Mál 31 2018
Mál 31/2018
Ár 2019, 14. mars 2019, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 31/2018:
Á,
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S KU R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. nóvember 2018 erindi kæranda, stjórnar A, um ætluð brot kærða, B lögmanns, á 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 2. gr. og 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 27. gr. laga nr. 77/1998.
Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 9. nóvember 2018, þar sem meðal annars var tekið fram það mat nefndarinnar að um væri að ræða kvörtun reista á 27. gr. laga nr. 77/1998, en efni þess var jafnframt ítrekað með bréfi nefndarinnar til kærða, dags. 5. desember 2018. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með tölvubréfi, dags. 13. desember 2018, og voru þær sendar kæranda til athugasemda þann sama dag. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Ekki er ágreiningur um að kærði hafði virk lögmannsréttindi á árunum 2017 og 2018.
Í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að lögmaður skuli fyrir 1. október ár hvert senda A, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest er af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi lögmannsins. Þá er þar tiltekið að samtímis skuli lögmaður senda A upplýsingar um verðbréf sem voru í hans vörslu 31. desember fyrra árs sem staðfestar séu af löggiltum endurskoðanda.
Þann 16. maí 2018 beindi kærandi tölvubréfi til starfandi lögmanna með yfirskriftinni „Fjárvörsluyfirlýsing 2018 – eyðublað o.fl.“. Var þar tiltekið að meðfylgjandi tölvubréfinu væri að finna eyðublað yfirlýsingar um fjárvörslur og verðbréfaskrá vegna ársins 2017 sem sjálfstætt starfandi lögmenn þyrftu að skila til kæranda í síðasta lagi 1. október 2018, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Þá var í tölvubréfinu vakin sérstök athygli lögmanna á ákvörðun stjórnar kæranda varðandi áhrif vanskila á fjárvörsluyfirlýsingum og frágangi fjárvörslu við starfslok sem var svohljóðandi:
„ Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er m.a. kveðið á um skyldu sjálfstætt starfandi lögmanna til að hafa sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og í 1. mgr. 23. gr. sömu laga segir jafnframt að sjálfstætt starfandi lögmönnum sé skylt að halda fjármunum þeim sem þeir taka við í þágu annarra aðgreindum frá eigin og varðveita þá á slíkum vörslufjárreikningi. Þá er í 2. mgr. 23. gr. laganna kveðið á um að lögmaður skuli fyrir 1. október ár hvert senda A, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest er af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi lögmannsins. Þá segir í 4. mgr. 23. gr. að hafi lögmaður sem ákvæði 23. gr. tekur til ekki skilað stjórn A yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings fyrir 1. október ár hvert, eða slík yfirlýsing hefur ekki reynst fullnægjandi, beri A að leggja til við sýslumann að réttindi hans verði felld niður. Samkvæmt ákvæðinu ber sýslumanni að taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.
Reglulega koma upp tilvik þar sem lögmenn standa A ekki skil á fjárvörsluyfirlýsingu innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í lögmannalögum, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar um. Hefur stjórn A í þeim tilvikum þurft að leggja til við sýslumann niðurfellingu málflutningsréttinda hlutaðeigandi lögmanna.
Þrátt fyrir að megin þorri slíkra niðurfellingarbeiðna sé afturkallaður í kjölfar skila lögmanna á fjárvörsluyfirlýsingum, kemur fyrir að fella þurfi réttindi lögmanna niður og eru þau þá ekki veitt hlutaðeigandi að nýju fyrr en skilað hefur verið inn fullnægjandi fjárvörsluyfirlýsingu.
Stjórn A ákvað á fundi sínum þann 6. mars 2018 að komi sú staða upp að lögmaður skili A ekki fjárvörsluyfirlýsingu innan þess frests sem tilgreindur er í 2. mgr. 23. gr. lögmannalaga, verði kvörtun vegna slíkra vanskila send úrskurðarnefnd lögmanna til meðferðar. Jafnframt samþykkti stjórn A að komi til þess að leggja þurfi til við sýslumann niðurfellingu málflutningsréttinda lögmanns vegna vanskila á fjárvörsluyfirlýsingu, verði sjálfstæð kvörtun send úrskurðarnefnd lögmanna vegna þess hluta málsins.
Þá hefur stjórn A gert þá breytingu á framkvæmd eftirlits A með fjárvörslum lögmanna, m.a. með vísan til 13. gr., sbr. 11. og 12. gr. reglugerðar nr. 1192/2005, að framvegis skulu allir sjálfstætt starfandi lögmenn sem hætta rekstri, skila stjórn félagsins yfirlýsingu, staðfestri af löggiltum endurskoðanda, þess efnis að gengið hafi verið frá fjárhagslegu uppgjöri við alla umbjóðendur þeirra og að öllum fjárvörslureikningum hafi verið lokað, eða staðfestingu annars lögmanns/annarra lögmanna þess efnis að hann/þeir hafi tekið við óloknum málum lögmannsins og að hann/þeir muni annast fjárvörslur og uppgjör vegna þeirra.“
Kærandi sendi á ný tölvubréf til lögmanna dagana 30. ágúst, 14. og 25. september 2018 þar sem minnt var á yfirlýsingu um fjárvörslur og verðbréfaskrá vegna ársins 2017 og að skila þyrfti slíkum yfirlýsingum á skrifstofu kæranda í síðasta lagi 1. október 2018. Liggja tilgreind tölvubréf fyrir í málsgögnum fyrir nefndinni.
Í bréfi kæranda til kærða, dags. 4. október 2018, sem bar yfirskriftina „Fjárvörslureikningar lögmanna“, var því lýst að þann 1. sama mánaðar hefði kærði átt að vera búinn að senda stjórn kæranda yfirlýsingu um fjárvörslureikninga og verðbréfaskrá fyrir árið 2017, með uppgjörsdegi 31. desember 2017. Á grundvelli þeirra lagaheimilda sem vísað var til í bréfinu fór kærandi þess á leit við kærða að hann gerði viðeigandi úrbætur hið fyrsta. Þá var tiltekið að ef yfirlýsing bærist ekki fyrir 15. október 2018 yrði kvörtun vegna vanskila send úrskurðarnefnd lögmanna til meðferðar.
Kærandi ítrekaði fyrri erindi sín til kærða með tölvubréfi, dags. 18. október 2018. Var tiltekið í tölvubréfinu að kvörtun vegna vanskila yrði send til úrskurðarnefndar lögmanna til meðferðar þann 22. sama mánaðar.
Kærði mun ekki hafa brugðist við tilgreindum erindum kæranda og var málinu því beint til nefndarinnar með kvörtun sem móttekin var þann 6. nóvember 2018, svo sem áður er lýst.
Upplýst hefur verið undir rekstri málsins fyrir nefndinni að kærði hafi skilað yfirlýsingu þeirri sem og þeim upplýsingum til kæranda, sem kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998.
II.
Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna leggi mat á hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 2. gr. og 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna, og ef svo reynist, ákvarði hæfileg viðurlög því til samræmis.
Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að kvörtuninni sé beint að meintu broti kærða á tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna með því að hafa ekki skilað stjórn kæranda yfirlýsingu um fjárvörslureikninga og verðbréfaskrá vegna ársins 2017. Kveðst kærandi reisa kvörtunina á 27. gr. laga nr. 77/1998.
Kærandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 sé sérhverjum sjálfstætt starfandi lögmanni skylt að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu, allt samkvæmt því sem nánar segir í 19., 23. og 25. gr. laganna. Jafnframt sé kveðið á um í 2. mgr. 23. gr. laganna að lögmaður skuli fyrir 1. október ár hvert senda kæranda, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest sé af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi aðilans. Samtímis skuli lögmaður senda A upplýsingar um verðbréf sem voru í hans vörslu 31. desember fyrra árs sem staðfestar séu af löggiltum endurskoðanda.
Í málatilbúnaði kæranda er jafnframt á það bent að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998 hafi kærandi eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum sínum samkvæmt 6., 9. og 12. gr. laganna. Í 3. mgr. 13. gr. laganna komi fram að hafi lögmaður sem ákvæði 23. gr. tekur til ekki skilað stjórn kæranda yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins fyrir 1. október ár hver, eða hafi slík yfirlýsing ekki reynst fullnægjandi, beri kæranda að leggja til við sýslumann að réttindi hans verði felld niður.
Kærandi vísar jafnframt fyrir nefndinni til ákvæða 2. gr., 1. og 2. mgr. 40. gr. og 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna vegna sakarefnisins.
Kærandi bendir á að skilaskyldum lögmönnum hafi borist eyðublað um fjárvörslureikninga og verðbréfaskrá vegna ársins 2017 í tölvubréfi þann 16. maí 2018, þar sem þeir hafi verið áminntir um skilin og kynnt inntak 1. mgr. 12. gr. og 2. og 4. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Auk þess hafi verið kynnt sú ákvörðun stjórnar kæranda að kæmi upp sú staða að lögmaður skilaði A ekki fjárvörsluyfirlýsingu innan lögbundins frests, yrði kvörtun vegna slíkra vanskila send úrskurðarnefnd lögmanna til meðferðar. Þá hafi verið kynnt sú ákvörðun viðkomandi stjórnar að sjálfstæð kvörtun yrði send úrskurðarnefndinni kæmi til þess að leggja þyrfti til við sýslumann niðurfellingu málflutningsréttinda lögmanns á grundvelli 3., sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998.
Kærandi lýsir því að árétting um skil fjárvörsluyfirlýsingar og verðbréfaskrár hafi verið send lögmönnum með tölvubréfum dagana 16. maí, 30. ágúst, 14. og 25. september 2018. Loks hafi þeim lögmönnum sem ekki höfðu skilað inn fjárvörsluyfirlýsingu verið send ítrekun með bréfi, dags. 4. október 2018, þar sem upplýst hafi verið um að bærist félaginu ekki fullnægjandi fjárvörsluyfirlýsing fyrir 15. sama mánaðar yrði kvörtun vegna vanskila send úrskurðarnefnd lögmanna til meðferðar.
Kærandi kveður kærða ekki hafa sinnt skyldu sinni þrátt fyrir skýra lagaskyldu og ítrekanir kæranda. Í ljósi þess hefði stjórn kæranda ákveðið að leggja fram kvörtun til nefndarinnar vegna ætlaðra brota kærða gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna.
Vísað er til þess í kvörtun að samkvæmt 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna hafi stjórn kæranda eftirlit með því að siðareglunum sé fylgt og hafi um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða sé til. Kveður kærandi að skoða þurfi 1. mgr. ákvæðisins í ljósi tilgangs A eins og hann sé skilgreindur í 2. gr. samþykkta A, þar sem segi m.a. að tilgangur A sé að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi, gæta hagsmuna lögmannastéttarinnar og stuðla að réttaröryggi.
Um aðild kæranda vísar aðilinn til þess að samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 hafi kærandi meðal annars það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem varða stétt lögmanna. Þá vísar kærandi til úrskurða úrskurðarnefndar lögmanna í málum nr. 26/2016, 14/2017, 28/2017 og 36/2017 þar sem fallist hafi verið á aðild stjórnar kæranda að málum vegna meintra brota félagsmanna á lögum og/eða siðareglum lögmanna.
III.
Í athugasemdum kærða til nefndarinnar var vísað til þess að nánar tilgreind endurskoðunarskrifstofa hefði á fyrri árum séð um að senda til kæranda þau gögn sem málið varðar. Af einhverjum orsökum hafi það farist fyrir vegna starfsársins 2017. Vísar kærði til þess að þegar það hafi komið í ljós hafi verið úr því bætt. Baðst kærði velvirðingar á þeim drætti í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að A hafi eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum samkvæmt 6., 9., og 12. gr. laganna. Þá er tiltekið í 4. mgr. ákvæðisins að hafi lögmaður, sem ákvæði 23. gr. laganna tekur til, ekki skilað stjórn A yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings samkvæmt 2. mgr. 23. gr. fyrir 1. október ár hvert, eða slík yfirlýsing hefur ekki reynst fullnægjandi, beri A að leggja til við sýslumann að réttindi hans verði felld niður. Skal sýslumaður taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.
Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna hefur stjórn A, sem er kærandi máls þessa, eftirlit með því að reglunum sé fylgt. Hefur hún um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða er til. Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna sker úrskurðarnefnd lögmanna úr ágreiningi um skilning á reglunum.
Í 3. mgr. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, þar sem fjallað er um hlutverk nefndarinnar, er eitt af hlutverkunum tilgreint svo, að fjalla um erindi sem stjórn A sendir nefndinni samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna.
Kærandi hefur samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 m.a. það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem varða stétt lögmanna. Eru samþykktir kæranda í samræmi við þetta og er tilgangur félagsins skilgreindur svo í 2. gr. þeirra að hann sé m.a. að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi.
Með vísan til 27. gr. laga nr. 77/1998 sem áður er lýst, lögskýringargagna varðandi tilgreint lagaákvæði og 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna verður að mati nefndarinnar að játa stjórn A formlegan rétt til þess að bera fram kvörtun þegar hún telur að lögmaður hafi brotið gegn lögum eða siðareglum og að brotið hafi beinst gegn hagsmunum lögmanna almennt eða A sjálfu. Hins vegar felst ekki í þessu að kærandi geti knúið fram umfjöllun vegna kvartana sinna sem beinast að því að lögmaður hafi í störfum sínum brotið gegn ákveðnum aðila, sem fer þá með forræði á því sakarefni, þ. á m. á ákvörðun um hvort þeir beini kæru til úrskurðarnefndar eða ekki. Beinist skoðun nefndarinnar á meintum brotum jafnan að því hvort kærði hafi gerst brotlegur við kæranda.
Í samræmi við framangreint telur úrskurðarnefndin að í fyrrgreindum reglum felist áskilnaður um að úrslit máls varði kæranda með þeim hætti að hann verði talinn hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Fyrrnefnt ákvæði í siðareglum lögmanna um að stjórn A hafi eftirlit með því að reglunum sé fylgt fær ekki hnekkt því. Í því felst bæði að lögvarðir hagsmunir þurfa að vera fyrir hendi og að kærandi sé réttur eigandi þeirra. Til þess er einnig að líta að umræddir hagsmunir séu ekki of almennir. Þeir þurfa því að einhverju marki að vera beinir og einstaklingslegir umfram það sem aðrir hafa að gæta.
Í máli þessu kemur aðeins til skoðunar hvort brotið hafi verið gegn kæranda og þeim hagsmunum sem hann stendur fyrir. Matið á því hvers konar brot fari gegn hagsmunum lögmanna almennt er ekki einfalt, en þar undir virðist þó mega fella þá hagsmuni að lögmannastéttin gegni því hlutverki og njóti þeirrar stöðu sem henni er ætluð í lögum og að ekki sé grafið undan henni með háttsemi sem fer í bága við góða lögmannshætti og ýmsar siðareglur, einkum í I., III. og VI. kafla siðareglna lögmanna, en einnig ákvæði í öðrum köflum siðareglnanna þar sem verndarhagsmunir eru almennir. Má um þetta efni jafnframt vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 26/2016, 14/2017 og 36/2017.
Fyrir liggur að kvörtun í máli þessu var beint til nefndarinnar vegna ætlaðra brota kærða gegn 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 og 2. gr. og 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa ekki skilað stjórn kæranda yfirlýsingu um fjárvörslureikninga og verðbréfaskrá vegna ársins 2017. Samkvæmt því sem hér hefur verið lýst er það mat nefndarinnar að sakarefnið varði kæranda sjálfan í framangreindum skilningi enda lýtur það meðal annars að þeim þáttum í störfum lögmanna sem kæranda er ætlað að hafa lögbundið eftirlitshlutverk með.
II.
Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að lögmanni sé skylt að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og starfsábyrgðartryggingu, allt samkvæmt því sem nánar segir í 19., 23. og 25. gr. laganna. Um það sakarefni sem hér ræðir þá er sérstaklega tiltekið í 2. mgr. 23. gr. laganna að lögmaður skuli fyrir 1. október ár hvert senda A, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest sé af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi lögmannsins. Samtímis skuli lögmaður senda A upplýsingar um verðbréf sem voru í hans vörslu 31. desember fyrra árs sem staðfestar eru af löggiltum endurskoðanda.
Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.
Þá segir í 1. mgr. 40. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli hafa góða skipan á skrifstofu sinni, vaka yfir störfum starfsliðs síns og líta eftir því, að lögmannsfulltrúar fylgi góðum lögmannsháttum. Ber lögmanni að sjá til þess, að bókhald skrifstofunnar, varsla fjármuna, skjala og annarra gagna sé í samræmi við lög og góða venju í þeim efnum, sbr. 2. mgr. 40. gr. reglnanna.
Fyrir liggur í máli þessu að kærði skilaði ekki yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings og upplýsingum þeim um verðbréf vegna ársins 2017, sem kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998, fyrir 1. október 2018 svo sem áskilið er í tilgreindu lagaákvæði og kærandi hafði ítrekað upplýst lögmenn, þ. á m. kærða, um á árinu 2018, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Með þeirri háttsemi braut kærði í störfum sínum gegn 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Að mati nefndarinnar verður einnig að leggja til grundvallar að háttsemi kærða að þessu leyti hafi farið gegn 1. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna enda telst það hluti af góðri skipan á skrifstofu lögmanns, sem lögmanni er skylt að viðhafa, að slíkum gögnum sé skilað í því horfi sem lög mæla fyrir, þ. á m. hvað tímafrest varðar. Leiði slíkt hið sama af 2. mgr. 40. gr. siðareglnanna enda tilgreind skil liður í bókhaldi kærða og vörslu fjármuna sem honum bar að haga í samræmi við lög og góða venju. Varð misbrestur á því vegna skila kærða á yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings hans og upplýsinga um verðbréfaeign í hans vörslu miðað við 31. desember 2017 til kæranda.
Varðandi ætluð brot kærða gegn 2. gr. siðareglna lögmanna er þess að gæta að ágreiningslaust er að kærði skilaði til kæranda undir rekstri málsins fyrir nefndinni yfirlýsingu þeirri sem og þeim upplýsingum sem kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Upplýsti kærði þannig um það fyrir nefndinni að hann hefði skilað viðkomandi gögnum til kæranda undir rekstri málsins en eftir hið lögákveðna tímamark hinn 1. október 2018. Hefur sá málatilbúnaður ekki sætt andmælum af hálfu kæranda.
Með hliðsjón af hinum síðbúnu skilum kærða á viðkomandi gögnum til kæranda sem og að teknu tilliti til skýringa kærða vegna háttsemi hans að þessu leyti, verður ekki talið að sá dráttur sem varð á afhendingu þeirra lögbundnu gagna sem hér um ræðir hafi verið slíkur að varði við heiður lögmannastéttarinnar, í skilningi 2. gr. siðareglnanna. Með hliðsjón af atvikum öllum, verður því látið við það sitja að veita kærða aðfinnslu vegna brota hans gegn 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 og 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að hafa ekki skilað kæranda, A, yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings og verðbréfaskrá vegna ársins 2017 innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er aðfinnsluverð.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður
Einar Gautur Steingrímsson lögmaður
Kristinn Bjarnason lögmaður
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Sölvi Davíðsson