Mál 27 2017

Ár 2018, 30. janúar 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2017:

A,

gegn

B

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. ágúst 2017 erindi kæranda, A, til heimilis að L 83, Reykjavík, en í því er kvartað yfir því að kærði, B, lögmaður með leyfi til að flytja mál fyrir Hæstarétti, með starfsstöð að S, Reykjavík, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 18. ágúst 2017 og barst hún þann 31. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 5. september 2017. Hinn 19. september 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann sama dag. Svar kærða barst þann 26. september 2017 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 27. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Kærandi er eigandi efstu hæðar í fjöleignarhúsinu að L 83 í Reykjavík en eignin skiptist í þrjá séreignarhluta. Í maímánuði 2015 mun kærandi hafa leitað til S sf. vegna ryðstíflu í sameiginlegu niðurfallsröri tilgreindrar fasteignar. Tók félagið að sér að losa stífluna og fór sú vinna fram á tímabilinu frá 22. – 29. maí 2015. Var gefinn út reikningur vegna vinnunnar á húsfélagið að L 83 þann 1. júní 2015 að fjárhæð 89.947 krónur með virðisaukaskatti. Kærandi mun hafa innt greiðslu af hendi til verktakans vegna síns séreignahluta með millifærslum dagana 1. og 8. júlí 2015 að heildarfjárhæð 35.062 krónur.

Kærandi kveðst hafa greitt hluta miðhæðar í fjöleignarhúsinu að L 83 vegna viðgerðarinnar þar sem eigandi þess eignahluta, T ehf., hafi leitt hjá sér hinn útgefna reikning og innheimtutilraunir á grundvelli hans og engir fjármunir hafi verið til reiðu í sjóðum húsfélagsins fyrir viðgerðinni.

Í kjölfar þess leitaði kærandi til innheimtuaðila vegna þeirra fjármuna sem kærandi taldi sig hafa greitt umfram skyldu og fyrir hönd annars séreignarhluta í fjöleignarhúsinu vegna hins útgefna reiknings frá 1. júní 2015. Munu innheimtuaðgerðir hafa hafist í kjölfar þess á hendur eiganda miðhæðar í fjöleignarhúsinu að L 83, T ehf. Þar sem krafan fékkst ekki greidd var mál höfðað af hálfu húsfélagsins að L 83 fyrir Héraðsdómi Y á hendur T ehf. Var málið þar rekið sem héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/2016. Mun kærði hafa farið með málið fyrir hönd stefnda í málinu. Í gögnum málsins sem liggja fyrir nefndinni er að finna greinargerð stefnda í tilgreindu héraðsdómsmáli sem kærði undirritaði fyrir hönd aðilans.

Með úrskurði Héraðsdóms Y, x. nóvember 2016 í tilgreindu máli nr. E-xxxx/2016 var málinu vísað frá dómi. Var vísað til þess í forsendum úrskurðarins að málið hefði verið höfðað í nafni húsfélagsins á hendur eiganda einnar af þremur íbúðum í húsinu. Ekki hefði verið lagt fram umboð til lögmanns húsfélagsins, sem stefnanda í málinu, til höfðunar málsins. Þá hefði verið lögð fram fundargerð húsfundar þar sem samþykkt hefði verið að hætta málarekstrinum. Þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að samþykkt hefði verið á húsfundi að höfða málið í nafni húsfélagsins var því vísað frá dómi. Var málskostnaður felldur niður á milli aðila.

Málatilbúnaður kæranda í máli þessu á hendur kærða er einkum reistur á því sem lýst er sem brenglunum og alvarlegum rangfærslum kærða í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2016.

Auk greinargerða og athugasemda málsaðila til nefndarinnar liggja fyrir í gögnum málsins áður lýst greinargerð stefnda í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2016, tölvubréf kæranda til kærða frá 11. febrúar 2017, boðanir til húsfélagsfunda ásamt kvittunum fyrir viðtöku og greinargerð S sf. vegna losunar ryðstíflunnar, dags. 17. febrúar 2016. Ekki þykir ástæða til að gera sérstaka grein fyrir tilgreindum gögnum umfram það sem greinir að neðan um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að kærða skuli gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að kvörtunin varði meintar brenglanir og alvarlegar rangfærslur kærða í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2016. Hafi fyrirsvarsmaður stefnda í málinu, en kærði fór með málið fyrir hönd stefnda, beitt blekkingum, lygum sem og fölskum og ólögmætum gögnum sem kærði hafi hjálpað honum við með ótal röngum og oft niðurlægjandi fullyrðingum í dómskjölum um hvað kærandi hefði gert í heimildarleysi. Þá hafi verið tekið fram í greinargerð stefnda sem kærði hafi undirritað að kærandi ætti viðkomandi kröfu en ekki húsfélagið að L 83 en samt hefði allur málflutningur kærða verið á þá leið hvað kærandi hefði gert margt rangt, vitlaust og án heimildar. Þá hafi kærði hvorki hitt né haft samband við kæranda en þrátt fyrir það fullyrt lygar umbjóðanda hans um kæranda eins og um staðreynd væri að ræða. Samkvæmt því hafi kærði blindandi eða viljandi varið lygar umbjóðanda aðilans.

Vísar kærandi til þess að dómskjöl málsins hafi verið full af blekkingum og lygum umbjóðanda kærða með hjálp aðilans. Þannig hafi falsað fundarboð verið lagt fram auk þess sem það hafi verið birt alltof seint og á vegg í fasteigninni sem sé andstætt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994. Hafi kærði kallað þetta löglegan fund í málarekstrinum án þess að kanna hvort um löglega boðaðan fund hefði verið að ræða. Þá hafi kærði stuðst við ólögmæta fundargerð af ólöglegum húsfundi í málarekstrinum, sbr. álit kærunefndar húsamála frá x. mars 2017 í máli nr. x/2016.

Bendir kærandi á að fundur um ryðstífluna hafi verið haldinn 8. júní 2015 þrátt fyrir lygar kærða og umbjóðanda hans um að enginn fundur hefði verið haldinn um málið. Vísar kærandi um það til fundarboðs frá 1. júní 2015 og póstkvittunar frá 2. sama mánaðar.

Byggir kærandi á að ef kærði hefði rætt við sig og skoðað gögn málsins hefði hann áttað sig á að um falsanir og ólögmæt gögn og lygar væri að ræða af hálfu umbjóðanda hans, þ.e. hafi kærði ekki vitað af því, og að verið væri því að innheimta lögmæta kröfu. Þá vísar kærandi til þess að málið hafi ekki verið vanreifað af hans hálfu líkt og kærði hafi nokkrum sinnum lýst yfir. Hafi kærði fullyrt ítrekað ranglega að viðkomandi ryðstífla hafi verið í eldhúsvaski í fasteign kæranda, sbr. verkskýrslur frá fagmönnum á sviðinu þar sem fram hafi komið að um væri að ræða stíflu í sameiginlegu niðurfallsröri.

Er til þess vísað í málatilbúnaði kæranda að rangfærslur kærða í málarekstrinum hafi verið alltof margar. Þannig hafi kærði endurtekið ítrekað í greinargerð til héraðsdóms að umbjóðandi hans hefði ekki skilið og vitað það sem hann sannanlega þekkti enda móttekið sjálfur gögn um málið. Þá hafi kærði fullyrt ítrekað að stífla hefði verið í eldhúsvaki í fasteign kæranda og að kærandi hafi farið í framkvæmdir á kostnað húsfélagsins sem séu ósannindi. Auk þess hafi kærði ítrekað tiltekið að enginn húsfundur hafi verið haldinn sem sé rangt.

Kveðst kærandi ekki hafa kallað inn verktaka á eigin spýtur á kostnað húsfélagsins eins og kærði hafi ranglega haldið fram að kærandi hafi gert í heimildarleysi. Vísar aðilinn til þess að í fyrstu hafi verið óskað eftir aðstoð fyrir fasteign kæranda en að síðar hafi komið í ljósi með vissu að ryðstífla væri í sameiginlegri lögn fjöleignarhússins. Farið hafi verið í lögnina í fasteign kæranda þar sem það hafi verið aðgengilegast þar. Ekki vegna þess að um lögn þakhæðar kæranda væri að ræða.

Bendir kærandi á að í greinargerð umbjóðanda kærða til héraðsdóms hafi verið tiltekið að innheimta fyrir stífluþjónustuna hafi komið stefnda í opna skjöldu. Þessu hafnar kærandi á þeim grundvelli að hann hafi vitað um ryðstífluna og löglega boðaðan húsfund sem ekki hafi verið sóttur af hans hálfu.

Í málatilbúnaði kæranda er jafnframt að finna langar útlistanir á meintum lygum og annarri háttsemi fyrirvarsmanns umbjóðanda kærða gagnvart kæranda sem ekki verður gerð grein fyrir í máli þessu.

Í niðurlagi kvörtunar kæranda er vísað til þess að rétt hafi verið að beina málinu til úrskurðarnefndar lögmanna enda álit kæranda að sú skylda hafi hvílt á kærða sem lögmanni að fara satt og rétt með eftir bestu getu en ekki fullyrða brenglanir umbjóðanda hans gegn kæranda persónulega og án þess að nokkur stoð væri fyrir slíku.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar kærða var málatilbúnaði kærða mótmælt í heild sinni auk þess sem fyrri sjónarmið kæranda voru ítrekuð. Mótmælti kærandi því sérstaklega að hann hefði vegið að heiðri kærða með kvörtun sinni til nefndarinnar og vísaði um það efni til þess að kærði hefði vegið að mannorði kæranda með ósönnum, rakalausum og röngum málflutningi fyrir hönd umbjóðanda síns.

III.

Kærði krefst þess aðallega að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni. Til vara krefst aðilinn þess að kröfum kæranda verði hafnað. Þá er þess krafist að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað fyrir nefndinni.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að kvörtunin lúti að rekstri máls fyrir Héraðsdómi Y þar sem kærði hafi gætt hagsmuna stefnda í máli sem húsfélagið að L 83 í Reykjavík hafi höfðað. Kærandi hafi ekki verið aðili að því máli sem hafi verið vísað frá dómi án þess að það hafi verið tekið til dóms um efni.

Kærði byggir á að erfitt sé að henda reiður á kvörtunarefni kæranda og að óljóst sé í raun hvaða kröfur séu gerðar af hans hálfu. Telur kærði málatilbúnað kæranda svo ruglingslegan og ónákvæman að ekki verði lagður úrskurður á efnið og beri því að vísa málinu frá. Þannig sé útlokað að taka til eiginlegra varna þar sem málatilbúnaður kæranda litist af upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum, þ.e. einkum í garð umbjóðanda kærða. Bendir kærði á að svo virðist vera sem kærandi hafi verið ósáttur við það að umbjóðandi kærða hafi reynt að verjast ólögmætum kröfum þriðja aðila auk þess sem engin gögn eða sannanir liggi fyrir sem styðji órökstuddar fullyrðingar kæranda.

Vísar kærði til þess að frávísunarúrskurður hafi verið kveðinn upp í umræddu dómsmáli sem ekki hafi sætt kæru til Hæstaréttar. Af erindi kæranda megi ráða að tekin séu upp atriði í héraðsdómsgreinargerð kærða og þeim svarað eins og að kærandi sé að gefa skýrslu fyrir dómi og að úrskurðarnefndin sé í því efni einhvers konar endurskoðunaraðili á dómi héraðsdóms með tilheyrandi sönnunarfærslu. Að áliti kærða fer því fjarri.

Kærði hafnar því að hafa farið fram með þeim hætti sem kærandi telur og bendir á að greinargerð fyrir héraðsdómi lýsi einungis afstöðu umbjóðanda kærða og kröfum. Þá hafi kærði aldrei haft samband við kæranda eða átt í nokkrum samskiptum við hann líkt og staðfest sé í kvörtun aðilans.

Kærði telur að kærandi hafi vegið gróflega að starfsheiðri kærða í kvörtun sinni og að ummælin séu einkar ærumeiðandi og óviðeigandi. Þá sé kvörtunin algjörlega tilefnislaus og einungis sett fram í því augnamiði að sverta starfsheiður kærða. Er þess krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði horft til þessa atriðis og álag lagt á málskostnaðinn.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar var vísað til þess að kærandi hefði með viðbótarathugasemdum sínum vegið enn að starfsheiðri kærða og að engin gögn hefðu verið lögð fram er styddu órökstuddar fullyrðingar um framgöngu aðilans. Þá hafnaði kærði því sérstaklega að hann hefði vegið að æru kæranda auk þess sem ekkert í málinu gæfi tilefni til að ætla að kærði hefði með einhverjum hætti viðhaft háttalag er teldist ámælisvert í garð kæranda.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd löganna getur nefndin vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst.

Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að erfitt sé að henda reiður á kvörtunarefni kæranda og að óljóst sé í raun hvaða kröfur sé gerðar af hans hálfu í málinu. Þá sé málatilbúnaður kæranda svo ruglingslegur og ónákvæmur að ekki verði lagður úrskurður á efnið auk þess sem útilokað sé að taka til eiginlegra varna í málinu þar sem málatilbúnaður kæranda litist af upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum.

Þótt fallast megi á það með kærða að málatilbúnaður kæranda sé nokkuð á reiki og óskýr um ýmis atriði, þ. á m. um hvaða atriðum sé beint að kærða sjálfum annars vegar og umbjóðanda hans hins vegar en hin síðarnefndu atriði heyra ekki undir starfs- og valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað með lögum nr. 77/1998 um lögmenn, verður ekki fram hjá því litið að umkvartanir kæranda lúta að sumu að þáttum og háttsemi í stöfum kærða sem lýst er kvörtun kæranda. Að mati nefndarinnar hefur málatilbúnaður kæranda ekki leitt til þess að kærði hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu með þeim hætti að leitt geti til frávísunar þess frá nefndinni. Eins og atvikum er háttað er það mat nefndarinnar að málið teljist nægilega reifað og upplýst. Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærða í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

III.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Þá er tiltekið í 18. gr. laga nr. 77/1998 að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi meginreglu 1. gr., sem áður er lýst.

Eins og áður greinir lýtur kvörtun kæranda að starfsháttum kærða í þágu umbjóðanda aðilans í tengslum við málarekstur héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/2016 sem rekið var fyrir Héraðsdómi Y. Kærandi var ekki aðili að tilgreindu héraðsdómsmáli, þótt hann telji sig eiga þá kröfu sem sakarefni málsins laut að, heldur húsfélagið að L 83 til sóknar sem höfðaði málið á hendur umbjóðanda kærða sem stefnda í málinu. Byggir kærandi á að kærði hafi farið fram með ósannindi og lygar undir rekstri héraðsdómsmálsins, þ. á m. í framlagðri greinargerð til dómsins, auk þess sem hann hafi lagt fram falsaðar og ólögmætar fundargerðir og önnur gögn í trássi við staðreyndir málsins.

Um þetta efni er þess að gæta að kærði tók til varna fyrir hönd síns umbjóðanda fyrir héraðsdómi vegna málshöfðunar á hendur hinum síðarnefnda. Samkvæmt því lagði kærði fram greinargerð til dómsins fyrir hönd síns umbjóðanda þar sem varnir aðilans komu fram gegn kröfu viðkomandi húsfélags. Með úrskurði Héraðsdóms Y, x. nóvember 2016 í málinu var fallist á formvarnir stefnda, þ.e. umbjóðanda kærða, í málinu og var því vísað frá dómi en forsendum úrskurðarins er nánar lýst í málsatvikalýsingu að framan. Úrskurðurinn sætti ekki kæru til Hæstaréttar.

Að áliti nefndarinnar verður hvorki ráðið af viðkomandi héraðsdómsgreinargerð eða þeim gögnum sem liggja fyrir nefndinni að kærði hafi farið fram með ósannindi og lygar undir rekstri héraðsdómsmálsins gagnvart kæranda í þessu máli né að hann hafi vísvitandi lagt fram falsaðar og ólögmætar fundargerðir og gögn sem lögð hafi verið til grundvallar við úrlausn málsins. Tilgreind héraðsdómsgreinargerð kærða var lögð fram í dómi fyrir hönd umbjóðanda aðilans þar sem var að finna varnir og mótmæli gegn málatilbúnaði stefnanda málsins. Eins og greinir í 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna hefur lögmaður kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Þótt ágreiningur kunni að hafa verið á milli stefnanda og/eða kæranda annars vegar og umbjóðanda kærða hins vegar um sakarefni málsins, sem og um málsatvik og staðreyndir í tengslum við málareksturinn, hefur kærandi ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að kærði hafi með starfsháttum sínum gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, þ.e. með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Gildir slíkt hið sama um önnur kvörtunarefni kæranda sem lýst er í erindi hans til nefndarinnar.

Með vísan til alls framangreinds er að áliti nefndarinnar ekki efni til að telja að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðssonvvvvvvvvvvvv