Mál 2 2017

Ár 2017, þriðjudaginn 23. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2017:

A hf.

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

                                                                  Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst, þann 10. janúar 2017, kvörtun kærenda, A hf. Þar er kvartað yfir framgöngu kærða, B hæstaréttarlögmanns, í garð matsmanns í ágreiningi er varðar bótakröfu á hendur kæranda.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindis kærenda með bréfi dags. 10. janúar 2017 og barst greinargerð hans úrskurðarnefnd þann 7. febrúar 2017. Var kæranda send sú greinargerð til athugasemda með bréfi dags. 8. febrúar 2017. Engar athugasemdir bárust og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Það er upphaf þessa máls að kærði rak bótamál vegna líkamstjóns gegn kæranda fyrir hönd umbjóðanda síns. Höfðu verið dómkvaddir tveir matsmenn til að meta tjónið, þeir C hrl. og D læknir.

Þann 9. janúar sendi kærði C hrl. skriflegt erindi. tölvupóst. Í erindinu sjálfu kom fram að það væri jafnframt sent í afriti til E hdl., starfsmanns kæranda og skjólstæðings kærða. Innihald þess var eftirfarandi:

 

Sæll C hrl.

Kona heitir F, skagfirsk kona af Valadalsætt og ætt G Eldjárns fyrrverandi forseta.

Þú D smuga, graði læknirinn voru dómkvaddir til að endurmeta afleiðingar Umferðarslyss, sem hún varð fyrir.

Ekki býst ég við miklu af ykkar hendi, en þó er nauðsynlegt að matsgerðin verði kláruð.

Getur þú upplýst mig um hvenær það verði

Með kveðju,

B

 

C hrl. svaraði orðsendingu þessari samdægurs með tölvupósti á þann veg að vinnu við matsgerðina væri að ljúka og gert væri ráð fyrir að hún yrði tilbúin í byrjun næstu viku.  Jafnframt sagðist hann telja að texti þessa bréfs væri ekki við hæfi eða kærða til sóma og að hann vonaði svo sannarlega að honum snerist hugur um að senda það til aðila málsins. Lýkur orðsendingu C á þessum orðum „Betra að hemja baráttuandann stundum og draga andann djúpt."

 

Þessu svaraði kærði samdægurs með svofelldum orðum. „Sæll aftur, já maður verður að passa sig og vera prúður og svona orðalag er ekki við hæfi og Tek ég orð mín aftur, ef það er ekki of seint." Afrit þessa svars sendi kærði ekki öðrum. C svaraði enn samdægurs og sagði þá „Ég er nú ekkert mjög viðkvæmur og þoli þetta alveg. Veit líka að þú hugsar stundum upphátt. Vildi aðallega forða því að þú færir að senda þetta eitthvað víðar.

 

Daginn eftir, þann 10. janúar 2017 sendi H hrl., f.h. kærenda kvörtun, til úrskurðarnefndar, vegna framgöngu kærða í ofangreindu erindi. Jafnframt gerði hann kærða viðvart um það. Sama dag sendi kærði afsökunarbeiðni og skýringar, vegna orðbragðs í umræddu erindi, sem stílað var á H hrl. og E hdl.Í bréfinu vísaði kærði til fyrrgreindrar afsökunarbeiðni sinnar til C hrl. Jafnframt tók kærði fram í bréfinu að hann hafi aðeins sent afrit til E hdl. en ekki til umbjóðanda síns. Kærði sagði í bréfinu, dags. 10. janúar 2017, að hann hafði verið orðinn óþolinmóður eftir matsgerðinni og það væri vafalaust ástæða þessa tilhæfulausa orðlags, en áður hefði hann oft samþykkt dómskvaðningu bæði C hrl. og D læknis, og tók fram að hann taldi þá góða og hæfa matsmenn í líkamstjónamálum. Kærði benti m.a. á bréf þar sem hann benti á C hrl. sem dómskvaddan matsmann. Kærði vissi ekki til þess að bréfið hafði farið til D, en taldi vafalaust, úr því sem komið væri, að það myndi berast honum og tók hann orð sín þá aftur gagnvart honum og baðst afsökunar á þeim. Síðar sama dag sendi kærði endurbætta útgáfu af þessu sama bréfi, þar sem hann tók fram að orð hans kynnu að hafa verið særandi þó þau hefðu ekki verið meint á þann hátt. Í skýringum kærða, þann 10. janúar 2017, kom fram að hann vonaðist eftir því að ekki yrði stórmál úr þessu og tók m.a. fram að hann taldi orðin „smuga" og „graður" ekki endilega ósæmileg eða særandi í þessu samband. Kærði benti á að D læknir hafði verið skipslæknir í Smugunni og fengið viðurnefni sitt þannig og tók fram að hann hafi ekki verið að vísa í kynfæri kvenna né hafi orðið verið notað í óviðeigandi tilgangi heldur einungis í virðingarskyni. Þá taldi hann orðið graður geta haft merkinguna kvensamur og í seinni tíð duglegur. Jafnframt tók hann fram að orðið graður gæti þýtt að vera kraftmikill og greinargóður.

 

II.

Kærandi krefst þess að framganga kærða verði tekin til efnislegrar úrlausnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Kærandi telur að framganga sem um ræðir sé í andstöðu við 2. gr. siðareglna LMFÍ og 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. En kærði gæti hagsmuna skjólstæðings sem haft hefur uppi bótakröfu gagnvart kærenda. Kærandi tók fram í kvörtun sinni að erindið væri skjólstæðingi hans vart til framdráttar. Í annan stað tók hann fram að kærði viðhefur orðalagi og uppnefnir annan matsmanninn þannig að sæmir ekki lögmanni.

 

Kærandi telur að um óásættanlegan dómaskap sé að ræða og vakti athygli á því að erindið, sem ritað var til C hrl., hafi verið sent í afriti til kærenda og skjólstæðings kærða og því ekki hægt að líta svo á að um slaka hótfyndni væri að ræða í einkabréfi til C hrl. heldur var ummælum dreift að hálfu kærða.

 

III.

Kærði krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá nefndinni, en setur þó fram ákveðnar efnislegar varnir.

 

Frávísunarkrafa kærða byggir aðallega á því að hann hafi ekki sinnt neinum lögmannsstörfum fyrir kæranda. Skilyrði 27. gr. laga um lögmenn eigi því ekki við, enda sé því ekki haldið fram í málinu að misgert hafi verið við kæranda. Til grundvallar þessari kröfu vísar kærði til úrskurðar nefndarinnar nr. 20/2010 og telur hann að hin kærðu ummæli á máli þessu varði ekki kæranda.

 

Frávísunarkrafa byggir einnig á því að kærandi tilgreini ekki ummælin og frýjunarorðin sem hann kvartar yfir.

 

Til vara  er þess krafist að máli þessu verði vísað frá nefndinni eða fellt niður enda hafi kærði beðið hluteigendur afsökunar og málinu ætti því að vera undir eðlilegum kringumstæðum lokið. Telur kærði að málið hafi verið keyrt áfram að illskiljanlegri illkvittni, eftir að hann hafi beðist afsökunar á því. Hann tekur fram að þegar menn átti sig á hvað þeir hafi gert í fljótfærni þá líður þeim illa, þeir iðrist og málið valdi þeim álitshnekki. Aðalatriðið er að menn átti sig og biðjist afsökunar á háttsemi sinni og lofi bót og betrun.

  

Kærði fer fyrir ýmis orðasambönd í erindinu sem hann gerði ráð fyrir að kvörtun kærenda lúti að. Þar tekur hann fram að orðasambandið „Ekki býst ég við miklu af ykkur" teljist varla frýjunarorð heldur teljist það álit eða skoðun og í því fælist engin ögrun. Þó tekur hann fram að slíkt væri óviðeigandi í bréfi til matsmanna. Einnig tekur hann fram að orðasambandið „graði læknirinn" væri óásættanlegt og yrði ekki réttlætt á nokkurn hátt. Hvað varðar orðið „smuga" telur kærði slíkt ekki vera niðrandi á nokkurn hátt en slíkt gæfi til kynna að viðkomandi hefði unnið í sjómennsku í smugunni.

 

Kærði telur að kærandi hafi vegna óhæfilegs og ástæðulauss dráttar á málinu valdið því að skjólstæðingur hans hafi tekið málið úr hans höndum. Skjólstæðingi kærða hafi fundist málið ganga afar hægt og hafi það bitnað það á kærða, sem reyndi hvað hann gat að ýta á matsmenn. Mati hafi verið lofað fyrir jól en það brugðist, sem hafi orðið  til þess að þolinmæði kærða brást. Kærði telur að kærandi hafi valdið honum og skjólstæðingi sínum tjóni og hafi vegna þessa kært ósæmilega orðnotkun hans til úrskurðarnefndar lögmanna.

 

IV.

Niðurstaða

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Í 18. gr. laga um lögmenn segir að lögmönnum ber í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

 

Samkvæmt 2. gr. siðareglna LMFÍ skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

 

Í V. kafla siðareglnanna er fjallað um skyldur lögmanns við gagnaðila. Segir þar í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

 

Kærandi hafði stöðu gagnaðila gagnvart kærða. Hann getur beint kvörtun til nefndarinnar vegna þess sem hann telur misgert við sig með hinum tilvitnuðu ummælum og sendingu þeirra til sín, þótt það sé ekki í hans valdi að taka upp þykkjuna fyrir þá matsmenn sem kærði gerði að umtalsefni í skeyti sínu. Kærandi var matsþoli í máli sem kærði stofnaði til fyrir hönd umbjóðanda síns og mátti gera kröfu til þess að kærði sýndi ekki þann dónaskap í þeim samskiptum sem hann varð ber að. Telur nefndin umkvartanir kæranda fyllilega skýrar og verður frávísunarkröfu kærða hafnað.

 

Það samræmist ekki þeirri virðingu sem lögmönnum er skylt að sýna gagnaðilum samkvæmt ofangreindu ákvæði 34. gr. siðareglna að senda þeim jafn grófar og smekklausar athugasemdir og hér um ræðir, hvort sem þær eru stílaðar á annan mann eða ekki. Þá er framsetning af þessu tagi augljóslega fjarri því sem þarf til að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar sbr. 2. gr. siðareglna lögmanna.

 

Jafnvel þótt kærða hafi láðst að senda kæranda afsökunarbeiðni sína um leið og hann dró ummælin til baka gagnvart matsmönnum, telur nefndin að kærði hafi í viðbrögðum sínum sýnt iðrun og verið fús til að taka orð sín til baka og biðjast afsökunar á þeim. Er ekki annað fram komið en að þeir sem fjallað var um í þessum ummælum hafi tekið það til greina. Í ljósi þess telur nefndin nægilegt að gera aðfinnslu við háttsemi kærða.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, B hrl., að senda matsmanni bréf með efni sem er lögmanni ósamboðið undir rekstri matsmáls sem kærandi átti aðild að og afrit til starfsmanns kæranda, er aðfinnsluverð.

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA