Mál 39 2017

Mál 39/2017

Ár 2018, 24. maí 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2017:

A og B Iceland ehf.,

gegn

C

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. desember 2017 erindi kærenda, A og B Iceland ehf., en í því er kvartað yfir því að kærði, C lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 20. desember 2017 og barst hún þann 18. janúar 2018. Var kærendum send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 15. febrúar 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar kærða samdægurs. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi A vera hluthafi og framkvæmdastjóri í kæranda B Iceland ehf. en starfssvið félagsins mun vera á sviði pípulagnar og uppsetningu hitunar- og loftræstikerfa.

Aðfaranótt 25. september 2017 sendi kærði tölvubréf til kæranda A fyrir hönd D ehf. Í tölvubréfinu, sem bar yfirskriftina „Umkvartanir og kæra D ehf.“ var því lýst að fyrirsvarsmenn tilgreinds félags hefðu leitað til kærða vegna stöðugs áreitis af hálfu kærandans og undirmála. Þá sagði eftirfarandi í tölvubréfinu:

Fyrir utan það [að] sitja fyrir fyrirsvarsmanni D, hvar sem hún fer, sem eitt og sér er nægjanlega undarlegt, þá hefur þú að sögn umbj minna verið staðinn að háttsemi sem ekki aðeins er ósæmandi heldur einnig ólögmæt og refsiverð.

  1. Fjölmargir verkkaupar D hafa að sögn umbj minna haft samband [við] þá og tjáð þeim að þú hafir haft samband við viðkomandi og rægt umbj mína með ýmsum hætti. Til að mynda sagðir þú við einn verkkaupa umbj minna að hann ætti að fá óháðan aðila til þess að mynda lagnir sem D hafi verið að fóðra og mælt með því að þau héldu eftir lokagreiðslu. Fyrir utan það að þetta var fullkomlega tilefnislaust, þá þótti þessum aðila mjög óþægilegt að fá slík skilaboð frá aðila sem bauð í viðkomandi verk en fékk ekki.
  2. Birgjar umbj míns hafa einnig greint frá því að þú hafir verið í sambandi við þá og rægt þá og starfsemi þeirra.
  3. Starfsmaður umbj míns hefur greint honum frá því að þú hafir haft samband við hann og beðið hann um að skilja eftir ROM-dælu á almannafæri svo að þú gætir hnuplað henni. Er um að ræða tæki upp á verðmæti að fjárhæð 2 mkr.
  4. Fyrirtæki þitt starfar við pípulagnir og pípulagnaviðgerðir að sögn umbj minna án þess að tilskilin meistararéttindi séu til staðar.

Vegna ofangreinds hefur mér verið falið eftirfarandi:

            Gera höfuðstöðvum B grein fyrir hegðan þinni og starfsháttum.

            Senda inn kvörtun til Neytendastofu vegna liðar 1 og 2.

            Senda inn kvörtun til Félags pípulagningameistara vegna 4.

Umbj mínir hafa þegar lagt fram kæru til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna liðar 3.

Undirritaður hefur nú þegar kvartað til höfuðstöðva B í Noregi vegna ofangreinds, sbr. 1-3.“

Í gögnum málsins liggja fyrir tvö önnur tölvubréf sem kærði mun hafa sent vegna málsins þann 25. september 2017. Er þar annars vegar um að ræða tölvubréf til E, forstjóra F A/S í Danmörku, þar sem því var lýst að kærandi A hefði verið kærður til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir tilraun til þjófnaðar. Í tölvubréfinu var jafnframt tiltekið að kærandinn hefði upplýst í tölvubréfi fyrr þann sama dag að hann hefði komið fram fyrir hönd F A/S í samskiptum við starfsmann skjólstæðings kærða. Var óskað eftir staðfestingu forstjórans á því. Viðkomandi aðili svaraði tölvubréfi kærða þann 27. september 2017 þar sem staðfest var að kærandinn hefði komið fram sem fulltrúi F A/S á Íslandi vegna málsins gagnvart starfsfólki G ehf., þ.e. til að rannsaka og koma í veg fyrir ætlaðan þjófnað á ROM-dælu (e. ROM SmartTrailer).

Hins vegar sendi kærði tölvubréf til J, framkvæmdastjóra B AB í Svíþjóð, þar sem því var lýst að umbjóðandi aðilans hefði falið honum að leggja fram kvörtun við höfuðstöðvar B í Noregi vegna umboðsmanns félagsins á Íslandi. Í tölvubréfinu var kvartað yfir sömu starfsháttum kæranda A og lýst hafði verið í tölvubréfi kærða til kærandans frá sama degi, sem áður greinir, að því frátöldu að ekki var greint frá meintu réttindaleysi kærandans til viðkomandi starfa. Var jafnframt tiltekið í tölvubréfinu að kærandinn hefði verið kærður til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir tilraun til þjófnaðar. Viðtakandi tölvubréfsins framsendi það til framkvæmdastjóra B AS í Noregi, J, sem svaraði erindi kærða þann sama dag, 25. september 2017.

Kærandi A svaraði tölvubréfi kærða frá 25. september 2017 þann 27. sama mánaðar þar sem aðilinn óskaði eftir rökstuðningi á nánar tilgreindum upphafsorðum þess tölvubréfs sem kærði hafði sent honum. Ítrekaði kærandi beiðni um rökstuðning í tölvubréfum til kærða dagana 6. og 11. október 2017. Ekki verður séð af gögnum málsins að kærði hafi svarað tilgreindum fyrirspurnum kæranda.

Með tölvubréfi kæranda A til kærða, dags. 17. október 2017, var öllum ásökunum sem fram höfðu komið í fyrrgreindu tölvubréfi frá 25. september 2017 hafnað. Vísaði kærandinn til þess að háttsemi kærenda hefði verið lögmæt í alla staði og að ekkert hefði verið rangt gert. Samkvæmt því ættu rakalausar dylgjur og rangfærslur kærða ekki við rök að styðjast. Þá var í tölvubréfinu að finna svör kærandans við þeim efnisatriðum sem tilgreind höfðu verið í tölvubréfi kærða.

Viðkomandi kærandi beindi á ný tölvubréfi til kærða þann 7. nóvember 2017. Var því þar meðal annars lýst að kærði hefði gegn betri vitund sent tölvubréf til fyrirsvarsmanna B í Svíþjóð og B í Noregi þar sem því hafi verið lýst að kærandinn hafi reynt að stela tæki frá G ehf. Þannig hefði kærða verið kunnugt að eigandi áðurnefndrar ROM-dælu, F A/S í Danmörku, hefði beðið kærandann um aðstoð til að tryggja að eign hans færi ekki forgörðum vegna vanefnda þess aðila sem hafði umráð tækisins. Þrátt fyrir það hefði kærði farið með hrein ósannindi í garð kærandans í tölvubréfum til erlendra samstarfsaðila aðilans, rægt hann og þjófkennt. Var því mati kærandans lýst að háttsemi kærða að þessu leyti hafi haft þann eina tilgang að vinna kærendum tjóni. Með tölvubréfinu var kærða veitt færi á að draga allar ávirðingar til baka og biðjast afsökunar á röngum sakargiftum. Þá var því lýst að kærði gæti að öðrum kosti vænst þess að kærandinn myndi leita réttar síns, þ. á m. með kvörtun til Lögmannafélags Íslands vegna háttseminnar.

Kærði svaraði ofangreindu tölvubréfi þann 8. nóvember 2017. Ítrekaði kærði í tölvubréfinu að skjólstæðingar aðilans hefðu lagt fram kæru á hendur kæranda A og að málið hefði sinn gang hjá lögreglu. Var tiltekið að engu breytti þótt meintur eigandi tækisins hefði óskað eftir við kærandann að brotið yrði með þessum hætti gegn almennum hegningarlögum enda ekki gert ráð fyrir því í lögum að menn gætu tekið lögin í sínar eigin hendur. Vísaði kærði til þess að það væri honum væri hulin ráðgáta hverjar hinar röngu sakargiftir væru og hverju aðilinn ætti að biðjast afsökunar á. Þá lýsti kærði því að skjólstæðingar hans hefðu falið honum að gera B grein fyrir málinu þar sem kærandinn starfaði í nafni þess fyrirtækis.

Af gögnum málsins verður ekki séð að aðilar hafi átt í frekari samskiptum eftir þennan tíma. Í gögnum málsins liggur jafnframt fyrir útprent úr fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra vegna G ehf.,  þar sem fram kemur að tilgreindur lögaðili hafi verið úrskurðaður gjaldþrota þann x. apríl 2017.

II.

Kærendur krefjast þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta viðurlögum í samræmi við brot hans gegn kærendum.

Í málatilbúnaði kærenda er vísað til þess að kvörtunin beinist að háttsemi kærða sem lögmanns gagnaðila kærenda. Er því lýst að kvörtunin lúti að því að kærði hafi án gildrar ástæðu haft samband við erlenda viðskiptamenn kærenda, rægt kæranda A í skrifum og borið á hann rangar sakir. Þetta hafi kærði gert án þess að málefnið hafi verið borið undir kærendur og aðilunum veitt færi á að skýra málið. Vísa kærendur til þess að ekki verði annað ráðið en að háttsemi kærða hafi verið viðhöfð í þeim eina tilgangi að skaða kærendur. Þá hafi kærði viðhaft háttsemina gegn betri vitund enda beri gögn málsins með sér að kærða hafi verið kunnugt um að þær sakir sem hann hafi borið á kæranda A hafi verið tilhæfulausar.

Í málatilbúnaði kærenda er gerð grein fyrir efni þeirra tölvubréfa sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Á grundvelli þeirra tölvubréfasamskipta byggja kærendur á að kærði hafi brotið gegn ákvæðum V. kafla siðareglna lögmanna með háttsemi sinni gagnvart kærendum. Er vísað til þess að sú háttsemi kærða að senda erlendum viðskiptamönnum kærenda tölvubréf sem hafi innihaldið upplognar sakir á kæranda A, án þess að kærandanum hafi verið veitt færi á að veita skýringar, hafi verið í brýnni andstöðu við 35. gr. siðareglna lögmanna. Verði ekki annað séð en að háttsemi kærða hafi haft þann eina tilgang að vinna kærendum tjón.

Kærendur benda á að lýsing kærða á meintri háttsemi kæranda A hafi verið röng og fjarri sanni. Að áliti kærenda eigi það þó ekki að skipta máli fyrir úrlausn málsins fyrir nefndinni enda séu það starfshættir kærða sem kærendur geri athugasemdir við.

Þá vekja kærendur sérstaka athygli á að kærða hafi verið kunnugt um að fullyrðingar hans um meinta tilraun kæranda A til þjófnaðar á tæki í fórum skjólstæðings kærða væru rangar. Er um það efni vísað til tölvubréfs fyrirsvarsmanns skjólstæðings kærða til eiganda viðkomandi tækis frá 17. júlí 2017. Af tölvubréfinu verði ráðið að fyrirsvarsmanninum hafi verið kunnugt um að fyrirgrennslanir kæranda A um hvar tækið væri niðurkomið væru gerðar fyrir eiganda tækisins og að beiðni þess aðila. Hafi kærandinn spurst fyrir um tækið fyrir hönd eigandans í því skyni að auðvelda honum að tryggja rétt sinn vegna tækisins enda hafi fyrirrennari skjólstæðings kærða verið tekinn til gjaldþrotaskipta nokkru áður. Er á það bent að kærði hafi fengið tilgreint tölvubréf framsent til sín og hafi því haft það undir höndum er hann hóf að senda erlendum birgjum kærenda ósannindi um aðilana.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi veitt kærða tækifæri á að bæta fyrir gerðir sínar þrátt fyrir að ekki verði annað ráðið en að honum hafi gengið það eitt til að vinna kærendum sem mest tjón. Kærði hafi hins vegar hafnað þeirri málaleitan kærenda. Af þeim sökum telja kærendur útséð um að kærði muni ekki draga ummæli sína til baka og sé þeim því nauðugur sá einn kostur að beina kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna.

Kærendur benda á að kærði hafi sérstakt leyfi til málflutnings fyrir dómstólum og að orð hans hafi því aukið vægi og þunga. Af þeim sökum trúa kærendur ekki að kærði geti komist upp með að nýta sér stöðu sína til þess að reyna að vinna gagnaðila skjólstæðings síns tjón með þeim hætti sem atvik málsins taka til. Vísa kærendur til þess að það sé mikið ábyrgðarleysi að setja fram ásakanir um lögbrot án nokkurra sannana og án þess að hafa kynnt sér málavexti eða óskað eftir skýringum. Auk þess geti slíkt haft í för með sér miklar afleiðingar.

Að endingu er í kvörtun kærenda vísað til þess að kærandi A hafi ekki heyrt frá lögreglu vegna þeirrar kæru sem kærði hafi lýst í tölvubréfum til kærandans og erlendra viðskiptamanna kærenda. Þá hafi viðkomandi lögregluembætti upplýst að engin kæra hafi verið lögð fram þegar kærandi A hafi leitað eftir upplýsingum um það efni.

Í viðbótarathugasemdum kærenda er því lýst að framlagt bréf skjólstæðings kærða sé uppfyllt af rangfærslum sem kærendur muni ekki hirða um að svara enda eigi samskipti þeirra ekki undir valdsvið nefndarinnar. Þá er vísað til þess að kærandi A hafi í engu breytt starfsháttum sínum, þ.e. hvorki fyrir né eftir að tölvubréf hafi borist frá kærða.

Varðandi andsvör kærða vísa kærendur að öðru leyti til þess að framferði hans hafi verið ótilhlýðilegt. Geti það ekki talist til góðra lögmannshátta að freista þess að koma höggi á kærendur með því að dreifa ósannindum um meint ólögmætt athæfi og fullyrða auk þess ranglega að kæra hafi verið lögð fram hjá lögreglu. Hafi tilgangur kærða augljóslega verið að valda kærendum tjóni. Þá sé háttsemin ekki samrýmanleg við skyldur lögmanna um að sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg sé hagsmunum skjólstæðinganna.

Með viðbótarathugasemdunum lögðu kærendur jafnframt fram staðfestingu frá embætti ríkislögreglustjóra á því að ekki hefði verið lögð fram kæra á hendur kæranda A.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða með þeim hætti að hann krefjist þess að kröfum kærenda verði hafnað.

Kærði bendir á, vegna tilvísunar kærenda til 35. gr. siðareglna lögmanna, að tölvubréf kærða, eftir mikil og ítrekuð samskipti skjólstæðinga aðilans við kæranda A sem engan árangur hafi borið, hafi verið sent fyrirtæki því sem kærandinn starfar hjá eða fyrir. Í því hafi engin hótun falist heldur hafi einfaldlega verið um að ræða kvörtun til fyrirtækisins. Á þessu sé stór munur. Þá hafi kærandi verið upplýstur um tilgreinda kvörtun þó að engin skylda hafi verið til slíks.

Að öðru leyti er í málatilbúnaði kærða vísað til bréfs skjólstæðings aðilans, dags. 12. janúar 2017, sem kærði kveður að lýsi í stuttu máli ástæðum þess að leitað hafi verið til hans og hvaða verkefni honum hafi verið falið. Kveðst kærði engu hafa við tilgreint bréf að bæta.

Í tilgreindu bréfi, sem fyrirsvarsmaður og verkefnastjóri D ehf. undirrita, er því lýst að leitað hafi verið til kærða vegna samskipta fyrirsvarsmannsins við kæranda A, sem starfi undir merkjum B í Noregi, og stöðugs áreitis og undirmála af hálfu kærandans. Þannig hafi kærandinn setið fyrir fyrirsvarsmanninum á ólíklegustu stöðum hvert sem fyrirsvarsmaðurinn hafi farið. Hafi viðkomandi aðili upplifað það sem mikið áreiti af hálfu kærandans.

Í bréfinu er því lýst að kærandinn hafi haft samband við marga viðskiptamenn D ehf. og rægt félagið og fyrirsvarsmenn þess á alla kanta. Til að mynda hafi kærandinn sagt við einn verkkaupa félagsins að hann ætti að fá óháðan aðila til þess að mynda lagnir sem félagið hafi verið að fóðra og mælt með því að verkkaupinn héldi eftir lokagreiðslu. Hafi slíkt verið gert að tilefnislausu. Þá hafi verkkaupanum þótt mjög óþægilegt að fá slík skilaboð frá aðila sem hefði boðið í viðkomandi verk en ekki fengið.

Í bréfinu er því jafnframt lýst að kærandi A hafi haft samband við birgja D ehf. og rægt félagið og fyrirsvarsmenn þess. Þá er tiltekið að kærandinn hafi haft samband við starfsmann félagsins og óskað eftir að nánar tilgreind ROM-dæla yrði skilin eftir á almannafæri svo hægt væri að hnupla henni, en um sé að ræða tæki að verðmæti 2.000.000 krónur. Er vísað til þess að kæra hafi verið lögð fram á hendur kærandanum vegna þessa og að óskað hafi verið eftir við kærandann að hann léti af háttalagi sínu áður en leitað hafi verið til kærða vegna málsins. Hafi slíkt ekki borið árangur.

Fyrirsvarsmenn D ehf. benda á að kærða hafi verið falið að gera því fyrirtæki sem kærandi A starfar hjá, B, grein fyrir háttsemi aðilans að þessu leyti. Hefði það farið gegn óskum þeirra ef kærði hefði með einhverjum hætti veitt kærandanum aðvörun. Er vísað til þess að kærði hafi farið nákvæmlega eftir tilmælum þeirra sem skjólstæðings aðilans. Þá hafi kærandi A látið af fyrri háttsemi í kjölfar tölvubréfa kærða til B.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 18. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að lögmanni beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í V. kafla siðareglnanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Í 34. gr. er þannig kveðið á um að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Þá kemur fram í 35. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki til framdráttur málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli sem óviðkomandi er máli skjólstæðings og að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum.

II.

Kvörtun kærenda lýtur að því kærði hafi brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna með því að hafa án gildrar ástæðu haft samband við erlenda viðskiptamenn kærenda, rægt kæranda A í skrifum og borið á hann rangar sakir. Þetta hafi kærði gert án þess að málefnið hafi verið borið undir kærendur og þeim veitt færi á að skýra málið. Hafi háttsemi kærða verið viðhöfð í þeim eina tilgangi að skaða kærendur. Þá hafi kærði viðhaft háttsemina gegn betri vitund enda hafi kærða verið kunnugt um að þær sakir sem hann hafi borið á kæranda A væru tilhæfulausar.

Kærði hefur hins vegar vísað til þess að hann hafi sent tölvubréf fyrir hönd síns skjólstæðings til fyrirtækis sem hann kveður kæranda A starfa hjá eða fyrir. Í því tölvubréfi hafi ekki falist nein hótun heldur hafi einfaldlega verið um að ræða kvörtun til fyrirtækisins. Hafi kærði upplýst kæranda A um tilgreinda kvörtun þó að engin skylda hafi verið til slíks. Þá hefur kærði fyrir nefndinni vísað til framlagðs bréfs skjólstæðings aðilans fyrir nefndinni. Í tilgreindu bréfi er að finna lýsingu á meintri háttsemi kæranda A gagnvart skjólstæðingnum og fyrirsvarsmönnum hans. Þá er þar tiltekið að kærða hafi verið falið að gera viðkomandi fyrirtæki sem kærandi A starfi hjá, B, grein fyrir háttseminni. Lýsir skjólstæðingur kærða því að það hefði farið gegn óskum hans ef kærði hefði með einhverjum hætti veitt kærandanum aðvörun. Hafi kærði þannig farið nákvæmlega eftir tilmælum hans sem skjólstæðings aðilans.

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir efni tölvubréfs sem kærði sendi til kæranda A aðfaranótt 25. september 2017. Í tölvubréfinu, sem kærði sendi fyrir hönd skjólstæðings síns D ehf., var nánar tilgreindum umkvörtunum skjólstæðingsins í garð kærenda lýst. Var jafnframt tiltekið að kærða hefði verið falið að gera B grein fyrir háttsemi og starfsháttum kæranda A auk þess sem kærði lýsti því að skjólstæðingar hans hefði lagt fram kæru á hendur kærandanum til viðkomandi lögregluembættis vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi.

Í kjölfar þessa, þ.e. þann 25. september 2017, sendi kærði tvö önnur tölvubréf vegna málsins en umkvörtunarefni kærenda í málinu lúta að efni þeirra og háttsemi kærða að því leyti. Þannig liggur annars fyrir tölvubréf sem kærði sendi til forstjóra F A/S í Danmörku, en viðkomandi félag mun vera viðskiptamaður kærenda, þar sem því var meðal annars lýst að kærandi A hefði verið kærður til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir tilraun til þjófnaðar. Í málsatvikalýsingu greinir nánar frá efni tölvubréfsins og eftirfarandi tölvubréfasamskiptum viðkomandi aðila. Hins vegar liggur fyrir tölvubréf sem kærði sendi til framkvæmdastjóra B AB í Svíþjóð, þar sem því var lýst að skjólstæðingur aðilans hefði falið honum að leggja fram kvörtun við höfuðstöðvar B í Noregi vegna umboðsmanns félagsins á Íslandi, sem kærði mun hafa talið að væru kærendur í máli þessu. Í tölvubréfinu var kvartað yfir starfsháttum kæranda A auk þess sem því var lýst að kærandinn hefði verið kærður til lögreglu fyrir þjófnaðartilraun. Tölvubréf kærða var framsent til framkvæmdastjóra B AS í Noregi eins og nánar er rakið í málsatvikalýsingu en hið norska félag mun vera viðskiptamaður og samstarfsaðili kærenda.

Af ofangreindum tölvubréfum verður ráðið að kærði hafi komið fram fyrir hönd síns skjólstæðings, D ehf., hvað þetta varðar og að einstakar fullyrðingar í tölvubréfunum hafi verið settar fram fyrir hans hönd. Þrátt fyrir það er það mat nefndarinnar að kærði hafi allt að einu verið bundinn við siðareglur lögmanna við framkvæmd starfa sinna í þágu síns skjólstæðings. Þarf því að taka afstöðu til þess hvort háttsemi hans fór í bága við siðareglurnar, en við mat á því er úrskurðarnefndin ekki bundin við tilvísanir kærenda til einstakra ákvæða. Reynir hér fyrst og fremst á V. kafla siðareglnanna um skyldur lögmanns við gagnaðila, einkum fyrrgreindar 34. og 35. gr., en einnig kemur til skoðunar ákvæði 1. gr. sem áður er lýst.

Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að kærendur og skjólstæðingur kærða séu samkeppnisaðilar á viðkomandi starfssviði. Skylda lögmanns til að sýna gagnaðila fulla virðingu og tillitssemi girðir að sjálfsögðu ekki fyrir að lögmaður aðstoði skjólstæðing sinn í málum þar sem hann vill bera sakir á gagnaðila. Hins vegar verður að gera þá kröfu til lögmanna að þeir afli sér fullnægjandi upplýsinga um málsatvik og staðreyni réttmæti frásagna skjólstæðinga sinna að því marki sem unnt er áður en erindum er beint að öðrum þriðju aðilum, sem kunna að standa utan við ágreining málsaðila. Á slíkt ekki hvað síst við þegar um er að ræða tilkynningar eða veitingu upplýsinga lögmanna til viðskiptamanna og/eða samstarfsaðila gagnaðila skjólstæðings um ætlaða refsiverða háttsemi og að kæra hafi verið lögð fram vegna slíks hjá lögreglu líkt og á við í því tilviki sem hér um ræðir. Þá verður að líta til þess að efni viðkomandi tölvubréfa var veitt aukið vægi gagnvart viðtakendum með því að þau voru rituð og send af lögmanni.

Í gögnum málsins liggur ekkert fyrir um hina meintu kæru skjólstæðings kærða á hendur kæranda A annað en fullyrðing skjólstæðingsins um að hún hafi verið lögð fram hjá viðkomandi lögregluembætti. Í málatilbúnaði kærenda er hins vegar vísað til þess að lögregluembættið hafi upplýst kæranda A um að engin kæra hafi verið lögð fram á hendur aðilanum þegar leitað hafi verið eftir upplýsingum um það efni. Þá hafa kærendur undir rekstri málsins lagt fram staðfestingu frá embætti ríkislögreglustjóra á því að ekki hafi verið lögð fram kæra á hendur kæranda A líkt og haldið er fram í málatilbúnaði kærða og tiltekið var í þeim tölvubréfum aðilans til viðskiptamanna og samstarfsaðila kærenda sem málið varðar.

Á grundvelli ofangreinds verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að ósannað sé að kæra hafi í reynd verið lögð fram af hálfu skjólstæðings kærða vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi kæranda A. Fyrir liggur að kærði sendi tölvubréf til tveggja viðskiptamanna og samstarfsaðila kærenda þar sem var að finna fyrirvaralausa fullyrðingu kærða um að  kærandi A hefði þegar verið kærður til lögreglu fyrir tilraun til þjófnaðar. Með því að beina slíkri fyrirvaralausri fullyrðingu um lögreglukæru til viðskiptamanna og samstarfsaðila kærenda gat kærða ekki gengið neitt annað til en hlutast til um að viðkomandi aðilar hefðu áhrif á kærendur í krafti viðskiptatengsla sinna. Þá var háttsemi kærða að þessu leyti til þess fallin að skaða viðskiptahagsmuni kærenda. Samkvæmt því og að teknu tilliti til þeirra skyldna sem hvíldu á kærða í þessu efni, þ. á m. um að afla sér fullnægjandi upplýsinga um málsatvik og að hafa staðreynt réttmæti frásagna skjólstæðings síns að því marki sem unnt var, er sú niðurstaða óhjákvæmileg að kærði hafi gert á hlut kærenda í trássi við 1. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna. Þá verður ekki fram hjá því litið að kærði veitti kærendum hvorki kost á að skýra málið né til að koma að athugasemdum vegna frásagnar skjólstæðings kærða áður en kærði beindi hinum fyrirvaralausu fullyrðingum, sem áður greinir, til viðskiptamanna og samstarfsaðila kærenda. Hefði slíkt talist til góðra lögmannshátta, einkum í ljósi þess að kærði hafði ekki gengið úr skugga um réttmæti frásagnar skjólstæðingsins, sem mun vera í samkeppnisrekstri við kærendur, áður en hann sendi hin umþrættu tölvubréf í lok septembermánaðar 2017. Með vísan til alls framangreinds er óhjákvæmilegt að veita kærða áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 vegna háttsemi hans gagnvart kærendum að þessu leyti.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, C lögmaður, sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson