Mál 10 2018

Mál 10/2018

Ár 2018, 30. ágúst 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2018:

A lögmaður og B

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 22. mars 2018 erindi kærenda, A lögmanns og B, þar sem kvartað er yfir því að kærði, C lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn ótilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 27. mars 2018 og barst hún degi síðar, þ.e. þann 28. sama mánaðar. Var fulltrúa kærenda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 10. apríl 2018. Hvorki bárust frekari athugasemdir né gögn frá málsaðilum og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun vera rekið mál fyrir Héraðsdómi Y á milli D ehf. og S ehf., sem stefnenda annars vegar, og E hf., sem stefnda hins vegar, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xxx/2015. Fer kærandi A lögmaður með málið fyrir hönd stefnenda í tilgreindu dómsmáli en kærði fer með málið fyrir hönd hins stefnda félags.

Í erindi kærenda til úrskurðarnefndar er því lýst að kærandi B sé og hafi verið sérfróður ráðgjafi stefnenda og kæranda A vegna þess dómsmáls sem áður greinir. Er gerð grein fyrir því að kærandinn hafi upphaflega verið fenginn til að reikna út fyrir stefnendur ætlað tjón þeirra af lokun stefnda á greiðslugátt til söfnunar styrktarframlaga til F. Hafi skýrsla kærandans um þetta efni verið lögð til grundvallar beiðni stefnenda um dómkvaðningu matsmanna. Í framhaldinu hafi kærandinn komið með virkum hætti að málinu, þ. á m. setið matsfund dómkvaddra matsmanna, aðstoðað við greiningu þess sem fram hafi komið á matsfundum, samið skýrslu sem lögð hafi verið fram í dómsmálinu auk þess að rita minnispunkta til framlagningar í yfirmati og semja minnisblað vegna beiðni stefnda í málinu um dómkvaðningu nýrra matsmanna.

Þann 16. mars 2018 sendi kærði eftirfarandi tölvubréf til kæranda A  með yfirskriftinni „Bréf til B“:

            „Sæll A,

Tel við hæfi, í ljósi tengsla B við umbjóðendur þína, að ég sendi þetta bréf á þig og biðji þig að koma því til B. Ef þú vilt frekari að ég sendi það beint til hans bið ég þig um að láta mig vita.“

Eins og ráða má af tilgreindu tölvubréfi þá fylgdi með því bréf kærða, fyrir hönd skjólstæðings aðilans í fyrrgreindu dómsmáli, til kæranda B sem bar yfirskriftina „Hagsmunir í ætluðum kröfum D ehf. og S ehf.“. Viðkomandi bréf kærða, sem dagsett var þann 16. mars 2018, var svohljóðandi:

Líkt og þér er kunnugt hafa félögin D ehf. og S ehf. gert kröfur um skaðabætur á hendur umbjóðanda okkar, E hf. Er nú rekið mál um kröfurnar fyrir héraðsdómi, með málsnúmerinu E-xxx/2015, en aðalkrafa í málinu er byggð á niðurstöðu álitsgerðar sem þú útbjóst fyrir stefnendur málsins.

Að gefnu tilefni er þess óskað að þú upplýsir um hvort þú eigir persónulega, eða í gegnum annan einstakling eða félag, fjárhagslega hagsmuni í eða af þeim ætluðu kröfuréttindum sem málið er rekið um, til að mynda, en þó ekki tæmandi talið, eignarhlutdeild í kröfunum eða hvers konar óbein eignaréttindi yfir þeim, þ.m.t. óbein eignaréttindi í ætluðum kröfuhöfum, D ehf. og S ehf.

Það athugast að fyrirspurn þessi er sett fram í tengslum við rekstur framangreinds dómsmáls nr. E-xxx/2015 og kann bréfið að vera lagt fram í málinu, ásamt svari við því.“

Ágreiningur í málinu lýtur að efni framangreindra bréfa sem kærði sendi til kæranda A þann 16. mars 2018.

II.

Kærendur krefjast þess að kærði verði látinn sæta viðeigandi viðurlögum vegna þeirra lögmannshátta sem kvörtunin lýtur að.

Í kvörtun kærenda er vísað til þess að kærandi A sé lögmaður stefnenda D ehf. og S ehf. í máli nr. E-xxx/2015 sem rekið sé fyrir Héraðsdómi Y gegn E hf. Þá er í kvörtuninni vísað til þeirra bréfa sem kærði sendi til kærandans þann 16. mars 2018 sem og til aðkomu kæranda B að málarekstrinum, en báðum atriðum er nánar lýst í málsatvikalýsingu að framan.

Í málatilbúnaði kærenda er vísað til þess að kærði sjái ofsjónum yfir því hvernig kærandi B hafi með útreikningum sínum og greiningu hrakið niðurstöður skýrslna sem stefndi í dómsmálinu hafi aflað. Þá er á það bent að dómkvaddir matsmenn hafi fallist á aðferðafræði kærandans og útreikninga. Kveða kærendur að kærða, sem lögmanni stefnda, hafi virst allar bjargir bannaðar og því hafi sá kostur verið valinn að reyna að gera kæranda B tortryggilegan. Af þeim sökum hafi kærði sent bréf til hans beint.

Kærendur byggja á að í efni bréfs kærða til kæranda B megi ekki aðeins finna hallærislegar hálfkveðnar vísur heldur sé bréfið fullkomlega  óviðeigandi efnislega þar sem spurt sé spurninga um mál sem séu kærða eða skjólstæðingi hans óviðkomandi. Er vísað til þess að kærða varði ekkert um það hvort, hvað og hvernig viðkomandi sérfræðiráðgjafi stefnenda í dómsmálunum fái greitt fyrir sína vinnu. Þá sé það óásættanlegt að kærði, sem lögmaður stefnda, sé með þessum hætti að atast í vitni á vegum stefnanda, sérstaklega þegar litið sé til þess að málið sé til meðferðar fyrir dómi.

Með vísan til þessa og siðareglna lögmanna krefjast kærendur þess að kærði verði látinn sæta viðeigandi viðurlögum.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða þannig að hann krefjist þess að kröfum kærenda verði hafnað.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að tilefni og efnisinnihald viðkomandi bréfs, dags. 16. mars 2018, sem áður er lýst hafi verið skýrt. Fyrir liggi að kærandi B sé sérfróður ráðgjafi kæranda A og stefnenda í héraðsdómsmálinu nr. E-xxx/2015. Hafi kærandi B þannig reiknað út kröfur, skrifað skýrslur og komið með virkum hætti að dómsmálinu og ágreiningi aðila. Auk þessi telji skjólstæðingur kærða það skipta máli hvort hinn sérfróði ráðgjafi, kærandi B, eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins og/eða eigi hlut í kröfunni og þar af leiðandi mögulega aðild að dómsmálinu. Þá kveður kærði að skjólstæðingur sinn telji slíkt skipta máli þegar komi að því að meta sönnunargildi umræddra skýrsla og hlutlægni kæranda B. Sé sú skoðun enn frekar staðfest með því að aðalkrafa stefnenda í dómsmálinu sé byggð á útreikningi kærandans.

Kærði bendir sérstaklega á að hvorki sé í kvörtun kærenda vísað til ákvæða siðareglna lögmanna sem kærendur telja að kærði hafi brotið né sé tiltekið hvaða viðurlög það eru sem kærendur geri kröfu til að kærði sæti. Vísar kærði til þess að hann taki þessum ásökunum mjög alvarlega enda telji aðilinn að ekki eigi að hafa í flimtingum í frammi ásakanir gegn lögmanni um brot á siðareglum. Verði að gera þá kröfu til þess sem slíkar ásakanir setur fram að fyrir því séu færð rök og málefnalegar ástæður og að vísað sé til viðeigandi ákvæða í siðareglum og lögum. Sé slíku ekki fyrir að fara í kvörtun kærenda.

Kærði byggir á að ekki sé grundvöllur fyrir ásökunum kærenda þar sem kærandi B sé ekki vitni í héraðsdómsmálinu nr. E-xxx/2015 með vísan til VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Bendir kærði á að fjölmargir dómar hafi fallið í málum þar sem málsaðilar hafi reynt að leiða sérfræðinga, sem þeir hafa leitað til án dómkvaðningar, fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu. Hafi Hæstiréttur ítrekað kveðið á um að vitni geti þeir einir verið sem svarað geta munnlega spurningum um umdeild atvik af eigin raun. Slíkt geti kærandi B ekki enda hafi hann verið ráðinn af stefnendum dómsmálsins eftir að umdeild atvik gerðust til þess að reikna út kröfur, skrifa skýrslur og koma með virkum hætti að ágreiningnum. Bendir kærði á að aðili sem sinni slíkum störfum geti ekki talist vitni samkvæmt VIII. kafla laga nr. 91/1991, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 782/2015, 94/2002 og 190/1996.

Kærði bendir á að ef kærandi B væri vitni í dómsmálinu, sem hann sé ekki, að þá væri kærða samt sem áður heimilt að hafa samband við hann til að kanna hvað hann gæti borið um atvik, sbr. 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Ef kærandinn væri vitni í „sérstökum tengslum við gagnaðila“, sem hann sé ekki, væri kærða skylt að tilkynna lögmanni gagnaðila áður en haft væri samband ef þess væri nokkur kostur en ella jafn skjótt og kostur væri. Vísar kærði til þess að þar sem hann hafi ekki haft beint samband við kæranda B heldur óskað eftir því að kærandi A hefði milligöngu um að koma bréfi til hans sé heldur ekki um brot á tilgreindum málslið 3. mgr. 21. gr. siðareglnanna að ræða.

Kærði byggir á að ásakanir kærenda á hendur sér, þ. á m. kæranda A, séu með öllu tilefnislausar. Bendir aðilinn á að velta megi því fyrir sér hvort það að senda slíka tilefnislausa kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna beri vott um góða lögmannshætti, sbr. I. kafla siðareglna lögmanna. Þá megi einnig velta því fyrir sér hvort annars vegar tilefnislausar ásakanir lögmanns gagnvart öðrum lögmanni um brot á siðareglum lögmanna og hins vegar tilefnislausar ásakanir gegn lögmanni um vítaverð brot í rekstri dómsmáls og í framhaldinu krafa um réttarfarssektir gagnvart lögmanninum og skjólstæðingi hans feli í sér sjálfstæð brot gegn 25. gr., 27. gr. og 34. gr. siðareglnanna.

Þá gerir kærði alvarlegar athugasemdir við að kærandi A hafi kosið að senda þeim dómara sem fer með mál nr. E-xxx/2015 bréf utan réttar sem felur í sér skriflegan málflutning og ósannar og tilefnislausar ásakanir gagnvart lögmanni gagnaðila. Bendir aðilinn á að velta megi fyrir sér, í ljósi efnis og lagatúlkunar sem þar kemur fram, hvort um sjálfstæð brot gegn 2. mgr. 8. gr., 19. gr., 20. gr. og 22. gr. siðareglna lögmanna sé að ræða. Þá er vísað til þess að kærandi A hafi brotið gegn 31. gr. siðareglnanna með því að senda annars vegar tilefnislausa kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna og hins vegar bréf til héraðsdómara í fyrrgreindu dómsmáli með ósönnum og tilefnislausum ásökunum án þess að hafa upplýst kærða um það fyrirfram.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lög­mannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Í málinu liggur fyrir að kærði sendi kæranda A tölvubréf þann 16. mars 2018 en með því fylgdi bréf sem óskað var eftir að kærandinn myndi koma til kæranda B. Gerð er grein fyrir efni tilgreindra bréfa kærða í málsatvikalýsingu að framan.

Kvörtun kærenda í málinu lýtur að meintu áreiti kærða í garð kæranda B sem vitnis í málinu nr. E-xxx/2015 sem rekið er fyrir Héraðsdómi Y. Er á því byggt að bréf kærða til kærandans hafi verið efnislega óviðeigandi þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum sem hafi verið kærða eða skjólstæðingi hans óviðkomandi. Þá sé það óásættanlegt að kærði hafi með þessum hætti atast í vitni á vegum gagnaðila skjólstæðings aðilans, sérstaklega í ljósi þess að dómsmálið sé og hafi verið til meðferðar fyrir dómi.

Um þetta efni er þess að gæta að samkvæmt 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni heimilt að hafa samband við vitni í máli til að kanna hvað það getur borið um atvik og, ef því er að skipta, til að gera því kleift að búa sig undir vitnaleiðslu. Sé um að ræða vitni, sem eru í sérstökum tengslum við gagnaðila, er lögmanninum skylt að tilkynna lögmanni gagnaðila áður en haft er samband ef þess er nokkur kostur en ella jafn skjótt og kostur er. Hafi lögmaður samband við vitni ber honum að gæta viðeigandi tillitssemi og forðast að hafa áhrif á framburð vitnisins.

Ekki kemur fram í gögnum máls að kærandi B geti borið um málsatvik í skilningi 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í því héraðsdómsmáli sem áður greinir. Þá er kærandinn heldur ekki dómkvaddur matsmaður, sbr. IX. kafla laganna. Verður því ekki séð að 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna geti átt við um greind samskipti, sem sakarefni málsins varðar. Þá er það mat nefndarinnar að kærendur hafi ekki sýnt fram á að öðru leyti að kærði hafi í störfum sínum gert á hlut þeirra með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Það athugast að kærði hefur í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni borið því við að kærandi A hafi með ýmsum hætti gert á sinn hlut eða hlut skjólstæðings síns með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í stað þess að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd á þeim grundvelli, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, kaus kærði að lýsa hinum ætluðu brotum kærandans að þessu leyti í greinargerð með andsvörum og umsögn aðilans vegna kvörtunar kærenda til nefndarinnar. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild og kemur málatilbúnaður kærða um þetta efni því ekki til úrlausnar í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, C lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, A lögmanns og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Helgi Birgisson lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson