Mál 6 2018
Ár 2018, 24. maí 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 6/2018:
A,
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S KU R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 29. janúar 2018 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess. Þá lagði kærandi fram frekari gögn vegna málsins sem voru móttekin af hálfu úrskurðarnefndar þann 13. febrúar 2018.
Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 30. janúar 2018, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Þá var kærða gerð grein fyrir frekari gagnaframlagningu af hálfu kæranda með bréfi, dags. 14. febrúar 2018, þar sem kærða var jafnframt veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar.
Greinargerð kærða barst þann 6. mars 2018 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 3. apríl 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða samdægurs. Viðbótarathugasemdir bárust loks frá kærða þann 18. apríl 2018 og voru þær sendar kæranda með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og málatilbúnaði aðila er ágreiningslaust að kærandi leitaði til kærða þann 21. júlí 2017 vegna málefna jarðarinnar Þ en kærandi mun vera eigandi og stjórnarformaður í Veiðifélagi C ehf. en tilgreint félag mun vera eigandi viðkomandi jarðar. Þá liggur jafnframt fyrir að kærði mun hafa rekið og flutt tvö dómsmál fyrir kæranda á árunum 2005 og 2006 vegna málefna sem lutu að viðkomandi jörð. Munu aðilar hafa átt með sér fund í kjölfar þessa á skrifstofu kærða, þ.e. nánar tiltekið þann 25. júlí 2017. Í málatilbúnaði kærða er því lýst að aðilinn hafi fyrir fundinn rifjað upp þau mál sem hann hefði rekið fyrir kæranda 12 árum fyrr. Á fundinum hafi kærandi upplýst að hann vildi athuga réttindi sín sem eigandi viðkomandi jarðar, þ. á m. hvort hann ætti rétt til að segja upp erfðafestusamningi og gæti nýtt sér fasteignina að hluta. Þá hafi komið fram ósk um athugun á atkvæðavægi í Veiðifélagi D og hvernig hægt væri að breyta samþykktum félagsins til að fá aukið atkvæðavægi. Þá hafi kærandi viljað fá úr því skorið hver færi með veiðiréttinn í E fyrir hönd jarðarinnar, þ.e. hvort það væri kærandi eða ábúandi jarðarinnar.
Í gögnum málsins liggja fyrir ýmis tölvubréfasamskipti á milli málsaðila sem og á milli málsaðila og annarra þriðju aðila.
Þann 26. júlí 2017 sendi kærandi tvö tölvubréf til kærða. Var þar annars vegar um að ræða tölvubréf sem innihélt tölvubréfasamskipti kæranda við fyrrum lögmann sinn frá árinu 2012 og upplýsingar um að kærandi hefði ekki fundið nánar tilgreindar upplýsingar um Veiðifélagið D en að hann myndi athuga það nánar og vera í sambandi við kærða. Hins vegar sendi kærandi upplýsingar um fyrri samskipti sín við aðila að Veiðifélagi D frá árunum 2011 og 2014.
Fyrir liggur að kærði átti í tölvubréfasamskiptum á tímabilinu 3. – 8. ágúst 2017 við lögmannsstofu þá sem farið hafði með mál kæranda á árunum 2005 og 2006 vegna gagna viðkomandi mála sem kærði óskaði eftir að fá afrit af. Í málatilbúnaði kærða greinir að hann hafi fengið umbeðin gögn afhent og lesið þau yfir þann 11. ágúst 2017. Þá greinir í málatilbúnaði og tímaskýrslu kærða að aðilar hafi átt með sér símtal þann 14. ágúst 2017 en kærði kveður að þar hafi verið ákveðið að hann myndi gera minnisblað um viðfangsefnið og senda til kæranda.
Þann 14. ágúst 2017 móttók kærði tvö tölvubréf frá sviðsstjóra hjá F en með þeim fylgdu annars vegar samþykktir Veiðifélags D og hins vegar arðskrá félagsins. Daginn eftir beindi kærði tölvubréfi til sviðsstjórans með nánar tilgreindri fyrirspurn vegna málefna viðkomandi félags og jarðarinnar Þ. Kveður kærði í málatilbúnaði sínum að hann hafi jafnframt þennan dag, 15. ágúst 2017, átt í samskiptum við x-nefnd fyrir hönd kæranda auk þess að hafa farið yfir lagaákvæði og fordæmi vegna álitaefnisins.
Þann 13. september 2017 sendi kærandi tölvubréf til kærða þar sem hann óskaði eftir aðstoð kærða við að fá svar við því sem nefnt var einfalt atriði og hafði komið fram í bréfi aðilans til þess lögmanns sem áður hafði farið með málið. Laut verkbeiðnin nánar tiltekið að könnun á því hvort kærandi gæti undanskilið land frá ábúðarsamningi og hvernig fara ætti með veiðiréttinn og atkvæðavægi í Veiðifélagi D.
Kærði sendi tölvubréf til kæranda þann 19. september 2017 ásamt minnisblaði um þau álitaefni sem tölvubréf kæranda frá 13. sama mánaðar hafði tekið til. Lýsti kærði því í stuttu máli í tölvubréfinu að hann væri þeirrar skoðunar að kærandi ætti skýran veiðirétt og þar með eitt atkvæði af þremur í Veiðifélagi D en að kanna þyrfti nánar hvernig best væri að koma því fyrirkomulagi á. Þá tiltók kærði það mat sitt að kærandi gæti tekið land úr ábúð svo framarlega sem það stangaðist ekki á við rekstur á búi viðkomandi ábúanda. Kærandi þakkaði kærða fyrir samantektina í tölvubréfi þann 21. september 2017 og kvaðst auk þess ætla að kanna með að hafa samband við formann viðkomandi veiðifélags.
Kærandi upplýsti kærða í tölvubréfi þann 3. október 2017 að hann hefði sent fyrirspurn til formanns Veiðifélags D, sem fylgdi með tölvubréfinu, en að hann hefði enn engin viðbrögð fengið. Lýsti kærandi því jafnframt að hann yrði á landinu að tveimur vikum liðnum og að þá skyldu aðilar hittast í hádegismat.
Af málatilbúnaði og gögnum málsins verður ráðið að aðilar hafi átt með sér hádegisverðarfund þann 26. október 2017. Kveður kærði að þar hafi verið ákveðið að hann myndi setja sig í samband við F og senda bréf á formann viðkomandi veiðifélags vegna arðgreiðslna.
Þann 2. nóvember 2017 sendi kærði annars vegar tölvubréf til F með fyrirspurn um atkvæðarétt í Veiðifélagi D. Í framhaldi af því sendi kærði hins vegar tölvubréf til kæranda þar sem upplýst var um samskipti aðilans við F fyrr um daginn vegna athugana um leiðir til að breyta samþykktum viðkomandi veiðifélags þannig að kærandi færi með rétt atkvæðavægi. Jafnframt upplýsti kærði í tölvubréfinu að hann myndi einnig senda bréf til formanns félagsins vegna arðgreiðslna. Þá var eftirfarandi tekið fram í tölvubréfinu varðandi áfallnar vinnustundir vegna verkefnisins:
„Ég minntist á það að ég þurfi að senda á þig reikning. Ég tók saman tímafjöldann og nú þegar er ég búinn að eyða í þetta 21 klst. og 45 mínútum. Þetta var umfangsmikil vinna og mörg álitaefni og þess vegna hefur þessi tími farið í yfirlestur, samskipti og gerð minnisblaðs. Ánægjulegur hádegisverður á Þrem Frökkum er ekki inn í þessum tímafjölda.
Vildi bara setja þig inn í stöðuna eins og hún er. Vertu endilega í sambandi ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi framhaldið.“
Kærandi svaraði ofangreindu tölvubréfi kærða þann 28. nóvember 2017 og spurði fregna um stöðu mála og hvort svör hefðu borist frá F. Í tölvubréfi kæranda til kærða, dags. 4. desember 2017, kvaðst kærandi hafa rekið augun í að komnar væru 22 klukkustundir á athugun kærða og að um miklu fleiri tíma væri að ræða en aðilinn hefði búist við. Kvaðst kærandi jafnframt vita að kærði myndi gefa sér mjög hagstætt tímagjald í staðinn.
Í tölvubréfi kærða til kæranda, dags. 5. desember 2017, var gerð grein fyrir samskiptum aðilans við starfsmenn F sem og við formann viðkomandi veiðifélags. Upplýsti kærði jafnframt að kærandi fengi hagstætt tímagjald en benti jafnframt á að um væri að ræða mjög flókið mál sem ekki hefði verið leyst úr í mörg ár. Gögnin sem lægju til grundvallar væru jafnframt margra ára ef ekki áratuga gömul og úrlausnarefnin snúin lagalega. Þá óskaði kærði eftir staðfestingu á því að rétt væri að senda reikning á Veiðifélag C ehf.
Síðar þann sama dag sendi kærði á ný tölvubréf til kæranda ásamt drögum að bréfi til formanns Veiðifélags D. Óskaði kærði eftir að kærandi myndi renna yfir bréfið áður en það yrði sent. Kærandi svaraði erindinu þann 11. desember 2017 og upplýsti um að hann héldi að bréfið væri fínt. Nokkrum dögum áður, nánar tiltekið þann 6. desember 2017, hafði kærði móttekið tölvubréf F þar sem upplýst var um að áðurgreint erindi væri í skoðun en að afgreiðsla þess hefði tafist vegna anna.
Kærði upplýsti kæranda um samskipti sín við formann veiðifélagsins í tölvubréfi þann 12. desember 2017 og að bréfið hefði verið sent. Í svari kæranda, dags. 16. desember 2017, þakkaði aðilinn fyrir upplýsingarnar og stakk upp á að aðilar myndu hittast í vikunni á eftir. Kvaðst kærandi jafnframt vona að aðilar yrðu einhvers vísari varðandi það hvað veiðifélagið og ábúendur hygðust gera. Er því lýst í málatilbúnaði kærða að aðilar hefðu átt með sér hádegisverðarfund þann 21. desember 2017 þar sem farið hafi verið yfir stöðu málsins. Hafi kærði þar óskað eftir að kærandi myndi gefa upp á hvern hann vildi að reikningur yrði gerður. Lýsir kærði því að kærandi hafi upplýst að hann myndi hafa samband við kærða eftir að hafa rætt við endurskoðanda sinn.
Fyrir nefndinni liggja jafnframt smáskilaboð sem aðilar áttu með sér þann 23. desember 2017 varðandi hina fyrirhuguðu reikningagerð vegna lögmannsþjónustu. Upplýsti kærði þar meðal annars að hann hefði áður gert grein fyrir því að unnið hefði verið í um það bil 22 klukkustundir í verkefninu auk þess sem fleiri tímar hefðu bæst við. Tiltók aðilinn að tímagjald hans væri 21.500 krónur auk virðisaukaskatts og að hann væri til í einhvern afslátt en að meira gæti hann ekki gert. Í svari kæranda kom fram að tímafjöldi og tímagjald kærða væri komið úr öllum böndum og að um væri ræða allt annað en aðilinn hefði samþykkt. Kvaðst kærandi hafa beðið kærða í tölvubréfi þann 13. september 2017 „að fá svar við einföldu atriði.“ Með öllu óásættanlegt væri að kærði reyndi að innheimta tæpa hálfa milljón fyrir viðvikið. Bauðst kærandi til að greiða 200.000 krónur fyrir „þennan greiða“. Kvaðst kærandi jafnframt hafa valið kærða þar sem aðilinn hefði þegar verið búinn að greiða kærða fyrir að koma sér inn í málið á fyrri árum þegar kærði hefði unnið á annarri lögmannsstofu.
Af gögnum málsins verður ráðið að aðilar hafi átt með sér fund þann 28. desember 2017 þar sem til umræðu mun hafa verið umfang málsins og hin fyrirhugaða reikningagerð. Munu aðilar ekki hafa náð saman um fjárhæð þess endurgjalds sem kærði áskildi sér vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda. Er vísað til þess í málatilbúnaði kærða að aðilinn hafi lagt fram á fundinum tímaskýrslur og gjaldskrá þeirrar lögmannsstofu sem aðilinn starfar á.
Fyrir liggur að aðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum þann 29. desember 2017 þar sem kærði sendi kæranda samkvæmt beiðni reikning og tímaskýrslu vegna málsins sem og gjaldskrá lögmannsstofunnar. Kvaðst kærði jafnframt vera reiðubúinn til að slá af 6 tíma en það væri 24% afsláttur af reikningnum.
Samkvæmt gögnum málsins mun einn reikningur hafa verið gefinn út af lögmannsstofu kærða vegna ofangreindra lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur nr. 9458 þann 28. desember 2017 að fjárhæð 482.980 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tilgreiningu á reikningnum tók hann til 25 klukkustunda á útseldu tímagjaldi að fjárhæð 20.500 krónur auk virðisaukaskatts en afsláttur var tilgreindur 24%. Var því lýst á reikningnum um væri að ræða lögmannsaðstoð kærða vegna ráðgjafar, yfirlesturs gagna, gerð minnisblaðs sem og samskipta við F, x-nefnd og Veiðifélag D. Nánari lýsingu á einstökum verkþáttum var að finna í tímaskýrslu kærða vegna tímabilsins frá 21. júlí 2017 til og með 29. desember 2017 sem ágreiningslaust er að aðilinn sendi kæranda.
Í tölvubréfi kæranda til kærða, dags. 4. janúar 2018, gerði aðilinn athugasemd við að reikningur hefði verið sendur á Veiðifélagið C ehf. í ljósi fyrri samskipta aðila. Í tölvubréfinu gerði kærandi jafnframt athugasemdir við verklag kærða og fjárhæð hins útgefna reiknings, þ. á m. áskilið tímagjald kærða. Lagði kærandi til að heildargreiðsla til kærða vegna lögmannsstarfa aðilans yrði að fjárhæð 325.376 krónur. Í svari kærða, dags. 5. janúar 2018, kvaðst kærði ekki vera reiðubúinn að ganga lengra en að slá 6 tíma af verkinu sem næmi 24% afslætti. Hafnaði kærði því jafnframt að hann hefði unnið óumbeðna vinnu fyrir kæranda og benti í því samhengi á símtöl, tölvubréf og fundi á milli aðila því til staðfestingar. Þá benti kærði á að hjá F og formanni Veiðifélags D lægju erindi sem kærði hefði sent fyrir hönd kæranda með hans samþykkt. Upplýsti kærði um að hann þyrfti að hafa samband við viðkomandi aðila ef hann vildi draga erindin til baka.
Aðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum vegna hins umþrætta reiknings dagana 8., 17. og 29. janúar 2018 án þess að samkomulag kæmist á um fjárhæð endurgjaldsins. Eftir að kærði upplýsti kæranda um að reikningurinn yrði innheimtur með dráttarvöxtum og innheimtukostnaði greiddi kærandi reikninginn að fullu, þ.e. með millifærslu þann 31. janúar 2018 að fjárhæð 482.980 krónur. Lýtur ágreiningur aðila fyrir nefndinni því að ofangreindum reikningi nr. 9458 sem gefinn var út vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda.
II.
Skilja verður málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni þannig að þess sé krafist að útgefinn reikningur vegna lögmannsstarfa kærða nr. 9458 frá 28. desember 2017 sæti lækkun og að kærða verði gert að endurgreiða kæranda ofgreidda þóknun.
Í kvörtun kæranda er vísað til þess að hún beinist að fjárhæð þeirrar þóknunar sem kærði hafi áskilið sér vegna lögmannsstarfa. Um efnisatriði kvörtunarinnar er vísað til tölvubréfs sem kærandi sendi til kærða þann 4. janúar 2018.
Í nefndu tölvubréfi kæranda til kærða gerði aðilinn athugasemd við að reikningur hefði verið sendur á Veiðifélagið C ehf. í ljósi fyrri samskipta aðila enda hefðu aðilar hvorki verið búnir að ákveða á hvern skyldi senda reikning né náð samkomulagi um fjárhæð hans. Í tölvubréfinu gerði kærandi jafnframt athugasemdir við verklag kærða og fjárhæð hins útgefna reiknings, þ. á m. áskilið tímagjald kærða.
Í tölvubréfinu vísar kærandi í fyrsta lagi til þess að kærða hafi einungis verið falið það verkefni að kanna rétt jarðarinnar Þ til atkvæða og arðsemi í Veiðifélagi D, sbr. tölvubréf frá 13. september 2017.
Í öðru lagi er á það bent af hálfu kæranda að þótt fram hafi komið í tölvubréfum kærða að hann væri með til athugunar hver færi með atkvæðisrétt vegnar jarðarinnar Þ, þ.e. hvort það væri landeigandi eða ábúandi, án þess að skrifleg mótmæli hefðu verið viðhöfð gegn því af hálfu kæranda, sem hafi verið staddur á erlendri grundu, að þá hefði slíkt ekki leitt til þess að kærði gæti sjálfkrafa unnið í málinu að vild. Kærði hafi aldrei verið beðinn um að eyða tíma í það mál enda skipti það kæranda litlu hvort hann sjálfur eða viðkomandi ábúandi færi með réttinn. Máli skipti hins vegar hvaða rétt jörðin Þ sem slík hefði og því hefði kærði einungis verið beðinn um að kanna þann þátt.
Í þriðja lagi vísar kærandi til þess að hann hafi tekið skýrt fram í tölvubréfi, dags. 4. desember 2017, að tímafjöldi vegna vinnu kærða væri þegar þegar kominn langt yfir það sem lagt hefði verið upp með. Þrátt fyrir það hafi kærði skráð þrjá tíma til viðbótar vegna verkefnisins eftir þann tíma.
Í fjórða lagi benti kærandi á að kærði hefði tekið fram í tölvubréfi, dags. 5. desember 2017, að kærandi fengi hagstætt tímagjald.
Með vísan til ofangreindra sjónarmiða lýsti kærandi því í tölvubréfinu að hann teldi sanngjarnt að útkljá málið með þeim hætti að heildartímafjöldi vegna lögmannsstarfa kærða yrði miðaður við 16 klukkustundir og tímagjald yrði miðað við 16.400 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því yrði endurgjald vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda að heildarfjárhæð 325.376 krónur. Vísaði kærandi jafnframt til þess að hann hefði mátt ætla að einungis yrði um stutta upprifjun kærða að ræða þar sem hann hefði komið að málinu á fyrri stigum. Hefði kærandi þannig búist við að hin afmarkaða athugun myndi aðeins taka nokkrar klukkustundir og að kostnaður yrði ef til vill á bilinu 50.000 krónur til 100.000 krónur. Þá sé það með öllu óskiljanlegt að kærði geri kröfu til að greitt verði fyrir vinnu vegna málsins sem nemi meira en þremur heilum vinnudögum.
Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða bendir aðilinn á að krafa kærða sé tilkomin fyrir vinnu vegna þriggja þátta.
Í fyrsta lagi bendir kærandi á að kærði hafi unnið að því að kanna hvort taka mætti hluta lands úr erfðaábúð. Kveður kærandi það undarlegt að því sé haldið fram að kærði hafi verið beðinn um að kanna þann þátt enda hafi legið ljóst fyrir mörgum árum fyrr að svo væri og að ekki væri um það deilt, sbr. minnisblað fyrri lögmanns kæranda frá 12. – 14. september 2008 sem liggur fyrir nefndinni. Vísar kærandi til þess að aðilinn hafi jafnframt bent á það í erindisbréfi/verkbeiðni til kærða, dags. 13. september 2017, sbr. nánar tiltekið eftirfarandi:
„Ljóst er að ég sem eigandi Þ sem er í erfðaábúð get skv. ábúðarlögum tekið allan þann hluta jarðarinnar sem ég kýs úr ábúð Þ, (skaði það ábúandann t.d. vegna ræktaðra trúna sem tekin eru undan ábúð skal hins vegar greiða bætur til ábúandans fyrir þann skaða).“
Kveður kærandi staðhæfingu kærða ranga um að hann hafi verið beðinn um að kanna hið fullkannaða mál að þessu leyti. Samkvæmt því geti kærði ekki krafist greiðslu fyrir nefnt atriði.
Í öðru lagi gerir kærandi athugasemdir við vinnu kærða í tengslum samskipti við formann Veiðifélags D. Bendir kærandi í því samhengi á að það sé langt seilst hjá kærða að halda því fram að hann hafi samið bréf til formannsins. Þannig hafi kærandi sjálfur sent formanninum bréf á árinu 2014 sem kærði hafi haft afrit af. Efnislega séu bréfin tvö samhljóða og því hafi ekki legið mikil vinna að baki bréfi kærða þó kærandi viðurkenni fúslega að bréf kærða sé ítarlegra og betur skrifað. Enginn efnislegur munur sé þó á bréfunum tveimur.
Í þriðja lagi bendir kærandi á varðandi vinnu í tengslum við atkvæðarétt í viðkomandi veiðifélagi að eftir standi einungis bréf kærða til F. Tiltekur kærandi að svar F við bréfi kærða hafi m.a. verið á eftirfarandi leið:
„F getur því ekki kveðið upp úr um einstök atriði varðandi atkvæðisrétt í Veiðifélagi D, þar sem kærumál gæti risið vegna stjórnsýslu veiðifélagsins, og kæmi málið þá til meðferðar hjá F.“
Vísar kærandi samkvæmt því til þess að bréf kærða til Fiskistofu hafi engan tilgang haft.
Í viðbótarathugasemdum kæranda vísar aðilinn til þess, svo sanngirni sé gætt, að kærði hafi komið með athyglisverðar vangaveltur um það efni hvort kærandi ætti ef til vill að hafa eitt atkvæði af þremur í stað þess að hafa aðeins eitt atkvæði af 63 í viðkomandi veiðifélagi. Kveðst kærandi ætla að athuga nánar viðkomandi atriði. Að öðru leyti standi lítið eftir af þeim þremur þáttum sem kærði hafi unnið að.
Kærandi mótmælir því að hann hafi viðhaft hótanir í garð kærða. Vísar aðilinn til þess að hann hafi bent kærða á að skynsamlegt væri að reyna að ná sáttum í málinu. Kærði hafi hins vegar hafnað þeim sáttaumleitunum. Þá hafi kærði greitt hinn umþrætta reikning að fullu í kjölfar hótunar kærða um að reikningurinn yrði innheimtur með dráttarvöxtum og kostnaði.
Kærandi kveðst enga athugasemd gera við þá staðreynd að vinna kærða í þágu aðilans hafi reynst gagnslítil. Kærandi hafi í upphafi gert sér grein fyrir að þannig gæti farið. Kærandi gerir hins vegar athugasemd við að kærði reyni að halda því fram að tæplega fjórir dagar frá morgni til kvölds hafi farið í að skrifa bréf til F svo og að endurrita bréf kæranda til formanns viðkomandi veiðifélags. Þá hafi kærði aldrei borið á móti því við kæranda að of margir tímar hefðu verið skráðir á málið.
Að endingu bendir kærandi á að málið lúti ekki einungis um upphæð þeirrar peningagreiðslu sem um ræði heldur telur aðilinn jafnamt mikilvægt að kærða verði bent á að ekki sé um eðlilega framkomu að ræða hjá honum og að hún sé lögmannastéttinni ekki til sóma.
III.
Kærði krefst þess fyrir nefndinni að kröfum kæranda verði hafnað. Kveðst kærði hafna því að endurgjald hans fyrir vinnu í þágu kæranda eða fjárhæð þess sé ósanngjarnt.
Í greinargerð kærða fyrir nefndinni er að finna ítarlega lýsingu aðilans á málsatvikum en um það efni vísast nánar til þess sem greinir í málsatvikalýsingu að framan.
Kærði hafnar því að endurgjald hans fyrir vinnu í þágu kæranda eða fjárhæð þess sé ósanngjarnt. Bendir kærði á að um sé að ræða umbeðna vinnu sem framkvæmd hafi verið í fullu samráði við kæranda. Hafi kærandi engar athugasemdir gert við þau minnisblöð, bréf og tölvubréf sem kærði hafi sent í hans þágu. Vísar kærði til þess að jafnvel þó kærandi hefði gert athugasemdir við fjölda tíma að þá hafi hann ekki óskað eftir að kærði stöðvaði vinnu í hans þágu. Þvert á móti hafi kærandi óskað eftir að málum yrði fram haldið og samþykkt bréf sem kærði sendi í hans þágu.
Bendir kærði á að það hafi ekki verið fyrr en hann hafi gengið á kæranda um að tilgreina hvert senda ætti reikning að kærandi hafi haft uppi mótbárur um að kærði hefði unnið óumbeðna vinnu í hans þágu. Þá vísar kærði til þess að hann hafi teygt sig langt í að koma til móts við óraunhæfar óskir kæranda. Hafi kærði þannig gefið eftir 6 tíma af vinnu sinni í þágu kæranda eða 24% af fjárhæðinni. Auk þess hafi kærði ekki krafist greiðslu fyrir alla þá tíma sem farið hafi í samskipti við kæranda. Tímagjaldið hafi verið í lægri kantinum eða 20.500 krónur auk virðisaukaskatts en eðlilegt sé að innheimta tímagjald á fyrirtæki að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá bendir kærði á að hann hafi ekki krafist greiðslu fyrir hádegisverðarfundi þó tölvubréfasamskipti sýni fram á að kærandi hafi óskað eftir þeim fundum til að ræða efni vinnunnar. Um umtalsverða lækkun á reikningnum sé því nú þegar að ræða. Sýni þetta fram á að kærði hafi unnið umbeðna vinnu í þágu kæranda og að hinn umþrætti reikningur sé sanngjarnt endurgjald fyrir þá vinnu. Kveðst kærði vísa í lög um þjónustukaupa og almennar reglur kröfuréttar máli sínu til stuðnings.
Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar hafnar aðilinn í fyrsta lagi málatilbúnaði kærða um þann verkþátt sem laut að könnun á því hvort taka mætti hluta lands úr erfðaábúð. Bendir kærði á að verkbeiðni kæranda, dags. 13. september 2017, hafi lotið að því að taka afstöðu til þess hvort sú fullyrðing kæranda væri rétt og hvort slíkt væri mögulegt. Bendir kærði í því samhengi á að í minnisblaði fyrri lögmanns kæranda, dags. 12. – 14. september 2008, hafi þeirri spurningu kæranda ekki verið svarað þrátt fyrir málatilbúnað kæranda um hið gagnstæða. Jafnframt bendir kærði á að efni tölvubréfsins og öll samskipti aðila sýni að kærði hafi verið beðinn um að kanna þetta atriði, á skjön við fullyrðingar kæranda fyrir nefndinni.
Í öðru lagi vísar kærði til þess að hann hafi verið beðinn um að senda bréf til formanns Veiðifélags Reyðarvatns og að kærandi hafi engar athugasemdir gert við innihald bréfsins. Kveðst kærði ekki kannast við að hafa haft tölvubréf, sem kærandi vísi til, undir höndum. Þá hafi efni umræddra bréfa ekki verið hið sama. Að hluta til sé vísað í sama dóm en að öðru leyti sé efnið ekki eins auk þess sem tilvísunin í nefndan dóm sé ekki eins. Ítrekar kærði að vinna vegna veiðiréttarins og atkvæðavægisins hafi verið mun umfangsmeira en að rita bréfið.
Í þriðja lagi bendir kærði á að hann hafi verið beðinn um að senda bréf til F og að það hafi haft augljósan tilgang í för með sér. Kveðst kærði ekki hafa svarbréf F undir höndum en að hann hafi verið í töluverðum samskiptum við stofnunina þar sem málefni veiðifélaga heyra undir hana. Vísar kærði til þess að það hafi verið starfsmenn F sem hafi óskað eftir formlegu bréfi „því lögin gæfu ekki skýra mynd um hvaða leið væri best að fara“ eins og fram hafi komið í greinargerð kærða fyrir nefndinni. Þá hafi kærandi engar athugasemdir gert við efni bréfsins sem hann hafi beðið kærða um að senda.
Að endingu mótmælir kærði öðrum fullyrðingum kæranda. Bendir kærði á að það sé alvarlegt mál að tilgangur kæranda með kvörtuninni skuli snúast um að skaða orðspor kærða sem lögmanns.
Niðurstaða
I.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.
Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.
II.
Eins og áður greinir leitaði kærandi til kærða í júlímánuði 2017 vegna málefna jarðarinnar Þ en kærandi mun vera hluthafi og fyrirsvarsmaður Veiðifélagsins C ehf. sem er eigandi viðkomandi jarðar. Fyrir liggur að kærði kom að málefnum jarðarinnar að beiðni og í þágu kæranda á árunum 2005 og 2006 og mun það hafa verið ástæða þess að kærandi leitaði til lögmannsins á nýjan leik.
Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir samskiptum aðila frá 21. júlí 2017 og til ársloka þess árs þegar samningssambandi aðila vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda lauk. Þá er þar jafnframt gerð grein fyrir þeim störfum sem kærði innti af hendi í þágu kæranda vegna málefna jarðarinnar á viðkomandi tímabili.
Ágreiningur aðila lýtur að áskildu endurgjaldi kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda samkvæmt reikningi nr. 9458 sem gefinn var út þann 28. desember 2017 að fjárhæð 482.980 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tilgreiningu á reikningnum tók hann til 25 klukkustunda á útseldu tímagjaldi að fjárhæð 20.500 krónur auk virðisaukaskatts en afsláttur var tilgreindur 24%. Var því lýst á reikningnum að um væri að ræða lögmannsaðstoð kærða vegna ráðgjafar, yfirlesturs gagna, gerð minnisblaðs sem og samskipta við F, X-nefnd og Veiðifélag D. Nánari lýsingu á einstökum verkþáttum var að finna í tímaskýrslu kærða vegna tímabilsins frá 21. júlí 2017 til og með 29. desember 2017 sem ágreiningslaust er að aðilinn sendi kæranda. Í tímaskýrslunni er jafnframt að finna fimm færslur kærða sem ekki var reikningsfært fyrir vegna alls 2,75 klukkustunda en nánar tiltekið er þar um að ræða færslur vegna tveggja hádegisverðafunda aðila dagana 26. október 2017 og 21. desember 2017, tölvubréfasamskipta aðila frá 23. og 29. desember 2017 sem og vegna fundar sem aðilar áttu með sér þann 28. desember 2017 þar sem umfang starfa kærða og endurgjald aðilans mun hafa verið til umræðu.
Í málatilbúnaði kæranda er á því byggt að áskilið endurgjald kærða eigi að sæta lækkun á þeim grundvelli að aðilinn hafi innt óumbeðna vinnu af hendi í tengslum við athugun á hvort taka mætti hluta lands úr erfðaábúð, að lítil vinna hafi farið í lögmannsstörf kærða við ritun bréfs til formanns Veiðifélags D þar sem kærandi hefði áður sent sambærilegt bréf til viðkomandi aðila auk þess sem bréfaskrif kærða við F hefðu engan tilgang haft.
Um þetta efni er þess í fyrsta lagi að gæta að í kjölfar samskipta aðila í septembermánuði 2017 ritaði kærði minnisblað um veiðirétt og atkvæðavægi í Veiðifélagi D annars vegar og um rétt til að segja upp ábúð eða að undanskilja land frá ábúðarsamningi í landi Þ hins vegar. Sendi kærði tilgreint minnisblað til kæranda í tölvubréfi þann 19. september 2017. Gerði kærandi engar athugasemdir við efnistök minnisblaðsins í tölvubréfi til kærða þann 21. sama mánaðar. Af fyrirliggjandi gögnum fyrir nefndinni og samskiptum aðila verður þannig að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að kærða hafi verið falið að kanna þann þátt hvort undanskilja mætti land frá ábúðarsamningi, líkt og gert var í minnisblaði aðilans.
Í öðru lagi liggur fyrir að kærandi var meðvitaður og upplýstur um samskipti kærða við fyrirsvarsmann Veiðifélags D vegna atkvæðaréttar og arðgreiðslna úr félaginu eins og samskipti aðila frá september- til desembermánaðar 2017, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan, bera með sér. Má um það efni vísa til tölvubréfs sem kærði sendi til kæranda þann 5. desember 2017 ásamt drögum að bréfi til formanns viðkomandi veiðifélags með ósk um að kærandi myndi renna yfir bréfið áður en það yrði sent. Í svari kæranda, dags. 11. desember 2017, kom fram að hann héldi að bréfið væri fínt.
Samkvæmt tímaskýrslu kærða voru færðar alls tvær klukkustundir á málið þann 5. desember 2017, þ.e. annars vegar vegna tölvubréfs og samskipta kærða við kæranda og F og hins vegar vegna ritunar bréfadraga til formanns veiðifélagsins. Þá voru færðar 0,75 klukkustundir vegna þessa þáttar þann 11. desember 2017 vegna tölvubréfs kærða til kæranda og yfirlesturs aðilans og bréfasendingar til viðkomandi formanns. Að mati nefndarinnar eru viðkomandi færslur í tímaskýrslu kærða studdar fullnægjandi skýringum og gögnum um það sem gert var og eru þær ekki úr hófi. Þá liggur fyrir að kærandi var samþykkur vinnu kærða að þessu leyti og gerði engar athugasemdir við efni þess bréfs sem sent var til formanns Veiðifélags D. Með vísan til þess er það mat nefndarinnar að ekki sé efni til að fallast á kröfu kæranda um lækkun hins áskilda endurgjalds á þessum grundvelli.
Í þriðja lagi liggur fyrir að kærði átti í ítrekuðum samskiptum við F vegna málefna Veiðifélags D, þ. á m. vegna samþykkta veiðifélagsins, atkvæðavægis og arðgreiðslna, frá ágústmánuði 2017 til og með desember sama ár. Þá liggur fyrir að kærði upplýsti kæranda með reglulegu millibili um þau samskipti og hver staða mála væri auk þess sem kærandi sendi fyrirspurnir til kærða þar að lútandi. Gerði kærandi engar athugasemdir við samskipti kærða að þessu leyti eða efnistök þeirra fyrirspurna sem hann beindi fyrir hönd kæranda til stofnunarinnar. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að kærði hafi innt þá lögmannsþjónustu af hendi samkvæmt beiðni, vitund og vilja kæranda og samkvæmt þeim tilgangi sem aðilar lögðu upp með.
Af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila verður ráðið að ekki hafi verið rætt um áskilið tímagjald kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda í upphafi samningssambands aðila. Kveður kærandi að hann hafi staðið í þeirri trú að hin afmarkaða athugun sem hann hafi falið kærða að framkvæma myndi einungis taka nokkrar klukkustundir.
Fyrir liggur að lögmannsstörf kærða í þágu kæranda stóðu yfir í rúmlega hálft ár. Á þeim tíma tók kærði ýmsa þætti vegna málefna jarðarinnar Þ til athugunar, ritaði minnisblað þar að lútandi og annaðist samskipti fyrir hönd kæranda við F, x-nefnd og Veiðifélag D. Hinn umþrætti reikningur tók til lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda á öllu tímabilinu.
Skylda lögmanns til að upplýsa skjólstæðing sinn um verkkostnað, sbr. ofangreind ákvæði lögmannalaga og siðareglna lögmanna, er virk á meðan verkinu vindur fram. Ágreiningslaust er að kærði upplýsti kæranda ekki um áfallnar vinnustundir fyrr en í tölvubréfi þann 2. nóvember 2017 þar sem því var lýst að kærði hefði eytt alls 21,75 klukkustundum í málið. Gerði kærandi athugasemdir við tímafjöldann í tölvubréfi til kærða þann 4. desember 2017 á þeim grundvelli að um væri að ræða miklu fleiri tíma en aðilinn hefði búist við. Kvaðst kærandi jafnframt vita að kærði myndi gefa sér mjög hagstætt tímagjald í staðinn.
Að mati nefndarinnar er eðlilegt að þegar sanngjörn þóknun er metin, sé tekið nokkurt tillit til þess að ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi reglulega á tímabilinu frá júlí 2017 til nóvember sama ár fengið senda reikninga eða aðrar nákvæmar upplýsingar um áfallandi kostnað. Átti slíkt ekki hvað síst við í ljósi þess að ekki hafði samist áður um tímagjald vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda Hins vegar er til þess að líta að við hina umþrættu reikningagerð sló kærði af vinnu sinni 6 klukkustundir sem svaraði til 24% afsláttar eins og sérstaklega er tiltekið á reikningnum. Þá verður ráðið af tímaskýrslu að kærði hafi sinnt lögmannsstörfum fyrir kæranda á tímabilinu án þess að innheimt væri sérstaklega vegna þeirra. Verður jafnframt að líta til þess að kærandi óskaði eftir áframhaldandi störfum kærða eftir að aðilinn hafði móttekið upplýsingar um áfallnar vinnustundir kærða í nóvember 2017.
Að mati nefndarinnar var tímagjald kærða, að fjárhæð 20.500 krónur auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Þá verður ekki séð að tímafjöldi samkvæmt tímaskýrslu sé umfram það sem vænta mátti miðað við það verkefni sem leggja verður til grundvallar að kærða hafi verið falið að sinna. Í ljósi þess hversu langt var liðið frá fyrri aðkomu kærða að málefnum kæranda vegna jarðarinnar Þ verður jafnframt að leggja til grundvallar að eðlilegur tímafjöldi hafi farið í upprifjun kærða á málinu með skoðun og yfirlestri gagna.
Með hliðsjón af öllu framangreindu, gögnum málsins og að teknu tilliti til þess að kærði veitti kæranda 24% afslátt samkvæmt hinum umþrætta reikningi er það mat nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun kærða vegna starfa aðilans í þágu kæranda á tímabilinu frá júlímánuði 2017 til og með desembermánaðar sama ár. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærða í þágu kæranda sé 482.980 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda, og þegar hefur verið innheimt, var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um að áskilið endurgjald kærða sæti lækkun.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Áskilin þóknun kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.
Kristinn Bjarnason lögmaður
Valborg Þ. Snævarr lögmaður
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Sölvi Davíðsson