækja af alúð störf sín. Sé túlkun kærða á því, í ljósi rangfærslna hans og uppspuna, afar undarleg. Geti það aldrei talist af „alúð gert“ að fara með rangt mál og búa til staðreyndir. Auk þess sé það álitshnekkir fyrir aðra lögmenn að meðal þeirra sé lögmaður sem fari vísvitandi rangt með og búi til „staðreyndir“ og atburðarás í nafni umbjóðenda sinna sem aldrei hafi verið.
Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna málatilbúnaðar kærða fyrir nefndinni vísaði aðilinn annars vegar til 1. og 2. gr. siðareglna lögmanna til stuðnings kröfum sínum og hins vegar til 18. gr. laga nr. 77/1998. Þá var málskostnaðarkröfu kærða sérstaklega mótmælt í tilgreindum viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar.
III.
Kærði krefst þess aðallega að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni. Til vara krefst aðilinn þess að kröfum kæranda, um að tilefni sé til athugasemda við störf kærða, verði hafnað. Þá er þess krafist að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar.
Til stuðnings aðal- og varakröfu sinni vísar kærði til þess að kröfugerð, röksemdir og málatilbúnaður kæranda sé verulega óljós auk þess sem af röksemdafærslum kæranda verði með engu móti ráðið til hvaða ákvæða laga eða siðareglna lögmanna sé vísað eða með hvaða hætti kærði geti talist hafa brotið af sér eða gert á hlut kæranda.
Vísar kærði til þess að af kærubréfi kæranda verði þó ráðið að kvörtun aðilans lúti að þeim sjónarmiðum og röksemdum sem teflt hafi verið fram í bréfi kærða fyrir hönd umbjóðenda aðilans, dags. 12. desember 2016, sem sent hafi verið til skiptastjóra í umræddu dánarbúi.
Byggir kærði á að með engu móti verði séð, að með þeirri málsvörn sem byggt hafi verið á af hálfu kærða við hagsmunagæslu hans í málinu geti hann talist hafa brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna eða annarra laga eða reglna. Gildi einu í þessu sambandi þótt sú málsvörn hafi ekki fallið kæranda í geð, enda hefðu kærði og umbjóðendur hans talið að umræddar upplýsingar ættu erindi inn í málið. Þá hafi þau mótmæli verið höfð uppi við búskiptin sem kærði hefði talið rétt og í samræmi við hagsmuni umbjóðenda hans enda mótmælin sett fram í fullu samráði við þá. Slíkt hið sama eigi við um önnur sjónarmið sem teflt hafi verið fram í kærubréfi kæranda sem séu að mestu gildisdómar varðandi ákveðna sýn kæranda á sínum málsstað. Auk þess séu athugasemdirnar verulega óljósar og óskýrar um hvað nákvæmlega við orðfæri og málflutning kærða hafi verið andstætt siðareglum lögmanna. Vísar kærði til þess að lögmönnum beri lagaskylda til þess að gæta réttar umbjóðenda sinna í hvívetna en ekki sérstök skylda til að gæta þess sérstaklega að gagnaðili kunni að vera öndverðrar skoðunar.
Samkvæmt því byggir kærði á að vísa beri kvörtun kæranda frá nefndinni eða eftir atvikum hafna kröfugerð kæranda í málinu. Þá vísar aðilinn til þess að þótt kvörtun kæranda eigi ekki við rök að styðjast og sé tilhæfulaus hafi kærði allt að einu verið nauðugur sá kostur að grípa til varna og koma athugasemdum sínum á framfæri sem hafi haft kostnað í för með sér. Gerir kærði því kröfu um málskostnað úr hendi kæranda vegna reksturs málsins, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 og 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar var vísað til þess að í umþrættu bréfi kærða til skiptastjóra, dags. 12. desember 2016, hefðu m.a. verið gerðar athugasemdir við matsvirði umræddra sumarhúsa og á það bent að skiptastjóri hefði við matið „einkum haft til hliðsjónar gamlar ljósmyndir, lagðar fram af erfingjanum F, sem teknar virðast hafa verið úr nokkurri fjarlægð.“ Bendir kærði á að engar sönnur hafi verið færðar á aldur umræddra ljósmynda eða gæði þeirra, auk þess sem slíkt verði að teljast matskennt. Það hafi hins vegar verið skilningur umbjóðenda kærða að ljósmyndirnar hefðu stafað frá erfingjanum Þóri enda hefðu þær ekki stafað frá umbjóðendum kærða. Hafi því verið gagnályktað á þann veg að þær stöfuðu frá kæranda eða einhvers á hans vegum, sem nú hafi verið leiðrétt.
Hvað sem því líður byggir kærði á að deilur málsaðila í ágreiningsmáli við skipti á dánarbúi geti aldrei talist heyra undir ákvæði siðareglna lögmanna. Samkvæmt því hafnar kærði kröfugerð kæranda sem órökstuddri og tilhæfulausri með öllu.
Niðurstaða
I.
Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd löganna getur nefndin vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst.
Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að kröfugerð, röksemdir og málatilbúnaður kæranda sé verulega óljós auk þess sem af röksemdafærslum kæranda verði með engu móti ráðið til hvaða ákvæða laga eða siðareglna lögmanna sé vísað eða með hvaða hætti kærði geti talist hafa brotið af sér eða gert á hlut kæranda.
Þótt fallast megi á það með kærða að málatilbúnaður kæranda sé nokkuð á reiki og óskýr um ýmis atriði verður ekki framhjá því litið að umkvartanir kæranda í málinu lúta að ákveðnum þáttum og háttsemi í störfum kærða sem sérstaklega er lýst í erindi kæranda. Að mati nefndarinnar hefur málatilbúnaður kæranda ekki leitt til þess að kærði hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu. Er það mat nefndarinnar að málið teljist nægilega reifað og upplýst. Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærða í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.
II.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
III.
Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
Samkvæmt 2. gr. siðareglnanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.
Þá er tiltekið í 18. gr. laga nr. 77/1998 að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi meginreglu 1. gr., sem áður er lýst.
Eins og áður greinir lýtur kvörtun kæranda að vinnubrögðum kærða í þágu umbjóðenda aðilans í tengslum við dánarbússkipti þar sem kærandi átti einnig hagsmuna að gæta. Hafi kærði vísvitandi farið með rangt mál og viðhaft ósannindi undir dánarbússkiptunum, þ. á m. um verklag skiptastjóra og kröfugerð við skiptin, auk þess sem hann hafi neitað að ræða mál til lykta sem gert hafi verið ráð fyrir að lausn yrði fundin á. Varðandi meint ósannindi og rangindi kærða hefur kærandi einkum vísað til efnis í bréfi kærða til skiptastjóra frá 12. desember 2016. Byggir kærandi á að kærði hafi með háttsemi sinni brotið gegn 1. og 2. gr. siðareglna lögmanna sem og 18. gr. laga nr. 77/1998, sem áður er lýst.
Um þetta efni er til þess að líta að þótt kærði hafi ekki gert athugasemdir fyrir hönd sinna umbjóðenda við efni fundargerðar skiptafundar frá 28. október 2016, þar sem meðal annars var bókað að fundarmenn gerðu ekki athugasemdir við verðmat á eignum dánarbúsins að einum erfingja undanskildum sem á ekki aðild að máli þessu fyrir nefndinni og er því málinu óviðkomandi, verður með engu móti ráðið að hann hafi gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 með því að hafa sent bréf til skiptastjóra, dags. 12. desember 2016, sem hafði að geyma mótmæli við frumvarp skiptastjóra til úthlutunar við dánarbússkiptin. Er um það efni jafnframt vísað til þess að á tilgreindum skiptafundi mun skiptastjóri hafa tilkynnt erfingjum að þeir fengju frest til 18. nóvember 2016 til að koma með sameiginlega tillögu að skiptalokum en að öðrum kosti myndi skiptastjóra gera frumvarp að úthlutunargerð sem byggð yrði á tillögu skiptastjóra um skiptalok sem gerð hafði verið grein fyrir á fundinum.
Að áliti nefndarinnar á slíkt hið sama við um önnur kvörtunarefni kæranda sem lúta að meintum ósannindum og rangfærslum í bréfi kærða til skiptastjóra frá 12. desember 2016. Bréf kærða var sent fyrir hönd umbjóðenda aðilans þar sem mótmælum þeirra gegn frumvarpi til úthlutunargerðar skiptastjóra var lýst. Þótt ágreiningur kunni að hafa verið á milli kæranda og umbjóðenda kærða um efni bréfsins, sem og um málsatvik og staðreyndir í tengslum við þau dánarbússkipti sem kvörtun kæranda lýtur að, hefur kærandi ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að með efni þess hafi kærði gert á hlut kæranda, þ.e. með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Gildir slíkt hið sama um kvörtunarefni kæranda sem lúta að því að kærði hafi neitað að ræða mál til lykta sem gert hafi verið ráð fyrir að lausn yrði fundin á.
Með vísan til alls framangreinds er að áliti nefndarinnar ekki efni til að telja að kærði hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 eða 1. og/eða 2. gr. siðareglna lögmanna með þeirri háttsemi sem umþrætt er í máli þessu.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, B hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason hrl., formaður.
Einar Gautur Steingrímsson hrl.
Valborg Þ. Snævarr hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Sölvi Davíðsson