Mál 24 2018

Mál 24/2018

Ár 2019, 14. mars 2019, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. nóvember 2018 erindi kæranda, stjórnar A, um ætluð brot kærða, B, á 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 2. gr. og 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 27. gr. laga nr. 77/1998.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 9. nóvember 2018, þar sem meðal annars var tekið fram það mat nefndarinnar að um væri að ræða kvörtun reista á 27. gr. laga nr. 77/1998. Greinargerð kærða barst nefndinni þann 26. nóvember 2018 og var hún send kæranda til athugasemda þann 27. sama mánaðar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda þann 4. janúar 2019 og voru þær sendar kærða til athugasemda með bréfi dags. 7. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ekki er ágreiningur um að kærði hafði virk lögmannsréttindi á árunum 2017 og 2018.

Í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að lögmaður skuli fyrir 1. október ár hvert senda A, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest er af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi lögmannsins. Þá er þar tiltekið að samtímis skuli lögmaður senda A upplýsingar um verðbréf sem voru í hans vörslu 31. desember fyrra árs sem staðfestar séu af löggiltum endurskoðanda.

Þann 16. maí 2018 beindi kærandi tölvubréfi til starfandi lögmanna með yfirskriftinni „Fjárvörsluyfirlýsing 2018 – eyðublað o.fl.“. Var þar tiltekið að meðfylgjandi tölvubréfinu væri að finna eyðublað yfirlýsingar um fjárvörslur og verðbréfaskrá vegna ársins 2017 sem sjálfstætt starfandi lögmenn þyrftu að skila til kæranda í síðasta lagi 1. október 2018, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Þá var í tölvubréfinu vakin sérstök athygli lögmanna á ákvörðun stjórnar kæranda varðandi áhrif vanskila á fjárvörsluyfirlýsingum og frágangi fjárvörslu við starfslok sem var svohljóðandi:

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er m.a. kveðið á um skyldu sjálfstætt starfandi lögmanna til að hafa sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og í 1. mgr. 23. gr. sömu laga segir jafnframt að sjálfstætt starfandi lögmönnum sé skylt að halda fjármunum þeim sem þeir taka við í þágu annarra aðgreindum frá eigin og varðveita þá á slíkum vörslu­fjárreikningi. Þá er í 2. mgr. 23. gr. laganna kveðið á um að lögmaður skuli fyrir 1. október ár hvert senda A, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest er af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi lögmannsins. Þá segir í 4. mgr. 23. gr. að hafi lögmaður sem ákvæði 23. gr. tekur til ekki skilað stjórn A yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings fyrir 1. október ár hvert, eða slík yfirlýsing hefur ekki reynst full­nægjandi, beri félaginu að leggja til við sýslumann að réttindi hans verði felld niður. Sam­kvæmt ákvæðinu ber sýslumanni að taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.

Reglulega koma upp tilvik þar sem lögmenn standa A ekki skil á fjárvörslu­yfirlýsingu innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í lögmannalögum, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar um. Hefur stjórn A í þeim tilvikum þurft að leggja til við sýslumann nið­urfellingu málflutningsréttinda hlutaðeigandi lögmanna.

Þrátt fyrir að megin þorri slíkra niðurfellingarbeiðna sé afturkallaður í kjölfar skila lögmanna á fjárvörsluyfirlýsingum, kemur fyrir að fella þurfi réttindi lögmanna niður og eru þau þá ekki veitt hlutaðeigandi að nýju fyrr en skilað hefur verið inn fullnægjandi fjárvörsluyfirlýsingu.

Stjórn A ákvað á fundi sínum þann 6. mars 2018 að komi sú staða upp að lögmaður skili félaginu ekki fjárvörsluyfirlýsingu innan þess frests sem tilgreindur er í 2. mgr. 23. gr. lögmannalaga, verði kvörtun vegna slíkra vanskila send úrskurðarnefnd lög­manna til meðferðar. Jafnframt samþykkti stjórn A að komi til þess að leggja þurfi til við sýslumann niðurfellingu málflutningsréttinda lögmanns vegna vanskila á fjárvörsluyfir­lýsingu, verði sjálfstæð kvörtun send úrskurðarnefnd lögmanna vegna þess hluta málsins.

Þá hefur stjórn A gert þá breytingu á framkvæmd eftirlits félagsins með fjárvörslum lögmanna, m.a. með vísan til 13. gr., sbr. 11. og 12. gr. reglugerðar nr. 1192/2005, að framvegis skulu allir sjálfstætt starfandi lögmenn sem hætta rekstri, skila stjórn A yfirlýsingu, staðfestri af löggiltum endurskoðanda, þess efnis að gengið hafi verið frá fjárhagslegu uppgjöri við alla umbjóðendur þeirra og að öllum fjárvörslureikningum hafi verið lokað, eða staðfestingu annars lögmanns/annarra lögmanna þess efnis að hann/þeir hafi tekið við óloknum málum lögmannsins og að hann/þeir muni annast fjárvörslur og uppgjör vegna þeirra.

Kærandi sendi á ný tölvubréf til lögmanna dagana 30. ágúst, 14. og 25. september 2018 þar sem minnt var á yfirlýsingu um fjárvörslur og verðbréfaskrá vegna ársins 2017 og að skila þyrfti slíkum yfirlýsingum á skrifstofu kæranda í síðasta lagi 1. október 2018. Liggja tilgreind tölvubréf fyrir í málsgögnum fyrir nefndinni.

Í bréfi kæranda til kærða, dags. 4. október 2018, sem bar yfirskriftina „Fjárvörslureikningar lögmanna“, var því lýst að þann 1. sama mánaðar hefði kærði átt að vera búinn að senda stjórn kæranda yfirlýsingu um fjárvörslureikninga og verðbréfaskrá fyrir árið 2017, með uppgjörsdegi 31. desember 2017. Á grundvelli þeirra lagaheimilda sem vísað var til í bréfinu fór kærandi þess á leit við kærða að hann gerði viðeigandi úrbætur hið fyrsta. Þá var tiltekið að ef yfirlýsing bærist ekki fyrir 15. október 2018 yrði kvörtun vegna vanskila send úrskurðarnefnd lögmanna til meðferðar.

Kærandi ítrekaði fyrri erindi sín til kærða með tölvubréfi, dags. 18. október 2018. Var tiltekið í tölvubréfinu að kvörtun vegna vanskila yrði send til úrskurðarnefndar lögmanna til meðferðar þann 22. sama mánaðar.

Kærði mun ekki hafa brugðist við tilgreindum erindum kæranda innan tilskilins tímafrests og var málinu því beint til nefndarinnar með kvörtun sem móttekin var þann 6. nóvember 2018, svo sem áður er lýst.

Upplýst hefur verið undir rekstri málsins fyrir nefndinni að kærði hafi skilað yfirlýsingu þeirri sem og þeim upplýsingum til kæranda, sem kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998, þann 19. nóvember 2018.

II.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna leggi mat á hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 2. gr. og 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna, og ef svo reynist, ákvarði hæfileg viðurlög því til samræmis.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að kvörtuninni sé beint að meintu broti kærða á tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna með því að hafa ekki skilað stjórn kæranda yfirlýsingu um fjárvörslureikninga og verðbréfaskrá vegna ársins 2017. Kveðst kærandi reisa kvörtunina á 27. gr. laga nr. 77/1998.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 sé sérhverjum sjálfstætt starfandi lögmanni skylt að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu, allt samkvæmt því sem nánar segir í 19., 23. og 25. gr. laganna. Jafnframt sé kveðið á um í 2. mgr. 23. gr. laganna að lögmaður skuli fyrir 1. október ár hvert senda kæranda, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest sé af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi aðilans. Samtímis skuli lögmaður senda A upplýsingar um verðbréf sem voru í hans vörslu 31. desember fyrra árs sem staðfestar séu af löggiltum endurskoðanda.

Í málatilbúnaði kæranda er jafnframt á það bent að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998 hafi kærandi eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum sínum samkvæmt 6., 9. og 12. gr. laganna. Í 3. mgr. 13. gr. laganna komi fram að hafi lögmaður sem ákvæði 23. gr. tekur til ekki skilað stjórn kæranda yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins fyrir 1. október ár hver, eða hafi slík yfirlýsing ekki reynst fullnægjandi, beri kæranda að leggja til við sýslumann að réttindi hans verði felld niður.

Kærandi vísar jafnframt fyrir nefndinni til ákvæða 2. gr., 1. og 2. mgr. 40. gr. og 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna vegna sakarefnisins.

Kærandi bendir á að skilaskyldum lögmönnum hafi borist eyðublað um fjárvörslureikninga og verðbréfaskrá vegna ársins 2017 í tölvubréfi þann 16. maí 2018, þar sem þeir hafi verið áminntir um skilin og kynnt inntak 1. mgr. 12. gr. og 2. og 4. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Auk þess hafi verið kynnt sú ákvörðun stjórnar kæranda að kæmi upp sú staða að lögmaður skilaði félaginu ekki fjárvörsluyfirlýsingu innan lögbundins frests, yrði kvörtun vegna slíkra vanskila send úrskurðarnefnd lögmanna til meðferðar. Þá hafi verið kynnt sú ákvörðun viðkomandi stjórnar að sjálfstæð kvörtun yrði send úrskurðarnefndinni kæmi til þess að leggja þyrfti til við sýslumann niðurfellingu málflutningsréttinda lögmanns á grundvelli 3., sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998.

Kærandi lýsir því að árétting um skil fjárvörsluyfirlýsingar og verðbréfaskrár hafi verið send lögmönnum með tölvubréfum dagana 16. maí, 30. ágúst, 14. og 25. september 2018. Loks hafi þeim lögmönnum sem ekki höfðu skilað inn fjárvörsluyfirlýsingu verið send ítrekun með bréfi, dags. 4. október 2018, þar sem upplýst hafi verið um að bærist A ekki fullnægjandi fjárvörsluyfirlýsing fyrir 15. sama mánaðar yrði kvörtun vegna vanskila send úrskurðarnefnd lögmanna til meðferðar.

Kærandi kveður kærða ekki hafa sinnt skyldu sinni þrátt fyrir skýra lagaskyldu og ítrekanir kæranda. Í ljósi þess hefði stjórn kæranda ákveðið að leggja fram kvörtun til nefndarinnar vegna ætlaðra brota kærða gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna.

Vísað er til þess í kvörtun að samkvæmt 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna hafi stjórn kæranda eftirlit með því að siðareglunum sé fylgt og hafi um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða sé til. Kveður kærandi að skoða þurfi 1. mgr. ákvæðisins í ljósi tilgangs A eins og hann sé skilgreindur í 2. gr. samþykkta A, þar sem segi m.a. að tilgangur A sé að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi, gæta hagsmuna lögmannastéttarinnar og stuðla að réttaröryggi.

Um aðild kæranda vísar aðilinn til þess að samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 hafi kærandi meðal annars það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem varða stétt lögmanna. Þá vísar kærandi til úrskurða úrskurðarnefndar lögmanna í málum nr. 26/2016, 14/2017, 28/2017 og 36/2017 þar sem fallist hafi verið á aðild stjórnar kæranda að málum vegna meintra brota félagsmanna á lögum og/eða siðareglum lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda var vísað til þess að kvörtun í málinu lyti að ætluðum brotum gegn lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna sem stjórn kæranda teldi fara gegn þeim hagsmunum sem aðilanum bæri að gæta og vinna að. Samkvæmt því yrði það vart dregið í efa að kærandi hefði lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu í málinu. Fengi slíkt jafnframt stoð í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 14/2017.

Kærandi byggir á að sú staðhæfing kærða að kærandi geti ekki skotið málum til úrskurðarnefndar vegna brota á 2. gr. siðareglna lögmanna í þeim tilvikum þegar til staðar séu sérákvæði í lögum nr. 77/1998 um tilteknar skyldur lögmanna og hverju það varði ef þær eru vanræktar, fái ekki staðist. Vísar kærandi til þess að vanskil vegna brota á 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 geti leitt til niðurfellingar málflutningsréttinda, sbr. 4. mgr. 13. gr. laganna. Varði umrætt ákvæði atvinnuréttindi lögmanna og viðbrögð við því ef skilyrðum fyrir handhöfn lögmannsréttinda sé ekki fullnægt. Brot á sérákvæðum laga nr. 77/1998 geti hins vegar einnig falið í sér sjálfstætt brot á siðareglum lögmanna, enda innihaldi siðareglur starfsstétta almennt strangari hegðunarreglur vegna sérstakrar stöðu og orðspors viðkomandi stéttar. Lögbrot lögmanna geti skaðað orðspor lögmannastéttarinnar auk þess sem brot lögmanna á þeim ákvæðum laga nr. 77/1998 sem löggjafinn hafi falið kæranda að hafa eftirlit með geti skaðað hagsmuni kæranda.

Bendir kærandi jafnframt á að brot lögmanna á 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 leiði sjaldnast til réttindamissis þar sem meirihluti þeirra lögmanna sem í hlut eigi, nái að skila fullnægjandi fjárvörsluyfirlýsingu áður en til niðurfellingar málflutningsréttinda komi. Það breyti hins vegar ekki þeirri staðreynd að dráttur á skilum yfirlýsingar fram yfir lögákveðinn skilafrest feli í sér fullframið brot og geti því sem slíkt kastað rýrð á lögmannastéttina og eftir atvikum kæranda sem eftirlitsaðila. Sé því ekki hægt að fallast á þau rök kærða að sérákvæði laga nr. 77/1998 tæmi sök gagnvart ákvæðum siðareglna lögmanna, sérstaklega í þeim tilvikum þegar afleiðingar brots á lögunum leiði ekki til réttindamissis. Samkvæmt því telur kærandi ekki forsendur fyrir frávísun málsins.

Í viðbótarathugasemdum kæranda var jafnframt vísað til þess að kærði hefði ekki skilað fjárvörsluyfirlýsingu vegna ársins 2017 fyrr en 19. nóvember 2018 eða um 7 vikum eftir lögbundinn skilafrest. Sé þar um að ræða augljóst brot á ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Hafi umrædd vanskil orðið þrátt fyrir að krafa kæranda um skil hafi tvívegis verið ítrekuð með bréfi, auk þess sem kærða hafi verið sendar fjórar áréttingar í tölvubréfum um lokadag skila á tímabilinu frá 16. maí til 29. september 2018.

Varðandi ætluð brot kærða gegn 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna vísar kærandi til þess að kærði hafi ekki skilað fjárvörsluyfirlýsingu fyrr en eftir lögbundinn skilafrest, svo sem áður greinir. Samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt sé skilafrestur framtala lögaðila í atvinnurekstri til 31. maí ár hvert og hafi því staða viðskiptamannabókhalds kærða og samanburður við stöðu vörslufjárreiknings átt að liggja fyrir á þeim tíma. Af því leiði að fullnægjandi bókhaldsupplýsingar hafi átt að vera til staðar á umræddum tímapunkti fyrir löggiltan endurskoðanda til staðfestingar á því að staða vörslufjárreiknings/reikninga kærða hinn 31. desember 2017 hafi ekki verið lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi hans. Verði því ekki önnur ályktun dregin en að vanhöld hafi verið á skyldum kærða samkvæmt ákvæði 2. mgr. 40. gr. siðareglnanna. Þá verði að telja að kærða hafi borið að grípa til sérstakra ráðstafana í ljósi þeirrar miklu fjarveru frá starfsstöð sem vísað sé til í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni.

Um ætluð brot kærða gegn 2. gr. siðareglna lögmanna vísar kærandi sérstaklega til úrskurðar úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 14/2017. Byggir kærandi á að af tilgreindum úrskurði megi ráða að vanvirðing lögmanna við 2. gr. siðareglnanna verði ekki talin háð því að brotið eða afleiðingar þess sé bundið vitneskju starfsmanna kæranda eða eftir atvikum starfsmanna á einni starfsstöð viðkomandi sýslumannsembættis líkt og kærði haldi fram. Vanvirðing lögmanns við ákvæði siðareglnanna eða laga nr. 77/1998 geti þannig verið talin fela í sér brot gagnvart kæranda sem lögbundnum eftirlitsaðila og þá jafnframt lögmannastéttinni, enda komi A fram fyrir hennar hönd.

III.

Kærði krefst þess aðallega að kvörtun kæranda í málinu verði vísað frá nefndinni. Kærði krefst þess til vara að kröfum kæranda verði hafnað en til þrautavara að hann verði beittur vægustu viðurlögum.

Í greinargerð kærða er vísað til þess að efnislega séu þær ávirðingar réttar sem fram komi í kvörtun kæranda. Kærði hafi ekki verið búinn að senda kæranda fjárvörsluyfirlýsingu samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna ársins 2017 þegar lögboðinn frestur hafi runnið út hinn 1. október 2018. Hið sama eigi við um yfirlýsingu um að kærði hefði ekki varslað verðbréf fyrir umbjóðendur á árinu 2017. Tilgreind gögn hefðu hins vegar verið send kæranda þann 19. nóvember 2018.

Kærði kveður að ástæður dráttar hans á umræddum yfirlýsingaskilum réttlæti þau ekki. Hann hafi hins vegar verið mikið frá vinnu vegna barnauppeldis og orlofs því tengdu. Þá hafi ekki hjálpað að stór hluti þeirra verkefna sem kærði hafi sinnt hafi verið erlendis og því utan reglulegrar starfsstöðvar. Sé því hér um að ræða yfirsjón vegna óstarfstengdra anna og fjarveru frá skrifstofu. Eigi kærði sér engar málsbætur hvað umræddan drátt varðar.

Kærði byggir hins vegar á að dráttur hans á þeim skýrsluskilum sem málið varði feli ekki í sér brot á siðareglum lögmanna. Þá byggir kærði á að kærandi geti ekki átt aðild að máli fyrir úrskurðarnefnd lögmanna vegna umrædds dráttar og að vísa beri því kvörtuninni frá nefndinni.

Varðandi kröfu um frávísun vísar kærði til nánar tilgreindra forsendna í úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 14/2017 þar sem því hafi verið slegið föstu hvenær stjórn kæranda hefði rétt til að bera fram kvörtun við nefndina vegna brota lögmanna gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Byggir kærði á að í tilgreindum úrskurði hafi því verið slegið föstu að kærandi þurfi að hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls til að geta fengið um það efnislega umfjöllun fyrir nefndinni, að þeir lögvörðu hagsmunir sem kærandi byggi á megi ekki vera of almennir heldur beinir og einstaklingslegir umfram það sem aðrir hafa að gæta og að lögvarðir hagsmunir kæranda teljist nægjanlega sérgreindir ef lögmaður setur virðingu lögmannastéttarinnar niður með þeirri háttsemi sem haldið er fram að feli í sér brot á lögum eða siðareglum. Brotið þurfi þannig að beinast gegn lögmannastéttinni almennt eða kæranda.

Kærði byggir á að framangreind skilyrði séu ekki uppfyllt hvað varðar kvörtun kæranda í málinu. Vísar aðilinn til þess að sérstaklega mikið þurfi til að koma eigi að játa kæranda rétt til að koma fyrir nefndina málum á jafn almennum grundvelli og 2. gr. siðareglna lögmanna sé. Það geti í öllu falli aldrei komið til greina þegar sérákvæði séu í lögum nr. 77/1998 um tiltekna skyldu lögmanna og hverju það varði ef sú skylda sé vanrækt. Skýrt dæmi um slíka skyldu sé krafan um skýrsluskil samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 og þær afleiðingar sem vanræksla í þeim efnum hafi í för með sér, sbr. 4. mgr. 13. gr. laganna. Þá sé í hinu síðargreinda ákvæði kveðið skýrt á um hlutverk kæranda í tengslum við þá aðstöðu þegar lögmaður uppfyllir ekki skyldu sína samkvæmt hinu fyrrgreinda ákvæði. Geti hið almenna ákvæði 2. gr. siðareglnanna á engan hátt talist nægur grundvöllur fyrir kæranda til að auka við hlutverk sitt við þær aðstæður sem 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998, sbr. 4. mgr. 13. gr. laganna, taki til með tæmandi hætti. Kærandi sé skylduaðildarfélag sem sæki agavald sitt yfir félagsmönnum ekki til umboðs þeirra sjálfra heldur löggjafans. Í því ljósi hljóti réttur kæranda til þess að kvarta til nefndarinnar vegna félagsmanna að sæta verulegum takmörkunum.

Kærði vísar jafnframt til þess að í kvörtun kæranda sé með öllu órökstutt hvernig 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna geti átt við um síðbúin skil þeirrar yfirlýsingar sem málið varði. Þegar af þeirri ástæðu verði að telja óhjákvæmilegt að vísa þeim þætti kvörtunarinnar frá nefndinni.

Verði ekki fallist á framangreint kveðst kærði byggja á að útilokað sé að virðingu lögmannastéttarinnar setji niður við það eitt að hann hafi skilað viðkomandi yfirlýsingum of seint. Í fyrsta lagi sé þannig ekki um það að ræða að kærði hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 um að hafa fjárvörslureikning og varðveita þar fjármuni sem hann hefur tekið á móti í þágu annarra. Hafi yfirsjón hans falið í sér minniháttar brot, drátt um 50 daga, á formreglu sem sé ætlað að auðvelda eftirlit með því að efnisskyldur 1. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 séu uppfylltar. Í öðru lagi sé vandséð hvernig virðingu lögmannastéttarinnar eigi að geta sett niður við það að starfsmenn kæranda og eftir atvikum starfsmenn á einni starfsstöð sýslumannsins á Norðurlandi eystra viti að kærði hafi skilað yfirlýsingum sínum of seint. Þá hafi yfirlýsingunum verið skilað og geti afleiðingar seinkunarinnar fyrir virðingu lögmannastéttarinnar því ekki orðið víðtækari en að framan greini.

Þá vísar kærði til þess að það hvort það hefði neikvæð áhrif á virðingu lögmannastéttarinnar ef allir lögmenn skiluðu þeim yfirlýsingum sem málið varði of seint geti engin áhrif haft á niðurstöðu málsins. Beri nefndinni þannig að taka afstöðu til þess hvort málsatvik í þessu eina máli séu þess eðlis að aðildarskilyrði kæranda að því séu uppfyllt vegna þess að dráttur kærða á skilum yfirlýsinganna geti talist beint gegn lögmannastéttinni eða kæranda.

Varðandi efnisþátt málsins vísar kærði til þess sem áður greinir um að ekki sé unnt að beita hann viðurlögum umfram þau sem kveðið sé á um í 4. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998 vegna brota á 2. mgr. 23. gr. laganna. Bendir kærði á að í hlutverki kæranda á grundvelli 4. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998 felist meðferð stjórnvalds þar sem kæranda sé ætlað að taka ákvörðun um að leggja til starfsréttindasviptingu við þar til greindar aðstæður. Samkvæmt lögmætisreglunni geti þetta vald ekki verið rýmra en leiði af áðurnefndu heimildarákvæði og sé það því í beinni andstöðu við lögmætisregluna ef kærandi getur sjálfur skammtað sér heimildir til að deila út frekari viðurlögum með eigin siðareglum. Séu þannig mögulegar afleiðingar þess að kærði hafi efnt skyldur sínar samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 of seint tæmandi taldar í 4. mgr. 13. gr. laganna.

Kærði byggir jafnframt á að gæta þurfi mikillar varfærni við beitingu 2. gr. siðareglna lögmanna enda sé ákvæðið almennt og óljóst. Þurfi nefndin í öllu falli að vera þess fullviss að lögmaður hafi mátt sjá það fyrir að háttsemi hans kynni að varða við ákvæðið og hann engu að síður farið sínu fram. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins megi telja nánast allt það sem lögmenn gera í eða utan starfs og sem felur í sér aðfinnsluverða háttsemi, brot á 2. gr. siðareglnanna. Sé svo víðtæk skýring ótæk. Þannig þurfi að vera um að ræða háttsemi sem setji virðingu lögmannsstéttarinnar sem slíkrar niður. Slíkt eigi ekki við um minniháttar drátt á skilum þeirra yfirlýsinga sem málið lúti að.

Kærði bendir jafnframt á að það sé með öllu órökstutt og í raun óskiljanlegt hvernig hin síðbúnu skýrsluskil eigi að geta falið í sér brot á 1. mgr. 40. gr. siðareglnanna. Þannig hafi kærandi í engu sýnt fram á að kærði hafi ekki góða skipan á skrifstofu sinni, vaki ekki yfir störfum starfsliðs síns eða líti ekki eftir því að fulltrúar á stofu hans fylgi góðum lögmannsháttum.

Þá byggir kærði á að kærandi hafi engan reka gert að því að sýna fram á að bókhald skrifstofu kærða eða varsla fjármuna, skjala og annarra gagna sé ekki í samræmi við lög og góða venju, sbr. 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna. Geti sá dráttur á skilum á yfirlýsingum sem málið varði ekki skotið viðhlítandi stoðum undir þá niðurstöðu að kærði hafi ekki gætt að tilgreindu ákvæði siðareglnanna.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar. Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að kærandi geti ekki átt aðild að máli fyrir úrskurðarnefnd lögmanna vegna þess dráttar sem kvörtunin taki til, svo sem nánar er rakið að framan.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að A hafi eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum samkvæmt 6., 9., og 12. gr. laganna. Þá er tiltekið í 4. mgr. ákvæðisins að hafi lögmaður, sem ákvæði 23. gr. laganna tekur til, ekki skilað stjórn A yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings samkvæmt 2. mgr. 23. gr. fyrir 1. október ár hvert, eða slík yfirlýsing hefur ekki reynst fullnægjandi, beri A að leggja til við sýslumann að réttindi hans verði felld niður. Skal sýslumaður taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna hefur stjórn A, sem er kærandi máls þessa, eftirlit með því að reglunum sé fylgt. Hefur hún um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða er til. Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna sker úrskurðarnefnd lögmanna úr ágreiningi um skilning á reglunum.

Í 3. mgr. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, þar sem fjallað er um hlutverk nefndarinnar, er eitt af hlutverkunum tilgreint svo, að fjalla um erindi sem stjórn A sendir nefndinni samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna.

Kærandi hefur samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 m.a. það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem varða stétt lögmanna. Eru samþykktir kæranda í samræmi við þetta og er tilgangur félagsins skilgreindur svo í 2. gr. þeirra að hann sé m.a. að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi.

Með vísan til 27. gr. laga nr. 77/1998 sem áður er lýst, lögskýringargagna varðandi tilgreint lagaákvæði og 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna verður að mati nefndarinnar að játa stjórn A formlegan rétt til þess að bera fram kvörtun þegar hún telur að lögmaður hafi brotið gegn lögum eða siðareglum og að brotið hafi beinst gegn hagsmunum lögmanna almennt eða félaginu sjálfu. Hins vegar felst ekki í þessu að kærandi geti knúið fram umfjöllun vegna kvartana sinna sem beinast að því að lögmaður hafi í störfum sínum brotið gegn ákveðnum aðila, sem fer þá með forræði á því sakarefni, þ. á m. á ákvörðun um hvort þeir beini kæru til úrskurðarnefndar eða ekki. Beinist skoðun nefndarinnar á meintum brotum jafnan að því hvort kærði hafi gerst brotlegur við kæranda.

Í samræmi við framangreint telur úrskurðarnefndin að í fyrrgreindum reglum felist áskilnaður um að úrslit máls varði kæranda með þeim hætti að hann verði talinn hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Fyrrnefnt ákvæði í siðareglum lögmanna um að stjórn A hafi eftirlit með því að reglunum sé fylgt fær ekki hnekkt því. Í því felst bæði að lögvarðir hagsmunir þurfa að vera fyrir hendi og að kærandi sé réttur eigandi þeirra. Til þess er einnig að líta að umræddir hagsmunir séu ekki of almennir. Þeir þurfa því að einhverju marki að vera beinir og einstaklingslegir umfram það sem aðrir hafa að gæta.

Í máli þessu kemur aðeins til skoðunar hvort brotið hafi verið gegn kæranda og þeim hagsmunum sem hann stendur fyrir. Matið á því hvers konar brot fari gegn hagsmunum lögmanna almennt er ekki einfalt, en þar undir virðist þó mega fella þá hagsmuni að lögmannastéttin gegni því hlutverki og njóti þeirrar stöðu sem henni er ætluð í lögum og að ekki sé grafið undan henni með háttsemi sem fer í bága við góða lögmannshætti og ýmsar siðareglur, einkum í I., III. og VI. kafla siðareglna lögmanna, en einnig ákvæði í öðrum köflum siðareglnanna þar sem verndarhagsmunir eru almennir. Má um þetta efni jafnframt vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 26/2016, 14/2017 og 36/2017.

Fyrir liggur að kvörtun í máli þessu var beint til nefndarinnar vegna ætlaðra brota kærða gegn 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 og 2. gr. og 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa ekki skilað stjórn kæranda yfirlýsingu um fjárvörslureikninga og verðbréfaskrá vegna ársins 2017. Samkvæmt því sem hér hefur verið lýst er það mat nefndarinnar að sakarefnið varði kæranda sjálfan í framangreindum skilningi enda lýtur það meðal annars að þeim þáttum í störfum lögmanna sem kæranda er ætlað að hafa lögbundið eftirlitshlutverk með.

Þá verður ekki talið að mati nefndarinnar að ákvæði 4. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998 sé til þess fallið að takmarka eða koma í veg fyrir rétt kæranda til að beina kvörtun í málinu til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna enda sérstaklega tilgreint í hinu síðargreinda ákvæði að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti sent kvörtun til nefndarinnar. Ágreiningslaust er í málinu að kærði sinnti ekki skyldu sinni samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 innan lögboðins frests og braut þar með gegn tilgreindu ákvæði. Þá tekur kvörtun kæranda jafnframt til ætlaðra brota kærða gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Í samræmi við efni 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verður því talið að kærandi geti beint kvörtun þeirri sem málið varðar til nefndarinnar og að ákvæði 4. mgr. 13. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að kæranda beri að leggja til við sýslumann að réttindi lögmanns verði felld niður hafi hann gerst brotlegur við 2. mgr. 23. gr. laganna, takmarki ekki þann rétt aðilans.

Samkvæmt því eru ekki efni til að vísa málinu frá nefndinni á grundvelli aðildar kæranda til sóknar auk þess sem telja verður að umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, falli undir valdsvið nefndarinnar. Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærða í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

II.

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að lögmanni sé skylt að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og starfsábyrgðartryggingu, allt samkvæmt því sem nánar segir í 19., 23. og 25. gr. laganna. Um það sakarefni sem hér ræðir þá er sérstaklega tiltekið í 2. mgr. 23. gr. laganna að lögmaður skuli fyrir 1. október ár hvert senda A, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest sé af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi lögmannsins. Samtímis skuli lögmaður senda A upplýsingar um verðbréf sem voru í hans vörslu 31. desember fyrra árs sem staðfestar eru af löggiltum endurskoðanda.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Þá segir í 1. mgr. 40. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli hafa góða skipan á skrifstofu sinni, vaka yfir störfum starfsliðs síns og líta eftir því, að lögmannsfulltrúar fylgi góðum lögmannsháttum. Ber lögmanni að sjá til þess, að bókhald skrifstofunnar, varsla fjármuna, skjala og annarra gagna sé í samræmi við lög og góða venju í þeim efnum, sbr. 2. mgr. 40. gr. reglnanna.

Fyrir liggur í máli þessu að kærði skilaði ekki yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings og upplýsingum þeim um verðbréf vegna ársins 2017, sem kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998, fyrir 1. október 2018 svo sem áskilið er í tilgreindu lagaákvæði og kærandi hafði ítrekað upplýst lögmenn, þ. á m. kærða, um á árinu 2018, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Með þeirri háttsemi braut kærði í störfum sínum gegn 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Að mati nefndarinnar verður einnig að leggja til grundvallar að háttsemi kærða að þessu leyti hafi farið gegn 1. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna enda telst það hluti af góðri skipan á skrifstofu lögmanns, sem lögmanni er skylt að viðhafa, að slíkum gögnum sé skilað í því horfi sem lög mæla fyrir, þ. á m. hvað tímafrest varðar. Leiði slíkt hið sama af 2. mgr. 40. gr. siðareglnanna enda tilgreind skil liður í bókhaldi kærða og vörslu fjármuna sem honum bar að haga í samræmi við lög og góða venju. Varð misbrestur á því vegna skila kærða á yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings hans og upplýsinga um verðbréfaeign í hans vörslu miðað við 31. desember 2017 til kæranda.

Varðandi ætlað brot kærða gegn 2. gr. siðareglna lögmanna er þess að gæta að ágreiningslaust er að kærði skilaði til kæranda undir rekstri málsins fyrir nefndinni yfirlýsingu þeirri sem og þeim upplýsingum sem kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Upplýsti kærði þannig um það fyrir nefndinni að hann hefði skilað viðkomandi gögnum til kæranda þann 19. nóvember 2018, eða sjö vikum eftir hið lögákveðna tímamark hinn 1. október 2018. Hefur sá málatilbúnaður ekki sætt andmælum af hálfu kæranda.

Með hliðsjón af hinum síðbúnu skilum kærða á viðkomandi gögnum til kæranda verður ekki talið að sá dráttur sem varð á afhendingu þeirra lögbundnu gagna sem hér um ræðir hafi verið slíkur að varði við heiður lögmannastéttarinnar, í skilningi 2. gr. siðareglnanna. Með hliðsjón af atvikum öllum, verður því látið við það sitja að veita kærða aðfinnslu vegna brota hans gegn 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 og 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að hafa ekki skilað kæranda, Lögmannafélagi Íslands, yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings og verðbréfaskrá vegna ársins 2017 innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson