Mál 3 2018

Ár 2018, 22. mars 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. janúar 2018 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 19. janúar 2018 og barst hún þann 24. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi dags. 25. janúar 2018. Hinn 7. febrúar 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða þann sama dag. Svar kærða barst 15. febrúar 2018 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 16. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Þann 7. mars 2018 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir frá kæranda. Var kærða tilkynnt um þær með bréfi nefndarinnar dags. 13. mars 2018.  Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins og málsatvikalýsingum aðila munu kærandi og fyrrverandi sambúðarmaki aðilans hafa slitið samvistum í árslok 2013. Í kjölfar þess mun hafa risið ágreiningur á milli tilgreindra aðila vegna fjárslita þeirra annars vegar og vegna forsjár- og umgengnismála hins vegar vegna ólögráða sonar þeirra.

Kærði gætti hagsmuna gagnaðila kæranda vegna tilgreindra mála en í málatilbúnaði hins fyrrnefnda fyrir nefndinni er vísað til þess að deilu um fjárslit hafi lokið með dómi Hæstaréttar x. janúar 2016 í máli nr. xxx/2016 en að deila vegna forsjár- og umgengnismála hafi verið til lykta leidd með dómsátt sem gerð hafi verið í Héraðsdómi Y þann x. janúar 2017. Vísar kærði til þess að með gerð tilgreindrar dómsáttar hafi aðkomu hans að deilunni lokið.

Um þetta efni er vísað til þess í málatilbúnaði kæranda að ágreiningur aðilans og fyrrverandi sambúðarmaka hafi leitt til opinberra skipta til fjárslita milli þeirra og að þeim skiptum hafi lokið í júnímánuði 2017. Forræðisdeilunni hafi hins vegar lokið með sátt fyrir dómi x. janúar 2017. Hafi gagnaðili kæranda verið með fjóra lögmenn við opinberu skiptin en að kærði hafi annast málarekstur fyrir dómstólum og fyrri samskipti við skiptastjóra. Þá hafi kærði annast allan málarekstur fyrir gagnaðila kæranda í forsjár- og umgengnismáli aðila.

Í kvörtun kæranda til nefndarinnar er því lýst að hún lúti að þeim tveimur dómsmálum sem rekin hafi verið og eftirmálum þeirra. Í kvörtuninni er að finna lýsingu á meintum brotum kærða á nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna gagnvart kæranda. Auk hinna meintu brota, sem lýst er í níu liðum í kvörtun kæranda, hefur aðilinn lagt fram fjölda skjala fyrir nefndinni til stuðnings kröfugerð sinni og málatilbúnaði. Verður gerð grein fyrir tilgreindum gögnum við lýsingu á málsástæðum aðila fyrir nefndinni, eftir því sem við getur átt.

II.

Í kvörtun kæranda er þess krafist að kærði verði áminntur vegna ítrekaðra brota á siðareglum lögmanna.

Kvörtun kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna vegna háttsemi kærða og meintra brota hans á ákvæðum siðareglna lögmanna er sett fram í níu liðum. Verður nú gerð grein fyrir þeim kvörtunarefnum ásamt þeim gögnum sem kærandi byggir kröfugerð og málatilbúnað sinn á fyrir nefndinni í hverju tilviki.

  1. Meint brot kærða gegn 20. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi lagt fram erindi fyrir hönd síns skjólstæðings til viðkomandi sýslumannsembættis þar sem farið hafi verið fram á ákvörðun embættisins um umgengni skjólstæðings kærða við barn hans og kæranda. Hafi sýslumannsembættið boðað aðila vegna þessa til sáttameðferðar þann x. apríl 2014. Vísar kærandi til þess að samkvæmt fyrirliggjandi tölvubréfi frá ritara skjólstæðings kærða til kæranda, dags. x. apríl 2014, hafi verið upplýst að hann gæti ekki mætt í umrædda sáttameðferð og hefði kærandi því mætt einn til fyrirtökunnar. Fær ofangreint stoð í vottorði viðkomandi sýslumannsembættis um sáttameðferð, dags. x. maí 2014, sem liggur fyrir í gögnum málsins fyrir nefndinni.

Vísar kærandi til þess að fyrsta staðreyndarvilla kærða komi fram í greinargerð sem hann hafi undirritað fyrir hönd skjólstæðings síns og lagt fram á dómþingi Héraðsdóms Y þann x. október 2015, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/2015, í því forræðismáli sem rekið hafi verið. Nánar tiltekið gerir kærandi athugasemdir við eftirfarandi lýsingu í greinargerðinni, sem liggur fyrir í gögnum málsins fyrir nefndinni:

Stefnandi [kærandi] sagði sig frá sáttameðferð og hefur ekki viljað mæta í ráðgjöf með stefnda [skjólstæðingi kærða] til að leysa úr ágreiningi og koma á samskiptum.“

Bendir kærandi á að hann hafi mætt á boðaðan fund hjá sýslumanni og þannig klárlega „viljað mæta í ráðgjöf.“ Hafi þær staðreyndir legið fyrir við ritun ofangreindrar greinargerðar. Byggir kærandi á að með þessari háttsemi hafi kærði brotið gegn 20. gr. siðareglna lögmanna.

  1. Meint brot kærða gegn 20. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi kveður að hann hafi þann 6. febrúar 2015 óskað eftir að skjólstæðingur kærða myndi skrifa undir endurnýjun á vegabréfi barns þeirra vegna fyrirhugaðrar utanferðar. Skjólstæðingur kærða hafi hins vegar skilyrt undirskrift sína við að hitta barnið í tvær mínútur, sbr. fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti sem kærandi vísar til og liggja fyrir í málsgögnum. Kveður kærandi að skjólstæðingur kærða hafi gert þá kröfu þrátt fyrir að fyrir hafi legið niðurstaða sálfræðings hjá sýslumanni, dags. 2. júlí 2014, um afstöðu barnsins til umgengninnar, sem jafnframt liggur fyrir í málsgögnum. Telur kærandi að ofangreint skilyrði hafi ekki verið neitt annað en neitun þar sem afstaða barnsins varðandi umgengnina hafi legið ljós fyrir. Þá hafi skjólstæðingur kærða neitað því í 33 daga að skrifa undir umsóknina eða allt þar til sýslumaður hafi veitt honum frest í því skyni til nánar tilgreindrar dagsetningar.

Í samræmi við lýsingu þessa byggir kærandi á að kærði hafi brotið gegn 20. gr. siðareglna lögmanna með eftirfarandi ummælum í áðurnefndri greinargerð til héraðsdóms í málinu nr. E-xxxx/2015, sem lögð var fram á dómþingi þann x. október 2015:

Tekið skal fram að stefndi [skjólstæðingur kærða] neitaði aldrei um undirskrift vegna utanferðar drengsins þó að hann hafi vissulega óskað eftir því að fá að hitta drenginn í 2 mínútur, sbr. dskj. 24. Það fékk hann vitaskuld ekki að gera – ekki frekar en annað. Það er því alrangt að hann hafi neitað að skrifa undir skjalið.“

  1. Meint brot kærða gegn 35. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til þess að skjólstæðingur kærða hafi áreitt sig og börn þeirra um langt skeið og að á grundvelli ráðlegginga hafi verið leitað til lögreglu í septembermánuði 2015. Hafi skjólstæðingur kærða í framhaldi af þessu verið kallaður til lögreglu í því skyni að fá hann til að undirrita skjal um að láta kæranda og börn þeirra í friði. Hafi þær aðgerðir byggt á skjallegum gögnum um hótanir. Í kjölfar þessa hafi verið settar krækjur á síma kæranda og barna þeirra.

Bendir kærandi á að í framhaldi þessa hafi kærði áframsent til sín tölvubréf, þ.e. nánar tiltekið þann 11. nóvember 2015 en samkvæmt gögnum málsins mun tölvubréfinu hafa verið beint áður til lögmanns kæranda í samræmi við áskilnað siðareglna lögmanna þar að lútandi, þar sem eftirfarandi hafi verið tiltekið:        

Við svo bætist þegar grundvöllur aðkomu lögreglu er enginn. Jaðrar þetta athæfi a.m.k. við að falla undir ákvæði XV. kafla almennra hegningarlaga um rangan framburð og rangar sakargiftir, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hér koma einkum til álita ákvæði 142., 145. og 147. gr. laganna. Er allur réttur áskilinn í því sambandi af hálfu umbj. míns. Skorað er á umbj. þinn að láta þegar í stað af aðgerðum sem þessum.“

Byggir kærandi á að kærði hafi með háttsemi sinni að þessu leyti brotið gegn 35. gr. siðareglna lögmanna. Hafi tilgreint lögreglumál verið fyrir utan fjárskipta- og forræðismál aðila. Þá hafi kærandi verið í fullum rétti til að leita verndar hjá lögreglu.

  1. Meint brot kærða gegn 20. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til þess að gerð hafi verið dómsátt í áðurnefndu héraðsdómsmáli nr. E-xxxx/2015, þar sem ágreiningur hafði meðal annars varðað forsjá og umgengni við barn málsaðila í tilgreindu máli.

Byggir kærandi á að kærði hafi brotið gegn 20. og 34. gr. siðareglna lögmanna með eftirfarandi ummælum í greinargerð sem kærði hafi undirritað fyrir hönd skjólstæðings síns og lagt fram á dómþingi í tilgreindu máli þann x. október 2015:

            „..stefnandi [kærandi] er alls óhæf til að fara ein með forsjá drengsins.

...því sé drengurinn betur settur að vera ekki í neinum samskiptum við föðurinn er ólíðandi nálgun og fráleit með öllu.“

„..innsæisskorts stefnanda, vankunnáttu hennar við að greina rétt frá röngu, heiftar hennar og reiði í garð stefnda [skjólstæðings kærða] sem er augljós og kemur í veg fyrir eðlilegt samband stefnda við barn sitt, skorts á andlegum stöðugleika vegna þessa, og fjölmargra fleiri atriða..

„..stefnandi hefur beitt stefnda andlegu, og reyndar einnig líkamlegu ofbeldi og nýtt sér aðstöðu sína til hins ítrasta í þeim efnum. Til að mynda réðist hún á stefnda fyrir framan börnin inni á baðherbergi og beitti hann ofbeldi, með fjölmörgum hnefahöggum í andlit og skrokk. Stefndi hélt hendi fyrir ofan höfuð sér til að verjast höggunum en gerði annars ekkert nema lét höggin dynja á sér..

Byggir kærandi á að umfjöllun kærða um kæranda í tilgreindri greinargerð sé eintómur rógburður, ósannindi og innihaldi ærumeiðandi ummæli. Þá hafi engin gögn legið til grundvallar ummælunum. Því til stuðnings bendir kærandi á að samkvæmt dómsáttinni hafi allar kröfur kæranda verið samþykktar. Auk þess hafi kærði komið að máli við son málsaðila í áður lýstu dómsmáli eftir gerð dómsáttarinnar þann x. janúar 2017 þar sem hann hafi sannfært drenginn um að sáttin væri betri fyrir hann en að kærandi fengi dæmt forræðið. Þá hafi hann tiltekið að drengurinn fengi ekki betri niðurstöðu en þá sem fram kæmi í sáttinni, þ.e. að afstaða hans yrði virt, að faðir hans mætti ekki nálgast hann og að hann mætti ferðast án sérstaks leyfis frá skjólstæðingi kærða.

Bendir kærandi á að kærði hafi með þessu talað gegn sjálfum sér samkvæmt ofangreindum ummælum í greinargerð til dómsins. Með því hafi kærði jafnframt brotið gegn 20. og 34. gr. siðareglna lögmanna. Slíkt hið sama leiði af því að kærði hafi verið reiðubúinn að ráðleggja hvort tveggja skjólstæðingi sínum og syni hans að skrifa undir sáttina þrátt fyrir ummæli í greinargerð um meint óhæfi kæranda til að sjá um umönnun barna málsaðila.

  1. Meint brot kærða gegn 2. mgr. 8. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi byggir á að kærði hafi samkennt sig við skjólstæðing sinn í ræðu og riti. Vísar aðilinn til þess að kærði hafi verið sérstaklega viðskotaillur í þeim tilvikum þegar skjólstæðingur hans hafi verið viðstaddur. Kærði hafi hins vegar sýnt vinsamlegri hegðun að skjólstæðingnum fjarstöddum. Telur kærandi að kærði hafi átt að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Þá telur kærandi að kærða hafi borið að hafa heimil á sjálfum sér og sínum skjólstæðing. Með háttsemi sinni hafi kærði því jafnframt brotið gegn 34. gr. siðareglna löganna.

  1. Meint brot kærða gegn 1. gr., 6. gr., 2. mgr. 8. gr. og 35. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til þess að dóttir aðilans og skjólstæðings kærða hafi sent tölvubréf til skiptastjóra þann 16. mars 2016 þar sem gerð hafi verið krafa við hin opinberu skipti til fjárslita aðila. Fengu lögmenn málsaðila, þ. á m. kærði, sent afrit af tölvubréfinu. Með tölvubréfinu hafi skiptastjóra verið gerð grein fyrir því að sendandi væri eigandi að bifreið sem skráð hefði verið á kæranda vegna lögaldurs viðkomandi. Kveður kærandi að skiptastjóri hafi samþykkt kröfuna á síðari stigum.

Tilgreint tölvubréf liggur fyrir í gögnum málsins sem og tölvubréf sem kærði sendi til kæranda og lögmanns aðilans þann 17. mars 2016 með fyrirspurn um hvort ekki væri rétt að halda börnum málsaðila fyrir utan fjárslitin. Vísar kærandi til þess að þrátt fyrir tilgreint tölvubréf hafi kærði svarað hinu fyrrgreinda tölvubréfi að kvöldi sama dags, sem liggur jafnframt fyrir í málsgögnum, þar sem farið hafi verið ítarlega yfir fjárslitin auk annarra atriða sem hafi reynst röng. Þá hafi kærði tiltekið að kærandi væri að fara fram á 80% af eignum sem skjólstæðingur kærða hafi unnið 90% fyrir. Hafi kærði sett fram tilgreinda staðhæfingu þrátt fyrir að í úrskurði héraðsdóms og dómi Hæstaréttar hafi verið lagt til grundvallar að allar eignir málsaðila hefðu orðið til á sambúðartíma með framlagi þeirra beggja.

Byggir kærandi á að með háttsemi sinni hafi kærði beitt kæranda ótilhlýðilegum þvingunum og með því brotið gegn 35. gr. siðareglna lögmanna. Hafi það verið hlutverk skiptastjóra að svara tilgreindu tölvubréfi og taka afstöðu til krafna en ekki kærða. Jafnframt hafi kærði brotið gegn 1. og 6. gr. siðareglnanna með því að tiltaka í tölvubréfi sínu atriði sem hefðu verið dóttur málsaðila að fjárslitunum óviðkomandi auk þess að fara með rangt mál. Þá hafi kærði ekki forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og með því brotið gegn 8. gr. siðareglnanna.

  1. Meint brot kærða gegn 35. gr. siðareglna lögmanna.

Í gögnum málsins liggur fyrir tölvubréf kærða, dags. 27. júlí 2016, sem sent var til aðila að fjárslitamálinu, þ. á m. kæranda, sem og til lögmanna þeirra og skiptastjóra. Bendir kærandi á að í tölvubréfinu hafi verið tiltekið að samningaviðræður hefðu siglt í strand og að setja ætti þá fasteign sem kærandi byggi í með börnum á sölu. Byggir kærandi á að í tölvubréfinu hafi falist hótun af hálfu kærða, þ.e. að fasteignin yrði seld ef kærandi gengi ekki að kröfum skjólstæðings aðilans. Hafi kærði með því brotið gegn 35. gr. siðareglna lögmanna.

  1. Meint brot kærða gegn 3. mgr. 8. gr., 20. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til eftirfarandi ummæla í greinargerð sem kærði hafi undirritað fyrir hönd skjólstæðings síns og lagt fram á dómþingi Héraðsdóms Y þann x. apríl 2015, sbr. héraðsdómsmálið nr. Q-xx/2014, í máli sem rekið hafi verið vegna fjárslita aðila:

Má ætla að varnaraðili [kærandi] hafi í reynd haft allt að því sjúklega áráttu í þá veru að skrá eignir í sambúðinni á sig en ekki sóknaraðila.

Bendir kærandi á að með ummælunum hafi kærði vegið hart að sér með grófu orðalagi sem auk þess hafi verið helber ósannindi. Þá vísar kærandi til kunnáttuleysis kærða að lesa úr fjárhagsupplýsingum, sbr. fyrirliggjandi skattframtöl málsaðila að fjárslitunum sem hafi legið fyrir við ritun greinargerðarinnar og ólíkar viðskiptaákvarðanir þeirra á sambúðartíma.

Byggir kærandi á að kærði hafi með háttsemi sinni að þessu leyti brotið gegn 3. mgr. 8. gr., 20. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

  1. Meint brot kærða gegn 1. gr. og 20. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til áðurnefndra greinargerða sem kærði hafi undirritað fyrir hönd skjólstæðings síns og lagt fram á dómþingi í þeim málum sem rekin hafi verið. Bendir kærandi á að tilgreining um samverustundir skjólstæðings kærða með börnum sínum í viðkomandi greinargerðum stangist á við ráðningarsamning skjólstæðingsins og áunnið orlof. Samkvæmt því standist ummæli í greinargerðum ekki skoðun og séu því ósönn. Slíkt hið sama leiði af tilgreiningu á fjarveru skjólstæðings kærða í greinargerð aðilans í máli sem rekið hafi verið vegna fjárslita.

Byggir kærandi á að kærði hafi með viðkomandi ummælum brotið gegn 1. og 20. gr. siðareglna lögmanna enda hafi kærði hvort tveggja verið tvísaga í máli sínu auk þess að setja fram ósannindi.

Um allt framangreint byggir kærandi á að sú krafa hljóti að vera gerð til lögmanna að þeir sinni viðkvæmum málum, sem sifjamál eru, með ýtrustu nærgætni og fylgi siðareglum lögmanna til hlítar. Bendir aðilinn á að í báðum greinargerðum, sem kærði hafi ritað og lagt fram á dómþingi fyrir hönd skjólstæðings síns, hafi verið viðhöfð ærumeiðandi ummæli sem sé óásættanlegt. Þá geti kærandi ekki sætt sig við að farið sé rangt með staðreyndir og að ósönnuð ærumeiðandi ummæli séu höfð um fólk.

Þá er tiltekið í kvörtun kæranda að ástæða þess að hún hafi ekki verið lögð fyrr fyrir úrskurðarnefnd lögmanna sé tvíþætt. Bendir aðilinn annars vegar um það efni á það að sonur aðilans eigi eftir að fá greitt meðlag samkvæmt dómsátt í því forsjármáli sem rekið hafi verið. Hins vegar er á það bent að fjárskiptamálinu hafi ekki lokið fyrr en í júnímánuði 2017 og hafi kærandi viljað vera viss um að öllum samskiptum við kærða væri lokið.

Í samræmi við framangreint krefst kærandi þess að kærði verði áminntur vegna brota á ákvæðum siðareglna lögmanna. Þá bendir aðilinn á að veigamiklir hagsmunir almennings á jafn viðkvæmum málaflokki réttlæti að úrskurðurinn verði birtur opinberlega með nafni.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða fyrir nefndinni er varðandi formhlið málsins vísað annars vegar til þess að dómsátt hafi verið gerð í forsjármálinu þann x. janúar 2017. Kvörtun hafi verið lögð fyrir úrskurðarnefnd þann 19. janúar 2018 sem sé innan árs frá því að sátt hafi verið gerð. Hins vegar er vísað til þess að þótt dómur Hæstaréttar hafi verið uppkveðinn þann x. janúar 2016 í því fjárskiptamáli sem rekið hafi verið að þá hafi opinberum skiptum ekki lokið fyrr en þann x. maí 2017, sbr. fyrirliggjandi samkomulag frá þeim degi. Hafi kvörtun því verið lögð inn átta mánuðum frá skiptalokum en kærði hafi meðal annars gætt hagsmuna gagnaðila kæranda við skiptin.

Samkvæmt framangreindu byggir kærandi á að kvörtunin hafi verið lögð fyrir úrskurðarnefnd innan tímamarka. Þá byggir aðilinn á að hann hafi ekki átt kost á að senda inn kvörtunina fyrr. Um það efni er vísað til þess að úrskurðarnefnd hljóti að vilja fá málin til sín í einu lagi, sér í lagi ef kvörtun varðar sömu aðila, sama lögmann og sömu mál innan árs frá því að kostur var að koma því á framfæri, eða þegar máli lýkur. Að öðrum kosti hefði kærandi þurft að leggja kvartanir reglulega fyrir úrskurðarnefnd frá upphafi máls og til loka þess. Auk þess hafi kærandi ekki þorað að senda inn kvörtun fyrr en allt hefði verið undirritað og frágengið vegna framgöngu kærða í málinu. Hafi harkan í málinu verið ástæða þess að kærandi hafi beðið eftir að öllum dómsmálum væri lokið. Jafnframt hafi kærandi beðið eftir að skjólstæðingur kærða myndi greiða meðlagsgreiðslur til sonar í samræmi við efni dómsáttar, dags. x. janúar 2017. Þá sé málinu í raun ekki enn lokið, sbr. það lögreglumál sem lýst hafi verið undir 3. lið í kvörtun kæranda auk þess sem efndir eigi enn eftir að fara fram samkvæmt áður lýstri dómsátt.

Um efnishlið málsins hafnar kærandi því í viðbótarathugasemdum sínum að í kvörtuninni sé hallað efnislegu réttu máli og að atriði séu slitin úr samhengi. Er á það bent að báðar greinargerðir, sem málið taki til, hafi verið lagðar fram í heild sinni sem og tölvubréf á milli aðila frá upphafi til enda. Þá sé hvert kvörtunaratriði stutt gögnum.

Um hörkuna í málinu og nauðsyn þess að sýna töluverða festu, sem kærði hafi lýst í málatilbúnaði sínum, þá bendir kærandi á að sú háttsemi í málinu hafi einungis komið úr einni átt. Hafi aldrei verið minnst á við kæranda að aðilinn eða lögmaður hans hafi komið fram með ótilhlýðilegum hætti.

Varðandi málatilbúnað kærða um rúmt tjáningarfrelsi lögmanna bendir kærandi á að horfa verði til þess að öllu frelsi fylgi ábyrgð. Komi ábyrgðin fram í siðareglum lögmanna sem lögmönnum beri að fara eftir.  Þá er á það bent að hvergi komi fram í kvörtun kæranda að óskað sé eftir áliti vegna réttarágreinings sem heyri undir dómstóla.

Að endingu mótmælir kærandi kröfu kærða um málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

III.

Kærði krefst þess aðallega að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfu kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði þess að kæranda verði gert að greiða sér málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varðandi formhlið málsins vísar kærði til þess að vísa beri kvörtuninni frá nefndinni þar sem lengra en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, varðandi öll þau atriði sem í henni greinir nema eitt. Það atriði lúti að staðhæfingu um að kærði hafi átt samtal við son kæranda, 17 ára að aldri, í þinghaldi þann x. janúar 2017 í því forsjármáli sem rekið hafi verið. Kveðst kærði ekki muna sérstaklega eftir því samtali en ekkert hafi verið óeðlilegt við það hafi það farið fram, svo sem lýst sé í kvörtuninni.

Um efnishlið málsins vísar kærði til þess að hann hafni alfarið staðhæfingum um að hann hafi brotið gegn siðareglum lögmanna í málinu, hvort sem um ræði 1., 8., 20., 34., 35. gr. eða öðrum ákvæðum. Telur kærði að það fái augljóslega séð jafnvel þótt aðeins séu lögð til grundvallar þau brotakenndu fylgiskjöl sem kærandi hafi kosið að leggja fram í málinu. Þá sé í kvörtuninni sjálfri og rakningu atvika þar víða hallað efnislega réttu máli og atriði slitin úr samhengi. Kveðst kærði ekki ætla að elta ólar við einstakar staðhæfingar en bendir á að sú deila sem málið lúti að hafi verið mjög hörð og líklega harðasta deila sem aðilinn hafi komist í tæri við á lögmannsferli sínum. Deilunni hafi lokið hvað fjárslit varðar með dómi Hæstaréttar x. janúar 2016 í máli nr. xxx/2015, þar sem dæmt hafi verið skjólstæðingi aðilans í vil, og hins vegar hvað forræði o.fl. varðar með dómsátt sem gerð hafi verið í Héraðsdómi Reykjavíkur x. janúar 2017. Með gerð þeirrar dómsáttar hafi aðkomu kærða að deilunni lokið.

Bendir kærði á að sjá megi vísbendingu um hörku í deilunni og harða framgöngu beggja aðila og lögmanna þeirra í nánar tilgreindum orðum héraðsdóms sem staðfest hafi verið í Hæstarétti þann x. janúar 2016. Um það efni vísar kærði jafnframt til þess að líta verði til rúms tjáningarfrelsis lögmanna við hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga sína komi til efnislegrar úrlausnar málsins.

Vísar kærði til þess að með áðurnefndum dómi Hæstaréttar hafi verið leyst úr sönnunaratriðum í því máli og niðurstaða fengin um að í reynd hafi skjólstæðingur hans haft í flestum atriðum rétt fyrir sér. Í umgengnismálinu hafi ekki verið fyrir að fara efnislegra úrlausn en dómsátt gerð. Hafi því ekki fengist í því máli úrlausn um staðhæfingar sem fram hefðu verið færðar í greinargerðum. Fráleitt sé að úrskurðarnefnd geti farið ofan í saumana á einstaka staðhæfingum og metið með tilliti til gagna hvort rétt eða rangt hafi verið farið með. Slíkt verði að vera verkefni dómstóla.

Byggir kærði á að við hagsmunagæslu í málinu hafi hann í hvívetna gætt að siðareglum lögmanna. Bendir aðilinn á að málið hafi krafist þess að gengið væri fram af töluverðri festu og að slíkt hið sama hafi átt við um lögmann kæranda sem hafi í engu slegið af. Ekki sé hægt að kvarta yfir því fremur en framgöngu kærða. Með þessu hafi lögmennirnir gætt hagsmuna sinna skjólstæðinga til hins ýtrasta svo sem siðareglur lögmanna krefjast, sbr. 1. og 8. gr. þeirra, en innan heimilla marka.

Í viðbótarathugasemdum kærða ítrekaði aðilinn fyrri málatilbúnað sinn og lagði málið í úrskurð.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá er tiltekið í ákvæðinu að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Fyrir liggur að kærandi og fyrrverandi sambúðarmaki aðilans slitu samvistum í árslok 2013. Þá liggur fyrir að ágreiningur reis í kjölfar þess á milli tilgreindra aðila vegna fjárslita þeirra annars vegar og forsjár- og umgengnismála hins vegar vegna ólögráða sonar þeirra. Ágreiningslaust er að kærði gætti hagsmuna gagnaðila kæranda vegna tilgreindra mála, þ. á m. fyrir dómstólum en tvö dómsmál munu hafa verið rekin vegna ágreiningsins. Var dómur vegna ágreinings um fjárslit uppkveðinn í Hæstarétti þann x. janúar 2016, sbr. mál réttarins nr. xxx/2016, en dómsmáli vegna ágreinings um forsjá og umgengni lauk með réttarsátt í Héraðsdómi Reykjavíkur þann x. janúar 2017, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/2015.

Í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni hefur aðilinn vísað til þess að aðkomu hans að deilunni hafi lokið með gerð réttarsáttar í hinu síðar tilgreinda máli þann x. janúar 2017. Kærandi hefur hins vegar um þetta efni bent á að ágreiningur vegna fjárslita hafi leitt til opinberra skipta og að þeim skiptum hafi ekki lokið fyrr en með gerð samkomulags um það efni, dags. x. maí 2017. Þá sé ýmsum öðrum málum enn ólokið sem varði lögskipti aðila og kærði sinni enn hagsmunagæslu vegna í þágu gagnaðila kæranda.

Kærði krefst þess í málinu að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni þar sem meira en eitt ár sé liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Kærandi hefur hins vegar andmælt þeirri kröfugerð kærða á þeim grundvelli að kvörtun hafi verið lögð fyrir úrskurðarnefnd innan árs frá gerð dómsáttar í því forsjármáli sem rekið hafi verið, þ.e. þann x. janúar 2017, auk þess sem ágreiningi vegna fjárslita hafi ekki lokið fyrr en með gerð samkomulags, dags. x. maí 2017. Þá hafi kærandi ekki átt þess kost að leggja kvörtunina fyrir úrskurðarnefnd fyrr þar sem aðilinn hafi viljað ljúka undirritun og frágangi allra mála vegna lögskiptanna áður í ljósi atvika málsins og framgöngu kærða í málinu. Þá hafi kærandi einnig beðið eftir að efndir meðlagsgreiðslna samkvæmt dómsátt færu fram.

Um þetta efni er þess í fyrsta lagi að gæta að þau kvörtunarefni sem lýst er í liðum nr. 1., 2., 4., 8. og 9. í kvörtun kæranda lúta öll að ummælum í greinargerðum sem kærði undirritaði fyrir hönd síns skjólstæðings, sem var gagnaðili kæranda, og lagði fram á dómþingum í þeim málum sem rekin voru vegna lögskiptanna og áður er lýst. Nánar tiltekið er þar annars vegar um að ræða nánar tilgreind ummæli í greinargerð sem lögð var fram á dómþingi Héraðsdóms Y þann x. október 2015 í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2015 í því forsjármáli sem þar var rekið. Hins vegar er um að ræða ummæli í greinargerð sem lögð var fram á dómþingi Héraðsdóms Y þann x. apríl 2015 í héraðsdómsmálinu nr. Q-xx/2014 vegna ágreinings um fjárslit aðila að tilgreindu máli. Byggir kærandi á að kærði hafi með háttsemi sinni brotið gegn 1. gr., 3. mgr. 8. gr., 20. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Að áliti nefndarinnar verður vegna tilgreindra kvörtunarefna ekki miðað við annað tímamark en framlagningu þeirra greinargerða sem áður er lýst á dómþingum í viðkomandi dómsmálum við mat á því hvenær kærandi átti þess kost að koma kvörtunum á framfæri í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Eins og áður greinir voru hin umþrættu ummæli viðhöfð í greinargerðum sem lagðar voru fram á dómþingum x. apríl 2015 og x. október 2015. Verður að mati nefndarinnar að ætla að kærandi hafi þá þegar haft tök á að kynna sér efni greinargerðanna, þar á meðal þau ummæli sem kvörtun aðilans lýtur að, og átt þann kost að koma kvörtun á framfæri. Kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin af úrskurðarnefnd lögmanna þann 19. janúar 2018 en þá þegar voru tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum liðnir. Í ljósi fortakslauss ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. áður lýstra málsmeðferðarreglna fyrir nefndinni, getur nefndin hvorki fallist á að unnt sé að miða upphaf ársfrestsins við endanleg málalok vegna undirliggjandi lögskipta líkt og kærandi byggir á í málatilbúnaði sínum né aðrar málsástæður sem kærandi hefur teflt fram fyrir nefndinni um þetta efni.

Í lið nr. 4 í kvörtun kæranda er vísað til þess til stuðnings meintu broti kærða gegn 20. og 34. gr. siðareglna lögmanna, vegna ummæla í greinargerð í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2015, að kærði hafi komið að máli við son málsaðila að dómsmálinu eftir gerð dómsáttar þann x. janúar 2017 og viðhaft þar ummæli sem styðji hin ætluðu brot kærða gagnvart kæranda. Að áliti úrskurðarnefndar verður tilgreint kvörtunarefni ekki skilið á annan hátt en að hið meinta brot kærða að þessu leyti hafi falist í þeim ummælum sem hafi verið viðhöfð í greinargerð málsins en ekki eftirfarandi samskiptum kærða við drenginn þann x. janúar 2017. Samkvæmt því, sem og með vísan til þess að ekki verður séð hvernig kærði á að hafa gert á hlut kæranda vegna hinna eftirfarandi samskipta, verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að áður lýstur ársfrestur hafi verið liðinn vegna kvörtunarefnisins þegar úrskurðarnefnd móttók kvörtun kæranda þann 19. janúar 2018.

Í samræmi við allt framangreint verður ekki hjá því komist að vísa þeim kvörtunarefnum kæranda sem greinir í liðum nr. 1., 2., 4., 8. og 9. frá nefndinni.

Í öðru lagi er þess að gæta að þau kvörtunarefni sem lýst er í liðum nr. 3., 6. og 7. í kvörtun kæranda lúta að efni tölvubréfa sem kærði beindi ýmist til kæranda sjálfs og/eða lögmanns kæranda 11. nóvember 2015, sbr. lið nr. 3 í kvörtun, 17. mars 2016, sbr. lið nr. 6 í kvörtun, og 27. júlí 2016, sbr. lið nr. 7 í kvörtun. Byggir kærandi á að kærði hafi með efni tölvubréfanna brotið gegn 1. gr., 6. gr., 2. mgr. 8. gr. og 35. gr. siðareglna lögmanna.

Að áliti nefndarinnar verður vegna tilgreindra kvörtunarefna kæranda ekki miðað við annað tímamark en dagsetningu þeirra tölvubréfa sem um ræðir við mat á því hvenær kærandi átti þess kost að koma kvörtunum á framfæri í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Með hliðsjón af því að tölvubréfin voru send milliliðalaust til kæranda og/eða lögmanns aðilans verður að mati nefndarinnar að ætla að kærandi hafi þá þegar haft tök á að kynna sér efni þeirra og átt þann kost að koma kvörtun á framfæri. Eins og áður greinir var kvörtun kæranda í málinu móttekin þann 19. janúar 2018, þ.e. eftir að tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum voru liðnir. Samkvæmt því verður tilgreindum kvörtunarefnum vísað frá nefndinni.

Í þriðja og síðasta lagi lýtur það kvörtunarefni sem getur í lið nr. 5 í kvörtun kæranda að því að kærði hafi samkennt sig við skjólstæðing sinn í ræðu og riti og verið sérstaklega viðskotaillur í þeim tilvikum þegar skjólstæðingurinn hafi verið viðstaddur. Hafi viðmót kærða verið annað að skjólstæðingnum fjarstöddum. Þá hafi kærða borið að hafa hemil á sjálfum sér og á sínum skjólstæðingi. Hafi kærði með háttsemi sinni brotið gegn 2. mgr. 8. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Um þetta efni er til þess að líta að kvörtunarefnið varðar ekki ákveðna háttsemi eða tilvik eins og það hefur verið sett fram fyrir nefndinni heldur þvert á móti almenna hagsmunagæslu kærða í þágu skjólstæðings síns. Að teknu tilliti til annarra kvörtunarefna kæranda og málatilbúnaðar aðilans að öðru leyti verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að hin ætluðu brot kærða gegn ákvæðum siðareglna lögmanna að þessu leyti hafi verið viðhöfð fyrir 19. janúar 2017. Samkvæmt því, sem og með vísan til 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um nefndin geti vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði sem örðugt er að leysa úr undir rekstri þess eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, verður kvörtunarefni þessu jafnframt vísað frá nefndinni.

Að öllu þessu gættu er óhjákvæmilegt að vísa kvörtun kæranda frá úrskurðarnefnd lögmanna í heild sinni með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. og 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson