Mál 35 2018

Mál 35/2018

Ár 2019, 12. apríl 2019, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. nóvember 2018 erindi kæranda, A þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 12. nóvember 2018 og barst hún þann 28. sama mánaðar 2018. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 29. nóvember 2018. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum mun kærandi hafa verið með fasteign sína að D til sölumeðferðar hjá Fasteignasölu E á árinu 2015. Liggur meðal annars fyrir í málsgögnum tölvubréf, dags. 26. febrúar 2015, sem starfsmaður á viðkomandi fasteignasölu sendi til tveggja aðila sem óskað höfðu eftir upplýsingum um eignina en með tölvubréfinu fylgdu ýmis skjöl sem vörðuðu viðkomandi eign.

Kaupsamningur mun hafa verið gerður um framangreinda fasteign á milli kæranda, sem seljanda, og F, sem kaupanda, þann x. nóvember 2015. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna verður ráðið að kaupandi hafi innt tvær greiðslur af hendi til kæranda í samræmi við efni kaupsamnings, að fjárhæð 40.000.000 krónur, og fengið eignina afhenta en að kaupandi hafi haldið eftir lokagreiðslu kaupverðs á gjalddaga hennar þann 20. október 2016, að fjárhæð 19.024.102 krónur auk vaxta, vegna ætlaðra galla á hinni seldu eign.

Mun kærandi hafa leitað til G lögmanns vegna ágreinings í tengslum við efndir kaupsamningsins en F, kaupandi eignarinnar, til kærða í máli þessu. Liggur fyrir samkvæmt málsgögnum að tilgreindir lögmenn önnuðust hagsmunagæslu í þágu sinna umbjóðenda frá októbermánuði 2016.

Lögmaður kæranda beindi tölvubréfi til kærða þann 24. október 2016 þar sem meðal annars var skorað á umbjóðanda hins síðargreinda að greiða eftirstöðvar kaupverðs ásamt vöxtum og dráttarvöxtum gegn útgáfu afsals, í samræmi við efni fyrrgreinds kaupsamnings frá 25. nóvember 2015.

Kærði svaraði tilgreindu tölvubréfi þann 26. sama mánaðar þar sem því var lýst að fram hefðu komið nokkrir annmarkar á hinni seldu eign og viðkomandi kaupsamningi og að af þeim sökum væri ekki unnt að standa að lokagreiðslu að svo stöddu. Um þá annmarka var annars vegar vísað til leka á þaki fasteignarinnar og hins vegar til þess að rangar upplýsingar hefðu verið veittar við kaupin um tímalengd lóðarleigusamnings. Þá lýsti kærði því að gagnlegast yrði ef fulltrúar hagsmunaaðila myndu funda um málið svo að ganga mætti úr skuga um það hvort ekki væri mögulegt að vinna málið í sátt og samlyndi. Var slíkt hið sama ítrekað í tölvubréfi kærða til lögmanns kæranda, dags. 24. nóvember 2016.

Fundur mun hafa verið haldinn vegna ágreinings um efndir samkvæmt kaupsamningnum í desembermánuði 2016. Í tölvubréfi kærða til lögmanns kæranda, dags. 15. desember 2016, var vísað til þess fundar og minnt á að samkvæmt því sem þar hefði farið fram ætlaði kærandi, eða fulltrúi hans, að setja sig í samband við umráðamann viðkomandi lóðar til að ræða framlenginu samnings auk þess sem enn ætti eftir að leggja fram gögn um að lóðarleigusamningur hefði verið sendur til umbjóðanda kærða fyrir kaupsamningsgerð. Ekki verður séð af málsgögnum að tölvubréfi þessu hafi verið svarað.

Í málsgögnum liggur fyrir yfirlýsing um riftun kaupsamnings, dags. 22. desember 2016, sem kærði mun hafa beint fyrir hönd síns umbjóðanda til kæranda og lögmanns hans. Riftunaryfirlýsingunni mun hafa verið fylgt eftir með málshöfðun en kærði hefur fyrir nefndinni lagt fram birtingarvottorð stefnu, dags. x. apríl 2017, þar sem ritaðar hafa verið þær athugasemdir að kærandi hafi brugðist mjög illa við birtingu og verið „mjög ógnandi og hafði í hótunum við stefnuvott.

Áður, eða þann x. janúar 2017, var þingfest mál kæranda á hendur umbjóðanda kærða fyrir Héraðsdómi Y, sem héraðsdómsmálið nr. E-xx/2017, þar sem krafist var greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs samkvæmt kaupsamningi auk vaxta og dráttarvaxta gegn útgáfu afsals fyrir viðkomandi fasteign að D. Kærði tók til varna í málinu fyrir hönd síns umbjóðanda gegn kröfum kæranda.

Það mál sem áðurgreint birtingarvottorð tók til var höfðað af hálfu umbjóðanda kærða á hendur kæranda þar sem þess var krafist að viðurkenndur yrði réttur til riftunar kaupsamnings viðkomandi málsaðila, dags. x. nóvember 2015, auk þess sem krafist var endurgreiðslu á kaupsamningsgreiðslum sem inntar hefðu verið af hendi auk vaxta. Var það mál, sem hlotið hafði málsnúmerið E-xxx/2017, sameinað hinu fyrrgreinda máli í þinghaldi þann x. júní 2017 sem héraðsdómsmálið nr. E-xx/2017.

Aðalmeðferð hins sameinaða máls í héraði fór fram þann x. desember 2017 en endurrit af aðilaskýrslu kæranda í málinu er meðal málsgagna fyrir nefndinni. Dómur var uppkveðinn þann x. janúar 2018 þar sem staðfest var riftun umbjóðanda kærða á kaupsamningi við kæranda um viðkomandi fasteign auk þess sem fallist var á þær endurgreiðslukröfur sem hafðar höfðu verið uppi.

Kærandi áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar. Með dómi Landsréttar x. október 2018 í máli nr. xxx/2018 var hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Í kjölfar dómsins, þ.e. nánar tiltekið á tímabilinu frá 13. – 23. október 2018, áttu kærði og lögmaður kæranda í tölvubréfasamskiptum um fjárhagslegt uppgjör á milli málsaðila á grundvelli dómsins. Fyrir liggur af þeim samskiptum að ágreiningur var á milli aðila um hvernig uppgjöri skyldi háttað.

Þann x. október 2018 beindi kærði, fyrir hönd síns umbjóðanda, kyrrsetningarbeiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem þess var farið á leit að kyrrsettar yrði svo mikið af eignum kæranda, sem gerðarþola, að nægði til tryggingar fyrir fullnustu á nánar tilgreindri fjárkröfu. Í málsástæðukafla kyrrsetningarbeiðninnar var meðal annars eftirfarandi tiltekið:

Í ljósi allra athafna gerðarþola telur gerðarbeiðandi ljóst að gerðarþoli hafi ekki í hyggju að standa að endurgreiðslu kaupverðsins og telur gerðarbeiðandi allar líkur fyrir því að fyrir gerðarþola vaki að drepa málinu á dreif, meðan hann kemur reiðufé og e.a. öðrum eignum í skjól. Hér verður að hafa það í huga að gerðarþoli fékk á skömmu tímabili 40.000.000 m. kr. greiddar í reiðufé frá gerðarbeiðanda, en hefur þrátt fyrir það ekkert gert til að standa að greiðslu hinnar dæmdu kröfu. Til að stuðla að uppgjöri og skilum á fasteigninni átti gerðarbeiðandi frumkvæði að því að inna gerðarþola eftir upplýsingum um hve stóran hluta dómkröfunnar hann gæti innt af hendi án þess að veðsetja þá eign sem honum ber að taka aftur við, en því var ekki svarað af hálfu gerðarþola. Spilar hér einnig inn í að veðhæfi eignarinnar er verulega skert, með vísan til þess að sannað þótti fyrir dómi að hún væri haldin galla.

Lýtur ágreiningur í máli þessu að því hvort kærði hafi með ummælum í tilgreindri kyrrsetningarbeiðni gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn ákvæðum laga eða siðareglum lögmanna.

Fyrir liggur í málsgögnum að kærandi lagði fram beiðni til Hæstaréttar um leyfi til áfrýjunar dóms Landsréttar í máli nr. xxx/2018 þann x. nóvember 2018. Hæstiréttur synjaði þeirri beiðni með ákvörðun, dags. xx. nóvember 2018, í máli nr. 2018-xxx.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta þyngstu viðurlögum sem fyrir hendi séu samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að henni sé beint að staðhæfingum kærða í kyrrsetningarbeiðni sem lögð hafi verið fram hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hafi því verið haldið fram í tilgreindri kyrrsetningarbeiðni að kærandi, sem starfað hefur sem blikksmiður í nokkra áratugi, sé að tefja uppgjör dómskuldar í því skyni að koma undan reiðufé. Vísar kærandi til þess að fyrir þeirri staðhæfingu kærða sé enginn fótur.

Nánar tiltekið vísar kærandi um þetta efni til kyrrsetningarbeiðni kærða, dags. x. október 2018, sem liggi fyrir í málsgögnum. Eins og fram komi í beiðninni sé það „málsástæða“, fyrir kröfu um að eignir kæranda verði kyrrsettar, að aðilinn sé að tefja fyrir uppgjöri á dómi til þess að honum gefist ráðrúm til að skjóta fé undan. Saki kærði með því kæranda í reynd um skilasvik sem séu refsiverð.

Kærandi byggir á að hér sé um að ræða alvarlegar aðdróttanir kærða í garð kæranda sem einstaklings sem aldrei hafi verið sakaður um neina refsiverða háttsemi. Þá séu viðkomandi aðdróttanir, sem settar hafi verið fram í beiðni til sýslumanns til stuðnings kröfu um kyrrsetningu eigna, með öllu ósannar. Vísar kærandi til þess að ásakanir lögmanns í garð einstaklings gerist vart alvarlegri.

Kvörtun sinni til stuðnings vísar kærandi til 1. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti. Þá megi lögmaður aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir og lagaatriði, sbr. 20. gr. siðareglnanna. Byggir kærandi á að ganga verði út frá því að hið sama gildi gagnvart sýslumanni. Jafnframt því verði að ætla, með hliðsjón af 20. og 24. gr. siðareglnanna, að meginreglan sé sú að lögmönnum sé óheimilt að gefa sýslumannsembættum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði. Bendir kærandi um það efni á að kyrrsetningu verði að bera undir dómstóla til staðfestingar til að hún nái fram að ganga.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Varðandi skilyrði kyrrsetningar vísar kærði til þess að samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. sé unnt að fá að kyrrsetja eigur skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu ef sennilegt megi telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri. Bendir kærði á að það sé því beinlínis ráðgert í lögum að gerðarbeiðandi verði að gera það sennilegt að gerðarþoli muni standa að aðgerðum sem geri efndir skulda hans örðugri.

Um umþrætt ummæli í viðkomandi kyrrsetningarbeiðni bendir kærði á að þar hafi kærði lýst huglægri afstöðu gerðarbeiðanda. Jafnframt því hafi athafnar kæranda sjálfs staðfest að hin huglæga afstaða gerðarbeiðanda væri á rökum reist. Þá verði þess að gæta að kærandi geti komið reiðufé og öðrum eignum í skjól, án þess að í því þurfi að felast skilasvik eða annað hegningarlagabrot. Komi hér til að mynda til álita að koma eignum og verðmætum í skjól frá riftunarrétti þrotabús á seinni stigum. Enn fremur kunni að felast skjól í umbreytingu reiðufjár í aðrar eignir. Í slíkum athöfnum kunni að felast refsiverð háttsemi, án þess að kærði hafi fullyrt neitt um það.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að margar ástæður hafi verið fyrir því að kærði hafi séð ástæðu til að gjalda sérstakan varhug í samskiptum við kæranda og til að gæta sérstaklega að réttindum umbjóðanda síns.

Kærði vísar til þess að umbjóðandi aðilans og kærandi hafi deilt um gildi kaupsamnings um fasteign. Eftir að ágreiningur hafi komið upp hafi kærði reynt eftir fremsta megni að miðla málum til sátta eins og fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti beri með sér. Þrátt fyrir samskipti og fund vegna ágreiningsins hafi engin svör borist frá kæranda eða lögmanni hans þrátt fyrir fyrirheit þar að lútandi. Hafi því komið til riftunar kaupsamningsins af hálfu umbjóðanda kærða.

Í kjölfar þess hafi kærandi höfðað mál til innheimtu eftirstöðva kaupverðs en umbjóðandi kærða höfðað gagnsök til endurheimtu þess hluta kaupverðs sem greitt hafði verið og til staðfestingar á riftun. Varðandi hina síðari málshöfðun vísar kærði til þess að við birtingu stefnu hafi kærandi verið mjög ógnandi og haft í hótunum við stefnuvott.

Kærði vísar til þess að hann hafi bundið vonir við að þegar aðilar hefðu komið sjónarmiðum á framfæri í aðal- og gagnsök yrði grundvöllur til að sætta málið, en slíkt hafi ekki komið á daginn. Hafi kærandi gefið aðilaskýrslu við aðalmeðferð dómsmálsins sem hafi samræmst illa skriflegum gögnum og lýsingu annarra aðila á atvikum, svo sem nánar er rakið í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni. Bendir kærði á að draga verði verulega í efa að aðilaskýrsla kæranda hafi verið í samræmi við fyrirmæli dómara samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Kærði bendir á að með dómi Héraðsdóms Y, uppkveðnum x. janúar 2018, hafi verið fallist á allar kröfur umbjóðanda aðilans á hendur kæranda. Kærandi hafi áfrýjað málinu til Landsréttar sem staðfest hefði dóm héraðsdóms með dómi uppkveðnum þann x. október 2018. Í kjölfar þess hafi lögmenn málsaðila að dómsmálinu, þar á meðal kærði, átt í tölvubréfasamskiptum um uppgjör samkvæmt dómi Landsréttar en þar hafi meðal annars verið höfð uppi krafa af hálfu kæranda um að umbjóðanda kærða bæri að greiða leigu sem væri komin „vel á annan tug milljóna.“

Kærði vísar til þess að hann hafi ekki getað greint að fyrir kæranda hafi vakið að stuðla að réttum efndum, heldur væri þess þvert á móti freistað í hvívetna af hálfu kæranda að víkja sér frá greiðsluskyldu með því að lýsa yfir skuldajöfnun á ólögmætri kröfu um leigu gegn aðfararhæfri kröfu um greiðslu fjármuna. Verði í því samhengi að hafa í huga að kærandi hafi neitað á fyrri stigum að taka við fasteigninni, þ.e. í kjölfar riftunar kaupsamningsins. Hafi því blasað við að kærandi ætti enga kröfu um leigu auk þess sem skilyrði skuldajöfnunar væru ekki uppfyllt. Hafi það ekki getað dulist lögmanni kæranda.

Jafnframt því bendi kærði á að athygli hafi vakið að ekki neitt samhengi hafi verið á milli yfirlýsinga kæranda um efndir annars vegar og athafna hans hins vegar. Þannig hefði umbjóðandi kærða verið upplýstur um ef kærandi hefði freistað þess að fá lánafyrirgreiðslu enda þörf á atbeina hans til slíks sem þinglýsts kaupsamningshafa. Þá hafi ekkert spurst til viðræðna um nýjan lóðarleigusamning.

Kærði vísar til þess að hann hafi lagt fram aðfararbeiðni fyrir hönd síns umbjóðanda að loknum aðfararfresti auk þess sem gripið hafi verið til ráðstafana um að tryggja réttindi hans vegna þess hluta kaupverðs sem greitt hefði verið með uppgreiðslu áhvílandi lána og ekki hafi verið hluti af viðkomandi dómsmáli. Sýslumaður hafi boðað til fjárnáms vegna aðfararbeiðninnar þann x. október 2018. Í kjölfar þess hafi lögmaður kæranda sent beiðni um leyfi til áfrýjunar til Hæstaréttar, þvert gegn því sem fram hefði komið í fyrri samskiptum. Þeirri beiðni hafi verið synjað með ákvörðun Hæstaréttar, dags. x. nóvember 2018.

Kærði bendir á að síðan þá hafi kærandi ekkert gert til að stuðla að efndum. Geti kærði því ekki greint þann greiðsluvilja, sem kærandi gefi í skyn að sé til staðar í kvörtun til nefndarinnar. Þá telur kærði ekki loku fyrir það skotið að frekari tafir á málinu séu til þess fallnar að gera út um heimtur umbjóðanda aðilans á kröfu sinni, enda kunni eigur kæranda að komast í skjól, til að mynda vegna þess að riftunarfrestir vegna ráðstafana í undanfara gjaldþrots líða, á meðan kærandi lætur á rétt sinn til áfrýjunar reyna, rétt eins og haldið sé fram í kyrrsetningarbeiðni.

Varðandi kröfu um frávísun byggir kærði á að hin kærðu atvik heyri ekki undir ákvæði siðareglna lögmanna. Kveðst kærði hafna því að fella megi atvik sem lýst sé í kvörtun undir 20. gr. siðareglnanna, þannig að rými lögmanns til athafna og aðgerða verði hamlað frekar en felist beint í reglunni samkvæmt orðanna hljóðan. Bendir kærði á að viðkomandi ákvæði siðareglnanna setji aðeins skorður að því er varðar samskipti við dómstóla, kæru- og úrskurðarnefndir, sbr. 24. gr. siðareglnanna. Hafi vilji staðið til þess að takmarka athafnir lögmanna frekar, hefði reglan verið sett fram á almennan hátt, án þess að afmarka gildissvið hennar við téð yfirvöld. Er á því byggt að víðtækari túlkun reglunnar stríði gegn ákvæði stjórnarskrár um tjáningarfrelsi auk réttinda umbjóðenda lögmanna til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 70. og 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá byggir kærði á að aðrar reglur IV. og V. kafla siðreglnanna komi ekki til álita og verði því að vísa kvörtuninni frá.

Um varakröfu sína vísar kærði til þess að tilvitnuð ummæli úr kyrrsetningarbeiðni stríði ekki gegn siðareglum lögmanna. Ekkert hafi verið fullyrt um háttsemi kæranda, heldur afstöðu gerðarbeiðanda til athafna kæranda. Þá vekur kærði athygli á að öll samskipti umbjóðanda hans við kæranda hafi gefið tilefni til sérstakrar aðgæslu. Hafi kærða borið að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta hagsmuna viðkomandi umbjóðanda, í samræmi við 8. gr. siðareglna lögmanna. Er á því byggt að kærði hafi ekki gengið lengra en reglur og lög leyfðu í þeim efnum auk þess sem hann hafi hvergi farið fram með ósannindi eða villandi upplýsingar. Samkvæmt því hafi kærði ekki gengið lengra en tíðkast við ritun stefna og greinargerða, sem lagðar séu fyrir dómstóla.

Kærði byggir á að kvörtunin hafi verið sett fram að tilefnislausu og taka beri mið af því við ákvörðun málskostnaðar. Hafi kærði þurft að taka til varna með gagnaöflun og ritun greinargerðar og þannig varið tíma sem að öðrum kosti hefði verið varið í að þjónusta umbjóðendur gegn gjaldi. Samkvæmt því sé rétt að kærandi greiði kærða málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Niðurstaða

I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar. Er um tilgreinda kröfu vísað til þess í greinargerð kærða að hin kærðu atvik heyri ekki undir ákvæði siðareglna lögmanna.

Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur að ætluðu broti aðilans, sem lögmanns, gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Fellur umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, því undir valdsvið nefndarinnar. Þá verður að líta svo á að álitaefni, um það hvort þau ákvæði siðarelgnanna sem kærandi vísar til í kvörtun sinni til nefndarinnar geti átt við um kvörtunarefnið, sé atriði sem taka verði afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en geti ekki varðað frávísun frá nefndinni.

Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærða í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

 

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærandi um ætluð brot kærða vísað til 1. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið er á um að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og skuli leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá hefur kærandi vísað til 20. gr. siðareglnanna þar sem fram kemur að lögmaður megi aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði. Samkvæmt 24. gr. siðareglnanna gildir slíkt hið sama, eftir því sem við getur átt, um framkomu lögmanna og málflutningsstörf fyrir úrskurðar- og kærunefndum.

Samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna, sem er að finna í V. kafla þeirra þar sem kveðið er á um skyldur lögmanns við gagnaðila, skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Eins og áður greinir lýtur kvörtun kæranda í máli þessu að efni í kyrrsetningarbeiðni þeirri sem kærði sendi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í þágu umbjóðanda síns, sem gerðarbeiðanda, þann x. október 2018 þar sem þess var farið á leit að kyrrsett yrði svo mikið af eignum kæranda, sem gerðarþola, að nægði til tryggingar fyrir fullnustu á nánar tilgreindri fjárkröfu. Hin umþrættu ummæli sem kvörtunin tekur til eru svohljóðandi:

Í ljósi allra athafna gerðarþola telur gerðarbeiðandi ljóst að gerðarþoli hafi ekki í hyggju að standa að endurgreiðslu kaupverðsins og telur gerðarbeiðandi allar líkur fyrir því að fyrir gerðarþola vaki að drepa málinu á dreif, meðan hann kemur reiðufé og e.a. öðrum eignum í skjól.

Um þetta efni er í fyrsta lagi til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. má kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til fullnustu hennar eða að fullnusta verði verulega örðugari. Er réttarúrræðinu þannig ætlað að tryggja hagsmuni kröfuhafa, í þessu tilviki gerðarbeiðanda, í þeim tilvikum þegar sennilegt megi telja, vegna atvika er lúta að skuldara sem gerðarþola, að draga muni mjög úr líkindum til fullnustu hinnar lögvörðu kröfu eða að fullnusta hennar verði verulega örðugari, nái kyrrsetning ekki fram að ganga. Kann slíkt að vera fyrir hendi í þeirri aðstöðu þegar skuldari tekur upp á að selja eignir eða grunur leikur á undanskoti þeirra með einhverjum hætti sem og í þeim tilvikum þegar umbreyting eigna á sér stað af hálfu skuldara.

Í öðru lagi er þess að gæta að kærði beindi kyrrsetningarbeiðni þeirri sem hér um ræðir til viðkomandi sýslumannsembættis fyrir hönd síns umbjóðanda. Í þeim ummælum kyrrsetningarbeiðninnar sem kvörtun kæranda er reist á var þannig vísað til huglægrar afstöðu umbjóðanda kærða, sem gerðarbeiðanda, um að telja yrði að kærandi hygðist ekki ætla að standa að endurgreiðslu kaupverðs í samræmi við niðurstöðu Landsréttar í máli nr. xxx/2018, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan, og að allar líkur væru fyrir því að kærandi væri að drepa málinu á dreif, meðan eignum yrði komið í skjól. Var ritun kyrrsetningarbeiðninnar því liður í lögmannsstörfum kærða í þágu umbjóðanda síns. Samkvæmt því er ekki unnt að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að efni hinna umþrættu ummæla í kyrrsetningarbeiðninni, sem kærði sendi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu fyrir hönd síns umbjóðanda, hafi falið í sér persónulegar athugasemdir, skoðanir eða sjónarmið kærða sjálfs í garð kæranda. Í því samhengi verður ekki fram hjá því litið að kærði hefur skýlausa kröfu til þess sem lögmaður að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir umbjóðendur sína, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Í þriðja lagi verður að líta til þess að kærandi og umbjóðandi kærða höfðu átt í langvarandi ágreiningi um gildi kaupsamnings um fasteign sem varðaði jafnframt mikla hagsmuni. Í samræmi við 1. mgr. 8. gr. siðareglnanna bar kærða að leggja sig fram um að gæta hagsmuna umbjóðanda síns vegna þess ágreinings, en ætla verður að ritun og framlagning kyrrsetningarbeiðninnar, dags. x. október 2018, hafi verið liður í þeirri hagsmunagæslu. Þá verður ekki talið að mati nefndarinnar að hið umþrætta efni kyrrsetningarbeiðninnar verði skilið með þeim hætti að í því hafi falist staðhæfing kærða um að kærandi hefði viðhaft refsiverða háttsemi í undanfara þess að beiðnin var lögð fram, líkt og haldið er fram í málatilbúnaði kæranda.

Samkvæmt því og með hliðsjón af atvikum öllum og því sem að framan greinir, þar á meðal um eðli þess réttarúrræðis sem felst í kyrrsetningu og beiðni þar að lútandi, er það mat nefndarinnar að kærði hafi ekki brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna með einstökum ummælum í þeirri kyrrsetningarbeiðni til embættis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem hér um ræðir. Samkvæmt því verður hvorki talið að kærði hafi brotið gegn 1., 20. eða 34. gr. siðareglna lögmanna í störfum sínum að þessu leyti né að hann hafi á annan hátt gert á hlut kæranda með háttsemi sinni. Er kröfu kæranda, um að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum, því hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður.

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson