Mál 5 2017

Ár 2017, 6. október 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2017:

A ehf., B ehf., C, D og E,

gegn

F hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 18. janúar 2017 erindi kærenda, A ehf., B ehf., C, D og E, en í því er kvartað yfir því að kærði, F hrl., með starfsstöð að G, Reykjavík, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 20. janúar 2017, sem lögmaður kærenda fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að kvörtun kærenda væri reist á 27. gr. laga nr. 77/1998. Var sérstaklega tiltekið í bréfinu að nefndin hefði þegar tekið til athugunar hvort tilefni væri til að vísa kvörtuninni frá með vísan til 8. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Um það efni var vísað til þess að nefndin hefði í fjölmörgum úrskurðum hafnað því að fjalla um störf skiptastjóra á þeirri forsendu að löggjafinn hefði fellt ágreining um störf þeirra í ákveðinn farveg, sbr. einkum 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í bréfinu var hins vegar vísað til þess að málinu yrði ekki vísað frá á þeim grundvelli enda lytu umkvartanir kærenda fyrst og fremst að því að kærði hefði brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna með framgöngu sinni. Var því mati nefndarinnar lýst í bréfinu að sú háttsemi kærða, sem kvörtun kærenda laut að, væri í svo nánum tengslum við lögmannsstörf kærða að hann teldist bundinn af ýmsum ákvæðum siðareglna lögmanna, einkum I., IV. og V. kafla siðareglnanna. Var þó tiltekið í bréfinu að við úrlausn málsins yrði ekki tekin afstaða til þess hvort kærði hefði með einhverjum hættu brotið gegn starfsskyldum sínum sem skiptastjóri, eins og þær hefðu verið lagðar á hann með ákvæðum laga nr. 21/1991.

Í samræmi við framangreint var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar og barst hún þann 10. febrúar 2017. Var lögmanni kærenda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 14. febrúar 2017. Viðbótarerindi barst frá kærða í málinu þann 17. mars 2017 og var það sent til lögmanns kærenda með bréfi dags. 22. sama mánaðar. Hinn 5. apríl 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar kærða þann 6. sama mánaðar. Svar kærða barst 21. apríl 2017 og var það sent til lögmanns kærenda með bréfi dags. 4. maí 2017 með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Með úrskurði Héraðsdóms Y uppkveðnum x. september 2016 var bú H ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Mun kærði hafa verið skipaður skiptastjóri búsins þann sama dag.

Með bréfi kærða til kæranda A ehf., dags. 22. desember 2016, var sett fram endurkrafa ofangreinds þrotabús á hendur kærandanum vegna endurgreiðslu ofgreiddra opinberra gjalda. Á grundvelli þeirra atvika og röksemda sem lýst var í bréfinu var því mati kærða, sem skiptastjóra, lýst að ekki hefði aðeins verið um heimildarlausa sjálftöku að ræða vegna staðlausrar kröfu og riftanlegan gerning heldur fælu þær ráðstafanir sem bréfið tók til í sér refsiverðan verknað með vísan til XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var gerð krafa um það í bréfinu að kærandinn endurgreiddi 14.670.838 krónur inn á fjárvörslureikning kærða og því lýst að kærði myndi þá um leið heimila kærandanum að lýsa endurkröfu eða skaðabótakröfu á hendur þrotabúinu við skipti vegna þeirra ofteknu gjalda sem málið laut að. Þá var tiltekið að ef greiðsla yrði ekki innt af hendi fyrir árslok 2016 yrði strax á nýju ári höfðað riftunar- eða endurkröfumál á hendur kærandanum auk þess sem kæra yrði send til embættis héraðssaksóknara á hendur fyrirsvarsmönnum kærandans, kærendum C og D, fyrir fjárdrátt og/eða skilasvik.

Með yfirlýsingu, dags. 23. desember 2016, sem kærði beindi til kæranda B ehf. sem skiptastjóri þb. H ehf., var nánar tilgreindri ráðstöfun vegna innstæðu á bókarlausum reikningi rift. Á grundvelli þeirra atvika og röksemda sem lýst var í bréfinu var því mati kærða, sem skiptastjóra, lýst að ekki hefði aðeins verið um einhliða sjálftöku að ræða vegna kröfu kærandans og riftanlegan gerning heldur fælu þær rástafanir sem bréfið tók til í sér refsiverðan verknað með vísan til XXVI. kafla laga nr. 19/1940. Var gerð krafa um það í riftunaryfirlýsingunni að kærandinn endurgreiddi 21.316.582 krónur inn á fjárvörslureikning kærða og því lýst að kærði myndi þá um leið heimila kærandanum að lýsa kröfu á hendur þrotabúinu við skipti vegna tilgreindrar lánveitingar. Þá var tiltekið að ef greiðsla yrði ekki innt af hendi fyrir árslok 2016 yrði strax á nýju ári höfðað riftunarmál á hendur kærandanum auk þess sem kæra yrði send embætti héraðssaksóknara á hendur fyrirsvarsmönnum kærandans, kærendum C og E, fyrir fjárdrátt og/eða skilasvik.

Kærandi A ehf. hafnaði öllum kröfum kærða fyrir hönd þb. H ehf. með nánar tilgreindum röksemdum og skýringum í bréfi, dags. 28. desember 2016. Undirritaði kærandi D bréfið fyrir hönd félagsins. Voru í bréfinu gerðar verulegar athugasemdir við það að kærði, sem skiptastjóri, skyldi hóta því að bera uppá fyrirsvarsmenn félagsins sakargiftir sem ekki væri nokkur fótur fyrir. Kærði svaraði bréfi þessu þennan sama dag þar sem kröfur þrotabúsins voru ítrekaðar. Var því lýst að ekki yrði um neitt samið og að það eina sem um væri að ræða væri að kærandinn samþykkti riftun og endurgreiddi þrotabúinu 14.670.838 krónur fyrir árslok. Að öðrum kosti yrði lögð fram kæra á hendur fyrirsvarsmönnum félagsins til héraðssaksóknara þann 2. janúar 2017 auk þess sem riftunarstefna yrði gefin út í þeirri sömu viku.

Þá hafnaði kærandi B ehf. riftunar- og endurgreiðslukröfu kærða fyrir hönd þb. H ehf. með nánar tilgreindum röksemdum og skýringum í bréfi, dags. 30. desember 2016. Voru í bréfinu gerðar athugasemdir við það sem nefnt var „einstaklega ógeðfelldar hótanir skiptastjóra“ um kæru til embættis héraðssaksóknara. Var því sérstaklega lýst að hótanir um kærur sem byggðu á rangfærslum væru ekki sæmandi skiptastjóra sem opinberum sýslunarmanni.

Þann 30. desember 2016 sendi J hrl. tölvubréf til kærða vegna krafna þb. H ehf. á hendur kærendum A ehf. og B ehf. Var því þar lýst að kærendurnir hefðu leitað til lögmannsins og falið honum að gæta hagsmuna þeirra í tengslum við riftunarmál á hendur þeim. Óskaði lögmaðurinn eftir viðbótarfresti til 6. janúar 2017 til þess að taka endanlega afstöðu til framkominna krafna. Kærði svaraði tölvubréfi þessu þennan sama dag og samþykkti umbeðinn frest.

Með tölvubréfi J hrl. til kærða þann 6. janúar 2017 var upplýst um að K hrl. myndi fara með málin fyrir hönd kærendanna A ehf. og B ehf. og að svarbréf væru í vinnslu sem send yrðu í vikunni á eftir.

Kærði svaraði tölvubréfi þessu þennan sama dag þar sem hann óskaði eftir staðfestingu á því að skilningur hans væri réttur um að kröfur þrotabúsins yrðu ekki greiddar. Þá upplýsti hann um að boðaðar kærur til embættis héraðssaksóknara yrðu útbúnar þá um helgina auk þess sem dráttarvextir og kostnaður myndu bætast við kröfur þrotabúsins.

Lögmenn kærenda og kærði áttu í frekari tölvubréfasamskiptum þann 6. janúar 2017. Kom fram hjá lögmönnum kærenda að skilningur kærða væri réttur en að efnislegra svara vegna krafna þrotabúsins væri að vænta þar sem skýringar yrðu veittar á umþrættum ráðstöfunum. Í svörum kærða kom fram að hann hefði skoðað málin mjög vel og hefði öll gögn málsins undir höndum. Myndi bréf frá lögmanni kærenda engu breyta. Lýsti kærði því mati sínu að um riftanlega gerninga væri að ræða auk þess sem refsinæmið væri borðliggjandi. Kvaðst kærði hafa vonast til þess að lögmaður kærenda myndi koma vitinu fyrir sinn umbjóðanda og að af þeim sökum hefði frestur verið veittur. Aðspurður staðfesti kærði að það eina sem kæmi í veg fyrir kæru til embættis héraðssaksóknara að morgni mánudagsins á eftir væri greiðsla krafnanna að fullu.

Þann 9. janúar 2017 lagði kærði fram boðaðar kærur til embættis héraðssaksóknara. Þann sama dag sendi lögmaður kærendanna A ehf. og B ehf. bréf til kærða þar sem ítrekuð voru sjónarmið og röksemdir félaganna og því lýst að öllum kröfum þb. H ehf. væri hafnað af hálfu félaganna.

Þá höfðaði kærði fyrir hönd þrotabúsins tvö mál sem þingfest voru í Héraðsdómi Y þann x. febrúar 2017, þ.e. annars vegar gegn kæranda A ehf. og hins vegar gegn kæranda B ehf. Var í báðum tilvikum krafist riftunar á ráðstöfunum auk greiðslu fjárkrafna á grundvelli hinna meintu riftanlegu ráðstafana.

Þann 11. janúar 2017 sendi K hrl. fyrir hönd kærenda kvörtun yfir nánar tilgreindum starfsháttum kærða sem skiptastjóra þb. H ehf. til Héraðsdóms Y. Var því lýst í kvörtuninni að framganga kærða væri með þeim hætti að ekki yrði hjá því komist að vekja athygli dómsins á henni, með vísan til 76. gr. laga nr. 21/1991, þá sérstaklega 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins. Var þess óskað í kvörtuninni að héraðsdómari gripi til aðgerða samkvæmt 1. og 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991.

Á skiptafundi þb. H ehf. sem haldinn var þann 20. janúar 2017 var bókað í gerðabók skiptastjóra að kröfuhafar samþykktu fyrir sitt leyti að þrotabúið rifti ráðstöfunum á hendur kærendum A ehf. og B ehf. og gerðu ekki athugasemdir, að einum kröfuhafa undanskildum, við þá ákvörðun kærða sem skiptastjóra að leggja fram kæru til embættis héraðssaksóknara vegna málanna. Þá var bókuð afstaða kröfuhafa, að einum undanskildum, varðandi kvörtun á starfsháttum skiptastjóra til Héraðsdóms Y þar sem því var lýst að ekkert tilefni væri til þess af hálfu kröfuhafa í búinu að gera athugasemdir við störf kærða sem skiptastjóra.

Með bréfi kærða til Héraðsdóms Y, dags. 10. febrúar 2017, voru veitt andsvör vegna fyrrgreindrar kvörtunar yfir starfsháttum hans sem skiptastjóra. Var kröfu um að Héraðsdómur Y gripi til aðgerða samkvæmt 1. og 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 sérstaklega mótmælt.

Ofangreint kvörtunarmál, sem rekið var á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991, var fyrst tekið fyrir í Héraðsdómi Y þann x. mars 2017 og fékk það málsnúmerið x/2017. Málið var tekið fyrir á nýjan leik þann 17. sama mánaðar þar sem lögmenn tjáðu sig um málið og komu á framfæri athugasemdum sínum við dóminn. Var eftirfarandi bókað í þingbók málsins í kjölfar þess:

Dómari færir til bókar að þótt telja megi vinnubrögð skiptastjóra hafa verið aðfinnsluverð hvað varðar aðdraganda að framsendingu erindis til héraðssaksóknara telur dómari þó engin efni til að víkja honum úr starfi á grundvelli 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 eða beita öðrum úrræðum í málinu þar sem líta verði svo á að hann hafi þegar bætt úr og uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991. Dómari tekur fram að líta verði svo á að skylda skiptastjóra í tilvikum sem ákvæðið tekur til sé skýlaus að undangengu því mati sem ákvæðið felur í sér. Þá tekur dómurinn fram að í því máli sem hér er til umfjöllunar hafi skiptastjóri þegar veitt aðilum tækifæri til að koma að athugasemdum. Með vísan til framangreinds telur dómari málinu þannig lokið. Ekki eru athugasemdir við það af hálfu lögmanna.

Máli þessu er þar með lokið.“

Þann 10. febrúar 2017 móttók úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun kærða á hendur K hrl. þar sem þess var meðal annars krafist að það mál yrði sameinað máli nefndarinnar nr. 5/2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. febrúar 2017, var kröfu kærða um sameiningu málanna hafnað á þeim grundvelli að um sitthvort ágreiningsefnið væri að ræða. Er tilgreint mál rekið samhliða máli þessu fyrir nefndinni sem málið nr. 11/2017.

II.

Í málatilbúnaði kærenda er vísað til þess að kvörtun aðilanna lúti að háttsemi kærða í hlutverki skiptastjóra þrotabús H ehf. og að hún sé sett fram með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og ákvæða siðareglna lögmanna. Gera þeir kröfu um að úrskurðarnefnd lögmanna takið málið til úrskurðar og beiti ströngustu viðurlagaúrræðum sem fyrir hendi séu samkvæmt 43. gr. siðareglnanna.

Kvörtun kærenda beinist að því að kærði hafi gerst sekur um brot gegn siðareglum lögmanna, þá sérstaklega 25. gr., 34. gr., 35. gr. og 36. gr.

Vísa kærendur til þess að kærði hafi sent kærendum A ehf. og B ehf. þrjú bréf, dags. 22., 23. og 28. desember 2016, þar sem tilkynnt hafi verið um riftanir tveggja nánar tiltekinna ráðstafana H ehf. Hafi kærði greint frá því í bréfunum, án þess að hafa farið fram á eða fengið skýringar móttakanda bréfanna á gerningunum, að hann teldi í gerningunum felast fjárdrátt samkvæmt 247. gr. laga nr. 19/1940 eða skilasvik samkvæmt 250. gr. sömu laga. Hafi kærði í bréfunum varað móttakanda þeirra við því að ef ekki yrði fallist á riftanir og háar fjárhæðir látnar renna til þrotabúsins fyrir árslok 2016 yrðu fyrirsvarsmenn félaganna kærðir til héraðssaksóknara.

Er vísað til þess að kærði hafi veitt lögmanni félaganna aukinn frest, eða til 6. janúar 2017, til að bregðast við bréfunum, en auk þess hafi félögin sjálf sent svarbréf fyrir sitt leyti dagana 28. og 30. desember 2016. Þegar kærði hafi haft spurnir af því þann 6. janúar 2017 að til stæði að lögmaður félaganna myndi svara bréfunum og útskýra þau viðskipti sem um ræddi efnislega og það sem að baki þeim hefði legið, frekar en að greiða umsvifalaust þá fjárhæð sem kærði gerði kröfu um, hafi hann lýst því yfir í tölvubréfi að öll svör og skýringar væru haldlaus, sbr. eftirfarandi tilvísun: „Með fullri virðingu, þá mun bréf frá þér K engu breyta.“ Hafi kærði því næst lýst því að kærur yrðu lagðar fram í málunum tveimur á mánudagsmorgninum á eftir, þ.e. 9. janúar, án þess að skiptastjóri hefði móttekið svör lögmanns félaganna, kærenda A ehf. og B ehf.

Þá vísa kærendur til þess að kærði hafi staðfest í tölvubréfi þann 6. janúar 2017 að sá skilningur væri réttur að það eina sem kæmi í veg fyrir kæru á málunum tveimur til héraðssaksóknara væri umsvifalaus greiðsla að fullu á kröfunum. Byggja kærendur á að slíkt sé ekkert annað en hótun og jafnframt brot á starfsskyldum skiptastjóra, enda hafi honum borið lagaskylda til að tilkynna um grun um refsiverð brot samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991. Með framferði sínu hafi kærði boðist til þess að brjóta gegn þeim starfsskyldum sínum. Þá er vísað til þess að kærði hafi tekið fram að stefna í þriðja riftunarmálinu væri þá þegar nokkurn veginn tilbúin, þrátt fyrir að svör hefðu ekki borist frá kærendum og frestur til að svara riftunarbréfinu væri ekki runninn út.

Í kvörtun kærenda er vísað til þess að um helgina 7. – 8. janúar 2017 hafi kærði sent lögmanni kærenda skönnuð eintök af kærunum tveimur með þeim skilaboðum að þær yrðu að óbreyttu sendar héraðssaksóknara og öðrum kröfuhöfum þrotabúsins klukkan 9 að morgni mánudagsins 9. janúar. Hafi það og verið gert þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um að beðið yrði með kærurnar þar til kærði hefði fengið færi á að yfirfara svör og skýringar félaganna, þ.e. kærenda A ehf. og B ehf. Byggja kærendur á að kærði hafi með þessu farið fram með miklu offorsi og að hann hafi dregið það sem í eðli sínu hafi aðeins verið einkaréttarlegur ágreiningur inn á svið ákæruvaldsins með hótunum, í því skyni að þvinga fram greiðslu á meintum kröfum þrotabúsins. Auk þess sé það fordæmalaust að kröfuhöfum hafi verið send slík gögn og með öllu ástæðulaust, nema til þess að valda spjöllum á mannorði kærenda.

Byggja kærendur á að framkoma þessi sé aðfinnsluverð auk þess sem hún fari gegn góðum lögmannsháttum og ekki sæmandi opinberum sýslunarmanni. Það að neita að hlusta á skýringar lögmanns gagnaðila sé fordæmalaust í starfsemi skiptastjóra sem skipaður hafi verið til slíkra starfa af héraðsdómi. Þá hafi tilhæfulausar kærur til héraðssaksóknara verið notaðar sem fjárkúgunartæki í þeim eina tilgangi að tilgreindir einstaklingar myndu sleppa undan formlegri kæru, einungis með því að greiða umdeildar fjárkröfur að fullu. Við slíka framkomu kærða verði ekki unað.

Vísa kærendur til þess að kærði hafi boðist til að brjóta gegn starfsskyldum sínum samkvæmt lögum nr. 21/1991 gegn greiðslu. Í ljósi þess að skiptastjóri sé opinber sýslunarmaður byggja kærendur á að í þessu hafi falist brot í opinberu starfi samkvæmt XIV. kafla laga nr. 19/1940, sbr. t.a.m. 141. gr. laganna.

Hafi kærði á hinn bóginn ekki álitið að í viðskiptunum fælist refsiverður verknaður byggja kærendur á að í tilboði kærða hafi falist gróf misnotkun á aðstöðu kærða sem skiptastjóra, sbr. t.a.m. 134. og 139. gr. laga nr. 19/1940. Byggja kærendur á að kærði hafi annað hvort haft ásetning til að brjóta gegn starfsskyldum sínum samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 eða hins vegar skyldum sínum samkvæmt siðareglum lögmanna um að beita ekki ótilhlýðilegum þvingunum, sbr. 35. gr. siðareglnanna.

Þá byggja kærendur á að með framkomu sinni og orðræðu hafi kærði brotið gegn 25. og 34. gr. siðareglna lögmanna, þar sem hann hafi sakað kærendur meðal annars um „svindl“ og skipað lögmönnum kærenda að „kom[a] nú viti fyrir ykkar skjólstæðing,“. Auk þess byggja kærendur á að kærði hafi brotið gegn 35. gr. siðareglnanna með ótilhlýðilegum þvingunum og hótunum um tilhæfulausar kærur til héraðssaksóknara, yrði ekki fallist umsvifalaust á allar kröfur skjólstæðings kærða, sem og með því að senda umræddar kærur á alla kröfuhafa þrotabúsins, sem hafi engum öðrum tilgangi þjónað en þeim að sverta mannorð kærenda. Þá byggja kærendur á að sú háttsemi kærða að hafa þegar útbúið stefnu og gert ráðstafanir til málshöfðunar, áður en frestur þeirra til að svara bréfi kærða varðandi þriðja riftunarmálið var liðinn, sem og framgangur kærða hvað varðar kærur til héraðssaksóknara hafi brotið gegn skyldu hans samkvæmt 1. mgr. 36. gr. siðareglnanna um að gefa gagnaðila kost á að ljúka máli með samkomulagi.

Í viðbótarathugasemdum kærenda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða er vísað til þess að í bókun héraðsdómara í máli Héraðsdóms Y nr. x/2017 hafi komið fram að dómarinn teldi vinnubrögð kærða aðfinnsluverð hvað varðaði aðdraganda að framsendingu erindis kærða til héraðssaksóknara. Sé ljóst af bókuninni að héraðsdómari hafi talið að kærði hafi brotið skyldur sínar samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 auk þess sem hann hefði heldur ekki veitt kærendum eða lögmanni kærenda fyrir þeirra hönd tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum áður en kærði sendi kæru til héraðssaksóknara. Er á því byggt að ekki verði annað séð en að hegðun kærða varði við ákvæði 34.gr. siðareglna lögmanna um tillitssemi við gagnaðila.

III.

Kærði mótmælir því í greinargerð sinni að hann hafi með nokkrum hætti, í samskiptum við lögmann kærenda eða í störfum sínum sem skiptastjóri, gerst brotlegur við siðareglur lögmanna, lög eða reglur að öðru leyti. Samkvæmt því verður að skilja málatilbúnað kærða fyrir nefndinni þannig að hann krefjist þess að kröfum kærenda verði hafnað í málinu.

Varðandi meint brot kærða á 84. gr. laga nr. 21/1991 vísar aðilinn til þess að það sé skilningur hans, eins og flestra lögmanna sem gegnt hafa skiptastjórastörfum, að skiptastjóri hafi talsvert svigrúm þegar komi að beitingu 84. gr. laga n. 21/1991, þ.e. eftir því hverja hann telur vera hagsmuni búsins og kröfuhafa. Skiptastjóri starfi í umboði kröfuhafa við að endurheimta og leysa upp eignir bús til úthlutunar upp í kröfur þeirra. Byggir kærði á að svo lengi sem sú refsiverða háttsemi sem skiptastjóra grunar að hafi farið fram sé ekki þeim mun alvarlegri hafi skiptastjóri hiklaust svigrúm til að taka þá ákvörðun að semja um til dæmis málalok sem leiða til meiri heimtu og fullnustu krafna þeirra kröfuhafa sem lýst hafa kröfu í þrotabú. Kveður kærði að þessi túlkun sé í samræmi við framgang mála hjá héraðssaksóknara, áður embætti sérstaks saksóknara.

Um það efni að kærði hafi neitað að hlusta á skýringar lögmanns kærenda áður en kærur voru lagðar fram til embættis héraðssaksóknara vísar kærði í fyrsta lagi til þess að í bréfum sínum til kærenda A ehf. og B ehf. og tölvubréfasamskiptum við fyrirsvarsmenn og lögmenn kærendanna hafi skýrlega verið tekið fram að ekki væri verið að bjóða upp á neinar samningaviðræður eða að gefa kost á einhverjum sérstökum andmælum. Kærði, sem skiptastjóri, hafi einfaldlega verið að tilkynna með mjög ítarlegum rökstuðningi og óhrekjanlegum gögnum að ekki hefðu aðeins átt sér stað riftanlegir gerningar heldur einnig refsiverð háttsemi og að með því að endurgreiða eða semja um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem um væri að tefla myndi kærði hlífa viðkomandi við því að senda kæru til héraðssaksóknara. Í ljósi tölvubréfasamskipta kærða við lögmenn kærendanna og að fram komnar skýringar kærendanna höfðu engu breytt um málið, hafi kærði gert það sem hann hafði boðað tveimur vikum áður, þ.e. lagt fram tilgreindar kærur. Vísar kærði til þess að málið hafi verið fullkomlega upplýst og að skýringar kærenda, eins langt og þær hefðu náð, hefðu verið komnar fram. Samkvæmt því hefði hann upplýst lögmann kærenda að hann gæti ekki séð, í ljósi alls þessa, að bréf frá honum myndi breyta nokkru í því efni. Hafi það verið sagt með fullri virðingu eins og tiltekið hafi verið sérstaklega í tölvubréfi kærða.

Um þetta efni vísar kærði í öðru lagi til þess að skýringar hefðu komið frá kærendum, sem ekki aðeins hefðu engu breytt, heldur gert málin sýnu alvarlegri. Kveðst kærði ekki átta sig á því af hverjum honum átti að hafa borið skylda til að bíða eftir endurteknum skýringum frá lögmanni kærenda.

Í þriðja lagi vísar kærði til þess að lögmenn kærenda A ehf. og B ehf. hefðu fengið viku frest til þess að svara kærða, sem skiptastjóra, til viðbótar við þann frest sem kærendur sjálfir höfðu haft. Byggir kærði á að lögmaður kærenda geti einungis áfellst sjálfan sig fyrir að hafa ekki komið svörum til kærða innan frestsins auk þess sem bréfin hefðu engu breytt um framhald málanna eftir að þau komu fram.

Í fjórða og síðasta lagi vísar kærði til þess að skýrt hafi komið fram í tölvubréfi lögmanns kærenda þann 6. janúar 2017 að hann myndi senda inn viðbótarsvör og skýringar vegna málanna 7. eða 8. sama mánaðar. Þar sem engin viðbótarsvör eða skýringar hefðu borist frá lögmanni kærenda á þeim tíma sem hann hafði nefnt hafi kærði ekki reiknað með því að svör myndu berast. Samkvæmt því hafi hvorki verið tilefni til að skoða málin betur né taka upp viðræður við lögmann kærenda, líkt og orðað hafi verið í tölvubréfi lögmanns kærenda til kærða.

Um það kvörtunarefni kærenda að afrit af kærum til embættis héraðssaksóknara hafi verið sendar til kröfuhafa þb. H ehf. vísar kærði til þess að helstu kröfuhafar félagsins hafi verið í miklu sambandi við kærða, sem skiptastjóra, og sumir óskað sérstaklega eftir fundum með honum. Auk þess hafi fyrrum stjórnendur félagsins verið í miklum samskiptum við kærða. Hafi úr báðum þessum áttum komið ábendingar til kærða sem og óskir um upplýsingagjöf. Hafi kærði ákveðið að jafnt skyldi yfir alla ganga og hafi kröfuhafar því fengið allar upplýsingar um gang mála. Vísar kærði til þess að enginn sem ekki hefði af því lögvarða kröfu hefði fengið upplýsingar um málefni þrotabúsins eða gang skiptanna.

Kærði mótmælir því að hann hafi farið fram með miklu offorsi og þvingunum gagnvart kærendum og vísar til fyrri málatilbúnaðar og röksemda um það efni.

Varðandi málatilbúnað kærenda um að kærði hafi verið langt kominn með riftunarstefnu í þriðja riftunarmálinu án þess að andsvör hefðu komið frá lögmanni kæranda B ehf. vísar kærði til þess að hann hefði tjáð lögmanni kærandans að hann hefði góðan frest til að svara því máli, eða fram að skiptafundi þann 20. janúar 2017. Byggir kærði á að það hvort hann hafi verið búinn forvinna málið af sinni hálfu og gera drög að stefnu sé á engan hátt brot á neinum siðareglum.

Varðandi orðfæri í innbyrðis samskiptum lögmanna vísar kærði til þess að um hafi verið að ræða rökræður og tveggja lögmanna tal um málefni skjólstæðinga annars lögmannsins og þrotabúsins. Fráleitt sé að prenta út slíkar rökræður lögmanna og leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Að áliti kærða felst ekki í því neitt brot á siðareglum að hvetja kollega til að koma viti fyrir sinn skjólstæðing eða kalla háttsemi viðkomandi sömu orðum og gert hafi verið í kæru til héraðssaksóknara.

Í viðbótarathugasemdum kærða vísar aðilinn til þess að þrátt fyrir bókun héraðsdómara í máli Héraðsdóms Y nr. x/2017 sé það óhaggað mat kærða að skiptastjóri hafi ákveðið svigrúm til mats á því hvort leggja skuli fram kæru eða ekki, gagnvart hugsanlegri endurheimt verðmæta. Auk þess vísar kærði til þess að dómari hafi hafnað því umkvörtunarefni að kærði hafi neitað að hlusta á skýringar lögmanns kærenda áður en kærur hefðu verið lagðar fram til embættis héraðssaksóknara. Sé sú niðurstaða eðlileg enda staðhæfingin röng. Þá hafi dómari hunsað öll önnur umkvörtunarefni kærenda, þ.e. annars vegar að afrit af kærum til héraðssaksóknara hafi verið sendar kröfuhöfum og hins vegar að kærði hafi farið fram með miklu offorsi og þvingunum gagnvart kærendum.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Fyrir liggur að kærði var skipaður skiptastjóri þb. H ehf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Y þann x. september 2016. Byggja kærendur á að kærði hafi í störfum sínum sem skiptastjóri búsins gerst sekur um brot gegn siðareglum lögmanna, sbr. einkum 25. gr. og 34. – 36. gr. siðareglnanna.

Eins og áður er rakið lýtur kvörtun kærenda jafnframt að meintum brotum kærða á tilteknum þáttum og starfsskyldum sem lagðar eru á skiptastjóra þrotabúa samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipta o.fl. Nefndin hefur í fyrri úrskurðum sínum hafnað því að fjalla um störf skiptastjóra á þeirri forsendu að löggjafinn hafi fellt ágreining um störf þeirra í ákveðinn farveg, sbr. einkum 76. gr. laga nr. 21/1991. Í bréfi nefndarinnar til málsaðila undir rekstri málsins var hins vegar vísað til þess að málinu yrði ekki vísað frá á þeim grundvelli enda lytu umkvartanir kærenda fyrst og fremst að því að kærði hefði brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna með framgöngu sinni. Var því mati nefndarinnar lýst í bréfinu að sú háttsemi kærða, sem kvörtun kærenda var reist á, væri í svo nánum tengslum við lögmannsstörf kærða að hann teldist bundinn af ýmsum ákvæðum siðareglna lögmanna, einkum I., IV. og V. kafla siðareglnanna. Var þó tiltekið í bréfinu að við úrlausn málsins yrði ekki tekin afstaða til þess hvort kærði hefði með einhverjum hættu brotið gegn starfsskyldum sínum sem skiptastjóri, eins og þær hefðu verið lagðar á hann með ákvæðum laga nr. 21/1991.

Í samræmi við framangreint falla þau umkvörtunarefni kærenda sem varða meint brot kærða, sem skiptastjóra, á starfsskyldum samkvæmt lögum nr. 21/1991, þ. á m. 84. gr. laganna, utan við valdsvið nefndarinnar. Skal í því samhengi á það bent að þau umkvörtunarefni kærenda gagnvart kærða hafa jafnframt fengið efnislega meðferð fyrir héraðsdómi samkvæmt þeim leiðum sem lög nr. 21/1991 bjóða, sbr. héraðsdómsmálið nr. x/2017 sem rekið var fyrir Héraðsdómi Y. Að mati nefndarinnar kemur ekki til álita að fjallað sé annars vegar um störf skiptastjóra fyrir héraðsdómi en jafnframt með sjálfstæðum hætti fyrir nefndinni.

Að sama skapi fellur það utan við valdsvið nefndarinnar að fjalla um meint brot kærða, sem skiptastjóra og opinbers sýslunarmanns, í opinberu starfi samkvæmt XIV. kafla almennra hegningarlaga. Er því engin afstaða tekin til málatilbúnaðar kærenda fyrir nefndinni um það efni.

 

 

II.

Samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Þá skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu, sbr. 25. gr. siðareglnanna. Skulu þeir sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

Samkvæmt 35. gr. siðareglnanna má lögmaður ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli sem óviðkomandi er máli skjólstæðings og að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum.

Kærendur byggja á að kærði hafi brotið gegn 35. gr. siðareglnanna með ótilhlýðilegum þvingunum og hótunum um tilhæfulausar kærur til héraðssaksóknara ef ekki yrði fallist umsvifalaust á allar kröfur skjólstæðings kærða, þ.e. þb. H ehf., sem og með því að senda umræddar kærur á alla kröfu þrotabúsins sem hafi engum öðrum tilgangi þjónað en að sverta mannorð kærenda.

Fyrir liggur að kærði sendi kröfubréf fyrir hönd þb. H ehf. til kærenda A ehf. og B ehf., dags. 22. og 23. desember 2016, þar sem sérstaklega var tiltekið að ef greiðsla yrði ekki innt af hendi fyrir árslok 2016 yrði strax á nýju ári höfðað riftunar- eða endurkröfumál á hendur kærendunum auk þess sem kærur yrðu sendar til embættis héraðssaksóknara á hendur fyrirsvarsmönnum kærendanna.

Þeim kröfum var alfarið hafnað af hálfu kærendanna með bréfum, dags. 28. og 30. desember 2016, sem gerðu einnig verulegar athugasemdir við að kærði, sem skiptastjóri og opinber sýslunarmaður, skyldi hóta því að bera uppá fyrirsvarsmenn félaganna sakargiftir sem ekki væri nokkur fótur fyrir.

Þrátt fyrir afstöðu kærendanna um að ágreiningur væri um réttmæti krafnanna og meinta greiðsluskyldu þeirra gagnvart þb. H ehf. ítrekaði kærði annars vegar í bréfi til kæranda A ehf. þann 28. desember 2016 að kærandinn þyrfti að samþykkja riftun og kröfu um endurgreiðslu fyrir árslok en að öðrum kosti yrði lögð fram kæra á hendur fyrirsvarsmönnum félagsins til héraðssaksóknara þann 2. janúar 2017. Var slíkt hið sama hins vegar áréttað í tölvubréfi kærða til lögmanna kærenda þann 6. janúar 2017.

Að áliti nefndarinnar fól framsetning þessi í bréfum og tölvubréfum kærða til kærenda og lögmanna þeirra, eftir að upplýst hafði verið um að ágreiningur væri um réttmæti krafnanna og að tekið yrði til einkaréttarlegra varna vegna þeirra, í sér ótilhlýðilega þvingun gagnvart kærendum sem gagnaðilum þb. H ehf. í skilningi 35. gr. siðareglnanna. Hafi það samkvæmt því verið aðfinnsluvert af hálfu kærða að setja fram ítrekaðar kröfur um greiðslu fjárskuldbindinga, sem honum mátti vera ljóst að væru umþrættar eftir svarbréf kærenda A ehf. og B ehf., með tilvísun til þess að ef þær yrðu ekki greiddar yrðu fyrirsvarsmenn félaganna, sem jafnframt eru kærendur í þessu máli, kærðir til embættis héraðssaksóknara. Er við mat nefndarinnar litið til þess að með háttsemi sinni leitaðist kærði eftir því að fá kærendur ofan af því að taka til einkaréttarlegra varna gegn því að verða ekki kærðir til embættis héraðssaksóknara. Þá er jafnframt litið til hins skamma frests sem kærendum hafði upphaflega verið skammtaður af hálfu kærða til að bregðast við bréfum hans frá 22. og 23. desember 2016, þ.e. með greiðslu hinna umþrættu krafna fyrir árslok 2016. Fær niðurstaða þessi jafnframt stoð í bókun héraðsdómara í þingbók málsins nr. x/2017, sem rekið var á milli sömu aðila og eiga aðild að máli þessu fyrir nefndinni, þar sem tekið var fram að vinnubrögð kærða sem skiptastjóra hefðu verið aðfinnsluverð hvað varðaði aðdraganda að framsendingu erindis til héraðssaksóknara og að skylda skiptastjóra í tilvikum sem 84. gr. laga nr. 21/1991 tæki til væri skýlaus að undangengnu því mati sem ákvæðið fæli í sér.

Að áliti nefndarinnar braut kærði hins vegar ekki gegn siðareglum lögmanna með því að senda afrit af kærum í málunum til kröfuhafa þb. H ehf. eftir að þær höfðu verið afhentar til embættis héraðssaksóknara.

Kærendur byggja jafnframt á því að kærði hafi með framkomu sinni og orðræðu gagnvart kærendum og lögmönnum kærenda brotið gegn 25. og 34. gr. siðareglna lögmanna þar sem hann hafi sakað kærendur um „svindl“ og skipað lögmönnum kærenda að „kom[a] nú viti fyrir ykkar skjólstæðing“. Að áliti nefndarinnar fól framkoma og orðræða kærða í þessu efni, að teknu tilliti til þess með hvaða hætti og undir hvaða kringumstæðum ummælin voru sett fram, ekki í sér brot á tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar verður að játa lögmönnum umtalsvert svigrúm, innan þeirra marka sem 25. gr. siðareglnanna kveður á um, í innbyrðis orðræðu lögmanna og öðrum óformlegum samskiptum þeirra. Samkvæmt því hafnar nefndin því að kærði hafi með tilgreindri framkomu og orðræðu brotið gegn 25. og/eða 34. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður jafnan fyrir lögsókn kynna gagnaðila framkomnar kröfur skjólstæðings síns og gefa kost á að ljúka máli með samkomulagi. Þetta gildir þó ekki, ef lögsókn má ekki bíða vegna yfirvofandi réttarspjalla eða annars tjóns á hagsmunum skjólstæðings, eða ef atvikum að öðru leyti hagar svo til að rétt sé og nauðsynlegt að hefja lögsókn án tafar, sbr. 2. mgr. 36. gr. siðareglnanna.

Kærendur byggja á að sú háttsemi kærða að hafa þegar útbúið stefnu og gert ráðstafanir til málshöfðunar, áður en frestur þeirra til að svara bréfi kærða varðandi þriðja riftunarmálið var liðinn, sem og framgangur kærða varðandi kærur til héraðssaksóknara hafi brotið gegn skyldu hans samkvæmt 1. mgr. 36. gr. siðareglnanna um að gefa gagnaðila kost á að ljúka máli með samkomulagi.

Um hið fyrrnefnda umkvörtunarefni er annars vegar til þess að líta að kærði hafði þegar sent riftunaryfirlýsingu/bréf til viðkomandi kæranda þar sem kröfur þb. H ehf. vegna umrædds sakarefnis voru kynntar og kærandanum þar með gefinn kostur á að ljúka málinu með samkomulagi, sbr. 1. mgr. 36. gr. siðareglna lögmanna. Þá liggur hins vegar fyrir að upplýst var um í tölvubréfi kærða til lögmanns kærenda þann 6. janúar 2017 að kærendur hefðu rúman tíma til að svara því erindi eða fram að skiptafundi þann 20. sama mánaðar. Samkvæmt því verður hvorki séð að kærði hafi að þessu leyti brotið gegn 1. mgr. 36. gr. siðareglna lögmanna né að í því hafi falist sjálfstætt brot af hálfu kærða að hann hafi þá þegar verið búinn að gera drög að stefnu vegna fyrirhugaðrar málshöfðunar.

Um síðarnefnda atriði, þ.e. að kærði hafi neitað að hlusta á skýringar lögmanns kærenda áður en hann lagði fram kæru til embættis héraðssaksóknara, er til þess að líta að í bréfum kærða til kærenda A ehf. og B ehf. var atvikum að baki málunum lýst með greinargóðum hætti og settar fram kröfur fyrir hönd þb. H ehf. Tilgreindum bréfum var svarað af hálfu kærendanna áður en kærur voru sendar héraðssaksóknara þar sem kröfum þrotabúsins var hafnað. Þá samþykkti kærði umbeðinn viðbótarfrest lögmanna kærenda til að taka endanlega afstöðu til framkominna krafna til 6. janúar 2017. Engin frekari svör eða skýringar bárust frá kærendum eða lögmönnum þeirra innan þess viðbótarfrests sem kærði hafði sannanlega samþykkt. Með vísan til alls þessa er það mat nefndarinnar að kærði hafi kynnt kærendum framkomnar kröfur þb. H ehf. og gefið þeim kost á að ljúka málinu með samkomulagi í skilningi 1. mgr. 36. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt því er því hafnað að kærði hafi brotið gegn tilgreindu ákvæði gagnvart kærendum í störfum sínum sem skiptastjóri þb. H ehf. Er það og í samræmi við bókun héraðsdómara frá x. mars 2017 í héraðsdómsmálinu nr. x/2017 þar sem lagt var til grundvallar að kærði, sem skiptastjóri, hefði veitt aðilum tækifæri til að koma að athugasemdum áður en kærur hefðu verið afhentar embætti héraðssaksóknara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, F hrl., að ítreka kröfur á hendur kærendum A ehf. og B ehf. um greiðslu fjárskuldbindinga, eftir að kærða mátti vera ljóst að kröfurnar væru umþrættar og að kærendur hygðust taka til einkaréttarlegra varna gegn þeim, með tilvísun til þess að ef þær yrðu ekki greiddar yrðu fyrirsvarsmenn félaganna, kærendur C, D og E, kærðir til embættis héraðssaksóknara, er aðfinnsluverð. 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson