Mál 9 2018

Mál 9/2018

Ár 2018, 27. september 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. mars 2018 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærða, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn í störfum sínum í þágu kæranda.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 13. mars 2018, þar sem meðal annars var tekið fram það mat nefndarinnar að um væri að ræða kvörtun reista á 27. gr. laga nr. 77/1998, en efni þess var jafnframt ítrekað með bréfi nefndarinnar til kærðu, dags. 23. apríl sama ár. Greinargerð kærðu barst nefndinni þann 24. maí 2018 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi, dags. 25. sama mánaðar. Hinn 13. júní 2018 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærðu þann 15. sama mánaðar. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun kærandi hafa talið sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum nánar tilgreinds tannholdssérfræðings í kjölfar tannlæknismeðferða sem hún undirgekkst á árunum 2005 til 2011. Mun kærandi hafa leitað til kærðu vegna þessa á árinu 2013 en aðilum ber ekki saman um hvort það hafi verið í febrúar- eða maímánuði það ár. Ekki er ágreiningur um að kærða hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hönd kæranda, þ. á m. að tilkynna tjónið til viðkomandi tryggingafélags sem tannholdssérfræðingurinn hafði keypt sjúklingatryggingu af. Um samskipti aðila við upphaf réttarsambands þeirra liggja meðal annars fyrir tölvubréfasamskipti þeirra frá apríl- og júlímánuði 2013.

Með bréflegu erindi kærðu til Vátryggingafélags Íslands hf., dags. 18. júlí 2013, var tilkynnt um áðurgreint tjón kæranda og óskað eftir afstöðu tryggingafélagsins til bótaskyldu úr sjúklingatryggingu viðkomandi tannlæknis. Var því lýst í tilgreindu erindi að kærandi teldi sig hafa orðið fyrir fjártjóni og miska vegna meintra mistaka tannlæknis hans við byggingu postulínsbrúar sem tannlæknirinn hafði tekið að sér að setja upp og koma fyrir á árinu 2007. Hafi brúin ekki verið fest uppi með varanlegum hætti eins og borið hafi að gera heldur hafi verkinu verið skilað þannig að brúin hafi verið laus um þriggja árið skeið. Þegar brúin hafi losnað endanlega síðari hluta árs 2010 hafi viðkomandi tannlæknir gert tilraunir til að festa hana varanlega, án árangurs.

Fyrir liggur að kærða átti eftir þann tíma í samskiptum við G, lögmann hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., vegna málsins. Liggja meðal annars fyrir um það efni tölvubréfasamskipti þeirra frá 23. og 26. ágúst 2013 auk þess sem hin síðargreinda sendi kærðu afrit af sjúkraskrá kæranda þann 25. febrúar 2014.

Frá sama tímabili liggja fyrir tölvubréfasamskipti á milli kæranda og kærðu um stöðu mála gagnvart tryggingafélaginu auk þess sem kærandi veitti kærðu upplýsingar samkvæmt beiðni félagsins. Í tölvubréfi til kærðu, dags. 8. janúar 2014, óskaði kærandi eftir upplýsingum um stöðu mála og hvort farið væri að styttast í mat hjá sérfræðingum. Kvað kærandi í tölvubréfinu að slíkt væri nauðsynlegt þar sem hann hefði einungis verið á fljótandi fæði og verkjatöflum frá byrjun desembermánaðar 2013 og að hann hefði af þeim sökum misst 4 kíló. Í tölvubréfum kærðu til kæranda, dags. 5. og 10. febrúar 2014, var tekið fram að ýtt hefði verið á eftir tryggingafélaginu og að viðbragða væri að vænta.

Kærandi sendi tölvubréf til kærðu vegna málsins 17. og 26. febrúar 2014 þar sem spurt var fregna auk þess sem óskað var eftir afriti úr sjúkraskrá vegna nánar tilgreinds tímabils. Þá sendi kærandi á ný tölvubréf til kærðu dagana 5. og 13. mars 2014 þar sem óskað var eftir upplýsingum um stöðu mála, hvenær kærandi ætti tíma hjá matsmönnum auk þess sem óskað var eftir afriti að matsbeiðni og útskrift úr sjúkraskrá. Í hinu síðargreinda tölvubréfi kvaðst kærandi jafnframt hafa óskað eftir að kærða myndi ekki hunsa sig en að það hafi ekki borið árangur þar sem kærða hefði ekki svarað fyrri tölvubréfum. Í svari kærðu, dags. 13. mars sama ár, var tiltekið að kærandi yrði upplýstur um leið og eitthvað væri að frétta. Þá kvað kærða að hún myndi hafa samband við tryggingafélagið og vera í sambandi í kjölfarið.

Í gögnum málsins liggja fyrir drög að matsbeiðni, dags. 10. desember 2013, sem kærða mun hafa unnið og staðið til að yrði beint að fyrrgreindu tryggingafélagi. Þá liggja jafnframt fyrir í málsgögnum drög að sameiginlegri matsbeiðni tryggingafélagsins og kærðu fyrir hönd kæranda, dags. 13. febrúar 2014.

Í tölvubréfi til kæranda, dags. 26. mars 2014, upplýsti kærða að hún hefði talið rétt að gera athugasemdir við fyrirliggjandi drög að matsbeiðni þrátt fyrir að slíkt gæti valdið einhverjum töfum á málinu. Þá kvaðst kærða hafa ýtt á eftir tryggingafélaginu og að hún myndi halda því áfram ef svör myndu ekki berast enda þyrfti „að fara að klára þetta“ eins og það var orðað í tölvubréfinu.

Frá 10. apríl 2014 liggur fyrir sameiginleg beiðni Vátryggingafélags Íslands hf. og kærðu fyrir hönd kæranda um álit tannlæknanna C og D á því hvort meðferð vegna tannholdssjúkdóms kæranda hafi verið með eðlilegum hætti. Þá var óskað eftir áliti á því hvort smíði framtannabrúar og tannpars hafi verið með eðlilegum hætti auk útskýringa á því af hverju brúin hefði losnað eða ekki verið fest með varanlegum hætti. Kærða upplýsti kæranda um matsbeiðnina með tölvubréfi þennan sama dag og tók fram að tíma hefði tekið að fá það inn í matsbeiðnina sem kærða hefði viljað. Tiltók kærða að kærandi mætti eiga von á því að vera kallaður til eftir páska vegna málsins. Áttu frekari tölvubréfasamskipti sér stað á milli kæranda og kærðu dagana 30. apríl og 5. maí 2014 en þau bera með sér að matsfundur hafi þá enn ekki farið fram.

Kærandi beindi tölvubréfi til kærðu þann 17. september 2014 og spurðist fregna af málinu. Í svari kærðu þann 19. sama mánaðar var upplýst að annar tannlæknanna hefði skilað af sér en að málið strandaði enn á hinum. Kvað kærða að tryggingafélagið hefði ýtt á hann deginum fyrr, að matsmaður væri að fara utan í vikutíma en að hann hefði lofað að ganga í verkið eftir þann tíma.

Kærandi sendi á ný tölvubréfi til kærðu þann 28. nóvember 2014 þar sem tekið var fram að liðnar væru 10 vikur frá því að matsmaður hefði ætlað að ganga í málið. Spurðist kærandi fyrir hvað væri að gerast í málinu og hvort hann þyrfti að hafa áhyggjur af gangi þess. Mun kærða ekki hafa svarað tilgreindu tölvubréfi kæranda. Þá var í tölvubréfi kæranda til kærðu, dags. 13. desember 2014, tekið fram það mat aðilans að kærða ætti að sýna þá virðingu að svara tölvubréfum kæranda þar sem það væri eini samskiptamátinn sem kærða hefði heimilað vegna málsins.

Í tölvubréfi kærðu til lögmanns tryggingafélagsins, dags. 5. janúar 2015, var óskað eftir að tryggingafélagið myndi kalla eftir svari frá matsmönnum svo unnt yrði að ljúka máli kæranda. Í svari þann sama dag kvaðst lögmaður tryggingafélagsins ætla að ítreka beiðni þess efnis við matsmennina. Í framhaldi þess, eða þann 7. janúar 2015, var kærandi upplýstur um að kærða hefði verið að ýta á tryggingafélagið og að þau svör hefðu fengist að viðkomandi matsmaður væri ekki væntanlegur úr leyfi fyrr en 27. sama mánaðar. Ítrekaði kærða í tölvubréfi til kæranda þann 27. janúar 2015 að búið væri að reka á eftir matsmanni með hina fyrirhuguðu matsgerð.

Gögn málsins bera með sér að kærða hafi ítrekað beiðni til viðkomandi tryggingafélags um að málinu yrði framhaldið þann 2. mars 2015. Jafnframt liggur fyrir að málsaðilar áttu í tölvubréfasamskiptum þann 12. sama mánaðar þar sem kærða kvað að tryggingafélagið hefði enn verið að reka á eftir matsmanni og að nýjar upplýsingar kynnu að liggja fyrir í vikunni á eftir. Þá er að finna í málsgögnum tölvubréf sem kærða sendi til viðkomandi tryggingafélags þann 20. apríl 2015 þar sem því var lýst að fá þyrfti annan matsmann að verkinu ef mat lægi ekki þegar fyrir enda væri ekki hægt að bíða lengur.

Fyrir liggur að kærða átti í tölvubréfasamskiptum við lögmann tryggingafélagsins dagana 9. – 16. júní 2015. Kom fram í svörum tryggingafélagsins að náðst hefði í viðkomandi matsmann, sem hafði tjáð að hann væri í skömm með verkefnið og að hann hygðist nýta 17. júní 2015 til að klára matið. Af gögnum málsins verður ráðið að slíkt hafi ekki orðið reyndin.

Samkvæmt málsgögnum áttu málsaðilar á ný í samskiptum um stöðu mála í tölvubréfum þann 10. desember 2015. Kvaðst kærða þar hafa óskað eftir við tryggingafélagið að haft yrði samband við matsmann og að hún myndi fylgja því eftir með því að hafa sjálf samband við hann.

Ekki verður ráðið af málsgögnum að neitt hafi gerst í málinu þann 6. september 2016 en þann dag sendi kærandi tölvubréf til kærðu. Í því var tekið fram að kærða hefði verið með málið í rúmlega þrjú og hálft ár og að kærandi hefði engin svör fengið um stöðu mála. Af þeim sökum væri ekki annað í stöðunni fyrir kæranda en að láta málið í hendur úrskurðarnefndar lögmanna. Í svari kærðu þann 7. sama mánaðar kvað aðilinn það í lagi sín vegna þótt málið færi til úrskurðarnefndar. Matsmaður hefði ekki skilað inn mati þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir þar um. Þá tiltók kærða að kærandi hefði ekki greitt neitt fyrir lögmannsaðstoð í málinu sem hefði falist í því að óska eftir mati. Kvaðst kærða hafa óskað eftir mati líkt og hún hafi lofað. Í svari kæranda þann sama dag kvaðst aðilinn undrandi á svari kærðu þar sem hann hefði ítrekað óskað eftir upplýsingum um stöðu mála og að það eina sem hann hefði fengið hefðu verið afrit af tölvubréfum sem kærða hefði beint til starfsmanns Vátryggingafélags Íslands hf. Kvaðst kærandi aldrei hafa séð nein gögn frá tryggingafélaginu auk þess sem aldrei hefði verið farið fram á greiðslu vegna lögmannskostnaðar enda hafi kærandi hvorki mátt hringja í kærðu né koma á skrifstofu hennar. Hafi kærandi því beint tölvubréfum til kærðu, án árangurs. Að endingu óskaði kærandi eftir upplýsingum frá kærðu um það hvað hún hefði hugsað sér varðandi framhald málsins.

Aðilar áttu í enn frekari tölvubréfasamskiptum þann 14. september 2016. Kom þar fram hjá kærðu að hún hefði skilið eftir skilaboð hjá matsmanni og að rétt væri að gefa honum lokafrest til að skila inn matinu. Að öðrum kosti þyrfti að afla nýs mats. Í svari kæranda óskaði hann eftir upplýsingum um hversu langan frest ætti að veita matsmanni. Þá var tiltekið að kærða hefði ekki kynnt kæranda hvernig samskiptum kærðu við matsmanninn hefði verið háttað.

Í tölvubréfum kæranda til kærðu, dags. 15. og 21. október 2016, var enn óskað eftir upplýsingum um stöðu matsmálsins. Í svari kærðu, dags. 24. sama mánaðar, kvað hún að vandamálið væri ekki að setja matsmanni frestskilyrði heldur það að hann svaraði ekki skilaboðum. Lýsti kærða því að hún myndi gefast upp á matsmanninum ef svör bærust ekki. Þá tiltók hún að kærandi yrði látinn vita hvernig málinu myndi vinda fram.

Kærandi óskaði eftir upplýsingum um stöðu mála hjá kærðu með tölvubréfum þann 6. febrúar 2017 og 23. mars 2017 en ekki verður séð að kærða hafi svarað tilgreindum erindum. Óskaði kærandi meðal annars eftir upplýsingum í hinu síðargreinda tölvubréfi um hvort ástæða væri fyrir því að ekkert hefði heyrst frá kærðu. Þá tiltók kærandi að hann væri búinn að missa allt, ætti ekkert af eignum og væri orðinn öryrki vegna kvíða og þunglyndis. Kvað kærandi heilsu sína stafa af því máli sem kærða færi með fyrir hönd kæranda.

Þann 27. júlí 2017 beindi kærandi enn á ný tölvubréfi til kærðu, sbr. eftirfarandi.

            „B.

Ég er margoft búin að reyna að ná í þig í gegnum síma, skilið eftir skilaboð um að hringja í mig eða gefa mér tíma hjá þér en ekkert hefur heyrst frá þér.

Nú krefst ég þess að þú hafir samband við mig og látir mig vita hvað þú ert að gera í máli mínu.

Þú ert búin að fara rosalega illa með mig andlega með þessu skeytingarleysi gagnvart mér.

Mannaðu þig upp og láttu mig heyra í þér.

Í svari kærðu, dags. 28. júlí 2017, kom fram að aðilinn væri í sumarleyfi en væri væntanleg aftur til starfa eftir verslunarmannahelgi. Kvað kærða best ef kærandi myndi hafa samband við sig í vikunni á eftir og að aðilar myndu þá sjá hvernig hægt væri að lenda málinu.

Af málsgögnum verður loks ráðið að kærandi hafi sent kærðu tölvubréf þann 14. febrúar 2018 þar sem því var lýst að kærða svaraði hvorki hringingum né smáskilaboðum kæranda. Var tiltekið að fimm ár væru liðin frá því að kærða hefði tekið að sér málið og að engar niðurstöður lægju fyrir eftir þann tíma. Fór kærandi fram á í tölvubréfinu að kærða upplýsti um stöðu málsins og hvað hún hefði í hyggju varðandi framhald þess. Óskaði kærandi eftir svörum kærðu fyrir 19. sama mánaðar.

Hvorki verður ráðið af gögnum málsins að kærða hafi svarað tilgreindu tölvubréfi kæranda né að aðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna málsins eftir tilgreindan tíma.

II.

Leggja verður þann skilning í kvörtun kæranda að þess sé krafist að kærða verði beitt viðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998. Þá greinir í kvörtun kæranda að þess sé krafist að kærða afsali sér máli kæranda, fái lögmann sér til aðstoðar sem sé vel að sér í skaðabótamálum eða fái nýjan lögmann að málinu sem sé sérfróður í skaðabótamálum.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hún lúti að skeytingarleysi kærðu gagnvart kæranda sem og því máli sem kærða hafi sinnt í þágu aðilans.

Vísar kærandi til þess að hann hafi komið að máli við kærðu þann 19. febrúar 2013 með beiðni um lögmannsaðstoð vegna máls sem reka þyrfti gegn tannholdssérfræðingi. Kveður kærandi að kærða hafi tekið að sér málið og að hún hafi tekið fram í upphafi starfans að eini samskiptamátinn sem aðilar gætu átt með sér væri í formi tölvubréfa, þ.e. að kærandi mætti hvorki koma á skrifstofu kærðu né hringja í hana.

Kærandi kveður að málið hafi gengið ágætlega í byrjun en að fljótlega hafi farið að halla undan fæti í samskiptum aðila, þ.e. frá miðju ári 2014. Þannig hafi kærða hætt að svara tölvubréfum kæranda. Auk þess hafi kærandi hringt í nokkur skipti á lögmannsstofu kærðu og skilið eftir skilaboð en að kærða hafi hvorki sinnt þeim né haft samband til baka. Lýsir kærandi því að hann hafi komið á skrifstofu Lögmannafélags Íslands á vormánuðum 2016 vegna skeytingarleysis kærðu en að í framhaldi þess hafi verið ákveðið að gefa kærðu frekari tíma til að sinna málinu. Er vísað til þess að í tölvubréfi, dags. 6. september 2016, hafi kærandi gefið kærðu frest til 20. sama mánaðar til að svara fyrirspurnum aðilans en að öðrum kosti yrði málið lagt í hendur úrskurðarnefndar lögmanna. Hafi kærða svarað því erindi kæranda með tölvubréfi þann 7. september 2016 þar sem upplýst hafi verið að henni væri sama þótt leitað yrði til nefndarinnar með málið auk þess sem nánar tilgreindar spurningar hefðu verið settar fram til kæranda. Hafi kærandi svarað þeim fyrirspurnum þann sama dag.

Kærandi bendir á að kærða hafi meðal annars upplýst í tölvubréfi, dags. 24. október 2016, að hún myndi láta vita hvernig málinu myndi reiða af. Í framhaldi þess hafi kærandi sent ítrekuð tölvubréf til kærðu, án árangurs. Þann 28. júlí 2017, eða rúmum níu mánuðum síðar, hafi kærða loks svarað tölvubréfum kæranda þar sem hún hafi upplýst um sumarleyfi sitt og að best væri ef kærandi gæti hringt í sig að þeim tíma liðnum þannig að kanna mætti hvernig hægt væri að lenda málinu.

Kærandi kveðst hafa sent kærðu fjögur smáskilaboð í gegnum farsíma í október- og nóvembermánuði 2017. Þann 10. nóvember 2017 hafi kærða svarað þeim sendingunum með fyrirspurninni: „Hver ert þú?“. Kveður kærandi að hann hafi strax í kjölfarið sent nafn sitt til baka til kærðu en að ekkert hafi heyrst frekar frá kærðu vegna málsins.

Þá kveður kærandi að hann hafi hringt í tólf skipti í farsíma kærðu í desembermánuði 2017. Í tvö skipti hafi verið svarað en síðan skellt á. Kærða hafi loks svarað kæranda þann 28. desember 2017 þar sem hún hafi upplýst um að hún væri stödd á erlendri grundu og óskaði eftir að kærandi myndi hafa samband við sig símleiðis eftir 6. janúar 2018. Er því lýst í kvörtun kæranda að kærða hafi ekki svarað skilaboðum hans eftir þann tíma. Þá hafi kærandi loks sent tölvubréf til kærðu, dags. 14. febrúar 2018, þar sem óskað hafi verið eftir svari fyrir 19. sama mánaðar þar sem fimm ár væru liðin frá því að kærða hefði tekið að sér málið. Engin svör hafi hins vegar borist frá kærðu vegna þessa.

Kærandi kveður kærðu hafa hunsað sig svo til frá upphafi þeirra starfa sem kærða hafi tekið að sér. Kærða hafi byrjað sæmilega en svo hætt að sinna málinu. Þá hafi kærða hvorki svarað tölvubréfum kæranda né smáskilaboðum og símhringingum. Sé það algjörlega ósæmandi fyrir lögmann. Þá hafi kærða farið illa með kæranda andlega þar sem hún hafi ekki sinnt málinu í fimm ár.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærðu fyrir nefndinni, var ítrekað að aðilinn hefði leitað til kærðu þann 19. febrúar 2013 en ekki í lok maímánaðar þess árs eins og ranglega greini í málatilbúnaði kærðu. Þá kveður kærandi það með eindæmum að kærða reyni að sverta sig fyrir nefndinni með því að segja að kærandi hafi leitað til hennar „eftir að hafa gengið á milli lögmanna, m.a. H, J og fleiri lögmanna en án árangurs.“ Kveðst kærandi aldrei hafa orðið eins sár og reiður eins og eftir að hafa lesið tilgreind ummæli kærðu.

Þá bendir kærandi á að af gögnum málsins megi ráða að kærða hafi átt takmörkuð samskipti við viðkomandi tryggingafélag á þeim fimm árum sem hún hafi farið með málið fyrir hönd kæranda.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærðu fyrir nefndinni með þeim hætti að aðilinn krefjist þess að kvörtun kæranda samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 verði hafnað. Í málatilbúnaði kærðu fyrir nefndinni er jafnframt að finna þá afstöðu aðilans að kæranda sé frjálst að leita til annars lögmanns og að kærða muni afhenda kæranda gögn málsins þegar þess verður óskað. Kveður kærða sig jafnframt reiðubúna til að gera lokatilraun til að fá viðkomandi lækni, sem matsmann, til að svara bréfi kærðu frá 10. apríl 2014.

Kærða kveður kæranda hafi leitað til sín í lok maímánaðar 2013 eftir að hafa gengið á milli annarra tilgreindra lögmanna án árangurs. Hafi kærða engu lofað en tekið að sér að setja sig í samband við viðkomandi tryggingafélag í þágu kæranda. Bendir kærða á að kæranda hafa ekki verið gert að greiða fyrir lögmannsþjónustu kærðu.

Er vísað til þess í málatilbúnaði kærðu að hún hafi sent viðkomandi tryggingafélagi bréf þar sem tilkynnt hafi verið um tjónið og óskað hafi verið eftir afstöðu félagsins til bótaskyldu. Hafi G lögfræðingur hjá tryggingafélaginu, haft samband við sig í kjölfar þess þar sem ákveðið hafi verið að óska eftir sameiginlegu mati tannlækna. Kveðst kærða hafa sent matsbeiðni til tilgreinds lögfræðings þann 10. desember 2013 sem margvíslegar athugasemdir hafi verið gerðar við. Í kjölfar þess hafi kærða lagt inn nýja matsbeiðni, dags. 13. febrúar 2014. Hafi sú matsbeiðni gengið á milli næstu mánuði en þegar báðir aðilar hafi verið orðnir ásáttir með formið hafi það verið sent af stað með bréfi tryggingafélagsins þann 10. apríl 2014. Vísar kærða til þess að hún hafi tilnefnt C tannlækni til að framkvæma matið en að tryggingafélagið hafi tilnefnt D tannlækni. Eftir það hafi farið í hönd mánuðir og ár í samskiptum milli kærðu og tryggingafélagsins en alltaf hafi málið strandað á viðkomandi tannlæknum.

Kærða kveður gögn málsins bera með sér að unnið hafi verið í málinu næstu misserin þar á eftir án þess að það bæri árangur. Málið hafi ávallt strandað á tannlæknunum sem hafi virst tregir til starfans þrátt fyrir að hafa tekið málið að sér. Þá hafi kærða margítrekað reynt að hreyfa við C tannlækni en án árangurs.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi meginreglu 1. gr. siðareglnanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti og að hann skuli leggja svo til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Þá er kveðið á um í 41. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berst í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

Kvörtun í málinu lýtur að meintu skeytingarleysi kærðu, sem lögmanns, gagnvart kæranda, sem skjólstæðingi, og því máli sem kærða tók að sér og rak í þágu kæranda frá febrúarmánuði 2013. Lýsir kærandi því að kærða hafi sinnt málinu sæmilega í upphafi starfans en breyting hafi orðið þar á mjög fljótlega auk þess sem kærða hafi á endanum hætt að svara fyrirspurnum kæranda, hvort heldur sem þær voru sendar kærðu með tölvubréfum, smáskilaboðum eða símhringingum. Byggir kærandi á að slíkt sé ósæmandi lögmanni sem hafi tekið að sér mál í þágu skjólstæðings.

Kærða kveðst hins vegar hafa tekið að sér fyrir hönd kæranda að setja sig í samband við viðkomandi tryggingafélag vegna hins meinta tjóns kæranda. Það hafi kærða gert auk þess sem sameiginleg matsbeiðni hafi verið sett fram af hennar hálfu fyrir hönd kæranda og tryggingafélagsins í aprílmánuði 2014. Í kjölfar þess hafi farið í hönd mánuðir og ár í samskiptum milli kærðu og tryggingafélagsins en alltaf hafi málið strandað á þeim matsmanni sem kærða hafi tilnefnt til starfans fyrir hönd kæranda en hann hafi virst tregur til starfans þrátt fyrir að hafa tekið málið að sér. Þá hafi tilraunir kærðu til að hreyfa við matsmanninum reynst árangurslausar. Bendir kærða jafnframt á að kæranda hafi ekki verið gert að greiða fyrir lögmannsþjónustu kærðu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er ágreiningslaust að kærða tók að sér að gæta hagsmuna kæranda vegna þess bótamáls sem kærandi leitaði til hennar með á árinu 2013. Liggur þannig fyrir, eins og nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan, að kærða tilkynnti Vátryggingafélagi Íslands hf. um tjón kæranda og óskaði eftir afstöðu félagsins til bótaskyldu úr sjúklingatryggingu viðkomandi tannlæknis þann 18. júlí 2013. Í framhaldi þeirrar tilkynningar átti kærða í samskiptum við tryggingafélagið vegna málsins og var sameiginleg beiðni félagsins og kærðu fyrir hönd kæranda um álit nánar tilgreindra tannlækna, sem matsmanna, sett fram þann 10. apríl 2014. Bera gögn málsins með sér að kærða hafi átt í samskiptum við tryggingafélagið vegna seinagangs annars matsmanna við að ljúka matinu fram á mitt ár 2015, án þess að slíkt hafi borið árangur. Þó kveðst kærða jafnframt hafa árangurslaust reynt að hreyfa við viðkomandi matsmanni, sem hún hafi tilnefnt til starfans. Hvað sem því líður þá liggur fyrir að mati hafði enn ekki verið skilað vegna hinnar ætluðu bótaskyldu háttsemi og tjóns kæranda þegar kvörtun í máli þessu var beint til nefndarinnar þann 24. mars 2018. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærða hafi þá enn gætt hagsmuna kæranda.

Um þau kvörtunarefni sem málið varðar er þess annars vegar að gæta að kærðu mátti vera það ljóst við upphaf starfans að kærandi lagði mikla áherslu á að málið yrði unnið án ástæðulauss dráttar og að slíkt varðaði aðilann miklu. Verður þannig ráðið af þeim tölvubréfum sem kærandi beindi til kærðu, sem liggja fyrir í málsgögnum, að andlegt og líkamlegt ástand aðilans hafi verið bágborið vegna þess tjóns sem hann hafði orðið fyrir af hinni ætluðu bótaskyldu háttsemi. Bera ítrekuð tölvubréf kæranda til kærðu jafnframt með sér að aðilinn hafi lagt ríkt traust á að kærða, sem lögmaður, sinnti málinu af alúð þannig að hagsmuna hans yrði gætt í hvívetna.

Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir kæranda til kærðu um framgang og stöðu mála í kjölfar þess að hin sameiginlega matsbeiðni, sem áður greinir, var send til tilnefndra matsmanna í aprílmánuði 2014 mun lítið sem ekkert hafa gerst í málinu í marsmánuði 2018 þegar kærandi beindi þeirri kvörtun sem mál þetta varðar til nefndarinnar vegna starfshátta kærðu. Eins og áður greinir bera gögn málsins með sér að kærða hafi fram á mitt ár 2015 óskað atbeina tryggingafélagsins við að fá þann matsmann, sem hún hafði sjálf tilnefnt, til að framkvæma matið en án árangurs. Þá greinir í málatilbúnaði kærðu að hún hafi sjálf reynt að ýta á eftir matsmanninum en gögn um það efni liggja ekki fyrir nefndinni.

Sú skylda hvílir á lögmönnum að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Þrátt fyrir að því er virðist fullkomið sinnuleysi matsmanns á að framkvæma mat í því máli sem kærða fór með fyrir kæranda bera gögn málsins með sér að kærða hafi ekkert aðhafst í um þrjú ár til að koma málinu í réttan farveg og með því neyta lögmætra úrræða til að gæta hagsmuna kæranda, sem skjólstæðings síns. Þannig leitaðist kærða hvorki eftir því að fenginn yrði nýr matsmaður til að sinna hinni umbeðnu álitsgerð né að önnur málsmeðferð yrði viðhöfð innan tryggingafélagsins í ljósi þess dráttar sem varð á málinu. Verður ekki annað ráðið af tölvubréfi kærðu til kæranda, dags. 14. september 2016, en að hún hafi talið þörf á slíku inngripi hennar sem lögmanns þar sem hún lagði til að matsmanninum yrði gefinn lokafrestur á að skila inn matinu en að öðrum kosti þyrfti að afla nýs mats. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að kærða hafi fylgt efni tölvubréfsins eftir með nokkrum hætti. Hefur kærða ekki veitt viðhlítandi skýringar á aðgerðaleysi sínu að þessu leyti fyrir nefndinni.

Að áliti nefndarinnar var vanræksla kærðu að þessu leyti í brýnni andstöðu við 18. gr. laga nr. 77/1998 sem og 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna og til þess fallin að valda kæranda spjöllum. Engu breyti í því samhengi þótt kærða hafi ekki krafið kæranda um þóknun vegna starfans. Fyrir liggur að kærða tók sem lögmaður að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda og hvíldu samkvæmt því þær skyldur sem kveðið er á um í lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna á herðum kærðu við rekstur starfans.

Hins vegar er til þess að líta að í gögnum málsins liggur fyrir umtalsverður fjöldi tölvubréfa sem kærandi sendi til kærða á tímabilinu frá 10. apríl 2013 til 14. mars 2018. Gögn málsins bera með sér að kærða hafi í flestum tilvikum svarað þeim fyrirspurnum og tölvubréfum sem kærandi beindi til hennar á árunum 2013 – 2015 en að eftir þann tíma hafi svör kærðu orðið stopulli.  Af málsgögnum verður hins vegar ráðið að mikil breyting hafi orðið þar á síðla árs 2016 þegar kærða svaraði fyrirspurnum kæranda ýmist seint eða alls ekki. Fór það ástand versnandi á árunum 2017 og 2018 þar sem fyrirspurnum kæranda um stöðu mála var ekki sinnt af hálfu kærðu. Þá ber að líta til þess að kærða hefur hvorki mótmælt málatilbúnaði kæranda um að hún hafi ekki svarað ítrekuðum tölvubréfum hans, smáskilaboðum og símhringingum né lagt fram gögn um hið gagnstæða. Hefur kærða engar haldbærar skýringar veitt á háttsemi sinni að þessu leyti fyrir nefndinni.

Af hinum ítrekuðu erindum og fyrirspurnum sem kærandi beindi til kærðu, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan, mátti kærðu vera ljóst að það varðaði kæranda miklu að fá upplýsingar um framgang mála, þ. á m. framvindu matsmálsins, stöðu gagnvart viðkomandi tryggingafélagi og skýringar á því í hverju hinn verulegi dráttur á meðferð málsins fælist. Þrátt fyrir það verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærða hafi látið undir höfuð leggjast frá síðari hluta árs 2016 að upplýsa kæranda um þau atriði sem eftir var leitað. Af málsögnum verður ekki ráðið að kærða hafi sagt sig frá málinu á nokkrum tímapunkti. Þá verður að leggja til grundvallar að hafi kærða talið sér óskylt af einhverjum ástæðum að svara erindum og fyrirspurnum kæranda hafi sú skylda hvílt á henni eftir sem áður, í ljósi hagsmunagæslu kærðu í þágu kæranda og réttarsambands aðila að öðru leyti, að upplýsa kæranda um það efni með svari við hinum ítrekuðu erindum og fyrirspurnum kæranda, sbr. einnig 18. gr. laga nr. 77/1998 og 41. gr. siðareglna lögmanna.

 

Að mati nefndarinnar er sú háttsemi sem kærða viðhafði í lögmannsstörfum sínum í þágu kæranda og hér hefur verið lýst verulega ámælisverð og ósamboðin lögmannastéttinni. Verður því ekki hjá því komist að veita kærðu áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Á grundvelli valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, eru ekki efni til að taka til skoðunar kröfur kæranda um að kærða afsali sér máli kæranda, fái lögmann sér til aðstoðar sem sé vel að sér í skaðabótamálum eða fái nýjan lögmann að málinu sem sé sérfróður í skaðabótamálum. Þegar af þeirri ástæðu er tilgreindum kröfum kæranda vísað frá nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, B lögmaður, sætir áminningu.

Kröfum kæranda, A, um að kærða, B lögmaður, afsali sér máli kæranda, fái lögmann sér til aðstoðar sem sé vel að sér í skaðabótamálum eða fái nýjan lögmann að málinu sem sé sérfróður í skaðabótamálum er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson