Mál 19 2017

Ár 2018, 28. febrúar 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2017:

A og B,

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. apríl 2017 erindi kærenda, A og B, en í því er kvartað yfir því að kærði, C lögmaður með leyfi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum, hafi brotið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 12. apríl 2017 og barst hún þann 21. sama mánaðar. Var kærendum send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 25. apríl 2017. Hinn 3. maí 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar til kærða þann 9. sama mánaðar. Svar kærða barst 24. maí 2017 og var það sent til kærenda með bréfi dags. 26. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Úrskurður í máli þessu var kveðinn upp þann 6. desember 2017 og var hann sendur til málsaðila ásamt bréflegri tilkynningu þann 7. sama mánaðar. Eftir uppkvaðningu úrskurðarins var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns til meðferðar málsins. Var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 29. desember 2017, þar sem viðkomandi nefndarmaður vék sæti, og ákveðið var að endurupptaka málið samkvæmt VI. kafla stjórnsýslulag nr. 37/1993 með vísan til tilgreinds vanhæfis og að varamaður tæki sæti í málinu. Upplýsti úrskurðarnefnd málsaðila um endurupptöku málsins með bréfi dags. 2. janúar 2018. Var málið tekið til úrskurðar á nýjan leik á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins munu kærendur hafa leitað til kærða í nóvembermánuði 2016 vegna húsfundar og framkvæmda sem kærendur töldu þörf á að farið yrði í vegna fasteignanna að D 99 - 101 í Reykjavík. 

Við það tilefni rituðu kærendur undir umboð, dags. 18. nóvember 2016, þar sem kærða og lögmannsstofu hans var veitt fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna kærenda í tengslum við fasteignir í þeirra eigu að D 99 í Reykjavík. Var tekið fram í umboðinu að það næði jafnframt til þess að afla allra nauðsynlegra gagna, annast öll nauðsynleg samskipti og til að fara með málið fyrir hönd kærenda að því leyti sem nauðsynlegt væri.

Þann sama dag undirrituðu málsaðilar jafnframt samning um þóknun þar sem fram kom að vinna kærða í þágu kærenda færi fram á grundvelli tímagjalds sem væri 16.500 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Þá var tiltekið í samningnum að reikningar yrðu gefnir út annan hvern mánuð.

Ágreiningur er á milli aðila um hvað nákvæmlega hafi falist í hagsmunagæslu kærða í þágu kærenda og hvaða verk kærði hafi samkvæmt því tekið að sér. Í málatilbúnaði kærenda er um þetta efni vísað til þess að kærða hafi verið falið að halda húsfund í því skyni að fá skýra afstöðu í formi formlegrar neitunar frá öðrum eigendum viðkomandi fasteigna til framkvæmda við skólp- og frárennslislagnir þannig að unnt væri að ráðast í framkvæmdir á grundvelli 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Um þetta efni hefur kærði hins vegar vísað til þess að honum hafi verið falið að gæta hagsmuna kærenda vegna langvarandi deilu innan húsfélagsins og að í því hafi meðal annars falist að boða til og mæta með kærendum á húsfund. Hafi ætlunin þar verið að ræða um framkvæmdir af ýmsum toga og gera tilraun til að ná sáttum á milli íbúa um framkvæmdirnar. Störf kærða hafi hins vegar ekki falist í því að tryggja neikvæða afstöðu annarra íbúa fasteignanna til skólp- og frárennslisframkvæmda.

Hvað sem því líður þá liggur fyrir að kærði annaðist gerð boðunar til húsfundar, dags. 5. desember 2016, og að aðilar áttu í tölvubréfasamskiptum vegna þess dagana 2. – 5. desember 2016. Var tekið fram í tilgreindu fundarboði að boðað væri til fundarins með vísan til 60. gr. laga nr. 26/1994 og að hann yrði haldinn þann 19. desember 2016. Um efni fundarins var því meðal annars lýst í fundarboðinu að hann lyti að framkvæmdum við stromp, framkvæmdum vegna leka, viðgerð skolplagna, lagfæringu og frágangi þakrennu, skoðun gólfklæðningar og lokaúttekt á fasteigninni. Þá var meginefni tillagnanna lýst í fundarboðinu. Voru eigendur þar eindregið hvattir til að mæta á fundinn þar sem um mikilvægar framkvæmdir væri að ræða sem þyrfti tafarlaust að grípa til og vörðuðu alla eigendur. Var tiltekið að fundarboðið yrði sent í ábyrgðar- og tölvupósti.

Húsfundur í samræmi við efni framangreinds fundarboðs mun hafa verið haldinn þann 19. desember 2016. Meðal fundarmanna voru kærendur máls þessa og kærði í þeirra umboði sem tók að sér fundarstjórn og ritun fundargerðar. Ágreiningur er á milli aðila um lyktir þessa húsfundar. Í málatilbúnaði kærenda er þannig vísað til þess að þegar liðið hafi á fundinn hafi kærði hætt að rita fundargerð og taka niður bókanir fundarmanna. Við lok fundar hafi allir fundarmenn enn verið viðstaddir en að kærði hafi slitið fundinum með þeim orðum að fundargerð yrði send fundarmönnum til leiðréttingar og undirritunar. Hafi fundargerðin því ekki verið lesin upp í lok fundar og hún undirrituð. Um þetta efni vísar kærði hins vegar til þess að hiti hafi hlaupið í fundarmenn þegar liðið hafi á fundinn. Hafi fundurinn leyst upp og aðrir íbúar fasteignarinnar yfirgefið fundinn án þess að tóm hefði gefist til þess að ganga endanlega frá og lesa upp fundargerð í samræmi við 3. mgr. 64. gr. laga nr. 26/1994.

Fyrir liggur að kærði sendi drög að fundargerð húsfundarins til kærenda í tölvubréfi þann 29. desember 2016. Þá liggur fyrir að kærendur gerðu verulegar athugasemdir við drög fundargerðarinnar í tölvubréfum til kærða daginn eftir, þ.e. þann 30. desember 2016. Þá lýstu kærendur því meðal annars í tölvubréfunum að þeir hefðu verið ósáttir við undirbúning og framgöngu kærða á fundinum í hagsmunagæslu fyrir kærendur.

Þann 11. janúar 2017 sendi kærði á ný tölvubréf til kærenda með yfirskriftinni „stytt fundargerð.“ Með tölvubréfinu var að finna uppfærð drög fundargerðar frá húsfundinum þann 19. desember 2016 þar sem nánar tilgreindir liðir höfðu verið teknir út að beiðni kærenda. Óskaði kærði eftir staðfestingu á að honum væri heimilt að senda drögin til lögmanns gagnaðila. Kærendur svöruðu tölvubréfi þessu þennan sama dag þar sem óskað var eftir að drögunum yrði breytt á nánar tilgreindan hátt og að drögin yrðu að því búnu send til gagnaðila til samþykkis.

Í tölvubréfi kærða til kærenda daginn eftir, 12. janúar 2017, var því lýst að kærendur hefðu komið á framfæri deginum áður að þjónustu lögmannsstofu kærða væri ekki lengur óskað auk þess sem kærendur hefðu sótt gögn málsins. Var upplýst að kærði myndi því ekki koma frekar að málinu.

Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kærendur eftir þann tíma.

Frá 11. janúar 2017 liggja fyrir reikningar vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kærenda. Nánar tiltekið var annars vegar gefinn út reikningur nr. 11-17 þann dag að fjárhæð 112.530 krónur með virðisaukaskatti til kæranda A. Var því lýst að um væri að ræða reikning vegna aðstoðar við húsfélagsmál og að um væri að ræða helming af heildarreikningi. Var tímafjöldi tilgreindur sem 5,50 vinnustundir og að tímagjald væri 16.500 krónur án virðisaukaskatts. Hins vegar gaf kærði út þennan dag reikning nr. 12-17 að fjárhæð 112.530 krónur með virðisaukaskatti til kæranda B. Var sömu lýsingu og áður greinir að finna á reikningnum.

Kærendur staðfestu í tölvubréfi til kærða þann 12. janúar 2017 að þeir hefðu móttekið reikninga frá kærða. Lýstu kærendur því að þeim þættu reikningarnir „full háir“ og óskuðu eftir tímaskýrslu frá kærða.

Kærði sendi kærendum umbeðna tímaskýrslu í tölvubréfi þann 6. apríl 2017. Kom fram í tímaskýrslunni að kærði hefði alls unnið í 11 klukkustundir í þágu kærenda vegna fasteigna þeirra að D 99 á tímabilinu frá 1. desember 2016 til og með 12. janúar 2017.

Aðilar áttu eftir þetta í frekari tölvubréfasamskiptum dagana 6. – 8. apríl 2017, sem liggja fyrir nefndinni, án efnislegrar niðurstöðu um ágreining þeirra vegna hagsmunagæslu kærða í þágu kærenda og útgefna reikninga vegna þeirra lögmannsstarfa, sem áður er lýst.

II.

Skilja verður málatilbúnað kærenda með þeim hætti að gerð sé krafa um að útgefnir reikningar vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kærenda verði felldir niður, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun kærenda er vísað til þess að kærði hafi verið ráðinn til að vinna tiltekið verk fyrir kærendur. Í því hafi falist að halda húsfund og fá skýra afstöðu í formi formlegrar neitunar annarra eigenda fasteigna að D 99 – 101 í Reykjavík til framkvæmda við skólp- og frárennslislagnir þannig að unnt væri að ráðast í framkvæmdir á grundvelli 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Byggja kærendur á að þar sem fundargerðin hafi ekki verið unnin í samræmi við 64. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 hafi húsfundurinn ónýst.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi fengið viðtalstíma hjá kærða þann 8. nóvember 2016. Í kjölfar þess hafi kærendur leitað til kærða í byrjun desembermánaðar 2016 og afhent honum gögn ásamt tillögu að fundarefni fyrir hinn fyrirhugaða húsfund.

Kveða kærendur að kærði hafi mætt 5 mínútum áður en húsfundur hafi átt að hefjast þann 19. desember 2016 þrátt fyrir að kærendur hefðu óskað eftir tíma til undirbúnings og samræmingu ákvarðanatöku. Hafi kærði upplýst kæranda A áður að hann myndi mæta 40 mínútum fyrir fund. Þegar kærði hafi mætt til fundarins hafi hann aðeins sagst mættur til að hlýða á fundinn. Hafi kærendur óskað eftir við kærða að hann yrði fundarstjóri og myndi rita fundagerð sem kærði hafi samþykkt.

Vísa kærendur til þess að þegar liðið hafi á fundinn hafi kærði hætt að rita niður fundarefni auk þess sem hann hafi ekki ritað umbeðnar bókanir fundarmanna. Af þeim sökum hafi fundargerð ekki verið lesin upp í lok fundar. Við lok fundar hafi kærði sagt fundarmönnum að hann myndi senda fundargerð í tölvupósti þannig að fundarmenn ættu þess kost að gera leiðréttingar. Hafi fundi verið slitið í kjölfar þessa.

Byggja kærendur á að kærði hafi farið með ámælisverð ósannandi varðandi framgang fundarins í tölvubréfasamskiptum. Þannig hafi enginn rokið út af fundinum. Fundarmenn hafi verið ósammála um vissa hluti en að fundinum hafi lokið með handartaki og kveðju milli eigenda fasteignarinnar og lögmanna. Í viðbótarathugasemdum kærenda vegna málatilbúnaðar og greinargerðar kærða ítrekuðu kærendur sjónarmið sín um meinta ósannsögli og ranga málsatvikalýsingu kærða varðandi efni og lyktir húsfundarins sem haldinn var þann 19. desember 2016.

Þá vísa kærendur til þess að fyrstu drög fundargerðar hafi ekki borist kærendum fyrr en 29. desember 2016, þ.e. 10 dögum eftir húsfundinn. Í sundurliðun tímaskýrslu kærða komi fram að fundargerð hafi verið gerð þann 29. desember 2016 og því hafi kærði farið með ósannindi um að hann hefði lesið fundargerðina í lok húsfundar þann 19. sama mánaðar.

Kærendur benda á að kærða hafi ekki verið sagt upp störfum. Þann 11. janúar 2017 hafi verið óskað eftir að fá gögn málsins afhent þar sem aðeins hafi verið til eitt eintak af þeim. Þá hafi kærða verið tilkynnt símleiðis að eftir skil hans á undirritaðri fundargerð yrði ekki óskað eftir frekari aðstoð af hans hálfu. Annar lögmaður myndi sinna verkinu vegna óánægju kærenda. Þá vísa kærendur til þess að óskað hafi verið eftir tímaskýrslu frá kærða þann 12. janúar 2017, þ.e. eftir útgáfu reikninga, en að hún hefði ekki borist fyrr en þann 6. apríl 2017.

Með vísan til framangreinds krefjast kærendur þess að útgefnir reikningar kærða verði felldir niður að fullu. Benda kærendur á að þeir hafi ráðið annan lögmann til að sinna málinu og að sá lögmaður hafi skilað verkinu með sóma, sbr. fundargerð dags. 5. apríl 2017 sem liggur fyrir nefndinni. Benda kærendur á að sá lögmaður hafi stjórnað húsfundi, ritað fundargerð, lesið upp fundargerð og fengið undirritun, allt á einum klukkutíma.

III.

Kærði krefst þess að kröfu kærenda um niðurfellingu reiknings verði hafnað. Mótmælir kærði með öllu röksemdum kærenda og lýsingu þeirra á málsatvikum.

Vísar kærði til þess að kærendur hafi ritað undir umboð þann 18. nóvember 2016 þar sem kærða hafi verið veitt umboð til að gæta hagsmuna kærenda í tengslum við fasteignir í þeirra eigu að D 99, 108 Reykjavík. Þá hafi kærendur undirritað samning um þóknun þar sem fram hafi komið að unnið væri á grundvelli tímagjalds að fjárhæð 16.500 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Með þessu hafi kærða verið falið að gæta hagsmuna kærenda vegna langvarandi deilu innan húsfélagsins að D 99 – 101. Í því hafi meðal annars falist að boða til og mæta með kærendum á húsfund sem haldinn hafi verið þann 19. desember 2016. Á þeim fundi hafi verið ætlunin að ræða um framkvæmdir af ýmsum toga og gera tilraun til að ná sáttum á milli íbúa um framkvæmdirnar. Hafi þessar framkvæmdir snúið að lekamálum, frágangi á þakrennu, gólfklæðningu á svölum, lokúttekt á húsinu, viðgerð skólplagna og eitrun vegna starralúsar eins og tiltekið hafi verið í fundarboði, dags. 5. desember 2016.

Kveður kærði að á fyrri hluta húsfundarins, sem fram fór þann 19. desember 2016, hafði náðst sátt um tiltekin deilumál, þ. á m. um að ráðast í nauðsynlegar viðgerðir vegna lekamála, gera við þakrennu og ganga frá lokaúttekt á húsinu. Á síðari hluta húsfundarins þegar ræða hafi átt um viðgerðir á skólplögnum hafi hins vegar hlaupið talsverður hiti í fundarmenn þar sem enginn sáttavilji hafi verið til staðar um framkvæmdirnar. Hafi fundurinn leyst upp og aðrir íbúar fasteignarinnar yfirgefið fundinn án þess að tóm hefði gefist til þess að ganga endanlega frá og lesa upp fundargerð í samræmi við 3. mgr. 64. gr. laga nr. 26/1994. Vísar kærði til þess að ekki hafi verið unnt að ráða við þessar aðstæður auk þess sem þær hafi ekki verið á ábyrgð kærða.

Kærði vísar til þess að með hliðsjón af þeirri stöðu sem upp hafi verið komin hafi hann talið rétt að ljúka við gerð fundargerðar og senda hana áfram til yfirlestrar, fyrst til kærenda og síðan til lögmanns gagnaðila. Hafi umrædd fundargerð verið kláruð þann 29. desember 2016 og hún send til kærenda. Þá hafi fundargerðin verið endurbætt þann 11. janúar 2017 á grundvelli athugasemda frá kærendum. Kveður kærði að sér hafi verið sagt upp störfum áður en hin endurbætta fundargerð var send kærendum.

Kærði bendir á að í málatilbúnaði kærenda sé engin athugasemd gerð við fyrirliggjandi tímaskrá kærða eða upphæð tímagjalds. Samkvæmt því séu rök kærenda fyrir niðurfellingu reikningsins einungis þau að störf kærða hafi verið ófullnægjandi þar sem kærði hafi ekki fengið fram formlega neitun annarra íbúa varðandi viðgerð á skólplögnum. Kærði hafnar þeim málatilbúnaði með öllu með vísan til þess að fráleitt sé að lögmaður taki að sér að tryggja fyrirfram neikvæða afstöðu annarra íbúa hvað varðar tiltekin deilumál áður en húsfundur sé haldinn.

Þá bendir kærði á að sátt hafi tekist um tiltekin atriði á fyrri hluta húsfundarins, þar á meðal um lekamál og viðgerð á þakrennu. Hafi lekamálin verið kærendum afar mikilvæg ekki síður en skólpmálin eins og ráða megi af tölvubréfi kærandans A frá 30. desember 2016.

Á grundvelli framangreinds og framlagðra gagna byggir kærði á að störf hans í þágu kærenda hafi ekki falist í því að tryggja neikvæða afstöðu annarra íbúa fasteignarinnar til skólpframkvæmda. Þvert á móti hafi kærði verið fenginn til að aðstoða kærendur í tengslum við húsfélagsmál og að í því hafi meðal annars falist að boða til og halda húsfund um margvíslegar framkvæmdir sem kærendur hefðu talið mikilvægt að ráðist yrði í. Sátt hafi náðst um mörg þessara atriði sem hafi verið árangur í sjálfu sér.

Með vísan til framangreinds gerir kærði kröfu um að kröfum kærenda verði hafnað og þeim þannig gert að greiða útgefinn reikning í heild sinni, þ.e. 225.060 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, eða 112.530 krónur hvorri um sig.

Niðurstaða

I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Eins og áður greinir tók kærði að sér hagsmunagæslu fyrir kærendur vegna húsfélagsmála í tengslum við fasteignir kærenda í fjöleignarhúsunum að D 99 – 101 í Reykjavík, sbr. umboð dags. 18. nóvember 2016. Þegar kærði kom að húsfélagsmálum þessum munu þegar hafa átt sér stað langvinnar og harðvítugar deilur á milli eigenda fasteigna í tilgreindum fjöleignarhúsum vegna ákvarðanatöku um framkvæmdir og viðhald fasteignanna.

Á grundvelli lögmannsstarfa kærða í þágu kærenda gaf kærði annars vegar út reikning þann 11. janúar 2017 að fjárhæð kr. 112.530 krónur með virðisaukaskatti til kæranda A og hins vegar reikning að sömu fjárhæð til kæranda B. Í báðum tilvikum var því lýst að um væri að ræða reikning vegna aðstoðar við húsfélagsmál og að um væri að ræða helming af heildarreikningi. Var tímafjöldi tilgreindur sem 5,50 vinnustundir í hvoru tilviki og að tímagjald væri 16.500 krónur án virðisaukaskatts. Þá liggur fyrir að kærði sendi tímaskýrslu til kærenda þann 6. apríl 2017, eða tæplega þremur mánuðum eftir útgáfu framangreindra reikninga. Kom fram í tímaskýrslunni að kærði hefði alls unnið í 11 klukkustundir í þágu kærenda vegna fasteigna þeirra að D 99 á tímabilinu frá 1. desember 2016 til og með 12. janúar 2017.

Ekki er ágreiningur um tímagjald en í samningi málsaðila um þóknun, dags. 18. nóvember 2016, var tiltekið að vinna kærða í þágu kærenda færi fram á grundvelli tímagjalds sem væri 16.500 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.

Fyrir liggur að kærði annaðist lögmannsstörf í þágu kærenda í samræmi við framangreint frá byrjun desembermánaðar 2016 og fram til 12. janúar 2017. Samkvæmt fyrirliggjandi skráningu í tímaskýrslu kærða, sem ekki hefur sætt sérstökum andmælum af hálfu kærenda, munu störf kærða meðal annars hafa falist í gerð fundarboðunar, mætingar á húsfund og eftirvinnslu eftir þann fund auk þess að annast samskipti við kærendur, lögmann gagnaðila og aðra þriðju aðila.

Eins og áður er lýst er ágreiningur á milli aðila um hvað nákvæmlega hafi falist í hagsmunagæslu kærða í þágu kærenda og hvaða verk kærði hafi samkvæmt því tekið að sér. Í málatilbúnaði kærenda er þannig vísað til þess að kærða hafi verið falið að halda húsfund í því skyni að fá skýra afstöðu í formi formlegrar neitunar frá öðrum eigendum viðkomandi fasteigna til framkvæmda við skólp- og frárennslislagnir þannig að unnt væri að ráðast í framkvæmdir á grundvelli 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Byggja kærendur á að þar sem fundargerðin hafi ekki verið unnin í samræmi við 64. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 hafi húsfundurinn ónýst. Eigi kærði því ekki heimtingu á greiðslu fyrir störf sín og beri því að fella niður útgefna reikninga vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kærenda.

Kærði hefur hins vegar um þetta efni vísað til þess að honum hafi verið falið að gæta hagsmuna kærenda vegna langvarandi deilu innan húsfélagsins og að í því hafi meðal annars falist að boða til og mæta með kærendum á húsfund. Hafi ætlunin þar verið að ræða um framkvæmdir af ýmsum toga og gera tilraun til að ná sáttum á milli íbúa um framkvæmdirnar. Störf kærða hafi hins vegar ekki falist í því að tryggja neikvæða afstöðu annarra íbúa fasteignanna til skólp- og frárennslisframkvæmda.

Að sama skapi er ágreiningur á milli aðila um lyktir þess húsfundar sem haldinn var þann 19. desember 2016. Hafa kærendur þannig vísað til þess að þegar liðið hafi á fundinn hafi kærði hætt að rita fundargerð og taka niður bókanir fundarmanna. Við lok fundar hafi allir fundarmenn enn verið viðstaddir en að kærði hafi slitið fundinum með þeim orðum að fundargerð yrði send fundarmönnum til leiðréttingar og undirritunar. Hafi fundargerðin því ekki verið lesin upp í lok fundar og hún undirrituð. Um þetta efni vísar kærði hins vegar til þess að hiti hafi hlaupið í fundarmenn þegar liðið hafi á fundinn. Hafi fundurinn leyst upp og aðrir íbúar fasteignarinnar yfirgefið fundinn án þess að tóm hefði gefist til þess að ganga endanlega frá og lesa upp fundargerð í samræmi við 3. mgr. 64. gr. laga nr. 26/1994.

Um hið fyrrnefnda ágreiningsefni er þess að gæta að í fyrirliggjandi umboði sem kærendur veittu kærða þann 18. nóvember 2016 var tiltekið að kærða væri veitt umboð til að gæta hagsmuna kærenda í tengslum við fasteignir í þeirra eigu. Verður þannig hvorki ráðið af tilgreindu umboði né öðrum gögnum málsins að kærða hafi verið sérstaklega falið að halda húsfund í því eina skyni að fá skýra afstöðu í formi formlegrar neitunar frá öðrum eigendum viðkomandi fasteigna til framkvæmda við skólp- og frárennslislagnir þannig að unnt væri að ráðast í framkvæmdir á grundvelli 38. gr. laga nr. 26/1994, eins og byggt er á í málatilbúnaði kærenda. Gegn andmælum kærða um þetta efni sem og með vísan til gagna málsins um að fyrirhugaðar og þarfar framkvæmdir vegna fasteignanna að D 99 – 101 hafi lotið að fleiri þáttum en skólp- og frárennslislögnum, sbr. m.a. húsfundarboð frá 5. desember 2016 sem kærði útbjó í þágu og að beiðni kærenda og var sent án athugasemda af þeirra hálfu, verður að áliti nefndarinnar að leggja til grundvallar að störf kærða í þágu kærenda hafi varðað ýmsar framkvæmdir og þannig ekki falist í því einu að tryggja neikvæða afstöðu annarra íbúa fasteignanna til skólp- og frárennslisframkvæmda.

Um hið síðarnefnda ágreiningsefni þá liggja engin gögn fyrir úrskurðarnefndinni um aðdraganda þess að húsfundi þeim sem haldinn var þann 19. desember 2016 var slitið. Hvað sem því líður og jafnvel þótt fallast mætti á að óhæfilegur dráttur hafi orðið hjá kærða á frágangi fundargerðar tilgreinds fundar og veitingu upplýsinga úr tímaskýrslu eftir að beiðni þar að lútandi kom frá kærendum, verður ekki fram hjá því litið að kærendur hafa í engu gert athugasemdir við tímaskráningu í vinnuskýrslu kærða eða fjárhæð þess endurgjalds sem kærði áskildi sér fyrir lögmannsstörf sín, enda á það sér stoð í samningi aðila um þóknun frá 18. nóvember 2016. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærði hafi innt þá vinnu af hendi sem lýst er í tímaskýrslu aðilans.

Þótt ágreiningur sé um hvort gæði lögmannsstarfa kærða í þágu kærenda hafi verið forsvaranleg er það mat nefndarinnar að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, þ. á m. tímaskýrslu kærða sem virðist greinargóð um það sem gert var hverju sinni og ekki úr hófi sem og samningi aðila um þóknun frá 18. nóvember 2016, að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærða í þágu kærenda sé 225.060 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna starfa sinna í þágu kærenda var hæfileg. Samkvæmt því er kröfu kærenda, um að útgefnir reikningar vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kærenda verði felldir niður, hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun kærða, C lögmanns, vegna starfa hans í þágu kærenda, A og B, felur í sér hæfilegt endurgjald.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Hjördís E. Harðardóttir lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson