Mál 30 2017

Ár 2018, 30. janúar 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2017:

A,

gegn

B

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 26. september 2017 erindi kæranda, A, til heimilis að L 157, Reykjavík, en í því er kvartað yfir því að kærði, B lögmaður með leyfi til að flytja mál fyrir Hæstarétti, með starfsstöð að B, Reykjavík, hafi brotið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 26. september 2017, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar.

Greinargerð kærða barst þann 17. október 2017 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann 19. sama mánaðar. Hinn 26. október 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 27. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fyrir úrskurðarnefnd mun kærandi hafa leitað til kærða í aprílmánuði 2017 vegna samskipta við heilbrigðiseftirlitið í tengslum við fasteign kæranda að L 157 en leigutaki í kjallaraíbúð viðkomandi fasteignar mun hafa kvartað yfir meintum rottugangi í eigninni. Tók kærði að sér hagsmunagæslu vegna málsins í þágu kæranda sem mun einkum hafa falist í samskiptum við heilbrigðiseftirlitið, viðkomandi leigutaka sem og kæranda sjálfan.

Samkvæmt gögnum málsins mun einn reikningur hafa verið gefinn út af lögmannsstofu kærða vegna ofangreindra lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur nr. 1264 þann 3. maí 2017 að fjárhæð 127.260 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu, sem mun hafa fylgt með reikningnum og liggur fyrir úrskurðarnefndinni, var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða á tímabilinu frá 3. apríl 2017 til og með 24. sama mánaðar, alls 4,5 klukkustundir, í tengslum við hagsmunagæslu vegna fasteignarinnar að L 157. Var útselt tímagjald að fjárhæð 22.000 krónur auk virðisaukaskatts og útlagður kostnaður að fjárhæð 4.500 krónur.

Ágreiningslaust er að kærandi greiddi ofangreindan reikning vegna lögmannsstarfa kærða án athugasemda þann 9. maí 2017.

Ágreiningur er hins vegar á milli aðila um það hvort kærði hafi tekið að sér frekari hagsmunagæslu fyrir og í þágu kæranda eftir greiðslu reiknings nr. 1264, sem áður er lýst. Þannig liggur fyrir reikningur nr. 1348 útgefinn af lögmannsstofu kærða til kæranda, dags. 9. ágúst 2017, að fjárhæð 54.560 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða á tímabilinu frá 5. júlí 2017 til og með 25. sama mánaðar, alls 2 klukkustundir, þ.e. einkum vegna samskipta við tollstjóra annars vegar og samskipta vegna bílastæðamála hins vegar. Var útselt tímagjald samkvæmt reikningnum að sömu fjárhæð og áður greinir.

Samkvæmt málatilbúnaði kæranda mun aðilinn hafa talið sér óskylt að greiða reikninginn þar sem ekki hafi verið óskað eftir þeirri vinnu sem reikningurinn hafi tekið til. Fyrir nefndinni liggur fyrir ábending viðskiptabanka til kæranda um ógreiddan greiðsluseðil, dags. 12. september 2017, þ.e. vegna tilgreinds reiknings sem gefinn hafði verið út af lögmannsstofu kærða. Lýtur ágreiningur aðila fyrir nefndinni því að ofangreindum reikningi nr. 1348 sem lögmannsstofa kærða gaf út til kæranda þann 9. ágúst 2017 sem ekki hefur verið greiddur.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni þannig að þess sé krafist að útgefinn reikningur lögmannsstofu kærða nr. 1348 frá 9. ágúst 2017 verði felldur niður og að kærða verði gert að endurgreiða kæranda 65.000 krónur vegna ofgreiddrar þóknunar.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að hún lúti að reikningsgerð fyrir þjónustu sem ekki hafi verið beðið um, sbr. reikning kærða frá 9. ágúst 2017.

Kveðst kærandi einungis hafa óskað eftir þjónustu kærða vegna samskipta kæranda við heilbrigðisfulltrúa. Vísar kærandi til þess að leigutaki hjá honum hafi kvartað yfir því að rottugangur væri í fasteigninni að L 157 í Reykjavík. Það hafi reynst vera rangt eða á misskilningi byggt. Eftir ábendingu heilbrigðiseftirlitsins hafi kærandi sett sig í samband við kærða vegna málsins. Hafi kærandi greitt kærða uppsettan reikning við lok málsins.

Vísar kærandi til þess að kærði hafi sent annan reikning, dags. 9. ágúst 2017, vegna hluta sem ekki hefði verið beðið um. Er þess óskað í kvörtun kæranda að kærði verði fenginn til að draga tilgreindan reikning til baka.

Þá vísar kærandi til þess að hann hafi greitt kærða með reiðufé alls 65.000 krónur í septembermánuði 2017.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða var annars vegar á því byggt að kærði færi með ósannindi um að hann hefði ekki móttekið tvær greiðslur í reiðufé frá kæranda í septembermánuði 2017. Kveðst kærandi ekki hafa nein vitni að umræddum ráðstöfunum en að kærði hafi komið í tvígang á heimili kæranda og innheimt sjálfur peningana. Hins vegar vísaði kærandi til þess í viðbótarathugasemdum sínum að hann hefði aldrei beðið kærða um að kanna nokkra endurálagningu skatta eða sekt við bílastæðasjóð. Bendir kærandi á að kærði hafi ekki lagt fram nokkur bréf eða endurálagningarseðil til sönnunar um vinnu sína. Slíkt hið sama eigi við um bílastæðasjóð en kærandi kveðst ekki muna eftir því að hafa beðið um aðstoð kærða í því tilviki. Kveðst kærandi hafa greitt sektina og með því hafi málinu verið lokið.

Með vísan til alls ofangreinds krefst kærandi þess að útgefinn reikningur lögmannsstofu kærða nr. 1348 frá 9. ágúst 2017 verði felldur niður og að kærða verði gert að endurgreiða kæranda 65.000 krónur vegna ofgreiddrar þóknunar.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni þannig að þess sé krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði kveður það í fyrsta lagi alrangt að kærandi hafi nokkru sinni greitt kærða fyrir lögmannsstörf í peningum. Kveðst kærði aldrei hafa tekið á móti reiðufé frá kæranda sem hann hafi ekki hitt frá ágústmánuði sl. Samkvæmt því vísar kærði til þess að það sé hugarburður hjá kæranda að hann hafi hitt kærða í september og móttekið frá honum fjármuni.

Í öðru lagi vísar kærði til þess að hinn umþrætti reikningur sé vegna þjónustu sem óskað hafi verið eftir og kærði hafi veitt. Ekki séu til tölvupóstsamskipti vegna þeirrar vinnu sem reikningurinn sé grundvallaður á sem helgist af því að kærandi noti ekki tölvupóst. Bendir kærði á að áður en umræddur reikningur hafi verið sendur hafi kærandi greitt reikning án athugasemda vegna máls sem hafi varðað kjallaraíbúð í eigu kæranda við L í Reykjavík, þ.m.t. samskipti við heilbrigðiseftirlitið og leigutaka.

Vísar kærði til þess að vinna að baki hinum umþrætta reikningi hafi verið vegna tveggja verkefna sem bæði hafi verið smá í sniðum. Annars vegar hafi verið um að ræða samskipti við embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra vegna endurálagningar skatta á kæranda. Hafi kærandi komið á skrifstofu kærða með álagningarseðil og óskað eftir því að kærði hefði milligöngu um að fá upplýsingar frá skattayfirvöldum um röksemdir að baki endurálagningunni. Kveðst kærði hafa innt þá vinnu af hendi og leiðbeint kæranda með framhald málsins. Hins vegar hafi verið um að ræða samskipti við bílastæðasjóð Reykjavíkur vegna sektar. Vísar kærði til þess að kærandi hafi verið mjög ósáttur við sektina og að hann hafi falið kærða að kanna réttarstöðu sína. Hafi kærði gert það og greint kæranda frá niðurstöðu sinni sem hafi falið í sér að erfitt yrði að fá sektinni hnekkt. Með því hafi aðkomu kærða að málinu lokið.

Með vísan til ofangreinds byggir kærði á að kvörtun kæranda sé án alls tilefnis enda kveður kærði að það segi sig sjálft að hann hefði ekki að eigin frumkvæði og án beiðni frá kæranda tekið að sér óumbeðna hagsmunagæslu sem falist hafi í samskiptum við opinbera aðila. Samkvæmt því beri að hafna kröfum kæranda í málinu.

 

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Eins og áður greinir leitaði kærandi til kærða í aprílmánuði 2017 vegna samskipta við heilbrigðiseftirlitið í tengslum við nánar tilgreinda fasteign í eigu kæranda. Fyrir liggur að kærði tók að sér hagsmunagæslu vegna þess máls í þágu kæranda, sem var lokið í þeim sama mánuði. Þá er ágreiningslaust að gefinn var út reikningur vegna starfans þann 3. maí 2017 að fjárhæð 127.260 krónur með virðisaukaskatti og að kærandi greiddi þann reikning án athugasemda þann 9. sama mánaðar. Ekki er ágreiningur á milli málsaðila um þennan þátt í störfum kærða í þágu kæranda.

Ágreiningur er hins vegar á milli aðila um það hvort kærði hafi tekið að sér frekari hagsmunagæslu fyrir og í þágu kæranda eftir aprílmánuð 2017. Fyrir liggur að gefinn var út reikningur af lögmannsstofu kærða til kæranda þann 9. ágúst 2017 að fjárhæð 54.560 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu, sem fylgdi reikningnum, var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða á tímabilinu frá 5. júlí 2017 til og með 25. sama mánaðar, alls 2 klukkustundir, þ.e. einkum vegna samskipta við tollstjóra annars vegar og samskipta vegna bílastæðamála hins vegar. Var útselt tímagjald samkvæmt reikningnum að fjárhæð 22.000 krónur auk virðisaukaskatts sem var sama tímagjald og lagt hafði verið til grundvallar í fyrri störfum kærða í þágu kæranda.

Í málinu krefst kærandi þess annars vegar að útgefinn reikningur lögmannsstofu kærða nr. 1348 frá 9. ágúst 2017 verði felldur niður. Byggir aðilinn á því að viðkomandi reikningur lúti að þjónustu sem ekki hafi verið beðið um. Kveðst kærandi þannig hvorki hafa beðið kærða um að kanna nokkuð varðandi endurálagningu skatta né varðandi sekt við bílastæðasjóð. Bendir aðilinn á að kærði hafi ekki lagt fram nokkur bréf eða endurálagningarseðil til sönnunar um vinnu sínu auk þess sem hann minnist þess ekki hafa að hafa beðið um aðstoð kærða vegna sektarinnar sem hann hafi greitt til að ljúka málinu.

Kærði hefur hins vegar vísað til þess að hinn umþrætti reikningur hafi verið vegna þjónustu kærða sem kærandi hafi óskað eftir. Þar sem kærandi noti ekki tölvupóst séu hins vegar ekki til tölvupóstsamskipti vegna þeirra vinnu sem reikningurinn sé grundvallaður á. Hafi reikningurinn verið tilkominn vegna tveggja verkefna sem bæði hafi verið smá í sniðum. Þannig hafi annars vegar verið um að ræða samskipti við embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra vegna endurálagningar skatta á kæranda en kærandi hafi komið með álagningarseðil til kærða og óskað eftir að hann hefði milligöngu um að fá upplýsingar frá skattayfirvöldum um röksemdir að baki endurálagningunni. Hafi kærði sinnt því og leiðbeint kæranda með framhald málsins. Hins vegar hafi kærði sinnt samskiptum fyrir kæranda við bílastæðasjóð Reykjavíkur vegna sektar og kannað réttarstöðu hans. Kveðst kærði hafa upplýst kæranda um niðurstöðu sína um að erfitt yrði að fá sektinni hnekkt og að með því hafi aðkomu hans að málinu verið lokið.

Ekki liggja fyrir skjalleg gögn um þá vinnu sem hinn umþrætti reikningur tekur til en kærandi hefur ekki mótmælt þeirri staðhæfingu kærða að hann notist ekki við tölvupóst og að af þeim sökum hafi málsaðilar átt í munnlegum samskiptum sín á milli. Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu, sem fylgdi með reikningnum, var annars vegar um að ræða lögmannsstörf kærða í þágu kæranda dagana 5. og 6. júlí 2017, alls ein klukkustund, sem fólu í sér samskipti við tollstjóra, símtöl og fleira. Hins vegar var um að ræða lögmannsstörf í eina klukkustund hinn 25. júlí 2017 vegna samskipta og fleira í tengslum við bílastæðamál eins og því var lýst í tímaskýrslu kærða. Kærandi hefur hvorki borið því fyrir nefndinni að hann hafi ekki sætt endurálagningu skatta né að hann hafi staðið í sektarmálum við bílastæðasjóð Reykjavíkur í júlímánuði 2017. Þvert á móti hefur kærandi vísaði til þess að hann hafi greitt viðkomandi sekt við bílastæðasjóð og að málinu hafi þar með verið lokið. Að áliti nefndarinnar verður að leggja til grundvallar að kærði hafi tekið að sér skoðun og að annast samskipti fyrir hönd kæranda vegna þeirra mála sem hinn umþrætti reikningur frá 9. ágúst 2017 tekur til. Er þá höfð hliðsjón af því að hafi kærandi ekki leitað til kærða um þetta efni hafi hinum síðarnefnda í engu mátt vera ljóst að kærandi stæði í slíkum málarekstri. Með vísan til þess verður að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að kærði hafi innt þá vinnu af hendi sem reikningurinn tekur til samkvæmt beiðni kæranda.

Er það mat nefndarinnar, að virtum þeim gögnum sem þó hafa verið lögð fram í málinu, að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda hafi verið hæfileg. Hefur þá verið tekið tillit til þess að tímagjald samkvæmt hinum umþrætta reikningi, að fjárhæð 22.000 krónur auk virðisaukaskatts, var hið sama og lagt hafði verið til grundvallar áður í viðskiptasambandi aðila, sbr. reikning lögmannsstofu kærða til kæranda nr. 1264 frá 3. maí 2017 sem kærandi greiddi athugasemdalaust þann 9. sama mánaðar. Samkvæmt því er kröfu kæranda, um að útgefinn reikningur lögmannsstofu kærða nr. 1348 frá 9. ágúst 2017 verði felldur niður, hafnað.

Ágreiningur er hins vegar á milli aðila um það hvort kærandi hafi greitt kærða með reiðufé alls 65.000 krónur í septembermánuði 2017 en kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að endurgreiða aðilanum þá fjárhæð á þeim grundvelli að um ofgreidda þóknun sé að ræða. Engra gagna nýtur við um þetta efni fyrir nefndinni. Gegn andmælum kærða um þetta efni, sem kveðst aldrei hafa tekið á móti reiðufé frá kæranda sem greiðslu fyrir lögmannsstörf, er ósannað að mati nefndarinnar að kærandi hafi innt af hendi peningagreiðslur til kærða í septembermánuði 2017. Samkvæmt því eru ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um endurgreiðslu í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald. Endurgreiðslukröfu kæranda er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson