Mál 11 2018

Mál 11/2018

Ár 2018, 30. ágúst 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. mars 2018 erindi kæranda, A, en í því er vísað til ágreinings kæranda við kærða, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 28. mars 2018, og barst hún þann 13. apríl 2018. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 24. apríl 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða samdægurs. Svar kærða barst 30. apríl 2018 og var það sent til kæranda með bréfi, dags. 3. maí 2018, með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur að málsaðilar eru bræður. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fyrir nefndinni hafa þeir átt í umtalsverðum samskiptum um hin ýmsu mál svo sem algengt má telja á milli aðila sem tengdir eru slíkum fjölskylduböndum. Framlögð gögn í málinu um slíkt efni ná aftur til ársbyrjunar 2017 en aðeins verður gerð grein fyrir tilgreindum gögnum að því marki sem þörf krefur fyrir úrlausn sakarefnisins.

Að kvöldi þann 1. janúar 2018 sendi kærandi tölvubréf til kærða með yfirskriftinni „Mótmælabréf“ en í því var að finna hlekk á nánar tilgreinda vefsíðu Reykjavíkurborgar vegna forsagnar deiliskipulags að x-götu í Reykjavík. Í tölvubréfinu spurðist kærandi fyrir um hvort kærði myndi ekki gera uppkast að mótmælabréfi fyrir sig auk þess sem efnisatriðum mótmælanna var lýst með eftirfarandi hætti:

Í tölulið 6. kemur fram að reisa eigi sambýli á reitnum. Því er harðlega mótmælt. Hverfið er íbúðabyggð. Einnig kemur fram í tölulið 6. að reisa eigi eitt hús á reitnum. Því er einnig harðlega mótmælt. Það mun skerða útsýni verulega og fellur ekki að heildarmynd hverfisins sem samanstendur af einbýlishúsalóðum.“

Kærði svaraði tilgreindu tölvubréfi kæranda þann 6. janúar 2018 með fyrirspurn um hvort athugasemdaferlið væri opið. Í svari kæranda þann sama dag kom fram að ferlið væri opið til 12. sama mánaðar. Í frekari tölvubréfasamskiptum aðila þennan dag óskaði kærði eftir upplýsingum um hvort bréfið ætti að vera skrifað af honum fyrir hönd skráðra eigenda að x-götu 9 í Reykjavík eða hvort eigendur myndu undirrita bréfið. Kærandi svaraði þeirri fyrirspurn með því hvort ekki væri sterkast að gera uppkast að bréfi og ganga svo í hús og fá undirskriftir. Þá framsendi kærandi tölvubréf annars íbúa að x-götu til kærða þennan sama dag þar sem finna mátti athugasemdir viðkomandi við forsögn deiliskipulagsins.

Kærandi sendi á ný tölvubréf til kærða þann 7. janúar 2018 og spurðist fyrir hvort um mikið verk væri að ræða. Þann sama dag sendi kærði drög að athugasemdum íbúa við x-götu vegna forsagnar deiliskipulagsins í tölvubréfi til kæranda þar sem jafnframt var tekið fram að ekki væri hægt að hafa bréfið mjög harkalega orðað ef margir ættu að skrifa undir.

Málsaðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum þann 7. janúar 2018 þar sem kærandi þakkaði meðal annars kærða fyrir fyrri sendingu og spurðist fyrir um hvort aðilinn gæti gert annað „mun harkalegra“ bréf fyrir sig. Þá áttu aðilar í samskiptum um hvort þau drög ættu að taka mið af því að kærði myndi rita undir bréfið fyrir hönd kæranda og eiginkonu hans og var það niðurstaða aðila í lok dags.

Þann 10. janúar 2018 sendi kærði drög að athugasemdum í tölvubréfi til kæranda í samræmi við fyrri samskipti sem báru yfirskriftina „Athugasemdir við framlagða lýsingu deiliskipulags að x-götu stgr. 1.636.“ Var í tilgreindum drögum gert ráð fyrir að bréfið væri ritað og undirritað af kærða fyrir hönd kæranda og eiginkonu hans sem eigenda fasteignarinnar að x-götu 9a í Reykjavík. Kærandi þakkaði fyrir drögin í tölvubréfi til kærða þann 11. sama mánaðar en kvaðst halda að hann myndi samt bara senda hið fyrra bréf en vildi þó fá að hugsa málið þann daginn. Í svari kærða, dags. 12. janúar 2018, kom fram að bréfið þyrfti væntanlega að fara út þann sama dag og óskaði eftir að hann yrði látinn vita.

Ekki verður séð af gögnum málsins að aðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna þessa máls eftir 12. janúar 2018.

Samkvæmt gögnum málsins mun einn reikningur hafa verið gefinn út af lögmannsstofu kærða vegna ofangreindra starfa kærða samkvæmt beiðni og í þágu kæranda. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur nr. 18 þann 28. febrúar 2018 að fjárhæð 111.154 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tilgreiningu á reikningnum tók hann til 4,5 klukkustunda á útseldu tímagjaldi að fjárhæð 24.900 krónur auk virðisaukaskatts en afsláttur var tilgreindur 20%. Var því lýst á reikningnum að um væri að ræða vinnu vegna skipulagsmáls í janúarmánuði 2018.

Kærði hefur jafnframt lagt fyrir nefndina afrit af tímaskýrslu sinni vegna hins umþrætta verks sem tekur til tímabilsins frá 6. janúar 2018 til 10. sama mánaðar. Í tímaskýrslunni greinir að heildarfjöldi vinnustunda vegna verksins hafi verið 6,25 klukkustundir. Nánar tiltekið voru 2 klukkustundir færðar á málið þann 6. janúar 2018 vegna samskipta, símtals, tölvubréfs o.fl., gagnaleitar og yfirferðar gagna. Þá skráði kærði 1,75 klukkustund á málið þann 7. janúar 2018 vegna ritunar bréfs, frágangs, tölvubréfsamskipta og símtals en 2,5 klukkustundir voru færðar á málið þann 10. sama mánaðar vegna skoðunar gagna, ritunar bréfs, frágangs, tölvubréfs og símtals.

Ágreiningur aðila fyrir nefndinni lýtur að ofangreindum reikningi kærða nr. 18 sem gefinn var út á hendur kæranda þann 28. febrúar 2018.

II.

Samkvæmt upphaflegu erindi kæranda til nefndarinnar er þess krafist að útgefinn reikningur af lögmannsstofu kærða nr. 18, dags. 28. febrúar 2018, að fjárhæð 111.154 krónur verði felldur niður. Þá krefst kærandi þess jafnframt í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar að aðilanum verði ákvörðuð sanngjörn þóknun vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Í erindi kæranda er vísað til þess að það varði útgáfu kærða á tilhæfulausum reikningi á bróður sinn, kæranda í máli þessu. Er tiltekið að kærandi hafi ekki leitað til kærða sem lögmanns heldur sem bróður eins og margoft hafi gerst áður. Kveður kærandi að kærði verði að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt um fyrirhugaða gjaldtöku í upphafi samskipta aðila.

Kærandi bendir á að samkvæmt lögmannalista sem finna megi á vefsíðu Lögmannafélags Íslands sé kærði með tölvupóstfangið b@b.is. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að aðilar hafi átt í óverulegum samskiptum í gegnum það netfang. Hins vegar hafi aðilar átt í verulegum tölvubréfasamskiptum í gegnum persónuleg netföng, í tilviki kærða netfangið b@gmail.com. Á þessu tvennu sé regin munur, þ.e. hvort kærði hafi komið fram sem lögmaður eða eigi í einkasamskiptum við kæranda sem bróður.

Kærandi vísar til þess að aðilar hafi í gegnum tíðina átt í allnokkrum persónulegum samskiptum, bæði jákvæðum og neikvæðum. Í ársbyrjun 2017 hafi kærði farið að herja á sig með uppgjör á ýmsum skuldum sem kærandi hafi lítið sem ekkert kannast við. Kveður kærandi að enginn fótur hafi verið fyrir tilgreindum kröfum kærða. Þá hafi aðilinn sinnt margskonar ráðgjöf fyrir kærða árum saman, þ. á m. talið fram til skatts. Hafi kærandi ekki krafist greiðslu fyrir slíkt fyrr en á síðasta ári vegna aukins umfangs en það hafi kærða verði tilkynnt fyrirfram áður en til verksins kom. Þrátt fyrir það hafi engin greiðsla borist frá kærða vegna verksins.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að hann hafi sent tölvubréf á persónulegt netfang kærða þann 1. janúar 2018 með fyrirspurn um hvort hann gerði ekki uppkast að almennu mótmælabréfi fyrir sig vegna forsagnar að deiliskipulagi við x-götu í Reykjavík sem kærandi myndi svo ganga með í hús í götunni og fá undirskriftir. Tölvubréfasamskipti hafi átt sér stað á milli aðila vegna þessa þann 6. janúar 2018 og hafi kærði sent kæranda drög að slíku bréfi þann 7. sama mánaðar. Bendir kærandi á að öll samskipti vegna þessa hafi farið fram í gegnum persónuleg netföng aðila. Þá hafi hvorki verksamningur verið gerður um verkið né hafi kærandi veitt kærða umboð sitt til þess. Þá hafi kærði fyrir eigin áeggjan ritað drög að öðru bréfi sem aldrei hafi verið notað. Hvergi hafi verið minnst á í samskiptum aðila að greiðslu væri vænst fyrir verkið né heldur að kærandi hafi leitað til kærða sem lögmanns.

Kærandi bendir á að af framlögðum gögnum megi sjá að aðilar hafi átt í talsvert miklum persónulegum tölvubréfasamskiptum um lögfræðileg málefni sem og annað. Sambærileg samskipti hafi einnig farið fram framan af tímabilinu í gegnum samfélagsmiðla. Hafi kærði undantekningarlaust í þeim samskiptum komið fram sem bróðir kæranda en ekki sem lögmaður. Kveður kærandi að ríkari skylda en ella hafi hvílt á kærða að gera grein fyrir að gjaldtaka væri fyrirhugað gagnvart einstaklingi sem hann hafi átt í jafn miklum persónulegum samskiptum við og kæranda, sem bróður. Verði kærði sem lögmaður að bera hallann af því að hafa ekki gert svo. Samkvæmt því byggir kærandi á að reikningur nr. 18 frá lögmannsstofu kærða sé tilhæfulaus með öllu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda mótmælir aðilinn því að fyrri samskipti aðila séu málinu óviðkomandi. Er á það bent að aðilar hafi átt í miklum samskiptum árum saman. Sem lögmanni hafi kærða borið ríkari skylda en ella til að gera einstaklingi sem hann átti í jafnmiklum samskiptum við og kæranda, sem bróður, grein fyrir að gjaldtaka væri fyrirhuguð, sbr. 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna. Verði kærði að bera hallann af því að hafa látið það hjá líðast.

Kærandi kveður það ágreiningslaust að kærði hafi notað netfangið b@gmail.com í samskiptum aðila. Það netfang sé ekki að finna á fyrrgreindum lögmannalista og teljist því persónulegt netfang kærða. Byggir kærandi á að öll samskipti aðila í gegnum tilgreint netfang hafi verið einkasamskipti. Verði kærði þannig að bera hallann af því að hafa ekki gert kæranda grein fyrir að hann ætti í samskiptum við kærða sem skjólstæðingur lögmanns en ekki í einkasamskiptum. Breyti stöðluð undirritun kærða í tölvubréfum engu í því efni.

Kærandi vísar til þess að atvikum málsins sé ranglega lýst í greinargerð kærða. Þannig hafi öll samskipti aðila vegna málsins farið fram í gegnum tölvubréf og vísar um það efni til útprentunar af niðurbroti á notkun farsíma síns á tímabilinu 1. – 12. janúar 2018. Þá hafi kærandi litið á öll samskipti aðila vegna málsins sem einkasamskipti enda hafi hvorki verkbeiðni né verksamningur verið til staðar auk þess sem kærði hafi ekki haft umboð frá kæranda til verksins. Byggir kærandi á að kærða hafi borið að upplýsa fyrirfram um gjaldtökuna enda væri annað gróft brot gegn 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi byggir á að gjaldskrá lögmannsstofu kærða hafi enga þýðingu við úrlausn málsins þar sem kæranda hafi hvorki verið kynnt að kærði kæmi fram sem lögmaður í samskiptum aðila eða að gjaldtaka væri fyrirhuguð né hafi gjaldskráin verið birt. Þá er tímaskýrslu kærða mótmælt sem uppspuna og síðari tíma heimild. Er um það efni á það bent að engin samskipti hafi farið fram á milli aðila símleiðis auk þess sem augljóst misræmi sé á milli skráðra tíma í tímaskýrslu annars vegar og útseldra tíma samkvæmt reikningi hins vegar. Byggir kærandi á að kærði hafi brotið gróflega gegn 15. gr. siðareglna lögmanna, þ.e. hafi kærði talið að hann væri að vinna fyrir skjólstæðing sinn.

Þá mótmælir kærandi fullyrðingu í málatilbúnaði kærða sem rangri um að hann hafi ekki borið fram athugasemd við hinn umþrætta reikning fyrr en með kvörtun til úrskurðarnefndar. Vísar kærandi til þess að hann hafi fengið þriðja aðila til að hafa samband við kærða vegna málsins en að þær tilraunir til að fá reikninginn niðurfelldan hafi reynst árangurslausar.

Að endingu óskar kærandi eftir að margháttuð brot kærða á siðareglum lögmanna verði tekin til skoðunar, þ.e. vilji svo ólíklega til að nefndin líti á kæranda sem skjólstæðing kærða. Vísar kærandi um það efni til grófra brota kærða á 2. mgr. 10. gr. og 15. gr. siðareglna lögmanna annars vegar og til margháttaðra hótana og fjárkúgana kærða hins vegar. Kveður kærandi það býsna langsótt að kærandi hafi verið skjólstæðingur kærða frá 1. – 12. janúar 2018 en að kærði hafi í tölvubréfi úr sama netfangi nokkrum dögum síðar, þ.e. þann 2. febrúar 2018, spurt hvort kærandi væri með lögmann til að verja hendur sínar vegna fjárkúgana kærða.

III.

Kærði krefst þess í fyrsta lagi að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Í öðru lagi krefst kærði þess að honum verði ákvörðuð þóknun vegna reksturs málsins fyrir nefndinni. Þá krefst kærði í þriðja lagi að kveðið verði á um aðfararhæfi fjárkröfu, að fjárhæð 111.154 krónur með virðisaukaskatti, samkvæmt reikningi dags. 28. febrúar 2018 auk vaxta samkvæmt 3. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags, að viðbættri þóknun vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði vísar til þess að hann sé sjálfstætt starfandi lögmaður. Kveðst aðilinn hafa notað netfangið b@gmail.com frá septembermánuði 2016 þar til hann hafi opnað netfangið b@b.is í lok mars 2017. Hafi viðskiptamenn jöfnum höndum haft samband í bæði netföngin. Þá hafi skýrt komið fram í undirritun kærða á báðum netföngum að aðilinn starfaði sem lögmaður og Z fyrir C ehf. Auk þess sé ekki óalgengt að viðskiptamenn hafi samband í gegnum samskiptamiðla eða með smáskilaboðum í síma. Þó hafi kærði ekki rætt við kæranda á samskiptamiðlum frá því í janúarmánuði 2017 líkt og ranglega sé haldið fram í málatilbúnaði hins síðarnefnda.

Í málatilbúnaði kærða greinir að kærandi hafi leitað til hans í byrjun janúarmánaðar 2018 eins og ráða megi af framlögðum tölvubréfasamskiptum fyrir nefndinni. Þannig hafi kærandi óskað eftir í tölvubréfi til kærða þann 1. janúar 2018 að hann myndi gera drög að mótmælabréfi fyrir sig vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á reit við x-götu í Reykjavík. Hafi aðilar átt í tölvubréfsamskiptum vegna þessa þann 6. janúar 2018 auk þess sem kærandi hafi framsent tölvubréf frá nágranna sínum til kærða sem varðaði málið. Er því lýst að kærði hafi sent frá sér drög að mótmælabréfi þann 7. sama mánaðar sem kærandi hafi þakkað fyrir auk þess sem hinn síðarnefndi hafi óskað eftir að kærði myndi rita harkalegra bréf í sína þágu. Hafi kærði jafnframt orðið við þeirri beiðni.

Kærði byggir á að kæranda hafi ekki getað dulist að verið væri að óska eftir að kærði nýtti aflahæfi og sérþekkingu í þágu kæranda og sinnti lögmannsstörfum samkvæmt hans beiðni. Bendir kærði á að kærandi hafi sönnunarbyrði fyrir þeim fullyrðingum sínum að verkið hafi átt að vera ólaunað. Þá verði ekki séð að nein réttarregla í íslenskum rétti leiði til þess að hægt sé að venjuhelga ótímabundin afnot af aflahæfi einstaklings endurgjaldslaust líkt og málatilbúnaður kæranda sé grundvallaður á. Þá kveður kærði það rangt sem fram komi í málatilbúnaði kæranda um að slík venja hafi nokkru sinni verið til staðar, enda beri fyrirliggjandi gögn slíkt ekki með sér.

Kærði kveðst hafa unnið að umþrættum verkefnum í þágu kæranda í 6,25 klukkustundir. Í ljósi fyrri samskipta við kæranda hafi verið ákveðið að innheimta aðeins 4,5 klukkustundir auk þess sem gefinn hafi verið 20% afsláttur af tímagjaldi samkvæmt gjaldskrá. Byggir kærði á að endurgjaldið hafi verið mjög hófstillt fyrir þá vinnu sem innt hafi verið af hendi. Þannig hafi reiknað tímagjald því aðeins verið að fjárhæð 14.342 krónur auk virðisaukaskatts. Þá bendir kærði á að kærandi hafi ekki borið fram athugasemdir yfir þjónustunni eða þóknun við kærða fyrr en kærða barst bréf úrskurðarnefndar, dags. 28. mars 2018. Er í málatilbúnaði kærða um þetta efni vísað til almennrar meginreglu kauparéttar, sbr. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

Kærði telur að fyrri samskipti við kæranda séu sakarefni málsins óviðkomandi. Þá sé frásögn kæranda að flestu eða öllu leyti röng.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar er á það bent að jafnvel þótt fallist yrði á kröfugerð kæranda í málinu að þá myndi slíkt ekki fella niður kröfu um greiðslu þóknunar vegna starfa í þágu aðilans enda lúti kröfugerðin aðeins að því að tiltekinn reikningur verði felldur úr gildi. Þá byggir kærði á að krafa kæranda um þóknun fái ekki komist að í málinu enda hafi hún ekki verið höfð uppi í upphaflegri kvörtun til nefndarinnar.

Kærði kveðst hafna því að hann hafi átt frumkvæði að þeirri vinnu sem unnin hafi verið. Er um það efni vísað til framlagðra gagna í málinu þar sem skýrlega komi fram að vinnan hafi verið innt af hendi að frumkvæði og samkvæmt beiðni kæranda. Þá bendir kærði á að vegna trúnaðar við viðskiptamenn sé honum ófært að leggja fram sundurliðað símtalayfirlit.

Kærði vísar til þess að málatilbúnaður kærandi byggi á því að lögmenn séu með einhverjum hætti margar ólíkar persónur, hver og einn. Þannig séu samskipti við lögmann gegnum uppgefnar samskiptaupplýsingar á lögmannalista samskipti við lögmenn en samskipti eftir öðrum leiðum séu við aðra persónu viðkomandi einstaklinga sem ekki séu lögmenn. Er á það bent að umrætt netfang kærða hafi verið á tilgreindum lista á árunum 2016 og 2017 auk þess sem skýrt komi fram í undirritun kærða á netfanginu að kærði sé lögmaður og starfi fyrir C ehf.

Kærði kveðst hafa unnið þau verkefni sem um ræðir samkvæmt ótvíræðum beiðnum kæranda í fyrirliggjandi tölvubréfum. Byggir aðilinn á að framlögð gjaldskrá, reikningur og tímaskýrsla sýni að um sanngjarna gjaldtöku kærða hafi verið að ræða fyrir þá vinnu sem innt hafi verið af hendi. Hafi kæranda ekki getað dulist að hann væri að leita til lögmanns og þyrfti að greiða fyrir vinnuna.

Að endingu áréttar kærði staðreyndir málsins og hið lögfræðilega úrlausnarefni. Kærandi hafi leitað til kærða sem lögmanns, sem vissulega sé einnig bróðir kæranda, með ósk um að tiltekin vinna yrði innt af hendi fyrir sig og nágranna sína. Í kjölfar þess að því verkefni hafi verið lokið hafi kærandi óskað eftir að kærði myndi vinna annað erindi fyrir sig persónulega og eiginkonu sína. Byggir kærði á að kærandi hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu að verkin hafi átt að vera endurgjaldslaus. Er sérstaklega á það bent að kærandi hafi ekki haldið því fram að umfang vinnu samkvæmt hinum umþrætta reikningi sé ósanngjörn eða röng. Einungis sé þannig á því byggt að kærandi hafi með einhverjum hætti venjuhelgað endurgjaldslaus afnot af aflahæfi kærða án þess að vísað sé til samnings eða réttarreglu sem gæti veitt stoð undir slíkar fullyrðingar.

Niðurstaða

I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

II.

Eins og áður greinir leitaði kærandi til kærða í janúarmánuði 2018 vegna forsagnar deiliskipulags að x-götu í Reykjavík sem kynnt hafði verið en kærandi mun vera eigandi fasteignar í viðkomandi götu. Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir samskiptum aðila um þetta efni frá 1. til 10. janúar 2018 og þeim verkum sem kærði sannanlega innti af hendi samkvæmt beiðni og í þágu kæranda.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort kærði eigi rétt til endurgjalds úr hendi kæranda fyrir störf sín samkvæmt reikningi nr. 18 sem gefinn var út þann 28. febrúar 2018 að fjárhæð 111.154 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tilgreiningu á reikningnum tók hann til 4,5 klukkustunda á útseldu tímagjaldi að fjárhæð 24.900 krónur auk virðisaukaskatts en afsláttur var tilgreindur 20%. Var því lýst á reikningnum að um væri að ræða vinnu vegna skipulagsmáls í janúarmánuði 2018. Nánari lýsingu á einstökum verkþáttum var að finna í tímaskýrslu kærða vegna tímabilsins frá 6. til 10. janúar 2018. Í tímaskýrslunni greinir að heildarfjöldi vinnustunda vegna verksins hafi verið 6,25 klukkustundir. Þannig voru 2 klukkustundir færðar í tímaskýrslu kærða þann 6. janúar 2018, þ.e. vegna samskipta, símtals, tölvubréfs o.fl., gagnaleitar og yfirferðar gagna. Þá skráði kærði 1,75 klukkustund á málið þann 7. janúar 2018 vegna ritunar bréfs, frágangs, tölvubréfsamskipta og símtals en 2,5 klukkustundir voru færðar á málið þann 10. sama mánaðar vegna skoðunar gagna, ritunar bréfs, frágangs, tölvubréfs og símtals.

Krafa kæranda um niðurfellingu hins umþrætta reiknings er að meginstefnu til reist á því að hann sé tilhæfulaus þar sem kærandi hafi leitað til kærða sem bróður en ekki sem lögmanns eins og margoft hafi gerst áður og framlögð gögn beri með sér. Verði kærði þannig að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt kæranda í upphafi samskipta, sem farið hafi fram í gegnum persónuleg netföng, að gjaldtaka væri fyrirhuguð vegna verksins. Þá hafi hvorki verið til staðar verkbeiðni né verksamningur á milli aðila né hafi kærði haft umboð kæranda til að annast verkið.

Málatilbúnaður kærða er hins vegar reistur á því að hann hafi unnið þau verkefni sem um ræðir samkvæmt ótvíræðum beiðnum kæranda í fyrirliggjandi tölvubréfum. Byggir aðilinn á að framlögð gjaldskrá, reikningur og tímaskýrsla sýni að um sanngjarna gjaldtöku kærða hafi verið að ræða fyrir þá vinnu sem innt hafi verið af hendi. Hafi kæranda ekki getað dulist að hann væri að leita til lögmanns og þyrfti að greiða fyrir vinnuna. Beri kærandi sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu að verkin hafi átt að vera endurgjaldslaus. Þá sé því ekki haldið fram af hálfu kæranda að umfang vinnu samkvæmt hinum umþrætta reikningi sé ósanngjörn eða röng. Einungis sé á því byggt að kærandi hafi með einhverjum hætti venjuhelga endurgjaldslaus afnot af aflahæfi kærða án þess að vísa sé til samnings eða réttarreglu sem gæti veitt stoð undir slíkar fullyrðingar.

Ágreiningslaust er að kærandi leitaði til kærða í byrjun janúarmánaðar 2018 með beiðni um að aðilinn myndi gera drög að mótmælabréfi vegna forsagnar þess deiliskipulags sem áður greinir. Var hið umbeðna verk ætlað þeim eigendum að x-götu í Reykjavík sem vildu ljá nafn sitt við erindið. Fyrir liggur að kærði sinnti því verki og gerði í framhaldi þess jafnframt drög að öðru bréfi, samkvæmt beiðni og fyrirmælum kæranda, sem ætlað var kæranda sjálfum og eiginkonu hans vegna sama málefnis.

Eins og áður greinir er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Er tilgreint ákvæði í samræmi við almennar meginreglur kröfuréttar um að kaupanda þjónustu beri almennt að inna sanngjarnt endurgjald af hendi fyrir vinnu sem innt sé af hendi, en sú regla fær meðal annars stoð í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup.

Af málatilbúnaði aðila og fyrirliggjandi gögnum verður að leggja til grundvallar að kærandi hafi beint þeirri verkbeiðni til kærða sem um ræðir á grundvelli sérfræðiþekkingar hins síðarnefnda sem lögmanns. Að mati nefndarinnar verður hvorki ráðið af gögnum málsins að aðilar hafi gengið út frá því í upphafi samskipta og við vinnslu kærða á verkinu að það yrði án endurgjalds né að kærandi hafi getað gengið út frá að svo yrði í ljósi sifjatengsla aðila. Þegar litið er til málatilbúnaðar kæranda og framlagðra gagna af hans hálfu verður heldur ekki fallist á að hann hafi í máli þessu sýnt fram á að víkja hafi átt frá þeim meginreglum kröfuréttar sem áður er lýst með þeim hætti að vinna og þjónusta kærða í þágu og samkvæmt beiðni kæranda yrði endurgjaldslaus. Breytir hvorki staða málsaðila sem bræðra eða fyrri ótengd samskipti þeirra nokkru í því samhengi né að notast hafi verið við persónuleg netföng í samskiptunum, en um það efni er þess sérstaklega að gæta að kærandi sjálfur beindi upphaflegu erindi og verkbeiðni til kærða á hið persónulega netfang aðilans og mótaði með því grundvöll að samskiptamáta aðila að þessu leyti. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að kærða, sem lögmanni, hafi verið rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín í þágu kæranda.

Af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila verður hvorki ráðið að kærði hafi gert kæranda grein fyrir áætluðum verkkostnaði né á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð. Fyrir liggur hins vegar að kærandi leitaði til kærða með skömmum fyrirvara í ársbyrjun 2018 vegna verksins en þegar lá þá fyrir að frestur til að skila inn mótmælum við forsögn deiliskipulagsins myndi renna út þann 12. janúar 2018. Tók kærði að sér verkið og skilaði því af sér innan þess skamma frests sem honum var markaður.

Skylda lögmanns til að upplýsa skjólstæðing sinn um verkkostnað, sbr. framangreind ákvæði laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna, er virk á meðan verkinu vindur fram. Ágreiningslaust er að kærandi var ekki upplýstur um áfallnar vinnustundir og áskilda þóknun kærða fyrr en með útgáfu reiknings hins síðarnefnda þann 28. febrúar 2018. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að þegar sanngjörn þóknun er metin, sé tekið nokkurt tillit til þess að ekkert liggur fyrir um að kærði hafi gert kæranda grein fyrir áætluðum verkkostnaði né á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð í upphafi samskipta aðila. Hins vegar ber að líta til hins knappa tíma sem kærða var ætlað til verksins sem og til þess að kærði veitti kæranda 20% afslátt við hina umþrættu reikningagerð eins og sérstaklega er tiltekið á reikningnum. Af framlagðri tímaskýrslu kærða verður jafnframt ráðið að ekki hafi verið reikningsfært fyrir allar áfallnar vinnustundir kærða vegna verksins.

Að mati nefndarinnar var tímagjald kærða, að teknu tilliti til þess afsláttar sem veittur var samkvæmt hinum umþrætta reikningi, ekki úr hófi. Þá verður ekki séð að tímafjöldi samkvæmt reikningi kærða sé umfram það sem vænta mátti miðað við það verkefni sem leggja verður til grundvallar að kærða hafi verið falið að sinna.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, gögnum málsins og að teknu tilliti til þess að kærði veitti kæranda 20% afslátt samkvæmt hinum umþrætta reikningi er það mat nefndarinnar að hvorki séu efni til að fella niður hinn umþrætta reikning né til að lækka áskilda þóknun kærða vegna starfa aðilans í þágu kæranda. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærða í þágu kæranda sé 111.154 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um að hinn umþrætti reikningur verði felldur niður.

Það athugast að kærandi hefur í viðbótarathugasemdum sínum fyrir nefndinni borið því við að kærði hafi gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Um slíkt efni er þess að gæta að kvörtun kæranda var upphaflega afmörkuð við ágreining um rétt kærða til endurgjalds fyrir störf sín í þágu kæranda, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. Samkvæmt því fær málatilbúnaður aðilans um að kærði hafi á einhvern hátt gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, umfram það sem áður greinir og varðar með beinum hætti ágreining aðila um rétt til endurgjalds vegna lögmannsstarfa, ekki komist að fyrir nefndinni.

III.

Áður er rakið efni 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 þar sem fram kemur að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Samkvæmt 1. tl. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna er hlutverk nefndarinnar að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum.

Auk kröfu kærða um að kröfum kæranda verði hafnað fyrir nefndinni hefur aðilinn krafist þess í greinargerð sinni að kveðið verði á um aðfararhæfi fjárkröfu, að fjárhæð 111.154 krónur með virðisaukaskatti, samkvæmt reikningi dags. 28. febrúar 2018 auk vaxta samkvæmt 3. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags, að viðbættri þóknun vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Ágreiningi í máli þessu var skotið til nefndarinnar með erindi kæranda sem móttekið var þann 27. mars 2018. Í stað þess að beina kröfu um aðfararhæfi þeirrar fjárkröfu sem að ofan greinir til nefndarinnar með sjálfstæðu erindi eins og heimilt hefði verið á grundvelli 26. gr. laga nr. 77/1998 og 3. gr. málsmeðferðarreglnanna kaus kærði að hafa hana uppi í greinargerð með andsvörum og umsögn aðilans vegna erindis kæranda til nefndarinnar. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild. Með vísan til þessa verður ekki hjá því komist að vísa kröfu kærða að þessu leyti frá nefndinni, sbr. einnig úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna 28. júní 2017 í máli nr. 31/2016 og 20. júní 2018 í máli nr. 12/2018.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun kærða, B, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Kröfu kærða um að kveðið verði á um aðfararhæfi fjárkröfu að fjárhæð 111.154 krónur með virðisaukaskatti, samkvæmt reikningi dagsettum 28. febrúar 2018 auk vaxta samkvæmt 3. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags, að viðbættri þóknun vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Helgi Birgisson lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson