Mál 2 2018
Mál 2/2018
Ár 2018, 30. ágúst 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 2/2018:
A,
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S KU R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 18. janúar 2018 erindi kæranda A, en í því er kvartað yfir því að kærða, B, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 19. janúar 2018 og barst hún þann 6. febrúar 2018. Var kæranda send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 22. febrúar 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærðu þann 26. sama mánaðar. Svar kærðu barst 8. mars 2018 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 13. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Samkvæmt gögnum málsins og málsatvikalýsingum aðila mun kærandi hafa leitað til kærðu í júlímánuði 2015 með beiðni um lögmannsaðstoð vegna nánar tilgreindra mála. Mun þar í fyrsta lagi hafa verið um að ræða lögmannsaðstoð vegna opinberra skipta á dánarbúi móður kæranda sem kærða sinnti á tímabilinu frá júlímánuði 2015 til septembermánaðar 2016. Í öðru lagi mun kærða hafa sinnt lögfræðiráðgjöf og hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna uppsagnar hins síðarnefnda úr námi við Háskóla Íslands, en sú vinna mun hafa tekið til sama tímabils og áður er lýst og falist meðal annars í rekstri dómsmáls fyrir héraðsdómi. Í þriðja lagi mun kærða hafa haft aðkomu í þágu kæranda og annars tilgreinds aðila að einkaskiptum dánarbús móðurbróður kæranda síðla árs 2015, en kvörtun kæranda til nefndarinnar tekur ekki til þess máls og er það því sakarefni málsins óviðkomandi.
Fyrir nefndinni hafa verið lögð fram ýmis gögn vegna þeirra mála sem áður greinir. Er það mat nefndarinnar að tilgreind gögn, sem eru þó nokkur að umfangi, gefi greinargóða mynd af samskiptum aðila og þeim verkefnum sem kærða tók að sér og sinnti í þágu kæranda.
Fyrir liggur að kærandi leitaði til kærðu þann 26. júlí 2015 vegna fyrirhugaðra opinberra skipta á dánarbúi móður kæranda. Mun úrskurður um töku búsins til opinberra skipta hafa verið kveðinn upp í Héraðsdómi Y þann x. ágúst 2015 og var C lögmaður skipaður skiptastjóri í búinu í framhaldi þess. Um þetta efni og aðkomu kærðu að málinu í þágu kæranda liggja fyrir innbyrðis tölvubréfasamskipti málsaðila auk tölvubréfasamskipti þeirra við aðra aðila sem tengdust viðkomandi máli með einum eða öðrum hætti, þ. á m. við skiptastjóra og lögmann annarra lögerfingja, á tímabilinu frá 26. júlí 2015 til og með 3. október 2016. Jafnframt liggja fyrir nefndinni tölvubréfsamskipti kæranda við skiptastjóra frá 4. október 2016 til 9. desember sama ár. Þá liggja fyrir bréf sem kærða ritaði fyrir hönd kæranda vegna dánarbúsins og beint var til fyrrgreinds skiptastjóra, dags. 2. október 2015, 9. febrúar 2016 og 19. febrúar 2016. Auk þess liggja fyrir nefndinni fimm fundargerðir skiptafunda í dánarbúinu á tímabilinu frá 17. september 2015 til og með 22. ágúst 2016, en samkvæmt bókunum í þeim öllum mun kærða hafa sótt viðkomandi skiptafundi fyrir hönd kæranda.
Jafnframt liggur fyrir að kærandi leitaði til kærðu þann 27. júlí 2015 vegna þess sem kærandi lýsir sem uppsögn úr námi við Háskóla Íslands í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni. Þá þegar lá fyrir ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands í máli nr. 2015/4, dags. 24. júní 2015, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að kennaradeild hefði borið að tryggja kæranda áframhald á kennslu í nánar tilgreindu námskeiði á vorönn 2015 þegar heimaskóli kæranda hefði sagt upp námssamningi við aðilann. Hefði deildinni borið að tryggja að kærandi gæti lokið því sem eftir stæði af námskeiðinu svo fljótt sem auðið væri.
Af gögnum málsins verður ráðið að kærðu hafi verið falið að höfða mál fyrir hönd kæranda á hendur íslenska ríkinu vegna meintrar ólögmætrar brottvikningar úr Háskóla Íslands. Var viðkomandi mál höfðað með birtingu stefnu þann x. október 2015 og það þingfest í Héraðsdómi Y, sem héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/2015, þann x. sama mánaðar. Dómur héraðsdóms var uppkveðinn þann x. ágúst 2016 þar sem stefndi var sýknaður af kröfum kæranda en málskostnaður féll niður. Fyrir nefndinni liggja tölvubréfasamskipti aðila í kjölfar dómsuppkvaðningar, þ.e. frá 30. ágúst 2016 til 7. september sama ár, en af þeim verður ráðið að tekin hafi verið ákvörðun um að una dómi héraðsdóms. Samkvæmt því mun dómur héraðsdóms hafa verið endanlegur í málinu og honum því ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Með tölvubréfi kæranda til kærðu, dags. 28. september 2016, var lögmannsumboð kærðu afturkallað. Í tölvubréfinu, sem bar yfirskriftina „Umboð“, var eftirfarandi tiltekið:
„Ég afturkalla hér með umboð mín til þín.
Ég hef farið yfir þau gögn sem mér voru afhent og hef aflað mér í síðustu viku og fæ ekki betur séð en að upplýsingamiðlun hafi verið ófullnægjandi, villandi og að hluta til röng, þannig að hagsmunum mínum var ekki gætt.
Eftir yfirferð gagna og tölvupósta og annarra samskipta fæ ég ekki betur séð en að þú hafir farið út fyrir umboð þitt, ég get ekki litið það öðruvísi en að trúnaður hafi verið brotinn. Ég áskil mér allan rétt sem ég á rétt á.“
Kærða upplýsti fyrrgreindan skiptastjóra og lögmann annars lögerfingja við dánarbússkiptin í tölvubréfi þennan sama dag að hún hefði lokið störfum fyrir kæranda og að hún myndi ekki hafa frekari aðkomu að hagsmunagæslu í þágu aðilans. Þá liggur fyrir að óskað var eftir fyrir hönd kæranda þann 3. október 2016 að kærða myndi senda til aðilans öll tölvubréfasamskipti sem hún hefði átt vegna málefna dánarbúsins. Kærða kvaðst myndi gera það í tölvubréfi þann sama dag auk þess sem upplýst var að hún hefði ekki mætt í héraðsdóm vegna ágreiningsmáls í tengslum við dánarbússkiptin sem beint hafði verið til dóms en að fyrirtaka væri fyrirhuguð þann 7. sama mánaðar.
Af gögnum málsins verður ráðið að kærða hafi ekki sinnt frekari lögmannsþjónustu í þágu kæranda eftir að umboð til hennar var afturkallað þann 28. september 2016.
Með bréfi kæranda til Héraðsdóms Y, dags. x. desember 2016, hafði kærandi uppi skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra viðkomandi dánarbús á grundvelli heimildar í 47. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Var þess krafist að skipaður yrði fjárhaldsmaður yfir búið án tafa og að skiptastjóra yrði vikið frá störfum.
Í aðfinnslum kæranda var því meðal annars lýst að ákvarðanir vegna dánarbúsins hefðu verið teknar á milli funda og að ákvarðanir skiptastjóra hefðu verið gerðar á forsendum skiptabeiðanda um verðmöt fasteigna og afhendingu muna til valdra erfingja og ótengdra aðila, án verðmats og þá í þeim tilgangi að undanskilja eignir frá búi og um leið frá greiðslu erfðafjárskatts. Kærandi hafi jafnframt ekki fengið gögn málsins afhent fyrr en aðilinn hefði afturkallað umboð sitt til lögmanns, þ.e. kærðu í máli þessu, eftir að hafa neitað að samþykkja frumvarp við skiptin óséð. Upplýsingagjöf skiptastjóra hafi einnig verið ófullnægjandi og ólík upplýsingagjöf til annarra erfingja en kæranda og gögn gloppótt, engar upplýsingar um efnahag og rekstur búsins hefðu verið lagðar fram, frumvarp ekki afhent kæranda auk þess sem aðilinn hefði ekki fengið fundarboð vegna skiptafunda. Hafi kærandi því fengið takmarkaðar og síðbúnar upplýsingar um ákvarðanir skiptastjóra og annarra erfingja sem teknar hafi verið á milli funda og staðfestar hafi verið með villandi bókunum í fundargerð. Þá hafi gögn sem kærandi hafi látið kærðu, sem lögmanni sínum, í té ekki verið lögð fram á fundum auk þess sem kröfur kæranda hafi þar ekki verið teknar til efnislegrar meðferðar. Kvaðst kærandi eftir mikla eftirfylgni hafa fengið gögn málsins frá kærðu. Þá hefði kærandi enga ástæðu til að treysta lögmönnum til að standa vörð um hagsmuni sína vegna reynslu undanfarins árs. Með öðrum orðum kvað kærandi traust sitt til lögmanna ekkert vera. Auk þess hafi skiptastjóri beitt kæranda vísvitandi og markvisst blekkingum og tekið þátt og annast þvinganir á hendur aðilanum um að samþykkja samning um afsal á arftökurétti gegn afhendingu einkabréfa úr dánarbúinu.
Skiptastjóri mun hafa sent kærðu hinar skriflegu aðfinnslur kæranda sem að ofan greinir og beint hafði verið til Héraðsdóms Y. Í kjölfar þess mun kærða hafa ritað bréf, dags. 17. janúar 2017, með yfirskriftinni „Bréf A til Héraðsdóms Y“ og beint er „Til þess er málið varðar.“ Í bréfi kærðu er aðkomu hennar að málefnum dánarbúsins fyrir hönd kæranda lýst, þ. á m. um að kærða hafi mætt á alla skiptafundi í dánarbúinu í umboði kæranda. Hafi kærða upplýst kæranda eftir hvern skiptafund um umræðuefni viðkomandi funda auk þess sem undirbúningur fyrir skiptafundi hafi verið unninn í samráði við kæranda enda kröfur settar þar fram fyrir hönd og í samráði við aðilann. Í bréfinu greinir jafnframt frá tilgreindum ágreiningsefnum sem komu upp við dánarbússkiptin, meðferð þeirra mála og afstöðu kæranda til þeirra.
Eins og greinir í efni bréfsins mun tímaskýrsla kærðu, vegna starfa aðilans í þágu kæranda á tímabilinu frá 27. júlí 2015 til og með 3. október 2016, hafa fylgt með því sem fylgiskjal. Er því lýst í bréfinu að fundir og símtöl aðila hafi verið afar löng og að meiri tími hafi farið í að ræða viðkomandi mál en almennt gerist í svona málum. Fráleitt sé að halda því fram að kærandi hafi verið þvingaður til einhvers enda sé það ekki háttur lögmanna að gera slíkt. Þá hafi kærða ítrekað boðið kæranda að fá afrit af gögnum sem hafi verið til umræðu á skiptafundum og þeim tengdum en að kærandi hafi ekki viljað fá viðkomandi gögn heim til sín. Er því lýst í bréfinu að skiptastjórinn hafi verið faglegur í sínum vinnubrögðum og að það séu því bein ósannindi sem kærandi haldi fram um hegðun skiptastjóra sem sé jafnframt mjög ósmekklegt af hálfu kæranda. Þá er að endingu vísað til þess að kærandi setji fram ótrúlega alvarlegar ásakanir á hendur skiptastjóra og kærðu. Það geri kærandi gegn betri vitund. Þannig hafi ekki verið staðið að hlutunum með þeim hætti sem kveðið hafi verið á um í aðfinnslum kæranda heldur sé þar að finna tilbúning og uppspuna.
Mál vegna aðfinnslna kæranda í garð skiptastjóra mun hafa verið rekið fyrir Héraðsdómi Y sem héraðsdómsmálið nr. Ö-xx/2016. Mun bréf kærðu sem áður er lýst, dags. 17. janúar 2017, hafa verið lagt fram með greinargerð skiptastjórans til héraðsdóms á dómþingi þann x. sama mánaðar. Þá mun lögmaður annars lögerfingja við dánarbússkiptin hafa lagt fram bréf kærðu í öðru aðskildu ágreiningsmáli vegna viðkomandi dánarbússkipta, þ.e. á dómþingi Héraðsdóms Y þann x. febrúar 2017 í máli nr. Q-xx/2016.
Eins og áður greinir hefur kærandi fyrir nefndinni lagt fram fjölda skjala til stuðnings kröfugerð sinni og málatilbúnaði. Verður frekari grein gerð fyrir tilgreindum gögnum við lýsingu á málsástæðum aðila fyrir nefndinni, eftir því sem við getur átt.
II.
Í kvörtun kæranda er þess krafist að kærða verði áminnt vegna brota á siðareglum lögmanna. Er vísað til þess að trúnaðarbrot og önnur brot kærðu séu mikil, óskammfeilin og sársaukafull. Enginn sem leiti til lögmanns eigi að þurfa að þola annað eins.
Í málatilbúnaði kæranda er því lýst að kærða hafi unnið fyrir aðilann frá því í júlí 2015 og þar til hann hafi sagt umboði kærðu lausu í septembermánuði 2016. Er tiltekið að tilefni kærunnar sé bréf, dags. 17. janúar 2017, sem kærða hafi ritað að beiðni C lögmanns, skiptastjóra í dánarbúi móður kæranda. Mun tilefni þeirrar beiðni hafa verið aðfinnslubréf kæranda til Héraðsdóms Y vegna starfa skiptastjórans samkvæmt 47. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Vísar kærandi til þess að hann hafi fengið bréfið ásamt greinargerð á dómþingi í máli nr. Ö-xx/2016 þann x. janúar 2017. Þá hafi bréfið jafnframt verið lagt fram af hálfu lögmanns annars erfingja við viðkomandi dánarbússkipti í ágreiningsmáli sem rekið hafi verið fyrir Héraðsdómi Y, þ.e. á dómþingi í máli nr. Q-xx/2016 þann x. febrúar 2017.
Í kvörtun kæranda er vísað til þess að kvörtunarefnin lúti í hnotskurn að nefndu bréfi, dags. 17. janúar 2017, sem kærða hafi sent til „þess sem málið varðar“ og með því brotið trúnað m.a. um eftirfarandi atriði.
Í fyrsta lagi bendir kærandi á að kærða hafi í bréfinu lýst samskiptum sínum og kæranda, sem skjólstæðings, og hvað farið hafi í milli aðila frá sínu sjónarmiði séð. Kveður kærandi lýsingarnar rangar og að það svíði að kærða skuli semja slíkan texta í þágu málatilbúnaðar gagnaðila svo unnt sé að nota skrifin gegn kæranda við niðurstöðu búskipta.
Í öðru lagi hafi kærða lýst samskiptum sínum og kæranda, sem skjólstæðings, um deiluefni við búskipti um verðmöt á eignum. Kveður kærandi að kærða hafi skýrt rangt frá og rangtúlki það sem kærandi eigi að hafa sagt og um huglæga afstöðu aðilans. Hafi kærða gert þetta sérstaklega til hagsbóta fyrir gagnaðila til að halla málstað kæranda.
Í þriðja lagi er vísað til bls. 2 í bréfinu þar sem kærandi kveður kærðu hafa gefið út álit um hvað kærandi eigi að hafa hugsað. Fari kærða þar rangt með en samtöl málsaðila, viðbrögð kæranda og allt annað sem frá aðilanum hafi komið vegna málsins sem kærða hafi tekið að sér hafi verið í trúnaði.
Í fjórða lagi er á það bent að kærða hafi upplýst um tímaskráningu sína í málinu að óþörfu þar sem lesa hafi mátt ýmsar upplýsingar um samskipti aðila. Hafi það verið gert til hagsbóta fyrir gagnaðila og notað til stuðnings persónulýsingu á kæranda til að gera lítið úr aðilanum með tali um að hann hafi haft sig mikið í frammi í samskiptum. Kveður kærandi þetta birtast í frásögn kærðu, framsetningu og samhengi orða hennar.
Í fimmta lagi vísar kærandi til þess að kærða hafi farið út í málflutning í þágu gagnaðila á bls. 2 í bréfinu í því skyni að hnekkja staðhæfingum kæranda í málinu og segja þær fráleitar.
Í sjötta lagi er vísað til þess að kærða hafi haldið lofræðu um skiptastjóra í bréfinu en hallmælt kæranda, sakað aðilann um ósannindi og ósmekklegheit í þeim tilgangi að eyðileggja málstað hans í réttarágreiningi.
Í sjötta lagi kveðst kærandi reisa kvörtun sína á því að kærða hafi sakað hann um að fara með rangt mál gegn betri vitund sem og sakað kæranda um tilbúning og uppspuna.
Í sjöunda og síðasta lagi vísar kærandi til þess að kærða hafi upplýst um vinnu sína í þágu kæranda að ófyrirsynju.
Um þetta efni vísar kærandi til þess að lögmaður hafi trúnað um „hvaðeina“ sem honum sé trúað fyrir í starfi, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Kveður kærandi að kærða hafi svikið sig með því að segja frá samskiptum aðila, hugarástandi kæranda, huglægri afstöðu til einstakra mála auk þess sem kærða fari rangt með og hafi gert þetta allt til hagsbóta fyrir gagnaðila í máli þar sem hún hefði áður gætt hagsmuna kæranda. Vísar kærandi hvað þetta varðar jafnframt til 1. mgr. 6. gr. siðareglna lögmanna og 230. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Vísar kærandi jafnframt til þess að kærða hafi brotið sérstaka þagnarskyldu um samskipti lögmanns og skjólstæðings, sbr. 17. gr. siðareglna lögmanna, auk þess sem kærða hafi gefið upplýsingar til hagsbóta fyrir gagnaðila í andstöðu við 2. mgr. 6. gr. siðareglnanna. Með því að hafa reynt að spilla hagsmunum kæranda hafi kærða einnig brotið gegn 1. mgr. 8. gr. siðareglnanna. Vísar kærandi til þess að kærða hafi átt að gæta hagsmuna hans og að hún hafi ekki mátt hefjast handa við að reyna spilla þeim eftir að hún hafi látið af störfum.
Byggir kærandi á að kærða hafi gert allt þetta með því að hafa farið með rangt mál í skilningi 1. gr. siðareglna lögmanna til að grafa undan málstað kæranda í andstöðu við sama ákvæði. Þá hafi kærða vanvirt stéttina í skilningi 2. gr. siðareglnanna. Bendir kærandi í því samhengi á að úrskurðarnefnd lögmanna hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að allir sem eigi samskipti við lögmenn geti treyst því að lögmaðurinn virði það í samskiptum við þá í störfum sínum. Hafi nefndin einnig játað þriðja manni aðild í slíkum tilfellum.
Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að kærða hafi brotið trúnað gegn kæranda eftir að umboði hennar hafi verið sagt lausu og notað trúnaðarupplýsingar sem henni hafi verið treyst fyrir í starfi sínu að beiðni þeirra sem kærandi eigi í deilum við og til hagsbóta þeim til handa fyrir dómi. Kærandi bendir á að bréfið hafi verið stílað á „Til þess er málið varðar“ og það afhent hverjum þeim sem óskað hafi eftir því sem yki enn á trúnaðarbrotið.
Er á það bent að bréf kærðu sé ítarlegra en tilefni gefi til, málsatvikum sé lýst með röngum hætti auk þess sem þar ræði um órökstuddar, ósannaðar og ósannanlegar upplýsingar um persónu kæranda. Talað sé niður og með niðrandi hætti um og til kæranda. Þá er á það bent að hið rúma tjáningarfrelsi sem lögmenn hafa skjólstæðingum sínum til varnar eigi ekki við í þessu tilviki enda sé um að ræða trúnaðarbrot kærðu gagnvart kæranda, sem fyrrum skjólstæðingi.
Með bréfinu kveðst kærandi hafa fengið staðfestingu á trúnaðarbroti kærðu sem hann hafi orðið áskynja í hagsmunavörslu sinni sem og þá orðið ljóst alvarleiki trúnaðarbrots kærðu í starfi. Afleiðingar brotsins séu enn að hafa áhrif á hagsmunavörslu kæranda í dánarbúi móður aðilans. Skiptastjóri hafi sent ágreining vegna skiptanna í annað sinn til héraðsdóms þar sem krafa lögmanns gagnaðila sé byggð á bréfi kærðu og því að kærandi sé bundinn af ákvörðunum sem kærða hafi tekið fyrir hans hönd, án vitundar kæranda og án þess að hann hefði verið upplýstur um allar ákvarðanir á þeim tíma sem störf kærðu hefðu staðið yfir.
Kærandi kveður að neikvætt viðmót kærðu og afstaða til kæranda komi vel í ljós í tilgreindu bréfi þar sem kærða tali með niðrandi hætti til og um kæranda, án þess að aðfinnslubréf hafi gefið tilefni til. Þá mótmælir kærandi sérstaklega tilvísun kærðu í bréfi til meintrar ósannsögli. Byggir kærandi á að allar upplýsingar sem hafi komið fram í aðfinnslubréfi séu byggðar á upplýsingum á fundum, tölvupóstum og gögnum, sem kærandi hafi fengið afhent og lagt fram með aðfinnslubréfi. Í bréfinu taki kærða undir afstöðu þeirra sem kærandi eigi í deilum við, þar sem tekið sé undir kröfur gagnaðila og þá með skriflegum vitnisburði þriggja lögmanna.
Kærandi bendir á að þegar aðfinnslubréf hafi verið samið hafi aðilinn aldrei hitt viðkomandi skiptastjóra heldur aðeins rætt við hann tvisvar í síma. Í aðfinnslubréfi sé hvergi minnst á hegðun eða framkomu skiptastjórans og sé athugasemd kærðu því tilefnislaus.
Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að ágreiningslaust sé að kærða hafi samtímis unnið að þremur málum fyrir sig, þ.e. í fyrsta lagi vegna opinberra skipta á dánarbúi móður kæranda á tímabilinu frá júlí 2015 til september 2016, í öðu lagi vegna uppsagnar úr námi við Háskóla Íslands á sama tímabili og í þriðja lagi vegna einkaskipta dánarbús móðurbróður aðilans á tímabilinu frá september 2015 til desember sama ár. Þessi mál hafi verið unnin samhliða og haldið óaðgreindum í samskipum.
Vegna opinberra skipta á dánarbúi er vísað til þess að kærða hafi mætt á alla skiptafundi í umboði kæranda auk þess sem hún hafi jafnframt haft milligöngu í samskiptum lögmanna fyrir hönd kæranda og lagt fram kröfur í umboði aðilans. Kærandi mótmælir því að skiptafundir hafi verið undirbúnir í samráði aðila og að allar kröfur hafi verið settar fram að höfðu samráði við kæranda.
Kærandi hafnar því sem greinir í bréfi kærðu, dags. 17. janúar 2017, um að hann hafi viljað geyma gögn á skrifstofu kærðu. Er vísað til þess að um fráleita fullyrðingu sé að ræða sem feli í sér að ósk kæranda hafi verið sú að greiða tímagjald lögmanns fyrir það að skoða gögn undir eftirliti. Bendir kærandi á að hann hafi ítrekað og árangurslaust óskað eftir gögnum. Fyrirkomulag kærðu hafi ekki verið að ósk kæranda heldur hafi það þvert á móti haldið kæranda í óvissu um ákvörðunartöku kærðu enda hafi kærða gefið þær skýringar að ákvarðanir meirihluta fundarmanna hefðu verið teknar og vísað jafnframt um það efni í lagalegan rétt skiptabeiðanda.
Kveður kærandi að hann hafi greitt alla reikninga kærðu á gjalddaga en að óskað hafi verið eftir fresti á greiðslu síðasta reiknings þar til kærða hefði afhent umbeðin gögn og þá eftir að umboði hafði verið sagt lausu. Þá er tilgreiningu í bréfi kærðu um afstöðu kæranda varðandi verðmöt á eignum búsins og ástand nánar tilgreindrar fasteignar hafnað og um það efni vísað til samskiptasögu og samanburðar á kröfum kæranda, bréfum kærðu og bókunum funda málsaðila.
Í kvörtun kæranda greinir jafnframt með ítarlegum hætti frá samskiptasögu málsaðila á tímabilinu frá 28. júlí 2015 til októbermánaðar 2016. Greinir þar meðal annars frá samskiptum og fundum málsaðila, aðkomu kærðu að málunum þremur í þágu kæranda, hvernig ákvarðanatöku var háttað sem og hvort og með hvaða hætti kærandi var upplýstur um slík atriði. Greinir þar meðal annars frá málarekstri sem kærða annaðist fyrir hönd kæranda gagnvart Háskóla Íslands og hvernig framsetningu krafna og upplýsingagjöf var háttað af hálfu kærðu gagnvart kæranda í því máli. Tilgreint mál, sem rekið var fyrir Héraðsdómi Y sem málið nr. E-xxxx/2015, var höfðað með birtingu stefnu þann x. október 2015 og lauk með dómi héraðsdóms uppkveðnum x. ágúst 2016 þar sem stefnda, íslenska ríkið fyrir hönd Háskóla Íslands, var sýknað af kröfum kæranda um greiðslu miskabóta en málskostnaður felldur niður.
Í málatilbúnaði kæranda er þess krafist að kærða verði áminnt fyrir að brjóta trúnað gagnvart sér með því að leggja fram bréf til stuðnings þeirra sem aðilinn átti í deilum við vegna dánarbússkipta. Er vísað til þess að kærða hafi notað upplýsingar sem kærandi hafi treyst henni fyrir í störfum sínum eftir að umboði kærðu hafi verið sagt lausu þann 28. september 2016. Er á það bent að bréfið hafi verið lagt fram í tveimur aðskildum dómsmálum og að þar sé ítrekað farið með rangt mál.
Þá óskar kærandi eftir að meðferð kærðu á máli gegn íslenska ríkinu fyrir hönd Háskóla Íslands verði tekið fyrir af úrskurðarnefnd lögmanna þar sem það hafi verið samtvinnað erfðamáli með órjúfanlegum hætti í meðförum og vinnu kærðu í þágu kæranda.
Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærðu fyrir nefndinni er á það bent að kærða hafi í raun játað á sig þær sakir sem á hana hafi verið bornar. Kærandi hafnar því jafnframt að það sé heiðarlegt að snúast gegnum fyrrum skjólstæðingi sínum og hagsmunum hans í sama máli og lögmaður hafi áður sinnt hagsmunagæslu í. Sé það kæranda hulið hvernig orðin „tillit til hagsmuna kæranda“ geti átt við rök að styðjast. Þá hafi kærða ekki verið að efla rétt með því að snúast gegn kæranda.
Kærandi telur ljóst að kærða misskilji 6. gr. siðareglnanna þar sem það sem fram fari á milli skjólstæðings og lögmanns sé öllum öðrum óviðkomandi, sérstaklega gagnaðilum í málum. Sama regla gildi um allt sem lögmaður kemst að í starfi fyrir skjólstæðing. Þá telur kærandi að það fái ekki staðist að kærða geri það að sérstakri röksemd að gagnaðili þurfi á hjálp hennar að halda gegn fyrrum skjólstæðingi. Þá sé það staðfest í málatilbúnaði kærðu að erfðamál og mál gegn Háskóla Íslands hafi verið rædd á sameiginlegum fundum og það lagt í mat úrskurðarnefndar hversu órjúfanlegur fundur sé.
Á grundvelli framlagðra gagna í málinu telur kærandi jafnframt ljóst að lýsing kærðu um að kærandi hafi ekki viljað fá gögn heim til sín sé röng.
Í viðbótarathugasemdum kæranda er jafnframt að finna ítarlega samantekt á máli sem kærða rak fyrir hans hönd gegn íslenska ríkinu, fyrir hönd Háskóla Íslands. Bendir aðilinn á að lýsing kærðu á málinu sé röng og villandi þar sem hún hafi tekið undir málstað gagnaðilans. Þá sé lýsing kærðu til þess fallin að gera lítið úr kæranda og gerð í því skyni að réttlæta gerðar sínar.
III.
Kærða kveðst ekki hafa brotið á neinn hátt gagnvart kæranda eða siðareglum lögmanna og mótmælir erindi kæranda í heild sinni. Samkvæmt því krefst kærða þess að kröfum kæranda fyrir nefndinni verði hafnað.
Varðandi kröfu kæranda um að kærða verði áminnt fyrir að hafa ritað bréf, dags. 17. janúar 2017, er vísað til þess að kærandi hafi sent erindi til Héraðsdóms Y, dags. 15. desember 2016, þar sem kvartað hafði verið undan skiptastjórn viðkomandi skiptastjóra í dánarbúi móður kæranda. Kveður kærða að skiptastjóri hafi sent sér viðkomandi erindi enda hafi þar verið að finna alvarlegar ásakanir gagnvart skiptastjóranum og kærðu sjálfri og á því byggt að kærða og skiptastjóri hefðu brotið verulega á kæranda og hans hagsmunum. Vísar kærða um það efni til nánar tilgreindra atriða í sjö liðum, en efni viðkomandi bréfs er nánar lýst í málsatvikalýsingu að framan.
Kærða vísar til þess að kærandi hafi beinlínis haft rangt við í bréfi sínu 15. desember 2016 um það hvernig skiptaferlið hefði gengið fyrir sig og borið þar rangar sakir á skiptastjóra og kærðu. Hafi kærandi þannig beinlínis borið upp á kærðu að hafa ekki gætt hans hagsmuna við skipti dánarbúsins, ekki sett fram hans kröfur, ekki leyft honum aðgang að gögnum vegna dánarbúsins og jafnvel unnið að því með skiptastjóra að fá hann til að samþykkja atriði vegna framgangs skiptanna sem hafi ekki verið í samræmi við hans vilja. Kveðst kærða hafa metið það svo að ekki væri hjá því komist að verja eigin starfsheiður auk þess sem aðilinn hefði talið ófært að kærandi kæmist upp með að segja ósatt um störf skiptastjóra. Hafi kærða því ákveðið að skrifa viðkomandi bréf, dags. 17. janúar 2017, sem kærandi vísi til í erindi sínu til úrskurðarnefndar.
Í málatilbúnaði kærðu er vísað til þess að í samantekt kæranda sé rakið efni funda aðila. Kveður kærða það rétt að aðilar hafi átt marga fundi á því tímabili sem störf kærðu í þágu kæranda hafi staðið yfir og að þeir hafi allir verið langir. Hafi kærða aldrei sett á blað punkta yfir efni þeirra funda auk þess sem kærandi hafi aldrei punktað hjá sér þau atriði sem farið hafi verið yfir á fundum. Bendir kærða á að kærandi hafi sett viðkomandi punkta fram löngu síðar og að kærða hafi engar forsendur til að hafa skoðun á því að það sem rætt hafi verið á hverjum fundi fyrir sig sé í samræmi við það sem raunverulega gerðist eða hvort punktar kæranda séu nákvæmlega rétt hafðir eftir kærðu. Gerir kærða því fyrirvara við framsetningu kæranda að þessu leyti.
Kærða hafnar því að hafa brotið gegn siðareglum lögmanna eða ákvæðum almennra hegningarlaga.
Í fyrsta lagi telur kærða sig ekki hafa brotið gegn 1. gr. siðareglna lögmanna. Er vísað til þess að kærandi byggi á að kærða hafi farið með rangt mál til að grafa undir málstað hans. Kærða kveður að hin alvarlega ásökun sé ekki rökstudd að neinu leyti og að það sé vandséð á hverju sé byggt. Vísar kærða til þess að ásökunin sé fráleit og að hún kannist ekki við annað en að hafa sinnt skyldum gagnvart kæranda eftir bestu samvisku í alla staði.
Í öðru lagi hafnar kærða því að hún hafi í störfum fyrir kæranda vanvirt heiður lögmannastéttarinnar, sbr. 2. gr. siðareglnanna. Vísar kærða til þess að öll hennar vinna hafi verið unnin af heiðarleika og samkvæmt því sem best hafi getað átt við með tilliti til hagsmuna kæranda.
Í þriðja lagi kveðst kærða ekki kannast við að hafa brotið gegn 6. gr. siðareglna lögmanna. Upplýsingum vegna mála kæranda hafi verið haldið frá óviðkomandi og hafi kærða þannig hvergi sett fram upplýsingar til óviðkomandi aðila um málefni kæranda. Kærða hafnar því að hún hafi brotið gegn ákvæðinu með því að rita bréf, dags. 17. janúar 2017. Ekki hafi verið sagt frá neinum upplýsingum varðandi kæranda heldur hafi einungis verið að finna lýsingu á því hvernig vinnu kærðu hefði verið háttað fyrir hönd kæranda við opinber skipti á dánarbúi móður aðilans. Þá hafi bréfið ekki verið afhent neinum óviðkomandi. Það hafi verið afhent skiptastjóra dánarbúsins til framlagningar í héraðsdómi vegna umfjöllunar um vinnu skiptastjóra og óhjákvæmilega einnig kærðu.
Um meint brot gegn 1. mgr. 8. gr. siðareglnanna vísar kærða í fjórða lagi til þess að hún hafi gætt hagsmuna kæranda í hvívetna við skiptameðferð dánarbúsins. Er á það bent að þrátt fyrir fullyrðingar kæranda um að kærða hafi ekki rætt við hann um kröfur hans í dánarbúinu, að kærða hafi ekki upplýst hann um gögn og framgang skipta, settar hafi verið fram kröfur í nafni kæranda sem hann hafi alls ekki viljað eða honum hafi ekki verið afhent gögn vegna skiptameðferðarinnar verði ekki annað ráðið af samantekt aðilans en að kærða hafi hitt hann mikið, farið yfir öll atriði skiptanna og sýnt honum gögn. Þá vísar kærða til þess að hún hafi margsinnis rætt við kæranda hvort hann vildi ekki fá afrit af öllum gögnum til að fara með heim til sín en slíkt hafi kærandi ekki viljað.
Í fimmta lagi vísar kærða til þess að hún hafi ekki afhent neinum óviðkomandi aðila gögn eða upplýsingar um kæranda og hafnar samkvæmt því að hafa brotið gegn 17. gr. siðareglnanna.
Kærða kveður hins vegar að ekki séu nein tilefni til áminningar vegna vinnu lögmannsins í þágu kæranda gegn Háskóla Íslands.
Kærða vísar til þess að kærandi hafi stundað nám við Háskóla Íslands til að afla sér kennsluréttinda á framhaldsskólastigi. Hluti af því námi hafi verið vettvangsnám í tilteknum framhaldsskóla. Hafi kærandi verið afar óánægður með þann leiðsagnarkennara sem hann hafi haft í viðkomandi framhaldsskóla og sett fram kvartanir vegna þess. Hafi sú kvörtun orðið til þess að kæranda hafi verið vísað úr vettvangsnáminu af hálfu skólastjóra. Kærandi hafi kært þá niðurstöðu til kærunefndar innan Háskóla Íslands sem hafi tekið undir sjónarmið aðilans og talið að brotið hefði verið á réttindum kæranda.
Vísar kærða til þess að kærandi hafi viljað stefna Háskóla Íslands til að fá viðurkenningu á því að brotið hafi verið á rétti hans og honum gert ómögulegt að ljúka námi sínu. Hafi kærða farið yfir það með kæranda hvernig væri hægt að setja fram kröfu í dómsmáli auk þess sem lýsing málavaxta og kröfugerð í stefnu hafi verið gerð í samræmi við óskir kæranda.
Í málatilbúnaði kærðu er vísað til þess að í stefnu hafi verið gerðar kröfur í tveimur liðum, þ.e. annars vegar hafi verið gerð viðurkenningarkrafa um að ólögmætt hefði verið að vísa kæranda úr náminu og hins vegar fjárkrafa vegna miska. Stefndi í málinu hafi hins vegar kafist frávísunar vegna framsetningar á kröfum. Hafi niðurstaðan orðið sú að fallið hafi verið frá fyrri lið í kröfu kæranda, þ.e. um viðurkenningu, og að stefndi hafi þá fallið frá kröfu sinni um frávísun. Vísar kærða til þess að þetta hafi verið gert af tæknilegum ástæðum enda mat hennar að líklegt væri að dómurinn myndi vísa viðurkenningarkröfunni frá þar sem segja mætti að í seinni kröfuliðnum, miskabótakröfunni, fælist að dómurinn þyrfti fyrst að meta hvort brotið hefði verið gegn rétti kæranda. Kærða hafi talið rétt að gera þetta með þessum hætti og koma með því í veg fyrir frekari kostnað kæranda vegna flutnings um frávísunarkröfuna. Hafi kærða með þessu verið að vinna að hagsmunum kæranda auk þess sem kærandi hafi verið upplýstur um öll viðkomandi atriði.
Kærða hafnar því að hún hafi brotið gegn siðareglum lögmanna við meðferð málsins með því að samtvinna það mál erfðamáli kæranda með „órjúfanlegum hætti“ líkt og kærandi byggi á. Vísar kærða til þess að hún hafi í öllum tilvikum rætt málið gegn háskólanum annars vegar við kæranda en hins vegar mál dánarbúsins. Hafi það aldrei verið svo í huga kærðu að málunum væri blandað saman með órjúfanlegum hætti.
Í viðbótarathugasemdum kærðu var á það bent að vandséð væri hvernig ákvæði 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem fjallar um vitni fyrir dómi, gæti átt við um sakarefnið. Þá var á það bent að kærða hefði unnið af heilindum að hagsmunum kæranda og samkvæmt því hafnað að kærða hefði snúist gegn kæranda á einhverju tímamarki. Að endingu benti kærða á að sjálfsagt væri fyrir skjólstæðinga, sem teldu að lögmaður hefði ekki sinnt starfi sínu í þeirra þágu, að leita réttar síns og í því sambandi gætu viðkomandi leitað til eftirlitsaðila. En þegar slík mál og ávirðingar sem skjólstæðingur setur fram á hendur lögmanni séu skoðuð, sé eðlilegt og nauðsynlegt að réttilega sé greint frá málavöxtum. Ítrekaði kærða að öðru leyti fyrri málatilbúnað sinn fyrir nefndinni um að hún hefði talið rétt að rita bréf, dags. 17. janúar 2017, að beiðni skiptastjóra enda hefðu þar verið settar fram alvarlegar ávirðingar á hendur kærðu sem hún hafi talið nauðsynlegt að svarað yrði.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
II.
Kærandi reisir málatilbúnað sinn fyrir nefndinni á því að kærða hafi gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum nr. 77/1998 sem og ýmsum ákvæðum siðareglna lögmanna.
Í málatilbúnaði aðilans er annars vegar um það efni vísað til meintra brota kærðu á þagnar- og trúnaðarskyldum sem kveðið er á um í tilgreindum heimildum. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Er áréttað í 6. gr. siðareglna lögmanna að upplýsingum, sem lögmaður fái í starfi, skuli haldið frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki auk þess sem kveðið er á um að lögmaður megi ekki nota sér upplýsingar, sem honum sé trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila. Þá er tiltekið í 1. mgr. 17. gr. siðareglnanna, sem er að finna í III. kafla þeirra þar sem kveðið er á um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum, að lögmaður skuli aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint er að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem lögmaður hefur fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing. Trúnaðarskylda þessi helst þótt verki sé lokið, sbr. 4. mgr. 17. gr. siðareglnanna.
Í málatilbúnaði kæranda er hins vegar um meint brot kærðu vísað til ákvæða 1. gr., 2. gr. og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt 1. gr. siðareglnanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Í 2. gr. siðareglnanna er kveðið á um að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Þá er meðal annars tiltekið í 1. mgr. 8. gr. reglnanna að lögmaður skuli, í samræmi við meginreglu 1. gr., leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna.
Fyrir liggur að kærða veitti kæranda lögmannsþjónustu vegna opinberra skipta á dánarbúi móður kæranda frá lok júlímánaðar 2015 til 28. september 2016 þegar umboð kærðu var afturkallað með tölvubréfi kæranda. Ekki verður annað ráðið af framlögðum gögnum en að kærðu hafi verið falið að gæta hagsmuna kæranda í hvívetna við dánarbússkiptin, þ. á m. að koma fram fyrir hönd kæranda gagnvart skiptastjóra og öðrum erfingjum, setja fram kröfur, annast mætingar á skiptafundi sem og sinna öðrum verkum sem lutu að skiptum dánarbúsins.
Jafnframt liggur fyrir að kærandi hafði uppi skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra dánarbúsins við Héraðsdóm Y með bréfi, dags. 15. desember 2016. Var þess krafist í bréfinu af hálfu kæranda að skipaður yrði fjárhaldsmaður yfir búið og að skiptastjóra yrði vikið frá störfum, en gerð er nánari grein fyrir efni bréfsins í málsatvikalýsingu að framan. Mun mál vegna aðfinnslna kæranda í garð skiptastjóra dánarbúsins hafa verið rekið fyrir dóminum á milli tilgreindra aðila sem héraðsdómsmálið nr. Ö-xx-2016. Ekki er ágreiningur um að undir rekstri málsins hafi skiptastjóri sent kærðu hinar skriflegu aðfinnslur kæranda. Þá er jafnframt ágreiningslaust að kærða ritaði í framhaldi þessa bréf, dags. 17. janúar 2017, sem aðilinn kveðst hafa afhent skiptastjóra dánarbúsins, þar sem aðkomu kærðu að málefnum dánarbúsins fyrir hönd kæranda var lýst. Kvörtunarefni kæranda í málinu lúta að flestu leyti að efni tilgreinds bréfs kærðu, sem nánar er lýst í atvikalýsingu að framan, en skiptastjóri mun hafa lagt það fram með greinargerð sinni til héraðsdóms á dómþingi þann x. janúar 2017.
Kærandi reisir málatilbúnað sinn á því að kærða hafi gert á sinn hlut með því að rita viðkomandi bréf, dags. 17. janúar 2017, og að sú háttsemi hafi strítt gegn framangreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna. Byggir aðilinn þannig á að kærða hafi brotið gegn þagnar- og trúnaðarskyldum sínum gagnvart sér þar sem samskiptum kærðu, sem lögmanns, og kæranda, sem skjólstæðings, hafi verið lýst jafnframt því sem gerð hafi verið grein fyrir huglægri afstöðu kæranda til einstakra ágreiningsefna við dánarbússkiptin. Auk þess hafi lýsingar kærðu í efni bréfsins verið rangar og þær verið til þess fallnar að halla málstað kæranda í réttarágreiningi við dánarbússkiptin. Tímaskýrsla kærðu vegna starfa hennar í þágu kæranda frá 27. júlí 2015 til og með 3. október 2016 hafi einnig fylgt með bréfi kærðu að óþörfu þar sem lesa hafi mátt ýmsar upplýsingar um samskipti aðila og vinnu kærðu í þágu kæranda að óviðkomandi málum. Þá hafi kærða sakað kæranda í bréfinu um að fara með ósannindi og ósmekklegheit í þeim tilgangi að eyðileggja málstað hans í réttarágreiningi.
Eins og áður greinir var í hinu umþrætta bréfi kærðu, dags. 17. janúar 2017, að finna lýsingu á aðkomu aðilans að málefnum dánarbúsins fyrir hönd kæranda, innbyrðis samskiptum aðila vegna dánarbússkiptanna sem og hvernig framkvæmd lögmannsstarfanna var háttað. Jafnframt var í bréfinu að finna lýsingu kærðu á einstökum ágreiningsefnum sem komu upp við dánarbússkiptin, meðferð þeirra mála og huglægri afstöðu kæranda til þeirra. Að áliti nefndarinnar tók efni bréfsins, sem kærða afhenti skiptastjóra dánarbúsins í kjölfar bréflegs erindis kæranda til Héraðsdóms Y um aðfinnslur í garð skiptastjórans, ótvírætt til málefna sem varin eru af þagnar- og trúnaðarskylduákvæðum laga nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna, sbr. einkum 1. mgr. 22. gr. laganna, 6. gr. og 1. mgr. 17. gr. siðareglnanna. Ekki er ágreiningur í málinu um að slíkar skyldur lögmanns gagnvart skjólstæðingi haldast eftir að samningssambandi og verki er lokið, eins og jafnframt er áréttað í 4. mgr. 17. gr. siðareglnanna.
Á hinn bóginn er til þess að líta að kærða ritaði og afhenti skiptastjóra hið umþrætta bréf í kjölfar vitneskju um efni þeirra aðfinnslna sem kærandi hafði beint til Héraðsdóms Y á grundvelli 47. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. þann 15. desember 2016. Auk aðfinnslna í garð skiptastjóra er í bréfi kæranda að finna lýsingu aðilans á framgangi dánarbússkiptanna, meðferð þeirra og framkvæmd, auk þess sem kærandi hefur uppi alvarlegar ásakanir í garð fyrrum lögmanns síns, þ.e. kærðu í þessu máli. Þannig verður ekki annað ráðið af aðfinnslubréfi kæranda en að aðilinn hafi litið svo á að hagsmuna hans hafi ekki verið gætt við dánarbússkiptin, að kærða hafi hvorki sett fram hans kröfur undir þeim né leyft honum aðgang að gögnum búsins. Þá hafi kærða reynt að fá kæranda til að samþykkja frumvarp við dánarbússkiptin óséð sem leitt hafi til afturköllunar lögmannsumboðsins.
Að mati nefndarinnar voru þær ásakanir í garð kærðu sem settar voru fram í skriflegu erindi kæranda til Héraðsdóms Y, dags. 15. desember 2016, mjög alvarlegar enda fólu þær í sér að kærða hefði brotið gróflega gegn þeim starfsskyldum lögmanna sem kveðið er á um í lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna við framkvæmd starfans í þágu kæranda sem skjólstæðings. Að teknu tilliti til þeirra aðstæðna sem voru fyrir hendi þegar hið umþrætta bréf kærðu var ritað verður að áliti nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærðu hafi verið heimilt, þrátt fyrir þá þagnar- og trúnaðarskyldu sem hún sannanlega bar gagnvart kæranda sem fyrrum skjólstæðingi sínum, að lýsa aðkomu sinni að dánarbússkiptunum með þeim hætti sem hún gerði og með því standa vörð um eigin starfsheiður. Við það mat verður jafnframt litið til þess að efni hins umþrætta bréfs kærðu gekk ekki lengra en tilefni var til í ljósi hinna alvarlegu ásakana kæranda sem áður höfðu komið fram auk þess sem ekki liggur annað fyrir en að kærða hafi afhent skiptastjóra einum, sem varnaraðila í héraðsdómsmálinu nr. Ö-xx/2016, bréfið þótt það hafi síðar verið lagt fram sem skjal í viðkomandi dómsmáli. Samkvæmt því verður ekki talið að kærða hafi með efni bréfs síns gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, eins og áskilið er í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
Eins og áður er rakið fylgdi tímaskýrsla kærðu, vegna starfa aðilans í þágu kæranda frá 27. júlí 2015 til og með 3. október 2016, með hinu umþrætta bréfi kærðu sem fylgiskjal en skýrslan tók jafnframt til lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda vegna annarra verkþátta en hagsmunagæslu vegna dánarbússkiptanna. Þótt færslur í tímaskýrslu kærðu séu fáorðar um þau verk sem unnin voru í þágu kæranda á hverjum tíma þá verður af henni ráðið að unnið hafi verið að málum sem hafi verið ótengd dánarbússkiptunum, eins og jafnframt er staðfest í bréfi kærðu frá 17. janúar 2017. Af lestri tímaskýrslunnar greinir þannig til að mynda að kærða hafi komið að málshöfðun og málarekstri fyrir dómi fyrir hönd kæranda sem hafi lokið með dómsuppkvaðningu á nánar tilgreindum degi. Þótt um frábrotnar upplýsingar séu að ræða um önnur störf kærðu í þágu kæranda en hið umþrætta bréf kærðu tók til verður ekki fram hjá því litið að um er að ræða upplýsingar sem varða störf kærðu sem lögmanns í þágu kæranda sem skjólstæðings. Að mati nefndarinnar verður hvorki séð að framlagning tímaskýrslunnar með hinu umþrætta bréfi hafi haft neitt sjálfstætt gildi umfram það sem greindi í bréfinu sjálfu né að efni hafi að öðru leyti verið til afhenda hana til annars óviðkomandi þriðja aðila. Þá hefur kærða að áliti nefndarinnar ekki veitt viðhlítandi skýringar á þörf þess að láta tímaskýrsluna fylgja með bréfinu til skiptastjóra dánarbúsins. Fór háttsemi kærðu að þessu leyti í bága við 1. mgr. 17. gr. siðareglna lögmanna og er hún aðfinnsluverð.
III.
Áður er rakið efni 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en í ákvæðinu er meðal annars tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.
Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.
Auk þeirra kvörtunarefna sem áður er lýst er í málatilbúnaði kæranda vísað til lögmannsþjónustu og hagsmunagæslu sem kærða sinnti í þágu kæranda vegna uppsagnar hins síðarnefnda úr námi við Háskóla Íslands. Ekki er ágreiningur um að sú lögmannsþjónusta kærðu var innt af hendi á tímabilinu frá júlímánuði 2015 til septembermánaðar 2016 og fólst meðal annars í rekstri dómsmáls fyrir héraðsdómi fyrir hönd kæranda gegn íslenska ríkinu vegna Háskóla Íslands. Er í kvörtun kæranda til nefndarinnar óskað eftir því að meðferð kærðu á tilgreindu máli verði tekið fyrir af nefndinni þar sem það hafi verið samtvinnað öðrum málum sem kærða hafi sinnt hagsmunagæslu í með órjúfanlegum hætti.
Um þetta efni er þess að gæta að viðkomandi dómsmál, sem var höfðað með birtingu stefnu þann x. október 2015, var leitt til lykta með dómi Héraðsdóms Y þann x. ágúst 2016. Samkvæmt dómsorði var stefndi sýknaður af kröfum kæranda, sem stefnanda í málinu, en málskostnaður féll niður. Líkt og greinir í málsatvikalýsingu að framan þá liggja fyrir nefndinni tölvubréfasamskipti aðila í kjölfar dómsuppkvaðningar, þ.e. frá 30. ágúst 2016 til 7. september sama ár, en af þeim verður ráðið að tekin hafi verið ákvörðun um að una dómi héraðsdóms. Samkvæmt því mun dómur héraðsdóms hafa verið endanlegur í málinu og lauk með því aðkomu og hagsmunagæslu kærðu í þágu kæranda vegna málsins. Nokkru síðar, eða með tölvubréfi kæranda til kærðu þann 28. september 2016, var lögmannsumboð kærðu svo afturkallað eins og áður greinir.
Að áliti nefndarinnar verður vegna tilgreindra kvörtunarefna ekki miðað við annað tímamark en dómsuppkvaðningu þess máls sem um ræðir og tölvubréfasamskipta aðila í framhaldi hennar í septembermánuði 2016 við mat á því hvenær kærandi átt þess kost að koma kvörtunum á framfæri í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Verður að mati nefndarinnar að ætla að kærandi hafi þá þegar haft fullnægjandi gögn og upplýsingar um framvindu og rekstur dómsmálsins til að geta lagt mat á hvort tilefni væri til að koma kvörtun á framfæri vegna háttsemi og hagsmunagæslu kærðu í málinu og meintra brota hennar á ákvæðum laga og siðareglna lögmanna. Kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin af úrskurðarnefnd lögmanna þann 18. janúar 2018 en þá þegar voru tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum liðnir. Í ljósi fortakslauss ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. áður lýstra málsmeðferðarreglna fyrir nefndinni, verður ekki hjá því komist að vísa ágreiningi í þessum þætti málsins frá úrskurðarnefnd lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Sú háttsemi kærðu, B lögmanns, að afhenda C lögmanni, skiptastjóra dánarbús D, tímaskýrslu, sem fylgiskjal með bréfi dags. 17. janúar 2017, sem tók til annarra óviðkomandi starfa kærðu í þágu kæranda, A, á tímabilinu frá 27. júlí 2015 til og með 3. október 2016, er aðfinnsluverð.
Kröfu kæranda um að kærða verði áminnt vegna starfa í þágu kæranda við hagsmunagæslu í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2015 er vísað frá nefndinni.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður.
Berglind Svavarsdóttir lögmaður.
Valborg Þ. Snævarr lögmaður.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Sölvi Davíðsson