Mál 36 2017

Ár 2018, 26. apríl 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2017:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. desember 2017 erindi kæranda, stjórnar A, um meint brot kærðu, B lögmanns, á 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 6. desember 2017 og barst hún þann 13. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi dags. 13. desember 2017. Hinn 18. janúar 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærðu þann sama dag. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum.

Á grundvelli heimildar í 2. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna aflaði nefndin nánar tilgreindra gagna undir rekstri málsins. Nánar tiltekið var þar annars vegar um að ræða færslu sem birt var á svonefndri Facebook vefsíðu félags D og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, þann x. júlí 2017. Hins vegar aflaði nefndin gagna af vefsíðunni E, en meðal þeirra gagna má finna lista yfir lögmenn sem viðkomandi félag getur með góðu móti mælt með í sakamálum.

Málið var tiltekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi athugasemda málsaðila, framlagðra gagna af þeirra hálfu sem og þeirra gagna sem nefndin aflaði sjálf undir rekstri málsins.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun D vera félag C og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun. Samkvæmt 58. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga geta fangar kosið sér talsmenn úr röðum samfanga sinna til að vinna að málefnum fanga og til að koma fram fyrir þeirra hönd. Samkvæmt vefsíðu D mun formaður félagsins vera talsmaður þess gagnvart fangelsisyfirvöldum og út á við.

Þann x. júlí 2017 birtist eftirfarandi færsla á svonefndri Facebook vefsíðu D:

„Öllu máli skiptir fyrir handtekinn mann/ Fanga að hafa sér við hlið lögmann sem er traustsins verður, einstakling sem er tilbúinn að setja sig inn í mál og berjast fyrir réttlæti, hvort sem það er vægasta refsing eða sýkna. Reynslan sýnir okkur að góðir lögmenn eru ekki endilega „stjörnulögmenn“ og öfugt.

D hefur um árabil haldið úti lista yfir þá lögmenn sem félagið þekkir og getur með góðri samvisku gefið meðmæli þegar kemur að sakamálum. Hægt er að sækja um að komast á nefndan lista en stjórn félagsins fer yfir umsóknir og hefur ákvörðunarvald. Gerð er krafa um að lögmenn kynni sig, sína sérþekkingu auk þess að veita loforð um að sinna félagsmönnum D vel. Fái þeir sæti á listanum greiða þeir hóflegt gjald til félagsins.

D ítrekar fyrir félagsmönnum sínum og aðstandendum þeirra að kynna sér lögmenn og vanda valið.

Lögmenn sem hafa sérþekkingu á sakamálarétti og hafa áhuga á að vinna að uppbyggingu E er bent á netfangið: formadur@d.is.“

Á vefsíðunni E, sem er haldið út af félaginu D, er að finna lista sem ber yfirskriftina „Listi lögfræðinga sem D, félag C á Íslandi getur með góðu móti mælt með í sakamálum.“ Á listanum er nú að finna nöfn 18 tilgreindra lögmanna, þ. á m. kærðu, og einnar lögmannsstofu sem viðkomandi félag telur sig með góðu móti geta mælt með í sakamálum.

Með bréfi kæranda til kærðu, dags. 18. september 2017, var gerð grein fyrir efni ofangreindra vefsíða og tiltekið að nafn kærðu væri að finna á þeim lista sem áður er lýst. Af því tilefni og með vísan til 1. og 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, óskaði stjórn kæranda eftir að kærða upplýsti um hvort hún hefði sótt um að vera á umræddum lista D og hvort hún hefði greitt félaginu gjald fyrir það og ef svo væri hversu há sú fjárhæð hefði verið.

Kærða svaraði tilgreindu bréfi kæranda með bréfi, dags. 27. september 2017. Var þar tiltekið að ekki hefði komið fram í hvaða tilgangi umræddra upplýsinga og gagna væri óskað en að af efni bréfsins og fréttaflutningi mætti ráða að til skoðunar væri hvort umræddur listi væri brot á 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna. Þá sagði eftirfarandi í bréfinu:

„Undirrituð vill koma því á framfæri að fráleitt sé að halda því fram að umræddur listi brjóti í bága við framangreint ákvæði siðareglna lögmanna. Ákvæðið kveður á um að lögmanni sé óheimilt að greiða öðrum aðila sérstaka þóknun fyrir að láta hann vísa til sín skjólstæðingum. Í því tilviki sem hér um ræðir eru félagasamtök að halda úti lista yfir þá lögmenn sem félagið treystir best til að sinna sínum skjólstæðingum á faglegan og vandaðan hátt. Allt eru þetta lögmenn sem hafa sérþekkingu á sviði sakamála og sem félagsmenn D hafa góða reynslu af. Nauðsynlegt er að sækja um að komast á umræddan lista, líkt og undirrituð gerði, og fer stjórn D þá yfir umsóknina og kannar reynslu sinna félagsmanna af störfum umrædds lögmanns. Þeir lögmenn sem félagið treystir og hafa áhuga á að vera á listanum er boðið að greiða til félagsins kr. 75.000 á ári, sem fer í styrk til félagsins og starfsemi þess.“

Var jafnframt tiltekið í bréfi kærðu að ekki yrði séð með hvaða hætti viðkomandi listi væri frábrugðinn svo sem styrktarlínum í auglýsingum eða tímaritum, sem lögmannsstofur greiddu fyrir að láta birta. Þannig væri í hvorugu tilfellinu um það að ræða að verið væri að vísa á einstakan lögmann heldur væri listi af lögmönnum og/eða lögmannsstofum birtur á ákveðnum stað. Þá var því lýst af hálfu kærðu að enginn viðskiptavinur hefði haft samband við aðilann sem rekja mætti til viðkomandi lista.

Með ofangreindu bréfi kærðu til kæranda fylgdi annars vegar millifærslukvittun, dags. 5. júlí 2017, um greiðslu að fjárhæð 75.000 krónur frá lögmannsstofu kærðu inn á reikning D. Þá fylgdi jafnframt staðgreiðslukvittun, sem formaður D undirritaði, þar sem áður lýst greiðsla var staðfest og að um væri að ræða styrk til félagsins.

Lýtur ágreiningur í málinu að því hvort kærða hafi með háttsemi sinni að þessu leyti brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna.   

II.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna leggi mat á hvort kærða hafi í störfum sínum brotið gegn ákvæði 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna og ef svo er, ákvarði hæfileg viðurlög því til samræmis.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að kvörtuninni sé beint að meintu broti kærðu á 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa greitt öðrum aðila sérstaka þóknun fyrir að láta hann vísa skjólstæðingum til sín.

Kærandi vísar til þess að þann x. júlí 2017 hafi birst á Facebook vefsíðu D, félags C og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, pistill formanns félagsins þar sem fram hafi komið að félagið hafi um árabil haldið úti lista yfir þá lögmenn sem félagið þekkti og gæti veitt meðmæli þegar kæmi að meðferð sakamála. Hafi verið tiltekið í pistlinum að lögmenn gætu gegn greiðslu hóflegs gjalds komist á umræddan lista ef stjórn félagsins samþykkti umsóknina.

Er vísað til þess að stjórn kæranda hafi sent þeim lögmönnum sem tilgreindir hefðu verið á heimasíðu D bréf, þ. á m. kærðu í máli þessu, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um hvort þeir hefðu sótt um að vera á viðkomandi lista D, greitt gjald fyrir það og ef svo væri hversu há sú fjárhæð hefði verið.

Bendir kærandi á að með bréfi kærðu, dags. 27. september 2017, hafi aðilinn upplýst um að tiltekin skipti hefðu átt sér stað á milli hennar og D. Hafi kærða sett fram umsókn um að komast á lista D yfir þá lögmenn sem félagið mælti með. D hafi fallist á þá umsókn en á sama tíma hafi henni verið „boðið“ ef hún hefði „áhuga á að vera á listanum“ að greiða „styrk“ að fjárhæð 75.000 krónur. Þann styrk hafi kærða greitt og að því búnu verið færð á listann.

Á grundvelli frásagnar kærðu og öðru samhengi málsins, þ. á m. pistli formanns D, x. júlí 2017, telur kærandi að álykta verði að án greiðslu þessa „styrks“ hefði kærða ekki verið sett á listann. Með greiðslu hans hafi kærða þannig brotið gegn 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið sé á um að óheimilt sé að greiða öðrum aðila sérstaka þóknun fyrir að láta hann vísa skjólstæðingum til sín. Kveður kærandi þá háttsemi alvarlega þar sem viðskiptavinir sem vísað er á lögmann eigi að geta treyst því að sú tilvísun eigi sér aðrar ástæður en peningalega greiðslu lögmannsins sjálfs til þess sem vísaði á hann.

Kærandi hafnar tilvísunum kærðu til þess að umrædd greiðsla sé ekki frábrugðin greiðslu fyrir styrktarlínur í auglýsingum eða tímaritum. Telur kærandi að grundvallarmunur sé á þessu tvennu. Þannig feli birting styrktarlínu ekki í sér fyrirheit um að útgefandi tímarits mæli með eða vísi sérstaklega á viðkomandi lögmann líkt og eigi við í því tilviki sem hér um ræðir. Þá telur kærandi engu skipta hversu margir hafi fengið eða hlýtt tilvísunum D. Öllu máli skipti að greiðslan hafi farið fram í skiptum fyrir slíkar tilvísanir.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna hafi stjórn kæranda eftirlit með því að reglunum sé fylgt. Í ljósi afdráttarlauss orðalags 2. mgr. 33. gr. siðareglnanna varðandi bann við að lögmaður greiði öðrum aðila sérstaka þóknun fyrir að láta hann vísa skjólstæðingum til sín, telur stjórn kæranda að henni beri skylda til, með vísan til 1. mgr. 43. gr. siðareglnanna, að skjóta málinu til úrskurðarnefndar lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, vegna athugasemda og málatilbúnaðar kærðu fyrir nefndinni, er vísað til þess að ekki verði betur séð en að þær skýringar sem fram hafi komið af hálfu kærðu fyrir nefndinni varðandi aðdraganda skráningar hennar á lista D sé í mótsögn við þær upplýsingar sem kærða hafi veitt í svarbréfi til stjórnar kæranda, dags. 27. september 2017.

Þá er á það bent að kærandi hafi sent öllum hlutaðeigandi lögmönnum sambærilega fyrirspurn og beint var til kærðu. Í svörum annarra lögmanna hafi hins vegar komið fram að greiðsla fjárstyrks til D hafi ýmist verið í tengslum við verkefni sem styrkt hafi verið af velferðarráðuneytinu og falist í uppsetningu á E á sérstakri heimasíðu eða til almennrar starfsemi D. Þá hafi einn umræddra lögmanna upplýst að ekki hefði verið greiddur styrkur heldur hafi hann aðstoðað nokkra félagsmenn og fjölskyldur þeirra vegna úrlausnarefna fyrir stjórnsýslunni. Þá hafi komið fram í svörum umræddra lögmanna að enginn þeirra hefði óskað eftir að vera settur á lista D.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er málatilbúnaði kærðu um ætlaða óvild formanns kæranda í hennar garð og um ætlaðar annarlegar hvatir stjórnarmanna mótmælt. Kveður kærandi að kærða hafi ekkert tilefni til slíkra ályktana.

III.

Kærða hafnar öllum ásökunum kæranda og krefst þess fyrir nefndinni að kröfum kæranda verði hafnað.

Í málatilbúnaði kærðu er vísað til þess að hún hafi hitt formann D á fundi í tengslum við vinnu við heimasíðuna E vegna meistararitgerðar sem aðilinn hefði skrifað á sínum tíma, en nokkuð hefði borið á mismunun af hálfu F vegna reynslulausnar til handa föngum eftir því hvort þeir væru erlendir eða íslenskir. Kveðst kærða hafa samþykkt að veita D aðstoð við að skoða þessi mál og jafnvel til að funda með F vegna þeirra. Er vísað til þess að á þeim fundi hafi formaður D minnst á að hann þekkti vel til starfa kærðu og að hann hefði heyrt vel látið af lögmannsstörfum aðilans. Hafi formaðurinn nefnt á fundinum að félagið héldi úti lista yfir lögmenn sem félagið treysti og hefði reynst því vel í hinum ýmsum málum í gegnum tíðina. Kveðst kærða hafa lýst yfir áhuga til þess að vera á umræddum lista. Hafi formaður D þá sagst þurfa að bera það undir stjórn félagsins og að í kjölfarið yrði haft samband við kærðu.

Kærða vísar til þess að formaður D hafi haft samband við sig nokkru síðar og upplýst að stjórn félagsins hefði samþykkt að setja kærðu á viðkomandi lista. Hafi kærðu þá þegar verið bætt á listann. Í sama símtali hafi formaðurinn upplýst um að félagið ætti oft erfitt með að fá styrki til að halda úti starfi þess og því væri gjarnan leitað til velunnara eftir styrkjum, þ. á m. til lögmanna sem reynst hefðu félaginu vel. Færu styrkirnir í að styrkja starfið, þ. á m. vinnu við gerð áðurnefndrar heimasíðu. Kveður kærða að formaðurinn hafi spurt hvort kærða hefði áhuga á að gerast styrktaraðili og greiða styrk til félagsins. Hafi hann nefnt að algeng styrktarfjárhæð væri 75.000 krónur og að sumir greiddu slíka fjárhæð árlega. Vísar kærða til þess að hún hafi samþykkt að veita styrk að fjárhæð 75.000 krónur í eitt skipti auk þess sem hún hafi upplýst formanninn um að hann skyldi hafa aftur samband að ári og að ef vel stæði á gæti verið að styrkur yrði veittur árlega.

Kærða kveður það aldrei hafa verið skilning sinn að það væri skilyrði fyrir því að nafn aðilans yrði sett á listann að styrkur yrði greiddur. Bendir aðilinn á að styrkbeiðnin hafi komið fram eftir að kærða hafi verið færð á listann og ekki í beinum tengslum við listann. Hafi kærða þannig verið færð á umræddan lista í maí eða júnímánuði 2017 en styrkurinn hafi ekki verið greiddur fyrr en í júlí sama ár. Kærða mótmælir því jafnframt að í svarbréfi hennar til kæranda, dags. 27. september 2017, hafi komið fram að greitt hafi verið fyrir að komast á listann og að kærða hafi verið færð á listann í kjölfar greiðslu styrksins. Kveður kærða þetta rangt og telur ljóst að stjórn kæranda sé með þessum ummælum að reyna að afvegaleiða og afmynda það sem fram komi í svarbréfinu. Þá bendir kærða á að hún hafi ekki séð pistil D frá x. júlí 2017 þegar hún hafi lýst yfir áhuga á að vera á listanum.

Í málatilbúnaði kærðu er vísað til þess að formaður D hafi tekið undir skilning kærðu um að greiðsla styrksins væri ekki skilyrði fyrir veru á umræddum lista. Hafi formaðurinn bent á að tveir lögmenn á listanum hefðu ekki greitt krónu í styrk til félagsins heldur eingöngu veitt vinnuframlag sitt í þágu félagsins við að koma á fót heimasíðunni E.

Kærða bendir á að undir rekstri málsins hafi framkvæmdastjóri kæranda upplýst að kærða væri sú eina á viðkomandi lista sem stjórn kæranda hefði ákveðið að kvarta undan þrátt fyrir að 12 lögmenn væri að finna á listanum. Kveðst kærða ekki vita hverju það sæti og undrast framgöngu stjórnar kæranda að þessu leyti. Þá telur kærða þetta gefa til kynna meinta óvild formanns kæranda í garð kærðu og að slíkt sé eina mögulega ástæða þess sem aðilinn nefnir árás stjórnar kæranda í sinn garð umfram aðra lögmenn á lista D. Þá dregur kærða í efa að formaður kæranda hafi verið hæfur til að standa að ákvörðun félagsins um að senda kvörtun er varðaði kærðu til úrskurðarnefndar.

Að endingu vísar kærða til þess að hún hafi um árabil styrkt Rauða kross Íslands vegna hinna ýmsu mannúðarverkefna. Hafi kærða um tíma verið á lista Rauða krossins yfir lögmenn sem tækju að sér dómsmál fyrir hælisleitendur og hafi nokkrum hælisleitendum verið vísað til hennar á þeim grundvelli. Veltir kærða því upp hvort kærandi líti þá þannig á að það sé einnig brot á 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna.

Þá bendir kærða á að kærandi sjálfur haldi úti svokölluðum lögmannalista þar sem lögmenn geta greitt fyrir að láta skrá sig sem sérfræðinga í ákveðnum málaflokkum. Viðskiptavinum sem leita eftir lögmanni hjá kæranda sé bent á þennan lista til að finna sér lögmann. Vísar kærða til þess að lögmenn greiði fyrir veru á þessum lista árgjald og að þeir geti skráð sig á alla þá málaflokka sem þeim hugnast og að ekkert sé gert til að ganga úr skugga um að viðkomandi lögmaður sé í raun sérfræðingur í viðkomandi málaflokki. Megi því segja að með þessu séu lögmenn að greiða kæranda, sem séu félagasamtök rétt eins og D, fyrir að vísa til sín kúnnum vegna tiltekinna málaflokka.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna hefur stjórn A, sem er kærandi máls þessa, eftirlit með því að reglunum sé fylgt. Hefur hún um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða er til. Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna sker úrskurðarnefnd lögmanna úr ágreiningi um skilning á reglunum.

Í 3. mgr. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, þar sem fjallað er um hlutverk nefndarinnar, er eitt af hlutverkunum tilgreint svo, að fjalla um erindi sem stjórn A sendir nefndinni samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna.

Kærandi hefur samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 m.a. það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem varða stétt lögmanna. Eru samþykktir kæranda í samræmi við þetta og er tilgangur félagsins skilgreindur svo í 2. gr. þeirra að hann sé m.a. að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi.

Með vísan til 27. gr. laga nr. 77/1998 sem áður er lýst, lögskýringargagna varðandi tilgreint lagaákvæði og 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna verður að mati nefndarinnar að játa stjórn A formlegan rétt til þess að bera fram kvörtun þegar hún telur að lögmaður hafi brotið gegn lögum eða siðareglum og að brotið hafi beinst gegn hagsmunum lögmanna almennt eða félaginu sjálfu. Hins vegar felst ekki í þessu að kærandi geti knúið fram umfjöllun vegna kvartana sinna sem beinast að því að lögmaður hafi í störfum sínum brotið gegn ákveðnum aðila, sem fer þá með forræði á því sakarefni, þ. á m. á ákvörðun um hvort þeir beini kæru til úrskurðarnefndar eða ekki. Beinist skoðun nefndarinnar á meintum brotum jafnan að því hvort kærði hafi gerst brotlegur við kæranda.

Í samræmi við framangreint telur úrskurðarnefndin að í fyrrgreindum reglum felist áskilnaður um að úrslit máls varði kæranda með þeim hætti að hann verði talinn hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Fyrrnefnt ákvæði í siðareglum lögmanna um að stjórn A hafi eftirlit með því að reglunum sé fylgt fær ekki hnekkt því. Í því felst bæði að lögvarðir hagsmunir þurfa að vera fyrir hendi og að kærandi sé réttur eigandi þeirra. Til þess er einnig að líta að umræddir hagsmunir séu ekki of almennir. Þeir þurfa því að einhverju marki að vera beinir og einstaklingslegir umfram það sem aðrir hafa að gæta.

Í máli þessu kemur aðeins til skoðunar hvort brotið hafi verið gegn kæranda og þeim hagsmunum sem hann stendur fyrir. Matið á því hvers konar brot fari gegn hagsmunum lögmanna almennt er ekki einfalt, en þar undir virðist þó mega fella þá hagsmuni að lögmannastéttin gegni því hlutverki og njóti þeirrar stöðu sem henni er ætluð í lögum og að ekki sé grafið undan henni með háttsemi sem fer í bága við góða lögmannshætti og ýmsar siðareglur, einkum í I., III. og IV. kafla siðareglna lögmanna, en einnig ákvæði í öðrum kröflum siðareglnanna þar sem verndarhagsmunir eru almennir, t.d. 18. gr. og 2. mgr. 33. gr. en kærandi hefur vísað til síðargreinds ákvæðis í málatilbúnaði sínum gegn kærðu fyrir nefndinni. Má um þetta efni jafnframt vísa til úrskurða nefndarinnar frá 26. maí 2017 í málum nr. 26/2016 og 14/2017.

Samkvæmt því sem hér hefur verið lýst er það mat nefndarinnar að sakarefnið varði kæranda sjálfan í framangreindum skilningi enda lýtur sakarefni málsins meðal annars að 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í 2. mgr. 33. gr. siðareglnanna er tiltekið að lögmanni sé óheimilt að greiða öðrum aðila sérstaka þóknun fyrir að láta hann vísa skjólstæðingum til sín.

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir efni sem birt hefur verið á opinberum vefsíðum D, félags C og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun. Er þar annars vegar um að ræða pistil sem birtur var á svonefndri Facebook vefsíðu tilgreinds félags þann x. júlí 2017 og hins vegar lista sem er að finna á vefsíðunni E og ber yfirskriftina „Listi lögfræðinga sem D, félag C á Íslandi getur með góðu móti mælt með í sakamálum.“ Á listanum er nú að finna nöfn 18 tilgreindra lögmanna, þ. á m. kærðu í máli þessu, sem og einnar lögmannsstofu sem félagið D getur með góðu móti mælt með í sakamálum.

Í málsatvikalýsingu er jafnframt gerð grein fyrir bréfaskiptum málsaðila frá 18. og 27. september 2017 vegna aðildar kærðu að nefndum lista. Þá liggur fyrir í málsgögnum að lögmannsstofa kærðu innti af hendi greiðslu að fjárhæð 75.000 krónur inn á reikning D þann 5. júlí 2017 en í staðgreiðslukvittun félagsins frá sama degi er greiðslan staðfest og að um hafi verið að ræða styrk til félagsins.

Kærandi byggir á að á grundvelli frásagnar kærðu og öðru samhengi málsins, þ. á m. pistli formanns D frá x. júlí 2017, verði að álykta að án greiðslu áðurnefnds styrks hefði kærða ekki verið sett á viðkomandi lista yfir lögmenn sem D mælti með í sakamálum. Með greiðslu hans hafi kærða þannig brotið gegn 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna.

Í bréfi kærðu til kæranda, dags. 27. september 2017, sem hinn síðarnefndi aðili vísar meðal annars til um þetta efni, segir eftirfarandi:

„...Í því tilviki sem hér um ræðir eru félagasamtök að halda úti lista yfir þá lögmenn sem félagið treystir best til að sinna sínum skjólstæðingum á faglegan og vandaðan hátt. Allt eru þetta lögmenn sem hafa sérþekkingu á sviði sakamála og sem félagsmenn D hafa góða reynslu af. Nauðsynlegt er að sækja um að komast á umræddan lista, líkt og undirrituð gerði, og fer stjórn D þá yfir umsóknina og kannar reynslu sinna félagsmanna af störfum umrædds lögmanns. Þeir lögmenn sem félagið treystir og hafa áhuga á að vera á listanum er boðið að greiða til félagsins kr. 75.000 á ári, sem fer í styrk til félagsins og starfsemi þess.“

Samkvæmt ofangreindu efni er ágreiningslaust að kærða sótti um að vera á tilgreindum lista. Hins vegar er ekki unnt að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í efni bréfs kærðu að með því hafi hún viðurkennt að greiðsla fjármuna til félagsins D væri skilyrði fyrir veru hennar á viðkomandi lista félagsins, líkt og kærandi reisir málatilbúnað sinn á. Þannig verður efni bréfsins ekki skilið á annan hátt en að kærða hafi óskað eftir að nafn hennar yrði á listanum, að stjórn D færi yfir slíka umsókn líkt og umsóknir annarra lögmanna og að umsóknaraðilum væri boðið að greiða styrk til félagsins að nánar tilgreindri fjárhæð. Gegn andmælum kærðu fyrir nefndinni um þetta efni er samkvæmt framangreindu ekki unnt að leggja til grundvallar að kærða hafi viðurkennt í bréfi sínu til kæranda, dags. 27. september 2017, að greiðsla styrksins væri forsenda og skilyrði fyrir því að nafn hennar yrði fært á listann.

Hvað sem því líður þá liggur fyrir að í pistli formanns D frá x. júlí 2017, sem birtur var á vefsíðu félagsins, var tiltekið að þeir sem fengju sæti á viðkomandi lista greiddu hóflegt gjald til félagsins fyrir þá veru. Það að greiðsla endurgjalds hafi verið skilyrði fyrir skráningu á listann af hálfu D fær að mati nefndarinnar jafnframt stoð í málatilbúnaði kærðu sjálfrar fyrir nefndinni en þar greinir meðal annars frá samtölum hennar við formann félagsins þar sem fram hafi komið af hálfu hins síðarnefnda að greiðsla styrksins væri ekki skilyrði fyrir veru á listanum enda væru nöfn tveggja lögmanna þar að finna sem ekki hefðu greitt krónu í styrk til félagsins heldur eingöngu veitt vinnuframlag sitt í þágu félagsins við að koma á fót vefsíðunni E. Að mati nefndarinnar verður ekki annað ráðið af tilgreindum málatilbúnaði kærðu en að D hafi krafist endurgjalds í einhverju formi úr hendi þeirra lögmanna sem óskað höfðu eftir að vera á listanum eða höfðu ratað á hann með öðrum hætti. Að áliti nefndarinnar skiptir engu í því tilliti hvort endurgjaldið hafi verið í formi greiðslu fjármuna til félagsins eða hvort innt hafi verið af hendi vinnuframlag í þágu viðkomandi félags.

Ágreiningslaust er að kærða óskaði eftir við formann D að nafn hennar yrði fært á lista félagsins yfir þá lögmenn sem félagið mælti með í sakamálum. Eins og áður greinir er D frjáls félagasamtök C og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun. Að áliti nefndarinnar verður að gera þá lágmarkskröfu til lögmanna að þeir hafi kynnt sér í grundvallaratriðum starfsemi slíks félags og þau skilyrði sem kunna að hafa verið sett, að því marki sem upplýsingar eru opinberar og unnt er að öðru leyti, áður en slík umsókn sem mál þetta varðar er lögð fram og/eða fjármunir inntir af hendi. Verði að telja slíkt til góðra lögmannshátta. Að mati nefndarinnar á slíkt ekki hvað síst við þegar lögmenn óska eftir að verða færðir á lista viðkomandi félags eða félagasamtaka, líkt og á við í því tilviki sem hér um ræðir.

Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að ekki hafi þýðingu við úrlausn sakarefnisins hvort kærðu hafi í reynd verið kunnugt um þann pistil sem birtist á Facebook vefsíðu D þann x. júlí 2017 enda verði að leggja til grundvallar að henni hafi mátt vera kunnugt um efni pistilsins. Þá er þess að gæta að kærða greiddi hinn meinta styrk til félagsins, að fjárhæð 75.000 krónur, daginn eftir að pistillinn hafði verið birtur, þ.e. þann 5. júlí 2017. Þá breytir engu í þessu tilliti hvort nafn kærðu hafi verið fært á listann í maí- eða júnímánuði 2017 eins og greinir í málatilbúnaði aðilans, þ.e. áður en nefndur pistill var birtur á vefsíðu D, enda liggur fyrir að endurgjaldið var sannanlega innt af hendi af hálfu kærðu til félagsins.

Eins og áður greinir er lögmanni óheimilt samkvæmt 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna að greiða öðrum aðila sérstaka þóknun fyrir að láta hann vísa skjólstæðingum til sín. Að mati nefndarinnar er sú háttsemi sem ákvæðið tekur til almennt til þess fallið að varða jafnframt við 2. gr. siðareglnanna sem lýtur að heiðri lögmannastéttarinnar.

Hér hefur verið lagt til grundvallar að kærða hafi óskað eftir við formann D að nafn hennar yrði fært á lista félagsins yfir þá lögmenn sem mælt væri með í sakamálum, að umsóknin hafi verið samþykkt og að kærða hafi innt af hendi sérstaka þóknun til félagsins vegna þessa. Þá hafi greiðsla endurgjalds í einhverju formi til D verið skilyrði fyrir því að nafn lögmanns yrði fært á listann og héldist þar. Með vísan til þess telur nefndin ljóst að greiðsla kærðu til D þann 5. júlí 2017 hafi falið í sér sérstaka þóknun í skilningi 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna. Breytir engu í því tilliti þótt greiðslan sé nefnd styrkur í málatilbúnaði kærðu og staðgreiðslukvittun D frá sama degi.

Að sama skapi telur nefndin að tilgangur með slíkum meðmælendalista geti vart verið annar en sá að verið sé að vísa félagsmönnum viðkomandi félags, og/eða öðrum sem kunna að skoða listann og hafa þörf fyrir þá lögmannsþjónustu sem listinn tekur til, á viðkomandi lögmenn sem listinn geymir. Að mati nefndarinnar verður ekki fram hjá því litið að um er að ræða lista yfir lögmenn sem mælt er með vegna sakamála og því um hagsmunagæslu að ræða sem lögmönnum er skylt að sinna samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 77/1998. Jafnframt verður að líta til þess að um er að ræða tilvísun félagasamtaka á nánar tilgreinda lögmenn vegna lögmannsstarfa þar sem lagt er út fyrir þóknun úr ríkissjóði, sbr. 3. mgr. 38. gr., a. lið 1. mgr. 216. gr. og 1. mgr. 221. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt því og með vísan til þess að skilmerkilega er auðkennt á forsíðu vefsíðunnar E að vefurinn sé unnin með styrk frá velferðarráðuneytinu kann jafnframt að skapast augljós ruglingshætta á því að um sé að ræða vísun opinbers aðila á viðkomandi lögmenn á listanum. Þá verður að líta til þess að hvergi er tiltekið á vefsíðunni að endurgjald í einhverju formi hafi verið innt af hendi til D fyrir veru á listanum.

Í samræmi við allt framangreint er það mat nefndarinnar að kærða hafi brotið gegn 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa innt af hendi greiðslu fjármuna til D þann 5. júlí 2017 í tengslum við að vera færð á lista félagsins yfir þá lögmenn sem væri mælt með í sakamálum. Í engu er dregin í efa sérfræðiþekking kærðu á sviði sakamálaréttarfars né jákvæð afstaða D í garð kærðu á því réttarsviði. Hins vegar eiga viðskiptavinir og skjólstæðingar sem vísað er á lögmann að geta treyst því að sú tilvísun eigi sér aðrar ástæður en peningalega greiðslu lögmannsins sjálfs til þess sem vísaði á hann. Er því ekki fyrir að fara vegna þess sakarefnis sem hér um ræðir enda ekki tiltekið á listanum að endurgjald í einhverju formi hafi verið innt af hendi fyrir veru á honum.

Hvorki er efni til að taka afstöðu til málatilbúnaðar kærðu um greiðslu fjármuna og/eða styrkja til annarra félaga eða félagasamtaka né til þess lista sem kærandi heldur úti á vefsíðu sinni enda slíkt sakarefni þessa máls óviðkomandi.

Með hliðsjón af atvikum öllum, þ. á m. vilja kærðu til að upplýsa málið, verður látið við það sitja að veita kærðu aðfinnslu vegna háttsemi hennar að þessu leyti.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærðu, B lögmanns, að inna af hendi greiðslu fjármuna að fjárhæð 75.000 krónur þann 5. júlí 2017 til D, félags C og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, í tengslum við að vera færð á lista félagsins yfir þá lögmenn sem mælt er með í sakamálum, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson