Mál 18 2018

Mál 18/2018

Ár 2019, 30. janúar 2019, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2018:

A ehf.,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. október 2018 erindi C lögmanns fyrir hönd kæranda, A ehf., þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndinni bárust viðbótargögn frá kæranda þann 19. október 2018.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 11. og 19. október 2018 og barst hún þann 12. nóvember 2018. Var lögmanni kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 13. nóvember 2018. Hinn 22. nóvember 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða þann 23. sama mánaðar. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum mun kærði vera lögmaður D ehf. og fyrirsvarsmanns þess félags, E. Áður mun tilgreindur fyrirsvarsmaður hafa komið að rekstri F ehf. ásamt H en það félag var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms uppkveðnum x. maí 2018. Fyrir liggur að H starfar nú hjá kæranda, sem mun meðal annars annast rekstur á sviði x, ásamt fleirum fyrrum starfsmönnum F ehf.

Ágreiningur í málinu lýtur að ummælum sem höfð voru eftir kærða í fréttum sem birtar voru á vefmiðlunum j.is og k.is dagana x. nóvember 2017 og x. október 2018. Gerð er grein fyrir hinum umþrættu ummælum í yfirferð yfir málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni, en eins og þar er nánar lýst lutu ummælin meðal annars að ætlaðri refsiverðri háttsemi fyrirsvarsmanns og starfsmanna kæranda vegna starfa þeirra í þágu F ehf. áður en til gjaldþrots þess félags kom.

Kærandi hefur jafnframt lagt fyrir nefndina frétt sem birt var á vefsíðu fréttamiðilsins L þann x. október 2018 sem og úrskurð Persónuverndar frá x. 2018 í máli nr. 2017/xxxx en samkvæmt úrskurðarorði var talið að meðferð F ehf. á vinnutölvupósthólfi og öðrum tölvugögnum H hefði brotið gegn lögum nr. 77/2000 og reglum nr. 837/2006. Ekki verður ráðið af málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni hvaða þýðingu tilgreind gögn eiga að hafa vegna sakarefnis málsins.

Í málsgögnum liggja jafnframt fyrir kærur auk fylgigagna sem kærði mun annars vegar hafa beint í þágu tilgreindra skjólstæðinga sinna til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. x. febrúar 2018, vegna ætlaðra ......., líkamsárásar og .......... H og hins vegar til embættis héraðssaksóknara, dags. x. apríl 2018, vegna ætlaðs fjárdráttar, fjársvika, skjalafals, ............ o.fl. af hendi fyrrverandi starfsmanna F ehf. Þá liggur fyrir afrit af skýrslu skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar á bókhaldi, staðgreiðslu og .............. F ehf.

Nánari grein verður gerð fyrir efni tilgreindra gagna, að því marki sem þörf er á vegna úrlausnar sakarefnisins, við umfjöllun um málsástæður og málatilbúnað aðila fyrir nefndinni.

II.

Skilja verður kvörtun kæranda þannig að þess sé krafist fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum vegna ætlaðra brota hans gegn kæranda.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að kvörtunin beinist að háttsemi, yfirlýsingum og ásökunum kærða gegn kæranda og fyrrverandi starfsmönnum F ehf. og núverandi starfsmönnum kæranda. Sé þar aðallega um að ræða ummæli sem kærði hafi látið falla á opinberum vettvangi og í fjölmiðlum. Hafi kærði með þessu brotið alvarlega og ítrekað gegn ákvæðum siðareglna lögmanna gagnvart kæranda og starfsmönnum hans, sbr. 1., 2., 3., 34. og 35. gr. siðareglnanna. Vísar kærandi í því samhengi jafnframt til 2. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Kveður kærandi kærða jafnframt með ummælum sínum hafa brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Um þetta efni bendir kærandi annars vegar á ummæli kærða sem birt voru á fréttamiðlinum k.is þann x. október 2008, undir yfirskriftinni „Lögmaður D sver fyrir aðkomu eigandans að ......“. Er á það bent að í viðkomandi frétt hafi kærði á opinberum vettvangi haft eftirfarandi ummæli um kæranda og starfsmenn aðilans:

„Hann kom ekki inn í F sem var hreinsuð að innan af ...... fyrr en í október í fyrra,“ segir B. Vísar hann til harðvítugra deilna milli E og H sem hófu samstarf hjá F árið 2016.

„Það eru allar líkur að þessi kona og samstarfsmenn hennar hafi staðið að þessu,“ segir B. „Það sem meira er, mögulega eru það þessir aðilar sem láta vita af þessu því þeir vita mögulega að þetta fólk er ekki hér á réttum pappírum.“

„Nú hef ég upplýst yfirmann lögreglurannsóknarinnar um þessi tímamörk og hvatt hann til að beina sjónum sínum að þeim sem höfðu með starfsemi fyrirtækisins að gera á þeim tíma,“ segir B.

Kærandi bendir á að leiðrétting á rógburði kærða hafi verið birt í uppfærðri frétt þennan sama dag, sbr. eftirfarandi:

Eftir að frétt K með viðtalinu við B fór í loftið sendi lögregla frá sér tilkynningu og leiðrétti tilkynninguna. Kennitölunum hefði verið úthlutað á þessu ári en ekki um mitt síðasta ár.

Kærandi vísar til þess að í ummælum kærða sem birst hafi í viðkomandi frétt hafi hann sakað H og aðra fyrrverandi starfsmenn F ehf. um að vera „........“. Þá hafi kærði viðhaft aðdróttanir um að allar líkur væru á því að nefnd H og samstarfsmenn hennar hjá kæranda hefðu staðið að handtöku fyrirsvarsmanns og starfsmanna D ehf. vegna falsaðra ......... Kveður kærandi það rangt og að kærða hafi verið um það kunnugt, sbr. leiðréttingu lögreglu sem birt hafi verið í hinni uppfærðu frétt.

Um þetta efni bendir kærandi hins vegar á ummæli kærða sem birt voru á fréttamiðlinum j.is þann x. nóvember 2017, undir yfirskriftinni „Ásakanir um .......... og skipulagða .........– „Hann stóð yfir mér og spurði hvert ég væri eiginlega að .............“. Er á það bent að kærði hafi veitt blaðamanni fréttamiðilsins viðtal og viðhaft eftirfarandi ummæli:

Hann segir að þegar þetta gerðist hafi ........... verið í gangi. „Það gekk allt á afturfótunum við þessa launavinnslu og það kom í ljós að upplýsingum sem sendar voru til bankans hafði verið ..........“ 

B segir að nýjar upplýsingar komi í ljós á hverjum degi í málinu. „Ég veit ekki nákvæmlega hvað þetta er ............ sem kemur að því að draga fjármuni út úr F. Ég er búinn að vera alla ævi í þessu og ég hef oft komið að fólki sem hefur ............... það er alveg vel þekkt, en það er mjög sérstakt að það séu samantekin ráð ............... um að stunda .................. Það kalla ég .......... Við erum að rannasaka þetta og þetta er mjög flókið vegna þess að þetta er umfangsmikill rekstur.“ 

Kærandi vísar til þess að ofangreind ummæli beri með sér að kærði beri þungar sakir á fyrrverandi starfsmenn F ehf. og núverandi starfsmenn kæranda. Hann saki þessa aðila um að standa saman að fjárdrætti eða a.m.k. hlutdeild í slíku broti. Auk þess saki hann viðkomandi aðila um að senda rangar eða villandi upplýsingar til skattyfirvalda og banka. Þá saki hann aðilana einnig um „ólögmæta starfsemi“ og „....................“

Kærandi bendir á að engar sannanir liggi enn fyrir sem sýni fram á refsiverða háttsemi fyrrverandi starfsmanna F ehf. og núverandi starfsmanna kæranda. Sé því um skýrt og alvarlegt brot kærða að ræða gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglna lögmanna.

Þá var því lýst í kvörtun málsins að kærandi myndi ásamt starfsmönnum aðilans koma á framfæri fleiri kærum vegna háttsemi kærða „gagnvart þeim persónulega.

Í viðbótarathuagsemdum kæranda er því lýst að aðilinn hafni því að vísa beri málinu frá nefndinni. Þannig sé kvörtun í málinu beint að kærða vegna ummæla sem hann hefði látið falla bæði um kæranda sem og starfsmenn aðilans.

Að öðru leyti kveðst kærandi hafna málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni. Bendir kærandi á að það sé óheimilt og ólöglegt að halda fram á opinberum vettvangi með persónugreinanlegum hætti að aðili hafi framið refsiverðan verknað. Þá liggi engar sannanir fyrir um að fyrirsvarsmaður og starfsmenn kæranda hafi komið að undirliggjandi málum. Þvert á móti hafi komið fram í uppfærðri frétt á vefmiðlinum k.is að ásakanir kærðu hefðu verið leiðréttar af lögreglu. Bendir kærandi jafnframt á að orðalag kærða hafi ekki falið í sér nokkurn fyrirvara vegna hinna alvarlegu ásakana aðilans. Byggir kærandi á að ekki hafi verið unnt að réttlæta ummæli kærða með því að hann hafi notað orðin „allar líkur“, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 16. júní 2005 í máli nr. 55120/00.

Kærandi bendir jafnframt á að enginn rökstuddur grunur sé fyrir hendi um ólögmæta og ............ núverandi starfsmanna kæranda, líkt og ranglega greini í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni. Hvorki hafi verið gefin út ákæra á hendur fyrirsvarsmönnum og starfsmönnum kæranda né hafi þeir verið kallaðir til skýrslugjafar vegna þeirra kæra sem kærði vísi til í málatilbúnaði sínum. Sé því um rangar og ærumeiðandi fullyrðingar kærða að ræða enda enginn rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi fyrir hendi.

Kærandi kveður þvert á móti rökstuddan grun um að kærði hafi gert sér grein fyrir alvarleika orða sinna. Þá hafi kærði haft undir höndum skýrslu skattrannsóknarstjóra um bókhald og rekstur F ehf. þar sem skýrt komi fram að rannsókn embættisins hafi beinst alfarið að staðgreiðslu opinberra gjalda vegna október- til og með desembermánaðar xxxx, þ.e. eftir þann tíma sem fyrirsvarsmaður og starfsmenn kæranda létu af störfum hjá F ehf.

Bent er á það í viðbótarathugasemdum kæranda að engin gögn liggi fyrir sem sanni sök starfsmanna kæranda eða sýni fram á réttmæti og sannleiksgildi ummæla kærða. Kveðst kærandi hafna því að meginreglan exceptio veritatis eigi við í málinu. Þá leggi kærði fram eigin kærur til lögreglu sem sönnunargögn fyrir málatilbúnaði sínum, meintum rökstuddum grun og réttmæti yfirlýsinga sinna og ásakana. Byggir kærandi á að einhliða málatilbúnaður aðila geti ekki talist vera sönnun fyrir réttmæti ummælanna. Þau hafi verið sett fram gegn betri vitund og án allra sannana. Geti þau því ekki talist njóta verndar 10. gr. mannréttindasáttamála Evrópu.

Auk alls framangreinds kveðst kærandi vísa til dóms Hæstaréttar 30. apríl 2009 í máli nr. 479/2008. Vísar aðilinn til þess að atvik málanna séu keimlík að ýmsu leyti. Þannig hafi kærði viðhaft ummæli sem feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir um refsiverða háttsemi og fleira án allra sannana um réttmæti þeirra. Kærði hagi auk þess orðræðu sinni þannig að undir hana falla með persónugreinanlegum hætti núverandi starfsmenn kæranda. Þá hafi kærði tengt starfsmenn kæranda við ...................

Byggir kærandi á að kærði verði sem lögmaður að gæta vel að orðavali og háttsemi á opinberum vettvangi, sbr. 1., 2., 3., og 34. gr. siðareglna lögmanna. Það hafi kærði ekki gert, á eigin ábyrgð. Krefst kærandi þess því að nefndin beiti kærða hörðustu refsingu að mati nefndarinnar miðað við alvarleika brota kærða á siðareglum lögmanna og almennum hegningarlögum.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.

Varðandi kröfu um frávísun vísar kærði til þess að kærandi sé A ehf. eins og skýrlega greini í kvörtun málsins. Vísar kærði til þess að kærandi byggi mál sitt hins vegar á meintum meiðandi ummælum á hendur tilteknum einstaklingum og því geti hann ekki átt aðild að kvörtun til nefndarinnar. Þannig sé kærandi sér lögaðili og hafi enga aðkomu að því máli sem kvartað sé yfir.

Um efnishlið málsins kveðst kærði vilja leiðrétta ýmislegt sem fram komi í kvörtun. Auk þess bendir kærði á að ekki sé að finna neina kröfugerð í málinu af hálfu kæranda líkt og nauðsynlegt sé, sbr. 7. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Hvað fyrra kvörtunarefnið varðar vísar kærði til þess að notkun orðsins ......... hafi ekki verið sett fram sem alhæfing hans heldur hafi kærði tekið það sérstaklega fram, líkt og greini í tilvitnun kæranda, að það væru „allar líkur á því“ að viðkomandi kona og samstarfsmenn hennar hefðu staðið að þessu.

Jafnframt kveður kærði það fásinnu sem greini í kvörtun um að hann hafi haldið því fram að H og samstarfsmenn hennar hjá kæranda hafi staðið að handtöku á fyrirsvarsmanni skjólstæðings kærða enda sé það einungis á valdi lögregluyfirvalda að standa að handtöku. Hafi kærði hins vegar tekið fram að „mögulega“ hefðu tilgreindir aðilar látið lögreglu vita af málinu þar sem þeir hafi „mögulega“ vitað að viðkomandi fólk væri ekki hér á réttum pappírum.

Hvað seinna kvörtunarefnið varðar vísar kærði til þess að rökstuddur grunur sé um ólögmæta starfsemi, en eins og ritað hafi verið í viðkomandi frétt þá hafi kærði tekið það hins vegar sérstaklega fram að „Hann vilji stíga varlega til jarðar með að benda á ákveðið ..........“. Auk þess hafi kærði tekið eftirfarandi fram: „Ekki vill maður bera ......... á fólk sem er kannski ............. í svona umhverfi“.

Bendir kærði á í þessu samhengi að þegar lögmenn komi að málum beri þeim ávallt að efla rétt og hrinda órétti, í þessu tilviki órétti sem skjólstæðingur lögmanns sem kvörtun sé beint að, hafi sannarlega orðið fyrir í málinu. Hafi kærði ekki tekið annað fram en hann sannast vissi og eftir sinni samvisku, eins og siðareglur lögmanna kveða á um. Þá hafi kærði haft allan fyrirvara á því að benda á ákveðið starfsfólk.

Um bæði kvörtunarefnin vísar kærði til þess að hann hafi haft gögn undir höndum sem hafi gefið honum réttmæta ástæðu til að hafa góða sannfæringu fyrir því að um brotastarfsemi væri að ræða. Bendir kærði um það efni á fyrirliggjandi kærur til lögreglu og embættis héraðssaksóknara frá x. febrúar 2018 og x. apríl 2018. Nauðsynlegt hafi verið fyrir kærða að bregðast við fyrir hönd síns skjólstæðings eins og málið hafi verið vaxið, þ.e. með leiðréttingu á því að skjólstæðingur kærða hefði ekki haft aðkomu að málinu eins og ranglega hefði verið haldið fram.

Kærði bendir jafnframt á meginreglu í íslenskum rétti, exceptio veritatis, sem feli í sér að sönn ærumeiðandi ummæli séu refsilaus og skapi ekki bótaskyldu, að því gefnu að takist að sanna þau og að ummæli séu ekki klædd í verri búning en tilefni standa til. Vegna þessa sé talað um vítaleysi sannra ummæla og þannig vísað bæði til refsileysis þeirra og einnig firringar skaða- og miskabótaábyrgðar. Liggi að baki meginreglunni fyrst og fremst sú skoðun að sannleikurinn hafi gildi í sjálfu sér og þau siðferðismörk, að öllum skuli að meginstefnu heimilt að tjá það sem satt sé sér að vítalausu. Þannig geti enginn krafist þess að njóta meira en sannmælis um sjálfa sig. Vísar kærði um þetta efni til nánar tilgreindra fræðirita og dóma Hæstaréttar.

Kærði vísar til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi lagt áherslu á að gera verði greinarmun á ummælum sem fela í sér staðhæfingu um staðreynd annars vegar og ummælum sem fela í sér gildisdóm hins vegar. Falli ummæli í flokk gildisdóma séu þau viðkomandi að jafnaði að vítalausu án tillits til þess hvort að sýnt hafi verið fram á sannleiksgildi þeirra. Þá bendir kærði á sjónarmið dómstólsins í tengslum við sönnun ummæla sem ekki falli í flokk hinna betur vörðu gildisdóma, þ.e. staðhæfinga og staðreynda. Enda þótt ummæli falli í slíkan flokk, sem almennt myndi leiða til þess að færa þyrfti sönnur á þau, sé ekki loku fyrir það skotið að dómstóllinn telji ummælin allt að einu njóta verndar 10. gr. mannréttindasáttamála Evrópu, jafnvel þó að sannleiksgildi þeirra hafi ekki verið staðreynt.

Á því er byggt að þeir fyrirvarar sem kærði hafi viðhaft vegna umþrættra ummæla hafi gert það að verkum að ummælin feli ekki í sér staðhæfingu um staðreyndir. Þá sé ekki um að ræða gildisdóma enda hafi kærði ávallt haft fyrirvara á því sem sagt hafi verið. En jafnfvel þótt fallist yrði á að ummælin fælu í sér gildisdóm þá sé þýðing framngreindrar aðgreiningar gerð vegna þess að ekki sé gerð krafa um sönnun gildisdóma. Hafi Mannréttindadómstóll Evrópu slegið því föstu að slík sönnunarkrafa myndi fela í sér óheimila skerðingu á tjáningarfrelsi.

Af þeim sökum krefst kærði þess að hann verði ekki beittur agaviðurlögum vegna hinna umþrættu ummæla.

Niðurstaða

I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en aðilinn byggir á því að kærandi sé sérstakur lögaðili og hafi enga aðkomu haft að því máli sem kvartað sé yfir. Af þeim sökum geti kærandi ekki átt aðild að kvörtun til nefndarinnar vegna sakarefnis málsins og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Í 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna er kveðið á um að ef í máli séu sönnunaratriði, sem örðugt sé að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál sé að öðru leyti ekki nægilega upplýst, geti nefndin vísað máli frá. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglnanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur að ætluðu broti aðilans, sem lögmanns, gegn 1., 2., 3., 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Í samræmi við framangreint fellur umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, undir valdsvið nefndarinnar. Þá verður að líta svo á að álitaefni um hvort kærði hafi gert á hlut kæranda sjálfs í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sé atriði sem taka verði afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en geti ekki varðað frávísun frá nefndinni. Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærða í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

Það athugast þó að í málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni hefur verið á því byggt að kærði hafi með þeim umþrættu ummælum sem sakarefnið lýtur að brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ágreiningur aðila um slíkt efni fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna og kemur því ekki til efnislegrar skoðunar að því leyti af hálfu nefndarinnar.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 18. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að lögmanni beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum, sbr. 2. gr. siðareglnanna.

Í V. kafla siðareglnanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Í 34. gr. er þannig kveðið á um að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

III.

Kvörtun kæranda lýtur að því kærði hafi brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna með ummælum sem höfð voru eftir kærða í fréttum sem birtar voru á vefmiðlunum j.is og k.is dagana x. nóvember 2017 og x. október 2018. Gerð er grein fyrir hinum umþrættu ummælum að framan í yfirferð yfir málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni, en eins og þar er nánar lýst lutu ummælin meðal annars að ætlaðri refsiverðri háttsemi fyrirsvarsmanns og starfsmanna kæranda vegna starfa þeirra í þágu F ehf. áður en til gjaldþrots þess félags kom.

Um öll hin umþrættu ummæli, sem ágreiningslaust er að voru réttilega höfð eftir kærða í viðkomandi fréttum, er þess að gæta að þeim var í öllum tilvikum beint gegn H og ótilgreindum samstarfsmönnum hennar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi og annarra brota í störfum þeirra í þágu F ehf. áður en til starfsloka þeirra kom hjá því félagi í byrjun októbermánaðar xxxx. Samkvæmt því lutu ummæli kærða hvorki að ætluðum brotum eða ............ kæranda sjálfs né að slíkri háttsemi viðkomandi starfsmanna í þágu kæranda.

Fyrir liggur að kvörtun í máli þessu var lögð fyrir úrskurðarnefnd lögmanna af hálfu kæranda á þeim grundvelli að kærði hefði í störfum sínum gert á hlut þess aðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Var sérstaklega vísað til þess í kvörtuninni að kærandi og starfsmenn aðilans myndu koma á framfæri fleiri kærum vegna háttsemi kærða gagnvart þeim „persónulega.“ Eins og að framan greinir er það álit nefndarinnar að hin umþrættu ummæli kærða hafi hvorki lotið að ætluðum brotum eða ............. kæranda sjálfs né að slíkri háttsemi starfsmanna kæranda í störfum í þágu þess aðila. Samkvæmt því fær málatilbúnaður kæranda ekki staðist um að kærði hafi gert á hlut hans með brotum á lögum eða siðareglum lögmanna, svo sem áskilið er í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Fær það engu breytt í þessu samhengi þótt hin ætluðu brotlegu ummæli kærða hafi verið viðhöfð um einstaklinga sem nú gegna störfum hjá kæranda.

Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á í máli þessu að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lög eða siðareglum lögmanna. Er kröfum kæranda á hendur kærða fyrir nefndinni því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A ehf., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson