Mál 37 2017

Ár 2018, 28. febrúar 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2017:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. desember 2017 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærði, B lögmaður með leyfi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 7. desember 2017 og barst hún þann 11. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 13. desember 2017. Engar frekari athugasemdir voru gerðar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi hafa sætt nauðungarvistun á bráðageðdeild Landspítalans vegna örlyndis í allt að 72 klukkustundir á tímabilinu frá x. október 2017 til x. sama mánaðar. Mun kærandi þar hafa fengið afhent upplýsingarbréf fyrir nauðungarvistaðan einstakling þar sem því var meðal annars lýst að nauðungarvistun gæti lokið fyrr ef læknir teldi ekki lengur þörf á slíkri vistun. Þá var eftirfarandi tiltekið í bréfinu varðandi rétt nauðungarvistaðs einstaklings:

Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 átt þú rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings sérstaks ráðgjafa. Þú átt rétt á að ræða við ráðgjafann einslega um hvaðeina sem varðar nauðungarvistunina og hafa samband við hann reglulega nema ástandi þitt sé þannig háttað að það hafi enga þýðingu. Þú hefur rétt til að bera ákvörðun um nauðungarvistun eða meðferð undir dómstóla. Ráðgjafi nauðungarvistaðs einstaklings hefur heimild til að skoða sjúkraskrá hans og er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um. Þóknun ráðgjafa greiðist úr ríkissjóði.“

Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu tók ákvörðun þann x. október 2017 um áframhaldandi nauðungarvistun kæranda á sjúkrahúsi. Fyrir liggur að kærandi undirritaði þann sama dag kröfu vegna nauðungarvistunar sem skyldi beint til Héraðsdóms Y. Með kröfunni fór kærandi, sem var vistaður nauðugur á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1991 á bráðageðdeild Landspítalans, fram á að héraðsdómur felldi úr gildi samþykki sýslumanns til nauðungarvistunarinnar. Var því lýst að kærandi byggði kröfuna á 1. mgr. 30. gr. laga nr. 71/1991 og að ástæður fyrir kröfunni væru þær að kærandi teldi að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laganna væru ekki fyrir hendi. Þá var tiltekið í kröfunni að kærandi óskaði þess með vísan til 3. mgr. 30. gr. laga nr. 71/1997 að kærði yrði skipaður talsmaður hans, sbr. 3. mgr. 31. gr. laganna.

Ofangreindri kröfu mun hafa verið beint til Héraðsdóms Y eins og áður er lýst og fékk málið, kærandi gegn Velferðarsviði Kópavogs, þar málsnúmerið L-xx/2017. Þann 30. október 2017 móttók kærði, sem talsmaður kæranda, boðun frá Héraðsdómi Y til fyrirtöku í málinu sem fyrirhuguð var þann x. nóvember sama ár. Samkvæmt endurriti úr þingbók málsins fóru fram vitnaleiðslur í umræddri fyrirtöku auk þess sem kærða og lögmanni varnaraðila var gefinn kostur á að tjá sig stuttlega um kröfuna. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá x. október 2017 um að kærandi skyldi vistaður á sjúkrahúsi. Þá var tiltekið í úrskurðarorði að þóknun kærða, að fjárhæð 148.800 krónur, skyldi greidd úr ríkissjóði.

Kærandi skaut málinu til Hæstaréttar með kæru x. nóvember 2017 þar sem þess var krafist að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi. Þá var krafist þóknunar til handa talsmanni kæranda, þ.e. kærða í þessu máli, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Með dómi Hæstaréttar x. nóvember 2017 í máli nr. xxx/2017 var hinn kærði úrskurður staðfestur auk þess sem tiltekið var að þóknun kærða fyrir Hæstarétti, að fjárhæð 124.000 krónur með virðisaukaskatti, skyldi greidd úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Þann 14. nóvember 2017 sendi kærði tölvubréf til framkvæmdastjóra C þar sem því var lýst að kærði hefði verið skipaður talsmaður í nauðungarvistunarmáli sem hefði verið rekið bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Tiltók kærði að sú þóknun sem honum hefði verið úrskurðuð í héraði og dæmd í Hæstarétti hefði verið töluvert undir því sem hann hefði krafist og óskaði upplýsinga um hvort eitthvað kæmi í veg fyrir að hann gæti krafið skjólstæðing sinn um það sem út af stæði. Framkvæmdastjórinn tiltók í svari sínu þann sama dag að honum væri ekki alveg kunnugt um hvernig þetta væri í nauðungarvistunarmálum en að mögulega gæti verið snúið að ná í viðbótina enda tæpast samningssamband á milli aðila nema óskað hafi verið sérstaklega eftir að kærði tæki málið. Í slíku tilviki gæti kærði hugsanlega krafið hlutaðeigandi um mismun tímagjalds annars vegar og þess sem ákvarðað hefði verið af dómstólum hins vegar.

Með reikningi kærða nr. 682, dags. 14. nóvember 2017, var kærandi krafinn um greiðslu að fjárhæð 325.318 krónur með virðisaukaskatti vegna lögræðismálsins. Samkvæmt tímaskýrslu, sem mun hafa fylgt reikningnum, var tiltekið að kærði hefði alls unnið í 20,50 klukkustundir að málinu og að útselt tímagjald væri að fjárhæð 22.900 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var tiltekið að útlagður kostnaður kærða vegna aksturs væri að heildarfjárhæð 16.000 krónur. Samkvæmt því var heildarfjárhæð kröfu vegna lögfræðiþjónustu kærða í þágu kæranda 598.118 krónur en samkvæmt hinum útgefna reikningi komu til frádráttar úrskurðuð þóknun í héraðsdómi og dæmd þóknun í Hæstarétti, alls að fjárhæð 272.800 með virðisaukaskatti eins og áður er lýst. Samkvæmt því krafðist kærði þess með reikningnum að kærandi greiddi sér 325.318 krónur með virðisaukaskatti vegna starfans.

Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kæranda eftir þennan tíma. Þá mun kærandi hafa talið sér óskylt að greiða ofangreindan reikning kærða.

II.

Kærandi krefst þess annars vegar að úrskurðað verði að kærði eigi ekki kröfu á kæranda samkvæmt reikningi nr. 682 sem gefinn var út þann 14. nóvember 2017 að fjárhæð 325.318 krónur, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá krefst kærandi þess hins vegar að kærði verði áminntur fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Í kvörtuninni vísar kærandi til þess að kærði krefji sig um þóknun án þess að skilyrði séu til þess eða nokkurt samningssamband á milli aðila um slíkt.

Kærandi bendir á að hann hafi verið nauðungarvistaður á geðdeild eins og gögn málsins beri með sér. Kveður kærandi að kærði hafi verið beðinn um að koma og ræða við sig um rétt sinn sem hann hafi gert. Í kjölfar þess hafi kærði ákveðið að aðstoða kæranda við að kæra úrskurð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um nauðungarvistun.

Kærandi kveðst áður hafa fengið bréf frá hjúkrunarfræðingi þar sem fram hafi komið að þóknun þess sem myndi aðstoða kæranda yrði greidd úr ríkissjóði. Byggir kærandi á að kærði hafi fengið greitt fyrir störf sín og að kærði hafi engan réttargrundvöll til að gera viðbótarkröfu á sig.

Kærandi byggir á að kærði hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi reynt að telja sér trú um að greiða bæri reikninginn þótt hann hafi vitað að fyrir reikningnum væri enginn grundvöllur. Telur kærandi að þeir sem stundi slíkt háttalag eigi ekki að fá að vera í lögmennsku. Í ljósi meðalhófsreglunnar kveðst kærandi þó gefa sér að kærða verði gefinn kostur á að taka upp nýtt háttalag og því verði áminning látin duga.

Kærandi bendir á að með háttsemi sinni hafi kærði ekki gætt heiðurs stéttarinnar í skilningi 2. gr. siðareglna lögmanna. Þá telur kærandi að skoða verði önnur ákvæði siðareglnanna. Vísar kærandi til þess að úrskurðarnefndin hafi vald til að úrskurða um hvers kyns brot lögmanna á lögum eða réttindum fólks sem tengjast störfum þeirra. Telur kærandi að kærði hafi reynt að fá sig með blekkingum til að greiða sér umtalsverða fjárhæð án skyldu. Vísar kærandi um það efni meðal annars til 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem og til sambærilegs ákvæðis í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þótt það sé ekki hlutverk nefndarinnar að meta hvort háttsemi sé refsiverð beri nefndinni allt að einu að mati kæranda að skoða ákvæði hegningarlaga sem annarra laga til að meta lögmætið, einkaréttarlega.

Með vísan til alls framangreinds krefst kærandi þess að úrskurðað verði að kærði eigi ekki kröfu á kæranda samkvæmt reikningi nr. 682 sem gefinn var út þann 14. nóvember 2017 að fjárhæð 325.318 krónur og að kærði sæti áminningu.

 

III.

Kærði krefst þess í fyrsta lagi að úrskurðað verði að endurgjald það, sem gerð sé krafa um greiðslu á vegna starfa í þágu kæranda, sé eðlilegt í samræmi við umfang málsins og að háttsemi kærða hafi ekki brotið á nokkurn hátt gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Í öðru lagi krefst kærði þess að úrskurðað verði að kæranda beri að greiða kærða skuld að fjárhæð 325.318 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 14. nóvember 2017 til greiðsludags, auk vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga. Þá krefst kærði í þriðja lagi málskostnaðar úr hendi kæranda, þ.m.t. virðisaukaskatts, að mati úrskurðarnefndarinnar.

Kærði vísar til þess að hann hafi fengið tölvubréf frá starfsmanni Héraðsdóms Y þann 30. október 2017 með boðun í þinghald vegna nauðungarvistunarmáls kæranda. Kveðst kærði fram að þeim tíma ekki hafa átt í neinum samskiptum við kæranda sem hann hafi ekki þekkt til. Þegar leitað hafi verið eftir svörum frá héraðsdómi hafi komið á daginn að kærandi hefði óskað sérstaklega eftir því að kærði tæki að sér sókn málsins þar sem Velferðarsvið Kópavogs var til varnar. Í kjölfar þess kveðst kærði hafa sótt gögn málsins og haft samband við kæranda þar sem hann hafi verið vistaður á geðdeild Landspítalans, þann 30. október 2017.

Kærði kveðst hafa upplýst kæranda í símtali þennan sama dag að hans sérsvið væri ekki lögræðismál en væri þess óskað sérstaklega væri hægt að halda uppi sókn málsins. Kveðst kærði hafa upplýst kæranda um að hann innheimti 22.900 krónur í tímagjald auk virðisaukaskatts sem er í samræmi við upplýsingar sem birtar eru á vefsíðu kærða sem liggja fyrir nefndinni. Kveður kærði að kærandi hafi jafnframt verið upplýstur um það að hluti þessa kostnaðar félli á ríkið í samræmi við 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 en að það sem ekki fengist úrskurðað eða dæmt af dómstólum yrði hann að greiða kærða sjálfur. Byggir kærði á að kærandi hafi fallist á þetta og óskað eftir því að kærði hæfist handa við vinnu í málinu.

Kærði vísar til þess að hann hafi hafið vinnu við málið þann 31. október 2017 þar sem ráðist hafi verið í dómarannsókn og könnuð fordæmi í sambærilegum málum. Þá hafi kærði gert sér ferð á geðdeild til að hitta kæranda, fara yfir málatilbúnað og þá möguleika sem voru í stöðunni. Kveðst kærði hafa upplýst kæranda um að erfitt væri að verjast í málum af þessum toga og því óskynsamlegt að eyða miklu púðri í að verjast. Kærandi hafi hins vegar verið á öndverðum meiði og krafist þess að kærði setti eins mikinn tíma í málið og frekast væri unnt, óháð mögulegum kostnaði, í þeirri von að hrinda mætti kröfu Velferðarsviðs Kópavogs.

Í kjölfar þess fundar kveðst kærði hafa ritað ræðu sem notuð hafi verið í fyrirtöku málsins þann x. nóvember 2017 sem hann hafi svo flutt þann x. sama mánaðar. Vísar kærði til þess að kröfum kæranda hafi verið hrundið fyrir Héraðsdómi Y og að kærandi hafi falið honum að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar. Þá hafi niðurstaða Hæstaréttar legið fyrir þann x. nóvember 2017.

Kærði vísar til þess að sú vinna sem sannanlega hafi verið unnin hafi verið skráð nokkuð ítarlega í tímaskýrslur. Óátalinn sé þó allur sá tími sem hafi farið í endalaus samskipti við kæranda sem hringt hafi viðstöðulaust í kærða.

Kærði vísar til þess að í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar hafi legið fyrir að sú þóknun sem kærða hafði verið úrskurðuð og dæmd hafi verið töluvert undir þeirri vinnu sem sannanlega hafði verið unnin. Til þess að tryggja réttan skilning kveðst kærði hafa leitað til framkvæmdastjóra C til að kanna hvort hann teldi að kærða væri heimilt að innheimta kostnað umfram það sem ákvarðað hefði verið af dómstólum. Kveður kærði að skilningur framkvæmdastjórans hafi verið svo þar sem kærandi hefði sérstaklega óskað eftir því að kærði tæki að sér mál hennar.

Í kjölfar þessa kveðst kærði hafa gefið út reikning til kæranda sem ekki hefur enn fengist greiddur. Með vísan til 1. mgr. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna gerir kærði kröfu um að úrskurðarnefndin úrskurði með þeim hætti sem vísað er til í kröfugerð aðilans.

Kærði vísar til þess að krafa hans byggi á nákvæmum tímaskýrslum þar sem útlistað sé hvaða verkefni voru unnin í þágu kæranda. Er á það bent að kærandi hafi óskað sérstaklega eftir að kærði tæki að sér mál hans og byggir kærði á að með því hafi stofnast beint samnings- og kröfuréttarsamband á milli aðila.

Kærði vísar til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilegt tímagjald fyrir störf sín. Er ítrekað af hálfu aðilans að ósk um störf kærða hafi komið frá kæranda sjálfum. Þá hafi kærði gert kæranda ljóst að sá kostnaður, sem ekki fengist greiddur af ríkissjóði, myndi falla á kæranda. Byggir kærði á að kærandi hafi ekki gert athugasemdir við það.

Um kröfur sínar fyrir nefndinni vísar kærði jafnframt til meginreglu kröfu- og samningaréttarins um efndir fjárskuldbindinga, sbr. m.a. 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til 49. gr. tilgreindra laga. Kröfur um dráttarvexti styður kærði við III. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá styður kærði kröfu um málskostnað við 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Niðurstaða

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða og í öðru lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum.

I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Fyrir liggur að kærandi, sem var vistaður nauðugur á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 á bráðageðdeild Landspítalans, undirritaði kröfu vegna nauðungarvistunarinnar þann 22. október 2017 sem skyldi beint til Héraðsdóms Y. Með kröfunni fór kærandi fram á að héraðsdómur felldi úr gildi samþykki sýslumanns til nauðungarvistunarinnar. Var því lýst að kærandi byggði kröfuna á 1. mgr. 30. gr. laga nr. 71/1991 og að ástæður fyrir kröfunni væru þær að kærandi teldi að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laganna væru ekki fyrir hendi. Þá var tiltekið í kröfunni að kærandi óskaði þess með vísan til 3. mgr. 30. gr. laga nr. 71/1997 að kærði yrði skipaður talsmaður hans, sbr. 3. mgr. 31. gr. laganna.

Þá liggur fyrir að kærði var skipaður talsmaður kæranda fyrir dómstólum og fór kærði með mál kæranda bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Með úrskurði Héraðsdóms Y x. nóvember 2017 var staðfest ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá x. október 2017 um að kærandi skyldi vistaður á sjúkrahúsi en þóknun kærða, sem skipaðs talsmanns kæranda, var þar ákveðin að fjárhæð 148.800 krónur og tiltekið að hún skyldi greidd úr ríkissjóði. Með dómi Hæstaréttar x. nóvember 2017 í máli nr. xxx/2017 var hinn kærði úrskurður staðfestur auk þess sem tiltekið var að þóknun kærða fyrir Hæstarétti, að fjárhæð 124.000 krónur með virðisaukaskatti, skyldi greidd úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Ágreiningur í máli þessu lýtur einkum að reikningi kærða nr. 682, dags. 14. nóvember 2017, en með reikningnum var kærandi krafinn um greiðslu að fjárhæð 325.318 krónur með virðisaukaskatti vegna starfa kærða við lögræðismálið. Samkvæmt tímaskýrslu, sem mun hafa fylgt reikningnum, var tiltekið að kærði hefði alls unnið í 20,50 klukkustundir að málinu og að útselt tímagjald væri að fjárhæð 22.900 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var tiltekið að útlagður kostnaður kærða vegna aksturs væri að heildarfjárhæð 16.000 krónur. Samkvæmt því var heildarfjárhæð kröfu vegna lögfræðiþjónustu kærða í þágu kæranda 598.118 krónur en samkvæmt hinum útgefna reikningi kom til frádráttar úrskurðuð þóknun í héraðsdómi og dæmd þóknun í Hæstarétti, alls að fjárhæð 272.800 með virðisaukaskatti eins og nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Samkvæmt því krafðist kærði þess með reikningnum að kærandi greiddi sér 325.318 krónur með virðisaukaskatti vegna starfans.

Ekkert liggur fyrir um það í gögnum málsins að samkomulag hafi komist á milli málsaðila um að kærandi myndi greiða eða ábyrgjast greiðslu þóknunar kærða vegna starfa hans sem skipaðs talsmanns kæranda í lögræðismálinu líkt og kærði byggir á í málinu. Þvert á móti liggur fyrir að kærandi óskaði eftir með vísan til 3. mgr. 30. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 að kærði yrði skipaður talsmaður sinn, sbr. 1. mgr. 31. gr. laganna. Um  rétt kærða til þóknunar vegna starfans fór því alfarið samkvæmt lögum nr. 71/1997. Samkvæmt því stoðar hvorki fyrir kærða að mati nefndarinnar að bera því við að tímagjald aðilans sé að fjárhæð 22.900 krónur auk virðisaukaskatts eins og útlistað sé á vefsíðu hans né að hann hafi beint fyrirspurn um þetta efni til framkvæmdastjóra C áður en til útgáfu hins umþrætta reiknings kom. Skal um það efni jafnframt á það bent að í svari framkvæmdastjórans, sem ekki þekkti til atvika að baki málinu, var sérstaklega tiltekið að snúið gæti verið að innheimta mismuninn hjá skjólstæðingnum þar sem tæpast væri samningssamband á milli aðila.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er þeim sem vistaður hefur verið nauðugur á sjúkrahúsi samkvæmt 2. eða 3. mgr. 19. gr. heimilt að bera þá ákvörðun um nauðungarvistunina undir dómstóla. Í 3. mgr. 30. gr. sömu laga er tiltekið að krafa skuli vera skrifleg og beint til viðkomandi dómstóls. Í kröfunni skal koma fram hvort óskað er skipunar ákveðins talsmanns og ef svo er hver það eigi að vera. Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 71/1997 skal dómari taka kröfuna fyrir án tafar og skipar hann þeim er kröfu ber fram talsmann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála um verjendur. Þá er tiltekið í 1. mgr. 17. gr. laganna að þóknun skipaðs verjanda, skipaðs talsmanns sóknaraðila og annan málskostnað, þar með talinn kostnað við öflun læknisvottorða og annarra sérfræðiskýrslna, skuli greiða úr ríkissjóði.

Eins og áður greinir var kröfum kæranda hafnað í héraði og fyrir Hæstarétti en samkvæmt úrskurðar- og dómsorði skyldi þóknun kærða, sem skipaðs talsmanns kæranda, greidd úr ríkissjóði. Þá liggur fyrir að hinn umþrætti reikningur kærða á hendur kæranda, dags. 14. nóvember 2017 að fjárhæð 325.318 krónur með virðisaukaskatti, er tilkominn vegna meintrar ógreiddrar þóknunar vegna starfa kærða sem skipaðs talsmanns kæranda samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997, þ.e. fjárhæð reikningsins er mismunur á ákvarðaðri þóknun af dómstólum annars vegar og þeirri þóknun sem kærði áskildi sér á grundvelli tímaskýrslu hins vegar.

Að áliti nefndarinnar var hvorki lögbundin né samningsbundin stoð fyrir hinum umþrætta reikningi sem kærði gaf út á hendur kæranda þann 14. nóvember 2017. Fyrir liggur að þóknun kærða vegna starfa hans sem skipaðs talsmanns kæranda var ákvörðuð af dómstólum í samræmi við ákvæði lögræðislaga nr. 71/1997 og greiddist sú þóknun úr ríkissjóði. Þá var engu samningssambandi til að dreifa á milli aðila þessa máls um greiðslu þóknunar umfram það sem kveðið væri á um í tilgreindum lögum. Samkvæmt því átti kærði enga frekari heimtingu til greiðslu þóknunar en tiltekið hafði verið í úrskurði Héraðsdóms Y x. nóvember 2017 og dómi Hæstaréttar x. sama mánaðar, sem áður er lýst. Eru því ekki efni til annars en að fallast á með kæranda að kærði eigi ekki rétt til umkrafinnar þóknunar úr hendi kæranda samkvæmt reikningi nr. 682, dags. 14. nóvember 2017, með þeim hætti sem kveðið er á um í úrskurðarorði. Samkvæmt því er kröfu kærða, um að úrskurðað verði að kæranda beri að greiða kærða skuld að fjárhæð 325.318 krónur með dráttarvöxtum, hafnað.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Þá er tiltekið í 2. gr. siðareglna lögmanna að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Þóknun kærða vegna starfa hans sem skipaðs talsmanns kæranda var ákvörðuð af dómstólum í samræmi við ákvæði lögræðislaga nr. 71/1997 og greiddist sú þóknun úr ríkissjóði.  Eins og áður greinir er það álit nefndarinnar að engu samningssambandi hafi verið til að dreifa á milli aðila þessa máls um greiðslu þóknunar umfram það sem kveðið er á um í tilgreindum lögum. Með vísan til þess lagði nefndin til grundvallar að kærði hefði ekki átt frekari heimtingu  til greiðslu þóknunar en tiltekið hafði verið í úrskurði Héraðsdóms Y x. nóvember 2017 og dómi Hæstaréttar x. sama mánaðar, sem áður er lýst.

Þrátt fyrir að hvorki hafi verið lögbundin né samningsbundin stoð fyrir reikningagerð á hendur kæranda gaf kærði út reikning á hendur aðilanum, sem þá var nauðungarvistaður á bráðageðdeild Landspítalans, þann 14. nóvember 2017 að fjárhæð 325.318 krónur með virðisaukaskatti. Í ljósi stöðu kæranda á þeim tíma, aðstöðumunar aðila og því að hvorki var lögbundin né samningsbundin stoð fyrir útgáfu hins umþrætta reiknings verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að sú háttsemi kærða, þ.e. að gefa út tilhæfulausan reikning á hendur kæranda þann 14. nóvember 2017, hafi í engu verið til þess fallin að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar í skilningi 2. gr. siðareglna lögmanna, sem áður er lýst. Með hliðsjón af atvikum öllum verður ekki hjá því komist að veita kærða áminningu vegna háttsemi hans gagnvart kæranda að þessu leyti.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, á ekki rétt til þóknunar úr hendi kæranda, A, samkvæmt reikningi kærða nr. 682, dagsettum 14. nóvember 2017 að fjárhæð 325.318 krónur með virðisaukaskatti, og skal hann felldur niður.

Kærði B lögmaður, sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Hjördís E. Harðardóttir lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson