Mál 32 2017

Ár 2018, 28. febrúar 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2017:

A,

gegn

B

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. október 2017 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærða, B, lögmaður með leyfi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum, hafi brotið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess. Frekari gögn vegna málsins bárust frá kæranda þann 6. nóvember 2017.

Með bréfi, dags. 25. október 2017, var óskað eftir greinargerð kærðu um málið fyrir 9. nóvember sama ár, en engin svör bárust. Í kjölfar móttöku úrskurðarnefndar á viðbótargögnum frá kæranda vegna málsins var bréflegu erindi, dags. 8. nóvember 2017, beint á ný til kærðu þar sem henni var veittur frestur til 22. sama mánaðar til að skila greinargerð um erindið. Þar sem engin svör bárust frá kærðu ítrekaði nefndin tilmæli um að hún gerði nefndinni grein fyrir málinu af sinni hálfu með bréfi, dags. 1. desember 2017, og veitti henni lokafrest í því skyni til 18. sama mánaðar. Í því bréfi var kærða minnt á skyldur sínar gagnvart umbjóðanda sínum og gagnvart úrskurðarnefndinni samkvæmt lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna. Bent var á að bærust umbeðnar upplýsingar ekki innan tilskilins frests mætti hún búast við því að nefndin beitti þeim viðurlögum, sem kveðið væri á um í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Með tölvubréfi kærðu til nefndarinnar þann 30. desember 2017 var upplýst um að aðilinn hefði tekið ákvörðun um að skila ekki greinargerð vegna málsins. Þá var tiltekið af hálfu kærðu að hún hefði engu við gögn málsins að bæta öðru en gjaldskrá sinni sem hefði verið kynnt kæranda.

Var málið að því búnu tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvikalýsing kæranda hefur ekki sætt andmælum af hálfu kærðu og verður hún lögð til grundvallar auk þess sem byggt verður á þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina.

Samkvæmt málsatvikalýsingu kæranda er forsaga málsins sú að þann 13. september 2015 fór kærandi ásamt maka sínum á bráðamóttöku Landspítala með 9 mánaða son sinn vegna óværðar. Mun þar hafa komið í ljós að pilturinn var með brot á lærlegg. Voru foreldrar upplýstir um að barnaverndaryfirvöld fengju tilkynningu svo sem venja væri til og skylt væri að gera þegar óútskýrt beinbrot kæmi fram.

Þann 29. september 2015 mun starfsmaður Barnaverndar hafa tilkynnt kæranda um að málið hefði verið tilkynnt lögreglu. Þann 30. sama mánaðar fór kærandi í fylgd lögreglu á lögreglustöð til skýrslugjafar. Var kærandi upplýstur um að hann hefði réttarstöðu sakbornings á grundvelli kæru frá Barnavernd. Tilnefndi lögregla kærðu sem verjanda kæranda en kærandi mun ekki hafa sett fram ósk um tiltekinn verjanda.

Ákæra mun hafa verið gefin út á hendur kæranda þann x. september 2016 þar sem honum var gefið að sök að hafa veist að barni sínu og valdið því áverka í atlögunni, þ.e. þverbroti á lærlegg. Í kjölfar þess og afhendingu gagna sakamálsins mun kærandi hafa upplýst kærðu um að hann myndi velja sér annan lögmann til að taka til varna í málinu fyrir dómi. Sakamálið var þingfest þann x. október 2016 og var annar tilgreindur lögmaður skipaður verjandi kæranda þann sama dag. Með dómi Héraðsdóms Y, x. febrúar 2017 í máli nr. S-xxx/2016 var kærandi sýknaður af öllum sakargiftum og greiddist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda kæranda á rannsóknarstigi, kærðu í máli þessu, að fjárhæð 240.000 krónur.

Þann 13. nóvember 2015 mun starfsmaður Barnaverndar hafa tilkynnt kæranda um að mál drengsins færi fyrir barnaverndarnefnd. Óskuðu þá kærandi og maki hans eftir því við kærðu að hún tæki að sér lögmannsstörf fyrir þau vegna barnaverndarmálsins. Mun kærða hafa tekið það verk að sér og var undirritað umboð af því tilefni þann 17. nóvember 2015 sem skyldi gilda til 31. desember 2016. Skuldbundu kærandi og maki hans sig til að greiða kærðu fyrir umbeðna þjónustu, en kærða mun hafa upplýst þau um að sú þóknun sem hún fengi greidda frá borginni tæki aðeins til málsmeðferðar fyrir barnaverndarnefndinni, fyrir aðra vinnu þyrftu þau sjálf að greiða. Mun umsamið tímagjald hafa verið að fjárhæð 16.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Með úrskurði Héraðsdóms Y, x. janúar 2016 í máli nr. U-xx/2015 var úrskurður Barnaverndar Reykjavíkur, um að pilturinn skyldi vistaður á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, felldur úr gildi. Samkvæmt úrskurðarorði skyldi gjafsóknarkostnaður kæranda og maka hans greiðast úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns þeirra, kærðu í þessu máli, að fjárhæð 1.300.000 krónur.

Með tölvubréfi kærðu til kæranda þann 22. febrúar 2016 var kærandi krafinn um greiðslu fyrir 20 klukkustunda vinnu, samtals að fjárhæð 409.200 krónur. Mun kærandi hafa greitt viðkomandi reikning frá kærðu þann 8. mars 2016. Þá liggur fyrir í gögnum málsins reikningur kærðu til kæranda nr. 128, dags. 28. apríl 2016, að fjárhæð kr. 40.920 krónur með virðisaukaskatti vegna lögfræðiþjónustu í mars og aprílmánuði 2016. Greiddi kærandi þann reikning án athugasemda þann 18. maí 2016. Bendir kærandi á að samkvæmt tímaskýrslu kærðu, sem fylgt hafi með kröfubréfi dags. 10. október 2017, hafi ekkert verið unnið í málinu viðkomandi mánuði, þ.e. í mars og apríl 2016. Í samræmi við framangreint hefur kærandi greitt kærðu vegna lögmannsþjónustu alls 450.120 krónur á grundvelli umboðs vegna barnaverndarmálsins.

Bendir kærandi á að sú fjárhæð komi til viðbótar við 1.300.000 krónur sem kærðu hafi verið ákveðnar í úrskurði héraðsdóms frá x. janúar 2016 sem áður er lýst. Þessu til viðbótar hafi kærða innheimt greiðslur hjá Reykjavíkurborg vegna fyrirsvars fyrir kæranda og maka hans fyrir barnaverndaryfirvöldum. Í viðbótargögnum sem kærandi hefur lagt fram í málinu, sem stafa frá Reykjavíkurborg, kemur fram að veittur hafi verið styrkur á grundvelli 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vegna lögmannsaðstoðar í samtals 64,5 klukkustundir á tímagjaldi að fjárhæð 12.500 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 1.033.230 krónur. Samkvæmt því munu greiðslur Reykjavíkurborgar til kærðu vegna barnaverndarmálsins hafa verið að tilgreindri fjárhæð, þ.e. 1.033.230 krónur með virðisaukaskatti.

Með reikningi kærðu nr. 241, dags. 30. júní 2017, sem mun hafa borist kæranda með bréfi kærðu, dags. 10. október 2017, var kærandi krafinn um greiðslu að fjárhæð 588.630 krónur með virðisaukaskatti vegna lögfræðiþjónustu, sem skyldi greiðast innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins að viðlögðum vöxtum. Í gögnum sem fylgdu með reikningnum, þ.e. fyrirliggjandi tímaskýrslu kærðu sem stíluð er á embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,  kom fram að um væri að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærðu sem tilnefnds verjanda kæranda á rannsóknarstigi.

Í tölvubréfi sem kærða sendi til kæranda þann 31. maí 2017, ásamt samskiptum kærðu við skipaðan verjanda kæranda í því sakamáli sem áður er lýst og samskiptum þess lögmanns við dómsformann í viðkomandi máli um ákvörðun þóknunar í því, kom fram að kærða hefði haldið eina tímaskýrslu um „allt“. Samkvæmt tímaskýrslunni hafði alls verið unnið í 109,5 klukkustundir, tímagjald var tiltekið að fjárhæð 17.000 krónur án virðisaukaskatts, en lágmarksgjald fyrir mætingu í skýrslutöku hjá lögreglu að fjárhæð 54.000 krónur. Tímaskýrslan tiltekur 28,5 klukkustundir vegna lögmannsstarfa í tengslum við sakamálið en í skýrslunni er jafnframt greint frá vinnu að málum fjölskyldu kæranda og því barnaverndarmáli sem áður er lýst, alls 109,5 klukkustundir, en kostnaður vegna barnaverndarmálsins er þar á núlli.

Í tölvubréfi kærðu til kæranda frá 31. maí 2017 var eftirfarandi tiltekið.

Þau leiðu mistök urðu að dómarinn í málinu skyldi ekki tímaskýrsluna frá mér. Ég var með eina tímaskýrslu til að halda utan um allt, enda flókið að hafa margar í gangi, en þegar ég sendi [skipuðum verjanda] tímana tók ég út allar upphæðir er vörðuðu ekki sakamálið. Þetta vafðist fyrir [dómara] og þrátt fyrir ítrekaðar skýringar skilur hann þetta ekki enn. Ég fékk kr. 240.000,- í málskostnað skv. dóminum en ekki 668.250. + vsk sem ég réttilega átti að fá. Út af standa því kr. 588.630.- með virðisauka.“

Kærandi mun hafa svarað tilgreindu tölvubréfi þennan sama dag þar sem bent var á að sakarkostnaður samkvæmt dóminum í sakamálinu skyldi greiðast úr ríkissjóði. Kærða mun hafa ítrekað kröfu sína í tölvubréfi þann 1. júní 2017 sem kærandi andmælti samdægurs. Í tölvubréfi kærðu til kæranda síðar þann sama dag kom fram að allt hefði verið reynt, bæði við lögreglustjóra og dómara, án árangurs, og að hið veitta umboð hefði ekki tiltekið hvaða hluta málsins væri um að ræða. Þá kæmi oft til þess að dómarar lækkuðu reikninga, sérstaklega við réttargæslustörf en að kærða gæti ekki látið það liggja í þetta sinn þar sem upphæðin væri slík. Þá óskaði kærða eftir svörum frá kæranda um það hvort til viðræðu væri að semja um þetta gegn lækkun. Í tölvubréfi kæranda til kærðu þann 2. júní 2017 upplýsti aðilinn um að þetta mál lyti ekki að fjárhæðum. Benti kærandi á að hann hefði verið sýknaður, meðal annars af greiðslu sakarkostnaðar, og að hann gerði enn ráð fyrir að sá kostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði. Þá hefði umboð til kærðu verið vegna barnaverndarmálsins og að kæranda væri ekki kunnugt um annað en að þóknun vegna þess hluta hefði verið gerð upp að fullu. Í svari kærðu þann sama dag var upplýst að reikningur væri á leiðinni og að hann yrði innheimtur í samræmi við lög. Mun sá reikningur kærðu á hendur kæranda hafa verið gefinn út þann 30. júní 2017, sbr. reikning nr. 241 sem áður er lýst.

Mál þetta varðar nefndan reikning kærðu sem kærandi telur sér óskylt að greiða.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að staðfest verði að kærða eigi ekki rétt til umkrafinnar greiðslu úr hendi kæranda samkvæmt reikningi nr. 241, dags. 30. júní 2017, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að ágreiningur í málinu lúti að þóknun. Vísar aðilinn til þess að kærða hafi verið tilefnd af lögreglu til að vera verjandi kæranda við lögreglurannsókn á beinbroti barns í septembermánuði 2015. Ákæra hafi verið gefin út í septembermánuði 2016 en þá hafi annar lögmaður tekið við málinu sem hafi verið skipaður verjandi kæranda við þingfestingu þess. Með dómi héraðsdóms í febrúar 2017 hafi kærandi verið sýknaður af sakargiftum og sakarkostnaður felldur á ríkissjóði, þar með talin tiltekin þóknun til verjanda á rannsóknarstigi. Þeim dómi héraðsdóms hafi ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar. Kveður kærandi að kærða krefji hann nú um greiðslu sakarkostnaðar vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi, sem kærðu hafi mistekist að innheimta hjá ákæruvaldinu og fyrir dómi.

Vísar kærandi til þess að með reikningi kærðu, dags. 30. júní 2017, sem hafi borist kæranda þann 10. október sama ár, hafi hann verið krafinn um greiðslu að fjárhæð 588.630 krónur með virðisaukaskatti vegna lögfræðiþjónustu. Samkvæmt tímaskýrslu og skýringum kærðu sé um að ræða kostnað vegna vinnu hennar sem tilnefnds verjanda kæranda við lögreglurannsókn á máli sem lyktað hafi með sýknu kæranda, sbr. dóm Héraðsdóms Y frá x. febrúar 2017 sem jafnframt hafi fellt greiðslu alls sakarkostnaðar á ríkissjóð. Þennan reikning telur kærandi sér óskylt að greiða.

Kærandi bendir á að með kröfugerð kærðu hafi fylgt tölvubréfasamskipti sem beri með sér að kærða hafi hvorki gert reka að því að fá kostnað sinn greiddan frá lögreglu né gert ákæruvaldi grein fyrir vinnu sinni við meðferð málsins á rannsóknarstigi fyrir þingfestingu þess x. október 2016 þegar annar lögmaður hafi verið skipaður verjandi. Kærða hafi komið fyrir dóm sem vitni við aðalmeðferð málsins í janúarmánuði 2017 og hafi því verið fullkunnugt um stöðu þess. Þá beri tölvubréfasamskipti með sér að eftir dómtöku málsins hafi dómsformaður ítrekað leitað eftir skýringum kærðu á tímaskýrslu hennar, sem borist hafi eftir dómtöku málsins, en ekki fengið fullnægjandi skýringar. Með dómi Héraðsdóms Y hafi kærðu verið ákvörðuð þóknun fyrir verjandastörf á rannsóknarstigi, alls 240.000 krónur. Vísar kærandi til þess að kærða telji það vangreiðslu með vísan til tímaskýrslu og krefur kæranda, sem sýknaður var af kröfu um greiðslu sakarkostnaðar, um greiðslu þess sem uppá vantar. Sé sú krafa studd þeim rökum að þar sem ákærandinn hafi hafnað því að greiða kröfuna neyðist kærða til að innheimta hana hjá kæranda.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að verjandi sakbornings á rannsóknarstigi eigi rétt á að fá greitt fyrir vinnu sína. Þá eigi lögmaður einnig að vita hvenær og að hverjum hann eigi að beina kröfum sínum um endurgjald fyrir þá vinnu. Þóknun skipaðs eða tilnefnds verjanda eigi að greiðast úr ríkissjóði og teljist til sakarkostnaðar samkvæmt 216. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Samkvæmt 221. gr. laga nr. 88/2008 skuli leggja út fyrir sakarkostnaði úr ríkissjóði. Ákærandi skuli samkvæmt 2. mgr. 217. gr. laganna taka saman yfirlit um þau útgjöld sem hlotist hafi af málinu fram að þingfestingu þess og teljast til sakarkostnaðar og leggja það fram við þingfestingu máls. Upplýsingar um viðbótarútgjöld skuli ákærandi leggja fram í síðasta lagi við upphaf aðalmeðferð. Sé sá sem tilefndur hefur verið verjandi sakbornings á rannsóknarstigi ekki sami lögmaður og síðar er skipaður verjandi hans skuli héraðssaksóknari, lögreglustjóri eða löglærður fulltrúi hans ákveða þóknun tilnefnds verjanda, en heimilt er að greiða verjanda hluta áætlaðrar þóknunar áður en rannsókn máls lýkur, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008.

Kærandi mótmælir því að vanræksla kærðu við að halda kröfu sinni til haga gagnvart ákæruvaldinu eða við að nýta kost sinn til að skýra hana fyrir dómara geti skapað kærðu rétt til að krefja sýknaðan sakborning um greiðslu vegna vinnu sem telst til sakarkostnaðar. Vísar aðilinn til þess að lögmannsstörf vegna barnaverndarmálsins, sbr. umboð, séu að fullu greidd og séu kröfum kærðu um greiðslu umkrafins sakarkostnaðar sem tilnefnds verjanda kæranda við lögreglurannsókn óviðkomandi. Samkvæmt því er þess krafist að úrskurðarnefnd staðfesti að kærða eigi ekki rétt til umkrafinnar þóknunar úr hendi kæranda.

Auk framangreinds bendir kærandi á að kærða styðji hótanir sínar um löginnheimtu kröfunnar við umboð sem kærandi og maki hans veittu kærðu þann 17. nóvember 2015 til þess að gæta hagsmuna sinna í samskiptum við barnaverndaryfirvöld. Á grundvelli umboðsins, sem gilti til 31. desember 2016, hafi kærandi og maki hans greitt reikninga kærðu að fjárhæð 450.120 krónur með virðisaukaskatti. Þá hafi kærða fengið greiðslu frá Reykjavíkurborg að fjárhæð 1.033.320 krónur með virðisaukaskatti vegna fyrirsvars fyrir barnaverndarnefnd auk þess að hafa fengið ákvarðaða þóknun að fjárhæð 1.300.000 krónur samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Y  frá x. janúar 2016 í viðkomandi barnaverndarmáli, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Vísar kærandi til þess að ekkert, þar með talið málflutningur kærðu við hina umþrættu innheimtu, bendi til þess að umkrafinn kostnaður kærðu stafi af þeirri umbeðnu lögmannsþjónustu sem umboðið hafi tekið til.

III.

Sem fyrr greinir upplýsti kærða um með tölvubréfi til nefndarinnar þann 30. desember 2017 að hún hefði tekið ákvörðun um að skila ekki greinargerð vegna málsins. Þá var tiltekið af hálfu kærðu að hún hefði engu við gögn málsins að bæta öðru en gjaldskrá sinni sem hefði verið kynnt kæranda. Að öðru leyti hefur kærða ekki gert grein fyrir sjónarmiðum vegna máls þessa fyrir nefndinni.

 

Niðurstaða

I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Fyrir liggur að þann 30. september 2015 var kærða tilnefnd sem verjandi kæranda á rannsóknarstigi af embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna sakamálarannsóknar. Þá liggur fyrir að ákæra var gefin út á hendur kæranda í septembermánuði 2016 vegna hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi. Við þingfestingu málsins var annar lögmaður skipaður verjandi kæranda fyrir dómi. Með dómi Héraðsdóms Y, x. febrúar 2017 í máli nr. S-xxx/2016 var kærandi sýknaður af öllum sakargiftum og greiddist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda kæranda á rannsóknarstigi, kærðu í máli þessu, að fjárhæð 240.000 krónur.

Þá liggur fyrir að kærandi og maki hans óskuðu eftir við kærðu að hún tæki að sér lögmannsstörf fyrir þau vegna barnaverndarmáls, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Tók kærða að sér það verk og var undirritað umboð af því tilefni þann 17. nóvember 2015 sem skyldi gilda til 31. desember 2016. Skuldbundu kærandi og maki hans sig til að greiða kærðu fyrir umbeðna þjónustu, en kærða mun hafa upplýst þau um að sú þóknun sem hún fengi frá borginni tæki aðeins til málsmeðferðar fyrir barnaverndarnefndinni, fyrir aðra vinnu þyrftu þau sjálf að greiða. Mun umsamið tímagjald hafa verið að fjárhæð 16.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun kærandi hafa greitt reikninga kærðu að heildarfjárhæð kr. 450.120 krónur á grundvelli umboðs vegna barnaverndarmálsins. Með úrskurði Héraðsdóms Y, x. janúar 2016 í máli nr. U-xx/2015, þar sem felldur var úr gildi úrskurður Barnaverndar Reykjavíkur um að barn kæranda skyldi vistað á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, var jafnframt tiltekið að gjafsóknarkostnaður kæranda og maka hans skyldi greiðast úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun kærðu, að fjárhæð 1.300.000 krónur. Því til viðbótar mun kærða hafa innheimt greiðslur frá Reykjavíkurborg vegna fyrirsvars fyrir kæranda og maka hans fyrir Barnavernd, samkvæmt styrk sem veittur var á grundvelli 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vegna lögmannsaðstoðar, að heildarfjárhæð 1.033.230 krónur.

Á grundvelli gagna málsins og málatilbúnaðar kæranda fyrir nefndinni, sem ekki hefur sætt andmælum af hálfu kærðu, verður að leggja til grundvallar að viðkomandi umboð frá 17. nóvember 2015 hafi tekið til þess barnaverndarmáls sem kærða fór með fyrir hönd kæranda og maka hans. Þá verður og að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að kærða hafi fengið fullnaðargreiðslu vegna þeirra lögmannsstarfa hennar í þágu kæranda, þ.e. í fyrsta lagi með greiðslu reikninga frá kæranda og maka hans, í öðru lagi með gjafsóknarkostnaði samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Y og í þriðja lagi með greiðslu frá Reykjavíkurborg.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að reikningi kærðu nr. 241, dags. 30. júní 2017, sem mun hafa borist kæranda með bréfi kærðu, dags. 10. október 2017. Með reikningnum var kærandi krafinn um greiðslu að fjárhæð 588.630 krónur með virðisaukaskatti en af fylgiskjölum með reikningnum sem og öðrum gögnum sem liggja fyrir í málinu verður ráðið að um hafi verið að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærðu sem tilnefnds verjanda kæranda á rannsóknarstigi vegna áður lýstrar sakamálarannsóknar. Þá liggur fyrir að kærandi hafði viðhaft mótmæli gagnvart kærðu fyrir útgáfu hins umþrætta reiknings, þ.e. á þeim grundvelli að ekki væri stoð fyrir frekari reikningsgerð þar sem kærandi hefði verið sýknaður í viðkomandi sakamáli og sakarkostnaður lagður á ríkissjóð samkvæmt dómi Héraðsdóms Y auk þess sem umboð til kærðu hefði aðeins tekið til barnaverndarmálsins en þóknun vegna þess máls hefði þegar verið gerð upp að fullu.

Ekkert liggur fyrir um það að samkomulag hafi komist á milli málsaðila um að kærandi myndi greiða eða ábyrgjast greiðslu þóknunar kærðu vegna verjandastarfa hennar á rannsóknarstigi í þágu kæranda. Þvert á móti liggur fyrir að kærða var tilnefnd af lögreglu til starfans þar sem kærandi hafði ekki sett fram ósk um tiltekinn verjanda. Um  rétt kærðu til þóknunar vegna starfans fór því alfarið samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008 telst þóknun verjanda til sakarkostnaðar, sbr. einnig 3. mgr. 38. gr. laganna. Í 1. mgr. 221. gr. sömu laga er kveðið á um að lagt skuli út fyrir sakarkostnaði úr ríkissjóði. Þá er tiltekið í 2. mgr. 217. gr. laganna að ákærandi skuli taka saman yfirlit um þau útgjöld sem hlotist hafi af málinu fram að þingfestingu þess og teljast til sakarkostnaðar og leggja það fram við þingfestingu þess. Upplýsingar um viðbótarútgjöld skuli ákærandi leggja fram í síðasta lagi við upphaf aðalmeðferðar. Dómari ákveður þóknun í einu lagi ef sá sem tilnefndur hefur verið verjandi sakbornings er síðar skipaður til að gegna því starfi. Að öðrum kosti skal héraðssaksóknari, lögreglustjóri eða löglærður starfsmaður þeirra ákveða þóknun tilnefnds verjanda, en heimilt er að greiða verjanda hluta áætlaðrar þóknunar áður en rannsókn máls lýkur, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008

Eins og áður greinir var kærandi sýknaður af öllum sakargiftum með dómi Héraðsdóms Y, x. febrúar 2017 í máli nr. S-xxx/2016 og samkvæmt dómsorði skyldi allur sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun kærðu á rannsóknarstigi málsins, að fjárhæð 240.000 krónur. Þá liggur fyrir að hinn umþrætti reikningur kærðu á hendur kæranda, dags. 30. júní 2017 að fjárhæð 588.630 krónur með virðisaukaskatti, er tilkominn vegna meintrar ógreiddrar þóknunar vegna verjandastarfa kærðu á rannsóknarstigi í þágu kæranda, þ.e. fjárhæð reikningsins er mismunur á dæmdum málsvarnarlaunum annars vegar og þeirri þóknun sem kærða áskildi sér á grundvelli tímaskýrslu hins vegar.

Að áliti nefndarinnar var hvorki lögbundin né samningsbundin stoð fyrir hinum umþrætta reikningi sem kærða gaf út þann 30. júní 2017 og stílaði á kæranda. Fyrir liggur að þóknun kærðu vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi var ákvörðuð með dómsorði samkvæmt lögum nr. 88/2008. Þá var engu samningssambandi til að dreifa á milli aðila þessa máls um greiðslu þóknunar umfram það sem kveðið væri á um í tilgreindum lögum. Samkvæmt því átti kærða enga frekari heimtingu til greiðslu málsvarnarlauna en tiltekið hafði verið í dómi Héraðsdóms Y, x. febrúar 2017 sem áður er lýst. Eru því ekki efni til annars en að fallast á með kæranda að kærða eigi ekki rétt til umkrafinnar þóknunar úr hendi kæranda samkvæmt reikningi nr. 241, dags. 30. júní 2017, með þeim hætti sem kveðið er á um í úrskurðarorði.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, B, á ekki rétt til þóknunar úr hendi kæranda, A, samkvæmt reikningi kærðu nr. 241, dagsettum 30. júní 2017 að fjárhæð 588.630 krónur með virðisaukaskatti, og skal hann felldur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Hjördís E. Harðardóttir lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson