Mál 26 2017

Ár 2018, 22. mars 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2017:

A ehf.,

gegn

B

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 3. ágúst 2017 erindi kæranda, A ehf., en í því er vísað til ágreinings kæranda við kærða, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Ó lögmaður fer með mál kæranda fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 8. ágúst 2017, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærða barst þann 6. september 2017 og var hún send til lögmanns kæranda til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 10. október 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 12. sama mánaðar. Dagana 1. og 13. nóvember 2017 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir og frekari gögn frá kærða og voru tilkynningar þess efnis, ásamt tilgreindum gögnum, sendar til lögmanns kæranda með bréfum dags. 1. og 14. sama mánaðar. Að endingu bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir frá kæranda vegna málsins þann 29. nóvember 2017 og voru þær sendar til kærða þann sama dag með þeirri athugasemd að nefndin lyti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af gögnum málsins og atvikalýsingu aðila verður ráðið að fyrirsvarsmaður kæranda, C, hafi leitað til D lögfræðings og kærða snemma árs 2013 vegna ágreinings kæranda við L hf. og E hf. um kröfur og uppgjör samkvæmt fjölda gengistryggðra fjármögnunarleigusamninga.

Í kjölfarið gerðu kærandi, sem verkkaupi, og F ehf. og G ehf., sem verksalar, en hið fyrrnefnda félag er lögmannsstofa í eigu kærða en hið síðarnefnda félag mun meðal annars hafa verið í eigu áðurnefnds D, með sér verksamning þann 23. mars 2013. Í 1. gr. samningsins var að finna eftirfarandi skilgreiningu á því verkefni sem samningur aðila tók til:

Verksalar taka að sér eftirfarandi verkefni: Að gæta hagsmuna verkkaupa gagnvart L hf. og E hf. Verkkaupi felur verksölum að stefna L hf. og E hf. til greiðslu þeirra krafna sem verkkaupi telur sig eiga á hendur framangreindum félögum.

Verkkaupi getur hvenær sem er á gildistíma samningsins óskað eftir því að verksalar veiti honum frekari ráðgjöf en þá sem skilgreind er hér að framan og skal þá gerður sérstakur viðauki við þennan samnings þar sem viðbótarverkefnið er skilgreint og skulu báðir aðilar samningsins staðfesta þann viðauka með undirskrift sinni. Sjái verksalar sér ekki fært að taka að sér einstök verkefni skal verkkaupa tilkynnt það þegar í stað og tilgreind ástæða þess.“

Í 5. gr. samningsins var kveðið á um þóknun verksala. Var þar tiltekið í 1. mgr. að þóknun vegna vinnu á verktímanum skyldi að hámarki nema 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts sem greidd yrði með mánaðarlegum greiðslum en þó ekki að hærri fjárhæð en 300.000 krónur auk virðisaukaskatts á hverjum mánuði. Í málsgreininni var jafnframt tiltekið að verkkaupi skyldi greiða verksölum þóknun af tildæmdum eða umsömdum greiðslum af hálfu L hf. og/eða E hf. samkvæmt nánar tilgreindum viðmiðum sem þar var lýst. Þá var tiltekið í 2. mgr. 5. gr. samningsins að reikningar verksala fyrir veitta þjónustu myndu byggja á fjölda vinnustunda vegna verkefnisins og að gjaldið fyrir hverja  vinnustund kynni að vera breytilegt og byggt á ábyrgð og hæfni viðkomandi starfsmanna. Bar verksölum að upplýsa verkkaupa um tímagjald einstakra starfsmanna sem kæmu til með að vinna að verkefninu væri þess óskað af hálfu verkkaupa.

Samkvæmt 10. gr. samningsins skyldi samningurinn öðlast gildi við undirritun og var hann ótímabundinn. Þá var því lýst að samningsaðilar gætu með skriflegum hætti sagt samningnum upp með fyrirvara sem ekki skyldi vera skemmri en hálfur mánuður.

Í kjölfar ofangreindrar samningsgerðar mun hafa hafist undirbúningur málssóknar á hendur E hf. í samræmi við efni verksamningsins. Fyrir liggur að stefna vegna málsins var þingfest í Héraðsdómi Y þann x. september 2013 og undirritaði D lögfræðingur stefnuna fyrir hönd kærða sem fór með málið fyrir hönd kæranda, sem stefnanda í málinu. Var málið þar rekið sem héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/2013. Stefnufjárhæð málsins var 108.150.392 krónur en auk þess var krafist dráttarvaxta og málskostnaðar. Stefndi hélt uppi fullum vörnum í málinu samkvæmt greinargerð sem lögð var fram á dómþingi þann x. október 2013. Á dómþingi þann x. desember 2013 var málinu frestað samkvæmt ákvörðun dómara á meðan beðið væri niðurstöðu Hæstaréttar í öðru sambærilegu máli, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í viðkomandi máli var tekin ákvörðun um af hálfu málsaðila að fella tilgreint héraðsdómsmál nr. E-xxxx/2013 niður og var það gert án kostnaðar á dómþingi þann x. maí 2014.

Í málsatvikalýsingu kærða er vísað til þess að áfram hafi verið unnið í þágu kæranda í nánu samráði við fyrirsvarsmann aðilans. Hafi sú vinna bæði tekið til undirbúnings stefnu á hendur L hf. sem og annarra verkefna sem fyrirsvarsmaður kæranda hafi beint til lögmannsstofu kærða. Nefnir kærði þar um meðal annars ágreiningsmál við V vegna útboðsmála á árunum 2009 - 2010. Hafi D, sem þá hafði verið veitt lögmannsréttindi, ritað nokkur bréf og erindi fyrir kæranda á tímabilinu frá janúar- til septembermánaðar 2014, auk þess að mæta með fyrirsvarsmanni kæranda á fundi með V í því skyni að ná sátt um bætur og nánari tillögur kæranda. Liggja fyrir um þetta efni fyrir úrskurðarnefnd bréf V, dags. 9. apríl og 10. september 2014, sem beint var til áðurnefnds lögmanns sem og bréf lögmannsins til V, dags. 12. ágúst 2014.

Varðandi önnur verkefni en lýst hafi verið í verksamningi aðila, og tiltekin séu í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni, hefur kærandi hins vegar vísað til þess að D lögmaður hafi unnið ýmis verk fyrir aðilann og fyrirsvarsmann hans persónulega. Hafi verið greitt sérstaklega fyrir þá vinnu beint til viðkomandi lögmanns. Þannig hafi lögmaðurinn unnið að ágreiningsmáli við V persónulega fyrir kæranda og fyrirsvarsmann aðilans. Bendir kærandi í því samhengi á að engir tímar séu skráðir vegna þessa í fyrirliggjandi tímaskráningum í málinu.

Kærði vísar jafnframt til þess að D lögmaður hafi tekið að sér að gæta hagsmuna kæranda og fyrirsvarsmanns aðilans gagnvart E hf. vegna nánar tilgreindra bílasamninga í kjölfar dóms Hæstaréttar í málinu nr. xxx/2012. Með sama hætti hafi lögmaðurinn tekið að sér hagsmunagæslu fyrir fyrirsvarsmann kæranda í máli E hf. gegn honum vegna bifreiðar með skráningarnúmerið xx-151 og annast bréfasamskipti, fundi og aðstoð við dómsmeðferð málsins vegna kröfu um vörslusviptingu, þ.e. á tímabilinu frá septembermánuði 2013 til ársloka 2014 þegar úrskurður hafi legið fyrir. Hefur kærði um þetta efni lagt fyrir nefndina erindi og greinargerð vegna vörslusviptingarmáls, dags. x. september 2013 og x. september 2014.

Um þetta efni bendir kærandi á að ekki verði séð að skráðir hafi verið tímar vegna þessara mála. Vegna bílasamninga hafi það allt að einu verið skilningur kæranda að sú vinna félli undir skilgreiningu samnings um hagsmunagæslu gagnvart E hf. Þá hafi vinna lögmannsins vegna bifreiðarinnar xx-151 verið fyrir fyrirsvarsmann kæranda persónulega og því málinu óviðkomandi.

Í málsatvikalýsingu kærða er því jafnframt lýst að D lögmaður hafi tekið til varna í dómsmáli L hf. gegn kæranda og fyrirsvarsmanni aðilans með framlagningu greinargerðar x. mars 2015 vegna stefnu bankans sem þingfest hafi verið þann x. janúar sama ár, en tilgreind skjöl liggja fyrir í málsgögnum fyrir nefndinni. Vísar kærði til þess að viðkomandi lögmaður hafi flutt málið um frávísun þann x. september 2015 og Héraðsdómur Y hafi fallist á kröfu um frávísun með úrskurði nokkru síðar. Hafi tilgreint mál og afdrif þess átt eftir að skipta miklu um framhald vinnu við mál kæranda gagnvart L hf.

Kærandi vísar til þess um þetta efni að skráðir hafi verið tímar vegna greinargerðarskrifa í mars 2015. Hafi málið fallið undir skilgreiningu samnings um hagsmunagæslu gagnvart L hf.

Í málatilbúnaði kæranda er tiltekið að á haustmánuðum 2015 hafi fyrirsvarsmaður aðilans lýst verulegum áhyggjum af framvindu þess verks að höfða mál á hendur L hf. sem og efasemdum um hvort D lögmaður væri fær um að sinna verkefninu vegna veikinda. Samkvæmt verkbókhaldi hafi ekki verið unnið að undirbúningi  málshöfðunarinnar frá því í október 2013 ef frá séu taldir 5,25 tímar í apríl 2014.

Kærði lýsir atvikum þessum með þeim hætti að í lok septembermánaðar 2015 hafi viðkomandi lögmaður leitað sér aðstoðar vegna veikinda og hafi fyrirsvarsmaður kæranda í kjölfar þess leitað til kærða. Hafi fyrirsvarsmaðurinn þar lýst vondri tilfinningu sinni til viðkomandi lögmanns og ætlaðs lélegs utanumhalds um mál kæranda og fyrirsvarsmannsins.

Kærði mun hafa átt fund með D lögmanni þann 6. október 2015 vegna málefna kæranda. Þann sama dag sendi kærði tölvubréf til fyrirsvarsmanns kæranda þar sem fyrirsvarsmaðurinn var boðaður til fundar þann næsta dag. Munu aðilar hafa átt með sér fund í kjölfar þessa í októbermánuði 2015. Lýsir kærandi því að af tímaskráningu verði ráðið að þetta hafi verið fyrsta aðkoma kærða að málinu ef frá sé talin undirskrift verksamnings og tveir fundir í desember 2013 og maí 2015. Þannig hafi 2 tímar verið skráðir af hálfu kærða á málið fyrir tilgreindan fund í októbermánuði 2015.

Kærði vísar til þess að eftir fund aðila í október 2015 hafi öll samskipti við fyrirsvarsmann kæranda farið í gegnum kærða og H lögmann sem hafi aðstoðað við lúkningu stefnugerðar og endurútreikninga allra samninga kæranda við L hf. en það hafi einkum verið það sem staðið hafi útaf við brotthvarf D lögmanns þannig að hægt væri að setja fram endanlega kröfugerð um endurgreiðslur í málssókninni.

Ágreiningslaust er að í kjölfar þessa áttu sér stað samskipti og fundir með fulltrúum L hf. vegna málefna kæranda gagnvart bankanum og hugsanlegri lausn á þeim málum. Liggja meðal annars fyrir í gögnum málsins um þetta efni tölvubréfasamskipti á tímabilinu frá 6. nóvember 2015 til og með 5. apríl 2016. Mun kærði og fulltrúi hans hafa annast tilgreind samskipti við bankann að stærstum hluta fyrir hönd kæranda. Þá liggur jafnframt fyrir í gögnum málsins bréflegt erindi, dags. 19. maí 2016, sem fulltrúi kærða beindi til L hf. vegna málefna kæranda sem og tölvubréfasamskipti sem viðkomandi lögmannsfulltrúi átti við starfsmenn bankans í júlí- og ágústmánuði sama ár. Af málatilbúnaði aðila og gögnum málsins verður ráðið að sáttaumleitanir vegna málefna kæranda gagnvart L hf. hafi reynst árangurslausar.

Um þetta efni er í málsatvikalýsingu kæranda vísað til þess að fyrirsvarsmaður aðilans hafi þrýst á að málarekstur á hendur L hf. færi af stað en að ákveðið hafi verið að ráði kærða að reyna að ná samningum án þess að málið færi fyrir dómstóla. Hafi samningaviðræður gengið hægt og að þann 16. desember 2015 hafi verið ákveðið að stefna bankanum. Kærði bendir hins vegar á að endurreikningar lánasamninga hafi verið tímafrekir og að í samráði við fyrirsvarsmann kæranda hafi verið ákveðið að fresta útgáfu stefnunnar og láta á það reyna til þrautar að semja við bankann um lúkningu ágreiningsmála kæranda. Vísar kærði til þess að fyrirsvarsmanni kæranda hafi verið ljóst að aðilinn væri í skuld við bankann vegna áðurnefnd lánssamnings sem stefnt hafði verið en máli vísað frá. Þá hafi hvorki verið rætt um tilgreindan lánssamning við gerð upphaflegs verksamnings aðila né að vinna þyrfti við dómsmeðferð vegna hans.

Þann 22. janúar 2016 sendi kærði tölvubréf til fyrirsvarsmanns kæranda ásamt fylgiskjali þar sem var að finna bréflega staðfestingu kærða á stöðu málefna kæranda gagnvart L hf. Í tölvubréfinu lýsti kærði því að vonir stæðu enn til að stefnubirting færi fram í vikunni á eftir og að hún myndi duga til að fá bankann að borðinu til að klára málið án þess að það yrði rekið til enda fyrir dóma. Var slíkt hið sama tiltekið í fylgiskjali með tölvubréfinu, sbr. eftirfarandi:

Þá get ég einnig staðfest að þar sem engin efnisleg svör vegna athugasemda A ehf. hafa fengist frá L hf., verður máli vegna þess ágreinings stefnt fyrir dóm í næstu viku, en unnið hefur verið að gerð stefnu hér á skrifstofunni í þeim tilgangi að ná fram rétti félagsins fyrir dómi, ef annað dugar ekki.

Kærði sendi tölvubréf til fyrirsvarsmanns kæranda á ný þann 29. janúar 2016 en með tölvubréfinu mun hafa fylgt stefnudrög vegna hinnar fyrirhuguðu málshöfðunar. Í tölvubréfinu kvaðst kærði loks hafa komist í að lesa yfir stefnu frá þeim lögmanni sem áður hefði farið með málið fyrir hönd kæranda. Upplýsti kærði jafnframt að hann ætti eftir að fara í gegnum endanlega kröfugerð auk fleiri atriði. Óskaði kærði eftir að fyrirsvarsmaðurinn myndi skoða sérstaklega atvikalýsingu og niðurstöður útreikninga. Þá kvaðst kærði reikna með að klára endanlegan lista yfir framlögð gögn helgina á eftir og taka þau til framlagningar.

Þann 9. febrúar 2016 sendi fyrirsvarsmaður kæranda tölvubréf til kærða með fyrirspurn um stöðu mála. Kvaðst fyrirsvarsmaðurinn gera ráð fyrir að bankanum hefði þegar verið stefnt eða að það yrði gert næstu daga á eftir. Kærði svaraði ofangreindu tölvubréfi þann næsta dag þar sem upplýst var um stöðu mála, þ. á m. um að kærði hefði ekki haft tök á að leggjast í þá vinnu að lesa stefnuna yfir endanlega og koma í þann búning sem aðilar væru sáttir við.

Í gögnum málsins liggja fyrir stefnudrög, dags. 31. mars 2016, vegna hinnar fyrirhuguðu málshöfðunar kæranda á hendur L hf. Er vísað til þess af hálfu kærða að endanleg stefna hafi verið klár í marsmánuði 2016 en að fyrirsvarsmaður kæranda hafi þá viljað bíða til að knýja á um viðbrögð bankans. Hafi sú afstaða fyrirsvarsmannsins ekki breyst enda hafi hann viljað tengja mál saman og leysa þau í einu lagi gagnvart bankanum. Kærandi hefur hins vegar mótmælt tilgreindri lýsingu kærða sem rangri. Er á það bent af hálfu aðilans að samkvæmt færslum í tímabókhaldi kærða hafi stefnan verið frágengin í marsmánuði 2016 og að 65 klukkustundir hafi verið unnar í málinu frá 9. mars til 4. apríl 2016. Í kjölfar þessa hafi verið reyndar á ný samningaviðræður við bankann án þess að stefna yrði birt. Endanleg afstaða bankans hafi legið fyrir í ágúst 2016 þar sem kröfum kæranda hafi verið hafnað. Hafi engin gild ástæða verið fyrir því að höfða ekki málið í kjölfar þess.

Í málsatvikalýsingu kæranda er vísað til þess að frá ágúst 2016 hafi ekkert verið unnið í málinu þar til fyrirsvarsmaður aðilans hafi komið til fundar við kærða í maímánuði 2017. Á þeim fundi hafi kærði afhent fyrirsvarsmanninum yfirlit yfir verkbókhald og tilkynnt að kærði gæti ekki unnið lengur eftir samningi aðila en væri reiðubúinn að vinna í málinu samkvæmt tímagjaldi. Hafi með því verið kominn upp trúnaðarbrestur í samskiptum aðila. Þá hafi í reynd falist í þessu riftun samningsins af hálfu kærða.

Ágreiningslaust er að kærði gætti hagsmuna kæranda gagnvart J vegna nánar tilgreinds verkefnis í aprílmánuði 2017. Af hálfu kæranda er ekki dregið úr góðu verki kærða í því máli og því lýst af hálfu aðilans að hann sé reiðbúinn að greiða sérstaklega fyrir það verk í samræmi við tímaskráningu um verkið, alls 1,6 klukkustund þann 6. og 10. apríl 2017.

Kærði lýsir því að allt frá því að verksamningur aðila var gerður hafi legið fyrir að kærandi ætti í verulegum rekstrarerfiðleikum og því hafi greiðslum verið stillt í hóf framan af verktímanum. Hafi aðilar margsinnis rætt þá uppsöfnuðu skuld sem komin væri á málið og kærði samþykkt, að beiðni fyrirsvarsmanns kæranda, að draga útgáfu reikninga þrátt fyrir að umsaminni grunnfjárhæð hefði ekki verið náð. Með sama hætti hefði fyrirsvarsmaður kæranda margsinnis lofað að greiða þá reikninga sem gefnir hefðu verið út en án efnda. Hafi reikningagerð verið hætt haustið 2015 auk þess sem kærandi hafi ekkert greitt fyrir vinnu í þágu aðilans og fyrirsvarsmannsins síðan í september það ár.

Í málsatvikalýsingu kærða er jafnframt vísað til þess að á fundi í maímánuði 2017 hafi á ný verið farið yfir þessi mál, hvað hefði breyst frá gerð verksamnings aðila og með hvaða hætti samstarf aðila gæti haldið áfram. Þá hafi fyrirsvarsmaður kæranda afhent kærða nýja stefnu L hf. vegna verkstæðislánsins og óskað eftir að kærði tæki til varna í því máli, en tilgreind stefna, dags. x. maí 2017, liggur fyrir í gögnum málsins fyrir nefndinni. Um þetta efni bendir kærandi á að kærða hafi mátt vera ljóst af hinni nýju stefnu að það væri kæranda mikilvægt að halda hagsmunum sínum á lofti og fá kröfu sína staðfesta svo verjast mætti kröfu bankans með skuldajöfnuði.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi hafa leitað til annars lögmanns í júnímánuði 2017. Vísar kærði til þess að hann hafi átt í tölvubréfasamskiptum við viðkomandi lögmann þann 22. júní 2017 auk þess að funda með honum 23. sama mánaðar. Með tölvubréfi kærða til lögmannsins þann 22. júní 2017 fylgdi yfirlit yfir tímaskráningu, dags. 19. maí 2017, vegna lögmannsþjónustu í þágu kæranda frá upphafi starfans.

Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefnd verður ráðið að aðilar hafi ekki átt í frekari samskiptum eftir þennan tíma og að kærði hafi ekki sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kæranda.

Samkvæmt hreyfingarlista lánardrottna úr bókhaldi kæranda, dags. 2. ágúst 2017, mun lögmannsstofa kærða hafa gefið út níu reikninga á hendur kæranda á tímabilinu frá 21. júní 2013 til 21. maí 2015 að heildarfjárhæð 2.781.155 krónur með virðisaukaskatti. Af hreyfingarlistanum verður jafnframt ráðið að kærandi hafi greitt samtals 2.131.235 krónur til lögmannsstofu kærða vegna hinna útgefnu reikninga, þ.e. með greiðslum á tímabilinu frá 4. júlí 2013 til og með 21. september 2015. Samkvæmt því eru ógreiddar eftirstöðvar hinna útgefnu reikninga að fjárhæð 649.920 krónur með virðisaukaskatti.

Áður er lýst yfirliti yfir tímaskráningu, dags. 19. maí 2017, vegna lögmannsþjónustu kærða og lögmannsstofu hans í þágu kæranda á tímabilinu frá 25. apríl 2013 til og með 10. apríl 2017.  Er þar tiltekið að tímafjöldi vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda hafi alls verið 231,35 klukkustundir á tímabilinu og að heildarverð sé 6.488.659 krónur með virðisaukaskatti.

Þá liggur jafnframt fyrir í gögnum málsins reikningur nr. 23250 sem lögmannsstofa kærða gaf út á kæranda þann 5. september 2017 að fjárhæð 4.321.306 krónur með virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði. Á reikningnum sjálfum er tilgreint að hann taki í fyrsta lagi til lögfræðiþjónustu kærða að nánar tilgreindri fjárhæð, í öðru lagi lögfræðiþjónustu lögmannsfulltrúa á lögmannsstofu kærða, í þriðja lagi til vinnu lögfræðinga og í fjórða lagi til útlagðs kostnaðar. Af tímaskráningu, sem liggur jafnframt fyrir nefndinni, verður ráðið að reikningurinn sé tilkominn vegna veittrar lögmannsþjónustu á tímabilinu frá 22. september 2013 til og með 28. júlí 2017, þ.e. fyrir alls 148,95 klukkustundir.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að úrskurðað verði að kærði eigi ekki frekari rétt til endurgjalds, umfram það sem þegar hafi verið greitt, fyrir vinnu í þágu kæranda samkvæmt verksamningi, dags. 23. mars 2013.

Í erindi kæranda er vísað til verksamnings aðila frá 23. mars 2013, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Er tiltekið að reikningar vegna vinnu verksala samkvæmt verksamningnum hafi verið gefnir út af F ehf. Samkvæmt 1. gr. samningsins hafi viðkomandi lögmenn, þ. á m. kærði, tekið að sér að gæta hagsmuna kæranda gagnvart L hf. og E hf. og þeim falið að stefna félögunum til greiðslu krafna sem kærandi hafi talið sig eiga. Þá hafi verið tiltekið í 2. mgr. 1. gr. samningsins að kæranda væri heimilt að óska eftir frekari ráðgjöf og skyldi í slíku tilviki gerður sérstakur skriflegur viðauki við samning aðila. Bendir kærandi á að engir viðaukar hafi verið gerðar.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 5. gr. samningsins skyldi þóknun vegna vinnu nema að hámarki 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts. Skyldi þóknunin greiðast með mánaðarlegum greiðslum þó ekki hærri en 300.000 krónur auk virðisaukaskatts. Auk þess skyldi kærandi greiða í þóknun hlutfall af umsömdum eða tildæmdum greiðslum af hálfu L hf. og/eða E hf.

Kærandi bendir á að rúmum fjórum árum eftir gerð samningsins hafi málum á hendur L hf. ekki enn verið stefnt og að mál sem höfðað hafi verið á hendur E hf. hafi verið fellt niður. Hafi kærandi greitt samtals 2.131.235 krónur fyrir vinnu samkvæmt samningi aðila. Gefnir hafi verið út reikningar að fjárhæð 2.781.155 krónur og séu ógreiddar 649.920 krónur samkvæmt útgefnum reikningum. Vísar kærandi til þess að fyrirsvarsmaður aðilans hafi gert athugasemdir við að greitt hefði verið um 60% af umsaminni þóknun án þess að málin væru komin fyrir dómstóla.

Þá er vísað til þess í málatilbúnaði kæranda að á fundi aðila í júnímánuði 2017 hafi kærði upplýst að verkbókhald vegna málsins væri á sjöttu milljón króna. Hafi kærði óskað eftir því að samningur aðila yrði lagður til hliðar og að greitt yrði fyrir verkið samkvæmt tímagjaldi en að kærandi hafi hafnað þeirri málaleitan. Byggir kærandi á að með tilgreindri kröfu kærða hafi orðið trúnaðarbrestur á milli aðila og hafi kærandi af þeim sökum leitað með málið til annarra lögmanna. Þá hafi kærði neitað að afhenda kæranda málsgögn á þeim grundvelli að fyrir hendi væri skuld kæranda við lögmannsstofu kærða.

Kærandi vísar til þess að aðilar hafi ekki náð samkomulagi um frekari greiðslur. Af þeim sökum sé erindinu beint til úrskurðarnefndar lögmanna, með vísan til 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, til að fá úrskurð nefndarinnar um rétt til frekara endurgjalds umfram það sem þegar hafi verið greitt fyrir vinnu sem kærði og/eða lögmannsstofa hans hafi innt af hendi samkvæmt verksamningi aðila frá 23. mars 2013.

Kærandi byggir á því að aðilinn hafi þegar greitt þóknun, samtals 2.131.235 krónur, í samræmi við samning aðila en þóknun skyldi að hámarki vera 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts. Er á það bent að mál kæranda á hendur E hf. og/eða L hf. séu ekki enn komin til kasta dómstóla. Séu því engar forsendur til frekari greiðslna auk þess sem engir viðaukar hafi verið gerðir við upphaflegan samning aðila. Kveðst kærandi byggja á samningi aðila sem og 28. gr. og 36. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 40/2000 sé kaupanda þjónustu heimilt að afpanta þjónustu og sé þá seljanda þjónustu heimilt að krefjast greiðslu fyrir vinnu sem innt hafi verið af hendi en fjárhæð endurgjalds beri að ákveða með tilliti til heildarverðs fyrir þjónustuna og að öðru leyti með hliðsjón af 28. gr. laganna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða er á það bent varðandi andlag samnings og meint aukaverk að í verksamningi aðila hafi sérstaklega verið tilgreint að verksalar skyldu gæta hagsmuna kæranda gagnvart L hf. og E hf. jafnframt því sem verksölum hafi verið falið að stefna þeim til greiðslu krafna. Byggir kærandi á að kærða hafi verið í lófa lagið að skilgreina betur verkin samkvæmt samningnum eða hlutast til um að gerður yrði skriflegur viðauki vegna verka sem hann hafi talið að félli utan við gildissvið samningsins. Auk þess hafi engir viðaukar verið gerðir við samninginn. Hafi það verið kærða að tryggja skýrleika samningsins auk þess sem aðilinn verði að bera hallann af því að hafa ekki gert skriflegan samning um viðbótarverk.

Varðandi þóknun bendir kærandi á að hún hafi verið umsamin að hámarki 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þar að auki hafi verkkaupa borið að greiða verksölum þóknun af tildæmdum eða umsömdum greiðslum gagnaðila sem skyldi greiðast við uppgjör ef til þess kæmi. Telur aðilinn ljóst að kærði hafi einungis unnið hluta af þeirri vinnu sem samningur aðila hafi tekið til. Þá verði að leggja til grundvallar að öll þau verkefni sem kærði geri kröfu um greiðslu fyrir hafi fallið undir samning aðila að frátöldum ágreiningi við J.

Kærandi vísar til þess að tímaskráning beri með sér að kærði hafi lítið sem ekkert komið að málinu fyrr en í október 2015. Þá megi ljóst vera að eftir að niðurstaða hafi legið fyrir í máli gegn E hf. hafi ekki verið eðlilegur framgangur í máli gegn L hf. Í desember 2015 hafi verið ákveðið að stefna bankanum í kjölfar árangurslausra sáttaumleitana, sbr. tímaskráningu frá 16. desember 2015. Samkvæmt málsögnum hafi stefnan virst tilbúin í lok janúarmánaðar 2016 og stefnt að birtingu hennar. Þá hafi kærði unnið að lokafrágangi í byrjun mars 2016 samkvæmt tímaskráningu 8. þess mánaðar. Vísar kærandi til þess að endanleg útgáfa stefnu hafi legið fyrir í lok marsmánaðar 2016, þ.e. eftir mikla óljósa viðbótarvinnu. Endanleg afstaða bankans hafi legið fyrir í ágúst 2016 en síðan þá hafi lítið sem ekkert gerst í málinu.

Kærandi byggir á að umsamin hámarksþóknun vegna vinnu hafi verið 3.000.000 krónur. Í ljósi þess að gagnvart E hf. hafi einungis verið um að ræða gerð stefnu og málið fellt niður án mikillar umfram vinnu og að gagnvart L hf. hafi einungis verið gerð stefna en ekki höfðað mál verði kæranda ekki gert að greiða kærða frekar umfram það sem þegar hefur verið greitt.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að kæranda beri að greiða kærða frekar vegna vinnu byggir aðilinn á að taka verði tillit til hámarksfjárhæðar samnings og þeirrar vinnu sem óunnin hafi verið í máli gegn L hf. Þá beri jafnframt að taka tillit til þess dráttar sem hafi orðið á málinu.

Varðandi athugasemdir við verkbókhald kærða vísar kærandi til þess að aðilinn hafi ekki haft ástæður til að gera athugasemdir þar að lútandi enda skilningur hans að þóknun skyldi að hámarki vera 3.000.000 auk virðisaukaskatts. Verði samningi aðila vikið til hliðar telur kærandi nauðsynlegt að gera verulegar athugasemdir við ýmsa þætti í verkbókhaldi málsins.

Um stefnugerð á hendur L hf. bendir kærandi á að dagana 16. – 19. september 2013 hafi verið unnið að gerð stefnunnar í alls 38,75 klukkustundir. Þá hafi verið skráðar 8,5 klukkustundir í vinnu vegna stefnugerðar í apríl- og maímánuði 2014. Er til þess vísað að í tölvubréfi kærða, dags. 22. janúar 2016, hafi komið fram að væntingar stæðu til að stefnubirting færi fram í vikunni á eftir. Samkvæmt verkbókhaldi hafi kærði tekið stefnuna til yfirlestrar 25. janúar 2016 en á tímabilinu frá 27. sama mánaðar til 1. mars 2016 hafi verið skráðar alls 5 klukkustundir í yfirferð stefnu. Þá hafi verið skráðar 2,75 klukkustundir á málið vegna skráningar, yfirferðar gagna og frágangs stefnu þann 8. mars 2016. Bendir kærandi á að stefnan hafi þá virst frágengin, en á þeim tímapunkti hafi alls farið að minnsta kosti 54,75 klukkustundir í stefnugerð samkvæmt verkbókhaldi kærða.

Er á það bent að fulltrúi kærða hafi fyrst komið að málinu þann 9. mars 2016. Samkvæmt tímaskráningu fulltrúans hafi vinna hans við málið frá þeim degi til og með 4. apríl 2016 verið alls 65 klukkustundir. Ekki sé skýrt hvað hafi falist í þeirri vinnu sem unnin hafi verið á þessum tíma, sérstaklega með hliðsjón af því að þann 8. mars sama ár hafði verið skráður frágangur stefnu og yfirferð gagna alls 2,75 klukkustundir. Byggir kærandi á að kærði beri sönnunarbyrði fyrir því í hverju þessi vinna hafi falist og að hún hafi verið nauðsynleg. Er sérstaklega á það bent að á tímabilinu 9. – 14. mars 2016 hafi farið 22,75 klukkustundir í yfirferð stefnu og að „sortera“ skjöl og gera skjalaskrá. Þá hafi 9,75 klukkustundir verið skráðar í yfirferð gagna dagana 1. og 4. apríl 2016 sem sé óútskýrt. Hafa beri hliðsjón af því að endanleg stefnudrög hafi legið fyrir í lok marsmánaðar sama ár og að dagana 23. og 29. þess mánaðar hafi verið skráðar 11,25 klukkustundir með skýringunni „unnið í gögnum“ og „málsgögn“. Auk þess hafi 9 klukkustundir verið skráðar dagana 30. og 31. mars 2016 í „Lokayfirferð máls A.“

Kærandi bendir á að kærði og fulltrúi hans hafi átt fund með L hf. þann 5. apríl 2016. Vegna fundarins hafi verið skráðir 2,25 klukkustundir af hálfu kærða og 5 klukkustundir á fulltrúann vegna undirbúnings fundar, tölvubréfasamskipta og fundar. Byggir aðilinn á að kærði hafi ekki útskýrt hvað hafi krafist slíks undirbúnings fyrir fundinn og að taka beri mið af því að fulltrúinn hafi áður unnið í alls 65 klukkustundir í málinu 25 daga þar á undan auk þess sem gögn hafi verið yfirfarin í alls 9,75 klukkustundir dagana 1. og 4. apríl 2016.

Þá bendir kærandi á að verðmöt hafi borist frá L hf. í lok aprílmánaðar 2016 og að á tímabilinu frá 29. apríl 2016 til 19. maí sama ár hafi verið skráðir 13,5 klukkustundir á málið. Þá hafi verið skráðar 5,75 klukkustundir þann 27. maí 2016 vegna fundar með L hf., þar af 4,5 klukkustundir í undirbúning og fund af hálfu fulltrúa kærða. Vísar aðilinn til þess að engar skýringar séu á hvað krafist hafi slíks undirbúnings.

Að endingu mótmælir kærandi að 4,5 klukkustundir hafi verið skráðar í samskipti við núverandi lögmenn kæranda á tímabilinu frá júní til september 2017. Byggir kærandi á að kærði geti ekki gert kröfu á kæranda vegna tilgreindrar vinnu sem lúti að ágreiningi.

Með vísan til alls framangreinds krefst kærandi þess að þóknun kærða verði ákveðin miðað við hámarksþóknun vegna verksins, 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts, að frádreginni áætlaðri vinnu sem óunnin sé við að höfða dómsmál og reka það gegn L hf. á tveimur dómstigum.

III.

Kærði krefst þess fyrir nefndinni að kröfum kæranda verði hafnað og að kæranda verði þess í stað gert að greiða F ehf. 4.971.226 krónur með virðisaukaskatti fyrir þá vinnu sem unnin hafi verið í þágu kæranda á árunum 2013 – 2017 en ógreitt sé fyrir. Þá krefst kærði einnig málskostnaðar úr hendi kæranda.

Kærði mótmælir tilhæfulausum rangindum og fullyrðingum í erindi kæranda og kveðst undrast mjög þann málflutning sem þar hafi verið settur fram gegn betri vitund, meðal annars um að greidd hafi verið 60% af umsaminni „þóknun, án þess að málin væru komin fyrir dómstóla.“ Bendir kærði á að á sama tíma liggi fyrir í erindinu að mál gegn E hf. hafi farið fyrir dóm og verið þar rekið uns það hafi verið fellt niður. Varðandi stefnu á hendur L hf. vísar aðilinn til málsatvikalýsingar sinnar, sem gerð er grein fyrir að framan, auk þess sem ráðist hafi verið í umfangsmikla endurreikninga á 16 samningum, umfram það sem samið hafi verið um í upphafi. Því til viðbótar hafi verið um fjölda annarra og óskyldra verka að ræða, sem aldrei hafi átt að vera hluti af samningi aðila frá 2013. Þá mótmælir kærði því alfarið að orðið hafi trúnaðarbrestur af hálfu kærða. Þá sé ágreiningslaust að kærandi hafi einungis greitt 2.131.235 krónur með virðisaukaskatti fyrir alla þjónustu frá kærða frá árinu 2013 en það sé rétt um 56,6% af þeim 3.000.000 króna sem aðilar hafi samið um.

Kærði vísar til 1. gr. verksamnings aðila þar sem verkefnið hafi verið skilgreint, þ.e. að stefna L hf. og E hf. til greiðslu þeirra krafna sem kærandi hafi talið sig eiga á hendur viðkomandi aðilum. Ekki hafi verið gerður frekari samningur um öll þau verkefni sem unnin hafi verið fyrir kæranda og fyrirsvarsmann aðilans en kærði kveðst byggja á því að þau verkefni hafi alls ekki rúmast innan samnings aðila. Byggir kærði á að aðilar hafi í fullu samráði breytt svo tilhögun verksins frá gerð samningsins að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig af hálfu kæranda. Það eigi við um hið umsamda verkefni sem aðilar hafi sannarlega samið um á sínum tíma. Staðið hafi verið að fullu við samninginn af hálfu verksala enda hafi E hf. verið stefnt og málið rekið allt til þess að skynsamlegt hafi þótt að fella það niður. Stefna í máli gegn L hf. hafi verið kláruð og legið fyrir endanlega í ársbyrjun 2016. Meginskýring þess að ekki hafi verið lokið við stefnuna fyrr hafi verið sú staðreynd að bætt hafi verið við verkefni verksala að endurreikna alla samninganna, alls 16 að tölu, auk þess sem unnið hafi verið í fjölmörgum öðrum málum kæranda. Hafi sú vinna og endurreikningur verið umfram það sem rætt hafi verið um í upphafi.

Kærði kveður ljóst af efni 5. gr. samningsins að reikningar vegna verksins myndu byggja á fjölda vinnustunda í þágu kæranda og að gjald fyrir hverja vinnustund væri mismunandi, þ.e. eftir ábyrgð og hæfni þess sem kæmi til með að vinna að verkinu. Við gerð samningsins hafi forsendan verið sú að líklega væru ýtrustu kröfur kæranda um 100.000.000 krónur á hendur hvoru fjármögnunarfyrirtæki enda yrði staðfest að um láns- en ekki leigusamninga væri að ræða.

Er vísað til þess að samkvæmt beiðni kæranda hafi verið samið um að gefnir yrðu út reikningar að fjárhæð 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts en að frekari greiðslur vegna hinna tilgreindu mála yrðu látnar bíða þar til niðurstaða fengist í þau. Í kjölfarið yrði greitt til fulls sem hlutfall af tildæmdum eða umsömdum greiðslum frá stefndu. Miðað við forsendur sem aðilar hefðu lagt upp með hefði verið samið um að heildarendurgjald fyrir málin tvö yrði allt að 15.000.000 krónur til viðbótar við þær 3.000.000 krónur sem greiðast áttu meðan á verkinu stæðinu, eða samtals 18.000.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.

Í ljósi þess að kærandi hafi ákveðið að slíta samstarfi við verksala og krafist þess að úrskurðarnefndin staðfesti að verksali eigi ekki rétt til frekari greiðslna kveður kærði ljóst að ekki standi til að efna samninginn, hvorki að því leyti að greiða hinar umsömdu 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts né að greiða þá hlutdeild af tildæmdum eða umsömdum greiðslum sem enn mætti vænta frá L hf. Bendir kærði á að samkvæmt fyrirliggjandi útreikningum eigi kærandi rúmar 80.000.000 króna endurgreiðslukröfu á L hf. hvort sem aðilinn kjósi að krefjast þeirrar greiðslu eða nýta hana að hluta til skuldajöfnunar við um það bil 50.000.000 króna kröfu bankans samkvæmt þeim lánssamningi sem tryggður sé með verkstæðishúsnæði aðilans. Samkvæmt því verði að telja að kærandi og fyrirsvarsmaður aðilans hafi staðfest með kröfugerð sinni að eigi skuli miða við samning aðila frá árinu 2013, líkt og kærði hafi talið eðlilegast.

Kærði hafnar tilvísunum kæranda til laga nr. 40/2000 um þjónustukaup. Bendir aðilinn á að lög nr. 40/2000 geti ekki átt við um ágreining aðila enda falli hvorki þjónustan sem veitt hafi verið né aðilar málsins undir ákvæði laganna. Þá er á það bent að þótt neytendur njóti almennt betri verndar en fyrirtæki gagnvart veitendum þjónustu sé ljóst að þótt neytandi afpanti verk beri honum að greiða fyrir þá vinnu sem innt hafi verið af hendi. Fjárhæð endurgjalds beri þá að ákveða með tilliti til heildarverðs fyrir þjónustuna. Telur kærði að þau sjónarmið eigi við í málinu og því beri að leggja þau til grundvallar enda sanngjarnt og eðlilegt.

Þar sem enginn annar samningur er til staðar telur kærði eðlilegast að miðað sé við hefðbundið tímagjald, sbr. einnig ákvæði í samningi um það efni. Er á það bent að aldrei hafi verið gerð athugasemd af hálfu kæranda við tímagjald eða tímaskrift vegna vinnu verksala í þágu kæranda auk þess sem fyrirsvarsmaður kæranda hafi ætíð verið vel upplýstur um þá vinnu sem unnin hafi verið í þágu félagsins og haft gott samráð þar um.

Tilgreinir kærði að í samræmi við kröfugerð aðilans hafi verið gefinn út reikningur í samræmi við verkbókhald vegna vinnu í málum kæranda. Kveður kærði að fjárkrafan í málinu sé byggð á þeim reikningi auk ógreiddra eldri krafna samkvæmt áður útgefnum reikningum. Vísar kærði til þess að ekki sé krafist dráttarvaxta í málinu auk þess sem öll vinna sé reikningsfærð á þeim taxta sem í gildi hafi verið er vinna var innt af hendi.

Í viðbótarathugasemdum kærða er vísað til þess að fyrirsvarsmaður kæranda hafi allt frá veikindum D á haustmánuðum 2015 reynt að gera sér mat úr því með ómaklegum hætti. Þá fyrst hafi fyrirsvarsmaðurinn lýst því yfir að hann hefði áhyggjur af framvindu verksins og tengt það strax þeim greiðslum sem inntar hefðu verið af hendi. Hafi kærði síðan þá unnið án þess að kærandi eða fyrirsvarsmaðurinn hafi greitt eina einustu krónu enda hafi legið fyrir að vandræði viðkomandi lytu einnig að öðrum málum sem nauðsynlegt væri að tækla. Hafi kærði þannig fallist á að bíða með útgáfu reikninga um sinn að beiðni fyrirsvarsmanns kæranda gegn margítrekuðum loforðum um að þeir reikningar sem stæðu útaf og voru ógreiddir, yrðu greiddir. Hafi ekki orðið af þeim efndum.

Kærði bendir jafnframt á að hann hafi unnið að málum kæranda á tímabilinu frá apríl 2013 til október 2015 enda hafi mál á hendur E hf. verið höfðað og það rekið fyrir dómi á þeim tíma af hálfu kærða.

Þá ítrekar kærði að það hafi verið sameiginleg ákvörðun hans og fyrirsvarsmanns kæranda að láta reyna á samningaviðræður við L hf., fremur en að stefna málinu, enda hafi alltaf legið ljóst fyrir að lánið vegna verkstæðishússins væri ógreitt og að þangað myndi stærstu hluti bótakröfunnar lenda. Hafi því megináherslan verið lögð á endurútreikninga samningana, kröfugerð og samningaviðræður við bankann. Er vísað til þess að fyrirsvarsmaður kæranda hafi mætt á marga fundi í bankanum með kærða af þessu tilefni, sett fram sáttaboð og óskað meðal annars að eigin frumkvæði eftir að taka vélar og verkfæri sem bankinn hefði vörslusvipt uppí sem greiðslur, þ.e. allt í þeim tilgangi að ljúka málinu. Samkvæmt því hafi það verið með vitund og vilja fyrirsvarsmanns kæranda að þessi háttur hefði verið hafður á samskiptunum við bankann.

Vísar kærði til þess að ef sátt hefði tekist með skuldajöfnun vegna verkstæðislánsins og uppítöku tækja til skuldajöfnunar hafi legið fyrir að þóknanir til kærða yrðu ekki felldar niður samkvæmt hinum umþrætta verksamningi aðila. Sú staðreynd, að nánast engin samskipti hafi verið milli aðila frá ágúst 2016 þar til bankinn hafi birt stefnu vegna verkstæðislánsins í maí 2017, skýrist af því að fyrirsvarsmaður kæranda hafi viljað bíða „á meðan bankinn væri rólegur“ og einbeita sér að lausn annarra mála og tekjuöflun kæranda. Bendir kærði á að fyrirsvarsmaðurinn hefði ýtt við þingfestingu málsins ef hann hefði viljað keyra málið áfram á þessum tíma.

Kærði kveður það rangt að fyrirliggjandi afrit úr verkbókhaldi aðilans, sem lagt hafi verið fyrir nefndina af hálfu kæranda, hafi verið afhent fyrirsvarsmanni kæranda. Vísar aðilinn til þess að hann hafi afhent skjalið síðari lögmanni kæranda á fundi í júnímánuði 2017.

Kærði mótmælir jafnframt þeim fullyrðingum að vegna annarra verka sem unnin hafi verið í þágu fyrirsvarsmanns kæranda og kæranda sjálfs á framangreindu tímabili hafi verið greitt beint til D. Bendir kærði á að engin gögn hafi verið lögð fram um slíkt, hvorki greiðslustaðfestingar né samningar um viðbótarverk, sem kæranda og fyrirsvarsmanni aðilans sé nú tíðrætt um að hefði átt að gera samkvæmt hinum umþrætta samningi. Verði að telja að með þessu verklagi, og það án þess að gerðir hefðu verið sérstakir samningsviðaukar eða nýir samningar, hafi kærandi og fyrirsvarsmaður aðilans í raun fallið frá því ákvæði samningsins, rétt eins og kærði hafi talið að góð sátt væri um. Engar greiðslur hafi hins vegar borist vegna tilgreindra verka.

Að auki mótmælir kærði sérstaklega tilraunum kæranda og lögmanns aðilans til að skýra samninginn svo að hann hafi einnig tekið til persónulegra samninga fyrirsvarsmanns kæranda við E hf. Telur kærði að slíkar eftiráskýringar séu með öllu haldlausar. Þá mótmælir kærði því sérstaklega að samningur aðila er varðaði fjármögnunarleigusamninga við E hf. og L hf. verði skýrður svo að hann hafi einnig tekið til annarra lánasamninga, svo sem lánasamningsins um verkstæðishúsnæði félagsins, jafnvel þótt hugtakið hagsmunagæsla hafi komið fram í verksamningnum.

Vegna athugasemda kæranda um tímaskráningu bendir kærði á að ágreiningur aðila lúti að miklum fjölda samninga sem auk þess séu ekki allir eins að efni til. Hafi þurft að endurreikna alla samningana og halda um öll skjöl vegna hvers samnings. Því til viðbótar hafi fylgt hverjum samningi upplýsingar um þau tæki sem staðið hefðu að baki, ásamt verðmötum frá umboðs- og innflutningsaðilum.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

 

II.

Ágreiningslaust er að fyrirsvarsmaður kæranda leitað til kærða og D lögfræðings, sem síðar var veitt lögmannsréttindi, snemma árs 2013 vegna ágreinings kæranda við L hf. og E hf. um kröfur og uppgjör samkvæmt fjölda gengistryggðra fjármögnunarleigusamninga. Þá liggur fyrir að verksamningur var gerður þann 23. mars 2013 um hagsmunagæslu vegna þeirra ágreiningsmála, en kærandi og lögmannsstofa kærða voru meðal aðila að tilgreindum samningi.

Eins og nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan var verkefnið sem verksamningur aðila tók til skilgreint í 1. gr. samningsins. Samkvæmt ákvæðinu tóku verksalar, þ. á m. lögmannsstofa kærða, að sér að gæta hagsmuna verkkaupa, kæranda í máli þessu, gagnvart L hf. og E hf. Þá var því lýst að verkkaupi fæli verksölum að stefna L hf. og E hf. til greiðslu þeirra krafna sem verkkaupi teldi sig eiga á hendur tilgreindum félögum. Um viðbótarverkefni var því lýst í 1. gr. samningsins að verkkaupi gæti hvenær sem er á gildistíma samningsins óskað eftir að verksalar veittu honum frekari ráðgjöf en þá sem skilgreind væri í samningnum. Skyldi í slíku tilviki gerður sérstakur viðauki við samninginn, sem undirritaður yrði af hálfu beggja aðila, þar sem viðbótarverkefnið væri skilgreint.

Í 5. gr. samningsins var kveðið á um þóknun verksala. Var þar tiltekið í 1. mgr. að þóknun vegna vinnu á verktímanum skyldi að hámarki nema 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts sem greidd yrði með mánaðarlegum greiðslum en þó ekki að hærri fjárhæð en 300.000 krónur auk virðisaukaskatts á hverjum mánuði. Í málsgreininni var jafnframt tiltekið að verkkaupi skyldi greiða verksölum þóknun af tildæmdum eða umsömdum greiðslum af hálfu L hf. og/eða E hf. samkvæmt nánar tilgreindum viðmiðum sem þar var lýst. Þá var tiltekið í 2. mgr. 5. gr. samningsins að reikningar verksala fyrir veitta þjónustu myndu byggja á fjölda vinnustunda vegna verkefnisins og að gjaldið fyrir hverja  vinnustund kynni að vera breytilegt og byggt á ábyrgð og hæfni viðkomandi starfsmanna.

Í samræmi við lýsingu málsatvika að framan er ágreininglaust á milli aðila að hafinn var undirbúningur málshöfðunar á hendur E hf. í kjölfar undirritunar verksamnings aðila. Fær það jafnframt stoð í verkbókhaldi lögmannsstofu kærða en samkvæmt því sem þar greinir mun áðurnefndur D hafa annast þá vinnu að meginstefnu til. Fyrir liggur að stefna í málinu var þingfest í Héraðsdómi Y þann x. september 2013 og undirritaði D stefnuna fyrir hönd kærða sem fór með málið fyrir hönd kæranda, sem stefnanda í málinu. Var málið þar rekið sem héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/2013. Þá liggur fyrir að málið var fellt niður án kostnaðar á dómþingi þann x. maí 2014, þ.e. á grundvelli hagsmunamats málsaðila í kjölfar dómafordæma Hæstaréttar í sambærilegum málum.

Varðandi fyrirhugða málshöfðun kæranda á hendur L hf., en það var annað tveggja verkefna sem sérstaklega var skilgreint í verksamningi aðila frá 23. mars 2013, þá verður ráðið af verkbókhaldi lögmannsstofu kærða að unnið hafi verið í stefnugerð vegna málsins á tímabilinu 16. – 22. september 2013, en þá daga voru færðar alls 39,25 klukkustundir í verkbókhaldið. Munu málsaðilar þá hafa ákveðið að fresta frekari aðgerðum vegna málshöfðunarinnar, þ.e. á meðan beðið væri niðurstöðu í máli kæranda gegn E hf. sem síðar var fellt niður eins og áður er lýst. Næstu verkfærslur vegna málarekstursins voru færðar í verkbókhald lögmannsstofunnar dagana 23. og 24. apríl 2015 og þann 7. maí sama ár, en þá daga voru alls skráðar 8 klukkustundir á málið.

Ágreiningslaust er að fyrirsvarsmaður kæranda lýsti áhyggjum sínum af framvindu verksins við kærða á haustmánuðum 2015 og efasemdum um hvort viðkomandi lögmaður á lögmannsstofu kærða, sem hafði annast undirbúning málshöfðunarinnar, væri fær um að sinna því vegna veikinda. Eftir þann tíma hefur kærði annast undirbúning málshöfðunarinnar ásamt fulltrúa aðilans, H lögmanni, þ.e. frá októbermánuði 2015, en kærði vísar til þess að sú vinna hafi falist í lúkningu stefnugerðar og endurútreikningi allra samninga kæranda við L hf.

Þá liggur jafnframt fyrir að í nóvember- og desembermánuði 2015 áttu sér stað samskipti og fundir með fulltrúum bankans vegna málefna kæranda og hugsanlegri lausn á þeim málum, en sáttaumleitunum þessum á tímabilinu frá 6. nóvember 2015 til og með 5. apríl 2016 er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Sáttaumleitanir munu hafa gengið hægt en samkvæmt færslu í verkbókhaldi kærða frá 16. desember 2015 munu málsaðilar hafa ákveðið þann dag að stefna málinu fyrir dóm.

Af verkbókhaldi kærða verður ráðið að vinnu við undirbúning málshöfðunar hafi verið fram haldið í lok janúarmánaðar 2016. Er það í samræmi við tölvubréfasamskipti málsaðila og önnur skjalleg gögn frá þeim mánuði, sem nánar er lýst að framan í málsatvikalýsingu, en fyrir liggur að kærandi þrýsti á þeim tíma á að málið yrði höfðað með birtingu stefnu. Í gögnum málsins liggja fyrir stefnudrög, dags. 31. mars 2016, vegna hinnar fyrirhuguðu málshöfðunar kæranda á hendur L hf. Samkvæmt verkbókhaldi kærða mun 75,5 klukkustundum hafa verið varið í undirbúning málshöfðunarinnar á tímabilinu frá 1. mars 2016 til og með 4. apríl sama ár.

Aðila greinir ekki á um að í kjölfar þessa hafi verið reyndar á ný sáttaumleitanir vegna málefna kæranda gagnvart L hf. og að fyrir hafi legið í ágústmánuði 2016 að þær myndu reynast árangurslausar.

Ágreiningur er hins vegar á milli aðila um það hvort kærða hafi verið falið að höfða málið í kjölfar hinna árangurslausu sáttaumleitana. Byggir kærandi á að engin gild ástæða hafi verið fyrir því að höfða ekki málið eftir ágústmánuð 2016 en kærði hefur hins vegar vísað til þess að fyrirsvarsmaður kæranda hafi viljað tengja öll mál aðilans gagnvart bankanum saman og leysa þau í einu lagi enda hafi legið fyrir að kærandi væri í skuld vegna verkstæðislánsins sem áður hafði verið stefnt en vísað frá dómi.

Hvað sem því líður þá liggur fyrir að frá lok ágústmánaðar 2016 var ekkert aðhafst frekar vegna hinnar fyrirhugðu málshöfðunar en engin skjalleg gögn liggja fyrir nefndinni um ástæður þess, sem ágreiningur aðila lýtur meðal annars að. Hins vegar liggur fyrir að kærandi leitaði á ný til kærða í maímánuði 2017, í kjölfar þess að L hf. birti stefnu fyrir fyrirsvarsmanni kæranda vegna verkstæðislánsins sem skyldi þingfest í Héraðsdómi Y þann x. júní 2017. Að framan greinir um samskipti aðila frá þeim tíma og aðkomu nýrra lögmanna að málefnum kæranda.

Þar sem engra skjallegra gagna nýtur um afstöðu kæranda til hinnar fyrirhuguðu málshöfðunar eftir ágústmánuð 2016 verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að sammæli hafi verið um á milli aðila að stefnubirtingu yrði frestað á meðan L hf. aðhafðist ekkert vegna þess lánasamnings sem mynduðu kröfuréttindi bankans á hendur kæranda og fyrirsvarsmanni aðilans. Fær það að áliti nefndarinnar stoð í því að kærandi leitaði ekki til kærða á ný eftir ágústmánuð 2016 fyrr en bankinn hafði birt stefnu vegna tilgreinds lánasamnings í maímánuði 2017 sem og í því að stefnudrög í endanlegri mynd höfðu legið fyrir hjá kærða frá lok marsmánaðar 2016 vegna hinar fyrirhuguðu málshöfðunar kæranda á hendur bankanum. Samkvæmt því er ekki unnt að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að óhæfilegur dráttur hafi orðið hjá kærða á að höfða það mál sem hér um ræðir fyrir hönd kæranda með birtingu stefnunnar.

Samkvæmt hreyfingarlista lánardrottna úr bókhaldi kæranda, dags. 2. ágúst 2017, sem ekki hefur sætt andmælum af hálfu kærða, gaf lögmannstofa kærða út níu reikninga á hendur kæranda á tímabilinu frá 21. júní 2013 til 21. maí 2015 að heildarfjárhæð 2.781.155 krónur með virðisaukaskatti. Af hreyfingarlistanum verður jafnframt ráðið að kærandi hafi greitt samtals 2.131.235 krónur til lögmannsstofu kærða vegna hinna útgefnu reikninga, þ.e. með greiðslum á tímabilinu frá 4. júlí 2013 til og með 21. september 2015. Samkvæmt því eru ógreiddar eftirstöðvar hinna útgefnu reikninga að fjárhæð 649.920 krónur með virðisaukaskatti.

Áður er lýst yfirliti úr verkbókhaldi kærða, dags. 19. maí 2017, vegna lögmannsþjónustu kærða og lögmannsstofu hans í þágu kæranda á tímabilinu frá 25. apríl 2013 til og með 10. apríl 2017.  Er þar tiltekið að tímafjöldi vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda hafi alls verið 231,35 klukkustundir á tímabilinu og að heildarverð sé 6.488.659 krónur með virðisaukaskatti. Þá er í málsatvikalýsingu gerð grein fyrir reikningi nr. 23250 sem lögmannsstofa kærða gaf út á kæranda þann 5. september 2017 að fjárhæð 4.321.306 krónur með virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði. Af tímaskráningu verður ráðið að reikningurinn sé tilkominn vegna veittrar lögmannsþjónustu á tímabilinu frá 22. september 2013 til og með 28. júlí 2017, þ.e. fyrir alls 148,95 klukkustundir.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að úrskurðað verði að kærði eigi ekki frekari rétt til endurgjalds, umfram það sem þegar hafi verið greitt, fyrir vinnu í þágu kæranda samkvæmt verksamningi, dags. 23. mars 2013. Krefst aðilinn þess að þóknun kærða verði ákveðin miðað við hámarksþóknun vegna verksins, 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts, að frádreginni áætlaðri vinnu sem óunnin sé við að höfða dómsmál og reka það gegn L hf. á báðum dómsstigum.

Kærði krefst þess hins vegar fyrir nefndinni að kröfum kæranda verði hafnað og að kæranda verði þess í stað gert að greiða lögmannsstofu kærða 4.971.226 krónur með virðisaukaskatti fyrir þá vinnu sem unnin hafi verið í þágu kæranda á árunum 2013 – 2017 en ógreitt sé fyrir.

Samkvæmt því sem áður greinir liggur fyrir að mál var höfðað á hendur E hf. í samræmi við efni 1. gr. verksamnings aðila frá 23. mars 2013. Þá liggur fyrir að undirbúningi vegna málshöfðunar á hendur L hf., sbr. einnig skilgreiningu verkefnis í 1. gr. verksamnings aðila, var lokið í mars- eða aprílmánuði 2016 og að frekari aðgerðum var frestað, þ.e. fyrst um sinn á meðan sáttaumleitunum stóð en síðar á meðan beðið væri viðbragða bankans vegna ætlaðra kröfuréttinda hans á hendur kæranda og fyrirsvarsmanni aðilans.

Þá liggur fyrir að umsamin þóknun vegna vinnu á verktíma skyldi að hámarki nema 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts auk þess sem kveðið var á um árangurstengda þóknun eftir niðurstöðu málareksturs, sbr. 5. gr. verksamningsins sem áður er lýst.

Ekkert liggur fyrir um það í gögnum málsins að verksamningi aðila hafi verið rift af hálfu aðila, sbr. 9. gr. samningsins, eða að samningnum hafi verið sagt upp á verktíma með heimild í 2. mgr. 10. gr. samningsins. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að samningurinn hafi verið í gildi þegar fyrirsvarsmaður kæranda leitaði á ný til kærða í maímánuði 2017 vegna málshöfðunar L hf. á hendur kæranda og fyrirsvarsmanni aðilans.

Kærandi hefur vísað til þess að trúnaðarbrestur hafi orðið í samskiptum aðila í júnímánuði 2017 þegar kærði hafi upplýst að hann gæti ekki lengur unnið eftir samningi aðila þar sem verkbókhald málsins væri á sjöttu milljón króna. Hafi í þessu falist í reynd riftun verksamningsins af hálfu kærða. Kærði hefur hins vegar vísað til þess að aðilar hafi í fullu samráði breytt svo tilhögun verksins frá gerð samningsins að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig af hálfu kæranda.

Um þetta efni er þess að gæta að báðum aðilum var í lófa lagið að rifta og/eða segja upp verksamningi aðila samkvæmt heimildum í 9. og 10. gr. samningsins. Til þess kom ekki á verktíma eins og áður er lýst. Með hliðsjón af þeim heimildum, sem hvorugur aðili nýtti sér, eru ekki skilyrði að mati nefndarinnar til að víkja samningnum til hliðar á þeim grundvelli að það sé ósanngjarnt og/eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. einnig 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Hvað sem því líður þá liggur fyrir að kærði var ekki reiðubúinn að starfa áfram eftir efni verksamnings aðila í óbreyttri mynd á þeim tíma og að kærandi leitaði til annars lögmanns vegna hins skilgreinda verkefnis í júnímánuði 2017. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að verksamningi aðila hafi verið rift og/eða honum sagt upp af hálfu beggja málsaðila eigi síðar en í þeim mánuði. Í verksamningi aðila er þess í engu getið hvernig fara hafi átt með þóknun verksala, lögmannsstofu kærða, úr hendi verkkaupa, kæranda, við slíkar aðstæður en ágreiningur aðila í málinu lýtur að fjárhæð þess endurgjalds sem kærði hefur áskilið sér.

Með vísan til þess verður að mati nefndarinnar ekki hjá því komist að líta til umsaminnar þóknunar samkvæmt 5. gr. verksamnings aðila um þetta efni, þ.e. hin sérstaklega skilgreindu verkefni samkvæmt samningnum.

Samkvæmt yfirliti í verkbókhaldi kærða, dags. 19. maí 2017, vegna lögmannsþjónustu kærða og lögmannsstofu hans í þágu kæranda á tímabilinu frá 25. apríl 2013 til og með 10. apríl 2017 var heildartímafjöldi tilgreindur sem 231,35 klukkustundir og heildarverð að fjárhæð 6.488.659 krónur með virðisaukaskatti. Greinir tímaskýrslan einkum verkþætti í tengslum við málshöfðun og málarekstur á hendur E hf. annars vegar og hins vegar undirbúning málshöfðunar og sáttaumleitanir vegna málefna kæranda gagnvart L hf. Varðandi hið síðarnefnda verkefni er hins vegar til þess að líta að nokkurs óskýrleika greinir í tímaskráningu kærða á tímabilinu frá 1. mars 2016 til og með 4. apríl sama ár þegar 75,5 klukkustundum mun hafa verið varið í undirbúning málshöfðunarinnar, einkum af hálfu lögmannsfulltrúa kærða. Er þar fjölda klukkustunda varið í það sem ýmist er nefnt „sortering skjala“, „unnið í gögnum“ og „málsgögn“. Að mati nefndarinnar hafa ekki verið lagðar fram fullnægjandi skýringar um þetta efni og þá vinnu sem þar mun hafa búið að baki í málatilbúnaði kærða auk þess sem ekkert verður ráðið um þetta efni af framlögðum gögnum í málinu.

Að teknu tilliti til verkbókhalds kærða sem og því að mál var sannanlega höfðað á hendur E hf. og undirbúningur málshöfðunar á hendur L hf. var lokið með stefnugerð í mars- eða aprílmánuði 2016 verður að áliti nefndarinnar að leggja til grundvallar að áskilið endurgjald kærða og lögmannsstofu aðilans hafi í öllu falli svarað til þeirrar hámarksþóknunar sem kveðið var á um 5. gr. verksamnings aðila, þ.e. 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts. Með vísan til þess að málshöfðun á hendur L hf. var frestað í fyrstu vegna sáttaumleitana og síðar samkvæmt samkomulagi aðila í kjölfar þess að þær reyndust árangurslausar, sbr. áður lýst mat nefndarinnar, er ekki stoð fyrir þeim málatilbúnaði kæranda að draga beri frá þóknun kærða að þessu leyti þá vinnu sem óunnin sé við að höfða dómsmálið og reka það gegn bankanum á tveimur dómstigum. Við það mat er jafnframt höfð hliðsjón af þeim ítrekuðu og umfangsmiklu sáttaumleitunum sem kærði og fulltrúi hans önnuðust vegna lögskipta kæranda og L hf.

Í samræmi við framangreint telur nefndin að líta verði til 1. mgr. 5. gr. verksamnings aðila vegna ágreinings um þóknun um tilgreinda verkþætti. Með vísan til þess að samningnum hafi hvorki verið sagt upp né rift af hálfu málsaðila fyrr en í júnímánuði 2017 sem og með vísan til þess að aðilar leituðust ekki eftir því á samningstíma að áður umsaminni þóknun, eða forsendum að baki hennar, yrði breytt er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald vegna lögmannsstarfa kærða og lögmannsstofu hans í þágu kæranda í tengslum við verkþættina sé 3.000.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Ágreiningur aðila lýtur jafnframt að því hvort og þá að hvaða marki lögmannsstofa kærða hafi innt af hendi viðbótarverk í þágu kæranda og/eða fyrirsvarsmanns aðilans og þá hvort þau viðbótarverk hafi heyrt undir áðurgreindan verksamning aðila.

Vegna málatilbúnaðar kærða um lögmannsstörf í þágu kæranda og/eða fyrirsvarsmanns aðilans vegna ágreiningsmála við V, E hf. vegna nánar tilgreindra bílasamninga sem og vegna ráðgjafar við endurkaup á hluta tækja sem skilað hafði verið vegna ætlaðra vanskila á fjármögnunarleigusamningum er þess að gæta að engra færslna nýtur við um þetta efni í framlögðum tímaskýrslum kærða í málinu sem aðilinn reisir kröfugerð sína á, þ.e. hvorki í verkbókhaldi aðilans frá 19. maí 2017 né framlagðri tímaskýrslu með reikningi nr. 23250 frá 5. september 2017. Slíkt hið sama á við um lögmannsþjónustu í tengslum við aðfararmál vegna bifreiðar með skráningarnúmið xx-151 en auk þess verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að viðkomandi mál hafi aðeins varðað fyrirsvarsmann kæranda og verið því kæranda og verksamningi málsaðila óviðkomandi. Samkvæmt því er ekki efni til að líta til sérstaklega til umræddra verkþátta við mat á rétti til endurgjalds eða fjárhæð þess í málinu að mati nefndarinnar.

Í málatilbúnaði kærða um þetta efni er jafnframt vísað til þess að D lögmaður hafi tekið til varna í dómsmáli L hf. gegn kæranda og fyrirsvarsmanni aðilans með framlagningu greinargerðar x. mars 2015 vegna stefnu bankans sem þingfest hafi verið þann x. janúar sama ár. Þá hafi viðkomandi lögmaður flutt málið vegna kröfu um frávísun sem Héraðsdómur Y hafi fallist á með úrskurði nokkru síðar. Um þetta efni er þess að gæta að í verkbókhald kærða voru færðar alls 3,25 klukkustundir vegna vinnu lögmanns við greinargerð í tilgreindu máli þann x. mars 2015 en ekki verður séð að um frekari tímaskráningu hafi verið að ræða vegna þessa verkþáttar. Að mati nefndarinnar gat umræddur verkþáttur samkvæmt efni sínu fallið undir skilgreiningu verksamnings aðila um að gæta hagsmuna kæranda gagnvart L hf., sbr. 1. mgr. 1. gr. samningsins. Að teknu tilliti til þess sem og með hliðsjón af því að farið var með verkefnið á sama hátt og aðra verkþætti sem ágreiningslaust féllu undir verksamninginn og að ekki var gerður sérstakur skriflegur viðauki um það, sbr. 2. mgr. 1. gr. samningsins, er það mat nefndarinnar að verksamningur aðila, þ. á m. efnisákvæði um þóknun verksala, hafi jafnframt tekið til þessa verkþáttar. Samkvæmt því eru ekki efni til að líta sérstaklega til umrædds verkþáttar við mat á rétti til endurgjalds eða fjárhæð þess í málinu.

Aðila greinir ekki á um hagsmunagæslu kærða í þágu kæranda gagnvart J í aprílmánuði 2017 en 6. og 10. þess mánaðar var færð 1,6 klukkustund í verkbókhald kærða vegna viðkomandi hagsmunagæslu. Þar sem hvorki er ágreiningur um þann verkþátt né áskilið tímagjald kærða er fallist á að hæfilegt endurgjald kærða úr hendi kæranda vegna verkþáttarins sé að fjárhæð 47.680 krónur án virðisaukaskatts.

Kærandi hefur að hluta til reist málatilbúnað sinn á nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Líkt og kærði hefur bent á í málatilbúnaði sínum fellur ágreiningur í máli þessu utan gildissviðs laganna eins og það er afmarkað í 1. gr. þeirra. Þó hafa megi af nokkru hliðsjón af þeim meginreglum sem kveðið er á um í lögum nr. 42/2002 þá fá þær ekki breytt því mati nefndarinnar sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Samkvæmt öllu framangreindu er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald vegna lögmannsstarfa kærða og/eða lögmannsstofu aðilans í þágu kæranda sé að fjárhæð 3.047.680 krónur án virðisaukaskatts.

Að teknu tilliti til þess að ýtrustu kröfum beggja aðila fyrir nefndinni hefur verið hafnað sem og með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald kærða, B lögmanns, vegna starfa hans og/eða lögmannsstofu hans í þágu kæranda, A ehf., sætir lækkun og telst hæfilegt endurgjald að fjárhæð 3.047.680 krónur auk virðisaukaskatts.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Hjördís E. Harðardóttir lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson