Mál 17 2018

Mál 17/2018

Ár 2018, 17. desember 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2018:

A og B,

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. september 2018 erindi kærenda, A og B, þar sem kvartað er yfir því að kærði, C, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 19. september 2018. Greinargerð kærða barst nefndinni þann 1. október 2018 og var hún send til kærenda til athugasemda með bréfi dags. 2. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði aðila munu kærendur vera eigendur tveggja íbúða í fjöleignarhúsinu að H 8 í Reykjavík. Ekki er ágreiningur um að kærendur séu félagsmenn í húsfélagi viðkomandi fjöleignarhúss í samræmi við áskilnað 2. mgr. 56. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Fyrir liggur að kærði mun hafa tekið að sér hagsmunagæslu í þágu húsfélagsins að H 8 í Reykjavík vegna málshöfðunar og reksturs dómsmáls á hendur kærendum til heimtu skaðabóta vegna meintrar ólögmætrar framkvæmdar kærenda. Var tilgreint mál höfðað þann 22. september 2017 og rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem málið nr. E-xxxx/2017.

Á meðan á rekstri málsins stóð fyrir héraðsdómi var með fundarboði, dags. 6. apríl 2018, boðað til húsfundar í viðkomandi húsfélagi sem haldinn skyldi þann 12. sama mánaðar. Í fundarboði, sem liggur fyrir í málsgögnum, var meðal annars tiltekið að á dagskrá fundarins væri yfirferð málsatvika vegna „svalafronta“ á íbúðum 2. – 8. hæðar fjöleignarhússins, umfjöllun um lagalega stöðu húsfélagsins og einstakra eigenda auk ákvörðunar félagsins um afstöðu gagnvart framkomnum göllum. Var tiltekið undir framangreindum liðum að kærði færi yfir það efni sem þar heyrði undir. Þá var eftirfarandi tiltekið undir 5. dagskrárlið í fundarboðinu:

5. Tillaga um að fela C, lögmanni, að halda utan um kröfugerð húsfélagsins gagnvart verktaka og D og gæta hagsmuna húsfélagsins fyrir dómi ef þurfa þykir.

  1. Ákvarðanataka.

Tilgreind tillaga var tekin fyrir á húsfundi húsfélagsins sem haldinn var þann 12. apríl 2018, sbr. eftirfarandi bókun í fundargerð sem liggur fyrir í málsgögnum:

Stjórn húsfélagsins lagði fram tillögu um að lögmanninum C verði falið að halda utan um kröfugerð húsfélagsins gagnvart verktaka og D og gæta hagsmuna húsfélagsins fyrir dómi ef þurfa þykir.

Gert er ráð fyrir því að ekki verið farið í dómsmál nema að undangengnum öðrum húsfundi þar sem ákvörðun yrði staðfest.

B, íbúi í 204 tók til máls og sagði að Börkur væri lögmaður húsfélagsins í öðru máli gegn íbúa (henni) og vildi því meina að um hagsmunaárekstur yrði að ræða.

Formaður húsfélagsins tók til máls og sagðist bera fullt traust til hans.

Tillagan um að C yrði falið að halda utan um kröfugerð húsfélagsins gagnvart verktaka og D og gæta hagsmuna húsfélagsins fyrir dómi ef þurfa þykir var lögð fram. Tillagan var samþykkt með atkvæðum 15 eignarhluta.

Kærandi B sendi tölvubréf til kærða þann 23. maí 2018 þar sem því var lýst að kærði færi með mál húsfélagsins að H 8 í Reykjavík gegn kærendum á sama tíma og hann hefði umboð til að vinna að öðru máli í þágu húsfélagsins. Með vísan til þess var þess óskað af hálfu kærenda í tölvubréfinu að kærði myndi ekki hafa aðkomu að hagsmunagæslu í hinu síðara máli samkvæmt umboði húsfélagsins sem veitt hafði verið á húsfundi þann 12. apríl 2018.

Kærði svaraði tilgreindu tölvubréfi þennan sama dag þar sem því var lýst af hálfu aðilans að hann hefði í báðum tilvikum tekið að sér mál fyrir sama aðila, þ.e. húsfélagið að H 8 í Reykjavík. Tiltók kærði að hann væri að gæta hagsmuna húsfélagsins í heild og allra eigenda jafnt. Þá óskaði kærði eftir upplýsingum um með hvaða hætti kærendur teldu að kærði myndi ganga á hlut þeirra varðandi svonefnt „svalarfrontamál“. Að endingu hvatti kærði til þess að leitað yrði til Lögmannafélags Íslands, þ.e. ef kærendur teldu á sér brotið.

Af málsgögnum verður ekki séð að aðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna þessa máls.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur x. september 2018 í máli nr. E-xxxx/2017 var kærendum, sem stefndu, gert að greiða húsfélaginu að H 8, sem stefnanda, 580.030 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Þá var staðfest lögveð í eignarhlutum kærenda við H 8 í Reykjavík til tryggingar dæmdum fjárhæðum.

II.

Í kvörtun kærenda er því lýst að hún lúti að meintum brotum kærða á lögum eða siðareglum lögmanna. Kærði hafi rekið mál gegn kærendum, sem eigendum tveggja íbúða í fjöleignarhúsinu að H 8 í Reykjavík, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hönd viðkomandi húsfélags. Á sama tíma hafi kærði tekið að sér hagsmunagæslu í þágu húsfélagsins gegn nánar tilgreindum verktaka sem hefði annast störf fyrir húsfélagið. Byggja kærendur á að um augljósa hagsmunaárekstra sé að ræða þar sem kærði annist bæði málarekstur gegn kærendum auk þess sem hann hafi tekið að sér önnur störf fyrir húsfélagið að H 8 í Reykjavík, sem kærendur séu félagsmenn í.

Nánar tiltekið vísa kærendur til þess að kærði reki mál gegn þeim fyrir héraðsdómi fyrir hönd húsfélagsins vegna ágreinings um hvort kærendur hafi mátt skipta um glugga í íbúðum sínum. Þar sem verkframkvæmdir hafi staðið yfir á fasteigninni hafi nánar tilgreint verktakafélag, E ehf., skipt um alla glugga í fasteigninni, þ. á m. íbúðum kærenda. Kveða kærendur að þeir hafi þegar verið búnir að skipta um gluggana en að þeir hafi neyðst til að leyfa húsfélaginu að láta viðkomandi verktaka setja þá í að nýju. Hafi málið tekið mjög á kærendur og reynst þeim erfitt.

Vísa kærendur til þess að vart hafi orðið við galla vegna verkframkvæmdarinnar og hafi af þeim sökum verið boðað til húsfundar í húsfélaginu þann 12. apríl 2018 í þeim tilgangi að fela kærða að reka mál húsfélagsins gagnvart verktaka og eftirlitsaðila með framkvæmdinni. Er því lýst að kærandi B hafi bókað mótmæli gegn tillögu um að kærða yrði veitt heimild til að taka að sér mál húsfélagsins þar sem um hagsmunaárekstur yrði að ræða auk þess sem viðvera kærða á húsfundum hefði áhrif á tjáningarfrelsi kærandans varðandi hinn meinta galla við verkframkvæmdina.

Benda kærendur á að eftir að samþykki húsfundar hafi legið fyrir varðandi heimild kærða til að annast hagsmunagæslu í þess þágu hafi kærandi B sent tölvubréf til kærða, dags. 23. maí 2018, þar sem óskað hafi formlega verið eftir að kærði tæki ekki að sér málið. Hafi verið bent á hagsmunaárekstur í því samhengi og að ekki væri tækt að sami lögmaður kæmi að hagsmunagæslu í þágu húsfélagsins í tveimur málum með þeim hætti sem fyrir lægi, þ.e. annars vegar máli sem lyti að málarekstri fyrir dómi á hendur tveimur félagsmönnum, þ.e. kærendum, og hins vegar máli fyrir húsfélagið gegn verktaka vegna verkframkvæmda þar sem meðal annars væri um hagsmunagæslu fyrir sömu félagsmenn og dómsmálið lyti að. Vísa kærendur til þess að ágreiningur í málunum tveimur lúti að sömu verkframkvæmdinni.

Lýsa kærendur því að kærði hafi talið að hagsmunaárekstur væri ekki fyrir hendi þannig að hann gæti gætt hagsmuna í báðum tilvikum fyrir hönd viðkomandi húsfélags. Kveða kærendur sig ósammála þeim skilningi kærða.

Krefjast kærendur þess í kvörtun sinni til nefndarinnar að kærði verði áminntur fyrir störf sín vegna brota á lögum og siðareglum lögmanna og að því verði beint til kærða að hann segi sig strax frá störfum fyrir húsfélagið að H 8 í Reykjavík. 

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða með þeim hætti að hann krefjist þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað.

Kærði kveður það rétt sem greinir í kvörtun kærenda um að hann hafi tekið að sér tvö mál fyrir húsfélagið við H 8 í Reykjavík. Hið fyrra mál hafi lotið að ólögmætri uppsetningu kærenda á gluggum og svalalokunarkerfum við tvær íbúðir í fjöleignarhúsinu. Hafi viðkomandi húsfélag leitað atbeina kærða við að höfða mál gegn kærendum en því hafi lokið með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur x. september 2018 í máli nr. E-xxxx/2017. Þá lúti hið síðara mál að mögulegri bótakröfu húsfélagsins gagnvart verkfræðistofunni D hf. og E ehf. sem komið hafi að viðamiklum viðhaldsframkvæmdum á fjöleignarhúsinu frá árinu 2017. Í ljós hafi komið að glerflötur nýrra glugga sem settir hafa verið upp hafi reynst minni en áður var en fjallað hafi verið um þann þátt á fundi húsfélagsins svo sem fyrirliggjandi fundargerð beri með sér.

Kærði bendir á að kærendur hafi ekki tilgreint sérstaklega þau ákvæði sem þeir telji að hafa verið brotin, en það geri andsvör kærða vandasamari.

Varðandi meint brot á tjáningarfrelsi kærenda bendir kærði á að aðkoma hans og viðvera vegna málefna húsfélagsins hafi í öllum tilfellum verið samkvæmt ósk stjórnar húsfélagsins. Hafnar kærði því að hafa aðhafst nokkuð til að hafa einhvers konar áhrif á tjáningarfrelsi kærenda.

Um meintan hagsmunaárekstur vísar kærði til þess að hann hafi bæði á húsfundum og í tölvubréfi, dags. 23. maí 2018, óskað eftir upplýsingum um að hvaða leyti eða með hvaða hætti kærendur teldu að kærði myndi ganga á rétt eða hagsmuni þeirra við rekstur hins síðara máls. Þeirri fyrirspurn kærða hafi ekki enn verið svarað af hálfu kærenda. Þá bendir kærði á að hið síðara mál sé svo vaxið að ómögulegt væri að vinna sérstaklega gegn hagsmunum kærenda enda haldist þeir í hendur við hagsmuni annarra eigenda.

Bendir kærði á að samkvæmt hugmyndafræði kærenda sé kærði bæði í senn að vinna gegn hagsmunum kærenda sem og með þeirra hagsmunum með því að taka að sér hið síðara mál. Kveður kærði að samkvæmt sömu hugmyndafræði hafi kærði verið að vinna bæði með og gegn kærendum í hinum fyrra máli óháð hinu síðara máli.

Auk alls framangreinds bendir kærði á að gert sé ráð fyrir því í 3. mgr. 71. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að húsfélag geti verið aðili að dómsmáli gegn einum eða fleiri félagsmönnum. Ómöguleiki væri að reka slíkt mál ef byggt væri á hugmyndafræði kærenda.

Samkvæmt því byggir kærði á að sú staðreynd ein að hann hafi tekið að sér annað ótengt mál í þágu húsfélagsins geti ekki falið í sér hagsmunaárekstur. Auk þess sé hinu fyrra máli lokið með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og því sé ætlaður hagsmunaárekstur ekki lengur fyrir hendi.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Áður en lögmaður tekur að sér verk ber honum að vekja athygli þess sem til hans leitar ef hann telur einhverja hættu á að hagsmunirnir sem í húfi eru kunni að rekast á hagsmuni hans sjálfs, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda, eða að samsvarandi tormerki geti risið við rækslu starfans, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanni má lögmaður ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Ákvæðið hindrar þó ekki að lögmaður leiti sátta með deiluaðilum, með samþykki beggja. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku. Sama gildir um lögmenn sem hafa samstarf um rekstur lögmannsstofu eða reka lögmannsstofu í félagi.

Kvörtun kærenda í máli þessu lýtur að meintum brotum kærða á lögum eða siðareglum lögmanna. Byggja kærendur annars vegar á að um augljósa hagsmunaárekstra sé að ræða í tilviki lögmannsstarfa kærða í þágu húsfélagsins að Hátúni 8 í Reykjavík þar sem hann hafi fyrir þess hönd annast bæði málarekstur gegn kærendum, sem félagsmönnum í viðkomandi húsfélagi, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur auk þess að hafa tekið að sér hagsmunagæslu vegna meintra krafna húsfélagsins á hendur nánar tilgreindum verktaka og eftirlitsaðila vegna verkframkvæmdar við fjöleignarhúsið. Hins vegar byggja kærendur á að þessi aðstaða og aðkoma kærða að málefnum húsfélagsins hafi leitt til skerðingar á tjáningarfrelsi þeirra vegna hins síðargreinda máls sem kærði mun hafa tekið að sér að annast samkvæmt ákvörðun húsfundar.

Um hið fyrrgreinda efni er til þess að líta að í krafti laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eru húsfélög til í öllum fjöleignarhúsum og teljast allir eigendur félagsmenn í því. Eru réttindi og skyldur til þátttöku í húsfélagi því órjúfanlega tengd eignarrétti að einstökum eignarhlutum og getur enginn eigandi synjað þátttöku í húsfélagi eða sagt sig úr því nema með sölu eignarhluta síns, sbr. 1. og 2. mgr. 56. gr. laga nr. 26/1994. Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna er hlutverk og tilgangur húsfélaga aðallega að sjá um varðveislu, viðhald, endurbætur og rekstur sameignarinnar þannig að hún fái sem best þjónað sameiginlegum þörfum eigenda og stuðla að og framfylgja því með samþykktum, reglum og ákvörðunum að hagnýting hússins, bæði séreigna og sameignar, sé ávallt með eðlilegum hætti og þannig að verðgildi eigna haldist. Er valdsvið slíks húsfélags bundið við sameignina og ákvarðanir sem varða hana og nauðsynlegar eru vegna hennar og sameiginlegra hagsmuna eigenda, sbr. 2. mgr. 57. gr. laga nr. 26/1994 og 3. mgr. 10. gr. laganna þar sem kveðið er á að öllum sameiginlegum málum skuli ráðið til lykta af hálfu húsfélags.

Í samræmi við framangreint eru húsfélög sjálfstæðar lögpersónur og njóta aðildarhæfis samkvæmt lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður slíkt jafnframt ráðið af 3. mgr. 71. gr. laga nr. 26/1994 þar sem kveðið er á um að húsfélag geti verið aðili að dómsmáli, bæði til sóknar og varnar. Gildi slíkt bæði um mál gegn þriðja aðila og gegn einum eða fleiri félagsmönnum.

Ágreiningslaust er að húsfélagið að H 8 í Reykjavík leitaði til kærða um að annast málarekstur gegn kærendum, sem félagsmönnum í viðkomandi húsfélagi, til heimtu skaðabóta vegna meintrar ólögmætrar framkvæmdar kærenda. Var tilgreint mál höfðað þann x. september 2017 og rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem málið nr. E-xxxx/2017. Fallist var á kröfur húsfélagsins á hendur kærendum með dómi uppkveðnum x. september 2018, svo sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan.

Að mati nefndarinnar verður að leggja til grundvallar að kærði hafi annast lögmannsstörf í tengslum við málareksturinn í þágu síns skjólstæðings, þ.e. húsfélagsins að H 8 í Reykjavík. Gátu engir hagsmunaárekstrar komið þar til álita gagnvart kærendum enda lögboðið að húsfélag geti höfðað mál á hendur eigin félagsmönnum, sbr. áðurgreind 3. mgr. 71. gr. laga nr. 26/1994.

Varðandi hið síðargreinda mál sem kærði tók að sér í þágu viðkomandi húsfélags verður ekki fram hjá því litið að ákvarðanataka um það efni fór fram á húsfundi sem haldinn var þann 12. apríl 2018. Eins og nánar greinir í málsatvikalýsingu og ráðið verður af fyrirliggjandi fundargerð frá húsfundinum var þar samþykkt með atkvæðum 15 eignarhluta að fela kærða að halda utan um kröfugerð húsfélagsins gagnvart verktaka og eftirlitsaðila og gæta hagsmuna húsfélagsins fyrir dómi ef til þess kæmi.

Ekkert liggur annað fyrir en að til húsfundarins hafi verið boðað með lögmætum hætti og að hann hafi farið fram að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga nr. 26/1994. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laganna er æðsta vald í málefnum húsfélags í höndum almenns fundar þess, húsfundar. Að mati nefndarinnar verður að leggja til grundvallar að ákvarðanataka um að fela kærða hagsmunagæslu í tilgreindu máli hafi verið tekin af þar til bærum aðila á lögmætum húsfundi, allt í samræmi við ákvæði laga nr. 26/1994. Þá verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að ákvarðanataka á fundinum þann 12. apríl 2018 hafi varðað sameign fjöleignarhússins og verið nauðsynleg vegna hennar og sameiginlegra hagsmuna eigenda, þ. á m. kærenda.

Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að hagsmunagæsla kærða í þágu húsfélagsins að þessu leyti sé og hafi verið samrýmanleg hagsmunum eigenda einstakra séreignarhluta í fjöleignarhúsinu, þ. á m. kærenda. Með hliðsjón af því séu engir þeir hagsmunir fyrir hendi vegna lögmannsstarfa kærða í þágu húsfélagsins, samkvæmt ákvörðun húsfundar frá 12. apríl 2018, sem séu til þess fallnir að rekast á hagsmuni kærenda vegna þessa sama máls. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að hagsmunaárekstrar séu fyrir hendi gagnvart kærendum vegna umræddra lögmannsstarfa kærða í þágu húsfélagsins.

Um hið síðargreinda efni, þ.e. að aðkoma kærða að málefnum húsfélagsins hafi leitt til skerðingar á tjáningarfrelsi kærenda, er þess að gæta að samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 26/1994 hafa félagsmenn rétt til fundarsetu á húsfundum húsfélags og fara þar með atkvæðisrétt. Þá á hver félagsmaður rétt á að fá ákveðin mál tekin til umræðu á húsfundi en ekki til atkvæðagreiðslu nema þess hafi verið getið í fundarboði, sbr. 3. mgr. 62. gr. laganna.

Í samræmi við tilgreindar heimildir kvað kærandi B sér hljóðs á húsfundinum þann 12. apríl 2018 og lýsti þar hinum ætlaða hagsmunaárekstri vegna lögmannsstarfa kærða. Í fundargerð fundarins var bókað eftir formanni húsfélagsins að hann bæri fullt traust til kærða en í framhaldi þess var samþykkt í atkvæðagreiðslu tillaga um að fela aðilanum hagsmunagæslu í þágu húsfélagsins vegna málsins.

Að mati nefndarinnar er ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að lögmannsstörf kærða í þágu húsfélagsins muni leiða til skerðingar á lögbundnu tjáningarfrelsi kærenda vegna ákvarðanatöku og málefna húsfélagsins að H 8 í Reykjavík. Þá hefur í engu verið sýnt fram á að hin ætlaða skerðing á tjáningarfrelsi kærenda að þessu leyti verði rakin til meintra brota kærða á lögum eða siðareglum lögmanna.

Í samræmi við allt framangreint er það niðurstaða nefndarinnar að kærði hafi ekki gert á hlut kærenda í störfum sínum með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Á grundvelli valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. og 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, eru ekki efni til að taka til skoðunar kröfu kærenda um að því verði beint til kærða að hann segi sig strax frá störfum fyrir húsfélagið að H 8 í Reykjavík. Þegar af þeirri ástæðu er tilgreindri kröfu kærenda vísað frá nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, C lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, A og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Kröfu kærenda, um að úrskurðarnefnd lögmanna beini því til kærða að hann segi sig strax frá störfum fyrir húsfélagið að H 8 í Reykjavík, er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson