Mál 35 2017
Ár 2018, 28. febrúar 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 35/2017:
A,
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S KU R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 22. nóvember 2017 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærða, B lögmaður með leyfi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Með bréfi, dags. 22. nóvember 2017, var óskað eftir greinargerð kærðu um málið fyrir 8. desember sama ár, en engin svör bárust. Þann 29. desember 2017 beindi nefndin á ný bréflegu erindi til kærðu þar sem ítrekuð voru tilmæli um að hún gerði nefndinni grein fyrir málinu af sinni hálfu og veitti nefndin henni lokafrest í því skyni til 15. janúar 2018. Í því bréfi var kærða minnt á skyldur sínar gagnvart umbjóðanda sínum og gagnvart úrskurðarnefndinni samkvæmt lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna. Bent var á að bærust umbeðnar upplýsingar ekki innan tilskilins frests mætti hún búast við því að nefndin beitti þeim viðurlögum, sem kveðið væri á um í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
Með tölvubréfi kærðu til nefndarinnar þann 30. desember 2017 var upplýst um að aðilinn hefði tekið ákvörðun um að skila ekki greinargerð vegna málsins.
Var málið að því búnu tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Málsatvikalýsing kæranda hefur ekki sætt andmælum af hálfu kærðu og verður hún lögð til grundvallar auk þess sem byggt verður á þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina.
Samkvæmt málsatvikalýsingu kæranda er forsaga málsins sú að hann fékk samþykkt tilboð í fasteignina Á, fnr. xxx-xxxx, þann x. júní 2014 en afhending átti að fara fram á kaupsamningsdegi. Fyrirvari mun hafa verið gerður um samþykki Í um yfirtöku láns og samþykki annarra veðhafa um afléttingu áhvílandi lána en aflétting lána átti að fara fram eigi síðar en 1. ágúst 2014. Kaupsamningur um eignina mun ekki hafa verið gerður fyrr en þann x. nóvember 2014 þar sem ekki hafði verið gengið frá afléttingu lána. Samkvæmt því var gengið til kaupsamnings á yfirveðsettri eign. Aflýsingardagur lána átti að vera 10. desember 2014 samkvæmt kaupsamningnum og áætlaður útgáfudagur afsals þann 19. sama mánaðar.
Kærandi kveður að ekkert hafi bólað á veðskuldabréfum eða skilyrtum veðleyfum sem hafi verið forsenda þess að hægt væri að uppfylla kaupsamninginn og gefa út afsal fyrir eigninni. Kveðst kærandi hafa gefist upp á sumarmánuðum 2015 við að fá almennileg svör frá viðkomandi fasteignasala sem annaðist sölu eignarinnar en hann mun jafnframt hafa verið skiptastjóri þess dánarbús sem var seljandi eignarinnar. Sá kærandi sig þá knúinn til að leita sér aðstoðar lögmanns, þar sem afsal fékkst ekki útgefið vegna eignarinnar og innheimtuaðgerðir voru hafnar á hendur kæranda vegna skulda og vanskila fyrri eigenda. Ekki mun hafa gengið að leysa málið þar sem veðsalar neituðu að aflétta áhvílandi veðskuldum á eigninni. Var eignin seld á nauðungarsölu þann x. febrúar 2016 og átti Í hæsta boð.
Kærandi vísar til þess að til að eiga möguleika á að fá eignina aftur hafi hann ekki átt annarra kosta völ en að greiða inn á lán seljenda og semja við Í til að fá nauðungarsöluna afturkallaða. Að öðrum kosti hefði kærandi tapað eigninni og öllum þeim fjármunum sem lagðir höfðu verið í framkvæmdir sem hefðu verið umtalsverðar. Kveðst kærandi hafi tekið nýtt lán hjá F þann 15. ágúst 2016 til að greiða upp eldri lán sem hvíldu á fasteigninni. Við þinglýsingu hins nýja láns hafi komið í ljós að láðst hafði að afla veðleyfis seljenda. Af þeim sökum hafi verið haft samband við lögmann seljenda, kærðu í máli þessu, þann 4. október 2016 til að afla veðleyfisins svo hægt væri að þinglýsa nýjum lánum á eignina og greiða upp þau gömlu.
Kærandi kveður að í kjölfar þessa hafi tekið við ótrúleg eftirfylgni við að reyna að fá kærðu til að útbúa umrætt veðleyfi fyrir hönd umbjóðenda sinna. Þannig hafi kærða ítrekað hvorki svarað tölvupóstum né símtölum frá kæranda eða lögmanni hans. Þegar lögmaður kæranda hafi loks náð í kærðu hafi hún lofað því að gengið yrði í málið. Lögmaður kæranda hafi fylgst með því hvort skjölin væru dagbókarfærð hjá viðkomandi sýslumannsembætti, sem ekki hafi verið gert, og að í lok desembermánaðar 2016 hafi hann sent kærðu fyrirspurn þess efnis án þess að fá svör.
Kærandi vísar til þess að honum og lögmanni hans hafi verið orðið verulega misboðið í janúarmánuði 2017 en kærandi hafi þó á endanum náð tali af kærðu í ársbyrjun. Í því símtali hafi kærða meðal annars borið fyrir sig erfiðleika í einkalífi. Þegar kærandi hafi gefið lítið fyrir þær skýringar og bent kærðu á að réttast væri að koma málinu í hendur annars lögmanns þar sem hún væri ekki í stakk búin til að standa við skuldbindingar sínar hafi kærða öskrað á kæranda og skellt á hann. Lögfræðingur hjá Í mun jafnframt hafa reynt að fá kærðu til að klára málið þar sem krafa um dráttarvexti var sett á bið á meðan gagnaöfluninni stóð en án árangurs.
Í tölvubréfi kærðu til kæranda þann 11. janúar 2017 var upplýst að veðleyfið hefði verið endursent vegna formgalla og að vottar hefðu þurft að setja upphafsstafina sína við orðið „dagsetning“ á leyfinu. Var því lýst að það hefði verið gert og að veðleyfið færi til viðkomandi sýslumannsembættis daginn eftir. Kærandi kveður að hið rétta sé að veðleyfinu hafi verið hafnað vegna formgalla í skjalagerð þar sem orðalag hafi ekki verið rétt og að á því hafi kærða ein borið ábyrgð.
Þar sem ekkert mun hafa verið dagbókarfært í tengslum við málið hjá viðkomandi sýslumannsembætti þann 18. janúar 2017 beindi lögmaður kæranda tölvubréfi til kærðu, sem lögfræðingur Í fékk jafnframt afrit af, þann 19. sama mánaðar þar sem upplýst var um að kærandi myndi neyðast til að stefnu málinu fyrir Héraðsdóm Y og fá viðurkenningardóm fyrir rétti kæranda til að veðsetja fasteignina fyrir nýjum lánum. Í tölvubréfi þann sama dag til málsaðila upplýsti lögmaður Í um afstöðu sjóðsins til málsins, þ. á m. um að það tjón sem kynni að hafa orðið vegna veðleyfisins og þeirrar staðreyndar að erfingjar dánarbúsins hefðu dregið lappirnar í málinu væri alfarið á þeirra ábyrgð vegna fádæma tómlætis.
Í tölvubréfi kærðu til lögfræðings hjá Í þann 20. janúar 2017, sem kærandi og lögmaður hans fengu jafnframt afrit af, var upplýst að veðleyfið hafi farið til viðkomandi sýslumannsembættis tveimur dögum fyrr og að kærða hefði afhent það sjálf. Kærandi telur að það fái ekki staðist enda hafi ekkert verið bókað hjá sýslumannsembættinu. Samkvæmt því hafi kærða sagt ósatt um þetta efni í tölvubréfinu.
Kærandi kveður að ekki hafi náðst frekar í kærðu vegna málsins. Þá hafi verið upplýst af talsmanni umbjóðenda kærðu, sem voru seljendur fasteignarinnar, að ekki hefði tekist að fá til baka þau gögn sem kærða hefði fengið vegna málsins og væru þau því glötuð. Að endingu hafi viðkomandi talsmaður gengið í málið með kæranda án aðkomu kærðu og hafi veðleyfið verið undirritað og því verið þinglýst um miðjan marsmánuð 2017.
Kærandi vísar til þess að á þessum tíma hafi ekki verið hægt að greiða upp lán frá Í og reikna út raunverulegt tjón sem kærandi hafði orðið fyrir. Vísar kærandi til þess að kaupverð fasteignarinnar hafi verið 41.000.000 krónur en að hann hafi neyðst til að greiða 53.447.082 krónur vegna vanefnda seljenda og þeirra tafa sem orðið hefðu á því að hægt væri að ljúka málinu. Samkvæmt því hafi kærandi þurft að greiða 12.447.082 krónur umfram umsamið kaupverð vegna fasteignakaupanna. Þegar tjónið hafi legið fyrir í marsmánuði 2017 hafi verið sóst eftir því að fá tjónið bætt úr starfsábyrgðartryggingu viðkomandi fasteignasala. Því hafi verið synjað af hálfu úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum þar sem túlkun þeirra hafi verið sú að vátryggingaratburður hafi átt sér stað þegar önnur trygging viðkomandi fasteignasala hafi verið í gildi. Hins vegar hafi ekki verið hægt að sækja bætur í þá tryggingu þar sem tímamörk hefðu runnið út á þeim tíma sem ekki hefði verið unnt að klára málið, þ.e. vegna tafa og tómlætis kærðu, nánar tiltekið í febrúar 2017. Kveður kærandi að samkvæmt því sé ljóst að kærða beri ábyrgð á því að ekki hafi verið hægt að sækja í eldri starfsábyrgðartryggingu viðkomandi fasteignasala og að kærandi sitji nú uppi með tjón sem hlaupi á milljónum.
II.
Kærandi krefst þess að kærða verði áminnt fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Um kröfu sína vísar kærandi til þeirrar málsatvikalýsingar sem að framan greinir. Byggir kærandi á að tafir af völdum kærðu hafi orðið til þess að ekki hafi fengist skilyrt veðleyfi í tæka tíð til að hægt væri að fá tjón bætt úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasala. Ekki hafi verið hægt að fá afsal fyrr en veðleyfi hafi legið fyrir og að endanleg bótakrafa hafi því ekki orðið ljós þannig að hægt væri að gera kröfu í starfsábyrgðartrygginguna. Kærða hafi tafið það að skila inn veðleyfi til þinglýsingar í marga mánuði sem hafi leitt til höfnunar á bótakröfu kæranda.
Byggir kærandi á að vinnubrögð kærðu hafi valdið sér stórkostlegu fjárhagslegu tjóni og gerir aðilinn kröfu um að kærða verði áminnt fyrir háttsemi sína. Vísar kærandi til þess að lögmenn beri ákveðnar skyldur sem þeim beri að fylgja og valdi þeir tjóni með sinnuleysi og tómlæti, eins og tilfellið sé í þessu máli, verið að áminna fyrir slíka háttsemi þótt slíkt breyti ekki niðurstöðu í máli kæranda. Kveður kærandi það skyldu sína að koma málinu á framfæri til að forða öðrum frá því að lenda í slíkri vanhæfni og slíkum óásættanlegum vinnubrögðum lögmanns.
Kærandi byggir á að óboðlegt sé að lenda í þessum sporum þar sem aldrei hafi staðið á því í málinu að kærandi stæði við sínar skuldbindingar. Þá hafi engar tafir orðið á málinu af völdum kæranda eða hans lögmanns. Kveður kærandi að vanhæfni kærðu og það að hún hafi sagt málsaðilum ósatt sem valdi tjóni teljist til óásættanlegra vinnubragða.
Með vísan til alls framangreinds krefst kærandi þess að kærða verði áminnt fyrir háttsemi sína.
III.
Sem fyrr greinir upplýsti kærða með tölvubréfi til nefndarinnar þann 30. desember 2017 að hún hefði tekið ákvörðun um að skila ekki greinargerð vegna málsins. Að öðru leyti hefur kærða ekki gert grein fyrir sjónarmiðum vegna máls þessa fyrir nefndinni.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
II.
Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Í 12. gr. siðareglnanna, sem er að finna í II. kafla þeirra þar sem kveðið er á um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum, er tiltekið að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða og að hann skuli tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.
Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna, sem er að finna í V. kafla þeirra þar sem kveðið er á um skyldur lögmanns við gagnaðila, skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.
Þá er kveðið á um í 41. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.
Samkvæmt málsatvikalýsingu kæranda, sem ekki hefur sætt nokkrum andmælum af hálfu kærðu, gætti kærða hagsmuna gagnaðila kæranda vegna lögskipta aðila í tengslum við uppgjör og skjalagerð vegna þinglýsingu veðheimilda samkvæmt kaupsamningi um fasteignina að Á í Reykjavík. Mun kærðu hafa verið falið þann 4. október 2016 að afla veðleyfis skjólstæðinga sinna svo hægt væri að þinglýsa nýjum lánum á eignina og greiða upp eldri áhvílandi veðskuldbindingar. Kveður kærandi að hann og lögmaður hans hafi í kjölfar þessa ítrekað reynt að fá kærðu til að ganga frá viðeigandi skjalagerð fyrir hönd sinna skjólstæðinga en að kærða hafi hvorki svarað tölvupóstum né símtölum um það efni frá kæranda.
Af tölvubréfum sem liggja fyrir í málinu og stafa frá kærðu í janúarmánuði 2017 verður ráðið að kærða hafi tekið umrætt verkefni að sér í þágu skjólstæðinga sinna en efni þeirra bendir til að kærða hafi reynt að fá veðleyfinu þinglýst hjá viðkomandi sýslumannsembætti í þeim mánuði. Er á því byggt í málatilbúnaði kæranda að meintar tilraunir kærðu til að fá veðleyfinu þinglýst í janúarmánuði 2017 hafi reynt árangurslausar vegna atvika sem kærða sjálf hafi ein borið ábyrgð á. Þá kveður kærandi að ekki hafi náðst frekar í kærðu vegna málsins eftir þennan tíma og að skjólstæðingar hennar hafi á endanum gengið sjálfir í málið með kæranda án aðkomu kærðu og hafi veðleyfinu verið þinglýst um miðjan marsmánuð 2017. Telur kærandi sig hafa orðið fyrir miklu fjártjóni vegna sinnuleysis og tómlætis kærðu.
Af stöðu kæranda og á grundvelli samskipta aðila frá því að kærða mun hafa tekið að sér að útbúa og fá veðleyfi þinglýst fyrir hönd sinna skjólstæðinga, sem voru gagnaðilar kæranda, mátti kærðu vera ljóst að kærandi lagði mikla áherslu á að málið yrði unnið án ástæðulauss dráttar og að slíkt varðaði aðilann miklu. Þá verður ekki annað ráðið en að hagsmunir skjólstæðinga kærðu hafi farið saman við hagsmuni kæranda að þessu leyti. Þrátt fyrir það lét kærða allt frá októbermánuði 2016 undir höfuð leggjast með að útbúa veðleyfið og fá því þinglýst en tilraunir kærðu til þess í janúarmánuði 2017 munu hafa reynst með öllu árangurslausar. Þá verður að leggja til grundvallar að kærða hafi ekki sinnt ítrekuðum fyrirspurnum kæranda og lögmanns hans um stöðu málsins. Hefur kærða engar skýringar veitt á háttsemi sinni og aðkomu að málinu fyrir nefndinni.
Að áliti nefndarinnar var vanræksla kærðu að þessu leyti í brýnni andstöðu við 34. og 41. gr. siðareglna lögmanna sem áður er lýst og til þess fallin að valda kæranda réttarspjöllum. Jafnframt er það mat nefndarinnar að háttsemi kærðu hafi í engu verið til þess fallin að gæta að heiðri lögmannastéttarinnar í skilningi 2. gr. siðareglnanna. Þá verður að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að háttsemi kærðu hafi verið til þess fallin að standa því í vegi að kærandi gæti neytt réttinda sem skjólstæðingar kærðu vildu jafnframt veita. Hafi kærða því með háttsemi sinni brotið gegn 1. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti.
Við mat á beitingu viðurlaga í málinu er jafnframt til þess að líta að samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni skylt að boði úrskurðarnefndar lögmanna að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á siðareglunum. Ber lögmanni í því efna að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum nefndarinnar. Að framan er lýst hvernig kærðu hefur verið veittur rúmur frestur af hálfu úrskurðarnefndar til að gera grein fyrir máli sínu, en hún hefur ítrekað hunsað tilmæli nefndarinnar þar að lútandi og aðeins upplýst um að greinargerð yrði ekki skilað í málinu. Felur framferði kærðu að þessu leyti í sér brot á skyldum hennar gagnvart nefndinni, sbr. 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, enda þótt nefndin telji að málið sé nægilega upplýst þrátt fyrir þessa vanrækslu kærðu. Hefur kærða þannig sýnt af sér hegðun sem telja verður lögmannastéttinni ósamboðna og sætir hún áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærða, B, sætir áminningu.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.
Kristinn Bjarnason lögmaður.
Valborg Þ. Snævarr lögmaður.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Sölvi Davíðsson